Er Tryggvi Þór uppljóstrari?

Ég fékk póst frá vini mínum í gær þar sem hann varpar fram nokkrum óþægilegum og áleitnum spurningum. Yfirskrift póstsins var: "Er Tryggvi Þór "whistle blower"?" Ég ætla að birta bréfið hér með hans leyfi - og tengt efni að auki. Vinur minn segir:

Langaði að drita hér á þig kommenti frá mér, sem vert er að hyggja að.

"Í þessu viðtali talar Tryggvi Þór um að gríðarlegar eignatilfærslur eigi sér nú stað hjá bönkunum. Hann varar við því að flanað sé að neinu þar og kallar á gagnsæi. Nefnir afsal stórs hluta Nokia í erlendar hendur fyrir slikk í tilfellum Finna og illbætanlegt tjón af þeim sökum, sem þeir eru enn að sýta.

Hvaða eignir er verið að selja hér og til hverra og fyrir hve mikið? Hve nærri heggur það sjálfstæði okkar? Hvaða risar eru að kaupa? Hverjir verða drottnarar okkar í náinni framtíð?  Þetta verðum við að fá að vita. Þetta er algert lykilatriði. Í bönkunum liggja hlutir í orkufyrirtækjum og orkudreifingu landsins og það jafnvel ráðandi hlutir. Þar liggja gríðarlegar landa og hlunnindaeignir, laxár og guð veit hvað. Þar liggur einnig stór hluti fiskveiðikvóta Íslendinga og bréf í iðnaði og verslun, heilbrigðis og þjónustufyrirtækjum. Öllu! Hreinlega fjöregg og framtíð þjóðarinnar á silfurfati.
 
Stjórnvöld tala um að borga ekki skuldir óreiðumanna en eru ekki í neinni aðstöðu til slíkrar kokhreysti. Það er verið að gera það nú þegar með sölu á eignasafni og veðum bankanna. Eignasafni, sem snertir sameign okkar og sjálfstæði. Það er verið að borga skuldir óreiðumanna og það með útsölu á auðlindum okkar! Áttarðu menn sig á þessu? Auðvitað verða erlend lán ekki notuð til að borga óreiðuna. Það veit raunar enginn hvað menn ætla að gera við þá peninga. Menn vita upphæðina upp á 0.1 milljarð dollara og ekkert meir. Það hlýtur að vera vitað fyrir hverju er verið að safna um allar jarðir?  Ekki veit ég það og ekki þú.

Ef eitthvað þarf virkilega upp á yfirborðið nú, þá er það þetta. Menn verða að fara að lesa rétt í gegnum stofnanamálið og laga-jargonið. Það er eins og að lesa í garnirnar á kjúlla, en það er verið að segja okkur mikið á milli málsgreina, sem hefur úrslitaþýðingu fyrir landið okkar.

Eignastýring, eignasöfn, eignatilfærsla. Vilja menn vita hvað það þýðir? Nú er kominn tími til að spyrja."

Svo mörg voru þau orð. En hann heldur áfram í næsta pósti og segir:

"Þetta er það sem er að gerast og það er ekki lítið í húfi Nú er hrópað úr öllum áttum að við verðum að taka það úrræði, sem Ársæll og Þórólfur ræða. Það er leiðin út. Til að fólk skilji það, þá er gott að það sjái hvaða býtti er verið að bjóða.

Ég segi að enginn viti raunar hvað þessi lán eigi að greiða. Það er í flestu rétt, en líklegast á að reyna að blása lífi í krónuna með þessu. Það er þó víst að þetta mun gufa upp á einum degi þegar krónunni verður sleppt lausri, því traustið á henni er minna en núll og menn munu sæta lagi til að losa sig við hana. Við munum því sitja uppi með tvöfaldan skaða eins og Ársæll og Þórólfur ýja að. Þeirra leið ber að hrópa af tindum. Við megum engan tíma missa."

Hér er viðtal við Tryggva Þór úr Markaðnum í gær.

Og hér er Silfurviðtalið við þá Ársæl og Þórólf sem vitnað er í.

Þessu tengt segir Jónas:
09.11.2008
Svartfellingar til fyrirmyndar

Óþarfi er að rífast um, hvort taka megi upp evru einhliða eða ekki. Það hefur verið gert án þess að spyrja kóng eða prest. Svartfjallaland gerði það með góðum árangri. Ráðgjafi landsins var Daniel Gros, forstöðumaður Centre for European Policy Studies í Bruxelles. Hann hefur skoðað Ísland og segir bezt að gera það sama hér. Ekki þegar um hægist. Heldur núna strax. Hann vill ekki lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, sem hann segir gera illt verra. Hann segir Ísland geta útskýrt upptöku evru fyrir eigendum hennar sem neyðarráðstöfun. Sem fyrsta skrefið að innleiðingu evrópskra mannasiða.

Mikið svakalega er vont að vera ekki hagfræðingur þessa dagana og vikurnar. Hagfræðingar hafa greinilega mikið vit á þessu öllu saman en verst er hvað þeir eru ósammála. Maður veit ekki í hvorn fótinn á að stíga og hvaða skoðanir maður á að hafa á hvaða láni eða ekkiláni. Og ekki gera stjórnvöld neitt til að skýra málin - þau þegja þunnu hljóði og enginn veit ennþá hvaða skilyrði eru sett fyrir hvaða láni. Hvort við erum að selja landið og auðlindirnar úr landi eða hvað. Ég krefst þess, og veit að það gera fleiri, að vita hvaða skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur fyrir sínu láni - og allir hinir! Ég er aðili að málinu, sem og börnin mín, barnabörnin og jafnvel barnabarnabörnin og við eigum öll heimtingu á að vita hverju eða hve miklu á að fórna til að borga fyrir sukkið sem við tókum ekki einu sinni þátt í, flest hver.

Að lokum er hér viðtalið í sunnudagsmogganum við Tryggva Þór.
Smellið til að stækka í læsilega stærð.

Tryggvi Þór Herbertsson 1 - Mbl. 9.11.08

Tryggvi Þór Herbertsson 2 - Mbl. 9.11.08


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Mér líst vel á hugmyndir Daniel Gros!!   Ég trúi því sem TÞ segir...........

Hólmdís Hjartardóttir, 10.11.2008 kl. 03:11

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég skil ekki hvernig Tryggvi geti verið svona kokhraustur með IMF og fullyrt að gengið muni jafna sig mjög hratt. Er hann að tala um að sviðin jörð sé jafnvægið.  Að þegar allt er brunnið upp þá sé ekki meira að brenna?Það sé jafnvægið?  Mér finnst þetta algerlega á skjön við öll teikn og líki þessu við einhverskonar tilræðismennsku fyrir hönd IMF, eins og John Perkins, lýsir svo eftirminnilega. Hann er með sambönd segir hann í innsta hring IMF. Hvernig má það vera? 

Ég tek þó ábendingum hans um meðhöndlun eignasafnanna hjá bönkunum alvarlega, enda er alveg óljóst hvað menn eru að höndla með þar. Kvóti hlýtur a.m.k. að vera hluti af þessum veðum. Það er ljóst.  Leiðin sem Áesæll og Þórólfur nefna er sú leið sem skoða ber og þá myndi ég reyna fyrst við norsku krónuna og það jafnvel með þeim fyrirvara að fara í eigin mynt síðar.

Engin veit hvernig afstaða Norðmanna mun breytast til evrópusambandsinngöngu mun breytast í framtíðinni og er ég miklu heldur á því að við fylgdum þeim þar inn er tímar líða en að gera það í okkar veiku samningsaðstöðu á næstu árum. Ég bendi mönnum einnig á að skoða þau rök sem liggja að baki að Norðmenn, Svíar og Danir kjósa ekki að fara í sambandið. Ég mun treysta dómgreind þeirra framar öðrum. Norrænt efnahagsbandalag væri svo pípudraumur, sem máske er ekkert svo fjarstætt að hugleiða til lengi tíma litið.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.11.2008 kl. 04:16

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er satt að segja afar skeptískur á hann Tryggva. Hann virðist vita meira um afstöðu og fyrirætlanir IMF en stjórnvöld.  Hann er að ganga erinda þeirra. "Jú,jú, þeir munu lána okkur?"  Hvað stendur þá í vegi? Skilyrðin? Þekkir hann þau þá ekki líka? Munu þeir falla frá skilyrðum eða svínbeygja okkur undir þau? Mér finnst sjálfsöryggi hans hrollvekjandi satt að segja. Kannski ekki að furða að Geir hafi sagt stopp.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.11.2008 kl. 04:41

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kannski er hann órólegur fyrir hönd vildarvina IMF cartellsins vegna ráðstöfunnar eignasafna bankanna af því að hann telur þau ekki vera að fara í "rétta" staði? Vert að hugleiða.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.11.2008 kl. 04:46

5 identicon

Ég er líka ákaflega spennt fyrir þessari leið með einhliða upptöku evru, nú eða annars gjaldmiðils.   Þetta hljómar sem heppilegasti kosturinn fyrir okkur núna. 

.... og ég er ekki í nokkrum vafa um að Tryggvi hefur rétt fyrir sér með hvað er í gangi í bönkunum núna.  Íslendingar hafa alltaf vílað og dílað á bak við tjöldin um stóru málin, núna er verið að útdeila gæðunum, þeim litlu sem eftir eru.

Það er ekki alveg einleikið hversu mikið yfirvöld draga lappirnar með að setja rannsókn í gang.  Hversu vel þarf að skúra fyrst eiginlega?

Elfa (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 08:02

6 Smámynd: Sævar Helgason

Verður turninn á Höfðatorgi kannski tákn fyrir eigur okkar íslendinga að loknu uppjöri við lánadrottna spilavítisliðsins sem veðsetti Ísland og sigldi öllu í strand ?

Sævar Helgason, 10.11.2008 kl. 09:52

7 identicon

Hreinlegra væri að sækja um aðild að ESB en taka upp einhliða evru. Einhliða upptaka evru gæti aldrei skilað árangri ef ESB er á móti því. Svartfjallaland, Kosovó og önnur tilgreind dæmi nutu þess öll að ESB samþykkti gjaldmiðilsskiptin. Þingmenn og embættismenn okkar hafa fengið afsvar við sömu málaleitan.

Krónan er ónýt. Hvað yrði um hundruð milljarða lán sem tekin yrðu til þess að blása lífi í steindauða krónu? Hið eina sem við vitum með vissu er að lánin þarf að greiða til bak og krónan mun ekki lifna við.

Upp í hugann kemur frásögn Stiglitz af því þegar IMF vildi senda hundruð milljarða dollara til Rússlands til bjargar peningakerfi landsins. Alþjóðabankinn (World Bank) lagðist gegn því. Gagnslaust væri að setja pening í kerfi sem væri algjörlega óstarfhæft. Rússar þyrftu að taka til fyrst. IMF hlustaði ekki. Þegar dollarararnir streymdu inn voru þeir snimmendis keyptir upp af gamlerum sem setið höfðu uppi með rúblur, miklar fúlgur. Gamblerarnir brunuðu síðan kampakátir úr landi með dollarana. Eftir sat rússneskur almenningur með enn lélegri rúblu en áður - og auðvitað skuldirnar.

Rómverji (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 10:04

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Rómverji: Það þarf ekki að gnga í ESB til að taka upp evru, enda er langur vegur frá að við getum uppfyllt Maastricht sáttmálann. Sammála þér um IMF. Sammála þér um krónuna, það er útséð. Það eru fleiri hryðjuverk en þetta sem IMF cartellið hefur unnið. Stiglitz var hreinlega rekinn frá sjóðnum þrátt fyrir nóbelsnafnbótina, fyrir það eitt að gagnrýna vinnubrögðin.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.11.2008 kl. 10:42

9 identicon

Jón Steinar. Þurfum við ekki að ganga í ESB til að taka um evru? Þá er ekki að marka svör æðstu embættismanna sambandsins, sem þeir gáfu íslenskum embættismönnum og stjórnmálamönnum. Það finnst mér digur fullyrðing.

Yfirlýsing um aðildarumsókn Íslands í ESB yrði - út af fyrir sig - efnahag landsins til upplyftirngar. Eg tel enn að aðild sé skilyrði evru. Vona það reyndar líka.

Stiglitz var aðalhagfræðingur hjá Alþjóðabankanum. Vann ekki fyrr IMF, að því er eg best veit. Annars er frásögn mín af Rússaláninu eftir minni. Sjá bók Stiglitz, Globalization and Its Discontents.

Rómverji (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 11:26

10 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég er skíthrædd við þetta fólk sem er að stýra þjóðinni núna.

Segi eins og Sigurbjörg treysti þeim ekki fyrir húshorn. Það verður að tryggja auðlindirnar eins og ég er búin að vera kalla á frá fyrsta degi.

Einhliða upptaka nýs gjaldmiðils er það viturlegasta sem ég hef heyrt í þessu dæmi.

Það verður að koma ríkisstjórninni frá og koma heiðarlegu fólki inn í bankanna.

Óreiðumennirnir verða að taka afleiðingum sinna gjörða og það þarf að finna leið til þess.

Meirihlutinn á að fá að ráða núna.

Geir er ekki fært að sitja. Hann á samkvæmt lögum að víkja einfaldlega vegna þess að hann hefur ítrekað brotið af sér í starfi. Hann hefur líka margsannað að hann hefur ekki það sem til þarf til þess að gegna embættinu við þessar aðstæður

Burt með spillingarliðið

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.11.2008 kl. 12:45

11 identicon

Já, við megum engan tíma missa! Fæ ekki betur séð en að lánið frá IMF sé skuldagildra, og þó að Tryggvi sé ágætur, þá vekja efasemdir smáatriði í málflutningi eins og: "...þá getum við byrjað upp á nýju". Er það það sem við viljum, byrja upp á nýju! Er það ekki lífróður sem ríkisstjórnin er að róa núna, að bjarga kerfinu sem var (og körlunum sem voru).

Var, já, segi ég því að kerfið er hrunið og var rotið að innan og niður í rót og verður ekki reist við aftur. Við verðum að segja nei við IMF og taka upp annan gjaldmiðil. Síðan getum við byrjað að byggja upp.

Hermann (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 12:48

12 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Lára Hanna ég kann nógu mikið í hagfræði til þess að telja mig geta tekið upplýsta afstöðu í málinu. Leið Ársæls er sú leið sem við eigum að fara. IMF leiðin er hættuleg. Þröngsýni ráðamanna og lítil umhyggja fyrir þjóðinni ræður þar ferðum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.11.2008 kl. 13:05

13 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Rómverji bendi á þetta um einhliða upptöku Evru eða annars gjaldmiðils:

Það hefur verið gert án þess að spyrja kóng eða prest. Svartfjallaland gerði það með góðum árangri.

Þetta virðist því vera raunhæfur valkostur.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.11.2008 kl. 13:15

14 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Lausnin liggur í "einhliða" sem er önnur útfærsla en það að taka upp evruna.

 Ég er ekki hrifin af því að nú sé verið að hrópa um inngöngu í Evrópubandalagið. Það er eins og að birgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í. Það verður að bíða með að birgja brunnin þangað til við erum búin að ná barninu upp úr honum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.11.2008 kl. 13:18

15 identicon

Svartfjallaland hafði ekki sína eign mynt. Gjaldmiðill Svartfjallalands var þýskt mark. Þegar evran tók við af þýska markinu þá fylgdi Svartfjallaland með. Eg held það hafi gerst sátt við ESB. Annars hefði það tæplega tekist.

Rómverji (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 14:45

16 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það eru til aðrir gjaldmiðlar en EVRAN t.d. aðrar krónur!

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.11.2008 kl. 14:54

17 identicon

Jakobína Ingunn.

Við erum ekki sætasta stelpan á ballinu. Ekki lengur. Það vill okkur enginn, nema ESB. Ekki einu sinni Norðmenn

Fann þetta um Svartfellinga og evru. Sama á við um þá og Andorra, Vatikanið og San Marínó.

http://www.cb-mn.org/Novac_E/euro_Novac_e.htm

Sækjum um aðild að ESB sem pólitískir flóttamenn.

Rómverji (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 14:59

18 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Þetta er náttúrulega gamla ísjakamódelið, 1/10 ofansjávar og 9/10 ósýnilegt. Það töluðu einhverjir fyrir því strax eftir að ríkið yfirtók bankana að nú þyrfti ríkið að leysa til sín kvótann og tryggja þar með eignarhald þjóðarinar á þessari dýrmætu auðlind. En það gerir núverandi stjórn örugglega aldrei. M.a. þess vegna verður hún að fara frá. Það er kominn tími til að losa íslensk yfirvöld úr heljargreipum LÍÚ.

Þeir eru líklegir til að reka upp ramakvein og tala um eignaupptöku og ósanngirni enþað var ekkert að því þegar eignir fólks á landsbyggðinni urðu verðlausar þegar kvótinn var keyptur burt úr plássunum.

Að lokum, eins og Valgerður Bjarnadóttir, legg ég til að eftirlaunaósóminn verði leiðréttur og blæs á allt tuð um að ekki sé hægt að taka aftur svona lagasetningar. Hvað er ekki búið að hræra mikið í lífeyris málum okkar hinna og það yfirleitt til verri vegar.

Guðmundur Gunnarsson, 10.11.2008 kl. 15:06

19 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Rómverji það er ljóst að ríkistjórnin (ekki við) hefur farið með orðspor landsins til fjandans. Það er þó ekki gáfulegt að gefa sér það að þessi leið geti ekki gengið eftir.

 Þú mátt útskýra fyrir mér hvers vegna og á hvern hátt við þurfum leyfi utanaðkomandi aðila til þess að gefa hér út nýjan gjaldmiðil og festa hann á einhvern hátt við annan.

Nýr gjaldmiðill er þá mælieining á hvað við eigum í gjaldeyrisvarasjóði. Speglar styrk okkar til viðskipta við önnur lönd. Útskýrðu hvers vegna við þurfum leyfi til þess að koma upp réttmætri mælistiku á styrk okkar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.11.2008 kl. 15:54

20 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Vandi krónunar er að hún mælir ekki neitt þegar hún er komin út fyrir landsteinanna.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.11.2008 kl. 15:55

21 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Á forsíðu fréttablaðsins er frétt af því að einhverjir óttist hörð viðbrögð við einhliða upptöku nýs gjaldmiðils. Það má spyrja hvað gengur þeim aðilum til sem eru mótfallnir því að nýr gjaldmiðill sem mælir á lögmætan hátt styrk þjóðarinnar til viðskipta við önnur lönd verði tekinn í notkun hér.

Það að þvinga Íslendinga til þess að halda í gjaldmiðil sem ekki mælir á raunsæjan hátt viðskiptastyrk Íslendinga er í rauninni dulbúin viðskiptaþvingun.

Þessi ótrúlega harka verður einungis skýrð með því að forssvarsmenn þjóðarinnar hafi kallað yfir sig reiði annarra þjóða ekki ólíkt og Saddam Hussein gerði á sínum tíma þegar hann kallaði viðskiptaþvinganir yfir þjóð sína sem leyddi til mikils barnadauða.

Það þarf að skipta um forystu til þess að hægt sé að taka upp eðlileg samskipti við aðrar þjóðir.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.11.2008 kl. 16:29

22 identicon

Jakobína Ingunn.

Á bakvið gjaldmiðil þarf reiðubúinn seðlabanka. 

Rómverji (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 16:42

23 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sammála því Rómverji.

það þarf að skipta um forystu til þess að tekið verði skynsamlega á málum

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.11.2008 kl. 16:56

24 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Til að skipta um seðlabankastjóra þarf að hafa óspillt þing líka.  Ef þingheimur fer ekki að rísa upp og segja stopp, þá er ekkert hægt að álykta öðruvísi en að þetta sé rotið í gegn og þá þarf byltingu. Þanig hafa kaupin gerst í mannkynssögunni og hér verður engin undantekning, nema að Íslendingar brjóti þetta sögublað með að reynast sljóustu heiglar frá upphafi mannkyns.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.11.2008 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband