28.11.2008
Davíð Oddsson er alvarlegt vandamál
Bankastjórn Seðlabankans er vandamál sem mjög nauðsynlegt er að leysa sem allra fyrst - og þótt fyrr hefði verið. Við vitum þetta öll, viðurkennum það flest en stjórnvöld þráast við að leysa málið og skipta út. Davíð Oddsson er mesti vandræðagemlingurinn, neitar að hætta og bætir stöðugt við syndaregistrið. 90% þjóðarinnar vill losna við hann eins og sjá má hér. Miðað við þann ómælanlega skaða sem hann hefur valdið þjóðinni bæði innanlands og utan finnst mér stór spurning hvort hann falli undir skilgreininguna landráðamann eða föðurlandssvikara. Mér þætti fróðlegt að fá umræðu um hvað þyrfti til að vera metinn og dæmdur sem slíkur.
Meira að segja ungliðarnir í Flokknum, Heimdellingarnir, eru búnir að fá nóg eins og sjá má t.d. hér. Þá er mikið sagt. Og auðvitað hafa þeir líka rétt fyrir sér með Fjármálaeftirlitið. Þar þarf svo sannarlega að moka flórinn. Engu að síður er verið að færa þessum stofnunum enn meiri völd í hendur með frumvarpi Björgvins sem rætt er um í þessum skrifuðu orðum á Alþingi. Þessir menn hafa sýnt svo ekki verður um villst að þeim er alls ekki treystandi en engu að síður á að gera stofnanirnar enn valdameiri án þess að skipta um fólk. Fáránlegt.
Davíð og bankastjórn Seðlabankans eru langt í frá eina vandamálið sem íslenska þjóðin glímir við um þessar mundir eins og allir vita, en einhvers staðar þarf að byrja. Fá inn nýtt fagfólk sem er ekki er á mála hjá flokkunum og hreinsa til í stjórnkerfinu. Til þess þarf væntanlega að breyta fjölmörgum lögum og þá verður bara að gera það. En þá þurfum við nýtt fólk með nýja framtíðarsýn - og/eða gott, heiðarlegt fólk innan gömlu flokkanna með heilbrigða skynsemi sem hugsar ekki bara um rassinn á sjálfum sér og sínum... og auðvitað Flokknum. Það er nefnilega til slíkt fólk í flestum flokkum. Góð blanda af þessu tvennu væri upplögð og þjóðin vill kosningar - eins og sjá má í niðurstöðu þessarar nýju skoðanakönnunar Smugunnar.
En hér eru sýnishorn af tveimur nýjustu "glappaskotum" seðlabankastjóra. Hvað finnst fólki um þetta framferði mannsins? Var ekki komið nóg?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:01 | Facebook
Athugasemdir
Ef þetta væri ekki svona alvarlegt væri það fyndið. Var einhver á fylliríi?
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 28.11.2008 kl. 00:29
Engin lög eða reglur ná utan um þennan mann.
Hólmdís Hjartardóttir, 28.11.2008 kl. 00:44
Ég hef haft gríðarlegan áhuga á stjórnmálum og þjófélagsmálum frá barnsaldri.
Núna eftir að bankakerfið var sett á hliðina hef ég fylgst mikið með og mikið hugsað um hvað væri að gerast undir yfirborðinu í samfélaginu.
Ég hef frá upphafi hrunsins haft mikla tilfinningu fyrir því að Davíð Oddsson hafði hannað atburðarásina í kringum fall bankanna. Hann er langræknari en flestir og þolir alls ekki mótmæli af neinu tagi.
Það sem komið hefur fram um þá atburðarás bendir til þess að það hafi verið hann en ekki ríkisstjórnin sem ákvað hvernig bregðast ætti við beiðni um aðstoð frá Glitni. Samherjaforstjórinn var í sjónvarpinu mánudaginn 6. okt. fölur af reiði, hneykslan og öllu því sem getur fylgt þvílíkum yfirgangi sem þarna var á ferð.
Ekki hefur verið fjallað mikið um þá atburðarás síðan en því áliti komið vel og rækilega á framfæri að bankarnir hafi verið orðnir of stórir og þeir hafi orðið óstarfhæfir vegna þess. Svo er náttúrlega lausafjárkreppan kærkomin ástæða líka.
Ég er ekki að gera lítið úr ytri aðstæðum, en þegar þessi beiðni um aðstoð kom frá Glitni til Seðlabankans, sá DO að þetta var kærkomið tækifæri til að láta kné fylgja kviði gagnvart Baugsveldinu. Ingibjörg Sólrún úr leik vegna veikinda og hinir kálfarnir ekki eins klárir. Gott tækifæri.
Síðan fylgdu hinir bankarnir og Sigurður Einarsson hafði staðið upp í hárinu á DO með því að óska eftir að gera upp í evrum. Björgólfarnir voru líka farnir að ógna og flott að taka þá bara líka. Svo var náttúrlega Hafskipsmálið nýkomið í umræðuna aftur.
Ásakanir Sigurðar Einarssonar á hendur Seðlabankastjóra Davíð Oddssyni í Markaðnum hjá Birni Inga um að Davíð hefði hótað að fella Kaupþing ef kröfunni um að Kaupþing fengi að gera upp í Evrum væti fylgt eftir. Þetta mun hafa gerst á fundi hjá IMF í New York á árinu 2007.
Þessi ásökun hefur ekki ratað í fjölmiðla svo neinu nemi og ég fékk svo hljóðandi athugasemd á blogginu þegar ég gerði færslu um þessa ásökun SE. Hver heldur þú að trúi Sigurði Einarssyni ?
Svo kemur DO í Kastljósinu og talar um óreiðumenn, ástarbréf og annað rugl sem þjóðin henti á lofti. Þarna voru komnir sökudólgar sem smellpössuðu inn í myndina. Svo var náttúrlega upplagt að gera deilur við þjóðir innan ESB, Icesave smellpassaði þar.
Þarna var hann með STÓRRI SMJÖRKLÍPU að beina umræðunum frá atganginum gegn Glitni. Tryggvi Þór Herbertsson hætti sem ráðgjafi hjá Geir í miðjum klíðum og kvaðst ósáttur með þær leiðir sem valdar voru.
Nú kemur upp krafan um að ganga í ESB og nú voru góð ráð dýr. Best að æsa þjóðin upp á að biðja um kosningar, stjórnina frá og allt það, þjóðstjórn (Davíð taldi víst að hann yrði kallaður til). Umræðan um glæpamennina, útrásarvíkingana, óreiðumennina. Nú síðast er sonur Þórðar Friðjónssonar handtekinn. ÞF andmælti DO og DO lagði Þjóðhagsstofnun niður í kjölfarið.
Það verður að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að ISG og Samfylkingunni takist að ná því fram að Ísland sæki um aðild að ESB. Ingibjörg hefur líka margan slaginn tekið við Davíð
Sjálfstæðismenn ætla að skoða ESB í janúar svo það er ekki mikill tími til stefnu. Ef stefnubreyting verður hjá Sjálfstæðisflokknum er leikurinn tapaður fyrir DO og braskaraklíkuna í kring um hann. LÍÚ er að hóta úrsögn úr Samtökum atvinnulífsins.
Bændasamtökin að rísa upp gegn aðildarumsókn. Það er bókstaflega allt reynt og Steingrímur Joð segir ekki styggðaryrði um Seðlabankastjóra, þessi orðhákur sem er á móti öllu milli himins og jarðar. Hann leggur fram vantraust, skammar Björn Bjarnason og potar í öxlina á Geir sem brosir bara
Og nú er byrjað að rakka Jón Ásgeir niður í Noregi, af hverju í Noregi, jú þeir eru með okkur í EES og ef við förum það inn þá er EES í hættu gagnvart þeim.
Þetta hefur allt verið að brjótast í kollinum á mér undanfarna daga og mér hefur fundist eitthvað bogið við þessa stífu kröfu um kosningar, í raun er hún mjög vitlaus núna
Klíkan í Sjálfstæðisflokknum, sjálftökufólkið hefur kynt undir til að freista þess að fá þjóðina til að snúast gegn ESB.
Kvótakóngarnir eru lafhræddir, peningamenn í náðinni eru hræddir, frjálshyggjuarmurinn er hræddur. Þegar við göngum þarna inn verður félagskerfið styrkt enn frekar. Umhverfi launafólks verðir enn sterkara, landsbyggðin á kost á ýmiskonar styrkveitingum sem ekki hafa verið í boði, landið flokkast nefnilega allt undir harðbýlt svæði.
Ég er kannski komin út á hálan ís með þessum hugrenningum, en einhvern veginn passar þetta samt saman. Ég er sjálf samfærð um að almenningi í landinu mun vegna betur innan ESB.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.11.2008 kl. 00:47
mér hefur undanfarið verið hugsað til spádómar míns, sem ég setti fram munnlega fyrir mörgum mörgum mörgum árum, þegar uppgangs- og blómatími Davíðs var sem mestur og hraðastur. þetta var á síðustu öld. ég hef aldrei talið mig mikinn spámann og tel ekki enn. líklega bara 'lucky guess'
þá sagði ég að fall Davíðs yrði ekki minna en uppgangur hans. ég man vel að ekki var um að ræða einhverja óskhyggju, heldur sterka tilfinningu.
ég verð að viðurkenna að mig óraði ekki fyrir þeirri herðablaðauppáskitu sem raunin er í dag.
Brjánn Guðjónsson, 28.11.2008 kl. 00:51
Hvar enda þessi ósköp? Hvað er Samfylkingarfólk að hugsa....hvað þá gera?
Sigrún Jónsdóttir, 28.11.2008 kl. 00:55
Hvað þarf marga Íslendinga til að skrúfa Davíð niður úr Svörtuloftum? 300.000.?
Látum VERKIN tala, Þessir menn eru ekki að vinna að hag lands og þjóðar og slíkt heitir landráð.
1. des. er handan við hornið. Leggjum niður vinnu á landsvísu og sýnum okkur og börnum okkar, umheimi öllum og ekki síst duglausum ráðamönnum, að okkur er fúlasta alvara.
Ráðamenn víki, við viljum breytingar strax og án þeirra aðstoðar.
Við getum, þorum og viljum!
Ásgeir Kristinn Lárusson, 28.11.2008 kl. 00:55
Hólmdís.
JÚ Það ná bæði lög og reglur utan um hann, en þeir sem halda hlífiskyldi yfir honum er hræddir, alveg laf hræddir og ef einhver dirfist að andmæla honum þá er sá eða sú rökkuð niður. Þorgerður Katrín andmælti og fréttamenn voru óðara komir á hælana á henni með spurningar um fjármál manns hennar og stöðu hann sem bankamanns. Meðölin eru mörg og skósveinar iðnir við að sá slúðri og hálfsannleika út um allt.
Það er með þvílíkum ólíkindum að maðurinn skuli halda stöðu sinni og heimurinn hlær bara að okkur.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.11.2008 kl. 01:00
Þið sem standið vaktina og mótmælið. EINBEITIÐ YKKUR AÐ KRÖFUNNI UM AÐ DAVÍÐ VÍKI ÚR SEÐLABANKANUM.
Það er forgangsmálið, hann er hlerinn sem lokar flórnum og þegar búið er að taka hlerann, þá er hægt að byrja að moka.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.11.2008 kl. 01:04
Framkoma Seðlabankastjóra nefnist á mannamáli: Ég þarf ekki að segja neitt! Þrátt fyrir kröfur almennings um meira upplýsingaflæði. Var ekki allt í lagi að segja frá því þegar fyrsta greiðsla barst? Mér er orðið um og ó. Er Davíð með einhvert Furer heilkenni? Hvað er eiginlega að? Fólk fylgist spennt með öllu sem gerist og svo situr hann sallarólegur og flaggar engri vitneskju sinni. Held að maðurinn sé nú haldinn athyglissýki á háu stigi. Sem fer þannig fram að hann mætir ekki, segir ekki frá, heldur upplýsingum og atburðum fyrir sig, vitandi að hann verði spurður um það allt, vitandi að hann fær rosa mikla athygli út á það. Er slíkum manni treystandi í starfi? Sem vill greinilega að allt snúist um hann?
Nína S (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 01:08
Beint frá Alþingi - þar er verið að ræða samninga um ábyrgð ríkissjóðs vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.
Ásgeir Kristinn Lárusson, 28.11.2008 kl. 01:13
Hólmfríður ég hef svolítið hugsaðhlutina á sömu nótum og þú
Hólmdís Hjartardóttir, 28.11.2008 kl. 01:18
Davíð Oddsson = Ahab skipstjóri. Þeir sem bíta af honum fótinn fá engan frið. Skítt með áhöfnina á þjóðarskútunni.
Sigurður Hrellir, 28.11.2008 kl. 01:19
Þau eru fleiri og verri glappaskotin sem er verið að gera þessa daganna. T.d. bara það að umboð rannsóknarnefndarinnar nær aftur til einkavæðingar bankanna 2002 og 2003, en ekki til þess tíma þegar tekin var ákvörðun um að fleyta krónunni og taka um verðbólgumarkmið. Ég hef trú á því að hagfræðingar framtíðarinnar muni komast að því, að sú tímasetning voru fyrstu grundvallarmistökin í því ferli sem leiddi til efnahagshrunsins á fyrri hluta þessa árs. Ég segi og skrifa fyrri hluta þessa árs. Við megum alls ekki falla í þá gryfju að skrifa veikningu krónunnar og verðbólgu ársins á fall bankanna. Þetta tvennt skrifast fyrst og fremst á peningamálastjórnun Seðlabankans.
Marinó G. Njálsson, 28.11.2008 kl. 01:23
Það er hægt að fara býsna langt aftur og finna aðgerðir sem leiddu okkur hingað. Kvótaúthlutunin, framsalsrétturinn, veðheimildir á kvóta, erfðaréttur á kvóta. Þessar ráðstafanir hafa gert mjög mikið í því að skapa misskiptingu fjármagns í landinu. Í togarabyggðalögunum hafa mjög dramatískir og sorglegir atburðir gerst sem hafa haft miklar efnahagslegar afleiðingar fyrir launafólk á þeim svæðum. Það að ganga ekki í ESB í kjölfar þess að Ísland varð aðili að EES samningnum. Hvernig staðið var að sölu ríkisfyrirtækjanna - bankanna. Peningamálastefnan sem tekin var upp 2001 og allt sem henni fylgdi. Listinn er langur og þó alls ekki tæmandi.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.11.2008 kl. 01:41
Áhrifin af kreppunni hefur áhrif á okkur öll. Margir biðja um lausnir, hvernig á að fara að því búa til betri heim o.s.frv. seselia.com kemur einmitt með lausnir varðandi það. Kíktu á þessa síðu og tékkaðu á því hvort þú eigir samleiðmeð þeim lausnum sem þar er boðið uppá fyrir ríki heimsins, þ.á.m. Íslands.
Nína S (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 01:43
Í alvöru talað - Geir á tvo kosti og báða mjög slæma. Annað hvort stendur hann með Davíð þó svo að 90% þjóðarinnar sé á móti því, samtök launþega, Samfylkingin, Heimdallur og heilbrigð skynsemi. Hinn kosturinn hlýtur að vera enn verri fyrir Geir, hvernig svo sem það er mögulegt.
Sigurður Hrellir, 28.11.2008 kl. 01:43
http://mariataria.blog.is/blog/mariataria/#entry-727776 Mér finnst þetta frábær hugmynd hjá Maríu, að reka þá sem maður vill á laugardaginn
Ég er með nokkra í huga sem ég ætla að reka!!!
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.11.2008 kl. 02:48
Það er þetta með Davíð. Fólk verðu að beina spjótum sínum að þeim sem eru með hann í vinnu þ.e. ríkisstjórnin. Ekki hættir hann sjálfur, það er ljóst. Meðan ríkisstjórnin vill hafa hann í vinnu þá verður hann þar. Björgvin sagði í 22 fréttunum sjónvarps í gær að ekki ætti að vera með vesen út af Davíð þrátt fyrir að karlinn hafi vísvitandi leynt ráðherrann upplýsingum.
Víðir Benediktsson, 28.11.2008 kl. 06:44
Davíð kemur víða fyrir í þessum færslum!
Y) STJÓRNSÝSLA OG STJÓRNMÁL
Kjartan Pétur Sigurðsson, 28.11.2008 kl. 07:50
Ég er undrandi á þessu Davíðshatri sem heltekur þjóðina þessa dagana. Þið ætlið semsagt að leyfa honum að stjórna, með góðu eða illu. Þarsem meirihluti landsmanna kaus hann áður, aftur og aftur, hljóta einhver ykkar að vera í þeim hópi. En ég skil ekki eitt. Nú kaus ég hann aldrei vegna þess að ég get ekki ímyndað mér gott samfélag þarsem helstu stoðkerfi eru einkavædd. Ekki frekar en ég hef ekki áhuga á að framselja landið inní einkavæðingu ESB og því hef ég aldrei kosið Samfylkinguna. En af hverju þessi andúð núna??? Horfiði á hverjir það eru sem hafa siglt landinu í þrot. Davíð kemur þar lítt við sögu. Ég legg til að þið notið krafta ykkar í að mótmæla þar sem við á og dempið þetta barnaskólahatur.
Dagga (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 08:39
Dagga, Þarsem meirihluti landsmanna kaus hann áður, aftur og aftur. Það er ekki rétt. Sjálfstæðisflokkurinn var aldrei með hreinan meirihluta.
Heidi Strand, 28.11.2008 kl. 09:05
Ástæða þess að fólkið í landinu vill fá endurnýjun í Seðlabankanum er einmitt þetta. Það eru tug þúsundir einstaklinga hér búnir tjá sig um þetta, í orði og á borði m.a. í mótmælunum á Austurvelli. Ég vil segja eftirfarandi sem ég tel vera SAMNEFNARA fyrir allt heila klabbið:
Stjórn Seðlabankans með seðlabankastjóra í fararbroddi sýnir þjóðinni síendurtekna VANVIRÐINGU og það er ekkert lát á því.
Það má velta því fyrir sér HVERS VEGNA framkoma þessara einstaklinga í bankaráðinu er á þennan veg og HVAÐ þeim gengur til. Margir hafa tjáð sig um það. Freistandi er að kenna einum manni Davíð Oddsyni um aðgerðir og aðgerðaleysi Seðlabankans og holdgera allt í HONUM. Margir gera það, enda gefur hann tilefni til þess m.a. með sífelldum ÖGRUNUM framan í opið geðið á fólki. Margir biðja að öll stjórnin víki.
Ég hef það á tilfinningunni að málið sé ekki það einfalt að það sé hægt að skella skuldinni á einn mann; tel að MEIRA þurfi til. Ég TEL að það sé eitthvað undirliggjandi sem er ekki í lagi, eitthvað sem veldur. Heil þjóð getur EKKI haft rangt fyrir sér, einkennin eru augljós, en undirliggjandi sjúkdómur er ekki fullgreindur, langt í land með það.
Bið einhvern um að gefa sig fram og skoða, skýra, upplýsa.
Það er alveg ljóst að við sættum okkur ekki við þetta. Krafan þjóðarinnar er skýr, Seðlabankastjórnin verður að fara. Meiri hagsmuni fyrir minni. Það er byrjunin.
Kveðja Hákon Jóhannesson
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 09:05
Sæl Heidi.
Átti að sjálfsögðu við að fleiri kusu XD en nokkurn annan flokk. Hélt það væri augljóst! En mig langar að spyrja Hákon. Hvað með auðmennina, Jónas Jónsson, Björgvin Sigurðsson, Ingibjörgu Sólrúnu og Geir Haarde? Þar erum við með ansi viðamikinn lista sem ætti að standa Seðlabankastjórn framar, ekki satt?
Dagga (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 09:36
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í hálfan annan áratug barist hatramlega gegn aðild Íslands að ESB og upptöku evru.
Með EES samningnum1995 var fjármálaleg einangrun þjóðarinnar rofin. Við gátum stækkað okkar efnahagssvæði frá okkar þrönga 300 þúsund manna markaðssvæði yfir til allra ESB landanna. Þessi gerningur hefur reynst okkur mikil lyftistöng til framfara.
En málið var aldrei klárað og gengið að fullu í ESB og evra tekin upp- vegna harðrar andstöðu Sjálfstæðisflokksins undir forystu Davíðs Oddsonar bæði í embætti forsætisráðherra og nú seðlabankastjóra.
Krónan ,okkar örmynt ,skyldi verða okkar lífsakkeri í okkar efnahagskerfi.
Öllu var kostað til og nú erum við gjaldþrota þjóð -uppá náð og miskun annara þjóða komin.
Verðtrygging lána sem nú sligar heimilin er eitt afsprengi þessa .
Öll verk Davíðs Oddssonar í seðlabankanum miðuðu að þessu eina marki- að halda í krónuna og koma í veg fyrir aðild að ESB og upptöku evru...
Og nú er væntanlega komið að leiðarlokum þessa hildarleiks sem staðið hefur allt frá árinu 1995 þegar við gengum í EES -
Nú verðum við að klára málið hið fyrsta og hefja aðildarviðræður að ESB aðild og upptöku evru. Það er alveg hörmulegt að þjóðargjaldþrot undir forystu Davíðs Oddssonar hafi þurft til.
Davíð Oddsson er orðinn þessari þjóð rándýr- hann verður að víkja frá öllum völdum og áhrifun- strax- hann hefur stórskaðað íslenska þjóð.
Sævar Helgason, 28.11.2008 kl. 09:55
Já, löngu tímabær spurning um að varpa fram spurningunni hvort að Dabbi (og hugsanlega fleiri) séu landráðamenn, föðurlandssvikarar. Ég veit svarið fyrir mína parta. Nú er bara að sjá hvort og hvað er hægt að gera.
Einar Indriðason, 28.11.2008 kl. 10:00
Landráð segir þú, jamm ég vogaði mér að spekúlera um það þann 20 okt sl. Sjá hér fyrir þá sem nenna:
http://blogg.visir.is/arikuld/2008/10/20/landra%c3%b0/
Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 10:03
Mig grunar einhvernvegin að það sé svo margt rotið og spillt undir þessum málum öllum sem þetta fólk situr á eins og ormar svo ekki komist upp um hvað hér er MIKIL og rótgróin spilling sem nær um alla stjórnsýsluna og embættismannakerfið....Og Davíð er lokið á pottinum og hefur upplýsingar um eitt og annað sem ekki þolir dagsskímuna. Sem betur fer er þjóðin að vakna og þurfti heldur betur mikið til að losa um hlýðni landans. En það eru takmörk fyrir hvað hægt er að misbjóða fólki mikið og lengi og nú erum við komin á þann stað að það er engin leið til baka. Lýðræðisbyltingin er hafin fyrir alvöru og okkar bíða nýir og betri tímar þegar við höfum komið spillingaröflunum frá. Nú eða aldrei.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.11.2008 kl. 10:36
Já já og svo eru bankar að fara umvörpum á hausinn í USA og Bretlandi.
Helvítið hann Davíð er á bak við það allt saman langt langt plott af hans hálfu.
Bankar hrynja í Evrópu, þ.e. Danmörku , Svíþjóð, Frakklandi, þýskalandi, hollandi, og víðar.
Helvítis karlfauskurinn hann Davíð er auðvitað Guðjón á bak við tjöldin þar, eða er hann sjálf TJÖLDIN?? ha hvað?
Auðvitað verður að reka hann úr Seðlabönkum Bretlands, Evrópusambandinu, Danmörku, Luxemburg, Hollandi, Austurríki, Frakklandi og víðar, í Evrópu og annarstaðar, hvar fyrrum pólitíkusar eru Seðlabankastjórar eða í bankastjórn viðkomandi landa.
Leitið læknis, það er eitthvað alvarlegt í gangi hjá fólki sem er svona gersamlega fallið fyrir áróðri þeirra sem urðu fyrir barðinu á viðkomandi einhvertíma á feli sínum.
Jafnvel Þorvaldur fær að bulla út í eitt í fjölmiðlum, svo langt eru mann tilbúnir að ganga í vitleysunni til að ,,ná se´r niður" á Dabba Kóng
Með hluttekningu
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 28.11.2008 kl. 10:45
Aðal málið er að koma yfirstjórninni í burtu og ÞÁ KANNSKI FYRST FER ALLT KERFIÐ SEM ÞAR LIGGUR UNDIR AÐ HUGSA AÐEINS SITT MÁL BETUR. Á meðan allt kerfið býr við þá yfirmenn sem nú sitja sem fastast, að þá mun EKKI VERÐA NEIN BREYTING Á TIL BATNAÐAR!
ÞVÍ SKIPTIR ÖLLU MÁLI FYRIR LÝÐRÆÐIÐ Á ÍSLANDI AÐ ÞEIR SEM SIGLDU SKÚTUNNI Í STRAND VÍKI ... STRAX!
Ef þeir sjá ekki sinn vitjunartíma sjálfir, þá verður að hjálpa þeim til að skilja um hvað málið snýst.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 28.11.2008 kl. 10:50
Hrunið hefur opnað augu fólks. Spillingin, lygarnar, þöggunin, ofríkið, fúskið og vanhæfnin. Graftarkýlið er sprungið og óþverrinn vellur út. Arfleifð Davíðs Oddssonar og skósveina hans. - Eftir situr þjóð í skuldaánauð.
Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.
Þetta er ekki í fyrsta skipti í sögunni sem áður dáður ofríkismaður er hrópaður niður. Ofmetinn oflátungur.
Kjósendur draga stjórnmálamenn til ábyrgðar, stjórnmálamenn óhæfa embættismenn og dómstólar sakamenn.
Rómverji (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 11:43
Málið er bara að það er ákaflega erfitt að festa fingur á aðalatriðunum á nútímaatburðum. Þarf vissa fjarlægð.
Jú, bankakerfið var komið útúr öllu korti og skuldastaða virðist óviðráðanleg sérstaklega ef haft er í huga að SÍ eða ríkið ætluðu ekkert að bakka þá upp.
Samt sem áður finnst mér núna, sú afstaða kannað breitast, sumt umhugsunarvert í því sem Hólmfríður segir að ofan.
Sérstaklega set ég spurningarmerki við aðferðafræðina sem viðhöfð var í upphafi. Það hlýtur að vera að menn hafi gert sér grein fyrir að aðkoma yfirvalda að Glitni þýddi einfaldlega dóminóáhrif og það litla traust sem eftir var á hinum bönkunum myndi hrynja um leið.
Að það skildi enginn annar möguleiki vera í stöðunni - ég staldra við við þann punkt. Þar að auki virðist um mikinn flýti hafa verið að ræða og afar takmarkað samráð um aðgerðir. Ég viðurkenni að ég er hugsi yfir þessu.
En svo auðvitað verður að hafa í huga að maður hefur svo takmarkaðar upplýsingar. Maður veit ekki vað gerist á bak við tjöldin. Það er ekki eins og maður séupplýstur eitthvað ofur vel.
Td. á ég erfitt með að trúa að ráðamenn hafi ekki gert sér grein fyrir hættuni sem var framundan varðandi bankana fyrir löngu. Það er ímislegt sem bendir til að svo hafi verið þó þeir hafi sagt eitthvað allt annað á sviðinu. Td. fundur Forsætisráðherra og Brown í apríl (minnir mig) þar sem Brown á að hafa sagt: Farðu undireins til IMF.
Það er margt hulið enn í þessu máli. Kannski veit enginn fyrr en eftir 100 ár hvað raunverulega gerðist. Who knows.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.11.2008 kl. 14:24
Ég tek algjörlega undir með Sævari Helgasyni. Það er forgangsverkefni að koma af stað aðildarviðræðum við ESB. Davíð og hans fylgdarlið hefur unnið gegn því með öllum ráðum að koma í veg fyrir að sótt væri um aðild og að halda okkar gjörónýru krónu á floti. Því verður að linna og það strax. Krafan um kosningar er skiljanleg en hún verður aðeins að bíða, en þó ekki lengi.
Besta leiðin til að gera Davíð valdalausan er að koma af stað aðildarviðræðum. Það klýfur Sjálfstæðisflokkinn og hvað með það. Hann hefur í raun verið klofinn í mörg ár þó það hafi ekki verið viðurkennt til að halda völdum. Ég óttast það ekki að þessi mál verði ekki rannsökuð og að okkur verði ekki sagt frá því hvað gerðist í raun og veru. Slík rannsókn er auðvitað tímafrek og verður að vera vönduð og heiðarleg.
Það sem er brýnast er að skipta um stjórn í Seðlabankanum og hefja aðildarviðræður. Samfélagið er að breytast og það mun breytast enn meira á næstu árum. Þið sem eruð að vakna núna og krefjast hreinsunar og úrbóta, þið verðið að halda út og átta ykkur á því smámsaman hverskonar samfélag þið viljið þróa úr þeim rústum sem nú eru hjá okkur.
Það þurfa að fara fram miklar samræður í þjóðfélaginu öllu og það þarf að nást sátt milli ýmissa hópa sem myndast hafa á síðastliðnum árum og áratugum. Það er auðvitað rétt að undir yfirborðinu séu valdablokkir sem þarf að uppræta.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 29.11.2008 kl. 00:25
Þó að ég sé alls ekki sammála Hómfríði um ESB-aðild þá verð ég að dást að mjög greinargóðri samantekt hennar í svari hennar nr. 3. Ég er á því að Davíð sé stórt vandræðabarn í íslenskri pólitík. Það er býsna margt sem bendir til að það sé í raun þjóðþrifamál að koma honum þaðan út og það strax.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 30.11.2008 kl. 19:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.