Þetta mál er eiginlega ótrúlegt og við megum alls ekki gleyma því sem þarna fór fram. Þó að tæpt ár sé ekki langur tími er minnið gloppótt og ekki veitir af að hressa upp á það annað veifið og læra af reynslunni. Uppákomur og farsar undanfarið ár eru með ólíkindum: Tíð meirihlutaskipti í borginni með lygum, baktjaldamakki, valdagræðgi og tilheyrandi; laxveiði stjórnmálamanna í boði þáverandi stjórnarformanns OR (en þó í boði Baugs, eins af eigendum FL Group); brottrekstur Guðmundar Þóroddssonar og fleira og fleira. Því er ekki úr vegi að rifja upp REI-málið alræmda. Það var aldeilis ekki að ástæðulausu að mjög mikið var um það fjallað á sínum tíma, svo mikið að fólk var komið með upp í kok og alveg hætt að botna í því.
Besta úttektin á REI-málinu birtist í fréttaskýringu eftir Pétur Blöndal í Morgunblaðinu 4. nóvember 2007. Því var þó engan veginn lokið á þeim tíma og er jafnvel ekki enn. Ég tek mér það bessaleyfi að birta grein Péturs hér með öllu sem henni fylgdi og bæti sjálf við nokkrum myndum og slóðum. Við verðum að fylgjast vel með og hafa auga með því hvað verið er að gera við eina stærstu og verðmætustu eign okkar Reykvíkinga, Orkuveitu Reykjavíkur. Við verðum líka að gæta þess að laxveiðandi burgeisar og auðmenn misnoti ekki og sölsi undir sig sameign okkar allra, orkuauðlindina, eins og þeir eignuðu sér og einkavæddu auðlindina í sjónum með dyggri aðstoð stjórnmálamanna.
Ég minni á þetta myndband og spyr hvort við viljum að orkuauðlindir okkar lendi í þessum höndum. Það munaði ekki miklu í þetta skiptið og eflaust verður gerð önnur atlaga - af einhverjum. Og hér er myndband um skýrslu starfshóps um REI-málið. Margir blogguðu um það á sínum tíma og ég bendi t.d. á þennan pistil Önnu Ólafsdóttur.
En hér fyrir neðan er grein Péturs. Hún er svakaleg - löng og krefjandi - en ég hvet alla til að lesa hvert einasta orð, rifja upp, draga eigin ályktanir og gleyma engu fyrir næstu kosningar. Munið að þessir menn voru og eru kannski enn að leika sér með eignir og auðlindir OKKAR, ekki sína einkaeign... ennþá.
Viðskipti, útrás, pólitík, svik og faðmlag
Sagan rakin af orkuútrás, stofnun REI og samruna við Geysi Green Energy. Talað við marga sem fóru með burðarhlutverk í atburðarás sem sprengdi meirihluta og útrásarfyrirtæki.
Eftir Pétur Blöndal pebl@mbl.is
Þegar Guðlaugur Þór Þórðarson tók við stjórnarformennsku í Orkuveitu Reykjavíkur (OR) eftir borgarstjórnarkosningarnar í maí í fyrra bjuggust margir við uppgjöri. Hann hafði verið harðasti gagnrýnandi stjórnarhátta OR og eldað grátt silfur við Alfreð Þorsteinsson stjórnarformann.
Að sögn heimildarmanns fór uppgjörið fram bakvið tjöldin. Eitt hans fyrsta verk var að kalla Guðmund Þóroddsson forstjóra sem hafði lengi átt afar gott samstarf við Alfreð, á fund til sín og segja við hann skýrt og skorinort að ef hann sýndi sér ekki heilindi í samstarfi yrði það ekki liðið.
Útrásin
OR hafði sett útrásarverkefni sín undir hatt Enex hf. árið 2001 og útfært það með stofnun Enex Kína hf. ári síðar, sem stofnað var um uppbyggingu hitaveitu í borginni Zianyang í Kína. Ástæðan fyrir því að stofnað var sérstakt félag mun hafa verið sú að innan Enex voru menn hikandi. OR kom því einnig að verkefninu með því að fjárfesta beint í því. Ákvörðunin um stofnun Enex Kína var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í stjórn OR. "Og þá var Björn Bjarnason í stjórninni," bendir Björn Ingi Hrafnsson á.
En það verður að fylgja sögunni að Björn Bjarnason lét bóka fyrirvara um samþykki sitt með öðrum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórninni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem fólst í því að stjórn væri óheimilt að skuldbinda eigendur OR umfram 5% af eigin fé fyrirtækisins.
Og útrásarmálin komu snemma á borð nýrrar stjórnar, sem tók við vorið 2006 undir formennsku Guðlaugs Þórs, þar sem Björn Ingi Hrafnsson var varaformaður. "Við vorum aftur og aftur beðin um að auka hlutafé OR í Enex og Enex Kína," segir Björn Ingi. "Tilhneigingin var í þá átt."
Innreið einkaframtaksins
Það hleypti lífi í orkumálin þegar Geysir Green Energy (GGE) var stofnað í byrjun janúar 2007 af FL Group, sem leiðandi hluthafa, Glitni og verkfræðistofunni VGK-Hönnun. Einkaframtakið var komið til skjalanna með það markmið að fjárfesta í verkefnum tengdum sjálfbærri orkuframleiðslu víðsvegar um heiminn, einkum með nýtingu jarðvarma og þátttöku í einkavæðingu orkufyrirtækja.
Stofnaðilar lögðu fram 7 milljarða með peningum og eignum og var miðað við að félagið gæti ráðist í fjárfestingar sem næmu yfir 70 milljörðum. Af hálfu GGE var óskað eftir því að Orkuveitan yrði einn eigenda, því talið var að það myndi styrkja félagið mikið. "Þær umræður kláruðust aldrei," segir Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri OR.
Undir það tekur Björn Ingi. "Þáverandi stjórnarformaður átti í viðræðum um aðkomu að því félagi, að OR tæki þátt í stofnun þess, en viðræður stóðu líka yfir við Landsbankann. Það var búið að ákveða að við færum inn í GGE, en síðan gerði eitthvað það að verkum að ekkert varð úr því. Það var búið að ræða við mig um það af hálfu forstjóra OR og stjórnarformanns og ég vissi af málinu."
Því er haldið fram að viðræðurnar hafi komist í uppnám af því að Guðlaugur Þór lenti um þetta leyti á sjúkrahúsi. "Þá gerðist eitthvað," segir Björn Ingi. "Fyrir því geta verið fullkomlega eðlilegar ástæður. Svo var þetta áfram til skoðunar eða þar til kastaðist í kekki á milli félaganna út af einkavæðingunni á Hitaveitu Suðurnesja."
Alvaran af hálfu OR var svo mikil að Ásgeir Margeirsson, þáverandi aðstoðarforstjóri OR, fór með glærukynningu á spítalann til Guðlaugs Þórs á milli jóla og nýárs, þar sem hann beitti sér fyrir því að OR yrði stofnaðili. En Guðlaugi Þór fannst flýtirinn of mikill. "Það næsta sem ég veit er að þeir stela Ásgeiri," segir hann þungur á brún.
Skýringin sem gefin er á flýtinum er sú að stofnaðilar GGE hafi fengið veður af því að Landsbankinn vissi af fyrirætlununum og hygðist verða fyrri til að setja á fót orkuteymi. Glitnir hafði fjárfest mikið í uppbyggingu orkuteymis, sem var ein af þremur helstu uppbyggingaráherslum bankans, og gat ekki hætt á að missa frumkvæðið í þessum efnum. Bjarni var þegar þetta gerðist forstjóri Glitnis, en átti eftir að koma aftur við sögu á viðburðaríku ári í orkuútrásinni.
GGE tilkynnir síðan 5. febrúar að höfuðstöðvar verði í Reykjanesbæ, sem kaupir 2,5% í fyrirtækinu á um 175 milljónir. Ásgeir Margeirsson forstjóri Geysis segir af því tilefni að fyrirtækið geti vonandi tengst þeirri sérfræðiþekkingu sem fyrir er á svæðinu, aðallega hjá Hitaveitu Suðurnesja. Og Hannes Smárason segir FL Group vera tilbúið að fjárfesta mikið í þessum geira á næstu árum og nefnir 50 til 80 milljarða í eigin fé.
REI á teikniborðinu
Leikinn er ákveðinn varnarleikur 25. janúar þegar stjórn OR samþykkir að tillögu stjórnarformannsins, Guðlaugs Þórs, að eignarhluti OR í Enex verði settur í sérstakt hlutafélag, eignarhaldsfélag, sem OR eigi ásamt Landsvirkjun, Nýsköpunarsjóði og Íslenskum orkurannsóknum. Þá hafði GGE verið að styrkja stöðu sína í Enex. "Þetta var til þess að halda meirihluta í Enex, þannig að við yrðum ekki étnir," segir Guðlaugur Þór.
GGE var orðinn stærsti einstaki hluthafinn í Enex með 27% hlut, OR og Landsvirkjun voru með 24% og Jarðboranir 16%. "OR hefði orðið áhrifalaus ef GGE hefði keypt hlut Landsvirkjunar," segir Guðlaugur Þór. Einnig er ákveðið að fá skýrslu frá yfirstjórn félagsins um hvernig best sé að standa að útrásarverkefnum í framtíðinni.
Samkvæmt því er á stjórnarfundi 7. mars lögð fram tillaga forstjóra og aðstoðarforstjóra OR um að OR stofni Reykjavík Energy Invest (REI) um útrásarstarfsemi félagsins. Ákveðið er að OR leggi í félagið eignir upp á tæpa 2,6 milljarða í Enex hf., Enex Kína ehf. og öðrum þeim verkefnum sem OR stendur að á erlendri grund.
Í tillögunni, sem Guðmundur Þóroddsson forstjóri OR skrifar undir, segir: "Til félagsins leggi OR auk þess hlutafé, allt að 2 milljörðum króna, sem notað verði til þátttöku í félögum og verkefnum með öðrum aðilum sem stunda útflutning á íslenskri tækniþekkingu og fjárfestingar í vistvænum orkutækifærum á erlendri grund."
Fram kemur í greinargerð með tillögunni að hlutafé verði greitt inn til félagsins "á næstu misserum eftir því sem starfsemin og verkefni þróast." Asinn er ekki meiri en svo. Guðlaugur Þór leggur á áherslu á að tilgangurinn með stofnun REI hafi fyrst og fremst verið að draga úr áhættu OR af útrásarstarfseminni, sem hafi orðið æ umfangsmeiri, með því að hafa hana í sjálfstæðu hlutafélagi þar sem ábyrgð er takmörkuð og eigendur OR því ekki í ábyrgð fyrir félagið. Það sjónarmið kemur raunar fram í greinargerðinni.
En fleira býr undir, enda segir í greinargerðinni: "Þá er hugsanlegt að taka samstarfsaðila beint inn í félagið." Og fram kemur að mikill áhugi sé meðal íslenskra aðila á fjárfestingum í vistvænni orku erlendis, t.d. Geysir Green Energy hf., Atorka hf. og Enex hf. "Tvö fyrstnefndu félögin hafa óskað eftir samstarfi við OR um útrás."
Samstarf við einkaaðila
Hjörleifur B. Kvaran forstjóri Orkuveitunnar segir að gert hafi verið ráð fyrir því alla tíð að fá til félagsins með einhverjum hætti öfluga fjárfesta og rætt um að til framtíðar myndi Orkuveitan eiga 40% í félaginu. Viðræður áttu sér stað milli Guðlaugs Þórs og Hjörleifs og Sigurjóns Árnasonar, forstjóra Landsbankans, og Atorku, um að standa saman í útrásarfyrirtæki. "Það var ekkert nýtt að REI væri hugsað fyrir einkaaðila," segir Hjörleifur.
Þessar hugmyndir virðast hinsvegar fyrst og fremst hafa strandað á Guðlaugi Þór, sem vildi ekki að rasað yrði um ráð fram. "Hannesi Smárasyni fannst ekkert gaman að tala við mig," segir hann íbygginn. "Ég vildi fara varlega með opinbert fyrirtæki og starfa með öllum." Ef til vill hefur spilað inn í að hann var upptekinn í baráttu fyrir þingkosningar í maí. Og þá vilja menn ekki rugga bátnum.
Í tíð Guðlaugs Þórs voru öll mál samþykkt samhljóða í stjórn "nema í álversslagnum". En ljóst er að óánægja kraumaði í hópi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins með að upplýsingar skiluðu sér ekki þangað, t.d. af stofnun REI, enda má segja að hann hafi kannski haft sinn eigin pólitíska metnað. Sjálfur undirstrikar hann að hann hafi viljað að þekking og orðspor OR nýttist í útrásarverkefnum og aðkoma félagsins yrði á þeim grunni. Og án þess að það kæmi fram í störfum hans innan OR, þá herma heimildir að fyrir honum hafi vakað með hlutafélagavæðingu REI að auðveldara yrði að einkavæða það síðar.
REI kemur í heiminn
Það var farið að þykkna upp þegar ný stjórn stillti sér upp til myndatöku á svölum Orkuveituhússins 8. júní sl. Haukur Leósson tók við af Guðlaugi Þór sem stjórnarformaður og í fyrsta sinn frá stofnun OR árið 1999 tók borgarstjóri sæti í stjórn, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Aðrir í stjórn fyrir hönd Reykjavíkur voru borgarfulltrúarnir Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir.
Þremur dögum síðar, 11. júní, er REI stofnað formlega. Björn Ársæll Pétursson verður stjórnarformaður og aðrir í stjórn Haukur Leósson og Björn Ingi Hrafnsson. Það er áberandi að enginn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr í stjórn og kemur á daginn að upplýsingar berast illa til hópsins. Haukur, náinn vinur og samstarfsmaður Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, virðist fyrst og fremst vera í sambandi við hann. Og Vilhjálmur heldur spilunum að sér. Að sögn kunnugra er það hans stíll, auk þess sem hann hafði í nógu að snúast sem borgarstjóri, veitti t.d. tvö þúsund manns viðtal á 500 dögum.
Og Björn Ingi leit ekki á það sem sitt hlutverk að upplýsa borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þó að hann sæti með þeim meirihlutafundi tvisvar í viku.
Framan af ganga hlutirnir mun hægar hjá REI en GGE. Og hraðinn er kannski er skýrasta dæmið um ólík vinnubrögð og áherslur opinberra fyrirtækja og einkafyrirtækja. "Ákvörðun var tekin í janúar um setja ramma um útrásarverkefnin, í mars var ákveðið að stofna REI og félagið var stofnað í júní. Búin var til lýsing á starfseminni frá júní til ágúst. Það var ekki mikið búið að gerast," segir Bjarni Ármannsson og brosir. "Ég gat því spurt mig um mánaðamótin ágúst - september: Hvað er ég að borga yfirverð fyrir?"
Hugmyndir að samningi
Skriður kemst þó á starfsemina í tíð Björns Ársæls og felst það einkum í grunnvinnu að stefnumörkun fyrirtækisins. Settur er í gang verkefnahópur sem hann situr í ásamt starfsmönnum OR, þeim Eiríki Hjálmarssyni, Þorleifi Einarssyni, Vilhjálmi Skúlasyni og Guðmundi F. Sigurjónssyni. Þrír síðastnefndu eru núna í yfirstjórn REI.
Þeirri vinnu lauk með því að hópurinn lagði fram minnisblöð á stjórnarfundi REI 23. ágúst sl., annars vegar hugmyndir að samningi milli REI og OR, sem talinn var nauðsynlegur til að laða að fjárfesta, og hins vegar aðgerðaplani, þar sem stefnt var að því að hækka virði félagsins með því að þróa verkefni sem væru í pípunum.
Í hugmyndum að samningnum fólst að REI hefði aðgang að vörumerki, þekkingu og þjónustu OR. Þó að ekki væri talað um einkaréttarsamning, þá kom fram að OR bæri að vísa öllum viðskiptatækifærum utan Íslands til REI. Fram kemur að áhættan fyrir OR felist í því að slíkur samningur setji félaginu skorður utan landsteinanna og það "missi stjórn" á REI, þar sem það ráði aðeins 40% hlut. Til þess að bæta það upp er talað um að REI greiði 5% veltugjald og ef greiðslur nái ekki tilteknu lágmarki öðlist OR aftur rétt til að vinna að verkefnum utan Íslands.
Í aðgerðaplaninu er talað um að fá ekki inn fjárfesta fyrr en að þremur mánuðum liðnum, þ.e. í fyrsta lagi seint í nóvember. Það er rökstutt með því að fjölmörg verkefni séu í pípunum sem verðmæti felist í, en til þess að hægt sé að rökstyðja það í verðmati, þá þurfi að innsigla þau með samningum, gera arðsemismat og fleira. Reiknað er með töluverðum ávinningi af þessari vinnu.
Björn Ársæll leggur til á stjórnarfundinum að ekki verði rætt við fjárfesta fyrr en í fyrsta lagi í desember og rökstyður það með því að félagið sé ekki tilbúið undir aðkomu fjárfesta, en þá eru aðeins tveir mánuðir liðnir frá stofnun þess. Þá kemur, að sögn heimildarmanns, fram hjá Birni Inga Hrafnssyni að hann sé þegar byrjaður að ræða við fjárfesta. Þeir aðilar sem sýndu áhuga á að koma inn í REI á þessum tíma voru meðal annars Kaupþing, Landsbankinn og Century Aluminium. Tillaga Björns Ársæls er því felld og á sama fundi segir hann sig úr stjórn REI, enda á förum til Hong Kong sem starfsmaður Landsbankans.
Loks er samþykkt á stjórnarfundinum að unnin verði drög að samningi milli OR og REI byggð á þeim hugmyndum sem lagðar hafi verið fram, "þó með "first right of refusal" í stað einkaréttar REI á hugverkum og þjónustu OR."
Bjarna boðið til leiks
"Síðla í ágúst" hringir Haukur Leósson í Bjarna Ármannsson, en þeir höfðu hist í fyrsta og eina skipti í Kína þegar hitaveita var tekin í notkun í Xian Yang í byrjun desember árið áður. Hann biður Bjarna um að hitta sig og borgarstjóra og hittast þeir á skrifstofu Vilhjálms í Ráðhúsinu. Á leið þaðan mæta þeir einum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem sendir SMS-skilaboð til vina sinna í bankageiranum: "Hvað er Bjarni Ármannsson að gera með Hauki Leóssyni í Ráðhúsinu?" Enginn gat upplýst borgarfulltrúann um það og frétti hann fyrst af því í fjölmiðlum, eins og aðrir borgarfulltrúar og ráðamenn flokksins sem talað var við. Enn er það til marks um sambandsleysi innan raða sjálfstæðismanna.
Á fundinum er Bjarna boðið að gerast stjórnarformaður, farið er yfir ráðagerðir um að stórefla REI og greint frá áhuga einkaaðila á að koma inn í það. Bjarni hugsar sig um í nokkra daga, ræðir m.a. við Hjörleif B. Kvaran og Guðmund Þóroddsson, og kveðst síðan hafa áhuga á að leiða stjórn félagsins og koma að því sem fjárfestir. Enda farinn að beina kröftum sínum að eigin fjárfestingum eftir að hann hætti störfum hjá Glitni í apríllok. "Ég hafði engan áhuga á því að verða launamaður."
Á stjórnarfundi 11. september var Bjarni kjörinn stjórnarformaður REI og var það hugsað til þriggja ára. Ástæðan er sögð sú að litið hafi verið svo á innan OR að ekki væri hægt að tryggja honum stjórnarformennsku nema fram að næstu kosningum. Hann er í 50 til 60% starfi hjá REI og fær greiddar fyrir það 750 þúsund krónur á mánuði.
OR jók hlut sinn í félaginu um 2,6 milljarða á genginu 1 og Bjarni lagði fram viðbótarhlutafé upp á 500 milljónir á genginu 1,278. Gangi OR gegn því samkomulagi sem gert var við Bjarna eða ef ágreiningur verður um samþykktir eða nýja fjárfesta hefur Bjarni sölurétt á OR á upprunalegu kaupverði auk veðbóta. Engin slík trygging er þó fyrir þeim milljarði sem Bjarni skuldbatt sig síðar til að leggja fram við samruna REI og GGE.
"Ég veit það ekki," segir Bjarni hreinskilnislega, aðspurður hvort félagið hafi í raun verið tækt til að fá fjárfesta á þessum tíma. "En ég er fjárfestir og það var alltaf grunnforsenda fyrir aðkomu minni. Og skilyrði að OR fengi einkafjármagn að fyrirtækinu og færi í minnihluta."
Einnig er tilkynnt þennan dag að Guðmundur Þóroddsson taki sér sjö mánaða leyfi sem forstjóri OR og verði forstjóri REI til bráðabirgða. Birni Ársæli hafði verið boðin staðan, en hafnað því.
Straumhvörf í málinu
Björn Ingi lýsti undrun og velþóknun þegar Haukur skýrði honum frá því að Bjarna hefði verið boðið starfið og segir viðbótarhlutafé Bjarna "innan heimilda", ekkert hafi verið óeðlilegt við þau að sínu mati. Enda hafi þetta verið kynnt opinberlega og engin mótmæli komið fram. "Ekki eitt einasta orð."
Einhverjar óánægjuraddir hafa þó borist til OR, því Hjörleifur B. Kvaran hafði orð á því að sér hefði komið á óvart eftir ráðninguna hvað Bjarni væri umdeildur. Og ekki var ánægja með ráðninguna sums staðar í röðum sjálfstæðismanna, sem töldu farið of geyst í sakirnar. En vart er um það blöðum að fletta að Bjarni hafði bæði reynslu og þekkingu til að takast á við þetta starf.
"Ég held að þarna hafi orðið ákveðin straumhvörf í þessu máli," segir Hjörleifur B. Kvaran. "Þegar við vorum komnir með öflugan stjórnarformann og framkvæmdastjóra í félagið sáu aðrir að Orkuveitan færi út í þetta af miklum þunga, forskotið á aðra væri þegar mikið og yrði hugsanlega meira. Ég held að eigendur GGE hafi gert sér grein fyrir að risinn hefði vaknað og væri kominn af stað."
Það sem vakti athygli meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var hinsvegar að í fréttatilkynningunni sagði að stefnt væri að því að OR yrði "kjölfestufjárfestir með um 40% hlutafjár" í REI og að REI hygðist "búa yfir um 50 milljarða hlutafé til að hefja fjármögnun alþjóðlegra jarðhitaverkefna."
Þegar borgarfulltrúarnir lesa töluna 50 milljarðar í blöðunum fara þeir fram á fund um málefni OR og hvað standi til þar. "Við biðjum um þetta fund eftir fund, en aldrei gerist neitt," segir Gísli Marteinn Baldursson. "En við upplifðum þetta ekki þannig að það lægi neitt á. Nú vitum við að níu dögum seinna hefjast samningaviðræður og þá virðist ekki hafa mátt segja neitt."
Fjárfestar í London
Með ráðningu Bjarna fer "allt á fleygiferð" og á tveim vikum er búið að "handsala" samruna við GGE. Þó er staðan sú þegar Bjarni er ráðinn að "engar þreifingar um sameiningu eru komnar af stað [við GGE], að því er ég best veit," segir Hjörleifur B. Kvaran. Atburðarásin var hröð.
Stuttu eftir ráðninguna, 17. til 18. september, fer Bjarni með stjórn REI, Birni Inga og Hauki, og heldur kynningarfundi í London með fjárfestum, s.s. Barclays, JP Morgan, Morgan Stanley, Merryl Lynch og Novator. Auk þess höfðu þreifingar haldið áfram við Landsbankann, Kaupþing og Century Aluminium.
Í Lundúnaferðinni sýndu margir áhuga á að koma að félaginu, að sögn Hjörleifs, og var spurningin fyrst og fremst sú hversu margir fjárfestarnir ættu að vera og hversu stórir. "Flestir sóttust eftir því að vera stórir."
Heima á Íslandi er Lex lögmannsstofu falið 17. september að vinna samning byggðan á stofnsamningi REI og skjali þar sem gert er ráð fyrir einkaréttarsamningi til tíu ára, m.a. "á öllum ferlum, aðferðafræði og uppfinningum OR utan Íslands."
Sama dag er stjórnarformanni heimilað að semja við Jón Diðrik Jónsson um að gerast ráðgjafi til áramóta við stefnumótun, en hann hafði áður unnið að því með Bjarna að koma upp orkuteymi Glitnis og hafði reynslu af viðskiptum í Suðaustur-Asíu. Jón Diðrik kemur með viðbótarhlutafé upp á 30 milljónir á genginu 1,278.
Viðræður við Geysi
GGE óskaði eftir því við Hauk Leósson að taka upp viðræður um hugsanlegan samruna við REI. Að sögn Bjarna Ármannssonar kom þrennt til greina, samruni, krosseignarhald eða samstarf. Og skilaboðin voru skýr frá GGE - stefnt yrði að formlegu eða óformlegu samstarfi og ef ekki, þá yrði samkeppni af fullri hörku.
"Ég held að spilað hafi inn í, sem menn áttu ekki von á, að það skapaðist fljótlega núningur á milli félaganna. Menn héldu að heimurinn væri svo stór leikvöllur að menn myndu ekki rekast á, en reyndin varð önnur," segir Hjörleifur B. Kvaran.
Einnig höfðu verið hörð átök um Hitaveitu Suðurnesja á milli OR og GGE. Þeim lauk með hluthafasamkomulagi í júlí sem fól í sér að sveitarfélögin héldu meirihluta sínum í félaginu. "Nú var komin upp ný staða, sem kom á óvart miðað við hvað þeir höfðu verið kokhraustir í sinni nálgun," segir Björn Ingi.
Fyrstu viðræður fóru fram í stöðvarstjórahúsinu 20. september. Sá vettvangur átti eftir að komast í sögubækurnar. Fyrir hönd REI voru á fundinum Bjarni Ármannsson, Haukur Leósson, Björn Ingi Hrafnsson og Guðmundur Þóroddsson, en Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason fyrir GGE. Á meðal þess sem var til umræðu voru forsendur verðmats á REI og GGE.
Björn Ingi Hrafnsson segir að sér sé minnisstætt frá þeim fundi að "það sé alveg á hreinu að þær hugmyndir sem hann hafi sett fram um verðmat á REI hafi þeim fundist "vera brandari, bísnessmönnunum."
Enda hafi ekki mikið af því verið fast í hendi hjá REI á meðan GGE státaði af nokkrum fyrirtækjum í heilbrigðum rekstri.
Bjarni Ármannsson kannast við lýsinguna á viðbrögðum "bísnessmannanna". "Hannes hló hæðnislega að okkur þegar verðið var nefnt. En það er allt partur af geiminu," segir hann sallarólegur. "Þetta er bara eins og í pólitíkinni; maður verður að hlusta á hvað fólk vill en ekki hvað það segir."
Þetta var ekki langur fundur. Niðurstaðan var sú að Bjarni og Hannes héldu umleitunum áfram "ásamt sínum mönnum". Tveim dögum síðar, á laugardegi, funduðu þeir á heimili Hannesar og sömdu um meginatriðin. Umrædda helgi var Hjörleifur B. Kvaran erlendis. "Þar náum við saman um eitthvað sem ég get treyst mér til að mæla með við REI og Haukur sín megin við OR. Ég sagði skýrt að sá sem hefði ákvörðunarvald um það hvort málið héldi áfram héti Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson," segir Bjarni.
Margfrægt minnisblað
Upp úr því skrifar Bjarni margfrægt minnisblað sem hann segist hafa farið með ásamt Hauki til Vilhjálms á sunnudeginum, en Vilhjálmur kannast ekki við að hafa fengið. Þar er farið yfir samrunaferlið og segir Bjarni að hann og Haukur hafi "labbað í gegnum það" með Vilhjálmi á þriggja tíma fundi.
Það vekur spurningar hjá viðmælendum hvernig standi á því að Vilhjálmur hitti Bjarna og Hauk einn heima hjá sér þegar svona stórt mál er umræðu og af hverju hafi ekki verið skrifuð fundargerð eða a.m.k.minnsta kosti eitthvað til staðfestingar á því að skilningur allra á fundinum væri sá sami á niðurstöðunni.
Í þeim hluta minnisblaðsins sem gerður hefur verið opinber er hlutur OR í Hitaveitu Suðurnesja skyndilega kominn inn og metinn á 9 milljarða, en svo hafði ekki verið í eldri hugmyndum og samningsdrögum. Jafnframt er kveðið á um að REI fái kauprétt að þeim bréfum sem OR kunni að eignast í Hitaveitunni og OR reyni að kaupa hlutabréf Hafnarfjarðar "svo fljótt sem auðið er".
Það sem vakið hefur mestar umræður er klásúla um að OR og REI "geri samning sín á milli sem tryggi aðgang að þekkingu og starfsfólki OR. Jafnframt heimili notkun vörumerkisins og að Orkuveitan beini öllum verkefnum utan Íslands til REI. Samningur um slíkt sé til 20 ára." Vilhjálmur kannast ekki við að hafa heyrt um 20 ára samning, sem feli í sér einkarétt, á fundinum.
En hvað sem fram fór, þá fá Bjarni og Haukur umboð borgarstjóra til að semja við GGE og handsala Bjarni og Hannes samkomulagið á mánudeginum. Eftir annasamar tvær vikur fer Bjarni síðdegis sama dag til Afríku að skoða hjálparstarf SPES og Unicef.
Það hefur verið gagnrýnt að gengið hafi verið til samninga við GGE þegar margir aðrir hafi sýnt áhuga. "Af hverju vorum við að púkka upp á REI - komu þeir með eitthvað að samningaborðinu?" veltir Bjarni Ármannsson upp. "Allir fjárfestar verða að svara einni spurningu: Hvernig ætlum við að exitera? Í þessu tilfelli var horft til skráningar á markað. Með samruna REI og GGE er skráningu flýtt um 1,5 til 3 ár, að mínu mati."
Hann segir að framleiðsla hefjist ekki hjá REI fyrr en í fyrsta lagi árið 2011. "Maður fer ekki með félag á markað sem ekki er með framleiðslu. En með sameiningu við GGE er orðið að veruleika fyrirtæki með framleiðslu, sérþekkingu á lykilsviði, einkaleyfi, framleiðslu- og verkefnalínu og starfsemi sem teygir anga sína um allan heim."
Lagst yfir samninga
Haukur lætur Hjörleifi í té minnisblaðið 25. september og segir að sögn Hjörleifs að búið sé að "tryggja stuðning við það, fara yfir það með borgarstjóra og hann sé þessu öllu samþykkur." Haukur felur Hjörleifi að láta semja þá samninga sem þarf til að klára málið. Hann hringir í Lex, sem hafði unnið mikið fyrir OR, talar við Helga Jóhannesson og Helgi kemur samdægurs. "Við förum yfir hvaða samninga þurfi að gera og ég set hann af stað með það." Síðan er unnið í "þessum pappírum" og koma fjórir lögfræðingar stofunnar að því.
Erla S. Árnadóttir hrl. sendir fyrstu tillögur að þjónustusamningi unnar á grundvelli minnisblaðsins til Hjörleifs 26. september. Samkvæmt upplýsingum í minnisblaði frá REI, sem blaðamanni var afhent, var eftir það tekið út úr samningnum, í samskiptum Hjörleifs Kvarans frá OR og Jóns Diðriks Jónssonar frá REI, að REI ætti allt "patent og intellectual property" OR, veltugjald var tekið út þar sem andvirði væri í 10 milljarða greiðslu fyrir "goodwill", sett var "first right of refusal" í stað einkaréttar í samræmi við samþykkt stjórnar REI, og kveðið var á um rétt OR til að nýta sér þróun sem verður í verkefnum þar sem starfsmenn OR taka þátt."
Listar yfir kaupréttarhafa
Á stjórnarfundi REI 1. október voru Björn Ingi Hrafnsson og Haukur Leósson, en Bjarni var í símasambandi frá Afríku í mjög skamma stund. Samþykkt var að félagi í eigu starfsmanna OR og 17 tilgreindum starfsmönnum OR og REI yrði selt nýtt hlutafé í félaginu. Hjörleifur B. Kvaran kom á fundinn frá OR og var beðinn um lista yfir lykilstjórnendur OR sem ættu að fá að kaupa í REI.
En Björn Ingi og Haukur sömdu lista yfir starfsmenn REI, einhverjir höfðu unnið þar í nokkra daga og einn var ekki enn kominn til starfa.
Guðmundi Þóroddssyni var boðið að kaupa fyrir 100 milljónir. En flestum var boðið að kaupa fyrir 7,8 milljónir og starfsmannafélagi OR að hámarki fyrir 130 milljónir. Í öllum tilvikum var gengið 1,278.
Hlutabréfakaupin komu til umræðu á fundi sem stjórnarformaður OR boðaði með minnihlutanum í borgarstjórn að morgni 3. október. Svandís Svavarsdóttir og Dagur B. Eggertsson voru viðstödd, en Dagur var að fara utan sama dag, þannig að hann hafði Sigrúnu Elsu Smáradóttur með sér.
Og það var Sigrún Elsa sem hjó eftir því í annars efnisrýrri kynningu á samruna REI og GGE að gert var ráð fyrir því undir "þróun eignarhalds" að "stjórnendur" eignuðust 5,7% í félaginu á móti Bjarna og OR.
Þegar hún spurði hvað stæði þar á bakvið kom fram að það væri hlutafé til starfsmanna OR og lykilstjórnenda OR og REI. Í framhaldi af því var spurt hvort til væri listi með nöfnum þessara lykilstarfsmanna og var hann afhentur.
Tekið var fundarhlé á meðan farið var yfir listann og gerðu stjórnarmenn svo töluverðar athugasemdir. Gagnrýnt var hversu háan kauprétt Guðmundur Þóroddsson fengi og var ákveðið að lækka hann úr 100 í 30 milljónir. Þá var gagnrýnt að lykilstjórnendur OR fengju heimild til kaupa í REI og dró Hjörleifur þá þegar af listanum. Því næst voru gerðar athugasemdir við að nýráðnir starfsmenn REI fengju að kaupa á genginu 1,3 og lögðu stjórnarmenn til að þeir fengju að kaupa á genginu 2,77, sem var gefið upp sem almennt gengi í samrunaferlinu.
"Fram kom að stjórnarmennirnir gátu fallist á að aðrir starfsmenn OR, þ.e. þeir sem undirbúið hafa útrásina, keyptu á genginu 1,3," segir í minnisblaði frá Hjörleifi til borgarstjóra. Ennfremur segir: "Eftir þessa yfirferð varð því til nýr listi saminn af fundarmönnum sem formaður og forstjóri REI upplýstu að þeir myndu leggja til við stjórn REI til samþykktar. Stjórnarmennirnir óskuðu eftir að fá listann svo breyttan við fyrsta tækifæri. Í lok fundarins lýstu þessir stjórnarmenn því yfir að þeir væru samþykkir samrunasamningnum og myndu styðja hann."
Skyndifundur með leynd
Skyndifundur með meirihluta borgarstjórnar var boðaður þegar borgarstjórnarfundur stóð yfir þriðjudaginn 2. október og átti að fara fram í stöðvarstjórahúsinu í Elliðaárdal um kvöldið. Mikil leynd var yfir fundarefninu og ekkert látið uppi. Einhverjir borgarfulltrúar töldu að loks væri komið að kynningarfundi um málefni OR. Þegar spurt var um tilefnið var svarið: "Málefni OR." Og þegar spurt var: "Í heild sinni?" Þá var svarað: "Nei, annað mál, en við getum ekki sagt um hvað það snýst." Einhver hélt að fundurinn snerist um útrásina til Indónesíu.
"Óskað var eftir því að farið yrði eins leynt með þetta og kostur væri, því stærstu aðilar Geysismegin væru á markaði, s.s. FL Group og Atorka," segir Hjörleifur. "Ef þeir væru komnir í viðræður eða farnir að gera hluti sem Kauphöllin þyrfti að vita af, þá þyrfti að upplýsa það. Því ef eitthvað færi að spyrjast út, þá gæti það haft áhrif á verðmæti hlutabréfa. Þetta var sú skýring sem mér var gefin."
Einnig er fullyrt að flýtirinn hafi verið vegna kynningar FL Group í London. Og það kunni raunar að vera samningatækni af hálfu FL Group að búa til tímaþröng með þeim hætti.
Hjörleifur B. Kvaran segir menn hafa lagt mikla áherslu á að klára samningana, m.a. vegna þess að Björn Ingi Hrafnsson hafi verið að fara til Kína þá um kvöldið og hann hafi verið lykilmaður bæði í OR og REI. "Þetta er auðvitað hlægileg ástæða," segir Gísli Marteinn.
Sama leynd var yfir fundarefninu gagnvart minnihlutanum sem átti að funda daginn eftir. Svandís Svavarsdóttir var harðorð þegar hún sagði frá því, á aukafundi borgarstjórnar 10. október, að hún hefði óskað eftir því við stjórnarformann OR að fá upplýsingar um fundarefnið. Hann svaraði að þær gæti hann ekki veitt; hún myndi skilja það á morgun hvers vegna. Svandís sagði að þetta minnti á uppeldisaðferðir liðins tíma þegar sagt er: "Þú skilur það þegar þú ert orðin nógu stór, nógu stór til að skilja hvað þessi díll er ógeðslegur."
Djúpstæð gagnrýni
Fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn og nágrannasveitarfélaganna mættu á fundinn kl. 18.30 um kvöldið. Boðið var upp á hvítvín og snittur. Og raunar kom síðar fram að borgarstjóri taldi að aðrir borgarfulltrúar flokksins myndu taka samrunanum fagnandi. En annað kom á daginn.
"Menn byrjuðu í hvítvíni og voru komnir niður í hálft glas þegar kynningin hófst," segir Gísli Marteinn. Þá var varpað upp glæru með textanum: "Samruni Reykjavík Energy Invest [og] Geysir Green Energy" og borgarfulltrúar litu undrandi hver á annan. "Þegar átti svo að höfða til mín með því að með samrunanum væri verið að sporna við gróðurhúsaáhrifum, þá ýtti ég glasinu frá mér og spurði mig hvaða rugl þetta væri."
Guðmundur Þóroddsson flutti stutta kynningu á samrunanum á sex glærum, og fannst borgarfulltrúum hún rýr í roðinu, eins og komið hefur fram. Eina myndefnið var kort tekið upp úr Blaðinu. Heimildir innan REI herma að kynningin hafi verið unnin í miklum flýti, enda samningar enn í vinnslu, tilkynning um samrunann og fleira. Því er haldið fram að Guðmundur hafi jafnvel ekki séð kynninguna áður en hann flutti hana.
Haukur Leósson talaði á eftir Guðmundi fyrir málinu. Kynningin var stutt, stóð ekki lengur yfir en í 15 til 20 mínútur, og engum pappír var dreift. Svo sagði forstjóri OR að samningaviðræður hefðu staðið yfir í tíu daga og ætlunin væri að ganga frá samningnum á fundi daginn eftir. "Við fengum áfall!" segir Hanna Birna Kristjánsdóttir. "Ég sem einstaklingur upplifði þetta þannig að þetta væri stærsta fjármálalega ákvörðun sem ég tæki á þessum vettvangi - og mér leist illa á hana."
Farinn var hringurinn og var það einróma álit allra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að þeir gætu ekki sætt sig við þetta. Vilhjálmur og Björn Ingi voru einangraðir í afstöðu sinni. Fram kom djúpstæð gagnrýni á Vilhjálm og Hauk fyrir að miðla ekki upplýsingum, en ekki síst Björn Inga, sem var eini fulltrúi meirihlutans í stjórn REI.
Sátu á kauprétti
Gagnrýnin fólst annarsvegar í því að ónógar upplýsingar lægju fyrir um samrunann til að taka afstöðu til hans og lýst var efasemdum um að OR ætti að standa í áhættusamri útrásarstarfsemi.
"Upplýsingarnar voru engar og ég skildi ekki hvernig þetta samræmdist stefnu okkar," segir Hann Birna. "Út af hverju vorum við að sameinast þessum en ekki öðrum? Við spurðum hvað starfsmenn fengju að kaupa og þeir svöruðu að það væri fyrir 100 til 300 þúsund á sama tíma og þeir sátu sjálfir á feitum kaupréttarsamningum. Við spurðum hvort pólitískir fletir væru á þessu og þeir svöruðu "nei", án þess að upplýsa okkur um 20 ára einkaréttarsamninginn. Engu var deilt með okkur."
En hljóðið er annað í stjórnendum OR og REI og hjá Birni Inga sem segja að þessi ágreiningur um hugmyndafræði hafi komið á óvart miðað við það sem á undan var gengið, svo sem stofnun REI. Bent er á að Guðlaugur Þór hafi sjálfur skrifað undir viljayfirlýsingu við ríkisstjórn Djíbútí um útrásarverkefni. "Ég hafði aldrei heyrt af þessari andstöðu," segir Hjörleifur B. Kvaran.
Þegar ljóst varð hversu skiptar skoðanir væru innan meirihlutans óskaði borgarstjóri eftir því að aðrir vikju af fundi. "Þetta er gaman að hafa í huga þegar sagt er að kynningin hafi ekki verið næg," segir Björn Ingi, sem sat sjálfur 20 mínútur í upphafi, en fór svo af fundinum í rúmlega klukkutíma.
"Þegar ég kom til baka var mikil harka hlaupin í fundinn," segir hann. "Umræðan var í raun farin að snúast um miklu meira en samruna, mun frekar upplýsingagjöf borgarstjóra gagnvart sínu fólki, risarækjur og fleira."
"Út af fyrir sig hefði verið hægt að standa betur að kynningunni. En það kom í ljós að borgarfulltrúar voru á móti verkefninu í heild sinni. Og þeir þurftu fyrst að útkljá það sín á milli - hvort þeir ætluðu sér í verkefnið eða ekki," segir Hjörleifur.
Ekkert varð úr því að taka ákvörðun á fundinum eins og stóð til. Honum var slitið 21.30 um kvöldið og ákveðið að hittast aftur í hádeginu daginn eftir í Ráðhúsinu, þar sem stjórnendur OR kæmu með ítarlegri gögn og svör við spurningum sem komið hefðu fram.
Sömu glærurnar
Daginn eftir komu stjórnendur REI og OR beint af fundi með minnihlutanum um morguninn. Það er gagnrýnt harðlega, og talað um trúnaðarbrest, að þeir skyldu ekki hafa minnst á kaupréttina eftir það.
"Það verður uppi fótur og fit hjá minnihlutanum," segir Hanna Birna Kristjánsdóttir. "Skömmu síðar mæta sömu menn á fund til okkar, segja ekki frá kaupréttarsamningunum, en segja málið klappað og klárt hjá minnihlutanum, sem styðji málið algjörlega. Og mér skilst að látið hafi verið í það skína við minnihlutann að meirihlutinn styddi það algjörlega."
Síðan er "sömu glærunum kastað upp á vegg" og fyrri daginn, að sögn Hönnu Birnu. "Við spyrjum: "Hvar er kynningin? Og fáum þau svör að það sé engin frekari kynning. Við spyrjum hvar eru svörin? Engin svör. Það er bara sagt: "Við teljum að þetta sé góður bísness.""
Það að Guðmundur Þóroddsson skyldi ekki breyta kynningunni er útskýrt þannig innan REI að borgarstjóra hafi skilist kvöldið áður að ekki vantaði frekari kynningu á samrunanum heldur á starfsemi REI og hvaða verkefni væru í gangi á vegum félagsins.
Fundurinn stóð frá 12 til 14, var mjög dramatískur og náði hápunkti þegar Hanna Birna spurði borgarstjóra: "Er það þannig að við stöndum frammi fyrir orðnum hlut?" Og borgarstjóri svarar: "Já, þetta er orðinn hlutur. Við ætlum að afgreiða málið í stjórn OR í dag." Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu miklum tilfinningum og skoðunum til málsins, var gróflega misboðið, töldu framkomu Guðmundar Þóroddssonar lítillækkandi og að það væri verið að ganga algjörlega yfir umboð þeirra sem borgarfulltrúa.
- Var umboð veitt á fundinum?
"Það var ekki beðið um umboð, segir Hanna Birna. "Það var bara sagt að málið yrði afgreitt eftir klukkutíma."
Hjörleifur B. Kvaran segir að Vilhjálmur hafi sagst hafa skýrt umboð til að klára málið við komuna á stjórnar- og eigendafund. "En ef borgarfulltrúar hefðu viljað stoppa málið, þá tel ég að þeir hefðu getað gert það. Ef þeir hefðu sagt: "Við erum ekki tilbúin," þá hefði það betur komið fram á þeim tíma."
Borgarfulltrúarnir voru ósáttir við Vilhjálm, en ósáttari við mennina sem svöruðu engu. "Við vorum miður okkar," segir Hanna Birna. "Eftir á að hyggja áttum við að segja: "Þið farið ekki inn á fund og gangið frá þessu." En við upplifðum þetta þannig að það væru stjórnarslit. Tilfinningar Björns Inga voru þannig, sterkar og heitar. "Í raun er ótrúlegt hversu mikinn slag við tókum á þessu augnabliki miðað við hvað við vissum lítið. Okkur fannst þetta rangt í prinsippinu og þess vegna tókum við slaginn. Ef við hefðum vitað allt, þá hefðum við tekið hann harðar."
Samruni samþykktur
Þegar Svandís mætir á stjórnar- og eigendafundinn kl. 15 sama dag, 3. október, lætur hún vita af því að hún muni ekki styðja málið. Fyrir fundinum eru fjórar tillögur og eru allar samþykktar bæði á stjórnar- og eigendafundi. Þar er samþykktur samruni REI og GGE, þar sem REI verður yfirtökufélag, og "stjórnarformanni og forstjóra heimilað að undirrita samninginn og önnur samrunagögn þegar þar að kemur."
Mestar deilur hefur vakið þriðja tillaga sem lá fyrir fundinum um að OR samþykki "fyrirliggjandi samning" við REI hf. um "aðgang að tækniþjónustu o.fl." Að baki því lá margþættur óframseljanlegur einkaréttarsamningur til 20 ára á Svæðinu, sem m.a. laut að þjónustu sem átti eftir að skilgreina.
Hjörleifur B. Kvaran segist vel geta tekið undir það að kynning á samningnum hafi ekki verið nægjanleg, eins og borgarstjóri hafi kvartað yfir. "Í öllu falli var hún ófullnægjandi fyrir þá sem komu nýir að málinu."
Kynntur í London
Daginn eftir að samruninn var samþykktur í stjórn OR var hann kynntur á vegum FL Group í London, 4. október. Þar kom m.a. fram að tilkynnt hefði verið um samrunann 3. október, honum lyki 31. október, fjármögnun lyki í febrúar 2008 og fyrirtækið yrði skráð á markað 2009. Í framtíðarsýn fyrirtækisins er markið sett hátt, 200 til 400 gígavött í virkjunum á næstu tveim árum, fjárfesting upp á 300 til 400 milljarða. Sama dag vonast Guðmundur Þóroddsson í hádegisviðtali Stöðvar 2 eftir tuga milljarða hagnaði.
Bjarni kom úr Afríkuför sinni þennan dag og talaði á fjárfestakynningunni í London. Um kvöldið hringir Vilhjálmur í hann og biður um að samningar við starfsmenn REI um kaup á hlutabréfum séu dregnir til baka. Bjarni segist ætla að fara yfir það með stjórninni, kemur heim daginn eftir, 5. október, og ákveðið er á stjórnarfundi laugardaginn 6. október að draga þá til baka.
"Þessir samningar voru hugsaðir til að tengja saman hagsmuni starfsmanna og fyrirtækis," segir Bjarni. "Starfsmenn voru varðir tapi en nutu ekki hækkunar að fullu í þrjú ár. Við vildum tryggja okkur krafta starfsmanna fram yfir skráningu 2009." Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var vilji til að semja á ný við þá eftir samrunann, enda yrði OR þá komið í minnihluta í félaginu.
Eftir samrunafundinn byrjar umræðan að þróast með óhagstæðum hætti fyrir REI vegna andstöðu sex borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og óánægju Svandísar Svavarsdóttur. Í fjölmiðlum um kvöldið kemur í ljós afstaða minnihlutans gagnvart kaupréttarsamningum sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu "ekki grænan grun" um og þeim fannst "hafa verið gengið harkalega fram" í þessu máli. "Okkur finnst allir fulltrúar meirihlutans í stjórn OR hafa brugðist okkur, Haukur Leósson, Vilhjálmur og Björn Ingi," segir Gísli Marteinn. "Og auðvitað líka fulltrúar minnihlutans, Samfylkingin samþykkir og Vinstri grænir sitja hjá, en það voru ekki mínir fulltrúar."
Einkennilegur biðtími
Skýrt hefur verið frá fundum sexmenninganna án Vilhjálms í framhaldinu, m.a. með forystu flokksins á föstudeginum. "Allt tal um að það sé óeðlilegt er út í hött, segir Hanna Birna. "Okkur fannst sem umboðið hefði verið tekið af okkur og við urðum að greina formanni flokksins frá því, hvernig við upplifðum það. Formaðurinn verður að geta átt slík samtöl."
Gagnrýni hefur komið fram innan raða Sjálfstæðisflokksins á að Geir H. Haarde skyldi ekki hafa tekið á vandanum, sem kominn var upp, með meira afgerandi hætti úr því hann blandaði sér í málið. "Þetta hefði aldrei komið upp í tíð Davíðs Oddssonar," segir einn sjálfstæðismaður á meðan annar bendir á að meirihluti sjálfstæðismanna hafi einmitt fallið í formannstíð Davíðs.
Svo líða þrír dýrmætir dagar þar til sjálfstæðismenn hittast aftur. Og margt gerist bakvið tjöldin á þeim tíma, Björn Ingi Hrafnsson ákveður á laugardeginum að flýta för sinni heim frá Kína, kemur til landsins á sunnudagskvöld og fundar með sínu fólki á mánudagsmorgni.
Mikill skjálfti er innan OR og REI, gamli stjórnarformaðurinn Alfreð Þorsteinsson kominn í atburðarásina. Ekki verður heldur framhjá því horft að í eigendahópi GGE eru þungavigtarmenn í Framsókn, s.s. Finnur Ingólfsson, fyrrverandi varaformaður og ráðherra. Björn Ingi og Vilhjálmur tala ekkert saman þennan tíma eða þar til á þriðjudag, en Björn Ingi er þó í sambandi við Hönnu Birnu og Gísla Martein.
"Þetta var einkennilegur biðtími," segir einn borgarfulltrúi. Beðið var niðurstöðu sáttafundar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og blaðamannafundar í kjölfarið. En ekkert lá fyrir um niðurstöðuna. Óvissan var mikil. Og óljóst af hverju biðin stafaði, þótt nefnt sé að ekki hafi allir borgarfulltrúar verið í borginni og borgarstjórinn ekki áttað sig á alvöru málsins. "Hann var sjálfur að fá upplýsingar og bregðast við þeim."
Á sáttafundinum á mánudegi voru málin rædd "í mikilli eindrægni og einlægni" og borgarstjóri "baðst margfaldlega afsökunar". Hann tók undir að atburðarásin hefði verið of hröð, en hann hefði talið sig vel upplýstan. Rætt var um algjöran trúnaðarbrest milli borgarfulltrúanna og stjórnenda OR og talið betra að borgarfulltrúi færi inn í stjórnina í stað Hauks Leóssonar. Borgarstjóri féllst á það og er gagnrýndur innan REI og Framsóknar fyrir að hringja ekki í Hauk, sem frétti af þessu hjá fréttamanni.
Niðurstaðan af fundinum var að selja eins hratt og hægt er hlut OR í REI. "Þá vissi enginn af einokunarsamningnum." Hanna Birna hringir í Björn Inga eftir fundinn og greinir honum "nákvæmlega" frá niðurstöðu fundarins og "það var í lagi. Það eina sem hann sagði er að ræða þyrfti tímasetningar varðandi sölu."
Eftir að sjálfstæðismenn koma með yfirlýsinguna fer Björn Ingi í viðtal og segir þetta sátt sjálfstæðismanna en ekki meirihlutans. "Mér fannst óþægilegt að komin væri niðurstaða í málið um að selja strax vegna þess að hún var ekki í samræmi við það sem Vilhjálmur hafði sagt og ekki í neinu samræmi við ferlið frá a til ö," segir hann. "Ég var ósáttur við að Hauki Leóssyni væri sérstaklega fórnað, því hann gerði ekkert án leyfis frá borgarstjóranum í Reykjavík."
Alfreð aftur á sviðið
Mjög alvarleg staða var komin upp á þriðjudag í samstarfi meirihlutans og vitað er að forystu Sjálfstæðisflokksins barst það til eyrna. Það fór ekkert á milli mála hjá þeim sem til þekktu að Björn Ingi var hundóánægður. Hann náði aldrei í Vilhjálm, Haukur var tekinn úr stjórn, Guðmundur Þóroddsson og Hjörleifur Kvaran lágu undir þungri gagnrýni og það átti að selja hlut OR í REI eins fljótt og auðið væri.
Björn Ingi og Vilhjálmur hittast á fundi á þriðjudeginum þar sem þeir fara yfir málið. Síðan fara allir í sparifötin. Veisla vegna friðarsúlu Yoko Ono er í Viðey um kvöldið. Þar verður þingmaður Samfylkingar þess áskynja að mikil óánægja sé hjá Birni Inga með samstarfið í meirihlutanum, en gagnrýni Vinstri grænna sitji hinsvegar í honum. Skilaboðin komast áleiðis og eftir það verður tónninn í garð Björns Inga mun mýkri en áður hjá minnihlutanum. Einnig spilar inn í að Alfreð Þorsteinsson hringir í Dag fyrir borgarstjórnarfundinn, eins og komið hefur fram. Þeir höfðu áður átt gott samstarf í R-listanum og Alfreð tekið slaginn fyrir Dag þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók við embætti borgarstjóra.
"Af minni hálfu voru engar þreifingar í gangi við minnihlutann," segir Björn Ingi. "Hinsvegar hef ég oft séð, ef þú ert að spyrja sérstaklega um Alfreð Þorsteinsson, að borgarfulltrúar minnihlutans hafa ráðfært sig við Alfreð. Ég heyrði í honum í tengslum við borgarstjórnarfundinn og hef oft ráðfært mig við hann, einkum í tengslum við málefni OR, enda hefur hann mikla reynslu."
Pólitísk framtíð
Meirihlutafundur hefst í Ráðhúsinu klukkan tólf á miðvikudag. "Þar er allt önnur staða komin upp," segir Hanna Birna. "Ég hafði talað við Björn Inga í Viðey og þá gaf hann ekki annað í skyn en að við myndum leysa þetta."
Á fundinum segir Björn Ingi að málið snúist um sitt "pólitíska líf og framtíð". Hann fellst á að selja einhvern hlut strax, en eiga áfram megnið fram yfir skráningu. Borgarfulltrúarnir segjast ekki hafa traust á lykilstjórnendum OR og REI, en Björn Ingi vill lýsa fullu trausti á þeim og það má ekki hrófla við samningum við Bjarna Ármannsson eða Jón Diðrik Jónsson.
Björn Ingi segist hafa átt við að samruninn varðaði sína pólitísku framtíð ef hann kyngdi niðurstöðu sjálfstæðismanna um að selja í OR og hreinsa út úr yfirstjórninni, en það hafi ekki varðað samrunann. "Ég sagði við þau: "Eitt er að vera loyal en annað fullkominn bjáni. Þið eruð búin að reka þetta mál allan tímann og hvert eruð þið komin?"
Eftir tvo til þrjá tíma biður hann um fundarhlé, fer með Óskari Bergssyni á skrifstofuna og kemur aftur fimmtán mínútum síðar með blað með sex punktum. Þar voru mörg atriði sem hann gat vitað að borgarfulltrúarnir gætu ekki fellt sig við, s.s. um að styðja samrunann aftur "í samræmi við fyrri stefnumótun" þó að eigendafundur yrði dæmdur ólögmætur. Einnig vildi hann að ekki yrðu borgarfulltrúar í stjórn REI, sem var einmitt það sem sexmenningarnir höfðu gagnrýnt.
Björn Ingi segir að þetta hafi verið tilraun til að ná niðurstöðu á fundinum, en það hafi ekki tekist.
Ekki náðist niðurstaða
Þegar klukkan er orðin 15.30 er orðið fyrirséð að ekki náist niðurstaða á meirihlutafundinum. Honum lýkur þannig að farinn er hringur, miklar tilfinningar eru í spilinu og viðstaddir lýsa skoðunum sínum á því hver staðan sé. Allir tala um nauðsyn þess að vinna saman, ná niðurstöðu og að vinna að því af heilindum.
Í lok fundar las Vilhjálmur ræðuna sem hann ætlaði að flytja til þess að ganga úr skugga um að allir væru sáttir. En það ríkti ekki traust. Óskar Bergsson hafði t.d. margsinnis spurt borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: "Eruð þið að tala við aðra?" Og Björn Ingi segir að fyrst hafi hann og borgarstjóri ætlað að hittast tveir, eins og oddvitar geri, en síðan stækkað hópinn og loks hafi allur hópurinn mætt. "Það benti ekki til að ríkti traust," segir hann. "Ég hef sagt að út af fyrir sig hefði verið með herkjum hægt að ná samkomulagi við Vilhjálm um að klára málið með einhverjum hætti. En mér fannst ekki skýrt hver hefði umboð fyrir hópnum - það var ekki borgarstjórinn."
Fleira hafi hangið á spýtunni, s.s. Gagnaveita Reykjavíkur, sem sjálfstæðismenn hafi viljað selja en hann ekki. "Sá ágreiningur var líka orðinn opinber." Björn Ingi verður þungur á brún. "Það getur vel verið að þau hafi svínbeygt Vilhjálm í málinu, en ég læt ekki svínbeygja mig."
En málin þróast með óvæntum hætti í sal borgarstjórnar, þar sem áhorfendabekkir voru þéttsetnir. "Það þurfti ekki "rocket scientist" til að átta sig á því að enginn úr minnihlutanum réðst á Björn Inga - fólk sem hafði úthúðað honum áður." Daginn áður hafði Svandís gefið út yfirlýsingu með gagnrýni á borgarstjóra fyrir að "fara á svig við lög og taka þátt í ósiðlegu atferli sem ofbýður fólki um allt land." Hún virtist ósátt við að sexmenningarnir tækju málið ekki lengra og sagði sátt sjálfstæðismanna "sátt um að viðhalda völdum Framsóknarflokksins í borginni."
Aukafundur í borgarstjórn
Í ljósi fundarhlés Ólafs F. Magnússonar í upphafi kjörtímabilsins má velta fyrir sér hvort fundarhlé Björns Inga og Óskars hafi haft svipaða þýðingu. Að minnsta kosti var það breyttur maður sem steig í pontu á aukafundi borgarstjórnar. Ekki þurfti annað en að "horfa yfir salinn" til að skynja að þreifingar væru í gangi, að sögn Hönnu Birnu, sem var forseti borgastjórnar og fylgdist með herlegheitunum. Hún fór fimm sinnum úr forsetastóli til að spyrja Vilhjálm hvort hann vissi hvað væri að gerast, m.a. eftir að Björn Ingi hafði gengið nærri sjálfstæðismönnum í ræðu sinni. "Það er verið að segja þér upp í beinni útsendingu!"
Þá kemur að einum furðulegasta þætti þessa máls. Borgarstjóri heldur því fram að Björn Ingi hafi sagt við sig að hann yrði að tjá sig með þessum hætti út af sínu baklandi. "Þetta er viðkvæmt fyrir mig persónulega." Og síðan hafi þeir ekki aðeins handsalað að þeir störfuðu saman af heilindum heldur fallist í faðma. En Björn Ingi er ósammála, segist hafa farið lasinn heim, aðeins talað við Vilhjálm í síma og því sé óhugsandi að þeir hafi faðmast. "Það á ekki við rök að styðjast. Ég lýsti yfir í lok fundarins að ég væri ósáttur og þetta er misskilningur hjá honum. Við töluðum saman í síma um kvöldið. Ég veit að hann átti samtal við Óskar Bergsson á fundinum. En það voru allir að tala sig saman um að finna lausn á málinu. Ég var mjög ósáttur eftir þennan meirihlutafund. Ég hugsaði með mér: "Það er mikið búið að gerast í þessu máli."
- Misskilur maður faðmlag?
"Það er búið að misskilja ótrúlega margt í þessu máli. Við töluðum saman í síma, en fundum enga lausn. Hann vissi að það væri ágreiningur, en ég hef sagt að ég hefði treyst mér til að loka honum með Vilhjálmi."
Meirihlutinn ætlaði saman í vinnuferð út af fjárhagsáætluninni í tvo daga á Hótel Rangá daginn eftir, en Björn Ingi sagðist vera svo slappur að hann treysti sér ekki út úr bænum. Í staðinn átti að halda vinnufund og "skilningsríku samstarfsmennirnir" sögðu: "Farðu bara heim og náðu þessu úr þér." Björn Ingi og Vilhjálmur ákváðu að hittast ellefu daginn eftir. Og eftir borgarstjórnarfundinn hittast borgarfulltrúarnir á skrifstofu Vilhjálms og lýsa áhyggjum sínum. Það verður til þess að Gísli Marteinn slær inn númer Björns Inga og réttir Vilhjálmi símann. Þar fullvissar Björn Ingi hann um að þeir muni leysa þetta í sameiningu. Guðlaugur Þór Þórðarson hringir líka í Björn Inga og er sagt að allt sé í góðu lagi.
Óttast um Björn Inga
Eftir að þau höfðu setið í klukkutíma hjá Vilhjálmi, rætt málin og fylgst með símtali hans og Björns Inga Hrafnssonar, sagði Vilhjálmur: "Farið þið bara heim að sofa. Við vinnum fjárhagsáætlun á morgun."
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Gísli Marteinn, Hanna Birna og Magnús Þór Gylfason fóru saman á Vínbarinn. Þar hittu þau fyrir tilviljun Sóleyju Tómasdóttur og Svandísi Svavarsdóttur, settust með þeim og tóku tal saman. En það er til marks um "andvaraleysið" sem eignað er sjálfstæðismönnum að ekki var myndaður nýr meirihluti.
En spurning vaknar hvort Björn Ingi hafi átt í slíkum samræðum?
"Ég var ekki búinn að eiga eitt einasta orð við þau um það," fullyrðir hann.
- Og ekkert í gegnum aðra?
"Nei, nei, en ég veit ekki hvað aðrir voru að tala um. Ég geri ráð fyrir að allir hafi verið að spekúlera í niðurstöðunni. Og það var mikið spekúlerað eftir borgarstjórnarfundinn. Ég heyrði svo sem alveg í Alfreð [Þorsteinssyni] og fleirum og þeir töldu að komin væri mikil gjá. Svo heyrði ég ótal samsæriskenningar um miklar viðræður milli Sjálfstæðisflokksins og annarra."
Björn Ingi mætir ekki til borgarstjóra og heldur ekki á fyrirhugaðan fund með Óskari, Vilhjálmi, Gísla Marteini og Hönnu Birnu klukkan tólf. Kortér yfir tólf hringir Vilhjálmur og segir: "Hann er ekki kominn." Um leið átta borgarfulltrúarnir sig á því að hann sé farinn annað. "Ímyndaðu þér ástandið í Höfða þegar fulltrúarnir tínast inn einn af öðrum og meldingar berast um viðræður við aðra flokka""
Það er eftir þetta sem SMS-skilaboð fara frá sjálfstæðismönnum til hinna flokkanna, þar sem þeir reyna að komast aftur inn í atburðarásina. Eitt á að hafa farið frá Þorbjörgu Helgu til Svandísar með skilaboðunum: "Til í allt án Villa". Á ákveðnum tímapunkti fóru skilaboð að berast inn á fund til oddvitanna og það merkilega var að ekkert pípti í símanum hjá Degi.
Pólitískt bálviðri
Embætti borgarstjóra hefur verið afar valdamikið í sögu Sjálfstæðisflokksins, jafnvel valdameira en embætti varaformanns, og það sýnir vel hverju sexmenningarnir stóðu frammi fyrir þegar þeir tóku slaginn. Færa má rök fyrir því að það hafi verið auðveldara fyrir Svandísi að mótmæla - það er jú það sem minnihluti gerir.
"Við hefðum aldrei getað lifað með því að afgreiða þetta mál með neinum hætti," segir Hanna Birna. "Við settum fótinn niður og okkur er núið um nasir að við höfum svikið eitthvað. Ef við hefðum tekið þátt í þessu, sem ég vil kalla mjög óeðlileg vinnubrögð, þá sætum við öll undir því. Þrátt fyrir hollustu gagnvart flokki og leiðtoga gátum við aldrei gert þetta. Ekkert okkar er ósátt við að hafa tekið þann slag."
Það sem gerir REI-málið sérstakt er ekki aðeins að inn í það blandast þungavigtarmenn úr viðskiptalífinu og landsmálunum. Innan allra flokka í borgarstjórn er ungt fólk með metnað til að vera í forystu í sínum flokki. Þess vegna skipta skammtímahagsmunir ef til vill ekki mestu máli heldur hver hefur burði til að standa af sér pólitískt bálviðri til lengri tíma - án þess að bogna.
Og innan OR eru ekki allir á eitt sáttir með atburðarásina. Flestir viðurkenna að farið hafi verið of geyst. "Í svona viðskiptum gildir aðeins eitt: "Make it everybody's baby,"" segir einn starfsmaður við blaðamann. "En þarna var komið með krógann, blóðugan og slímugan, honum skellt á borðið og sagt: "Þið eruð pabbarnir.""
Kaupréttir hjá Geysi og Enex
MIKIL umræða hefur skapast um kaupréttarsamninga sem gera átti við starfsfólk REI og Orkuveitu Reykjavíkur. Hugmyndir um slíkt kvikna þegar Jón Diðrik Jónsson kemur sem ráðgjafi að REI til þriggja mánaða og kaupir nýtt hlutafé fyrir 30 milljónir á genginu 1,278. Þá byrja aðrir starfsmenn að velta þessum hlutum fyrir sér, að sögn Hjörleifs B. Kvaran, forstjóra OR.
Þegar unnið er að samruna við Geysi Green Energy í framhaldi af því kemur það upp að bæði innan GGE og Enex, sem er í 100% eigu REI eftir samrunann, hefur starfsfólk getað keypt hlutafé. Þegar Ásgeir Margeirsson var keyptur yfir til GGE gat hann keypt sig inn í Geysi og er félag Ásgeirs, BAR Holding, skráð fyrir 0,8% í félaginu.
En GGE er ekki í meirihlutaeigu sveitarfélaga og því ekki undirorpið óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Þegar kaupréttarsamningar voru gerðir hjá öðru fyrirtæki í orkuútrásinni í byrjun sumars, þá voru eigendur þess hinsvegar að tæplega helmingi hlutafjár Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, auk þess sem Hitaveita Suðurnesja var stór eigandi. Síðan þá hefur Landsvirkjun selt sinn hlut í Enex til GGE.
Gerðir voru kaupréttarsamningar við framkvæmdastjóra upp á 18 milljónir að nafnvirði, fjármálastjóra upp á 9 milljónir og fjóra lykilstjórnendur upp á 3 milljónir. Réttindin eru í þremur áföngum til þriggja ára og er miðað við gengi bréfanna 2 á fyrsta árinu en gengi næstu tveggja ára tekur mið af útboðsgengi. Kaupréttartímabilið hófst í júní.
_________________________________________________________
Kapphlaupið um Hitaveitu Suðurnesja
ÞEGAR ríkið seldi 15,2% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja var sett það skilyrði að Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur mættu ekki taka þátt í útboðinu. Það var ekki fyrst og fremst vegna einkavæðingarsjónarmiða, eins og haldið hefur verið fram, enda var búið að breyta Hitaveitunni í hlutafélag og sameigendurnir, sveitarfélögin, höfðu forkaupsrétt. Ástæðan var hinsvegar sú að stjórnvöld höfðu ráðfært sig við Samkeppniseftirlitið og það lagst gegn því af samkeppnisástæðum að stóru orkufyrirtækin, Landsvirkjun og OR, tækju þátt.
Úr varð að Geysir Green Energy var með hæsta tilboðið í hlutinn og upphófst brátt mikil samkeppni við OR um kaup á hlut sveitarfélaganna, en þau neyttu öll forkaupsréttar. Samkeppniseftirlitið hefur verið með málið til skoðunar, hvort Orkuveitan megi vera stór eigandi í Hitaveitu Suðurnesja. Og gildir það einnig umREI, hvort sem verður af samruna við GGE eða ekki.
Of langur tími í úrskurði
Mikillar óþolinmæði gætir í garð Samkeppniseftirlitsins innan stjórnkerfisins. Það sé ótrúlegt hversu langan tíma taki að vinna úrskurði. Eftir að stjórnvöld hafi ráðfært sig við eftirlitið og farið að ráðum þessum að hleypa stóru orkufyrirtækjunum ekki að vegna samkeppnissjónarmiða, þá taki mánuði að skoða málið þegar það gerist, án þess að skila nokkurri niðurstöðu.
"Þeir eru ennþá með þetta til skoðunar. Þetta ferli hlýtur að vekja þá spurningu á hvaða forsendum þeir hafi ráðlagt stjórnvöldum í upphafi."
Upphaflega keypti ríkið út sveitarfélögin í Landsvirkjun og var með sölu á hlutnum í Hitaveitu Suðurnesja að einfalda stöðuna á orkumarkaðnum hvað ríkið varðar. Enda er Hitaveita Suðurnesja stór orkuframleiðandi sem á í samkeppni við ríkisfyrirtækið Landsvirkjun og einnig orkudreifingaraðili sem á í samkeppni við ríkisfyrirtækið RARIK. Til skamms tíma átti OR raunar 45% hlut í Landsvirkjun. "Og svo áttu þau að keppa!"
Eignir HS eru fyrst og fremst tvö orkuver, Reykjanesvirkjun og Svartsengi, sem bæði nýta jarðgufu, ásamt vatnsréttindum á Reykjanesskaga og virkjanaleyfi, m.a. við Trölladyngju, Sandfell og Krýsuvík. Eflaust voru það líka óefnislegu verðmætin sem freistuðu Geysis, þekkingin og orðsporið, því tilboðið var rúmir 7,6 milljarðar, langt yfir matsverði Capacent, sem hljóðaði upp á 3,1 milljarð, og næsta tilboði, sem var 4,7 milljarðar.
Orkuveita Reykjavíkur hóf baráttuna um Hitaveitu Suðurnesja í vor með því að fá sveitarfélög til að nýta forkaupsréttinn. Í slagnum sem fylgdi seldu nánast öll minni sveitarfélögin hluti sína til OR og GGE. Í samruna REI og GGE setti OR svo hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja inn í sameinað fyrirtæki og varð REI stærsti hluthafinn með 48%, en einnig fylgdi forkaupsréttur á hlut Hafnarfjarðar. Við þennan gjörning varð forkaupsréttarákvæði sveitarfélaganna aftur virkt og á eftir að reyna á hvort þau nýta það, enda óvíst að til þess þurfi að koma ef samruninn ógildist. Og áhrifamikill sjálfstæðismaður gagnrýnir það sem hann kallar rugl og vitleysu: "Hugsaðu þér, undir forystu sjálfstæðismanna er ríkið að fara út úr orkufyrirtæki til þess að einfalda strúktúr og gæta samkeppnissjónarmiða, þá fer Orkuveitan inn undir forystu sjálfstæðismanna í borgarstjórn!"
Stórvarasöm stefna
Á það er bent að salan á hlut ríkisins hafi farið fram á opinn hátt, en baktjaldamakkið hafi byrjað hjá OR, ógagnsætt ferli og samningar þar sem útvöldum einstaklingum og félögum hafi verið boðið að samningaborðinu. Eftir sem áður sé málið í höndum sveitarfélaganna. Þau haldi á meirihlutanum, jafnvel þótt af samruna REI og GGE verði og Samkeppniseftirlitið leyfi það.
Innan REI töldu menn Hitaveitu Suðurnesja viðkvæmasta málið í samrunanum enda lá mestur undirbúningur í því. "Við höfum aldrei sóst eftir veitustarfsemi þessara fyrirtækja," segir Hafliði Helgason upplýsingafulltrúi. "En ef horft er á orkuver sem framleiðir beint fyrir stóriðju, þá er það einskonar útflutningur og fellur vel að okkar stefnu."
Þegar kaup Orkuveitunnar á viðbótarhlut í Hitaveitu Suðurnesja komu til umræðu 3. ágúst í borgarráði kom fram að það væri afdráttarlaus afstaða Vinstri grænna að grunnþjónusta samfélagsins skyldi vera á hendi ríkis og sveitarfélaga. Með hluthafasamkomulagi í sumar um að einkaaðilar, GGE, eignuðust 32% í Hitaveitu Suðurnesja væri "lýðræðislegu aðhaldi innan Hitaveitu Suðurnesja stefnt í uppnám og almannahagsmunir fyrir borð bornir". Aðrir flokkar, Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, sameinuðust hinsvegar í bókun um að aðkoma Orkuveitunnar hefði komið "í veg fyrir að Hitaveita Suðurnesja færðist að meirihluta í hendur einkaaðila".
Og afstaðan er hörð í bókun Sóleyjar Tómasdóttur, Vinstri grænum, og forvitnileg í ljósi stöðu flokkssystur hennar Svandísar Svavarsdóttur: "Með þessari yfirlýsingu er vakin athygli á stórvarasamri stefnu og hættulegu fordæmi og þess krafist að ekki verði hróflað við grunnþáttum samfélagslegrar þjónustu. Borgarráði ber að beita sér í þágu almennings og þar með leggjast gegn einkavæðingu orkugeirans. Í því ljósi ættu borgaryfirvöld að hafa frumkvæði að umræðu á milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig megi tryggja að orkufyrirtæki haldist í almannaeigu en gangi ekki kaupum og sölum á hlutabréfamarkaði eins og nú stefnir í varðandi Hitaveitu Suðurnesja."
________________________________________________________
Einkaframtakið og Orkuveitan
Það er ekkert nýtt að Reykjavíkurborg leiti samstarfs í orkumálum við helstu viðskiptajöfra þjóðarinnar. Árið 1909 var samið við félag sem tveir þekktir athafnamenn, Thor Jensen og Eggert Claessen, voru í forystu fyrir. Það fékk einkarétt á að reisa gasstöð til gas- og rafmagnsframleiðslu í Reykjavík næstu 25 árin.
Þegar til átti að taka treysti félagið sér ekki til að koma fyrirtækinu á fót. Ekki tókst að útvega fjármagn til verksins sökum fjárkreppu í nálægum löndum, að því er segir í bók Sumarliða R. Ísleifssonar, Í Straumsambandi. Leiddi það til þess að félagið var leyst frá samningum og lét einkaleyfið af hendi.
Frægt er orðið risarækjueldi OR sem nýlega var lagt niður. Einnig voru settir fjármunir í Feygingu á Þorlákshöfn, sem átti að vinna með hör. Reist var veglegt hús, komið upp vélum og lagt inn hlutafé, en reksturinn komst aldrei almennilega af stað. Nú hefur verið ákveðið að hætta við og selja húsið.
Og Þórsbrunnur var stofnaður um Vatnsútflutning með Vífilfelli og Hagkaupum. Til þess að geta selt "uppsprettuvatn" til Bandaríkjanna varð verksmiðjan að vera við upptökin eða með beina tengingu þangað, þannig að lögð var leiðsla úr sérstökum brunni að Vífilfelli. Þegar fyrirtækið lagði upp laupana keypti Ölgerðin reksturinn og fylgdi þá með brunnur og sérleiðsla frá OR, sem verður að teljast óvenjuleg einkavæðing á auðlindinni. Undir samninginn skrifaði Jón Diðrik Jónsson,þá forstjóri Ölgerðarinnar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:23 | Facebook
Athugasemdir
Það er orðið framorðið en ég ætla að lesa þetta á morgun, orð fyrir orð. Maður þarf að vera vel vakandi til að meðtaka svona mergjaða atburðarás.
Það verður gaman í aðdraganda næstu kosninga og öruggt að margt miður félegt verður rifjað upp!
Sigurður Hrellir, 28.8.2008 kl. 01:22
Uff... Þvílíkl lesning!
Kjartan Pétur Sigurðsson, 28.8.2008 kl. 04:46
Já, úff... þvílíkt lesning!
Nú er að halda kyndlinum lifandi, og minna fólk á, fyrir næstu kosningar..... En við þurfum að minna fólkið á, á réttum tíma.... svona blanda okkur í allt suðið sem verður rétt fyrir kosningar.
Einar Indriðason, 28.8.2008 kl. 08:57
Þetta er mergjað, eins og krakkarnir segja. Þarf að lesast aftur og betur. Takk fyrir áminninguna og munum að halda þessu á lofti þegar líður að kosningum. Þetta Feygingar-hneyksli sem við höfum horft uppá hér á mínum slóðum hefur farið ótrúlega hljótt t.d., þar liggja gríðarlegar fjárhæðir frá sveitarsjóði.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 28.8.2008 kl. 10:07
Þetta er náttúrulega alveg ótrúleg lesning, en það er eitt sem mér finnst hvergi hafa komið fram í umræðunni um þetta plott, og það er að skv. fundargerðum Einkavæðingarnefndarinnar, er að sama dag og tekinn er ákvörðun um að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, jafnframt erindi á borðinu hjá þeim frá Glitni, þar sem Glitnir falast eftir að kaupa þann hlut. Kannski að það hafi eitthvað haft með ákvöðunina að gera
Hannes Friðriksson , 28.8.2008 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.