12.12.2008
Baneitraður brandari?
Undanfarnar vikur hefur Morgunblaðið verið ansi öflugt, komið með margar góðar fréttaskýringar og umfjöllun um efnahagshrunið og aðdraganda þess frá ýmsum hliðum. Blaðamenn Moggans hafa stungið á kýlum, flett ofan af spillingu og fylgt málum óvenju vel eftir miðað við þá staðreynd að ótrúlegustu spillingar- og stórmál sem þarfnast umfjöllunar hafa komið upp nánast á hverjum einasta degi. Fleiri síður hafa verið lagðar undir aðsendar greinar þar sem fjölmargir Íslendingar, þekktir og óþekktir, hafa farið á kostum. Fólk hefur gagnrýnt, hrósað og stungið upp á alls konar lausnum. Þar hefur einna mest borið á nýsköpun og sprotafyrirtækjum sem framtíðarlausnum. Fólk hefur verið mestan part málefnalegt og sýnt heilbrigða skynsemi. Óvenju lítið bull hefur slæðst með miðað við fjölda greina. Það má sem sagt margt gott segja um frammistöðu Morgunblaðsins undanfarnar vikur þótt ýmislegt megi auðvitað gagnrýna líka.
Mér brá í brún þegar ég sá stutta grein í heiðursramma í Mogganum í dag. Ef hún hefði verið eftir einhvern óbreyttan úti í bæ hefði ég í versta falli afgreitt hana sem kjánalega. En greinin er ekki eftir mann úti í bæ, heldur fjármálaráðherra Íslendinga, Árna M. Mathiesen. Mann sem hefur gegnt ráðherraembættum árum saman, sýnt af sér fádæma roluskap og spillingu auk þess að hafa sáralítið sem ekkert til málanna að leggja og neita að upplýsa um fjárhagsleg tengsl sín við bankastofnanir. Hann ætlar nú að hækka skatta og ótalmargt fleira sem var m.a. rætt í Kastljósi í gærkvöldi eins og sjá má hér.
En fjármálaráðherra fjallaði ekki um skattamál og ég er ekki alveg búin að átta mig á tilgangi greinarinnar og hvað ráðherranum gengur til með birtingu hennar, en tökum dæmi: "Við uppfærslu fjárlaga er lagður grunnur að framkvæmdum sem í verður ráðist á næsta ári. Skiptir máli að þær séu vel ígrundaðar, og forgangsraðað verði út frá eftirfarandi forsendum: Þær séu arðbærar til skemmri og lengri tíma, séu mannaflsfrekar, bæði á undirbúnings- og framkvæmdatímabili, skapi atvinnu á því svæði þar sem mest hefur dregið úr atvinnuframboði og kalli ekki á mikinn innflutning aðfanga." Hvað er Árni að tala um hér? Þó ekki virkjanir og álver! Þá er hann enn meiri kjáni en ég hélt. Hér hefur komið fram hver sérfræðingurinn á fætur öðrum undanfarnar vikur og varað við slíku óráði sem fælist í því að slá enn fleiri og hærri lán í útlöndum - ef þau þá fást. Þjóðin er gjörsamlega að drukkna í skuldafeni og ekki er á bætandi.
Ég gæti tínt til ótal fleiri ástæður en í bili nægir að nefna eiturefnið brennisteinsvetni sem jarðgufuvirkjanir þær sem áætlað er að reisa til að knýja álverin í Helguvík og á Bakka spúa út í andrúmsloftið. Ég hef skrifað um málið margoft á þessum vettvangi - til dæmis hér, hér, hér, hér og hér svo eitthvað sé nefnt. Í tónspilaranum eru 15 viðtöl við lærða og leika, sérfræðinga og vísindamenn auk fréttaumfjöllunar. Til hægðarauka fyrir þá sem vilja hlusta merkti ég efnið A00 til A14 svo það raðast efst í spilarann. Ég hvet fólk eindregið til að hlusta - og horfa svo á þessar fréttir af RÚV í gær og fyrradag. Þarna er reyndar ekki fjallað um þá hættu sem mannfólkinu getur stafað af brennisteinsvetnismengun - og ég er ekki að tala um lyktmengun. Ætlar Árni að eitra fyrir okkur ofan á allt annað?
Fleira mætti tína til úr þessari litlu grein fjármálaráðherra en hér er hún. Misskil ég greinina kannski - eða þetta brot úr henni sem ég tók út? Og er Árni sá maður sem hefur efni á að hvetja til samheldni og samstarfs? Hefur hann sýnt sig vera verðugan fulltrúa almennings sem fólk ætti að flykkjast á bak við og sýna samstöðu?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:08 | Facebook
Athugasemdir
Hér er eitthvað mikið að og afneitunin á alvarlegu stigi. Hvaða hugsanir skyldu fara um hug þessa manns, er hann kvölds og morgna stendur frammi fyrir sjálfsmynd sinni og hvítþvær tennur sínar?
Ásgeir Kristinn Lárusson, 12.12.2008 kl. 16:55
Þeir hugsa til komandi kynslóða þegar þeir meta hverjir eigi að greiða lánin sem þeir eru að taka núna til þess að geta haldið sér uppi í vellystingum og borgað óráðsíu undanfarinna áratuga.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.12.2008 kl. 17:12
Ég hnýt sérstaklega um orðin:
Þetta sýnist mér útiloka allar framkvæmdir á ferðamannastöðum, stígagerð skógræktarfélaga og vinnu við að koma skjalasöfnum Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna í rétt horf. Arðsemi þessara aðgerða verður nefnilega ekki mæld til skamms tíma og hugsanlegu hefur þetta setið á hakanum, vegna þess að arðsemi til lengri tíma er líka vafasöm. Þetta er aftur hlutir sem krefjast mikil mannafla og þurfa ekki innfluttra aðfanga nema í mjög takmörkuðu mæli. Hvernig svona verk dreifast um landið veit ég ekki.
Marinó G. Njálsson, 12.12.2008 kl. 17:16
Virkasta og ódýrasta leiðin er að virkja fílkið á landsbyggðinni í tengslum við þær auðlindir sem þar eru nærtækastar. Við gætum t.d. farið af krafti á markaðsrannsóknir með aukinn útflutning á ferku vatni í huga. Þar eru menn í startholunum en vantar fjármagn. Vöruskipti með vatn og olíu er hugmynd sem komið hefur upp á borðið en enginn fylgt eftir svo mér sé kunnugt. Bændur gætu stóraukið virði sinnar framleiðslu með aukinni áherslu á sölu beint frá búi, einkum þó sauðfjárbændur.
Árni Gunnarsson, 12.12.2008 kl. 18:28
"Við horfum frekar til framtíðar, til komandi kynslóða. Þetta er raunveruleikinn sem við stöndum
frammi fyrir, vandasamt verkefni sem við verðum að klára.
Við ráðum fram úr því eins og öðru."
Já já já.... ég treysti einmitt þeim til að ráða fram úr þessu......
"Við ráðum fram úr því eins og öðru."
Það er enginn á þingi að hugsa til framtíðar bara til næsta kjörtímabils, þannig er það og þannig hefur það alltaf verið! Spyrjið fólk í Argentínu hvort að við eigum að fá lán frá AG aka IMF......
Unnsteinn Jóhannsson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 18:38
Ráðherrann er að fara að ráðum PR ráðgjafanna sem stjórvöld hafa ráðið til sín undanfarið (á okkar kostnað?). Skrifa greinar í þeim tilgangi einum að láta á sér bera. Skrifa bara um eitthvað, einhvernvegin greinar, vera í sviðsljósinu, það eykur fylgið. Þetta er allt í PR handbókinni. Þessi ráðherra fer varla að skrifa grein af upplýsingagleði einni saman.
Hnaut um það sama og þú í morgun og sá fyrir mér virkjanir og stóriðju, ekki að ástæðulausu held ég, enn vitum við ekki um öll skilyrði AGS.
"Stjórnvöld...vinna nú hröðum höndum að uppbyggingu fjármálalífsins í samvinnu við alþjóðlegar bankastofnanir..." Þarna er sagt með skrautlegu orðalagi að unnið sé undir verkstjórn AGS.
sigurvin (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 19:41
Nei, nei og aftur nei! Fólkið sem kom okkur í þessa stöðu má taka meiri þátt í að leiðrétta hana. Það á ekki að taka erlend lán svo að hægt sé að blóðmjólka landið. Hann gæti verið að tala um vegaframkvæmdir og gangagerð. Veit ekki.
Það sem ég skil alls ekki er að ráðherra skrifi svona illskiljanlega grein. Kannski stendur í einhverri PR handbók að allt umtal sé betra en ekkert, en ég er ekki svo viss um að það eigi við eins og tortryggnin er í þjóðfélaginu í dag.
Villi Asgeirsson, 12.12.2008 kl. 20:34
eigðu þakkir fyrir frábæra pistla og upplýsingaveitu.
bloggið yrði ansi fátæklegt án þín.
Brjánn Guðjónsson, 12.12.2008 kl. 20:48
Tek undir með Brjáni. Andleg auðn eða skammstafað A.a lýsir fjármálaráðherranum best, ætti frekar að vera Rollumálaráðherra, enda dýralæknir.
Máni Ragnar Svansson, 12.12.2008 kl. 21:27
Takk Lára fyrir góðar færslur.
Ég hallast helst að því að honum hafi verið sagt að skrifa þessa grein. Ég fæ ekki neinn góðan botn í hana. Hann kemur þó að þakklæti til þeirra sem þurftu að endurskoða fjárlögin, ég hélt að þeir væru hvort eð er í vinnu og ættu að gera slíka vinnu. Hitt er athyglisvert að Árna finnst að við lok þessarar pappírsvinnu, þ.e. endurskoðun fjárlaga, sé um algjör kaflaskipti að ræða í Íslandssögunni. Eftir að endurskoðun fjárlaga lýkur er komið að endurreisninni! Hann reisir þó viðvörun við góðum áætlunum sínum, hann varar við "stundarhagsmunum" . Á hann við mótmælendur sem eru ekki sama sinnis og hann eða hvatir sínar í slíka hagsmuni.Gunnar Skúli Ármannsson, 12.12.2008 kl. 21:54
Ég myndi ekki treysta Matthíasi fyrir Mala.
Sigurður Þór Guðjónsson, 12.12.2008 kl. 22:21
Nú er ég farinn að rugla ofan á allt annað. Þetta á að vera svona: Ég myndi ekki treysta Árna Mathiesen dýralækni fyrir honum Mala mínum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 12.12.2008 kl. 22:23
Þvílíkt niðurlag! Það er greinilegt að Árni er ekki með augu og eyru opin núna frekar en fyrir bankahrunið. Því miður er ekki sama tregðan sem stoppar af vitleysuna sem frá honum streymir. Þarna mælir sá sem gæti líklega fengið sig skráðan í heimsmetabók Guiness fyrir dýrasta símtal mannkynssögunnar.
Sigurður Hrellir, 12.12.2008 kl. 22:52
,,Stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til varnar heimilinum og atvinnulífinu í landinu..."
Ef einhverjum finnst þurfa að gera meira fyrir heimilin þá bendi ég á:
http://www.heimilin.is/
Þórður B. Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 23:41
Auðvitað treystir enginn Árna fyrir sínu dýri enda er hann hrossalæknir
Dýraeigandi (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 00:39
Arg og garg, burt með spillingarliðið.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.12.2008 kl. 01:27
Það þarf greinilega að vera á tánum hvað varðar mengun og umhverfisáhrif almennt frá virkjunum. Það verður þó aldrei hægt að segja að ekki hafi verið varað við. Það er allt eins líklegt að gripið verði til gamalkunnra frasa, ég vissi ekki, mér var ekki kunnugt um o.sv.frv. En gagnabankinn þinn verður vonandi geymdur vel. Það þarf kannski að skoða hann þegar uppgötvast að brennisteinsmengun feykist yfir borgina í marghundruðföldum styrk miðað við öryggisstaðla. Svona hlutir og aðrir skyldir eins og forvarnir í heilbrigðismálum sem mér eru hugleiknar munu eiga undir högg að sækja nema við höldum vöku okkar. Takk fyrir þitt starf í þessum efnum.
Solveig (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.