11.9.2008
Að míga í mengaðan sjó... eða skó
Þær fregnir bárust í fyrrakvöld að olíuskip hefði tekið niðri í innsiglingunni í Skutulsfirði á leið inn í höfnina á Ísafirði. Í fréttum Stöðvar 2 var sagt að minnstu hefði munað að alvarlegt mengunarslys hefði orðið, en sem betur fer hafi tekist að afstýra því með snarræði lóðsins.
Þar sem ég hef skrifað talsvert um fyrirhugaða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum og möguleg slys henni tengd rann mér blóðið til skyldunnar og ég hóf að kanna málið. Í skipinu voru 3 milljónir lítra af olíu. Það hefði valdið gífurlegu tjóni ef gat hefði komið á skipið og olían lekið út.
Til að geta borið skipið saman við önnur olíuflutningaskip þurfti ég að vita um burðargetu þess og hringdi í Siglingastofnun við Vesturvör í Kópavogi. Þar lenti ég á bráðskemmtilegum manni, bar upp erindið og fyrr en varði var ég komin í djúpar samræður um frumskóg mismunandi mælieininga á stærðum skipa að gefnum hinum og þessum forsendum. Í ljós kom að þrátt fyrir að vera viðræðuhæfur í betra lagi um útreikninga á stærð skipa var þetta ekki hans sérsvið en hann komst þó að niðurstöðu - án ábyrgðar. Hann ráðlagði mér að hringja í þeirra mann á Ísafirði til öryggis og það gerði ég. Sá lét nú hlutina ekki vefjast fyrir sér og svaraði um hæl: 4.058 tonn. Minn maður í Vesturvör hafði verið glettilega nálægt því.
En áður en lengra er haldið skulum vil líta á frétt Stöðvar 2 af málinu. Ég hef fengið staðfest að 3 milljónir lítra sé rétt tala.
Eins og allir vita koma hingað til lands fjölmörg olíuskip á hverju ári, færandi varninginn heim. Í Spegilsviðtali þann 28. febrúar sl. sagði Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri hjá N1, að stærstu skip sem hingað koma séu um 25.000 til 30.000 tonn. (Til skýringar skal tekið fram að tonnafjöldi er miðaður við burðargetu skipsins og ekki tekið tillit til eðlisþyngdar farmsins.) Magnús giskar á að þau skip sem kæmu til landsins í tengslum við olíuhreinsistöð yrðu um 100.000 tonn, en tekur fram að hann þekki ekki nákvæmlega til málsins.
Semsagt - 4.058 tonna skip með 3 milljónir lítra af olíu hefði hæglega getað valdið miklu mengunarslysi og gríðarlegu tjóni m.a. á þorskeldi og lífríki hafsins í Skutulsfirði og út í Ísafjarðardjúp. Jafnvel á miklu stærra svæði eftir því hvernig straumar eru á staðnum. Hvaða tjóni geta þá slys á 100.000 tonna skipum valdið sem sigla til landsins um eitt hættulegasta hafsvæði í heimi. Rifjum upp umfjöllun Kompáss frá 29. apríl sl. sem ég birti fyrst hér. Þar er fjallað um hættuna á olíuslysum og mögulegar afleiðingar þeirra. Hlustið vel á Gísla Viggósson, forstöðumann hjá Siglingastofnun.
Falleg framtíðarsýn, eða hitt þó heldur. Ég skil ekki fólkið sem lætur sér detta í hug að reisa olíuhreinsistöð á Íslandi, hvað þá á Vestfjörðum. Ég skil ekki fólkið sem lætur sér detta í hug að börnin þeirra og barnabörnin langi til að vinna í olíuhreinsistöð. Ef það er þá hugsunin á bak við þetta hjá þeim. Ég skil ekki fólkið sem er tilbúið til að fórna hreinni ímynd Íslands og ómetanlegri náttúru og fuglalífi fyrir skammtímagróða. Ég skil ekki lög sem heimila fámennri sveitarstjórn með 345 atkvæði á bak við sig að taka þvílíka ákvörðun í trássi við - sem ég er sannfærð um - eindreginn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Ég skil ekki ennþá málflutning annars aðalhvatamannsins að olíuhreinsistöðinni sem ég fjallaði um hér.
Ég kalla eftir skoðanakönnun á landsvísu þar sem spurt yrði hvort fólk vilji olíuhreinsistöð - hvort sem er í Arnarfirði eða annars staðar á landinu - og þá áhættu sem því fylgir að risastór olíuskip sigli til landsins og frá því allan ársins hring í öllum veðrum. Við eigum landið okkar öll - saman - og eigum því öll rétt á að hafa skoðun á því hvernig farið er með það, hvort sem um er að ræða uppistöðulón á hálendinu eða í byggð, álver og virkjanir á suðvesturhorninu, flugvöll í Vatnsmýrinni eða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.
Og af því eiturefnið brennisteinsvetni hefur verið í umræðunni undanfarna daga vegna gróðureyðingar af völdum þess við Hellisheiðarvirkjun minni ég á það sem kom fram í þessum pistli og lesa má nánar um hér: "Brennisteinsvetni eða vetnissúlfíð (H2S) er litlaus, eitruð gastegund. Megn lykt er af brennisteinsvetni þó magn þess sé lítið í andrúmsloftinu, það er brennisteinsvetni sem veldur lykt af fúleggjum og jöklafýlu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulsám. Lyktin hverfur hins vegar þegar styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti eykst og það verður lífshættulegt. Það eykur einnig á hættu að brennisteinsvetni er þyngra en andrúmsloftið og getur því lagst í dældir eða safnast fyrir í botnum á geymum og tönkum..." Þar segir ennfremur: "Um 10% af losun á H2S í heiminum er af mannavöldum. Í iðnaði er það einkum í olíuhreinsunarstöðvum. H2S finnst þar sem brennisteinn kemst í samband við lífrænt efni, sérstaklega ef um er að ræða hátt hitastig." (leturbr. mínar)
Og ég skil ekki, og mun aldrei skilja, málflutning aðalleikaranna í þessu myndbandi - sællar minningar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.9.2008 kl. 03:27 | Facebook
Athugasemdir
Vetrarveður og vélarvana risaolíuskip að reka uppað Látrabjargi....það yrði fjör.
Haraldur Davíðsson, 11.9.2008 kl. 03:15
Amen.
Einar Indriðason, 11.9.2008 kl. 08:22
það er skiljanegt að margir sjái þessari hreinsistöð sem slíkri ekki allt til foráttu og þá sér í lagi þeir sem ekki eru kunnugir staðháttum. En með innfædda vestfirðinga, málsmetandi menn sem vilja láta taka sig alvarlega svo sem Halldór bæjarstjóra og fleiri af hans kaliberi, þá þeir mæla olíhreinsistöð á Vestfjörðum bót þá hætti ég að skilja. Á mínum stutta sjómansferli reyndi ég hvað er að vera á þessum slóðum í vondu veðri, sjólagi þar sem ein bestu hafskip seinni tíma, íslenskir togarar gerðu ekki mikið meira en að halda sjó. Slík veður gerir á þessum slóðum oft á ári og þá án lítils fyrirvara á stundum. Að stefna á þetta svæði 160 olíuskipum á ári samkv. áætlunum um þessa olíuhreinsistöð er í mínum huga fáránlegt, sér í lagi með tilliti til þess að Íslendingar standa í samningaviðræðum um færslu siglingaleiða fjær landinu til að mynda fyrir Reykjanes, en þetta atriði kom meðal annars Björn Bjarnason inná fyrir nokkru, og þá sem yfirmaður Landhelgisgæslu og lýsti áhyggjum sýnum hvað þetta varðar. Um veðraþol stórra olíuskipa hefi ég ekki þekkingu og væri gaman að heyra álit kunnugra þar um.
Kveðja,
Geir Guðjónsson.
Geir Guðjónsson, 11.9.2008 kl. 09:01
Eitt stórt olíuskip hefur rekið á land hér við strendur og strandað varanlega.
Þetta skip "Clam" var ( http://simnet.is/svidarsson/clam.htm) um 12 þús. tonn varð vélavana í Reykjanesröstinni og rak uppí klettana skammt austan við Valahnúk á Reykjanesi í slæmu veðri og miklum sjó.. Sem betur fer var skipið tóm . Það hafði losað farminn inni í Laugarnesi daginn áður. Þetta er stærsta skip sem strandað hefur við Íslandsstrendur. Ef það hefði verið fulllesta af olíu hefði hér orðið gífurlegt mengunarslys og það við gjöfulustu fiskimið og uppeldisstöðvar fisks við landið- við sluppum fyrir horn þar. Að beina 100.000 tonna olískipum í miklum mæli inná firði Vestfjarðanna á öllum árstímum er algjört glapræði. Þar verður eitt versta sjólag sem umgetur við Íslandsstrendur. Eitt olíuslys og gjöful fiskimið yrðu ónýt í áratugi ....
Sævar Helgason, 11.9.2008 kl. 10:17
Ekki ætla ég að taka afstöðu til olíuhreinsunarstöðvar, en hafi það verið rétt hjá Stöð 2 að um borð hafi verið 3000 lítrar af olíu (sem ég efast um) þá er ekki skrítið að vélin hafi stöðvast (vegna olíu skorts). En varðandi mengunarslys af völdum olíu þá hefur komið í ljós að aðgerðir til að hreinsa upp gera einungis illt verra, að hemja útbreiðsluna ef hægt er gerir gott einnig að ná því upp sem flýtur á sjó eða vatni, en hreinsun með efnum kemur í veg fyrir að náttúran reddi málin sjálf.
Einar Þór Strand, 11.9.2008 kl. 10:17
Ég fékk tölvupóst frá Guðmundi M. Kristjánssyni, hafnarstjóra á Ísafirði og hann sagði að í skipinu hefðu verið 3 milljónir lítra af blönduðu eldsneyti, ekki 3 þúsund eins og fram kemur í fréttinni - svo það er Edda sem er með rétta tölu. Þar af eiga 1,2 milljónir lítra að fara í land á Ísafirði. Hann leiðrétti líka orðfærið hjá mér - þ.e. að tala um stærð í stað burðargetu.
Ég lagaði pistilinn samkvæmt athugasemdum Guðmundar.
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.9.2008 kl. 11:08
Það er mikilvægt að hafa mælieiningarnar á hreinu. Á undan fréttinni nefndi þulur 3 milljónir lítra en fréttamaður sagði 3 þúsund lítrar. Olíuflutningaskip flytja farm sem mældur er í tonnum og réttast hefði verið að segja 3 þúsund tonn sem er reyndar það sama og 3 milljónir lítra. Hvað sem öðru líður er þetta mjög lítið magn miðað við farm 40-50.000 tonna skipa, hvað þá 100.000 tonn.
Að mínu mati jaðra áform Ólafs Egilssonar og Hilmars Foss við algjöra geðveiki og hinni samstarfsfúsu bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur einfaldlega verið afhent vald sem hún hvorki kann né ætti að geta farið með. Hins vegar er erfitt að afþakka svona boð þegar fjárfestingu upp á 300 milljarða er veifað þó svo að litlar sem engar upplýsingar liggi fyrir um það hvaðan peningarnir koma.
Ragnar Jörundsson bæjarstjóri sagði að 99,9% líkur væru á því að olíuhreinsistöð liti dagsins ljós á Vestfjörðum. Ég segi að það má aldrei gerast!
Sigurður Hrellir, 11.9.2008 kl. 11:39
Friðum Vestfirði fyrir vestfirðingum..
Óskar Þorkelsson, 11.9.2008 kl. 17:13
Ansi er ég hreint hrædd um að fyrrverandi sendiherra í Rússlandi skuldi einhverjum greiða...
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 11.9.2008 kl. 20:52
Bífræfnir leppar rússnesskra auðjöfra ætla að fórna svona einum dal fyrir málstað skólstæðinga sinna..
Þetta má aldrei gerast og svona gjörningur stappar nærri l.......ráði. En ég veit að þetta verður aldrei... vitinu verður komið fyrir þá eða þeir stöðvaðir endanlega.... ef ekki stjórnvöld þá þjóðin
Jón Ingi Cæsarsson, 11.9.2008 kl. 21:34
... já VIÐ fólkið í landinu verðum að rísa upp á afturlappirnar sem aldrei fyrr... segi eins og Sigurður Hrellir... það má aldrei gerast...
... en getur það virkilega verið að 2-3 geti barið svona vitleysu í gegn... er þetta virkilega svona einfallt?
Brattur, 11.9.2008 kl. 22:38
Ótrúlegustu hlutir geta orðið afar einfaldir,...ef það er peninguríðí...
sigurvin (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 23:45
Ég býst við að þetta með olíuhreinsunarstöðina sé eins og með stóriðjuna. Einhvers staðar verða vondir að vera. Síðan verðum við að ákveða hvort sá vondi fái pláss í bakgarðinum okkar eða þurfi að leita sér að vistarveru annars staðar. En verum alveg viss, hann fær einhvers staðar inni.
Ég var á olíuskipi í tvö sumur fyrir 30 árum eða svo. Hún var nú ekki til fyrirmyndar umgengni okkar við náttúru landsins. Olíumenguðum sjó dælt í stórum stíl í sjóinn og skipti þá ekki megin máli hvar við vorum. Þó var þess gætt að vera ekki of nálægt landi. Mesta mengunin var þegar verið var að flytja svartolíu.
Annars skil ég alveg þig, Lára, sem leiðsögumann, að vilja ekki fá olíuhreinsistöðina inn í nær óspiltan fjörðinn. Ég er sjálfur í leiðsögunámi núna og vil gera allt sem hægt er til að vernda náttúru landsins svo eitthvaðverði eftir fyrir komandi kynslóðir að skoða. Olíuhreinsistöð í Arnarfirði eða miðlunarlón á verndarsvæði, þetta eru allt hlutir sem stinga í stúf við þá mynd sem við viljum gefa ferðamönnum af landinu okkar. Nú er í gangi vinna við rammaáætlun um virkjanir, sem er hið besta mál, en spurningin er hvort ekki þurfa aðra rammaáætlun um möguleg stóriðnaðarsvæði.
Marinó G. Njálsson, 12.9.2008 kl. 09:34
Ég skil þetta ekki heldur!
Pabbi minn talar stundum um að koma til Íslands á skútu frá Svíþjóð. Hann er mikill áhugamaður um skútur og er allt sumarfríið á skútunni sinni. En þegar hann talar um að sigla hingað þá segi ég þvert neí - að sjálfsögðu er gaman að fá þau í heimsókn, en EKKI á skútunni. Mér finnst það alltof varasamt, mörg slys hafa átt sér stað á mun stærri skipum, hvað þá á lítilli skútu ef vont veður skellir á.
Ég hélt að ALLIR íslendingar gerðu sér grein fyrir slysahættu í kringum Íslands strendur og gætu sett hana í samhengi við afleiðingar olíuhreinsistöðvar. En raunin virðist vera önnur...
Petra Mazetti (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 19:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.