Þetta gerist aftur og aftur og aftur

Í bernsku minni var almenningsálit heimsins hliðhollt Ísraelsmönnum og Helföringyðingum almennt. Mjög hliðhollt, þeir voru fórnarlömb. Ég man eftir bók sem pabbi átti og ég blaðaði oft í, man ekki hvað hún hét. En í henni var lýst í máli og myndum hvernig gyðingum var smalað í útrýmingarbúðirnar og ofnana. Ég, barnið, grét yfir tötralega klæddu, grindhoruðu fólkinu, jafnöldrum mínum jafnvel, sem var leitt til slátrunar fyrir það eitt að vera til og tilheyra einhverjum hópi fólks sem ég kunni engin sérstök skil á önnur en að þetta var bara fólk eins og ég, systir mín og mamma og pabbi. Ég las ótal bækur um helförina og háskældi yfir örlögum gyðinga víða í Evrópu. Gladdist yfir því að þeir hefðu fundið sér heimili og föðurland fyrir botni Miðjarðarhafs og sest þar að. Hvergi var minnst á að þar hafi fólk búið fyrir og verið ýtt til hliðar þegar þeir hópuðust þangað. Ónei, það vissi ég ekki fyrr en seinna. Þegar ég var á unglingsaldri þótti voða fínt að fara til Ísraels og vinna á ísraelsku samyrkjubúi og það gerðu nokkur íslensk ungmenni.

Síðan er mjög mikið vatn til sjávar runnið og samúð mín með Ísraelsmönnum löngu, löngu fokin út í veður og vind. Eða réttara sagt - hún var drepin með vélbyssum, skriðdrekum, yfirgangi og ofbeldi. Til að byrja með reyndi ég að finna réttlætingu, en því meira sem ég vissi og því betri sem fréttaflutningurinn varð því ógerlegra var það og ég gafst að lokum alveg upp á slíkum þönkum. Ég hef enga sérstaka samúð með neinum af því hann eða hún aðhyllist einhver viss trúarbrögð, en ég hef samúð með manneskjum. Fólki. Kæri mig ekki um að flokka það eftir trúarskoðunum, húðlit eða öðru því, sem leiðir aldrei til annars en fordóma, haturs og styrjalda. Ég hef aftur á móti megnustu skömm á öllum öfgum, heilaþvotti og ítroðslu - sem leynist ótrúlega víða. Og ég þoli ekki neins konar yfirgang og ofbeldi.

Oft hef ég spurt sjálfa mig hvernig ég - eða við - myndum bregðast við ef Biblíahér yrði gerð innrás eins og gyðingar gerðu í Palestínu. Ef fólk veifandi 2000 ára gamalli bók kæmi askvaðandi og segði: "Við eigum þetta land. Það stendur hérna." Kannski meira að segja bók sem við hefðum ekki hugmynd um að væri til. Ef til vill Norðmenn? Landnámsmenn voru jú Norðmenn. Eða Írar? Hér ku hafa verið írskir munkar fyrir landnám og stór hluti landnámsfólks var írskir þrælar, leysingjar eða frjálsir menn. Er kannski til bók á gelísku þar sem stendur að eitthvert æðra vald hafi kveðið svo á um að Írar ættu eyjuna í norðri? Hvað vitum við? En það er ekkert sérlega erfitt að svara spurningunni um hvað ég myndi gera - hvað við myndum gera. Við yrðum öll skæruliðar - fyrir utan þann hóp sem, eins og alltaf gerist, vinnur með "innrásarliðinu". Kvislingana. Við myndum berjast fyrir landinu okkar, tilverurétti okkar og barnanna okkar fram í rauðan dauðann. Beita hvaða meðulum sem tiltæk væru. Ég efast ekki um það eitt augnablik.

Það vantar bara rétt rúma tvo mánuði upp á að það séu 7 ár - sjö ár! - síðan hann flutti pistilinn í Íslandi í bítið á Stöð 2. Það var nánar til tekið  þriðjudagsmorguninn 12. mars 2002. Svo var pistillinn birtur á netinu, líklega á vef JPV útgáfunnar. Ég lagði við hlustir eins og venjulega þegar hann flutti pistla og - eins og oftast - hitti hann mig í hjartastað. "Já, einmitt," hugsaði ég með mér - enda átti ég pistilinn ennþá. Hann var að lýsa minni upplifun alveg jafnt og sinni. Ekki man ég hvað var að gerast í Palestínu á þessum tíma, en eitthvað var það. Og pistilinn skrifaði Illugi Jökulsson:

Tökum ekki á móti sendiboðanum

Ég man alltaf þegar Yom Kippur stríðið hófst í október 1973 - þá gerðu Egiftar og Sýrlendingar óvænta árás á Ísrael og virtust ná miklum árangri í fyrstu - fréttirnar bárust að morgni, þegar ég var á leið í skólann, og þegar skólanum lauk, þá flýtti ég mér heim áhyggjufullur og spurði móður mína andstuttur: "Jæja, hvernig gengur Ísraelsmönnum?" Og var svo með böggum hildar, eins og það heitir nútildags, fyrstu dagana meðan Ísraelar fóru sem mest halloka.

Þetta nefni ég aðeins til marks um að hér talar bóna fíde stuðningsmaður Ísraels frá blautu barnsbeini og langt fram á þennan dag. En þegar ég las í Fréttablaðinu í gær að von væri á sendiherra frá Ísrael til að afhenda hér trúnaðarbréf sitt á morgun, á miðvikudag, þá urðu viðbrögðin þau að fá hroll - Drottinn minn dýri, ég ætla bara rétt að vona að íslenskir ráðamenn ætli ekki á þessum síðustu og verstu tímum fyrir botni Miðjarðarhafs að fara að taka með pompi og prakt á móti trúnaðarmanni ríkisstjórnar Ísraels og bjóða honum til Bessastaða að skála í kampavíni; það væri svona rétt eins og að taka kurteislega á móti Joachim von Ribbentropp rétt í þann mund að maður hefur frétt af Treblinka og Auswitz, eða sendiherra Rauðu khmeranna meðan þeir gengu sem harðast fram, eða Radovan Karadzic eða Radko Mladic - guð forði okkur frá slíkum gestum.

Þessi pistill er því fyrst og fremst áskorun til íslenskr
Illugi Jökulsson - Ljósm. Mbl. Ómara ráðamanna, og einkum Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, að sleppa því að taka með allri seremóníu á móti þessum nýja sendiherra - aðeins þannig er nógsamlega hægt að lýsa andstöðu sinni við framferði Ísraela þessar vikurnar og þessa dagana, þessar mínúturnar liggur mér við að segja. Og ekki bara andstöðu, heldur fyrirlitningu og viðbjóði.

Það er nú svo einkennilega komið að þetta Ísraelsríki, sem ég eyddi mörgum áratugum ævi minnar í að styðja í huganum, beitir í einu og öllu aðferðum sem hvaða fasistar sögunnar sem er væru fullsæmdir af - og þótt engin von sé til þess að róta á nokkurn hátt við trénuðu ofbeldisæði forsætisráðherrans, þá gæti það kannski orðið til að vekja fáeina menn í Ísrael til umhugsunar að trú og trygg vinaþjóð Ísraela einsog Íslendingar séu búnir að fá sig svo fullsadda að þeir loki dyrum sínum, hryggir og reiðir, á sendimenn þeirra.

Að minnsta kosti er það fjandanum óviðkunnanlegri tilhugsun að ímynda sér íslenskan utanríkisráðherra og forseta lýðveldisins tipla á tánum kringum reigingslegan trúnaðarmann frá Aríel Sharon, manni sem af einhverjum dularfullum ástæðum virðist hafa lært alla sína pólitík af fordæmi þeirra Heinrich Himmlers og Reynhards Heydrich.

Nú kynnu einhverjir að segja að það sé ekki beint vænlegt til að hafa áhrif á aðrar þjóðir að neita bara að taka á móti sendiboðum þeirra; það sé í fyrsta lagi diplómatískur dónaskapur sem ekki muni skila öðru en móðguðum diplómat og erfiðari samskiptum þaðan í frá, og í öðru lagi sé miklu áhrifameira að taka á móti manninum og lýsa óánægju með stefnu stjórnar hans á ákveðinn en vissulega kurteislegan hátt - ætíð sé sennilegra að samræður hafi áhrif en að skella hurðum.

En hvað sem líður einstökum svokölluðum tilslökunum eru Sharon og hans menn löngu búnir að sýna og sanna að þeir hafa engan áhuga á samræðum - orð, röksemdir, bænir - þetta hefur engin áhrif á þá menn. Þá er betra að skella hurðum og vona að hurðaskellurinn heyrist alla leið suður til Jerúsalem, og vita að minnsta kosti að maður hefur ekki lagt beina eða óbeina blessun sína yfir framferði Ísraels með því að taka á móti sendimanni landsins, eins og það væri bara hvert annað land en ekki helsta hryðjuverkaríki heimsins um þessar mundir.

Nú blandast auðvitað engum hugur um að herskáir leiðtogar Palestínumanna eiga verulega sök á þeirri ofbeldisþróun sem leiddi til þessa ástands sem nú ríkir. Það blandast heldur engum hugur um að hafi Yasser Arafat einhvern tíma verið brúklegur leiðtogi, þá er sá tími löngu liðinn. Mín vegna má og skal draga þá alla til þeirrar ábyrgðar sem þeir eiga skilið. En aðgerðir Ísraels eru löngu hættar að bitna á þeim sem það kunna að eiga skilið - það er verið að ráðast á börn, barnshafandi konur, fólk sem allir vita að hefur ekkert til saka unnið annað en vera Palestínumenn. Og það er ráðist markvisst á sjúkrabíla - við eigum ekki, hæstvirtur utanríkisráðherra, að líta einu sinni við fulltrúum frá slíkum ríkjum.

Baráttuaðferðir hinna herskáustu Palestínumanna hafa löngum verið fyrirlitlegar og hörmulegar. En að ríkisstjórn í svokölluðu lýðræðisríki - og það einu allra öflugasta herveldi heimsins - skuli svara í sömu mynt, með sömu og jafnvel viðbjóðslegri aðferðum, það er þyngra en tárum og ekkert hjal yfir kampavínsglösum getur eytt þeirri ábyrgð sem við berum ef við lýsum ekki með hvurju einasta ráði sem við eigum algerri andstöðu okkar við þetta fasistaríki.

Það hefur stjórn Aríel Sharons að minnsta kosti afrekað að þessa dagana er alltént auðveldara að skilja palestínsk ungmenni sem í æði og örvæntingu yfir niðurlægingunni og kúguninni sem þjóð þeirra hefur mátt þola í hálfa öld, og núna blóðbaðinu - að þau reyri sig sprengjum og fórni lífinu í fánýtri og blóðugri hefnd - heldur en forsætisráðherrann sem sendir dáta sína útá götur í skriðdrekum og segir þeim að skjóta á sjúkrabíla.

Í öllum hamingju bænum - Halldór Ásgrímsson, Ólafur Ragnar Grímsson - neitið að taka á þessum sendiboða þeirra hryðjuverkamanna sem nú ráða Ísrael, eða farið út úr bænum ef þið þráist við að telja kurteisisvenjur ekki leyfa ykkur annað, þykist vera veikir, eða leggist á gólfið á Bessastöðum þegar hann bankar og svarið ekki í símann - heiðrum ekki fasistana með því að bjóða þeim í okkar hús; þá menn sem brjóta niður hús og heimili saklauss fólks í Palestínu; þessir menn eru ekki í vorum húsum hæfir.

____________________________________________

Nú stendur yfir slátrun á almennum borgurum á Gaza. Fólki eins og mér og Börnum slátrað í Palestínuþér, systur minni, mömmu og pabba, börnunum okkar og barnabörnunum. Þeim er slátrað í hundraðatali - í skólum, á heimilum sínum - hvar sem er. Fólki sem er innilokað eins og dýr í búri á litlum bletti og kemst hvorki lönd né strönd. Ef þetta væru dýr hefðu öll dýraverndarsamtök veraldar risið upp á afturlappirnar og gert allt vitlaust. Það má ekki drepa hvali eða ísbirni! En þetta er fólk - manneskjur - börn, konur, gamalmenni... Alþjóðasamfélagið lætur sér fátt um finnast, enginn slítur stjórnmálasambandi við Ísrael og stjórnir heimsins láta nánast eins og ekkert sé. Harma en fordæma ekki, tala en gera ekkert. Enda er þetta "bara" fólk, ekki dýr. Hvað þá dýr í útrýmingarhættu, raunverulegri eða ímyndaðri. Mér er alveg sama um alla alþjóðapólitík - hvers konar manneskjur erum við eiginlega? Af hverju líðum við þetta?

Eftir síðari heimsstyrjöldina var sinnuleysi alþjóðasamfélagsins gagnrýnt harkalega fyrir að bregðast ekki við helförinni. Samfélög gyðinga um allan heim halda þeirri gagnrýni á lofti enn þann dag í dag. En önnur helför hefur verið í gangi áratugum saman við botn Miðjarðarhafs og það finnst þeim í lagi því þar eru þeir sjálfir gerendurnir. Alþjóðasamfélaginu er líka sama - og á meðan er börnunum slátrað.

Ég grét yfir Kastljósi gærkvöldsins og ég er sannfærð um að það gerðu fleiri. Hlustið líka á mjög fróðlegt viðtal við Jón Orm Halldórsson í Víðsjá hér. Viðtalið er líka í tónspilaranum merkt: Víðsjá - Jón Ormur Halldórsson um árásir... Jón Ormur segir m.a. að verið sé að drepa börn af því það eru kosningar í Ísrael í mars. Stjórnin þarf að skora í skoðanakönnunum. Alveg eins og Brown þegar hann beitti hryðjuverkalögunum á Íslendinga.

 

Slysaskot í Palestínu

Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteyg dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi
dáti, suður í Palestínu,
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmu sveinn.

Mín synd er stór. Ó, systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjarta mitt, ó, systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

Kristján frá Djúpalæk (1916 - 1994) - Í víngarðinum 1966


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það væri örugglega mun minna um stríðshörmungar í heiminum ef ekki væri stór hluti ráðamanna (og líka almennings) í flestum löndum sjáandi gegnum fingur sér af hagsmunaástæðum. Allir segjast vera friðarsinnar og á móti stríði og hvers kyns ranglæti en......svo eru málin bæði flækt og einfölduð eftir þörfum. Niðurstaðan: Hættulegasta fólkið í heimi er TÆKIFÆRISSINNAR og því miður er allt of mikið til af þeim, líka á Íslandi.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 03:22

2 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Mig langar að benda á viðtal við Jón Orm Halldórsson í Víðsjá frá því í gær. Sérstaklega langar mig að benda þeim sem enn verja gjörðir Ísraelsmanna á þetta fína viðtal.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 7.1.2009 kl. 07:02

3 identicon

Ísraelar nota nýtt vopn skv. umræðunni við norska lækninn sem byggir á nýrri verkun og er talið að þeir sem fyrir  þessari vítisvél verða sem sker fólk í hluta og lifa af þrói margir í framhaldinu krabbamein. Talið er að vopninu sé sérstaklega beint gegn óbreyttum borgurum.

Það fer lítið fyrir manngæskunni og hetjuskapnum á þessum bæ.Var að spá í að nota orðið villimenska, en það nær þessu ekki.

Hatrið og grimmdin er alger.

Nánar: http://www.globalresearch.ca/index.php?context=va&aid=11636

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 07:05

4 Smámynd: Þórbergur Torfason

Þetta ástand er löngu orðið óbærilegt. Dálítið sérkennilegt að alþjóðasamfélagið skuli ekkert gera. Hvað er að hræðast? Varla verra að stöðva þennan hrylling en í Írak.

Þórbergur Torfason, 7.1.2009 kl. 07:06

5 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Þessi hryðjuverk Ísraelsmanna eru þyngri en tárum taki og ekki síst vegna þess, hve alþjóða samfélagið stendur máttlaust hjá.  Þá er óskiljanlegt hvernig Egyptar meina tugum lækna, sem komnir eru hvaðanæva að til hjálpar, aðgang að Gaza gegnum sín landamæri.  AlJazeera með þá frétt HÉR.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 7.1.2009 kl. 09:19

6 identicon

Sá sem hefur öll ráð andstæðingsins í hendi sér kærir sig ekkert um samninga.

Aðeins almenningur í Israel (einhver Ekki-þjóð) getur neytt siðblind stjórnvöld að samningaborðinu.

Rómverji (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 09:22

7 Smámynd: Aldís Gunnarsdóttir

Maður er einvhern veginn alveg máttlaus...við, alþjóðarsamfélagið og almenningur fyrir botni miðjarahafs...þvílíkur hryllingur

Aldís Gunnarsdóttir, 7.1.2009 kl. 10:34

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nú er ég hins vegar alveg sammála. Verst er að þetta ástand mun örugglega halda áfram með samþykki USA því þar getur enginn orðið forseti nema með hjálp gyðinga. Það er erfitt að hafa sömu samúð með þeim sem byggja Ísrael í dag og þeim gyðingum sem lentu í heilförinni á sínum tíma.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.1.2009 kl. 11:06

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þetta er skelfilegt ástand fyrir botni Miðjarðarhafs - svo skelfilegt að það er þyngra en tárum taki.

Það sem hefur komið mér á óvart er ofsinn og óbilgirnin í umræðunni um þetta í athugasemdakerfum á blogginu - og kannski er það örlítill keimur af því sem um er að vera þarna niðurfrá.

Ég hef síðustu daga verið að blogga um málið (hérhér og hér) og hef fengið inn á síðuna hjá mér yfirgengileg viðbrögð frá ýmsum sem telja sér skylt að verja Ísraelsmenn með því að benda á Hamas, og saka síðan þá sem fordæma þennan stríðsrekstur um gyðingahatur. Hef ég þurft að taka út athugasemdir sem hafa gengið úr hófi fram. 

Ég vona Lára Hanna mín að þú fáir ekki þá holskeflu hingað inn til þín fyrir þessi skrif - enda eiga þau fullan rétt á sér.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.1.2009 kl. 11:12

10 Smámynd: Haukur Nikulásson

Stundum efast maður um dómgreind almennings og þess hvort lýðræðið sé alltaf besti kostur. Almenningur í Gaza kaus Hamas yfir sig sem meirihluta. Ísraelsmenn kjósa líka yfir sig stjórnvöld. Hverjum er þá hægt að kenna réttilega um þennan óþverra sem veldur slátrun almennra borgara þar á meðal gamalmenna, kvenna og barna?

Hvað svo sem veldur þá er það orðin skylda SÞ að stilla til friðar þarna og fordæma þá sem standa að hernaði hvort sem um er að ræða Hamas samtökin eða Ísraelsmenn. 

Haukur Nikulásson, 7.1.2009 kl. 11:15

11 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Góður pistill. Það væri óskandi að utanríkisráðherra læsi hann og fyndi hjá sér hvöt til að gera eitthvað meira en að koma skilaboðum til Ísraels að um að okkur finnist framferði þeirra á Gaza fordæmanlegt. Þeir hlusta ekki á slík skilaboð. Við eigum að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael, það er ekki til neins að tala við hryðjuverkamenn eins og þá sem stýra þar suður frá.

Ólafur Ingólfsson, 7.1.2009 kl. 11:30

12 identicon

Talandi um Hamaz og kosningarnar Gaza þá langar mig að koma einni einfaldri ath.semd á framfæri.

Þegar kosningarnar fóru fram undir eftirliti EU og UN þá var Hamaz í framboði ásamt Fatah og e-h. minni og flokkum (Mustakhbar Filistin - Framtíð Palestinu) og (Filistin Howr- Frjáls Palestina), þá spyr ég ?  Hversvegna í ósköpunum fengu þeir að bjóða sig fram ??

 Þetta hef ég aldrei skilið, Hamazflokkurinn er stjórnmála-armur Hamaz-samtakanna sem hafa verið til í c.a þrjátíu ár, þeirra meiningar hafa aldrei verið misskildar, þeir vilja skipta Palestinu eins og UN skipti landinu árið 1947 hvorki meira eða minna (bendi á að þeir eru ekki að byðja um að allir ísraelar yfirgefi landið) svo ég spyr aftur ?? HVERS VEGNA VAR FRAMBOÐ ÞEIRRA SAMÞYKKT. ??

Óskiljanlegt.

Var að heyra í þessum skrifuðu orðum á Al-Jazeera að Venezuela sparkaði sendiherra Ísraels úr landi og ásakaði þá um  " Palestinian Holocaust"

Ps.

það er ekki auðvelt að skrifa arabísk orð með okkar bókstöfum svo ég vona að ég móðgi engan
sem gæti lesið e-h annað út úr tilrauninni.

Karlotta (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 11:58

13 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ljóð Kristjáns frá Djúpalæk skýrir þetta betur en hundrað þúsund orð. Þessi algera siðblinda sem fylgir stjórnlausri réttlætiskennd er mannsins mesta böl. Við höfum öll persónulega reynslu af því frá báðum hliðum.

Stríð er án vafa þess al versta birtingarmynd.

Ég hef alla tíð verið á móti afskiptum Bandaríkjamanna af Írak og stríðsrekstrinum þar, en nú finnst mér orðið að inngrip Sameinuðu Þjóðanna sé eina færa leiðin í Ísrael og Palestínu, og það til afar langs tíma.

Baldvin Jónsson, 7.1.2009 kl. 12:23

14 Smámynd: Þórbergur Torfason

Lára Hanna er með ágætis útskýringu á upphafi þessa ástands á blogginu í gær eða fyrradag þar sem hún rekur söguna. Margt bendir til að Hamasliðar séu fæddir og uppaldir í herkví og þekki ekkert annað. Svo megn getur biturðin orðið að öllu sé fórnað. Það er auðvitað alþekkt í þessum trúarbrögðum að fórna eigin lífi eða annarra, alveg sama hver er, börn eða foreldrar, sé ákveðin lausn. Þetta er reyndar alveg óskiljanlegt fyrir okkur sem metum mannslíf meira en allt annað. (Veit ekki alveg hvort þetta á við um bankaræningja). Þess vegna getur maður ekki með nokkru móti skilið hvers vegna ekki er löngu búið að grípa í taumana af Sameinuðu Þjóðunum. Hverra hagsmunir eru svo miklir að ekki megi ganga þarna á milli og stöðva þennan hrylling. Eru svona miklir fjárhagslegir hagsmunir forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum að öll heimsbyggðin horfir bara helfrosin á þetta í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna.

Það er eins gott að Hitlersæskan er ekki í blóma þessi árin. Ég verð nú bara að segja það.

Þórbergur Torfason, 7.1.2009 kl. 14:44

15 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

frábær pistill! þetta er sorglegt

Brjánn Guðjónsson, 7.1.2009 kl. 15:00

16 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þið hafið kannski heyrt í forsætisráðherra vorum í gær? Hann tjáði okkur að það væri ekki til " siðs" að ríkisstjónir ályktuðu um svona aðgerðir. Þetta er að sjálfsögðu haugalygi. Sýnir einungis fram á hvað bráða nauðsyn ber til að kjósa sem fyrst svo við getur losað okkur við hann og fylgifiska hans.

Sigurður Sveinsson, 7.1.2009 kl. 15:01

17 Smámynd: Guðmundur Geir Sigurðsson

Hvað myndirðu gera Hanna ef innrásarliðið væri vopnað peningum í stað byssukjafta og keyptu upp allt Reykjanesið, (geri ráð fyrir að hægt sé að finna alla eigendur, ) og borguðu "Cash", þá gæti innrásarliðið sagt: komið ykkur í burtu, við eigum þetta, var þetta ekki einhvernvegin sona í den þegar Gyðingar fluttust til Ísraels?

Þegar maður lítur á landakort og sér hverslags óskpanður þessi Gasaströnd er landfræðilega,  fyllist ég vonleysi og hugsa að út úr þessu komi aldrei neitt vitrænt. Ég sé þetta fyrir mér einhvern veginn þannig að Ísralesstjórn hættir þessum hernaði eftir nokkra vegna hneikslunar heimsins, þeir er ekki alveg ónæmir fyir almenningsáliti, held hins vegar að Hamas séu það. Síðan heldur Hamas áfram að senda eina og eina flaug yfir til Ísrels eins og þeir eru vanir og hringekjan hefst að nýju.

Mín tillaga er sú að heimurinn borgi  Egyptum fullt af peningum ( best að olíugróðinn í þessum heimshluta geri það) og þeir sjái í satðinn um þessa voluðu gasaströnd, afvopni alla Hamas áhangendur og fáið þeim einhver skemmtilegri verkefni en að smíða eldflaugar öðrum til tortýmingar.  Egyptar skuldbinda sig til að koma á friði þarna og ábyrgjast öryggi  allara á Gasa og líka að íbúar Ísraels sem búa í skotfæri við fái öryggi sitt.

Þá er friður þarna, fyrr ekki held ég.

Guðmundur Geir Sigurðsson, 7.1.2009 kl. 16:07

18 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Flottur pistill hjá þér Lára Hanna og ljóðið hans Kristjáns er eins og samið utanum daginn í dag en ekki um atburði sem gerðust fyrir 30+ árum.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 7.1.2009 kl. 17:59

19 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Alltaf þegar ég les hjá þér vildi ég óska að ég hefði skrifað þetta sjálf. Ljóðið hans Kristjáns hefur verið í uppáhaldi hjá mér frá því ég las það fyrst, held ég hafi verið í menntaskóla þá. Frábær skrif og takk fyrir mig.

Helga Magnúsdóttir, 7.1.2009 kl. 19:38

20 Smámynd: Víðir Benediktsson

Ætli bókin sé ekki gott betur en 2000 ára gömul. 4000 er nær lagi. Kristján frá Djúpalæk var bara snillingur og þetta ljóð hans er meistarastykki. Kristján var kennari minn í barnaskóla. En þessi færsla er þér til sóma Lára, hef reyndar sjálfur eitthvað verið að tjá mig undanfarið með nokkrum færslum alveg frá fyrsta degi þessara aðgerða.

Víðir Benediktsson, 7.1.2009 kl. 20:37

21 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Ríkisstjórnin verður að fordæma þessi hryðjuverk núna annars fer okkur ekkert fram. Takk fyrir góðan pistil og snilldar ljóð.

Eva Benjamínsdóttir, 8.1.2009 kl. 01:27

22 identicon

"Oft hef ég spurt sjálfa mig hvernig ég - eða við - myndum bregðast við ef  hér yrði gerð innrás eins og gyðingar gerðu í Palestínu. "

Prófaðu líka að spyrja sjálfa þig hvað aðrar vesturlenzkar þjóðir myndu gera ef þær yrðu settar innan um araba sem vilja eyða þeim af yfirborði jarðar og það væri ráðist að þeim með eldflaugum og sjálfsmorðssprengjum.

Ari (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 01:38

23 identicon

Ari

Þetta er nákvæmlega þankagangurinn sem fólk er að gagnrýna Ari. Þú vilt hefna og hefna og hefna. Nema í stað auga fyrir auga eru það 100 palenstínsk líf fyrir 1 ísraelskt. Og mér þykir leiðinlegt að benda þér á það en það skína gífurlegir fordómar í gegn hjá þér. Hvernig þú setur þetta upp "hvað aðrar vesturlenzkar þjóðir myndu gera ef þær yrðu settar innan um araba sem vilja eyða þeim af yfirborði jarðar". Þetta snýst ekkert um araba/palestínumenn eða gyðinga/ísraela heldur snýst þetta um fólk. Ekki blanda trúarbrögðum inní þetta því þau koma þessu ekki neitt við. Vandamálið er nákvæmlega með fólk eins og þig sem sér ekki palestínumenn sem fólk heldur sem "araba", og að þar af leiðandi eigi þeir minni rétt til lífs af því þeir eru ekki "vezturlandabúar" eins og þú orðaðir það. Breyttu þankagangi þínum og horfðu á málið öðruvísi því eins þú horfir á það kemstu aldrei að niðurstöðu sem byggir á réttlæti, jafnrétti, sanngirni.

Sölvi Borgar (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 02:38

24 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Meira að segja NY Times er farið að birta greinar um ósómann, sjá hér. Og hafa þeir nú ekki, frekar en aðrir stórir fréttamiðlar í BNA verið sérlega hliðhollir Palestínu...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 8.1.2009 kl. 10:30

25 identicon

Karlotta! Hamaz fékk rúm 40% atkvæða í kosningunum í Palestínu en vegna klofnings í röðum Fatah, vegna spillingsar í röðum flokksins,  fékk Hamaz  meirihluta þingsæta. En væri lýðræðislegt að banna Hamaz að taka þátt í kosningum. Ert þú lýðræðissinni, Karlotta?

Gleymum heldur ekki einu: Fram til 1993 studdi stjórn Ísraels Hamaz til að klekkja á Fatah! Á stjórn Ísraels að ákveða hverjir mega bjóða fram til þings Palestínmu-Araba? Karlotta! Svaraðu!

Ólafur Ingólfsson! Við þessar ömurlegu aðstæður þegar her Ísraels er að murka lífið úr börnum og öðru saklausu fólki í Gaza, viirðist þú aðeins hafa áhuga að blanda deilum um flokka og ráðherra hér á Íslandi í málið. ÞETTA ER SIÐLAUST. Viltu segja frá ummælum Ingibjargar Sólrúnar um árásirnar á Gaza og hvað þér finnst vanta í þau???

Rétt er í þessu samhengi að  endurskrifa hér nokkur efrnisatriði sem ég hef þegar ritað á Silfri Egils.Það eru ekki ráðauneytisfundir eða samþykkir ríkistjórnar sem ákveða stefnu þjóðríkis í einstökum málum heldur er ákvörðun um þessi mál á ábyrgð þess ráðherra sem með málin fara. Ákvörðun hans er síðan stefna ríkisstjórnarinnar í málinu. Þannig eru yfirlýsingar Ingbjargar Sólrúnar um málefni Gaza opinber stefna ríkistjórnarinnar. Á sama hátt er efnahagsmalaráðherrann Geir einn ábyrgur fyrir Seðlabankanum og þarf ekki að hafa nokkuð samráð við viðskiptaráðaherrann um þau mál. sem fer þó ásamt fjármálaráðherra með málefni viðskiptabankanna ásamt Seðalbankanum! Samstarf væri æskilegt en eins og reynslan sýnir hefur það verið takmarkað lengi vel.

Þetta er það stjórnskiipulag sem við tókum í arf frá Danmörku. Hver ráðherra er einn ábyrgur fyrir málaflokki sínum andstætt því sem gerist t.d. í Svíþjoð, Noregi og Frakklandi þar sem ráðuneytisfundir ákveða öll meiri háttar stefnumál. Í Frakklandi raunar er forsetinn hér nánast einvaldur. Því fordæma ríkisstjórnir þessra landa framferði Ísraelsmanna á Gaza en í öðrum Evrópulöndum, sem athæfið hafa fordæmt, sjá utanríkisráðherrar um slíkar fordæmingar.

Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 18:45

26 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Besti pilstill sem ég hef lesið. Skýr og sannur og einlægur. Þú varst ekki ein um að fella tár að horfa á foreldrana hlaupa í örvæntingu með deyjandi börn sín.

Ég fyllist viðbjóði yfir því að til skulu vera Íslendingar sem eru svo miklir þrælar við hefð vestrænna fordóma að þeir nái ekki að rífa sig upp úr farinu. Svo ekki sé talað um hvað mér finnst um Ísrael, sem fyrir löngu hefur fyrirgert tilverurétti sínum í hópi siðmenntaðra þjóða. Þessari þjóð er stýrt af trúarofstæki sem leiðir til villimennsku.

Ég er reyndar ósammála Illuga í því hver á sök á ofbeldinu sem beitt er. Palestínumenn fá ekki aðstoð hjá alþjóðasamfélaginu. Það ernga samvisku að finna hjá Bretum, Bandaríkjamönnum, Frökkum og öðrum gagnvart Palestínumönnum. Þeir verða að verja hendur sínar eða horfa á eftir síðasta Palestínumanninum í gröfina. Til þess ætlast Ísraelsmenn og þeir sem gera sig meðseka með stuðningi við þá - Að þeir hagi sér eins og sauðir sem leiddir eru til slátrunar.

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún og þeir sem sitja nú í ríkisstjórn eru SORP af versta tagi. Að dirfast að segja að "íslendingar fordæma ekki aðgerðir sem þessar" er einmitt dæmi um aumingjaskapinn sem leiddi til hrunsins á Íslandi, ríkið tók sér ekki stöðu gegn því sem augljóslega var rangt. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að þeim mun aldrei verða treyst framar.

Við þessu bjóst ég af sjálfstæðismönnum - Þeir bera hamingju og líf annarra ekki fyrir brjósti per definition - En viðbrögð Ingibjargar eru með SLÍKUM ÓLÍKINDUM að um ekkert annað er hægt að kalla þetta en svik við þær hugsjónir sem Samfylkingin sagðist standa fyri. Ævarandi skömm!

Rúnar Þór Þórarinsson, 8.1.2009 kl. 20:50

27 identicon

Svar til Gísla Gunnarsonar,

mér þykir leitt ef skilja hefur mátt af spurningu minni að ég sé að einhverju leiti á móti palestinu mönnum, það var alls ekki meiningin, mér hefur alla tíð þótt það ákaflega tvöfalt siðgæði að sameinuðu þjóðirnar og evrópusambandið skuli hafa verið með kosningaeftirlit í palestínu og það séu í raun einu skiptin sem þau samtök hafa skipt sér beint af ástandinu sem ísraelsmenn hafa skapað þessari þjóð, sérstaklega þegar maður hefur í huga að ísraelsmenn hafa nú fengið "eilífðar-afsökun" til að níðast á Gazasvæðinu vegna þess að Hamaz er við stjórn þar, það vita allir sem eitthvað vita um ástandið á þessum slóðum að ísraelsmenn dreymir um algjör yfirráð yfir Sinai-skaganum og skurðinum.

Þessvegna spyr ég aftur og nú kannski nærðu meiningunni, hversvegna fékk Hamaz að taka þátt og hvers vegna voru kosningaúrslitin þá viðurkennd, soltið stærri spurning en það lítur út fyrir að vera í fyrstu, og kemur lýðræði frekar lítið við.  Og með fullu samþykki UN sem er athugandi út af fyrir sig.

Hafa ber í huga að BNA hefur beitt neitunarvaldi gegn ÖLLUM  tillögum öryggisráðsins til þessa, og síðast núna eftir innrásina sem stendur yfir.

Og svo er fólk hissa að alþjóðasamfélagið geri ekki neitt !  Ekki ég að minnsta kosti.

Það verður að taka neitunarvaldið úr umferð eða breyta atkvæðagreiðslunni þannig að meirihluti öryggisráðsins sé á með eða á móti, annars verður ALDREI gert neitt viðkomandi níðingshætti ísraelskra stjórvalda gegn palestínsku þjóðinni.

Karlotta (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 21:57

28 identicon

Kæra Karlotta. Mér þykir mjög leiðinlegt að hafa misskilið athugasemd þína. Ég sé að meiningar þínar eru góðar og mannúðlegar. En ESB og fleiri aðilar höfðu eftirlit með að kosningarnar færu rétt fram, vottuðu að svo hefði verið en neituðu síðan að vinna með sigurvegaranum Hamaz!

Rúnar Þór Þórarinsson skilur annað hvort ekki rök eða hefur ekki lesið athugasemd mína, auk þess er hann er hann ritsóði.

Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband