Spillingarbælið Ísland

Ég hef aldrei skilið af hverju Ísland mælist svo óspillt hjá Transparency International sem mælir spillingu í stjórnsýslu 180 þjóða heims. Við vorum í 7. sæti síðast yfir MINNSTA spillingu, þar áður í 6. sæti og höfðum þá reyndar hrapað úr því fyrsta. Ég skrifaði um spillingu t.d. hér, hér, hér og hér. Reyndar um lögbrot ráðamanna líka.

Af nógu er að taka þegar spilling er annars vegar í stjórnsýslunni og víðar á Íslandi. Í dag gekk tölvupóstur ljósum logum milli manna og bloggsíður voru undirlagðar af efninu. Staðfest var í kvöldfréttum Ríkisútvarps og beggja sjónvarpsstöðvanna að efni tölvupóstsins ætti við rök að styðjast: Kaupþing hafði afskrifað skuldir valinna starfsmanna, væntanlega skuldir sem þeir höfðu komið sér upp vegna kaupa á hlutabréfum í bankanum. Þetta gerðist rétt fyrir hrun bankanna. Upphæðin er sögð vera um 50 milljarðar, peningar sem við hin þurfum að borga því verðmæti bankans lækkaði auðvitað sem þessu nam. Spilling? Ekki spurning. Lögbrot? Örugglega.

Þúsundir Íslendinga eru með útistandandi lán í bönkunum, fjöldi fólks átti hlutabréf í þeim og hafði jafnvel veðsett eignir til að kaupa þau. Þetta fólk fær væntanlega ekki að afskrifa skuldirnar þótt eignin sé töpuð. Ég er með húsnæðislánið mitt í Kaupþingi og það hefur hækkað um nokkrar milljónir á skömmum tíma þótt það sé í íslenskum krónum en ekki erlendri mynd. Það er um það bil að verða mér ofviða. Ætli ég geti fengið það afskrifað hjá bankanum?

Rannsókn er hafin á starfsemi gömlu bankanna þriggja. Það á að vinna skýrslu um þessa banka og kanna hvort ástæða sé til lögreglurannsóknar á starfsemi þeirra síðustu mánuðina fyrir hrunið. Eins og sést á dæminu hér að ofan er svo sannarlega ástæða til þess. Til starfans valdi Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara og Boga Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknara. Svo "óheppilega" vill hinsvegar til að sonur Valtýs er m.a. forstjóri Exista, aðaleiganda gamla Kaupþings og sonur Boga m.a. forstöðumaður Stoða, stærsta hluthafa gamla Glitnis. Eru þeir Valtýr og Bogi vanhæfir til starfans? Að sjálfsögðu! En þeim finnst það ekki. Spilling? Pottþétt.

Maður gerir vel við vini sína, eða hvað? Hvað er rúm milljón á mánuði á kostnað Reykvíkinga? Það er að minnsta kosti svolítið minna en andvirði 500 milljónanna af peningum Reykvíkinga sem OR samdi um að borga Sveitarfélaginu Ölfusi gegn greiðvikni í skipulags- og byggingamálum vegna virkjana. Spilling? Það er nokkuð ljóst.

Augu heimsins hvíla á okkur. Erlendir fjölmiðlar fylgjast grannt með hvað hér er að gerast og hvernig tekið er á því. Aðgerðarleysi stjórnvalda hefur vakið furðu og þá einkum að enginn hafi verið látinn sæta ábyrgð, ekki einu sinni aðalbankastjóri Seðlabankans sem hæðst er að fyrir vanhæfni um víða veröld. Maðurinn sem gaspraði um Rússalánið og lýsti því yfir að ekkert yrði borgað af erlendum skuldum bankanna. Nú eiga tveir ríkissaksóknarar að rannsaka m.a. syni sína. Hvar í veröldinni myndi þetta vera liðið?

Nafna mín Júlíusdóttir sagði: VÖNDUM OKKUR. Ég tek undir með henni og hvet fólk eindregið til að kíkja á þessa bloggfærslu hjá Bylgju, sem ég sá vísað í hjá Kristjönu, bloggvinkonu. Þvílík sjálfsblekking í gangi þarna! Eða trúðu þeir þessu kannski?

Mbl. 2. nóv. 2008 - Lára V. Júlíusdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ár & síð

Þú varst fín í Silfrinu í gær en svo ég geri tilraun til að svara spurningu þinni í byrjun innleggsins: Þeir eru ekki að leita að svona úrkynjaðri útnáraspillingu vegna þess að hún er nær óþekkt í stærri samhengjum.

Ár & síð, 3.11.2008 kl. 23:11

2 identicon

Gerum kröfu um alþjóðlegar rannsóknarnefndir. Við sem komum saman á laugardag til þess að mótmæla. Síngjarnir og heillum horfnir fulltrúar okkar á Alþingi munu ekki gera það að eigin frumkvæði. Þeir geta hreinlega ekki horfst hjálparlaust í augu við það vantraust sem þeir hafa unnið til hjá almenningi. Sjáið bara ræfildóminn í sambandi við eftirlaunaósómann.

Enn og aftur:

Við eigum að fá “stórt erlent nafn”, t. d. Joseph Stiglitz, og bjóða honum að velja sér samstarfshóp til að leggja mat á stjórn peningamála á Íslandi, frá ca. 2001 þegar krónan var sett á flot. Í því fælist að meta framgang einstakra stofnana og ráðuneyta, embættismanna og ráðherra.

Líka ætti fá alþjóðlega rannsóknarnefnd - svipað samsetta - til þess að gera úttekt á starfsháttum bankanna frá því þeir voru einkavæddir.

Enginn mun treysta innlendum rannskóknarhópum í þessum efnum. Þeir myndu aðeins vekja enn meiri úlfúð og tortryggni.

Fjárglæframenn, vanhæfir embættismenn og stjórnmálamenn hafa lagt byrðar á almenning, byrðar sem þeir sjálfir ættu með réttu einir að bera. Krafa almennings um óháða erlenda rannsókn á þess vegna að vera ófrávíkjanleg. Reisum hana.
 

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:19

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hvað kemur upp á morgun?   Þetta virðist engan enda taka.

Hólmdís Hjartardóttir, 3.11.2008 kl. 23:19

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Óskammfeilnin er slík að hún mælist ekki. Ráðamenn eru búnir að sitja svo lengi við þá iðju sína að gæta sérhagsmuna að þeir fatta ekki lengur hvað orðið þjóðarheill þýðir.

Menn hafa misnotað "ofurhlýðni" íslendinga.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.11.2008 kl. 23:23

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Dómsmálaráðherra sló ekki vindhögg í spillingarpottinn þegar hann valdi á Valtý og Boga. Svo ef rannaska þarf fjármálaeftirlitið er upplagt að fá Jón Magnússon hjá Frjálslyndum í það.

 Hvort þetta er kallað útnáraspilling eða eitthvað annað, þá er alveg víst að taka þarf verulega til í okkar litla þjóðfélagi. Við þekkjum sjálfsagt öll einhver dæmi úr okkar nærumhverfi sem eru af sama toga. Við þurfum líka verulega hugarfarsbreytingu inn í samfélagið og það þarf að tala um þessa hluti án þess að vera með skammir og skæting. Þannig málflutningur skilar ekki árangri.

Ég er ekki að tala um þína færslu Lára Hanna, heldur margar færslur sem ég hef séð undanfarið, oftast undir dulnefni, sem eru ekki sæmandi fólki með góða menntun og greind.

Það þarf að kryfja til mergjar margskonar hegðun þeirra sem telja sig "vera í aðstöðu til" að hygla, frændum, vinum, flokkssystkynum o.s.frv. hvort sem það er í stofnunum eða fyrirtækjum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.11.2008 kl. 23:31

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir samantektina.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.11.2008 kl. 23:31

7 Smámynd: Rauði Oktober

Maður er eiginlega kjaftstopp þó að maður hafi alltaf vitað að hér grasseraði spilling. Spillingin á Íslandi er núna komin á verra stig en í Nígeríu og Zimbabwe. Hún getur eiginlega ekki versnað. Haltu áfram með þínar góðu samamtektir. Þú ert eiginlega besti fjölmiðillinn í dag.

Rauði Oktober, 3.11.2008 kl. 23:42

8 Smámynd: Víðir Benediktsson

Nú reynir á hvort við búum í réttaríki eður ei.

Víðir Benediktsson, 3.11.2008 kl. 23:48

9 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Eins og talað út úr mínu hjarta! Ég verð alltaf alveg rasandi hissa (forbangsaður) þegar ég heyri af útkomu okkar úr könnunum á spillingu. Hvernig má þetta vera???

Heimir Eyvindarson, 4.11.2008 kl. 00:10

10 identicon

Hverjir og hvaða stofnanir hafa gefið TI upplýsingar til að byggja þetta mat sitt á? Setti alltaf spurningarmerki við þessar fréttir sem komu reglulega í fjölmiðlum. Annað blasti svo æpandi við manni.

Solveig (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 00:11

11 Smámynd: Hermann Bjarnason

Ég var eiginlega að bíða eftir þessari færslu. Eftir nærri tuttugu ár með sjálfstæðisflokknum og ekki mikið betri framsóknarflokki er samfélagið gjörspillt hvar sem litið er. Það er sama hvar við veltum steinum allsstaðar koma ormar undan. Spurning er hvaða ormahreinsunarlyf mun duga á þetta.

Hermann Bjarnason, 4.11.2008 kl. 00:16

12 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Svo taka þessi lög gildi um áramótin þannig ef það er bylting í farvatninu..mæli ég með að hún verði gerð fyrir jól.

Nú verður uppþot eða fjölmennar óeirðir brjótast út sem hafa haft eða gætu haft í för með sér líkamsmeiðingar eða stórfelld eignaspjöll og ekki verður með vissu bent á hinn seka eða hina seku og er þá lögreglu heimilt að handtaka hvern þann sem nærstaddur er og ástæða er til að gruna um refsiverða háttsemi.
90. grein Laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008 12. júní

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 4.11.2008 kl. 00:30

13 Smámynd: Sigurður Hrellir

Takk fyrir þessa færslu Lára Hanna. Hún ætti að vera skyldulesning í skólum og sem víðast.

Ísland var orðið eins og ávöxtur sem leit girnilega út en reyndist svo vera rotinn að innan.

Það hefur komið berlega í ljós hve úthugsuð skipting ráðuneita var að hálfu Sjálfstæðisflokksins. Þeir komu meira að segja formanni Samfylkingarinnar í þá eyðimerkurgöngu sem framboð til Öryggisráðs SÞ var.

Sigurður Hrellir, 4.11.2008 kl. 00:38

14 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ráðuneyta vildi ég sagt hafa.

Sigurður Hrellir, 4.11.2008 kl. 00:39

15 identicon

Þessi Kaupþingsuppákoma er augljóslega mál sem átti að þaga í hel. Stjórnmálamenn og opinberir eftirlitsaðilar léku aðalhlutverkin í þeirri þöggun. Nú á tímum er "litli bankamaðurinn" skeinuhættari yfirvöldum en nokkru sinni. Athygli vekur að "uppljóstrunin" kemur upphaflega frá einstaklingum en ekki starfsmönnum fjölmiðla, þeir virðast þó ætla að fylgja málinu vel eftir, það lofar góðu.

En hvað með öll hin málin sem stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar eru nú önnum kafnir við að þagga niður? Mun "litlum bankamönnum" takast að koma þeim uppá yfirborðið? Munu fjölmiðamenn reyna að velta steinum?

Spillingin hefur verið þjóðinni dýr. Sjálfstæðismenn hafa farið þar fremstir í flokki og framsókn fylgt sem skugginn. Einstaka mál hafa komið upp og um þau fjallað, en lítið sem ekkert hefur verið fjallað um spillingu sem þjóðfélagsvandamál. þú, Lára Hanna, talaðir hreint út í Silfrinu, fáir hafa haft þann kjark. Þú nefndir óhikað ástæðuna fyrir því að spillingin dafnar, - allt of löng stjórnarseta sama stjórmálaflokks. Fyrir ekki löngu hefði sjálfstæðisflokkurinn rokið upp og gelt sér til varnar, en nú hefur hann hægt um sig, og kemur engum á óvart.

Peista þetta úr bloggfærsunni sem þú vísar í, svo það fari ekki framhjá neinum.

En ef mesta framfaraskeið hagsögunnar endurspeglar mistök í hagstjórn, skulum við sjálfstæðismenn fúslega gangast við þeim.

Fjölmiðlanna að fylgja þessu eftir, en efast þó um að sjálfstæðisflokkurinn viðukenni nokkurntíman "mistök í hagstjórn" þó hann standi yfir rjúkandi rústum...ekki bara hagkerfisins heldur þjóðarbúsins í heild.

sigurvin (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 01:06

16 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þeirra viðbrögð við afleiðingum mistaka sinna var að nú væri ekki rétti tíminn til að finna sökudólga. Þeir vilja m.ö.o. fá frið til að athafna sig yfir rústunum. Þeir eru e.t.v. að vinna að rústabjörgun en útkoman virðist mér eingöngu miða að því að skapa svigrúm fyrir einhverja sérútvalda til að hirða það sem er nýtilegt úr rústunum.

Ef sjálfstæðisflokkurinn færi eftir því sem Geir sagði í ræðu sinni sem Lára Hanna vísar í og Sigurvin tekur tilvitnunina úr væri hann búinn að lýsa sig ábyrgan en það hafa þeir ekki gert. Mistökin sem þeir gerðu í hagstjórninni hefðu þeir að sjálfsögðu átt að viðurkenna með því að láta þá sem ábyrgðina bera sæta ábyrgð með því að víkja.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.11.2008 kl. 01:35

17 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Við megum kannski þakka kreppunni það að hún varð til þess að fletta ofan af mestu spillingu í heimi.  Ég efast um að slík spilling finnist annarsstaðar í heiminum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.11.2008 kl. 01:42

18 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Við eigum að krefjast þess að fá hækkunina á húsnæðislánunum felda niður, maður borgar og borgar, og þau hækka og hækka, þetta mál allt er hræðilegt, það þarf að finna orð yfir þessi ósköp, ég held að við eigum ekki nægilega stórt orð yfir þetta. kannski....bankasið-spillingarblinda.

Sigurveig Eysteins, 4.11.2008 kl. 03:00

19 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Smá innlegg vaeðandi stóru myndina. Þessi hagfræðingur sér þetta í anski skörpum dráttum. Svona til að minna á stóru myndina, eins og mínn er kækur.

Annars flökrar mér svo við þessum nýjustu uppákomum að ég fyllist hálfgerðu magnleysi. Hve mikið er þanþol þessarar þjóðar eiginlega? Hve mikið meira þurfum við til að öllum ofbjóði?

Jón Steinar Ragnarsson, 4.11.2008 kl. 04:01

20 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þessi lög sem atrín nefnir, eru nýsamþykkt lög, sem eru ekkert annað en herlög og brot á öllum mannréttindasamþykktum. Þetta var kýlt í gegn af Birni Bjarna á meðan hann notaði rafbyssumálið sem reykskjöld á meðan.

Við búum í fasísku einræði. Það er bara svo einfalt. Hvað eigum við að gera? Leita til alþjóðadómstóla til að hnekkja yfirganginum og spillingunni. 

Jón Steinar Ragnarsson, 4.11.2008 kl. 04:08

21 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Jón Steinar, ég hef einmitt margspurt mig þessarar spurningar: „Hvert getur íslenska þjóðin leiðað?“ Það er búið að mótmæla þrjá laugardaga í röð en það er ekki að sjá eða að heyra að rödd mótmælenda skili sér til þeirra sem vonir stóðu til að myndu hlusta.

Ég held að þjóðin sé meira og minna í losti þannig að e.t.v. eru einhverjir sem eiga eftir að slást með í för mótmælenda næsta laugardag og þarnæsta laugardag. En verður fjöldinn einhvern tímann nógu mikill til að ríkisstjórninn eða forsetinn rumski og taki tillit til óskar okkar um að við viljum losna undan þessum íþyngjandi kolkrabba sem hefur læst sig utan um líf okkar og tilveru? Ef það verður ekkert af því getum við þá tekið okkur saman og kært til Alþjóðadómstólsins og óskað eftir því að þeir dæmi í málinu: Íslenska þjóðin gegn spilltri og siðblindri ríkisstjórn?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.11.2008 kl. 04:40

22 Smámynd: Bumba

Þú ert frábær sem endranær. Þakka þér fyrir samantektina. Með beztu kveðju.

Bumba, 4.11.2008 kl. 07:37

23 Smámynd: Einar Indriðason

Innlitskvitt.  (Var sjálfur með pínu pistil eftir gönguna síðasta laugardag....)

En, sko... þú veist líka, að samkvæmt skilgreiningu:  "þá er engin spilling á Íslandi".

(Ehum!)

Einar Indriðason, 4.11.2008 kl. 08:05

24 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er gott hjá þér Lára Hanna að halda þessum málum á lofti.

Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að birta hér bút úr pistli sem vistaður var á heimsíðu Alþingis en stjórnendur þar afmáðu einhverra hluta vegna af veraldarvefnu en það er mjög sérkennilegt í ljósi þess að heimasíður annarra fyrrverandi þingmanna birtast enn.

Hér er búturinn úr pistli sem skrifaður var 26.10.2005:

Fyrr í mánuðinum bárust fréttir sem komu mér og greinilega fleirum algerlega í opna skjöldu en það var að stofnun í Evrópu sem kallar sig ,,Transparancy International" sem fylgist með spillingu í heiminum og raðar 159 löndum á lista frá því sem hún er minnst og þar sem þjóðfélög eru hve spilltust í heiminum. Stofnunin setti Ísand efst á þann lista þar sem spilling í stjórnkerfinu var talin hve minnst. Spillingu má skilgreina þannig að menn misnoti aðstöðu sína í stjórnkerfinu í þágu eigin- eða sérhagsmuna.

Eftir að hafa skoðað hvað olli því að Ísland lenti svo ofarlega, þá byggir það m.a. á mati á því hvernig útlendir fjárfestar sjá landið. Þess ber að geta í þessu sambandi að svo virðist sem íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn séu oft ekki vandir að virðingu sinni þegar þeir flytja útlendingum villandi upplýsingar um stöðu mála á Íslandi. Það hafa verið farnar ófáar ferðirnar sem kostaðar hafa verið af skattfé almennings til þess að kynna fyrir umheiminum hið algerlega misheppnaða kvótakerfi í sjávarútvegi. Stjórnvöld hafa sent sína menn út um allar heims og koppa grundir og sagt kerfið vera ódauðlega uppfinningu sem engan skugga beri á. Í þessum kynningum er ekki einu orði vikið að byggaðröskun né því að Íslendingar veiða helmingi færri þorska eftir að þessi vitleysa var tekin upp. Það er ekki heldur vikið einu orði að því að nánast engin endurnýjun hefur orðið í fiskiskipaflotanum sem er orðinn gamall og skuldugur, né heldur að það er engin nýliðun í útgerðinni. Nei, það er dregin upp óraunsæ glansmynd sem er víðsfjarri raunveruleikanum.

Það getur verið erfitt að átta sig á því hver tilgangurinn er með þessum að því virðist vísvitandi villandi áróðri, en einna helst má gera ráð fyrir að ef menn ná að láta útlendinga trúa þeirri röngu mynd sem dregin er upp þá megi nota það í áróðri hér heima við að láta þjóðina sætta sig við vont kerfi.

Ég hef ferðast m.a. um Bretlandseyjar og Færeyjar og sagt frá raunsannari hlið á veruleikanum í fiskveiðistjórn á Íslandi. Ekki hefur tilgangurinn einungis verið að stöðva það að áróður íslenskra stjórnvalda í útlöndum endurómi hér á Íslandi heldur einnig að koma í veg fyrir að skosk og Norður-írsk sjávarþorp lendi í sömu ógæfu og þorpin á Vestfjörðum. Breskur sjávarútvegur á í fullt í fangi með vonda fiskveiðistefnu Evrópusambandsins.

Í framhaldi af þessu furðulega mati Transparancy International á íslenskum stjórnvöldum taldi ég rétt að taka saman umræddan spillingarlista á heimasíðu minni www.sigurjon.is . Ástæðan var m.a. sú að flokksblað Sjálfstæðisflokksins Morgunblaðið, var farið að hampa þessum lista Transparancy International til þess að reka áróður fyrir Sjálfstæðisflokkinn um að Ísland væri þrátt fyrir allt land þar sem spilling væri með minnsta móti. Í sjálfu sér kom það ekki á óvart að Morgunblaðið skyldi leika þennan leik, þar sem umræðan um aðkomu flokksins að lögsókn á hendur Baugi hefur bæði verið blaðinu og flokknum erfið.

Getur það virkilega verið svo að í því landi í heiminum sem telst vera það minnst spillta, þar komi saman ritstjóri stærsta dagblaðsins, framkvæmdastjóri í umboði formanns ráðandi flokksins ásamt einkavini sem seinna var skipaður í hæstarétt og leggi á ráðin um að lögsækja eitt ákveðið fyrirtæki? Fyrirtæki sem óvart á í samkeppni við dagblað sem forsætisráðherra og formanni í ráðandi stjórnmálaflokki er þóknanlegt. Ég tel að það sé mjög vafasamt að þetta land, Ísland sé fyrirmynd annarra landa hvað varðar litla spillingu.

Það er ýmislegt í íslenskum stjórnmálum sem býður upp á spillingu og má fyrst nefna að stjórnmálaflokkarnir leyna hverjir greiða í kosningsjóði flokkanna. Það er vert að minna á í þessu sambandi að almenningur veit ekki hver borgaði rándýra og verðlaunaða kosningabaráttu Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. Var það kannski S-hópur Framsóknarflokksins sem fékk einn að kaupa Búnaðabankann fyrir lítið? Að öllum líkindum hefur væn fúlga komið þaðan.

Sigurjón Þórðarson, 4.11.2008 kl. 09:01

25 identicon

Rökin fyrir að afskrifa skuldir valinna starfsmanna bankanna eru að ekki megi, lögum samkvæmt, hafa gjaldþrota einstaklinga í stjórn banka. en við þennan gerning verða þeir spilltir eða að minnsta kosti samsekir í spillingu.

Geta spilltir menn setið í stjórn banka? Eigum við að trúa því að ekki sé hægt að finna hæfa ógjaldþrota einstaklinga í þessu landi til að gegna þessum störfum??? Eða er kannski málið að ekki megi leita út fyrir Sjálfstæðisflokkinn eftir fólki í stjónunarstöður?

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 09:02

26 identicon

nu er gaman og kátt í koti, íslendingar hafa alltaf verið bestir i heiminum á ýmsum sviðum (og verið stoltir af) og nú er að koma í ljós að íslendingar eiga heimsmet og eru bestir (stórastir) í heiminum í spillingu... til hamingju!

sigurður örn brynjolfsson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 09:02

27 identicon

Þessi síða þín er alveg mögnuð.  Áfram svona. 

Persónulega er ég alveg uppgefin og farin að finna fyrir góðri slettu af vonleysi.  Er ekkert sem við almenni borgarinn getum gert til að eitthvað gerist? Finnst líka fréttaflutningur lýgilega lítill í Kaupþingsmálinu og Valtýs og Boga málinu (reyndar mörgu öðru líka).  Er ég ein um það?

EKK (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 09:04

28 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það má ALDREI ALDREI ALDREI gleyma spillingarferli Framsóknarflokksins. Nú þegar menn þar á bæ ætla sér augljóslega að geysast fram á sjónarsviðið sem hinn nýi ESB flokkur með einhvern bjargvætt á hvítum hesti, verður að gera ítarlega upprifjun á öllu því spillta og ósiðlega sem þrifist hefur í skjóli þessarar mafíu. Ég læt örlitla uptalningu nægja og vitna þar í þessa síðu:

"Nafn Framsóknarflokksin tengist áralangri spillingu, klíkuskap, bitlingum, baktjaldamakki, fyrirgreiðslupólitík, einkavinavæðingu - "

 " - lækkun tekjuskatts, hækkun lánshlutfalls i 90%, lækkun vaxta sjóðsins í 4,15%, afnám hátekjuskatts, þennsla opinbera geirans, hækkun ríkisútgjalda (allt í þennslu), fjölmiðlafrumvarp, stríð við öryrkja, fatlaða og aldraða, að ógleymdu stríði við Íraka, einkavæðing bankanna, ohf á rúv, náttúruhamfarir i vegagerð í Héðinsfirði í stað nauðsynlegra framkvæmda,"

Sumir telja að Björn Ingi Hrafnsson og Óskar Bergsson séu ákjósanleg for(n)mannsefni. Ég tengi þessi nöfn aðallega við spillingu og valdapot.

Annars ætlaði ég aðallega að benda á þessa gömlu frétt...

Sigurður Hrellir, 4.11.2008 kl. 10:57

29 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þetta er líka dæmigert fyrir Framsóknarmenn. Gamblað með eigur almennings.

Sigurður Hrellir, 4.11.2008 kl. 11:02

30 Smámynd: nicejerk

Frábært hjá þér Lára sem endranær.

Mér sýnist að grunnur okkar samfélags og réttindi séu ekki nægilega skýr og því þarf að breyta stjórnarskránni til að tryggja réttindi íslensks almennings. Það er einungis hægt að byggja traust ef grunnurinn er traustur.

Eitt dæmi: Stjórnamálamenn firra sig allri ábyrgð með 49. gr. sem hljóðar:

49. gr. [Meðan Alþingi er að störfum má ekki setja neinn alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða mál á móti honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.
Enginn alþingismaður verður krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.]1)
   1)L. 56/1991, 18. gr. 

-- Hér þarf að breyta ábyrgð. Þessi klásúla verndar og leyfir þingmönnum að steypa, ljúga og afvegaleiða almenning og tilheyrir hvergi í raunverulegu lýðræði. Klásúlan þjónar landsmönnum á engan hátt, heldur beinlínis skapar óvissu og tækifæri ráðamanna að hylma yfir með öðrum. Ábyrgð Ríkisstjórnar ætti að vera algerlega hliðstæð ábyrgð stjórnarmanna fyrirtækja. Ábyrgð stjórnenda þarf að taka til alvarlegrar endurskoðunar til að auka skilvirkni og tiltrú almennings á "kerfinu" sem á að þjóna landmönnum. Að sama skapi þarf almenningur að gera sér grein fyrir því að lýðræðinu fylgir ábyrgð og þarf að taka þátt í þeirri ábyrgð.

Fólk má ekki missa sjónar á því sem þarf að lagafæra til að fyrirbyggja hvers konar misnotkun ráðamanna. Fyrir næstu kosningar ættu allir að skrá hjá sér það sem hefur farið aflaga og hvernig mætti bæta það, því næstu kosningar bjóða einstakt tækifæri á að koma með lagfæingar, sem fyrir hrunið hefðu verið álitnar ómögulegar. 

Það þarf einniag að sjá jákvæðu hliðarnar á þessu hruni og nýta þær til að endurreisa lýðræðið á Íslandi. Það er einungis hægt að minnka spillinguna með því að allir taki á og leggi sitt af mörkum, til að næstu kosningar gefi sem mest af sér fyrir íslenskt lýðræði, íslenskan almenning og íslenskan auð og auðlindir. Að sjá tækifærið ýtir burt ógleðinni sem kemur yfir mann að hugsa um núverandi spillingu.

nicejerk, 4.11.2008 kl. 11:09

31 identicon

Takk fyrir frábæra síðu Lára Hanna. 

Hvaða aðferðir höfum við venjulegt fólk til að bregðast við því óréttlæti og spillingu sem hellist yfir okkur?  Mér finnst að tíminn sé kominn til að finna leiðir til að spyrna við fótum.  

Getum við stofnað fjöldahreyfingu VIÐ BORGUM EKKI sem svar við þessum ósköpum.

Man einhver eftir Sigtúns-hópnum svokallaða sem varð til 1983-4 þegar verðbólgan var að setja stóran hóp fólks á hausinn.  Mig minnir að þá hafi fólk tekið sig saman og deponerað greiðslum inn á lokaða reikninga í stað þess að greiða af lánum þar til einhver úrlausn fékkst.  Ég var ung á þessum tíma og nýkomin heim eftir langa dvöl í útlöndum og fylgdist bara með þessu úr fjarlægð.

Helga (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 12:05

32 Smámynd: ZeitgeistAddendum

Frábær grein, nú þurfa fjölmiðlar að fara virkilega að bregðast við því hvað almenningur er að komast að. Ekki hafa þeir reynst mjög hjálplegir í að benda okkur á þær upplýsingar sem skipta mestu máli, frekar en fyrri daginn.

ZeitgeistAddendum, 4.11.2008 kl. 13:57

33 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég sagðist ætla að hætta að borga ríkinu og bankanum. Núna les ég og heyri víðsvegar að það eru fleiri að hugsa eins. Kannski er grundvöllur fyrir samtökum um þetta?

Rökin mín eru sú að þar sem ég er orðin atvinnulaus vegna afglapa ráðamanna og bankanna hef ég ekki lengur efni á því að borga af skuldunum. Ég átti ekki þátt í góðærinu og frábið mér að borga fyrir sukk annarra. Ef að það er hægt að afskrifa skuldir valdra manna með einu pennastriki, skipa menn í rannsókn á gjörðum sona sinna til að halda múgnum áfram óupplýstum, ljúga dögum saman um ástandið eins og Geir gerði, skuldsetja framtíð landsins eins og útrásarglæpamennirnir gerðu.... já þá hlýt ég að geta afskrifað skuldirnar mínar. Eða hvað....

Ævar Rafn Kjartansson, 4.11.2008 kl. 14:08

34 identicon

Höfum við öll ekki hlegið með sjálfum okkur þegar við sjáum að ísland er með minnst spilltasta land heimsins.... ég hef amk gert það.

DoctorE (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 15:29

35 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Jú, held að flest höfum við hlegið að niðurstöðum þessara kannana.

En þetta er barasta ekkert fyndið lengur

Heiða B. Heiðars, 4.11.2008 kl. 17:14

36 Smámynd: Vilhjálmur C Bjarnason

Allveg frábært hjá þer Lára Hanna. Eg vil bara koma að athugasemd, í næstu mótmælagöngu hvenær sem hún verður haldin, þá hvet eg fólk til að skrifa á ENSKU á spjöldinn sem þið berið, það er mikið áhrifameira, skilar ser mikið betur gegnum útlensku fjölmiðlana. það er nefnilega þar sem við verðum að láta vita af okkur allmenningi, eg bí her í Noregi og það er mikið talað og sínt frá mótmælum allmennings á Islandi í sjónvarpinu. Munið að tússa á ENSKU á spjöldinn.

Vilhjálmur C Bjarnason, 4.11.2008 kl. 17:34

38 Smámynd: Anna

Gerðu þeir Gordon Brown og Alistair Darling sér grein fyrir því þegar þeir lokuðu á Kaupþing að þeir væru að opna fyrir spillinguna á Íslandi.

Anna , 4.11.2008 kl. 18:15

39 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Enn og aftur tek ég hatt minn ofan fyrir þér, drift þín og dugnaður við að halda sannleikanum á lofti og láta spillta "forystu" ekki slá of miklu ryki í augu almennings, langlundargeð og þrælsótti er á undanhaldi og ekki seinna vænna, við erum aðhlátursefni víða um heim fyrir spéhræðsluna og blóðleysið.

Georg P Sveinbjörnsson, 4.11.2008 kl. 21:09

40 Smámynd: Njáll Harðarson

Mjög greinargóð og vel gerð grein hjá þér Lára, ég verð að segja að ég hef oft hugsað um þetta þegar menn eru að meta spillingu landa og skiljanlega ekki alveg með á hvernig þeir setja verð á þessar tölur, held satt að segja að þetta sé meira áróður/undirróður markaðslega séð.

Það sem stendur í Mogganum hlýtur að vera satt, ekki satt. Þetta lærði maður í gamla daga, eins og fjósakonan sagði, mikil ósköp deyja margir síðan útvarpið kom.

Fjölmiðlar ráða hverning almenningur hugsar, var  hugtak sem er að líða undir lok, þökk sé Inerneti.

Við Íslendingar getum ekki virðingar okkar vegna samþykkt að vera aðilar að þessum svikum, ekki bara svik við okkur auman almúgan, heldur líka alþjóðlegan lýð sem nú samnefnir okkur Íslendinga við svik og pretti. Eigum við sem höfum verið arðrænd að taka á okkur sök þeirra Íslendinga sem brugguðu launráð og svik, sem plötuðu þjóðina í að afsala sér fæðingarrétti til fiskimiðanna og drógu heiður Íslands niður í svaðið. Aldrei! Aldei! Aldrei!

Njáll Harðarson, 4.11.2008 kl. 22:04

41 Smámynd: Árni Gunnarsson

Lára Hanna. Þú ert búin að merkja þig inn í samfélagsumræðuna svo rækilega að þér er ekki lengur undankomu auðið þegar næst verður boðað til Alþingiskosninga. En upp úr öllu þessu moldviðri stendur sú brennandi spurning hvert við viljum stefna í endurreisn þessa brotna samfélags. Þar vil ég fyrst vísa til finnsku leiðarinnar og í tengslum við hana þess pólitíska réttlætismáls sem Sigurjón Þórðarson gerir að innihaldi í grein sinni hér að ofan. (aths. 25) Blómlegar sjávarbyggðir víðs vegar um land eru orðnar athvarf vonlausra fjölskyldna sem sjá ekki aðra kosti í stöðunni lengur en yfirgefa slóðir feðra og mæðra. Það er óafmáanlegur blettur á samfélagi okkar að hafa horft aðgerðarlaus á að fólkið var rænt lífsbjörginni. 

En kannski verður erfitt að uppræta þjóðarlygi pólitíkusa. Þá lygi að það hafi skapað hagvöxt að gera þessa auðlind fólksins að matadorpeningum. Skapar það ekki hagvöxt að eiga blómstrandi atvinnulíf í byggðunum umhverfis landið. Og sækja þessa björg í þjóðarbúið með fimmfalt minni tilkostnaði auk sparnaðar á mengunarkvóta. Og stunda vistvænar veiðiaðferðir? 

Árni Gunnarsson, 4.11.2008 kl. 23:35

42 identicon

Spillingadand, spillingadans

á alþingi ráðamenn dansa þenna vals

gróðafíkna og nautna fans

kapítalistar andskotans

Viðar F (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 12:58

43 Smámynd: nicejerk

Ég er sammála Árna varðandi Láru Hönnu (LH) og Alþingi.

LH hefur sannað að hún getur lyft grettistaki og haldið einbeitingunni að mikilvægum málefnum, ásamt mörgum fleiri góðum kostum. Það vantar bara aðeins fleiri hennar líka og þá er komin öflugasta stjórn sem kann að taka á málum, getur hreinsað út og ber hag íslenks samfélags fyrir brjósti.

nicejerk, 5.11.2008 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband