Andskotinn hafi það!

Ég var að bisa við að sýna skilning og vera kúl þegar ég afsakaði þá sem mættu ekki á mótmælin á Austurvelli - af hvaða ástæðu sem það var. Reyna að átta mig á sinnuleysinu sem hefur valdið því að fjöldinn á Austurvelli hefur mest náð um 10.000 manns þótt ég viti fyrir víst að 90% þjóðarinnar er óánægð með ástandið og vildu gjarnan mæta - ef þeir bara nenntu því. Auðvitað eru ótalmargir löglega afsakaðir en samt... Ég er pirruð. Mótmæla- og borgarafundirnir eru ekki skemmtisamkomur þar sem hæfir að diskútera kynhneigð eða handapat fundarstjóra og klæðnað eða einstakar setningar ræðumanna. Á þá mætir fólk til að senda skilaboð frá þjóðinni til yfirvalda. Skilið?

Ætli það hafi verið fullt í Kringlunni og Smáralind? Eða Hagkaupinu hans Jóns Ásgeirs sem er svo rosalega góður strákur að ætla að lána fólki fyrir jólunum í hálft ár! Nennið þið að borga fyrir jólin fram í júní? Er víst að þið getið það? Viljið þið virkilega láta Jón Ásgeir njóta góðs af kannski síðustu aurunum ykkar áður en þið missið vinnuna eða íbúðina? Sáuð þið þetta?

Tvennt varð til þess að ég ákvað að skammast svolítið yfir sinnuleysinu - og ég nenni ekki að hlusta á kjaftæði um að ykkur líki ekki þetta eða hitt við fundina á Austurvelli eða borgarafundina - ræðumenn, fundarstjóra eða hvað sem fólk er að setja fyrir sig og hnýta í. Málið snýst nefnilega alls ekki um það heldur framtíð okkar allra, barnanna okkar og barnabarnanna - og það fólk sem rændi okkur aleigunni, ærunni og orðstírnum og ætlar að ræna því sem eftir er af landinu sjálfu og auðlindum þess. Yfir okkur hellast upplýsingar á hverjum einasta degi um fláræði, heimsku, lítilsvirðingu, glannaskap, kæruleysi, lygar, leyndarmál, spillingu, mútur, óheiðarleika og allt sem nöfnum tjáir að nefna - og hvað gerir fólk í því? Ekkert. Muldrar í barminn en tekur ekki þátt í að segja skoðun sína þótt ekki sé nema að sjá af klukkutíma í viku til að mæta á mótmælafund. Lætur aðra um að skipuleggja og mæta í þeirri von að kannski breytist eitthvað einhvern tíma. Ja, hérna! Er ekki kominn tími til að vakna?

Það verður borgarafundur í Háskólabíói í kvöld - aftur. Síðast var troðfullt og gott betur. Verður troðfullt aftur í kvöld? Ég ætla bara rétt að vona það! Vitið þið hvað á að fjalla um? Ekki, nei? Ég skal segja ykkur það - lífeyrissjóði og stéttarfélög. Þar eiga að sitja fyrir svörum mennirnir sem eiga annars vegar að sjá til þess að við fáum mannsæmandi laun og hins vegar mennirnir sem bera ábyrgð á því að lífeyrisþegar nútímans og framtíðarinnar - við - eru búnir að glata stórum hluta af aurunum sem þeir ætluðu að lifa á í ellinni. En þeir eru allir með roknalaun og hafa engar áhyggjur af okkur.

Mennirnir sem eiga að sjá til þess að við fáum mannsæmandi laun eru búnir að missa öll tengsl við umbjóðendur sína. Þeir hafa varla sést síðan efnahagshrunið varð fyrir rúmum tveimur mánuðum. Gylfi ASÍ tuðar um Björgvin og ESB en hefur ekkert sagt eða gert til að verja og vernda þá sem honum ber að vernda - launþega þessa lands. Hafa þeir tjáð sig um uppsagnirnar? Ekki svo ég viti.

Og þessi náungi, sem stýrir stærsta stéttarfélagi landsins, var með 1,7 milljónir á mánuði árið 2007. Sat í sukkstjórn Kaupþings, fékk hálfa milljón fyrir hvern fund og tók þátt í að fella niður ábyrgð á milljarðaskuldum starfsmanna Kaupþings sem þið þurfið nú að standa skil á. Hvað annað samþykkti hann fyrir 500 þúsund á fund? Eruð þið sátt við svona spillingu og slík ofurlaun manna sem klúðra málunum?

Hafið þið skoðað launaseðlana ykkar og séð hvað þið eruð að borga í lífeyrissjóð? Þið borgið 4% og launagreiðandinn borgar helmingi meira, eða 8%. Þetta eru allt YKKAR peningar, nóta bene. Og hvað gerðu þeir við þá, mennirnir sem áttu að varðveita þá fyrir ykkur þangað til þið þurfið á þeim að halda? Þeir stunduðu fjárhættuspil og töpuðu þeim!

Ég er einyrki, þ.e. sjálfstætt starfandi, ekki launþegi. Af hverjum 100 þúsund kalli þarf ég að borga 12.000 í lífeyrissjóð, bæði framlag launþega og atvinnurekanda. Þegar lögin voru sett ca. árið 2000 um að allir væru skyldugir til að borga í sameiginlega sjóði þá hringdi ég vítt og breitt til að athuga hvort ég mætti í staðinn leggja mín 12% inn á reikning í banka sem haft yrði eftirlit með. En nei, ég varð að borga í sameiginlegan sjóð en mér var frjálst að bæta við í séreignarsjóð - eins og ég hefði efni á að borga meira. Og nú hefur komið í ljós að lífeyrissjóðir landsmanna hafa ástundað áhættufjárfestingar og tapað stórum hluta af peningunum mínum. Kannski áttar fólk sig ekki á því hvað lífeyrissjóðirnir hafa tapað miklu af peningum þess, ég veit það ekki - en það eru miklir peningar. Ég þekki fólk sem hefur tapað milljónum og sér varla fram á að skrimta þegar það hættir að vinna - sem við þurfum öll að gera einhvern tíma.

Ég nefndi hér að ofan að það hefði verið tvennt sem varð til þess að ég ákvað að skammast svolítið. Annað var þessi flotti bloggpistill Baldurs McQueen, eðalbloggara. Hitt var þessi skopmynd Henrýs Þórs. Og hananú!

Ágrip af sögu mótmæla á Íslandi

Eftir þennan reiðilestur er aðeins eitt eftir - að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að fjölmenna á borgarafundinn í Háskólabíói í kvöld kl. 20 og heyra hvað forsvarsmenn verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða hafa að segja um þátt sinn í hruninu og hvað þeir sjá fram undan. Þjarma að þessum fánaberum almennings sem hafa glatað sýn á tilgang þeirra félaga sem þeim er rausnarlega borgað fyrir að sinna. Þetta kemur okkur öllum við, andskotinn hafi það!

 Borgarafundur í Háskólabíói 8. des. 2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ætli verkasýðsforkólfarnir þori að mæta á borgarafundinn á morgun?  Ég efast stórlega um það, þeir hafa allir brugðist umbjóðendum sínum.  Þeir eru hluti af spillingarliðinu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.12.2008 kl. 02:34

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Hverju orði sannara! Það eru ærnar ástæður til að mæta.

Ég listaði upp 13 ástæður fyrir minni mætingu. Síðan eru sextán dagar og þær eru allar í fullu gidli ennþá.

Haraldur Hansson, 8.12.2008 kl. 02:48

3 Smámynd: Fríða Eyland

Ég mæti enda verður einhver að mæta, ég skammast mín ofaní rass þegar ég sé myndir af íslendingum í biðröðum til að komast inní búðir nú síðast bt útsöluna. Fáránlegt að versla við breskan einokrara nú um mundir en að standa í biðröð og troðast til að komast inn ææææææ

Fríða Eyland, 8.12.2008 kl. 03:47

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þú stendur þig alltaf jafn frábærlega Lára.

Annars þá voru mánaðarmót og útborgun launa nú og upphaf jólamánaðar.

Mótmæla-andi og jóla-andi stangast svolítið á. Ég veit samt ekki hvað gerist þegar líður nær jólum og margir verða bæði blankir og atvinnulausir á svo krefjandi tíma. Ég held semt að verulegur mótmælakraftur verði ekki aftur fyrr en undir lok febrúar.

- Þetta má samt ekki detta niður og allt meðvitað fólk sem mótmælir án þess að þurfa að vera að svelta sjálft verður að taka þátt og mæta áfram - en svo held ég samt að veruleikinn sé.

Helgi Jóhann Hauksson, 8.12.2008 kl. 04:28

5 identicon

Ég hef nú aldrei skrifað á svona bloggsíðu áður en nú verð ég. Ég rakst á þennan pistil þinn og það verð ég að segja að þú átt hrós skilið. Gaman að lesa svona frá konu sem talar kjarnyrta íslensku.

Ég er bara ansi hræddur um Lára að sú skoðun mín til margra ára að íslendingar séu eins og rollur sem smalað er í réttir sé rétt. Það er genetískur galli á þessu landi að fólk heldur með stjórnmálaflokkum eins og knattspyrnuliði.

Það virðist vera alveg sama hvað langt stjórnvöld ganga í mannréttindabrotum, lögbrotum og spillingu þeim er alltaf fyrirgefið vegna inngróinnar aumingjagæsku.

Gangi þér vel.

Karl Löve (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 06:08

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Heyr, heyr!

Berglind Steinsdóttir, 8.12.2008 kl. 08:20

7 identicon

Áfram Lára Hanna, þú ert mögnðu.

 Ég er Akureyringur og hef farið á tvo af þeim mótmælafundum sem hér hafa verið haldnir (þeir eru þó fleiri), mamma hefur verið að passa fyrir okkur og er hálf hneiksluð á þessu brölti í okkur hjónunum en er hundóánægð með ástandið.  Þetta finnst mér típískt fyrir hugsunarhátt flestra í kringum mig og það er, djóklaust, eins og fólk sé svo hrætt um að vera hallærislegt eða asnalegt.  Ég aftur á móti neita að sitja heima og nöldra, ég vil sýna að ég er illa svekt og hreint út sagt sorgmædd yfir stöðu mála.  Mig dauðlangar að koma suðu til ykkar og upplifa stemminguna þar, aldrei að vita nema ég mæti einn daginn.

Akureyringar verða samt að fara að taka sig á, hætta að hafa áhyggjur af því að vera hallærislegir og sýna samstöðu.  Þó við séum ekki stödd í Reykjavík, þá getum við látið til okkar taka og í okkur heyra.

Ég vil að lokum koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa brett upp ermarnar, gert eitthvað í málunum og látið í sér heyra. :-)

Erna Kristín (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 08:45

8 identicon

Þú segir að mennirnir sem eiga að sjá til þess að við fáum mannsæmandi laun séu búnir að missa öll tengsl við umbjóðendur sína. Mikið rétt, það sér hver maður.

Man einhver eftir horfnum verkalýðsleiðtogum ? Ég man ekki eftir neinum sem talaði af sannfæringarkrafti - kanski á baráttudeginum í göfugri ræðu, en daginn eftir ekkert. Alger þögn.

Já formenn í brúnni í dag - en eru þeir girtir ? Nei þeir eru með allt niður um sig og hafa verið síðustu áratugina svo við förum nú ekki lengra aftur. Það er nóg að líta á launin sem þeir hafa samþykkt fyrir launafólk. Eigum við að segja að kassadömur hafi verið með með lægstu launin í þjóðfélaginu. Mjög erfið vinna.  Hafa þau verið mannsæmandi ? Hafa þau verið boðleg ? Eru þau næg til þess að framfleyta fjölskyldu ? Nei.

Þar er VR félagið og þar er Formaðurinn margumræddi í brúnni, sem nú er búinn að misbjóða félögum sínum þannig að þeir geltu á hann með gjallarhorni. Og mikið þarf nú til.  Við Íslendingar erum seinir til vandræða. VR félagar hafa töluvert til síns máls. Segir alla söguna.

Annars er það þannig að úr þessu verður ekki aftur snúið og launafólk verður að fara að veita þessum mönnum stöðugt aðhald. Þá meina ég héðan í frá. Þetta gengur ekki lengur.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 09:04

9 identicon

Daginn Lára og takk fyrir góðan pistill.
Get ekki verið meira sammála þér heldur en ég er.
Annars finnst mér vera viss ástæða fyrir því að mótmælendum hafi fækkað því þrátt fyrir það að ég hafi mætt núna á mótmælin og í þau skipti sem að ég hef séð mér fært þá finnst mér eins og þau séu að missa broddinn.
Mér finnst nefnilega bara ekki nóg að mæta hvern laugardag til að standa þar í 30-60 mínútur og standa í þeirri trú að eitthvað færist til betri vegar því það sér hver maður að ekkert gerist.
Það er löngu orðið tímabært að það sé gripið til markvissarri aðgerða rétt eins og áttu sér stað í Thailandi.
Hvernig væri nú að fólk tæki sig saman og myndi mæta í seðlabankann með kaffi og nesti og leggja hann undir sig þangað til Davíð fer frá.
Og eins með fjármálaeftirlitið. Svona rétt til að byrja á einhverju og fá boltann til að rúlla.
Barátta eins og þessi þarf að vera markviss og svolítið fókusseruð svo fólk hafi einhverja hugmynd fyrir hverju það sé að berjast og hvernig það geti látið til sín heyra. Upplýsingar um það eru afskaplega takmarkaðar og maður þarf nánast að gúggla upp allt sem að viðkemur mótmælunum til að vita hvar og hvenær á að mæta. Það hefur ekkert verið gert í því að fá fólk t.a.m. til að skrá sig á póstlista þar sem fólk fengið rafpóst til áminningar um fundi og annað slíkt. Það hefur ekkert verið gert í því að virkja áhrifamátt símans með því að fá fólk til að senda sms á hvert annað til áminningar um fundi.

Ég hugleiddi það um daginn þegar ég fékk einhvern Blend bækling með fréttablaðinu innum lúguna að fyrst að eitt einstakt vörumerki/umboð/verslun væri að standa í því að búa til dreifibækling til að markaðssetja sína vöru þá væri heldur slappt að það væri ekki hægt að búa til dreifibækling í sambandi við mótmælin, kreppuna og það sem að því viðkemur.

Þar væri að finna upplýsingar um samtök sem berðust fyrirr breyttu ástandi og tengiaðila á þau samtök.
Upplýsingar um fundi og aðrar aðgerðir.
Viðtöl við hina og þessa aðila. Þig t.a.m. Lára Hanna.
Upplýsingar um hjálparsamtök eins og rauða krossinn og aðrar hjálparlínur því þetta ástand leggst þungt á marga.
Það vantar nefnilega oft á tíðum að fólk sé til í að berjast og berjast markvisst fyrir sínum hjartans málum og það finnst mér vanta svoliítið uppá.

Það finnst mér að vissu leiti útskýra dræma mætingu síðast þó ég sé engan vegin sáttur við hana.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 09:05

10 Smámynd: Villi Asgeirsson

Því lengur sem ekkert gerist nema uppsagnir, spilling og meira af því sama, minnka vinsældir Geirs og félaga og aukast hér. Lára, þitt líf mun aldrei verða eins eftir þetta. Þegar hið nýja lýðveldi er orðið að veruleika mun einhver finna góðan stað fyrir styttu af þér.

En það kemur seinna. Nú skiptir öllu að koma sér niður í bæ í klukkutíma í viku og krefjast þess að hið nýja lýðveldi verði að veruleika. Það er soldið kalt, en það verður kaldara ef við gerum ekkert.

Villi Asgeirsson, 8.12.2008 kl. 09:11

11 Smámynd: Villi Asgeirsson

Góð athugasemd hjá Eggerti. Hafi einhver áhuga á að nota www.NyjaIsland.is eins og hann leggur til er það ekkert mál.

Villi Asgeirsson, 8.12.2008 kl. 09:16

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Getur verið, að ástæðan, sem þú spyrð um í upphafi greinar þinnar, Lára Hanna, sé sú, að ræðumenn eru handvaldir af einum manni og líklega [ókunnum] einhverjum smáhópi? Getur verið, að fólki hafi þótt ýmsir ræðumanna (Viðar Þorst., stúlkan í laganáminu o.fl.) einum of eða jafnvel allt of róttækir til að geta tekið undir með þeim eða látið sjá sig á fundunum? Ég bara spyr.

Jón Valur Jensson, 8.12.2008 kl. 09:19

13 identicon

Sammála þér Lára Hanna.

Ekki er eg sammála öllum ræðumönnunum. En tek þátt í mótmælafundunum á Austurvelli. Geri mig sýnlegan á samt þúsundum annarra. Í því felst tjáning og áhrifamáttur mótmælanna. Skilaboð til stjórnvalda.  

Stjórnvöld á Íslandi eru firrt og þurfa mjög á fjölmennum mótmælum að halda til þess að átta sig á að aðgerðir þeirra og aðgerðarleysi bitnar á fólki af holdi og blóði.

Ekki standa hjá og væla yfir smámunum. 

Rómverji (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 09:34

14 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Gott hjá þér Lára Hanna eins og alltaf.  Já við vorum dapurlega fá á laugardaginn. En við Sigrún afmælisbarn mætum að sjálfsögðu í kvöld.

Hólmdís Hjartardóttir, 8.12.2008 kl. 09:36

15 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er nokkuð víst að svona fundir lognist útaf smám saman. Það er ekki verið að mótmæla einum ákveðnum hlut eða að knýja fram eina ákveðna breytingu. Auðvitað frekar vandræðalegt þegar fólki fer að fækka á mótmælafundum, það væri kannski betra að boða einn almennilega Grand Finale fund og breyta svo um aðferð.

Emil Hannes Valgeirsson, 8.12.2008 kl. 09:48

16 Smámynd: Sævar Helgason

Á þessum mótmælafundum eru ræðumennirnir eða ræðukonurnar ekkert aðalatriði- eða svo finnst mér.

Fyrir mér er aðalatriðið að fólkið komi saman - á Austurvelli- í Háskólabíói- eða hvar svo sem mótmælasamkomur eru ákvarðaðar og sýni með sjálfu sér andúð sína á því sem leitt hefur þjóðina út þetta fen niðurlægingar og leggi um leið áherslur til stjórnvalda að spillingu linni og að siðvæðing þjóðfélagsins fái aukið vægi. Mikið meira er nú ekki farið fram á svona til að byrja með.  Því fleiri sem leggja leið sína á þessa mótmælasamkomur því líklegra er að á þessar áherslur sé hlustað.

Sævar Helgason, 8.12.2008 kl. 10:08

17 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Mótmæli eru lífsnauðsynleg og það að sýna opinberlega að maður er búinn að fá NÓG af gerræði og spillingu sem teygir anga sína svo víða að það er hreinlega ömurlegt upp á að horfa. Ef fólk getur ekki tekið frá einn klukkutíma til að láta í ljósi skoðun sína er eitthvað mikið að. Það er reyndar eitthvað ofboðslega mikið að íslensku samfélagi. Líka hjá almenningi sem er eins og hræddar og kúgaðar kindur..svei mér þá. Rúv ætlar ekki að senda út Borgarafundinn í kvöld...segjast ekki hafa til þess peningana. En höfðu aura fyrir beinni útsendingu handboltans í gær. Hver er nú forgangsröðunin á þeim bænum. Skammir skulu þeir hafa.

Troðfyllum Háskólabíó í kvöld.....heyrði um helgina að spillingarpottarnir hjá Verkalýðshreyfingum og lífeyrissjóðunum séu síst minni en hjá bönkunum.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.12.2008 kl. 10:25

18 Smámynd: Heidi Strand

Góður pistill og sönn.
Margir segja að friðsamlegar mótmælafundir eru tilgangslausir og ófriðsamlegir  er bara skrílslæti og skemmir málstaðinn.Þetta er kannski  bara afsökun fyrir því að nenna ekki að mæta.
Grikkir mótmæla ófriðsamlega vegna þess að friðsamlegar mótmælum hafa ekki dugað. Nú er einn látinn og einn ráðherra hefur tekið pólitíska ábyrgð og sagt af sér.

Hvað þarf til að ráðherra axli pólitíska ábyrgð hér á landi?

Ég skil ekki í fólki sem tekur jólin að láni hjá auðmönnunum. Nær væri að auðmenn bjóði fólki upp á jólin í þakklætiskyni fyrir því að borga reikninganna þeirra á ókomnum árum eða áratugum.
Ef fólk getur ekki greitt fyrir jólin núna, geta þeir alls ekki gert það í vor þegar kreppan er byrjuð að naga í okkur.

Heidi Strand, 8.12.2008 kl. 10:32

19 identicon

Bravó Lára Hanna

Margrét verkakona (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 11:14

20 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég er með skýringar á því hvers vegna fólk mætir ekki (nennir ekki) á mótmæli, ef einhver nennir að lesa nýjasta bloggið mitt.

Theódór Norðkvist, 8.12.2008 kl. 11:55

21 Smámynd: Baldvin Jónsson

Lára Hanna, það verður hver að hafa sína leið og gera það upp við sig hvað hentar hverjum og einum.

Mér fannst þessi mótmæli frábær en nú finnst mér kominn tími á að það gerist eitthvað meira. Á þessum mótmælum hefur til að mynda ekki mátt koma með framsögu um breytingar og ný stjórnmálaöfl. Hvers vegna er það? Til þess að særa engan??

Mótmælin eru orðin þunnur þrettándi og ráðamenn strax farnir að hugsa sér gott til glóðarinnar þegar að þjóðin verður búin að "gleyma" þessu öllu.

Ég er sammála þér að sjálfsögðu - við eigum að mótmæla. En til þess að svona fundir skili árangri þurfa þeir að hafa skýrt markmið og róa að því öllum árum. Framsögur þurfa að mínu mati því að taka allar að einhverju leyti á því sama og fólkið á fundinum þarf að peppast saman að því markmiði.

Ef krafan er kosningar í vor - það er mín stærsta krafa í það minnsta - finnst mér kominn tími á að einbeita sér að því 100% og opna framsögur fyrir fólk sem vill taka þátt í stofnun einhvers nýs afls, opna fyrir framboðsræður fólks sem vill taka þátt í að breyta kerfinu, breyta framboðsmálum, endurskapa hér lýðræði.

Það fólk á sér ekki mikið bakland í dag og væntanlega enga peninga. Ef við viljum öll breytingar af hverju þá ekki að fá fram fólk til að segja okkur frá sínum hugmyndum??

Baldvin Jónsson, 8.12.2008 kl. 12:04

22 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég tek þetta til min Lára enda mætti ég ekki sl laugardag  

En þetta er bara lognið á undan storminum...  

Óskar Þorkelsson, 8.12.2008 kl. 12:49

23 identicon

Frábær pistill hjá þér. Er sjálfur alveg dolfallinn að landsmenn ætli að láta þetta yfir sig ganga bara af því að það er leiðinlegt veður eða þeim líkar ekki ræðumaðurinn. Úkraínumenn stóðu úti í brunagaddi til að standa vörð um lýðræði sitt, fyrir nokkrum árum líklega afdrifaríkasta (á jákvæðan hátt) aðgerð almennings þar í landi fyrir þjóðina fyrr og síðar en íslendingar tala um slíkt sem skrílslæti og halda áfram að lofa drottnara sína. Það er engu líkara en að þjóðin í heild sé haldin Stokkhólms-heilkenninu.

Í tilefni af borgarafundinum í kvöld ætla ég sérstaklega að benda á viðtalið við Jón Steinsson í Silfrinu í gær þar sem  hann ræddi m.a. um lífeyrissjóðina.

Endurreisum lýðræðið á Íslandi með eða án verkalýðshreyfingarinnar.

T (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 12:55

24 identicon

Sæl, ég er hjartanlega sammála þér að ástandið í þjóðfélaginu er ekki mjög beysið og breytinga er þörf. En ég get ekki mætt niður á Austurvöll og hlustað á fólk hrópa eitthvað að þvílíkum sannfæringarkrafti sem ég er ALLS EKKI sammála. Ég er ekki rolla í hjörð, ég er Íslendingur sem tók þá meðvituðu ákvörðun að mæta EKKI vegna þess að ég er yfirleitt alls ekki sammála þeim sem eru þarna niður frá að halda ræður. Það er nefnt að það skipti ekki máli hver sé að halda ræðu og maður þurfi ekki að vera sammála öllu sem þar kemur fram, en mér finnst það einmitt málið. Með því að vera þarna niður frá og hlusta á fólk tala um afnám verðtryggingar og þar fram eftir götunum er ég einmitt að samsinna því sem sagt er, og það get ég ekki.

 Ég get ekki tekið þátt í því sem virðist svo leysast upp í það að brjóta rúður í löggustöð eða ryðjast inn í Seðlabankann. Því miður. En ég hafna því algjörlega að ég sé eins og rolla sem er send í rétt, þetta er fullkomlega meðvituð ákvörðun hjá mér að mæta EKKI. Svo verður a.m.k. þangað til ég fæ nákvæmlega að vita hvað eigi að gera, hvað eigi að koma í staðinn og leiðirnar að því markmiði.

Jón Eggert (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 12:59

25 Smámynd: Villi Asgeirsson

"En ég hafna því algjörlega að ég sé eins og rolla sem er send í rétt... ...þangað til ég fæ nákvæmlega að vita hvað eigi að gera, hvað eigi að koma í staðinn og leiðirnar að því markmiði."

Villi Asgeirsson, 8.12.2008 kl. 13:39

26 Smámynd: Theódór Norðkvist

Símaskráraðferðin hlýtur að vera góð og gild til að velja í nýju ríkisstjórnina, fyrst prófessor við virtan bandarískan háskóla mælti með henni.

Mæli samt með því að við tökum nöfn núverandi ráðherra út úr símaskránni áður en valið fer fram.

Theódór Norðkvist, 8.12.2008 kl. 14:09

27 Smámynd: Jón Valur Jensson

Má ekki virða það, hvernig Jón Eggert gerir skýra og málefnalega grein fyrir sinni afstöðu? Þessir tveir hér á undan, Skorrdal og Villi, eigna honum algerlega að ósekju lélegan málstað og heimskulega grundaðan – og eru kannski um leið að þrýsta með þjösnakenndum hætti á hjarðeðlis-tilhneigingu annarra; slíkt lyktar af áreitni og er í raun skyldara því að beita ofbeldi en skynsamlegri umræðu.

Þannig talaði Jón Eggert (en ekki eins og Villi snýr út úr fyrir honum): 

  • "... þetta er fullkomlega meðvituð ákvörðun hjá mér að mæta EKKI. Svo verður a.m.k. þangað til ég fæ nákvæmlega að vita hvað eigi að gera, hvað eigi að koma í staðinn og leiðirnar að því markmiði." 

Jón Valur Jensson, 8.12.2008 kl. 14:12

28 identicon

Hjálpi mér aumingjaskapurinn í fólki. EF RÆÐUMAÐUR LÝSIR SKOÐUN SEM ÞÚ ERT EKKI FYLGJANDI ÞÁ ÁTTU AÐ LÁTA ÞAÐ Í LJÓS. Eða er það óskrifuð regla á Íslandi að það má bara klappa þegar fólk heldur ræðu? Að nota það sem afsökun að þú ert ekki fylgjandi þeim skoðunum sem koma fram í ræðum á mótmælasamkomu en hefðir mætt annars er tóm fyrring. Þú hefðir ekki mætt hvort sem er. Ert bara að reyna að fela leti og aðgerðaleysi þitt. 

Ég hef ekki mætt en mikið voðalega hefur mig langað, var að pæla í að standa fyrir utan íslenska sendiráðið hér í borg með skilti í staðin. Ég hefði átt að gera það og skammast mín fyrir dugleysið

Anna (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 14:12

29 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Tek undir alvarleika málsins.  Við stöndum á barmi hengiflugsins og stjórnvöldum virðist standa nákvæmlega á sama,  þau eru í HINU liðinu.  Nú er Egill Helga farinn að efast og þá er mikið sagt. 

Ég er einyrki og ákvað fyrir tveimur árum að borga ekki í lífeyrissjóð og nú er mér gert að borga X upphæð fyrir árið 2007. Ef ég „borga ekki sjálfum mér“ þá fer kerfið í hart. Ég ætla að láta reyna á það.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 8.12.2008 kl. 14:14

30 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Góð færsla Lára.

Lýðræðisiðkun er puð og vesen. Vonandi lærist þjóðinni fyrr en seinna mikilvægi þess.

Gunnar Skúli Ármannsson, 8.12.2008 kl. 14:17

31 Smámynd: Villi Asgeirsson

Jón Valur, ég var ekki að snúa út úr. Jón Eggert segist ekki munu mæta í mótmæli fyrr en einhver kemur með hugmyndir um hvað hann getur gert. Gott og blessað og ég virði það. Það síðasta sem ég vil er nýtt þjóðfélag þar sem allir eru skyldaðir til að gera hitt eða þetta. Ég var bara að benda á mótsögnina við það að segjast hugsa sjálfstætt en bíða svo eftir lausnum frá öðrum. Kannski var þetta undir beltisstað. Kannski ekki. Læt aðra um að ákveða það.

Er það kannski hugmynd að færa mótmælin inn í bíla? Hvað myndi gerast ef 10.000 bílar söfnuðust í miðbæinn kring um Stjórnarráðið, Seðlabankann, Alþingishúsið og helstu ráðuneyti? Fólki liði betur og þetta bæri sjálfsagt meiri árangur. Þetta yrði ekki klukkutími í viku, heldur alla daga, hvenær sem fólk hefði tækifæri til að keyra niður í bæ.

Villi Asgeirsson, 8.12.2008 kl. 14:23

32 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fólk nennir ekki að mæta til þess að láta V-græna steita hnefann framan í sig.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.12.2008 kl. 14:29

33 identicon

Ég verð nú að segja að ég er ekkert sértsaklega ánægður með ástandið. En ég segji eins og Gunnar, ég vill ekki mæta til að láta vinstri græna steita hnefan fram í mig.

Svo er náttúrulega fráleitt að halda því fram að 90% þjóðarinnar styðji það sem fer fram þarna niður á Austurvelli, ég get ekki fundið samhljóm með þessu fólki.  Var ekki skoðanakönnun sem sagði að rétt rúmur hlemingur styðji þetta, og satt að segja held ég að sá hópur fari minnkandi.

Reyndar finnst mér að þegar fólk er að mótmæla og vill breytt ástand að það sé lágmark að vita hvert maður vilji stefna. Þetta fólk virðist ekki vita það, það er jafn ringlað og stjórnvöld. Ég vill ekki styðja stefnuleysi stjórnvaldi og ég vill ekki heldur styðja stefnuleysi mótmælenda.

Bjöggi (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 14:46

34 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sundrung þjóðarinnar endurspeglaðist í síðustu kosningum og hún endurspeglast aftur í því að hún getur ekki einu sinni komið sér saman um hvernig eigi að mótmæla og vinna gegn utanaðkomandi efnahagsvá.

Theódór Norðkvist, 8.12.2008 kl. 15:05

35 identicon

Sumir af útrásarvíkingum urðu auðugir í skjóli stjórnmálamanna sem trúðu þeim og treystu í blindni.  Það sést best í handónýtu regluverki um viðskiptahætti.  Forkólfar lífeyrissjóða og verkalýðsfélaga voru eins og ábekingar enda mikilla eiginhagsmuna að gæta.  Sjálfsagt nauðugir, viljugir að taka þátt í leiknum. Græðgin bar þá, eins og aðra, ofurliði.  Það er byrjað að flétta ofan af þessu.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 15:15

36 Smámynd: Nidur

Ég er ósammála og vill ekki láta fólk halda að ég sé sammála ræðumönnum á þessum mótmælendafundum þar sem þeir spúa vitleysunni yfir mannskapinn.

Nidur, 8.12.2008 kl. 15:47

37 Smámynd: Jón Valur Jensson

Róttæklingurinn Skordal "nennir ekki að eyða orðum" í mig og mínar rökfærslur, en velur þá leiðina að eyða mörgum niðrandi orðum í mig án eigin rökfærsla um það, sem ég rökræddi um. Hann getur haldið áfram að vera svarti sauðurinn í rökræðunni fyrir mér. Aðferð hans er aðhrópan (sjá orð hans um Jón Eggert, kl. 13:21) og þrýstingur á fólk að halda sér saman, ef það er ekki sammála honum. Þetta er í ætt við aðferðir nazista í Weimar-lýðveldinu, eins og ég hef lesið um þær.

Jón Valur Jensson, 8.12.2008 kl. 16:01

38 Smámynd: Heidi Strand

Gerið ykkur glaðan dag í jólaboði á minni síðu í boði auðmanna og annarra snillinga.

Heidi Strand, 8.12.2008 kl. 17:20

39 identicon

God!!!  Eg myndi maeta ef eg gaeti, en er adeins of morgum thusundum km i burtu.

Sigrun

Sigrun (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 17:24

40 Smámynd: Heidi Strand

Íslendingar nenni ekki að mótmæla og margir alþingismenn voru fjarstaddir þegar greitt var atkvæði um ICESAVE málið.

http://ea.blog.is/blog/ea/entry/738319/#comment1998879

Heidi Strand, 8.12.2008 kl. 20:35

41 Smámynd: Kreppa Alkadóttir.

Gæti verið Lára Hanna að meirihlutinn þessi sem mætir ekki á mótmælin styðji þig ekki og það sem þú og hinir mótmælendurnir vilja ná fram?
Þú hefur sennilega ekki tekið eftir því en þetta er ekkert annað en pólitískur áróðursvettvangur fyrir Vinstri Græna og því fer fjarri að allir íslendingar styðji þá eða 90% eins og þú ert að reyna að halda fram, kanntu annan betri spyr ég bara.

Það er búið að koma fram að við skuldum ekkert í líkingu við það sem í fyrstu var talið, það er talað um einfalda þjóðarframleiðslu sem við þurfum að taka á okkur ekKi tólffalda eins og þið reynið stöðugt að telja öllum trú um, þegar maður er með svona málstað eins og þú Lára Hanna verður maður að hafa staðreyndir á hreinu.
Vinstri grænir hafa talað um að taka áratugi í að koma okkur upp úr skítnum og þeir tala um sjálfsþurftarbúskap ásamt hátekjuskatti og eru þið viss um að fólkið í landinu sé til í þann díl sem þeir láta sig dreyma um?
Þeir eru á móti ESB og eru ekki einu sinni til í að gefa okkur tækifæri til að fara í aðildarviðræður, það er búið að sýna fram á það að við erum með 95% ef ekki meira af regluverki ESB segir það ekki eitthvað?

Get bara lofað þér því að þó að þú í þinni sápukúlu haldir að 90% séu á sama máli og þú þá er það ekki svo og þeim fækkar stöðugt sem áhuga hafa á að styðja þinn málstað eins og sást á borgarafundinum í kvöld til að mynda, Ingibjörg Sólrún fór með rétt mál þegar hún sagði að "þið" talið ekki fyrir hönd þjóðarinnar.

Kreppa Alkadóttir., 8.12.2008 kl. 21:58

42 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég held að mótmælin eins og þau hafa verið á Lækjartorgi séu að fjara út og fólk vilji meiri málefnaumræðu. Fundirnir í Háskólabíó eru meira spor í þá átt. Ég mundi halda að nú gæti fólk farið að hittast í smærri einingum og ræða einstaka þætti, leita upplýsinga og koma með tilögur. Niðurrifið getur ekki staðið nema stuttan tíma og reiðin er líka svo slítandi. Nú gæti verið lag að fara að kynna sér einhvern stjórnmálaflokk, mynda hópa til að sinna einstökum málaflokkum og veita stjórnvöldum aðhald, gæta vel hvert að öðru því nú er dimmasti tími ársins o.s.frv. Það er svo margt hægt að gera í málunum annað en að koma á Lækjartorg.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.12.2008 kl. 23:21

43 Smámynd: Historiker

Auðvitað er fólk ekkert sátt við óðaverðbólgu, gengisfall, atvinnuleysi og niðurskurð í nauðsynlegri samfélagsþjónustu, svo ekki sé talað um skuldsetningu ríkisins vegna bankahrunsins. Málið er bara það að ég vil ekki kosningar strax og ég er í engu sammála öfgavinstrisinnum sem finnst gaman að halda æsingaræður. Hvernig á maður að hafa lyst á því að mæta á mótmæli þar sem maður er ósammála ræðumönnum og upphrópunum um kosingar strax? Ég vil bara að Ísland sæki strax um ESB aðild. Hvert á ég þá að mæta?

Historiker, 8.12.2008 kl. 23:28

44 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innlit og athugasemdir.

Mér finnst alltaf með ólíkindum hvað Íslendingar eru fastir í því að flokka allar skoðanir á vogarskálum stjórnmálaflokka og með hægri-vinstri stikunni. Eins og það sé ekki hægt að hafa skoðanir á hlutunum án þess að það þurfi að draga þær og fólkið sem hefur þær í einhverja dilka! Ég frábið mér að vera stimpluð hægri eða vinstri - slík flokkun kemur mér og skoðunum mínum nákvæmlega ekkert við. Eða er meiningin sú að allir séu "vinstrimenn" sem eru óánægðir með ástand mála á Íslandi í dag, aðdraganda þess og hvernig hefur verið brugðist við? Og eru þá að sama skapi "hægrimenn" alsælir og vita ekkert dásamlegra en efnahagshrun, grasserandi spillingu, ónýta stjórnmálamenn og staðnað kerfi. Þvættingur er þetta.

Ég er alveg til í að tala við þig, "Kreppa Alkadóttir", þegar þú öðlast hugrekki til að koma fram undir eigin nafni. Fyrr ekki.

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.12.2008 kl. 03:59

45 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kreppa þessi Alkadóttir fer með rangt mál í ýmsu. Enginn nema hún (hún?) hefur haldið því fram hingað til, að við séum með "95% ef ekki meira" (sic!) af "regluverki" Evrópubandalagsins. Þeir, sem hingað til hafa logið drýgst, tala um 80%, en fyrir fáeinum árum var talan í reynd 6,5 (sex komma fimm) prósent af lagaverki EB. Tilgangur spunafólksins um háa prósentu í þessu efni er að reyna að láta líta svo út sem breytingin frá EES yfir í Evrópubandalagsöinnlimun verði lítilfjörleg. En svo er EKKI.

Svo dregur hún úr skuldum okkar miðað við það, sem rétt er. Ingibjörg Sólrún komst reyndar upp með það um daginn að vanmeta stórlega Icesave-skuldirnar gersamlega út í loftið aða með því að finna út eitthvert falskt meðaltal, en þær skuldir geta leikandi verið 350 milljarðar kr. eða hærri, þegar frá hafa verið dregnar eignir Landsbankans þarna úti. Við þetta bætast svo háir vextir, því að prósenta þeirra fer eftir lánshæfi ísl. ríkisins, sem hefur verið á hraðri niðurleið. Imba og Geir eru reyndar svo sniðug að ætla ekki að borga af þessu vexti og afborganir, meðan þessi ríkisstjórn situr, heldur safna upp skuldunum, og þá finnur almenningur þessa skuldaáþján síður á sínu skinni á meðan, þ.e.a.s. þessi tvö og hálft ár til næstu kosninga, sem D- og S-listarnir ætla sér að vinna, m.a. í krafti svona blekkinga.

Jón Valur Jensson, 9.12.2008 kl. 19:23

46 identicon

Mögnuð lesning

eva (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 21:53

47 identicon

Ég er alveg sammála fólkinu sem er að mótmæla og er það algjörlega í mínu umboði,,þar sem ég bý út á landi og kemst ekki.......en þessi óeining fólks er alveg skelfileg og á meðan við rífumst um tittlingaskít þá hlær þetta skítalið sem heldur að það sé yfir okkur hafið og grefur okkar gröf bara dýpra,,,er alveg sammála þeim sem sagði við eigum þetta skilið vegna þess að við erum aumingjar sem getum ekki staðið saman,,,,en það er smá ljós í myrkrinu þú Hanna er dugleg að mata okkur á spillingunni og allavega að reyna að þjappa okkur saman,,og átt þú hrós skilið fyrir það..........

Res (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband