Í tilefni dagsins - borgarstarfsmönnum vottuð samúð

Óskar BergssonUpp er runninn enn einn niðurlægingardagurinn í stjórnmálasögu Reykjavíkur - eða kjörtímabilsins - sem nú er ekki nema rétt rúmlega hálfnað. Grímulaus valdagræðgi hefur vaðið uppi og að þessu sinni er það hinn fylgissnauði Óskar Bergsson, húsasmiður og virkjanasinni, sem hlaut náð fyrir augum Sjálfstæðisflokksins, sem hrifsaði völdin í janúar sl. Óskar þessi lenti aðeins í 3. sæti í prófkjöri Framsóknarmanna fyrir síðustu kosningar þótt hann hafi stefnt á 1. sætið. Flokkurinn hans hlaut heil 4.056 atkvæði af 64.895 í kosningunum, eða rétt rúm 6%. Flokknum var einfaldlega hafnað af kjósendum. Í síðustu skoðanakönnun sem birt var fékk flokkurinn 2,1% sem þýðir að borgarbúar hentu honum út á hafsauga. Hinn nýi meirihluti hefur ekki meirihluta atkvæða á bak við sig þótt hann hafi mann umfram minnihlutann, eins og sjá má af tölum í þessum pistli. En Óskar var tilbúinn til að gerast nýjasta viðhaldið og við fáum að heyra uppsett verð innan skamms.

Valkyrjan og vélstýran Anna K. Kristjánsdóttir sagði í pistli á bloggi sínu þann 13. desember 2006 m.a. þetta:

"Í maí síðastliðnum voru haldnar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Annað sæti Framsóknarflokksins vermdi Óskar Bergsson trésmiður eftir að Anna Kristinsdóttir hafði afþakkað sæti á framboðslista flokksins. Reykvíkingar höfnuðu Óskari Bergssyni. Með atkvæðum okkar létum við það heyrast svo ekki væri um villst að við höfnuðum þeim skoðunum sem Óskar Bergsson stóð fyrir, sem oAnna K. Kristjánsdóttirg því hvernig hann óð yfir bílastæði fatlaðra á skítugum EXBÉ herjeppanum sínum. Með atkvæðum okkar tilkynntum við stjórnvöldum að við treystum ekki þessum gerspillta stjórnmálaflokki sem var leiddur inn í kosningarnar af aðstoðarmanni manns sem studdi innrás og fjöldamorð í fjarlægu landi.

Það nægði ekki.

Hinn nýi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, dró Framsóknarflokkinn upp úr foraðinu og hlóð á hann bitlingum sem aldrei fyrr. Ekki einungis fékk aðstoðarmaðurinn fyrrverandi ekki einungis ótrúleg völd miðað við atkvæðamagn á bakvið sig, heldur fékk trésmiðurinn sem við höfnuðum algjörlega, tæpar 380 þúsundir í laun á mánuði fyrir setu í Framkvæmdaráði borgarinnar og skipulagsnefnd auk þess sem hann tók að sér skipulagsvinnu fyrir Faxaflóahafnir fyrir litlar 6500 krónur á tímann. Samtals eru þetta 770 þúsundir á mánuði. Var einhver að tala um spillingu?  Nú hanga þeir Björn Ingi Hrafnsson fyrrverandi ættingi minn og félagi hans Óskar Bergsson í pilsfaldinum, ef ekki pilsfaldinum hans Villa, þá í pilsfaldi Hönnu Birnu sem er nánast sú eina í borgarstjórnarmeirihlutanum sem hægt er að hanga í pilsfaldinum á. Ekki líst mér á stöðu mála."

Hanna Birna KristjánsdóttirÞessi orð Önnu benda ótvírætt til þess að Óskar Bergsson sé síður en svo mótfallinn spillingu af neinu tagi. En nú heitir nýi borgarstjórinn Hanna Birna Kristjánsdóttir, sá fjórði á rúmum tveimur árum. Nú er það hún sem dregur Framsóknarflokkinn upp úr foraðinu og við fáum að heyra um bitlingana á borgarstjórnarfundinum í dag. Vilji borgarbúa er hunsaður algjörlega, bæði viljinn sem fram kom í kosningunum og í skoðanakönnunum. Til hvers erum við að kjósa? Til hvers að gera skoðanakannanir? Stjórnmálamönnum virðist fyrirmunað að hlusta á kjósendur og þeir eru með alls konar undanfærslur þegar reynt er að ganga á þá. Þeir hugsa ekki um annað en að komast að kjötkötlunum til að hygla sér og sínum og eru örlátir með eindæmum.

En einhverra hluta vegna er mér efst í huga núna samúð með borgarstarfsmönnum. Í rétt rúmlega tvö ár hafa þeir þurft að lúta þremur herrum og nú fá þeir þann fjórða. Ég get ímyndað mér þreytuna, ergelsið og pirringinn hjá borgarstarfsmönnum samfara því að verkefni eru sett ókláruð ofan í skúffu, kúvending á stefnu í ýmsum málum svo ekki sé minnst á nýjasta útspilið - að einkavæða sorphirðuna í Reykjavík. Sorphirðan hefur verið með ágætum og í eina skiptið sem ég hef þurft að leita til þeirra sem þar stjórna var málið leyst farsællega samdægurs. Til hvers að breyta því sem gengur svona vel? Hvaða pótintátar á vegum Sjálfstæðisflokksins - nú eða Framsóknar - eiga að fá þennan spón úr aski borgarinnar? Ég finn til með borgarstarfsmönnum og votta þeim samúð.

Ég skrifaði pistil 10. maí sl. undir yfirskriftinni Það er engin spilling á Íslandi, er það? Þar var megininntakið vafasamur samningur sePeningarm Orkuveita Reykjavíkur (Guðmundur Þóroddsson og Alfreð Þorsteinsson) gerði við Sveitarfélagið Ölfus til að "greiða fyrir" leyfum fyrir virkjunum á Hellisheiði og á Hengilssvæðinu, þar á meðal Bitruvirkjun. Með tilkomu Óskars Bergssonar í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur er Bitruvirkjun aftur komin á dagskrá, illu heilli. Óskar er mikill stuðningsmaður Bitruvirkjunar. Hann vill leggja ómetanlega náttúru við bæjardyr íbúa höfuðborgarsvæðisins og aðalútivistarsvæði Hvergerðinga í rúst auk þess að eitra fyrir okkur öllum með m.a. brennisteinsvetnismengun. Ég skrifaði pistla um þá mengun m.a. hér og hér. Veit Óskar ekki hvað er í húfi? Ef hann er svona illa upplýstur á hann ekki að gegna neinum ábyrgðarstöðum. En ef hann veit það en hunsar er siðferðinu verulega ábótavant.

Rök Óskars fyrir Bitruvirkjun eru m.a. þessi (leturbr. mín): "...það er alveg ljóst að ýmsar háhitavirkjanir og ýmsar virkjanir sem við Íslendingar eigum hafa verið heilmikið aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustuna og ekki færri ferðamenn sem koma til að skoða það hvernig við nýtum okkar hreinu, endurnýjanlegu orku en líka til þess að sjá og upplifa ósnortna náttúru." Ég trúði ekki mínum eigin eyrum þegar ég heyrði hann segja þetta í beinni útsendingu af borgarstjórnarfundi 20. maí sl., hringdi því strax í Ráðhúsið og bað um endurrit af þessum dagskrárlið fundarins. Þetta er orðrétt eftir Óskari haft. Það er alveg ljóst að Óskar Bergsson þekkir ferðaþjónustuna nákvæmlega ekki neitt og veit ekkert hvað hann er að tala um frekar en Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Ölfuss, þegar þetta var haft eftir honum.

Þessi ummæli Óskars eru í takt við það sem kemur fram í þessum pistli og myndbandinu sem birt er þar. Hvernig stendur á því að svona fólk velst til forystu í flokkum og sveitarstjórnum? Fæst ekkert betra? Er þetta fólkið sem er tilbúið til að selja sálu sína og samvisku hverjum sem er í hvaða tilgangi sem er? Því meira sem ég sé og heyri því minna skil ég.

Réttlætiskennd minni er stórlega misboðið og mér finnst verið að hafa mig að fífli... hvað eftir annað. Það er vond tilfinning og verður ekki gleymd fyrir næstu kosningar, svo mikið er víst. Og hvað er þetta rugl búið að kosta? Hvað yrði gert við fólk sem neitaði að borga útsvar þegar því er sóað í svona vitleysu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Ekki veit ég hvað veldur þessu óbeislaða persónulega hatri þínu á Óskari Bergssyni - sem er reyndar gegnheill og öflugur stjórnmálamaður. Þótt þið séuð ósammála í stjórnmálum - þá er óþarfi að láta svona.

Undirstrika það líka að þótt þér sé persónulega illa við Óskar - þá fékk hann og flokkur hans umboð til setu í borgarstjórn í lýðræðislegum kosningum. Það getur þú ekki tekið frá honum - ekki frekar en ég get pikkað út borgarfulltrúa sem mér er ekki að skapi!

Nema þú viljir afnema fulltrúalýðræðið í sveitarstjórnunum!

Minni á að R-listinn hafði ekki meirihluta atkvæða á bak við sig þótt listinn hefði meirihluta borgarfulltrúa á síðasta kjörtímabili. Átti hann þá ekki að fara með stjórn borgarinnar? Miðað við röksemdafærslu þína nú er svarið við þeirri spurningu NEI!

En svona til að halda því til haga - þá er Óskar ekki bara af hinni ágætu stétt trésmiða - sem lesa má í gegnum hrokafullar línurnar hjá þér að þér finnist ekki merkileg iðn - heldur er maðurinn líka rekstrarfræðingur frá Tækniskólanum - nú Háskólanum í Reykjavík. 

Hafðu svo góðan dag!

Hallur Magnússon, 21.8.2008 kl. 08:46

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk, algjörlega sammála.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.8.2008 kl. 08:47

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ágæti Hallur,

Það er greinilega rétt sem sagt er, að lesskilningi fólks hefur farið aftur. Það sést best á þessari athugasemd þinni. En það er fallegt af þér að koma til varnar flokksbróður þínum.

Ég ber ekkert persónulegt hatur til Óskars Bergssonar og reyndar ekki til nokkurs manns. Það sem ég gagnrýni harðlega eru vinnubrögðin. Undirferlið, lygarnar og valdafíknin. Líka það sem ég vona að sé fáfræði en ekki siðleysi því fáfræðin er auðveldari viðfangs og auðleysanlegri. Ég læt ósagt hvort Óskar sé gegnheill eður ei þótt ég finni stæka spillingarlykt af atburðum undanfarið. En það er engin spilling á Íslandi, er það?

Eins og ég reyni að benda á voru atkvæðin, sem flokkurinn ykkar fékk, svo fá að umboðið er á brauðfótum og alls ekki  vísbending um að kjósendur hafi almennt kært sig um að leiða flokkinn eða fulltrúa hans til valda.

Afnema fulltrúalýðræðið í sveitarstjórnum, segirðu? Ég gæti vel hugsað mér allt aðrar kosningareglur sem tækju meira mið af vilja kjósenda - og lög sem skikkuðu stjórnmálamenn til að taka meira tillit til vilja þeirra en þeir gera nú. 

Ég kalla Óskar húsasmið því það skilst mér að hann sé. Ég vissi ekki að hann væri rekstrarfræðingur en virkjanasinni vissi ég að hann væri.  Og hroki minn gagnvart þeirri ágætu iðn er ekki meiri en svo, að ég reyndi að fá einkason minn til að læra hana á sínum tíma. Hann kaus hins vegar að fara aðra leið og ég sætti mig að sjálfsögðu við það.

Ólíkt þér, sem ert gegnheill framsóknarmaður, tilheyri ég engum flokki og á erfitt með að sætta mig við hinar úreltu og slagorðakenndu  hægri-vinstri skilgreiningar. Hingað til hef ég lagt mig í líma við að taka upplýsta afstöðu til einstakra mála og ég hef ítrekað lýst yfir vanþóknun minni á íslenskri hreppa- og flokkapólitík á þessum síðum. Þú ert greinilega ekki tíður gestur hjá mér og ættir því að lesa þér betur til áður en þú dæmir mig.

En hvað sem allri flokkapólitík líður hef ég skömm á spillingu, sóun skattpeninga og skorti á fagmennsku í íslenskri stjórnsýslu - hver sem stendur fyrir slíku. Það vill svo til að um þessar mundir eru það flokkurinn þinn, Framsóknarflokkurinn, í nánu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Njóttu dagsins sömuleiðis.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.8.2008 kl. 10:22

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa verið í meirihlutasamstarfi til margra ára  hér í Kópavogi með gríðarlega góðum árangri og verkin látin tala.

Ég fagna því að Óskar Bergsson axlaði ábyrgð og gengið til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um myndun nýs meirihluta og nú er ég viss um að verkin verði látin tala.

Það er bjart yfir Reykjavík á þessum degi.


Óðinn Þórisson, 21.8.2008 kl. 10:28

5 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Óðinn, það má þér finnast, en rúmir tveir þriðju borgarbúa eru aldeilis ekki sammála.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 21.8.2008 kl. 11:45

6 identicon

ARG!! Þetta er ótrúlegt, mikið er ég sammála þér!! Ég vona að Íslendingar almennt fari að hætta að verða svona gleymnir þegar kemur að spillingu stjórnmálamanna!!!! Og spillingu í fyrirtækjum líka.  Er þetta ekki á okkar ábyrgð líka, því að mótmæla ekki harðlega og taka hart á þessu fólki, Reykvíkingar farið að mótmæla almennilega, kröfugöngur og læti takk og svona blogg eins og Lára Hanna, þetta er að virka ef fleiri nota þennan miðil svona!!

Takk fyrir mig Lára Halla.  

Barátturkveðjur að norðan.

alva (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 11:51

7 identicon

Það má vel vera að það sé bjart yfir Reykjavík í dag, það er bara óskandi að svo verði einnig áfram.  Núna sé ég ekkert sem bendir til þess. 

Mikið er ég glaður að borga ekki mína skatta í bullið í borginni.  Hvað eru margir borgarstjórar á launum, hvað eru margir á starfslokasamingum eftir öll þessi stjórnarskipti, hvað hækkuðu margir í launum í dag og hversu margir af þeim þurfa að vinna fyrir þeim launum????  Af hverju má ekki frekar hækka laun þeirra sem lægst laun hafa ?????? 
Gísli Marteinn á að sýna sóma sinn í verki og segja af sér og koma svo bara tvíelfdur frá námi aftur.

Já, mikið er ég ánægður að hafa valið mér að búa ekki í Reykjavík.

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 12:19

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þessi "meirihluti" hefur umboð borgarbúa, því ekki má kjósa þótt allt sé í rusli. Ég veit ekki mikið um Óskar, en af skítkastinu í morgun að dæma, er ekki mikið spunnið í hann. Það er þó tvennt sem pirrar mig við þetta. Mál Gísla Marteins er ekkert annað en spilling af verstu sort, eitthvað sem maður hefði trúað upp á sovétið eða viss Afríkuríki, ekki vestrænt lýðræði. Svo er það Birtuvirkjunin. Hún er nefnd á sama degi og ný borgarstjórn tekur við. Þessu fólki liggur mikið á, enda ekki nema tvö ár til stefnu að koma henni í verk. Minnir mig á "tvo daga til kosninga".

Villi Asgeirsson, 21.8.2008 kl. 14:02

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Syndugur Óskar er smiður,
sveigur hans fúinn viður,
sem Jesús Kristur,
af Júdasi kysstur,
í Framsókn er aldrei friður.

Þorsteinn Briem, 21.8.2008 kl. 14:16

10 Smámynd: Steingrímur Helgason

Fín færzla eins & þín er von & vögguvíza & ágætar tilvízanir í bloggskjóðu vélztýru minnar, sem vinnur hjá 'fallítt' vinnuveitanda, O.R.

Svo er nú hægt að taka upp silkihanzkann fyrir þig líka & benda Halli á þá staðreynd að þú ert jafn beinskeytt við allar perzónur í pólitík, sama í hvaða flokki þær standa.

(Að því gefnu að þær séu alla vega eitthvað til hægri við vinstrari væng samfó).

Steingrímur Helgason, 21.8.2008 kl. 15:26

11 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Áfram Lára Hanna, þú ert svo skýr og skipulögð, ég dáist að þér, takk.

Eva Benjamínsdóttir, 21.8.2008 kl. 15:38

12 Smámynd: Sævar Helgason

"Ég fagna því að Óskar Bergsson axlaði ábyrgð og gengið til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um myndun nýs meirihluta og nú er ég viss um að verkin verði látin tala. "

Segir Óðinn hér að framan..    Auðvitað verða verkin látin tala- þó nú væri.  Það eru nú einmitt þau verk sem fjöldinn hefur áhyggjur af- þegar þessir tveir flokkar spyrða sig saman.... þá hræða sporin... 

Sævar Helgason, 21.8.2008 kl. 16:13

13 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Ef mér ofbýður eitthvað þá hlæ ég- Já Lára Hanna. En það er engin spilling á Íslandi, er það?

Núna hlæ ég sem aldrei fyrr..

Guðrún Magnea Helgadóttir, 21.8.2008 kl. 17:23

14 Smámynd: Haukur Kristinsson

en takk fyrir að vilja ekki starfa með sjöllum og hafa hemil á þeim, framsókn á bara eftir að eflast með þessu samstarfi og von verður til þess að sjallar og frammarar nái meirihluta í næstu kosningum, þökk sé samfó og VG.

Haukur Kristinsson, 21.8.2008 kl. 18:54

15 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Ef kosningarloforð stjórnmálaflokkanna væru tekin saman, þá kæmust þau varla fyrir í hitaveitutönkunum í Öskjuhlíð. Efndirnar kæmust hins vegar fyrir í páskeggi nr.1 frá Nóa Síríus.

Megi eldur og brennisteinsvetni verða þessum „nýja“ meirihluta að aldurtila!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 21.8.2008 kl. 19:11

16 Smámynd: Þröstur Unnar

Áfram Ísland á morgun og Lára Hanna for ever.

Þröstur Unnar, 21.8.2008 kl. 20:35

17 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þinni réttltiskennd er misboðið Lára Hanna. En það er bara svo að í yfirstjórn Reykjavíkurhrepps er ekkert til sem heitir réttlætiskennd. Ekki heldur pólitík, nema ef vera skyldi verktaka- og hagsmunapólitík. - Góður pistill. - Haltu áfram á sömu braut og þú hefur verið.

Haraldur Bjarnason, 21.8.2008 kl. 20:59

18 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Grrrrr ... sammála þér. Ég sárvorkenni fólkinu sem þarf að vinna eftir stefnum út og suður, austur, norður og niður. Og ég hef einmitt oft tekið dæmi af sorphirðunni sem virðist í lagi (var það ekki í gær sem þú fjallaðir um hana?) - á nú að breyta henni í eitthvað verra?

Berglind Steinsdóttir, 21.8.2008 kl. 22:13

19 Smámynd: Víðir Benediktsson

Ég er sammála þér. Þessi borgarstjórn er yfirfull af óhæfum einstaklingum burt séð um hvaða flokk er verið að ræða. Þetta er eitt allsherjar kaos. Ef ætti að kjósa núna, Hvað ætti að kjósa? Hægri heimski eða vinstri vitleysu. Ég er lánsamur að búa annarsstaðar og þurfa ekki að taka afstöðu en þar sem þetta er nú einu sinni höfuðborgin mín eins og annarra landsmanna er mér ekki sama.

Víðir Benediktsson, 22.8.2008 kl. 07:01

20 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Já mér er líka stórlega misboðið og er ekki einu sinni Reykvíkingur. Hvað ætla Íslendingar lengi að láta Flokkinn draga sig á asnaeyrunum - já hafa sig að fíflum hreinlega?

Og mæl þú manna heilust hvað varðar hnignandi lesskilnig landans - drottinn minn og allir hans fylgisveinar! En þú bæði skilur og skilst svo haltu áfram ótrauð. Ég og fleiri kunnum þér bestu þakkir fyrir.

Soffía Valdimarsdóttir, 22.8.2008 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband