Tveir brandarar og ein sorgarsaga

Hér talar ráðherrann sem hefur innan við 5% fylgi samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallups og skal engan undra. Hann vill að skríllinn "stilli mótmælum í hóf" og veit greinilega ekki að einmitt þannig hafa mótmælin verið. Þau hafa verið svo hófstillt miðað við aðstæður að erlendis þykja Íslendingar vera algjörar geðluðrur. Enn hefur ekkert ofbeldi átt sér stað, engar eignir verið skemmdar - fólk hefur bara verið að tjá gremju sína, örvæntingu og örvilnan.

Ráðherrann finnst þróunin í þjóðfélaginu og ólgan "að mörgu leyti skiljanleg" og fattar ekki að við hin eigum ekki milljóna, tugmilljóna, hundruð milljóna eða milljarðahluti í Byr eins og hann. Maður verður að giska því auðvitað má enginn vita hve stór hlutur hans er og hvers virði. Allt svo opið og gegnsætt eins og hann jánkaði og lofaði í Háskólabíói á borgarafundinum um daginn. Klöppum fyrir Árna.

 

Þetta rakst ég á á Eyjunni, fór inn á vefinn, vafraði þar um og skellihló. Glænýr fréttavefur segist nú þegar á fyrsta degi vera "Fremsti fréttaskýringavefur landsins"! Það vantar ekki sjálfsöryggið á þeim bænum. Fyndnast fannst mér að ritstjórnin segist óháð stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum. Allir kannast við Óla Björn og Jónas. Friðbjörn Orri er helst þekktur fyrir frjálshyggjuskoðanir sínar og hann var (er kannski enn) formaður Frjálshyggjufélagsins. Saman hafa Friðbjörn Orri og Arthúr rekið "Leiðandi verðbréfavefinn" m5 og "Fremsta sjávarútvegsvef landsins" Sax. Það þarf ekki að grufla lengi á vefnum AMX til að sjá hvaða stjórnmálaskoðanir og hagsmuni þar er verið að upphefja, hverja vitnað er í og hverjir fá þar hásæti - þótt óháður vefur sé. Takk fyrir að kæta mig, strákar! Þið eruð með húmorinn í lagi. LoL

Sorgarsöguna las ég hjá Illuga Jökulssyni sem fékk bréf. Alvöru handskrifað bréf í umslagi. Ég táraðist. Árni fjármálaráðherra ætti að lesa þetta og sjá sóma sinn í því að gera eitthvað í málinu í stað þess að tuða yfir að mótmælum sé stillt í hóf. Hverju ætli hann haldi annars að fólk sé að mótmæla? Veðrinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

bréfið  er dapurlegt..........og svona dæmi örugglega mörg.

Hólmdís Hjartardóttir, 2.12.2008 kl. 17:58

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sorglegt bréf og ég vildi að sá hluti þjóðarinnar, sem ekki hlustar og ekki skilur, fari að átta sig.

Sigrún Jónsdóttir, 2.12.2008 kl. 18:07

3 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Sorglegra en táum taki, því miður er þetta saga margra. Hrædd um að þessi hópur fari hratt stækkandi. Á sjálf ekki lengur eina krónu í íbúðinni minn, útborgun, afborganir, lagfæringar og ómældir tímar af vinnu eru farin eins og hendi væri veifað á mjög skömmum tíma. Hvernig er annað hægt með hárri vaxtastefnu og verðbótum, þetta dæmi einfaldlega gengur ekki upp. Meira að segja ratar í reikningi skilja það.

Rut Sumarliðadóttir, 2.12.2008 kl. 18:17

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Stjórnin getur hæglega séð til þess að menn stilli mótmælum í hóf. Einfaldlega með því að stilla afglöpum sínum í hóf. Gætu meira að segja útrýmt mótmælum alveg með því að segja "jæja þá, við skulum þá bara kjósa" og boða kosningar í vor.

Haraldur Hansson, 2.12.2008 kl. 18:33

5 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Aumingja Árni lifir bara í sínum heimi fullum af ranghugmyndum og ekki í nokkrum raunveruleikatengslum. Kallgreyið.

Helga Magnúsdóttir, 2.12.2008 kl. 18:46

6 Smámynd: nicejerk

Það átti að vera búið "að vinna þetta verk" fyrir a.m.k. 10 áru síðan.

"að mörgu leyti skiljanleg" segir Árni og ISG segist gjarnan vilja "vera sjálf viðstödd mótmælin". Allir á móti sjálfum sér og halda áfram klúðrinu án þess að taka ábyrgð. Tissedukker og tösedrenge!

Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kosinn af íslenskri alþýðu, ætti að sjá að forsendur stjórnarsetu núverandi stjórnar eru allar á annan veg en um síðustu kosningar. Forsetanum ber skylda að standa vörð um lýðræði Íslands og hann hefur vald til að rjúfa þing. Hann á að nýta sér það nú í þágu íslensku þjóðarinnar.

Aularnir í núverandi ríkisstjórn eru vandfundnir, jafnvel í símaskrá.

Það er meiri ábyrgð að finna hjá ríkisstjórnum Filipseyja, Thailands og Venezuela en hjá íslenzkum ráðamönnum. Já, stjórnmálalega séð liggjum við lægra en þau lönd.

nicejerk, 2.12.2008 kl. 19:16

7 identicon

Nicejerk, mér er sagt að lögin um að forsetinn geti rofið þing eða sett ríkisstjórnina af séu svo flókin og erfið i framkvæmd að það sé næstum ógerlegt að setja ríkisstjórnina af. Ef þú ert með aðrar upplýsingar viltu þá endilega segja frá þeim hér, því mig langar að vita hvaða lög gilda um þessa aðgerð. Þú segir: "Forsetanum ber skylda að standa vörð um lýðræði Íslands og hann hefur vald til að rjúfa þing. Hann á að nýta sér það nú i þágu íslensku þjóðarinnar". Í hvaða lög ertu að vitna? Ég veit að forsetinn getur myndað ríkisstjórn ef stjórnmálaflokkum tekst ekki að gera það sjálfum, en þú virðist vera með aðrar upplýsingar en mér hefur tekist að afla mér um það hvernig hægt er að koma ríkisstjórn frá: ríkisstjórn sem vill ekki fara frá.

Helga (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 19:35

8 Smámynd: Heidi Strand

Sorgarsögurnar eru margar. Ég talaði við ungan mann á Arnarholtinu í gær. Hann er með konu og tvö lítill börn og er búin að missa vinnuna og er líka að missa íbúðina . Í hans vínahópi er aðeins einn sem enn á vinnu.

Heidi Strand, 2.12.2008 kl. 20:09

9 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég vorkenni barnabarni gömlu konunnar. Það hlýtur að vera hræðileg tilfinning að hafa komið aldraðri ömmu sinni á kaldan klaka.

Helga Magnúsdóttir, 2.12.2008 kl. 20:14

10 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já, það er hræðilegt hvernig farið hefur verið með samfélag okkar. Nú á þetta bara eftir að versna og jafnvægið í þjóðfélaginu líka. Ég hef verið að tala við fólk sem óttast það sem tekur við eftir áramót. Margir atvinnurekendur eru sorgmæddir líka. Þurfa að segja upp góðu fólki vitandi það að það lendir síðan á köldum klaka.

Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar er algjört og litla huggun að finna þar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 2.12.2008 kl. 20:26

11 Smámynd: nicejerk

Það er nauðsynlegt að allir Íslendingar þekki Stjórnarskrá Íslands, því hún er undirstaða lýðræðisins (eða því litla sem er eftir af því).

Það stendur í Stjórnarskrá Íslands að forseti Íslands geti rofið þing.

Þar kemur einnig fram að Forsetinn sé kosinn í almennum kosningum en ekki "valinn" af ríkisstjórn. Ég vitna hérna beint í Stjórnarskrá Íslands:

24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, [áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið],1) enda komi Alþingi saman eigi síðar en [tíu vikum]1) eftir, að það var rofið. [Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.]1)
   
1)L. 56/1991, 5. gr.

Ég hnykki inn hérna sem ég var að skrifa annars staðar:

Hvað er fólk að enn halda í flokkstýruna og flokka sjálft sig eftir einhverjum sérstökum hagsmunahópum. Hrunið kemur okkur öllum við, óháð pólitík og hjarðeðli.

Að eyða púðri, akkúrat það sem flokkspólitísk öfl þrífast á, þá hægist batinn með hverri mínútunni.
Þetta er ekkert nema tvöfeldni sem er stunduð, eiginhagsmunapólitík í nafni einhvars "flokks".

Nokkrir eiga ær og kýr, aðrir eru jarmandi kýr, enn aðrir áhald íhaldsins, baulandi næturgagn framsóknar, vinstri gegn, allt samhlýðandi hjörð Ósjálfsstæðs Fólks Halldórs Kiljan.

Ef Steingrímur Njálgsson stofnaði flokk, fyndist væntanlega flestum að hans "pólitísku sjónarmið" væri ekki alveg við hæfi. En það sama á við um efnahagsstefnu ríkisstjórna síðastliðinna ára, þar sem nauðgun hefur átt sér stað á Íslenskum almenning, grunni íslenskrar þjóðarframðleiðslu. Og þar á ekkert að gefa eftir á misnotkuninni, heldur halda ótrautt áfram.

Að menn skuli bara sitja fastir og röfla um pólitík í stað þess að grípa í árarnar og taka á hlutunum, þá er bara að tuða eins og venjulega sem einhver afdala flokkspólitísk lufsa.

Ég get ekki með nokkru móti séð að nokkur Íslendingur með snefil að sjálfsvirðingu, geti haldið sjálfsvirðinu sinni nema að haldið sé til kosninga.

nicejerk, 2.12.2008 kl. 20:40

12 Smámynd: nicejerk

Stjórnarskrá Íslands:

http://www.althingi.is/lagasofn/nuna/1944033.html

nicejerk, 2.12.2008 kl. 20:48

13 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Bréfið til Illuga opinberar stærsta vanda þeirra sem þurfa á láni að halda.. einhver þarf að skrifa upp á helvítis lánið.. einhver annar þarf að gangast í ábyrgð fyrir skuldaran en bankinn.  bankinn er ALLTAF með allt sitt á þurru.. 

Í heilbrigðu kerfi er þetta ekki svona og hef ég reynslu af slíku kerfi frá norðurlöndum.. þar er það þannig að ef þú ert með fasta vinnu og jafnar tekjur þá færðu lán.. enginn ábyrgðarmaður og ekkert vesen.. námslán eru á ábyrgð námsmanns en ekki ættingja..

íslenska bankakerfið er hreinn viðbjóður af vinatengslum og ættingjaskuldbindingum..  

varðandi Árna Matt þá er hann ógeð..  

Óskar Þorkelsson, 2.12.2008 kl. 20:53

14 identicon

Nicejerk, ég er hrædd um að þú túlkir þessa lagagrein ansi hreint frjálslega, réttara sagt rangt og grunnt. Það er ekki nóg að benda á að forsetinn geti rofið þing - það þarf að fylgja með hvaða ástæður verða að liggja að baki því að forsetinn geti rofið þing. Það er ekki svo að líki forsetanum ekki ástandið þá geti hann rofið þing. Hann þarf að hafa ákveðnar forsendur og þeim verða að fylgja ítarlegur og góður rökstuðningur. Þér átti að vera ljóst að ég var ekki að biðja þig um að finna stjórnarskránna fyrir mig heldur að útskýra á hverju þú byggðir fullyrðingu þína sem ég vitnaði í hér að framan.

Ef lagagreinininni væri ætlað að virka eins og mér virðist að þú sért að gefa í skyn þá stæðum við hér uppi með það að forsetinn gæti rofið þing byði honum svo við að horfa - þannig er lagagreininni svo sannarlega ekki ætlað að virka.

Ef þú hefur rök fyrir túlkun þinni þá endilega birtu hana hér. Þangað til held ég að ég verði að trúa mér fróðara fólki sem segir að það sé meiri háttar mál að setja ríkisstjórn frá vilji sitjandi forsætisráðherra það ekki.

Helga (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 20:58

15 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Þetta er hræðilegt, alveg hræðilegt, en því miður ekkert einsdæmi.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 2.12.2008 kl. 21:50

16 Smámynd: Gerður Pálma

Kaera Helga, thu virdist vita nokkud vel um thessi mál, allir eru ad spyrja en engin svor hafa fengist til thessa.  Vid eigum ad heita lýdraedisríki, sem er undarleg skilgreining á stjórnarfari vina- og aettingja klúbbsins sem hefur rádir ríkjum, en spurningin brennur, hvernig getur lýdraedisriki fellt ríkjandi stjórn? Átt thú svar? 

Hvernig er haegt ad lída thennan ósóma sem raedur og hefur rádid ríkjum á Íslandi í áratugi. Fólk tharf ad  átta sig á ad ástandid er ekki einungis til ordid vegna stjórnleysis og graedgisstefnu sídustu ára, thetta ástand er til ordid vegna thess ad ríkisstjórnir sídustu áratuga hafa aldrei sinnt uppbyggingu heilbrigdrar atvinnustefnu í landinu, thannig ad thegar húsid fauk, var engan grunn ad finna til thess ad byggja framtídina á. 

Gerður Pálma, 2.12.2008 kl. 22:08

17 identicon

Vinur minn sem er byggingaverkfræðingur var að missa vinnuna síðastliðinn föstudag og hann sér ekki fram á það að fá vinnu næstu árin. Það er ekki meira en ár síðan hann, kona hans og ungur sonur fluttu heim þar sem hann hafði menntað sig og unnið. Nú eru þau skilin en fyrrverandi kona hans er með vinnu. Hann er byrjaður að undirbúa flutning aftur út til að leita sér að vinnu og nýju heimili. Honum líður hræðilega yfir þessu því hann mun nú þurfa að skilja son sinn, sem er innan við 6 ára, eftir hér á Íslandi hjá barnsmóður sinni. Hann ætlar sér ekki að koma aftur, hann sagði mér að hann ætli nú að sækja um ríkisborgararétt úti og reyna að fá son sinn til sín reglulega. Þarf vart að taka fram hve reiður hann er útí stjórnvöld og hvað hann sé hneykslaður á öllu sem er í gangi núna. Sama fólkið að gera sömu mistökin með sama hætti. Ekkert hefur breyst og hann sér ekki að það muni nokkuð breytast, hér sé allt gegnumsýrt af spillingu og það muni ekkert breytast vegna þess að valdaklíkunar í landinu munu gera allt til að koma í veg fyrir það. 

Sölvi (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 00:44

18 identicon

Sæl, Gerður!

Nei, ég á ekki svar. Það er með mig eins og þig og svo marga aðra að mér líður eins og ég eigi ekki réttindi sem ég er alin upp við að eiga. Lýðræðisleg réttindi Ég spyr mig hvort ég hafi aldrei átti þessi réttindi sem ég hélt að fylgdu lýðræðinu eða hvort ríkisstjórnin hefur tekið þau af mér. Það að koma ríkisstjórninni frá er bara hluti af þessum réttindum sem ég hélt að þjóðin ætti saman þegar stór hluti hennar mæti það svo að ríkisstjórnin væri farin að vinna gegn fólki. Á dauða mínum átti ég frekar von en að upplifa að þúsundir manna krefðust afsagnar ríkisstjórnarinnar en ríkisstjórnin myndi samt sitja og við hinum gætum þá ekkert gert.

Helga (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 04:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband