Bíddu nú hægur, Bjarni sæll

Fyrst skrifaði hann grein í Fréttablaðið, svo kom hann í Kastljósið. Hann segist hafa endurgreitt 370 milljónir... Það er skiptimynt í vösum hans. Sýndi hann kvittun? Getur einhver staðfest þessa fullyrðingu? Og hvar er afgangurinn, allir milljarðarnir? Hvar er orðstír þjóðarinnar sem Bjarni átti þátt í að eyðileggja? Í hverju ætlar Bjarni að fjárfesta næst? Býst hann við fyrirgefningu þjóðar sem hann hjálpaði að sparka í ræsið - bara sisona - af því hann þykist átta sig á því núna hvað hann var vitlaus? Æ, æ... þvílíkt endemis yfirklór. Vel undirbúið stönt, æft og yfirfarið með ímyndasmiðum, til þess gert að slá ryki í augu landsmanna sem eru mögulega meyrari en ella eftir jólahátíðina. Er hann að undirbúa jarðveginn til að geta notað milljarðana sína (okkar!) til að eignast eigur okkar á brunaútsölu? Er fólk til í að spila Matador við Bjarna... einhver?

Það á að harðbanna bankamönnum og útrásarauðmönnum að fjárfesta í nokkrum hlut hér á landi fyrr en búið er að rannsaka þátt þeirra í hruninu ofan í kjölinn og láta þá skila öllum þeim fjármunum sem þeir höfðu af íslensku þjóðinni. Þegar þessir menn hafa goldið fyrir misgjörðir sínar og endurgreitt ALLT féð skal ég íhuga vel og lengi hvort þeir fá aflausn, ekki fyrr. Lofa engu. Sala aflátsbréfa lagðist af um miðja 16. öld - eða var það ekki? Bjarni fær ekki einu sinni prik hjá mér fyrir að mæta í Kastljós, mér finnst það bara svo sjálfsagt. Ekki reikna ég með að fá prik fyrir að borga skuldirnar sem hann steypti mér í... og börnunum mínum og barnabörnunum. Þessari hnuplaði ég frá hagyrðingnum Gísla málbeini:

Enn í landi óttans bý
aukast skuldir barna
finnur einhver fróun í
að fyrirgefa Bjarna?
 
Kastljós 5. janúar 2009 - Bjarni Ármannsson
 

Kastljós var pakkað af efni í gærkvöldi. Glæsilega að verki staðið. Áfram, Kastljós! Og nælið ykkur í Sölva á meðan hann er á lausu. Frábær maður þar á ferð. En Ísland í dag fjallaði aftur á móti um líkamsrækt, brjóstastækkanir og aðrar fegrunaraðgerðir. Mjög spennandi - Sindri með puttann á púlsinum - sjá hér.

Þann 28. mars í fyrra skrifaði ég pistil um hrokann sem fjármálaráðherra sýndi Umboðsmanni Alþingis þegar hann dró fagmennsku hans í efa vegna vægast sagt vafasamrar skipunar í dómaraembætti. Pistillinn er með yfirskriftinni Hroki, siðblinda, spilling og ósnertanleiki. Þar er m.a. vitnað í orð Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors í stjórnmálafræði, þar sem hann segir frá reglum um lögsókn gegn ráðherrum. Í Kastljósi kom nefnilega fram að báðir ráðherrarnir, Árni og Björn, brutu lög - en þeir eru ósnertanlegir. Hvernig þjóðfélag er það sem líður ráðherrum og öðrum SéraJónum að brjóta lög að vild án þess að þeir þurfi að gjalda þess á nokkurn hátt - lagalega, pólitískt eða siðferðilega - en dæmir almenna borgara fyrir hvaða smávægilegu yfirsjón sem er? Er ekki eitthvað að hérna?

Kastljós 5. janúar 2009 - Ráðherrar brjóta lög

Aftur vísa ég svo í fyrri pistil - þennan. Enn talar Gunnar Birgisson niður til námsmanna erlendis. Nú eru umsækjendur fólk sem hafði stofnað sér í skuldir áður en það fór út til náms og var með skuldahalann á eftir sér. Gunnar... allir 95 sem var neitað um neyðarlán, eða hvað? Ætlastu virkilega til að ég trúi því að 95 af hvað... 130 námsmönnum hafi verið skuldugir upp fyrir haus áður en þeir fóru utan til náms? Kannski er þetta óþarfa tortryggni í mér, en ég bara kaupi þetta ekki.

Kastljós 5. janúar 2009 - Gunnar Birgisson og neyðarlán til námsmanna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Vonandi er þetta bara fyrsta afborgun hjá honum Bjarna   Vonandi koma hinir barónarnir í halarófu á eftir Bjarna og borga sínar afborganir. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.1.2009 kl. 00:39

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Gott kastljós.

Hafi BÁ skilað 370 millum þá finnst mér að landsmenn eigi að fá eina á mann.

En ráðherrar virðast mega haga sér hvernig sem er.

Hólmdís Hjartardóttir, 6.1.2009 kl. 00:39

3 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Skyldi Bjarni hafa ráðfært sig við ímyndarstílista því í Kastljósinu var hann í iðrunargráum jakkafötum í stað svarbláa fjárfestingasettsins, illa sniðnum svo við sjáum að hann er hættur að spreða og of stórum af því hann hefur lagt svo mikið af sökum sjálfsafneitunar og óyndis.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 6.1.2009 kl. 00:41

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Skarplega athugað, Ólöf... ég sá þetta en tengdi ekki. Þetta er auðvitað alveg hárrétt hjá þér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 6.1.2009 kl. 00:45

5 identicon

Var ekki einhver Pálmi Haraldsson að kaupa Ferðaskrifstofu Íslands? Á spottprís. Ég er kannski orðin rugluð í ríminu en var það ekki hann sem gamblaði með Sterling? Afsakið mig ef slær saman, auðvelt á þessum síðustu og verstu. En ef rétt er, eru þá ekki byrjaðar brunaútsölurnar, aðeins betri prís en í Zöru skilst manni.

Solveig (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 00:46

6 Smámynd: hilmar  jónsson

Það er dapurlegt hve margir virðast vera að kaupa þetta. Tala um einlægni og sanna eftirsjá hjá Bjarna.

Verður óneitanlega svolítið sérstakur blær yfir rannsókn bankahrunsins ef hún á að hefjast með undirleik grátkórs almennings gagnvart göfuglyndi hans.

hilmar jónsson, 6.1.2009 kl. 00:49

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Við þessu er engu að bæta.

En.. frasinn "líkamrækt mál málanna í janúar" gaf mér satt best að segja töluverða brjálæðistilfinningu.

Algjörlega spot on hjá parinu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.1.2009 kl. 00:50

8 Smámynd: TómasHa

Og hvar erju milljónirnar frá hinum? Bjarni hefði getað gert það sem hinir gerðu, troðið þessu bara í vasan hjá sér og rétt ykkur og öllum hinum fingurinn. Af hverju í veröldinni ætti Bjarni að vera að vinna sér inn ímynd? Er hann á leiðinni í forsetann?

Með 370 milljónir í vasanum, getur Bjarni keypt sér eyju í Karabíahafinu og lifað "happy ever after" fyrir afganginn.

TómasHa, 6.1.2009 kl. 00:52

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ertu að meina þetta, Hilmar? Kaupir fólk þetta jarm virkilega???  Ég bara vil ekki trúa því!

Solveig... ég held að þetta sé rétt hjá þér - að Pálmi (Iceland Express) hafi verið að kaupa Ferðaskrifstofu Íslands. Og af svörum forstjóra ferðaskrifstofunnar að dæma var hún bara alls ekkert á hausnum! En hvað? Var þetta fyrirfram ákveðin leikflétta? Mér er spurn.

Já, Jenný... eigum við ekki að snúa okkur að því að skrifa um líkamsrækt og brjóstastækkanir?

Tómas - ég spyr eins og þú: Hvar eru milljónirnar frá hinum? Getum við átt von á því að þeir komi skokkandi með nokkrar millur til að friðþægja skrílinn og slá á hatrið og fyrirlitninguna? En ég get lofað þér því að Bjarni á gott betur en 370 milljónir í handraðanum og ég er honum EKKI þakklát fyrir að skila þessu, því þetta er skiptimynt. Hann á að skila öllu, hverjum einasta milljarði sem hann hirti! Og loka bankareikningunum í erlendum skattaparadísum. Við getum alveg notað aurana þeirra til að borga niður erlendar skuldir sem ÞEIR steyptu okkur í.

Lára Hanna Einarsdóttir, 6.1.2009 kl. 00:58

10 Smámynd: Haraldur Hansson

Bjarni náði því að skila á að giska helmingnum af því sem hann hafði í vaxtatekjur af gróðanum af hlutabréfasölunni.

Ef gengismunur er tekinn inní - af því hann var búinn að koma þessu í norskar krónur fyrir hrun - þá lækka raunútgjöld hans um helming.

Samt erum við bara að tala um einn hluta teknanna, ekki allan arðinn og aðrar tekjur sem hann rakaði til sín. Fyrir hann er þetta svona sirka upp í nös á ketti.

Skúringarkona sem gæfi Glitni gamla þúsundkall væri að gefa af meiri rausn! Bara verst hvað Glitnir er búinn að stela mörgum þúsundköllum af henni.

Haraldur Hansson, 6.1.2009 kl. 01:00

11 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

skyldu milljónirnar 370 innihalda vexti og verðbætur?

Brjánn Guðjónsson, 6.1.2009 kl. 01:01

12 Smámynd: Benedikt Bjarnason

Lára Hanna, takk fyrir gott blogg.

Ég ætla aðeins að bæta við athugasemdum varðandi Bjarna. Greinina í Fréttablaðinu sá ég ekki en viðtalið í Kastljósinu sá ég. Mér fannst það gott. Þeir komu víða við.

Þú spyrð um kvittun. Ekki láta svona. Hvernig heldurðu að það kæmi út fyrir Bjarna ef hann yrði uppvís af þeim lygum að segjast  hafa greitt til baka 370 milljónir, sem svo væri ekki að marka? Vitanlega hefur hann greitt þetta. Því treysti ég alveg. Annars væri æra hans algerlega hrunin.

Þú ert sár sé ég, og mátt vera það. En hvað er þetta ALLT sem þú talar um? Ekki veit ég það og ég efast um að einhver viti það. Mér finnst virðingarvert að koma fram og játa mistökin á sig, fyrir það fær hann prik frá mér. Það hafa ekki aðrir gert.

Ég bloggaði um þessa frétt undir mínu bloggi, ef einhver hefur áhuga.

Vísan er vel gerð og hún fær prik.

Benedikt Bjarnason, 6.1.2009 kl. 01:10

13 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Svuntuaðgerðir, endaþarmshvíttun og sonna.  Mál málanna í febrúar.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.1.2009 kl. 01:22

14 Smámynd: hilmar  jónsson

Fyrirgefðu Lára en ég stóðst ekki mátið að fá lánað á bloggið mitt youtubið af útrásarsöng Davíðs. Vona að það sé í lagi.

hilmar jónsson, 6.1.2009 kl. 01:24

15 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

En af hverju samþykkti stjórn Glitnis að greiða honum svona hátt yfir markaðsverði fyrir hlutina? Gott væri ef Sigmar spyrði stjórnina. Bjarni roðnaði lítillega þegar Sigmar spurði hann hvers hann hefði farið fram á það og sagði svo: Af því að ég gerði það. Tók ég ekki rétt eftir?

Berglind Steinsdóttir, 6.1.2009 kl. 01:25

16 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innlitið, Benedikt. Ég linka í greinina í Fréttablaðinu efst í færslunni ef þú vilt lesa hana. En þú verður að passa þig að taka ekki alla hluti of bókstaflega eins og þetta með kvittunina. Að sjálfsögðu býst ég ekki við að Bjarni mæti í Kastljós með kvittun. En ég vil fá frekari sönnun þess að fullyrðing Bjarna sé rétt vegna þess - að hann ER ærulaus. Greinin og viðtalið breytir engu um það. Lestu athugasemd Haraldar nr. 10 til dæmis. Pældu í þessu.

Ég er sár. Auðvitað er ég sár. En ég er fyrst og fremst ævareið út í til dæmis Bjarna. Og þetta ALLT sem ég á við eru allir fjármunirnir sem Bjarni - og auðvitað allir hinir líka - skaut undan. Hve margir milljarðar eða tugir milljarða það eru veit ég ekki.

Ég kíkti á bloggið þitt, Benedikt... og sá að þú ert einn þeirra sem Hilmar minnist á. Þeirra sem eru tilbúnir til að trúa, treysta og fyrirgefa um leið og einhver þessara manna sýnir vott af iðrun, hvort sem hún er einlæg eður ei. Þú hlýtur að vera afskaplega hrekklaus maður og það er fallegt og virðingarvert. Ég var það líka einu sinni - en er það ekki lengur. Ég er orðin tortryggin, forstokkuð og treysti engum. Ekki nokkrum manni og ég hef ærna ástæðu til. Ég og mitt fólk tókum engan þátt í gróðærinu, það náði aldrei til okkar. Ég hef ekki eytt um efni fram og baslað frá degi til dags alla mína ævi. Lenti illa í óðaverðbólgunni á 9. áratugnum og langar ekki að missa aleiguna aftur af því einhverjir 30 stráklingar veltu sér upp úr siðlausri græðgi og skuldsettu mig og mína - og þig og þína, Benedikt - um ókomna framtíð.

Það þarf meira en sakleysislegan, barnslegan iðrunarsvip og nokkur orð um að hafa gert mistök til að bæta mér skaðann. Þessi maður á ekkert inni hjá mér, allra síst fyrirgefningu syndanna.

Lára Hanna Einarsdóttir, 6.1.2009 kl. 01:29

17 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

undir lok vitalsins segir Sigmar, í tengslum við REI málið, „en þú varst líka lengi að móast, þú vildir galda þessu til streitu“

gaman að vita að hugtakið að móast, sem við félagarnir stofnuðum fyrir tveimur áratugum, er orðið svona rótgróið

Brjánn Guðjónsson, 6.1.2009 kl. 01:39

18 Smámynd: Benedikt Bjarnason

Takk Lára. Og ekki veit ég hversu hrekklaus ég er (held að allir séu ekki sammála því)

Við erum að skrifa út frá dálítið mismunandi forsendum heyri ég. Ef ég segi alveg eins og er, þá hef ég aldrei fundið til þessarar sáru reiði og skrifa út frá því. Ég er ekkert alsæll og hoppa um af kæti, en ber ekki þessi sárindi sem margir hafa. Vissulega tortrygginn- en traustið til margra þeirra sem ég treysti áður hefur ekkert minnkað. En ég stíg varlegrar til jarðar en áður. 

En eitt sýnist mér við eiga sameiginlegt ef ég skil þig rétt. Mína aleigu missti ég fyrir nokkuð mörgum árum en reis upp, og langar ekki í sama slaginn aftur.

Benedikt Bjarnason, 6.1.2009 kl. 02:07

19 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er búin að vera að vafra hérna um bloggheima þar sem ég hef kommentað á stöku stað til að taka það fram að ég kaupi ekki iðrunarfarsa BÁ þrátt fyrir gervið. Hins vegar langar mig til að bæta við vangaveltum um fautalaeg ummæli GB um stórskulduga námsmenn. Hann skyldi þó ekki vera að tala um skuldirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn flokkur neyddi upp á alla háskólastúdenta þegar hann komst til valda í upphafi 10. áratugarins?

Þá var námslánakerfinu breytt þannig að bankarnir tóku yfir námslánin. Eftir það verða námsmenn að stofna reikning í einhverjum af stóru bönkunum og semja um yfirdráttarlán sem safnar vöxtum. Lánið frá LÍN borgar ekki niður yfirdráttinn fyrr en prófúrlausnir liggja fyrir en þá hefur elsti yfirdrátturinn safnað vöxtum í 5-6 mánuði. Áður fengu námsmenn úthlutað lánum frá LÍN í upphafi hverrar annar nema á fyrstu önn.

Kannski vita allir að þegar Sjálfstæðismenn tóku við Menntamálaráðuneytinu á síðasta áratug síðustu aldar var þessu breytt en GB treystir því að enginn átti sig á því að það er þetta fyrirkomulega sem gerir eykur á skuldabyrði íslenskra háskólastúdenta. Sennilega hefur hann ekkert vitað af þessu sjálfur fyrr en...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.1.2009 kl. 02:11

20 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mig langar til að bæta því við að ég var í Háskólanum þegar þessu var breytt. Við mótmæltum meðal annars niður á Lækjartorgi. Við fengum einhverju breytt m.a. því ákvæði að afkomendur okkar sem höfum tekið lán frá haustinu 1991 fá það ekki í arf að borga það ef við föllum frá áður en það er uppgreitt. Tek það fram, þar sem ég geri mér grein fyrir að þetta hljómar ótrúlega, að ég er ekki að fara með neinar ýkjur... en fyrirgefið að ég er komin svolítið út fyrir efnið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.1.2009 kl. 02:16

21 identicon

Bubbi Morthens sagði að þetta væri fínt hjá Bjarna í þætti sínum í kvöld. Ég er Bubbamaður. Því er Bjarni bara fínn gaur f. að gera þetta.

Ari (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 03:26

22 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ari... Bubbi er flottur tónlistarmaður og hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan 1980. En ekki láta aðra hugsa fyrir þig, hvorki Bubba né aðra. Hugsaðu sjálfur og dragðu eigin ályktanir. Þínar ályktanir, sem þú dregur á eigin forsendum, eru alveg jafnréttháar og annarra, t.d. Bubba. Og ekkert síðri, athugaðu það.

Lára Hanna Einarsdóttir, 6.1.2009 kl. 03:33

23 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir þetta Lára Hanna, sammála hverju orði.

Sigrún Jónsdóttir, 6.1.2009 kl. 04:06

24 Smámynd: Beturvitringur

ANDMÆLI

370.000.000 er ekki milla á mann, heldur rúmlega ÞÚSUND KALL.

Varla ástæða að taka einn mann, BÁ, til tuktunar þegar álitið er að a.m.k ÞRJÁTÍU MANNS EIGI HLUT AÐ MÁLI.

Bjarni má eiga það að HANN LÉK NOKKUÐ VEL, og hann hélt kúlinu. Held reyndar ekki að hann sé versti skúrkurinn.

Hitt er annað að í veislum fer ekki einn gesturinn HEIM MEÐ BRÓÐURPARTINN AF KÖKUNNI, þegar boðið er hálfnað.

Beturvitringur, 6.1.2009 kl. 04:21

25 identicon

Tek undir hvert orð. Iðrunin var uppgerð og 370 kallinn smjörklípa. Í tengslum við fyrirhuguðu REI-söluna kom vel í ljós að samviska er ekki eitthvað sem þvælist fyrir honum. Starfslokin hjá Glitni sýndu að hann vílar ekkert fyrir sér, þrátt fyrir að hann vissi eins og hann segir sjálfur í Kastljósinu að bankarnir væru á niðurleið.

Hann var fyrstur til að flýja sökkvandi skip eins og ákveðin dýrategund. Ég held að hann sé forhertur fjárglæframaður en góður leikari. Hann (og allir hinir) á að skila miljörðunum sem hann tók "að láni" hjá þjóðinni. Annað er ekki boðlegt.

Kolbrún (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 04:43

26 identicon

Lára Hanna.  Takk kærlega fyrir bloggið þitt.  Þú ert óeigingjörn að nenna að standa í allri þessari vinnu fyrir okkur hin.   Ég skoða bloggið þitt á hverjum degi og er þetta orðinn ómissandi partur af bloggrúntinum.   Ég vil endilega hvetja þig til að henda upp á síðunni þinni reikningsnúmeri svo við hin getum sýnt þakklæti okkar í verki.   Þetta er ómetanlegt í öllum þessum caos sem við lifum í dag!   Ég amk. krefst þess að fá að styrkja þig sem um nemur hálfu afnotagjaldi St2 sem ég sagði nýlega upp!  :)  Þá líður mér örlítið betur með sjálfan mig... ég gruna að fleiri en ég séu farnir að stóla á þessar samantektir þínar og er það mjög ósanngjarnt þar sem þú færð ekkert greitt fyrir þetta.   (eða hvað veit ég? )  Góðar stundir!

Snorri Páll (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 05:49

27 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Gleyma allir Pétri Blöndal. Sá maður situr á þingi og er meira að segja í einhverjum nefndum sem eiga að koma skikk á hlutina. Pétur þessi stofnaði Kaupþing á sínum tíma, nýkominn frá Þýskalandi. Hann er læriföður Bjarna Ármannssonar, saklauss sveitadrengs ofan af Skaga. Pétur gerði Bjarna að forstjóra Kaupþings þegar hann ákvað að fara í pólitíkina. Bjarni var þá kornungur, kannski 27-28 ára og Pétur fjarstýrði honum inn í einkavinavæðinguna. Nú er Pétur Blöndal frír og frjáls. Hann seldi Kaupþing á sínum tíma og lýsti því yfir um leið og hann rakaði að sér milljónatugum fyrir það að hann væri að kaupa hús og ætlaði að taka lán hjá Íbúðalánasjóði af því að þau væru niðurgreidd og þá fengi hann vaxtabætur. Það eru fleiri vatnsgreiddir en Bjarni. Þessu eru eflaust allir búnir að gleyma nema ég.

Haraldur Bjarnason, 6.1.2009 kl. 06:22

28 Smámynd: Haraldur Bjarnason

..lærifaðir, ekki læriföður...

Haraldur Bjarnason, 6.1.2009 kl. 06:23

29 identicon

Þessar 370 milljónir eru bara helmingurinn af því sem þær voru fyrir ári í norskum krónum. Þetta eru auk þess peningar sem átti eftir að greiða Bjarna. Hann hefði hvort eð er ekki fengið þá frá gamla Glitni. Þannig að hann endurgreiddi tapaða peninga með helmings afslætti. Sumir geta ekki hætt að gera góða díla.

Doddi 19 (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 08:06

30 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir það að þú ert frábær sem endranær Lára Hanna.  Takk fyrir þetta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2009 kl. 08:20

31 Smámynd: Guðmundur Óli Scheving

ER ekki Bjarni Ármannsson haldinn þessari umtöluðu siðblindu ?

Guðmundur Óli Scheving, 6.1.2009 kl. 08:32

32 Smámynd: Heidi Strand

Vasklútanna voru á lofti hér á blogginu í gærkvöldi. Er sál okkar til sölu fyrir 370 millur? Er það ekki 100 þúsund á mann á meðan skuldir okkar vegna hrunsins er sagt vera 20 millur á mann.
Bið spennt eftir að allir skúrkarnir opnar veskin.


Bjarni lýgur því að hann er norðmaður. Það tekur mörg ár að fá norskan ríkisborgararétt.
http://jona-g.blog.is/blog/jona-g/entry/698109/
Sem norðmaður segi ég nei takk!!!!, ég er annt um mannorðið okkar norðmanna.

Heidi Strand, 6.1.2009 kl. 08:58

33 Smámynd: Heidi Strand

mannorð á það visst að vera.

Heidi Strand, 6.1.2009 kl. 08:59

34 identicon

Gráðugur og óseðjandi Bjarni Ármannsson hefur mergsogið svo íslenskt samfélag að 370 milljónir sem hann greiddi "á síðasta ári" eru smáaurar þegar endurreisn ímyndar hans sem hannyrðakonu er annars vegar.

Meðal annarra orða: Hvenær "á síðasta ári" voru millurnar greiddar? Í desember þegar herferðinni var ýtt úr vör?

Rómverji (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 09:08

35 identicon

Er ekki flestir orðnir þreittir á því að þessir svokölluðu útrásarvíkingar skrifa greinar og mæta í sjónvarp og reyna að ná fram einhverri fyrirgefningu hjá þjóðinni. Menn eiga bara að láta verkin tala og hætta þessu væli.

Flestir gera sér grein fyrir því að núna þegar krónan hefur fallið í verði um helming koma útrásarvíkingarnir í innrás og munu "endurgreiða" okkur allt til baka með því að fjárfesta í hræódýrum fasteignum og öðrum eignum.

Birkir Brynjarsson (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 09:29

36 identicon

Las betur og rak augun í komment Dodda:

"Þessar 370 milljónir eru bara helmingurinn af því sem þær voru fyrir ári í norskum krónum. Þetta eru auk þess peningar sem átti eftir að greiða Bjarna. Hann hefði hvort eð er ekki fengið þá frá gamla Glitni. Þannig að hann endurgreiddi tapaða peninga með helmings afslætti. Sumir geta ekki hætt að gera góða díla."

Gengi íslensku krónunnar við endurgreiðslu Bjarna væri gott að vita. En er þetta rétt hjá Dodda? Getur verið að Bjarni Ármannsson hafi aðeins verið að gefa eftir 370 miljóna kröfu í gamla Glitni? Kröfu sem e.t.v. var glötuð hvort eð er?

Þetta gæti einhver blaðamaður upplýst á svo sem hálftíma.

Rómverji (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 09:31

37 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Æ nú veit ég ekki. En ég get ekki af því gert en mér finnst Bjarni hafa komið ágætlega út úr þessu viðtali og það má alveg virða það þegar menn viðurkenna ýmis mistök sem gerð voru. 370 milljónir er síðan ekki lítill peningur þótt ýmsir hér séu að gera lítið úr þeirri upphæð. „Æft og yfirfarið með ímyndasmiðum, til þess gert að slá ryki í augu landsmanna“ finnst mér síðan eiginlega varla sanngjarnt að segja. Það er allt í lagi að tortryggja og við eigum ekki endilega að fyrirgefa allt en það má alveg gefa mönnum tækifæri til að sýna einhverja iðrun án þess vera alltaf að hrauna yfir þá, og að leifa mönnum að viðurkenna mistök er allavega byrjunin. Þannig er ég bara nokkuð sammála Benedikt sem skrifaði hér að ofan.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.1.2009 kl. 10:06

38 Smámynd: Sævar Helgason

Já. Bjarni er í viðskiptum það breytist ekki. 

Þessir peningar sem hann segist hafa skilað til baka eru svona einskonar syndaaflausn-aflátsbréf og síðan verði hægt að byrja upp á nýtt. Syndlaus maðurinn.  Það gleymist seint sú atburðarás sem átti sér stað á haustmánuðum árið 2007 í Rei málinu. Þar fór Bjarni þessi fremstur í þeim gerningi að reyna að sölsa undir sig og sína viðskiptafélaga- Orkuveitu Reykjavíkur ásamt öllum jarðhitaauðlindunum á Reykjanesskaganum- selja það síðan erlendis fyrir morð fjár. 

Sexmenningarnir á vegum Flokksins í borgarstjórn eyðilögðu málið fyrir Bjarna í ólundarkasti vegna samráðsleysis - ekki af þekkingu enda lýsir Bjarni því svo í grein sinni að einkenni íslenskra stjórnmálamanna sé alger þekkingarskortur á fjármálalífinu.

Ekki er ég tilbúinn að veita Bjarna þessa syndaaflaus-  Hann getur byrjað endurreisn sína hér á landi með því að fara í fiskvinnu - ekki viðskipti.

Sævar Helgason, 6.1.2009 kl. 10:34

39 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þó svo að 370 milljónir séu einungis lítið brot af heildarfjárhæðum þeim sem BÁ náði að hala inn, þá er hann í það minnsta að sýna öðrum athafnarmönnum og gróðapungum gott fordæmi.

Nú eru skattayfirvöld að kortleggja þessi mál að einhverju leyti. Lagaumhverfið er ekki sem ákjósanlegast til að koma almennilegu skikki á þessi mál enda var það aldrei á áætlun Sjálfstæðisflokksins og þaðan af síður Framsóknarflokksins að hafa þessi mál á hreinu. Ekkert mátti tefja fyrir né skyggja á gleði og athafnir „útrásarvíkinga“. Bankana mátti hver sem er kaupa og ræna aðra hluthafa sem þó voru þeir einu sem greiddu hlutabréfin sín með beinhörðum peningum. Aðferðin var einföld: stofnuð voru endalaus keðja af einhverjum gervihlutafélögum sem seldi og keypti hvert af öðru hlutabréf. Bankarnir voru féflettir með veði í verðlitlum og jafnvel verðlausum pappírum.

Hvað eru Bakkabræður að gera núna? Þeir eru ásamt Finni Ingólfssyni að leggja Exista endanlega undir sig. Þeir bjóða hluthöfum smánarfjárhæð: 2 aura fyrir hverja krónu hlut í þessu fyrirtæki sem upphaflega voru tvö stærstu tryggingafyrirtækum landsins: Brunabótafélagi Íslands og Samvinnutryggingum. Sjá nánar færslu: Undirbúningur málshöfðunar - Athafnamenn í kreppunni: http://mosi.blog.is/blog/mosi/entry/763008

Með bestu kveðjum og gangi þér vel í þínum bloggpraxís Lára!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 6.1.2009 kl. 11:06

40 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég er enn í sjokki. Gat ekki hlustað á Gunnar Birgisson..........mér var svo starsýnt á hálsinn á honum að eyrun á mér lokuðust. Hvað er í gangi? Er annar Gunnar Birgisson "in the making" undir hökunni á honum?

Málefnaleg...nei ég veit. En það er búið að segja allt um málið í færslunni og kommentunum. 

Heiða B. Heiðars, 6.1.2009 kl. 11:53

41 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Ég byrja í jóga á miðvikudaginn það er mál málanna.

Ætli Bjarna langi í eina með öllu? Ég meina gangandi í miðbænum?

Rut Sumarliðadóttir, 6.1.2009 kl. 12:02

42 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Hvaðan komu þessar 370 millur? Keypti Bjarni þær í útlandinu á 50% afslætti og millifærði svo í gamla Glitni? Og hvernig er þessi tala, 370 millj. fundin út, fékk hann „aðstoð“ frá einhverri skilanefndinni?

Ásgeir Kristinn Lárusson, 6.1.2009 kl. 12:49

43 identicon

Já, en Bjarni bjargar mannslífum!!!

http://www.youtube.com/watch?v=w-pXjwMKC6s

Guðm. Al (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 13:19

44 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Ég treysti því að einhver dugandi blaðamaður fylgi eftir þessari frétt.

Hvernig var þetta fjármagn skráð inn í Glitni? Var þetta gjöf, styrkur, endurgreiðsla á láni, kaup á hlut, aflátsbréf?

Var það nýi eða gamli Glitnir sem fékk þessa peninga?

Af athugasemdum að ráða þá eru greinilega fleiri en ég sem efast um að þessi greiðsla hafi verið tilefnislaus samviskufriðun.

Sigurður Ingi Jónsson, 6.1.2009 kl. 13:23

45 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl öll sömul,

þessi upphæð sem Bjarni skilaði til baka er smáaurar, meira svona táknræn athöfn. Ég held að hann sé svolítið sorry yfir þessu öllu saman. Aftur á móti ætlar hann örugglega ekki að gefa meira eftir af sínum auði. Sjálfsagt mun hann halda áfram að fjárfesta. Verst fannst mér þegar hann lagði að jöfnu greiðsluna sína og byrðar almennings. Eini raunverulegi plúsinn var að hann gekst við öllum afglöpum sínum umyrðalaust.

Gunnar Skúli Ármannsson, 6.1.2009 kl. 13:41

46 identicon

Man enginn nema ég eftir sama Bjarna í sama þætti, Kastljósi, fyrir nokkrum árum þar sem hann - brosandi út að eyrum - sagði að "við íslendingar" værum orðnir sérfræðingar í að "búa til peninga úr peningum" og að þetta yrði einn helsti útflutningsatvinnuvegur okkar. Fyrir mér gefur hann allan tímann verið höfuðpaurinn/hugmyndasmiðurinn að þessu fjármálasukki öllu saman.

Magnús Óla (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 13:56

47 Smámynd: Haukurinn

Jabba the Birgisson hefur greinilega litla innsýn inn í þann bráða vanda sem steðjar að mörgum námsmönnum erlendis. Það þó svo hann hafi í áraraðir verið rótfastur í sessi hjá Lánasjóði Íslenskra Námsmanna.

Mér þykir hart nær óhugnanlegt að heyra þessar útskýringar og sneiðar sem hann virðist ávallt þurfa að senda "kvartsárum" námsmönnum erlendis. Komin er sú staða, að margir hverjir þurfa jafnvel frá námi að hverfa því þeir hafa engin tök á því að framfæra sér erlendis.

Persónulega hef ég engin kynni haft af námsmönnum sem drógu með sér skuldahala í nám erlendis - og leyfi mér að efast um að þeir séu stór hluti námsmanna almennt.

Nú vantar hreinlega Leiu prinsessu með keðjuna góðu.

Haukurinn, 6.1.2009 kl. 14:35

48 identicon

Hér er möguleg skýring:

http://neytendatalsmadur.blog.is/blog/neytendatalsmadur/entry/763418/

Rómverji (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 15:09

49 Smámynd: Árni Gunnarsson

Við skulum hafa það í huga gott fólk að hér er ekki verið að tala um eitthvert fjandans óhapp, ekki ansans vandræði eða eitthvað í þá áttina. Við erum með í umfjöllun einn af stærstu ábyrgðarmönnum þjóðargjaldþrots í næstum því eða alveg öllum skilningi. Við erum að tala um mann sem sankaði að sér í græðgi ógrynni auðs sem þegar upp var staðið enginn innistæða var fyrir. Þessi auður mannsins skildi eftir skuldir sem nema fésöfnun hans og að auki fáránlegum stærðum fjármuna sem fyrirhyggjulaus fjármálastefna hans og samstarfsmanna hans í spilaklúbbnum dró með sér í formi þjóðarskulda. Þetta athæfi kallar fyrrum æðsti starfsmaður íslensku akademíunnar "landráð." Drengjalegt útlit og trúverðug framkoma þessa manns í fjölmiðlum aflaði honum trausts sem engin innistæða reyndist fyrir. Á síðustu stundu tókst svo að stöðva þennan postullega fulltrúa auðmýktarinnar við að stefna ásamt svarabræðrum sínum einu mikilvægasta fyrirtæki borgarinnar Orkuveitunni, á vonarvöl með ævintýramennsku og þiggja fyrirfram dágóðan bónus!

370 milljónir og síðan syndaaflausn! Nei takk.

Árni Gunnarsson, 6.1.2009 kl. 17:59

50 Smámynd: Þórbergur Torfason

Tek undir með Árna.

Ætli upphæðin sem þessir spekingar hafa komið undan sé ekki í nálægð við það sem nemur auknum erlendum skuldum Íslendinga síðan í ársbyrjun 2003.

Lára Hanna þetta eru frábærar samantektir hjá þér. Takk fyrir.

Þórbergur Torfason, 6.1.2009 kl. 20:49

51 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Brjánn Guðjónsson, 7.1.2009 kl. 00:27

52 identicon

Takk Lára fyrir frábæra samantekt.

Einhver komst svo að orði hér fyrir ofan: Bubbi Morthens sagði að þetta væri fínt hjá Bjarna í þætti sínum í kvöld. Ég er Bubbamaður. Því er Bjarni bara fínn gaur f. að gera þetta.

Ég held að Bubbi sé búinn að sanna það og sýna að hann er ekki glöggur á peninga né fólk. Hann ætti að halda sig við sönginn....l

linda (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 18:31

53 Smámynd: Halla Rut

Gunnar Birgisson hefði kannski átt að horfa á Ísland í dag og sjá hvort ekki komi þáttur um fitusog. :)

En öllu gamni sleppt þá ...frábært blogg hjá þér að vanda.

Halla Rut , 8.1.2009 kl. 01:45

54 identicon

Bjarni fær eitt prik hjá mér fyrir að byrja á þessum endurgreiðslum. Velti því fyrir mér hvort þeir sem fengu nokkur hundruð milljónir fyrir hús á Laugarvegi sjái sér fært að skila einhverju af þeim peningum vegna "mistaka" þáverandi Borgarstjóra svo hægt verið að gera miðbæinn okkar örlítið skárri. Flottur pistill Lára, alltaf gaman að lesa bloggið þitt :).

Steinunn Rósa Einarsdóttir (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband