9.12.2008
Fjölmennur og heitur borgarafundur
Mikið vildi ég að borgarafundurinn í gærkvöldi hefði verið sendur út í beinni eins og sá síðasti. Mér finnst það eiginlega vera skylda RÚV, sjónvarps allra landsmanna, að gefa fólki um allt land kost á að vera með að svo miklu leyti sem það er hægt í gegnum sjónvarpið. Og öllum þeim, sem komast ekki út úr húsi einhverra hluta vegna. Það var ekki einu sinni útvarpað frá fundinum og það fannst mér aumt. Vonandi fjalla prent- og netmiðlar vel um fundinn. Þetta eru engar venjulegar aðstæður sem við búum við núna og fjölmiðlum ber skylda til að miðla því sem er að gerast til allra Íslendinga, heima og erlendis.
Þarna voru saman komnir nokkrir af helstu forystumönnum verkalýðsfélaga og eitthvað af lífeyrissjóðsforkólfum. Og einn ráðherra sem átti bágt, Björgvin G. Á honum stóðu ansi mörg spjót. En hann má eiga það að hann reyndi og svaraði einstaka spurningum afdráttarlaust. Eins og til dæmis því hvort Davíð Oddsson sæti ekki í Seðlabankanum í skjóli Samfylkingar alveg eins og Sjálfstæðisflokks. Því svaraði hann játandi. Og þegar hann var spurður hvað honum fyndist um að bankamálaráðherra og seðlabankastjóri hittust ekki né ræddust við í heilt ár. Björgvin sagði að auðvitað væri það fáránlegt. Hann fékk líka yfir sig nokkrar eftirlaunafrumvarpsgusur og getur varla hafa liðið mjög vel undir þeim ósköpum. Annars fékk ég á tilfinninguna að honum sé farið að ofbjóða - sem manneskju. Og skyldi engan undra. Annars er Gylfi Arnbjörnsson efni í stjórnmálamann af gamla skólanum, hann fór eins og köttur í kringum heitan graut og svaraði spurningum út og suður. Hitti aldrei í mark.
Fólk gaf upp við hvað launin þeirra eru miðuð. Aðeins Gunnar Páll hjá VR er með "markaðslaun" eins og hann orðaði það. Sem þýðir að á meðan lægsti taxti umbjóðenda hans er 140.000 er hann með um 1.700.000. Traustvekjandi verkalýðsforingi, eða hitt þó heldur. Auðvitað á að gera eins og Guðmundur Gunnarsson og náunginn frá Trésmíðafélaginu - þeirra laun miðast við taxta sem þeir semja um fyrir umbjóðendur sína. Mig minnir að fleiri hafi svarað í þeim dúr og þannig á það að vera.
Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, sagði að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki tapað jafnmiklu og talið var í fyrstu - en ekki gat hann gefið upp neinar prósentur. Svo sagði hann að Fjármálaeftirlitið hefði eftirlit með áhættufjárfestingum lífeyrissjóðanna og þá var hlegið dátt í salnum. Greinilega enginn sem treystir eftirlitinu því, enda hefur það brugðist hlutverki sínu hrapallega - en samt hefur engum verið vikið frá sem þar eru í forsvari. Skrýtið.
Ásta Rut Jónasdóttir og Vésteinn Gauti Hauksson voru frummælendur auk Gylfa ASÍ. Þau voru bæði fantagóð og bæði lögðu þau út af sínum persónulegu högum. Aðstæður þeirra eru svipaðar og hjá okkur öllum sem erum með verðtryggð húsnæðislán. Vésteinn og konan hans hafa ákveðið að taka hjónabandið og hamingjuna fram yfir þrældóm fyrir skuldahítina til æviloka og honum létti við að taka þá ákvörðun. Það eiga örugglega fleiri eftir að feta í fótspor þeirra. Sáuð þið viðtalið við hann í Kastljósinu í síðustu viku? Það er hér:
En RÚV var ekki alveg fjarri góðu gamni og fjallaði um fundinn í Kastljósi og Tíufréttum sem ég klippti saman. Ég bjóst alveg eins við að heyra eitthvað á þessa leið: "Mörg kunnugleg andlit voru á fundinum frá flokksráðsfundi Vinstri grænna..." í stíl við það sem Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir sagði í kvöldfréttum Sjónvarpsins í fyrrakvöld. Ég stimplaði það inn og glotti við tönn. En fréttakonur kvöldsins féllu ekki í þá pólitísku áróðursgryfju.
Vonandi fáum við góðar frásagnir af fundinum í fjölmiðlum í dag. Þetta var mjög góður fundur að mörgu leyti og verður þess að fá vandaða umfjöllun. Þótt hann hafi ekki verið jafnfjölmennur og sá síðasti voru nálægt 1.000 manns þarna og mikil stemmning.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:48 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir að skýra frá fundinum og ég segi eins og þú, það er ömurlegt að sjónvarpið skuli ekki hafa sent frá fundinum. Það er mikið af fólki sem er á barmi þess að missa húsnæði sitt og vill fá fréttir af fundum sem þessum þar sem rætt var um verðtryggingu og lífeyrissjóði.
Valsól (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 03:58
Ég skellti mér fyrir framan sjónvarpið kl. 8.00 og hugðist horfa á fundinn, svo gerðist bara ekkert, takk fyrir þessa samantekt.
Sigurveig Eysteins, 9.12.2008 kl. 04:38
Þetta er örugglega mjög erfitt að meta hverju sinni ... afhverju ætti t.d. að senda frá þessum fundi frekar en einhverjum öðrum? Ef stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar héldu fund í Háskólabíói og fylltu húsið, ætti þá að senda beint frá þeim fundi?
Katrín Linda Óskarsdóttir, 9.12.2008 kl. 06:24
JÁ... KATRÍN auðvita.
Sigurveig Eysteins, 9.12.2008 kl. 06:36
Þegar síðasti fundur var sýndir á RÚV var 80% áhorf... það ætti að vera nógu góð ástæða... annars þá blöskraði mér svo loðnu svörin og vanmáttur ASÍ að ég hefði rokið út miklu fyrr ef ég hefði ekki asnast til að fá mér sæti í miðju salarins. Ræðurnar voru frábærar fyrir utan jarmið í jólasveinunum. Hann er ekki að vinna fyrir verkalýðinn í landinu - hann ætti að hella sér í sögubækurnar og finna þar fyrirmyndir í fornum verkalýðsforkólfum. Þegar forustan var spurð um hvað hún ætlaði að gera í þessu makalausa árferði - þá var fátt um svör.
Birgitta Jónsdóttir, 9.12.2008 kl. 06:38
Katrín Linda! - Bara fyndin?! Ef stuðningsmenn núverandi valdhafa Íslands Fylla Háskólabíó er það Stórlega fréttnæmt og sjálfsagt að sjón-, eða að minnsta kosti hljóð-varpa frá þeim ótrúlega atburði! Á þessum borgarafundi voru líka stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, þó þeim fari stöðugt fækkandi.
Borgarar Íslands BORGA rekstur RÚV með skylduáskrift/skatti - mundu það!
Hlédís, 9.12.2008 kl. 06:52
Sko :) ... ef stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar boðuðu til almenns fundar þá myndi Háskólabíó ekki duga til, Laugardalshöll ... Egilshöll ... ja, kannski. Það eru nefnilega svo margir sem vilja ALLS ekki kosningar núna og vilja að við gefum ráðamönnum frið í einhverja mánuði til þess að koma þjóðlífinu aftur af stað. EKKI að þessi 80% þjóðarinnar séu ekki reið, sár og vonskvikinn vegna ástandsins eins og þið hin sem mætið á Austurvöll. Við kjósum bara ekki sömu leið til úrlausnar, þannig er það bara.
Ég veit að ég og þú og allir hinir borgum RÚV áskriftina ... þess vegna verður RÚV að vega og meta hvað þeir eyða peningum í ....
Katrín Linda Óskarsdóttir, 9.12.2008 kl. 07:12
Katrín Linda, samkvæmt skoðanakönnunum styður mikill meirihluti landsmanna ekki þessa ríkisstjórn- og 55% styðja þessi mótmæli, svo ég skil ekki alveg hvernig þú færð þessi 80%?
María Kristjánsdóttir, 9.12.2008 kl. 07:23
Katrín Linda, hvort sem það er nú þitt rétta nafn eða að þú heitir með réttu Inga Jóna Þórðardóttir, þá - plís drím on - engar líkur á að stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar, a.m.k. ekki sjálfgræðisflokksins, myndu fylla tóma síldartunnu, hvað þá það sem stærra er. Þjóðin er 98% á móti stjórnvöldum, seðlabanka, FME, lífeyrissjóðunum, verkalýðsforystunni, já öllu þessu skítuga pakki sem hefur komið okkur, börnum okkar og barnabörnum og þeirra börnum á skuldaklafa til frambúðar og rænt okkur auðlindum lands og miða. Það verður bylting í febrúar, nema þið verðið svo skynsöm að láta ykkur hverfa til frambúðar.
Boris (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 07:35
Fréttakona Rúv sagði í 10 fréttum að frummælendur hefðu verið tveir og sleppti alveg að minnast á flotta framsögu Vésteins. Ætli það hafi verið tilviljun??? Og klikkti svo út með þessum flottu spurningum eftir fundinn..Af hverju eruð þið eiginlega að þessu og af hverju heldurðu að það hafi verið svona fáir??
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 9.12.2008 kl. 08:20
Sko Boris (ef það er þitt rétta nafn, a.m.k. ertu ekki með mynd og nafnið varla íslenskt) EN, látum það nú vera. Skrif eins og þín hérna áðan eru ákkúrat til þess að fæla meirihluta þjóðarinnar frá þessum mótmælaaðgerðum. Bara öskrað, skítkast og reiði. Ekkert málefnalegt né hægt að svara á rólegum nótum og rökræða málin.
Ég held að meirihluti þjóðarinnar, hvar svo sem hann er í "flokki", sé sár, reiður og hræddur. EN, það þýðir ekki að við viljum einhverja lögleysu og vitleysu!!!!! Jú, margir brugðust, Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og stjórnmálamenn (ekki síst ráðherrar fjármála-viðskipta-og bankamála). Forystumenn verkalýðshreyfinga og lífeyrissjóða meg líka skammast sín og margir margir aðrir. EN, núna þurfum við að sameinast um að reyna að laga það sem aflaga hefur farið, ja .. svona eins og hægt er! Það gerum við ekki með gífuryrðum í garð allra né ofbeldis í annars réttmætum mótmælum.
Mótmælin á Austurvelli eru af hinu góða svo og fundirnir í Háskólabíói, EN ... það mæta svona fáir vegna þess að það eru ekki svo margir sem vilja að stjórnin fari frá núna og boðað verði til kosninga. ALVEG sama hvort fólk er óhresst með núverandi ríkisstjórn, það vill EKKI að kosið verði núna, þannig er það og þess vegna er ekki meira þátttaka í þessum mótmælum heldur en raun ber vitni.
Katrín Linda Óskarsdóttir, 9.12.2008 kl. 08:32
Frábær samantekt Lára. Góður punktur hjá þér varðandi Björgvin. Honum ofbýður, sem manneskju. Sjálfsagt fleiri ráðherrum, sem manneskjum, vona ég. En sem stjórnmálamönnum virðist það ekki vera.
Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 09:21
Takk fyrir þessa frásögn af fundinum. Ég hef heyrt að það hafi verið gengið til samninga við alla helstu ljósvakamiðla um að "kæla fólk niður" sjá hér:
http://www.malefnin.com/ib/index.php?showtopic=111835
En svo er hér líka til umhugsunar;
http://www.dv.is/frettir/2008/10/27/dularfullur-ritstjorafundur/
Takk Lára Hanna fyrir að gera þessum fundi svona góð skil. Það er augljóslega einhver þöggun í gangi, auðvitað ætti að vera sjálfsagt mál að útvarpa svona fundum, ef stjórnendur fjölmiðlanna, væru ekki svona miklar GUNGUR OG DRUSLUR, þá myndi þjóðfélagið ef til vill vera opnara og meiri upplýsingar fyrirliggjandi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.12.2008 kl. 09:23
Háskólabíó var fullt í gær. Á fundinum þar áður var fullt út úr dyrum. Bókstaflega.
Slíkur fjöldi á stjórnmálafundum er einsdæmi. Að minnsta kosti í seinni tíð.
Þeir sem álykta að þarna hafi verið "fáir" eru á villigötum.
Rómverji (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 09:33
Þetta var afskaplega slappur fundur að mínu mati. Nánast eins og drottnignarviðtöl við forystumenn verkalýðshreyfinganna.
Og Lára Hanna er að bera blak af "aumingja" Björgvin G. samflokksmanni sínum. Hann á svo bágt strákgreyið. Það eru allir svo vondir við hann.
Hvað er með þetta Samfylkingarfólk. Sagði ekki Össur að það hefði verið bókað að Davíð Oddsson starfaði ekki í umboði Samfylkingarinnar? Nú koma fram hjá Björgvin G. að Davíð Oddsson starfaði einmitt í skjóli Samfylkingarinnar. Stangast þetta ekki á við fyrri yfirlýsingar Samfylkingarnnar?
Og enginn spurði Gylfa Arnbjörns af hverju hann væri að verja verðtryggingu fjárskuldbindinga. Þessi verðtrygging er að drepa flest allt launafólk. Mikið óskaplega slapp hann vel frá þessu.
Gylfi var heldur ekki spurður að því hvort að hann væri ekki í bullandi pólitík fyrir hönd Samfylkingarinnar. Á þessi veður ekki að vera að vina til að verja hag launafólks? Hverslags maður er þetta eiginlega?
Mikið óskaplega var þessi fundur holur og innantómur. Þetta var nánast eins og trúarsamkoma.
Launaþrællinn (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 09:42
Komst ekki á fundinn frekar en þorri þjóðarinnar og skelli ég skuldinni á Rúv. Mér finnst algert lámark að jafn mikilvægum fundi sé a.m.k. útvarpað!!!
Í ljósi atburða síðustu mánaða er ljóst að taka þarf starfshætti Útvarps allra landsmanna til gagngerrar endurskoðunar...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 9.12.2008 kl. 09:47
Aðstandendur Opins borgarafundar þurfa að laga til hjá sér áður en ríkisfjölmiðlar geta leyft sér að halda áfram úsendingum þeirra. Mér var hent út af skipulagsfundi eftir að ég gerði réttmætar athugasemdir um skort á lýðræðislegum vinnubrögðum. Það væri misnotkun að senda þetta út í gegnum RÚV á meðan þetta ástand varir. Sjá hér:
http://lydveldi.blog.is/blog/lydveldi/entry/737023/
og hér:
http://lydveldi.blog.is/blog/lydveldi/entry/733749/
og hér:
http://lydveldi.blog.is/blog/lydveldi/entry/731667/
Ástþór Magnússon Wium, 9.12.2008 kl. 09:50
Þetta var afbraðgsgóður borgarafundur. Verðtrygging lána var ráðandi í umræðunni vegna ofurskulda heimilanna og hún talinn blóraböggull. Er verðtryggingin að mæla nokkuð annað en þá óstjórn peningamála sem stjórnmálamenn einkum fyrri ríkisstjórna stóðu fyrir , með þeim hörmulegu afleiðingum sem á fólkinu brennur ? Nú eru kröfur um að láta gamla fólkið - eftirlaunaþegana borga brúsann- óráðsíu fyrri ára. Skera verulega af þeim lífeyri- þeirra síðustu æviára... Forsvarsfólk verkalýðsfélaganna sem þarna var komst alveg þokkalega frá gagnrýni fundarmanna-utan einn - formaður VR var greinilega í græðgis og spillingarliðinu sem dansaði hrunadansinn. Hann hlýtur að víkja frá sem forystumaður í láglaunafélagi- þar á hann ekkert erindi. Viðskiptaráðherra kom heiðarlega fram og kom sterkari út fyrir bragðið. Borgarafundurinn var skipuleggendum hans til sóma...
Sævar Helgason, 9.12.2008 kl. 10:30
Ég settist líka fyrir framan sjónvarpið til að horfa á fundinn, en fékk fræðslu um eyðnismit í staðinn.
Heidi Strand, 9.12.2008 kl. 11:12
Auðvitað er það hluti af samkomulagi sem gert hefur verið við fjölmiðla um að "Kæla þjóðina niður" að sjónvarpa þessu ekki. Þorgerður Katrín hefur líklega sína skoðun á fundinum fyrir hálfum mánuði sem gæti etv. líka skýrt það að það var óþarfi að sjónvarpa þessu.
Þið sáuð líka í 10 fréttum hvernig RUV talaði niður fundinn.
Fjölmiðlarnir geta lítið annað gert en hlítt ríkisstjórninni í einu og öllu. Allir þrír fjölmiðlarnir eru skuldugir langt umfram greiðslugetu. Hverjir eru lánveitendurnir. Jú... ma ríkisbankarnir. Jú það er eins gott að hlýða.
Ég er búinn að fá alveg upp í kok á þessu ástandi.... sem er í raun bara rétt að byrja.
Hvað með þessa Birnu í Glitni, sem keypti í góðri trú. Af hverju á hún ekki að borga? Fyrst hún keypti í góðri trú, þá hlýtur hún að skulda líka í góðr trú. Ef einkahlutafélagið hennar "skúffufyrirtækið" Melkorka getur ekki greitt, þá verður það lýst gjaldþrota og gengið á sjálfskuldarábyrgð Birnu..... var hún kanski ekki til staðar, eða var búið að fella hana niður. Ég vill meiri umræðu um það.
Hvað með milljarðana sem Glitnir gleymdi að greiða Norðmönnum. Er búið að þagga það niður líka, eða missti ég af einhverju?
gunnar (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 11:17
Verkalýðsforkólkar eiga að hafa sömu laun og umbjóðendur þeirra. Annað er siðlaust. Ætli það gæti ekki orðið til þess að betri samningar næðust í kjarabaráttunni? Mig grunar það.
Rut Sumarliðadóttir, 9.12.2008 kl. 11:25
Ég er komin með kláða af óværum, eytur á pakkið eða tómatsósu. Verkalýðsforkólfarnir eru ekkert ofaldir af launum sínum og ekki heldur þeir sem starfa við lífeyrissjóðina. Þetta eru mennirnir og konurnar sem eru vakandi sofandi og huga að hag okkar í hvívetna alla daga og allar nætur. Þetta fólk á að vera á góðu kaupi, annars fengist engin í starfið. Það er greinilega farið að fjara út þetta með mótmælin. Gerði það um leið og krónan fór að styrkjast. Býð eftir í ofvæni eftir næstu skoðanakönnun um stjórnmálaflokkana.
365, 9.12.2008 kl. 11:33
Það var athyglisvert sem Björgvin G. sagði um eftirlaunafrumvarpið. Hann benti á að það er þingið sem á síðasta orðið og að ekki væri öruggt að frumvarpið yrði afgreitt úr allsherjanefnd í þeirri mynd sem það var lagt fram af ríkisstjórn.
Það er nefnilega líklegt að ekki sé þingmeirihluti fyrir frumvarpinu - þess vegna var össur að hitta Ögmund og ræða um mögulega sameiningu á þessu þremur eftirlaunafrumvörpum (þar af eitt frá Valgerði Bjarna og fleiri þingmönum samfylkingar) sem bíða afgreiðslu í allsherjanefnd.
Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 11:39
Katrín Linda, nei það myndi ekki fyllast neitt Háskólabíó, hvað þá aðrir staðir. Manstu ekki hvað HHG sagði í sumar: Græða á daginn og grilla á kvöldin. Sjálfstæðismenn fylla ekki hallir í baráttuanda...
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 9.12.2008 kl. 11:43
Einhver benti mér á
borgarafundur.org
var ekki á fundinum er úti á landi (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 11:49
Ef "Jafnaðarmannaflokkur Íslands" leggur fram boðað frumvarp um áframhaldandi forréttindi ráðherra og þingmanna, Þá er hann búinn að vera.
Foringjahollustan var siðferðinu yfirsterkari hjá Björgvini. Hann neitaði því að frumvarp Geirs og Ingibjargar væri kattarþvottur. Sorglegt.
Er afstaða Björgvins lýsandi fyrir hugmyndir ungs fólks í Samfylkingunni um jafnrétti?
Þá er bara eftir að kveðja: Bless Samfylking.
Rómverji (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 11:52
Mér fannst þetta ágætur fundur. Fannst meiri hiti í fólki en hefur verið. Hins vegar var langt í frá að allir sem vilja koma spurningum að get það til þess er fjöldinn of mikill. Athygli vekur að sjónvarpsstöðvar frá a.m.k.þremur löndum tóku þetta upp......en þær Íslensku voru ekki eins áhugasamar.
Hólmdís Hjartardóttir, 9.12.2008 kl. 12:34
Vek athygli á þessari undirskriftasöfnun: http://www.heimili.is
Við undirrituð skorum hér með á stjórnvöld að hrinda nú þegar í framkvæmd öflugum mótvægisaðgerðum vegna þess alvarlega efnhagsvanda sem íslensk heimili standa nú frammi fyrir.
Við beinum sjónum okkar sérstaklega að húsnæðislánum landsmanna og sjáum ekki aðra leið færa en frekari aðkomu stjórnvalda.
Fjölmargir hafa nú þegar stigið fram fyrir skjöldu og lagt fram ýmsar tillögur að aðgerðum sem stjórnvöld geta gripið til vegna þessa mála. Sem dæmi má nefna að fella niður skuldir og að afnema eða frysta verðtryggingu. Eins hafa fleiri en ein útgáfa af tillögum um endurfjármögnun lána eða skuldbreytingu þeirra litið dagsins ljós.
Skorist stjórnvöld undan íhugum við að hætta að greiða af húsnæðislánum okkar frá og með 1. febrúar 2009.
Þórður B. Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 12:50
Rétt slóð er: http://www.heimilin.is
Þórður B. Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 12:52
Fleiri hundruð manns sendu Páli Magnússyni tölvupóst í vikunni þar sem farið fram á RÚV hefði beina
útsendingu frá fundinum.
Þýskar, belgískar og hollenskar fréttastöðvar sýndu frá fundinum sem sýnir þá fyrirlitningu undirstrikar þá fyrirlitningu
og hroka sem ríkistjórn þessa lands sýni öllum landsmönnum enda þykir þeim erlendu fjölmiðlamönnum sem hér eru á
það algerlega forkastanlegt hvernig fjölmiðlar stýra allri umræðu í formi fjórða valdsins.
Einn ágætis vinur minn er búinn að fá nóg af Íslandi og er að flytja út.
Hann sagði mér það í kvöld að hann og famelía hans eru búin að senda
"ekobrottspolisen och åkalagarmyndigheten " - í Stokkhólmi heljarinnar bréf,
þar sem þau hvetja sænsk stjórnvöld til að koma íslendingum alls ekki til hjálpar með peningum
sem mafían myndi bara hirða - þeir yrðu bara að koma með Interpol ?
Þau létu sænsku efnahgsbrotadeildinni og dómsmálaembættinu í Svíþjóð hafa bréf þar sem þau segjast
vera flýja land þar sem mafían ræður ríkjum og fólki sé haldið hér í gíslingu. Að hér sé búið að fremja stærsta arðrán
Íslandssögunnar á almenningi þessa lands og að fólki standi aðeins tvennt til boða;
-að borga upp skuldir mafíósanna eða bara skilja allt sitt eftir og hipja sig burt?
Bendi á greinina hans Jóns Ólafs um Flísbyltinguna og hvet alla til að lesa hana!
http://www.jonolafs.bifrost.is/2008/10/31/%C3%BEurfum-vi%C3%B0-flisbyltingu/
S.R (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 13:56
Góð færsla hjá þér Lára. Fundurinn var mjög góður í gær. Ýmislegt kom fram. Reyndar ekki nærri allt. Að Hrafn reyndi að telja okkur trú um að aðeins 15% hafi horfið úr lífeyrissjóðum okkar er mjög sérkennilegt. Margir hafa sagt að um mun stærri fjárhæðir sé að ræða. Hvenær fáum við sannleikanna? Mikið er Gunnar Páll vonlaus, hann fattar ekki að við óskum ekki eftir mönnum sem finnst eðlilegt að vera á súperlaunum. Það var augljóst að stemmingin á fundinum var þung og reið.
Gunnar Skúli Ármannsson, 9.12.2008 kl. 18:43
Tölurnar tala sínu máli bæði varðandi laugardagsruglið og háskólabíónöldrið að færri og færri nenna að mæta og eyða sínum tíma í þessa vitleysu.
Kanski hefur það haft sitt að segja að almenningur vill ekki láta tengja sig við mál eins og það sem gerðist við lögreglustöðina og í seðlabankanum - nú síðast ráðherrabústaðurinn og alþingi í dag.
Lára styður þú þessar aðgerðir ?
Óðinn Þórisson, 9.12.2008 kl. 19:57
Þakka þér fyrir frábæra færslu með fullt af gagnlegum upplýsingum. Auðvitað vill almenningur í landinu ekki tengja sig við mál eins og það sem gerðist við lögreglustöðina, í seðlabankanum við ráðherrabústaðinn og alþingi.
Ekki frekar en það vill láta tengja sig við heilaþvegna jólasveina eins og þig Óðinn Þórisson. Það er eitthvað mikið að þegar menn eins og þú kalla gagnrýna umræðu og friðsæl mótmæli "nöldur" og "rugl" svo að ég noti þín eigin orð. Kannski ekki skrítið með tilliti til þess að hinir jólasveinarnir kalla okkur skríl.
Þröstur Ingólfur Víðisson (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 11:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.