Ræða Roberts Wade á borgarafundinum í Háskólabíói

Robert H. Wade er frá Nýja-Sjálandi og hefur búið og starfað í Bretlandi og Bandaríkjunum síðustu fjóra áratugi.  Hann vann sem hagfræðingur hjá Heimsbankanum og kenndi í MIT-, Princeton-, og Brown- háskólunum í Robert WadeBandaríkjunum og Sussex-háskóla og London School of Economics í Bretlandi.  Hann hlaut Leontief verðlaunin í hagfræði árið 2008, sem sumir nefna „hin Nóbelsverðlaunin" fyrir hagfræðinga sem ekki teljast rétttrúaðir (aðrir sem hlotið hafa verðlaunin eru m.a. J.K. Galbraith og Amartya Sen).  Hann er meðlimur í Economists' Forum hjá dagblaðinu Financial Times, hópi 50 hagfræðinga sem Financial Times lýsir sem „50 áhrifamestu hagfræðingum heims".      

Fyrir tíu árum skrifaði hann nokkrar ritgerðir um efnahagskreppuna í Austur-Asíu.  Hann hefur heimsótt Ísland nokkrum sinnum á liðnum árum. Hann hefur frá því í ágúst 2007 fjallað í almennum fyrirlestrum og viðtölum á Íslandi um vaxandi hættu á meiriháttar efnahagskreppu og byggir það á þekkingu sinni á því sem gerðist í Austur-Asíu. 

Hann birti grein í byrjun júlí í Financial Times sem bar heitið „Iceland pays the price for financial excess" (Ísland líður fyrir óhóf í fjármálum).  Í þeirri grein gekk hann lengra en áður í viðvörunum sínum. Greinin sagði Íslendingum fátt nýtt, en þar sem hún var birt í afar virtu alþjóðlegu dagblaði vakti hún athygli á Íslandi. Forsætisráðherra var spurður um viðbrögð sín við greininni og hann gerði lítið úr henni, og taldi hana ekki meiri athygli verða en lesendabréf í DV.  Viðbrögð hans voru enn eitt dæmið um að stjórnmálaleiðtogar okkar hunsuðu viðvaranir þegar þeir hefðu getað gert ráðstafanir til að minnka þann skaða sem íslenskt þjóðfélag þarf nú að upplifa.

_____________________________________

HVERS VEGNA ER ÉG HÉR?

Ég skrifaði mikið um efnahagskreppuna í Austur-Asíu fyrir 10 árum og á síðastliðnum árum hef ég heimsótt Ísland nokkrum sinnum af persónulegum fremur en faglegum ástæðum.  Ég hóf að tengja saman vaxandi þekkingu Borgarafundur 12.1.09 - Ljósm. Mbl. Árni Sæbergmína á íslenska fjármálakerfinu og þekkingu mína á efnahagskreppunni í Austur-Asíu og sumarið 2007 vöknuðu áhyggjur mínar af íslenska fjármálakerfinu. Ég sá að Ísland átti heimsmet í viðskiptahalla (bilið á milli innflutnings og útflutnings var stærra en í nánast öllum öðrum löndum heims).

Ég sá að þrátt fyrir þetta styrktist gengi krónunnar fremur en veiktist eins og það hefði átt að gera. Ég sá að margir vinir mínir voru með miklar skuldir í erlendri mynt og voru því viðkvæmir fyrir því ef krónan félli.

Ísland virtist eiga kvíðvænlega margt sameiginlegt með Austur-Asíu á árunum 1996-1997, rétt áður en kreppan þar skall á. Ég talaði á almennum fundi með fólki úr banka-, viðskipta- og opinbera geiranum í ágúst 2007 og sagði Ísland vera dínamít sem væri komið að því að springa.  Fundargestir létu ekki sannfærast og nokkrir þeirra sögðu mig fara með hrakspár.    

EFNAHAGSVANDI Á HEIMSVÍSU

Margir sérfræðingar eru sammála um að hagkerfi heimsins sé ekki einungis í niðursveiflu heldur ríki kreppa. Paul Krugman, sem fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði árið 2008,  sagði fyrir viku síðan: „Þetta lítur út eins og upphafið að annarri heimskreppu". Hann sagði enn fremur:

„Nýlegar hagtölur eru skelfilegar, ekki einungis í Bandaríkjunum heldur út um allan heim. Sér í lagi tekur framleiðsla skarpa dýfu alls staðar. Bankar lána ekki. Fyrirtæki og neytendur eyða engu". 

Kreppa er ólík niðursveiflu að því leyti að hún stendur lengur og samdráttur í framleiðslu er meiri og almennt verðlag fellur. Núverandi vandi er ljóslega kerfiskreppa kapítalismans, ekki bara kreppa í kerfinu líkt og í kreppunni í Austur-Asíu, og þetta er fyrsta kerfiskreppan frá 4. áratug síðustu aldar. Hún nær til alls heimsins, og því eru engin svæði í heiminum eru í hröðum vexti, sem hefðu annars getað stuðlað að því að vekja upp hagvöxt á svæðum sem kreppan nær til, og innbyggði stöðugleikabúnaðurinn og regluverkið er hætt að virka og ríkisstjórnir geta ekki lengur stýrt hagkerfum sínum út úr kreppunni. Bandaríkjastjórn hefur t.d. reynt að beita öllum mögulegum og ómögulegum aðferðum sem hún getur hugsað sér til að leysa vandann, en vandinn í bandaríska hagkerfinu fer samt hríðversnandi.

Robert WadeMér þykir mjög líklegt að hagkerfi heimsins nái öðrum vendipunkti - líkt og gerðist í september 2008 þegar Lehman Bros hrundi - í kringum mars-maí 2009. Sá vendipunktur mun orsakast af því að í Evrópu, Ameríku og Asíu verður vaxandi meðvitund um að lífsgæði hundruð milljóna manna í ríkum löndum og fátækum fara hríðversnandi. Að efnahagsvandinn sé að versna, ekki batna. Og að opinber yfirvöld, hvort sem er á lands- eða heimsvísu, hafi ekki lengur stjórn á honum.  

Nú er að duga eða drepast. Ríkisstjórnir verða að nota tímann fram í mars-maí 2009 til að búa sig undir að takast á við aukið atvinnuleysi, hrun lífeyrissjóða og mikla reiði almennings í þeirra garð, sem getur tekið á sig mynd mikilla almennra mótmæla.  Ég efast um að það verði einhver efnahagsbati að ráði í hagkerfi heimsins - eða á Íslandi - fyrr en í fyrsta lagi síðla árs 2010.

Hins vegar eru góðu fréttirnar um efnahagsvandann þær að hann hefur grafið undan eða gert ógilda hugmyndafræði nýfrjálshyggju eða hins frjálsa markaðar sem hefur ráðið ríkjum í hagfræðilegri hugsun síðastliðin 30 ár, jafnt á Íslandi sem annars staðar. Ríkisstjórnir hafa þurft að „grípa inn í" hagkerfið í meiri mæli en áður, og ekki einungis í fjármálageiranum, vegna þess að markaðnum hefur mistekist hrapallega að setja sjálfum sér reglur eins og efnahagsvandinn sýnir. Kreppan getur reynst kjörið tækifæri til að koma til framkvæmda víðtækum félagslegum og lýðræðislegum umbótum.  

Aðrar góðar fréttir eru þær að þegar hagkerfi heimsins nær sér aftur á strik mun frá árinu 2015 ríkja í heiminum - og á Íslandi - tveggja eða þriggja árutuga tímabil með fremur stöðugum hagvexti þar sem framleiðsluauðmagn mun ríkja fremur en fjárhagslegt auðmagn.  Framleiðsluauðmagn mun styðja mun betur við velferðarríkið og fjárfestingu í grunnvirkjum en fjárhagslegt auðmagn hefur gert á síðustu þremur áratugum.  Vandinn er hvernig við náum að komast í gegnum næstu ár kreppu, óstöðugleika og stöðnunar áður en við höldum inn í tíma nýrrar hagsældar.

Og nú að Íslandi.

VAR HRUNIÐ Á ÍSLANDI ÓHJÁKVÆMILEGT, JAFNVEL ÁN EFNAHAGSERFIÐLEIKA Á HEIMSVÍSU? JÁ.

Það er enginn efi á því að efnahagserfiðleikar á heimsvísu sem gerðu vart við sig í Bandaríkjunum og Bretlandi sumarið 2008 og breiddust þaðan út um heiminn, hafa gert ástandið á Íslandi verra en það hefði annars orðið.

En Íslendingar geta ekki huggað sig við það að erfiðleikarnir á Íslandi hefðu bara verið óheppni, eða að þeir séu saklaus fórnarlömb efnahagserfiðleika á heimsvísu. Ísland hefði lent í meiriháttar fjármálakreppu án efnahagserfiðleikanna í heiminum.  Af tveimur meginástæðum. 

Í fyrsta lagi var sú hugmynd að gera Ísland að alþjóðlegri bankamiðstöð brjálæði frá upphafi. Þegar Íslendingar fögnuðu því að þeirra litla land ætti þrjá banka á meðal 300 stærstu banka heims, hunsuðu þeir þá áhættu sem felst í því að eiga svo stóra banka í svo litlu hagkerfi með jafn lítinn gjaldmiðil og óhindrað inn- og útflæði fjármagns. Bankarnir voru allt of stórir til að Seðlabankinn gæti veitt þeim stuðning sem þrautalánveitandi, þar sem skattagrunnur Íslands er allt of lítill. Bankarnir hefðu aldrei átt að fá að ná slíkri stærð á meðan þeir voru með aðsetur á Íslandi. Hagkerfin í Eystrasaltslöndunum tóku einnig á sig miklar skuldir, rétt eins og Ísland. En þau eru ekki eins illa farin og Ísland því þau reyndu ekki að breyta sér í alþjóðlegar fjármálamiðstöðvar og bankarnir sem þar voru starfræktir voru flestir í eigu erlendra aðila og þrautalánveitendur þeirra því erlendir.

Hin ástæðan fyrir því að íslenska hagkerfið hefði lenti í meiriháttar erfiðleikum án efnahagserfiðleika á heimsvísu er að hagkerfið var orðið Robert Wadebyggt á fölsku, eða ólífvænlegu, vaxtarmódeli. Ríkisstjórnin setti háa stýrivexti og leyfði frjálst flæði fjármagns inn og út úr landinu. Háir vextir löðuðu að erlent fjármagn, mest í fjáreignir. Mikið innflæði erlends fjármagns olli því að krónan styrktist.  Ofmetin króna gerði innflutning á alls kyns vörum og þjónustu hlutfallslega ódýrari. Hún gerði það líka að verkum að það var ódýrara fyrir Íslendinga að fá lánað í erlendri mynt. Háir vextir, innflæði fjármagns og ofmetin króna sköpuðu í sameiningu mikla þenslu og í nokkur ár var dásamlegt að búa á Íslandi. Íslendingar tóku lán eins og enginn væri morgundagurinn.  Frá 2003 til 2007 ruku erlendar skuldir sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu upp eins og flugeldar í nýársfagnaði og náðu á milli 700 - 800% af vergri landsframleiðslu. Það hlýtur að nálgast það að vera heimsmet í þjóðhagslegum halla.  En vaxtarmódelið í heild sinni var háð erlendum lánardrottnum sem voru tilbúnir að lána áfram, og um leið og erlent fjármagn hætti að berast fór allur skuldapíramídinn að hrynja.  Ferlið niður á við reyndist jafn eyðileggjandi og það hafði verið gott á leiðinni upp.

Það má hugsa þetta svona: Ef klæðskerinn minn lánar mér peninga til þess að kaupa af honum jakkaföt held ég áfram að kaupa af honum jakkaföt með peningunum hans.  Ég verð mjög glaður í einhvern tíma og vaxandi jakkafatasafn mitt vekur aðdáun vina minna. Vandamálið kemur upp þegar klæðskerinn krefst þess að ég endurgreiði honum lánið sem hann lét mig hafa. Þá verð ég ekki lengur glaður og þarf hugsanlega að selja jakkafötin mín á brunaútsölu...  Íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir löngu tímabili - nokkur ár í það minnsta - þar sem endurgreiða þarf klæðskeranum fyrir áralanga ofneyslu.

Í þeim skilningi er núverandi kreppa ekki „vandamálið". Vandinn felst í því hvernig hægt er að vinna sig út úr fölskum neyslukjörum síðasta áratugar í sjálfbær lífskjör á þeim næsta. Íslendingar hafa notið þess að fá nánast ókeypis hádegisverð, en þegar öllu er á botninn hvolft er enginn hádegisverður ókeypis.  

HEFÐI RÍKISSTJÓRNIN GETAÐ GERT RÁÐSTAFANIR TIL AÐ DRAGA ÚR ÁHRIFUM KREPPUNNAR? JÁ.

Veikleiki íslensku bankanna var vel þekktur þegar sumarið 2006 á peningamörkuðum eða skuldabréfamörkuðum, þegar aðstæður á alþjóðlegum fjármálamarkaði voru enn góðar. Ríkisstjórnin hefði getað veitt viðvörunarmerkjum athygli og reynt að verja hagkerfið gegn hruni bankanna en gerði það ekki.

Sumarið 2006 reyndist íslenskum bönkum erfitt að selja skuldabréf til að fá lánað fé því hugsanlegir kaupendur að skuldabréfum þeirra (eða lánveitendur þeirra) áttuðu sig á því að efnahagsreikningur bankanna var ekki í jafnvægi, að bankarnir væru að taka á sig allt of miklar skuldir. 

Þetta hefði átt að senda skýr skilaboð til eigenda bankanna, til bankaráða bankanna, til Seðlabankans og til Fjármálaeftirlitsins um að eitthvað alvarlegt væri að og að bankarnir þyrftu að skera niður í lántökum og yfirtökum.

Í stað þess fóru bankarnir á smásölumarkað með fé, með því að opna Icesave netreikninga og reikninga Singer and Friedlander. Þeir hófu að soga til sín sparifé með því að bjóða breskum, hollenskum og þýskum sparifjáreigendum ögn hærri innlánsvexti en þeir fengu frá sínum eigin bönkum.

Þetta gerði íslensku bönkunum kleift að forðast að grípa til aðgerða til að gera sjálfa sig og bankakerfið öruggara. Árangur þeirra í að laða til sín breska, hollenska og þýska sparifjáreigendur hvatti þá til að taka enn meiri áhættu og hunsa enn frekar öll hæfileg mörk.

Í stuttu máli sagt, þá er það rétt að hrun íslenska bankakerfisins í september-október 2008 var beint viðbragð við efnahagserfiðleikunum í heiminum.  En bankarnir hefðu vissulega hrunið þrátt fyrir það.  

Hrun var þeim mun líklegra því útþensla bankanna og fjárfestingafyrirtækja var líklega keyrð áfram á sviksamlegri starfsemi, þar á meðal sviksamlegu verðmati á eignum, og vegna þess að eftirlitsyfirvöld sýndu þvílíka vangetu að erfitt er að trúa því.

HVER BER ÁBYRGÐINA?

Hver ætti að bera ábyrgðina á því sem gerðist á Íslandi?

Í fyrsta lagi stuðluðu bankamennirnir og bankaráðin að því með virkum hætti að hagkerfið var keyrt fram af bjargbrún. Nú er ljóst að þeir notuðu bankana sem sína eigin sparibauka og brutu grundvallarreglur heilbrigðrar bankastarfsemi í þágu eigin viðskiptahagsmuna.

Tæknin sem þeir notuðu til að búa til „falskar" eignir með sviksamlegum færslum á milli banka og tengdra fjárfestingarfyrirtækja er nú vel þekkt. Sömuleiðis sú sviksamlega tækni sem þeir notuðu til að fá sparifjáreigendur til að færa inneignir sínar í peningamarkaðssjóði sem tengd fjárfestingarfyrirtæki stjórnuðu.

Robert WadeStóra spurningin er hins vegar hvers vegna þeir komust upp þessa hegðun. Starf þeirra er ekki, þegar öllu er á botninn hvolft, að þjóna hagsmunum almennings heldur að græða fé fyrir sig sjálfa og hluthafa sína. Það er í verkahring Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins að ganga úr skugga um að bankamennirnir og fjárfestingarfyrirtækin hegði sér ekki  á þann hátt sem setur stöðugleika fjármálakerfisins í hættu. Það eru þeir sem fá há laun frá almenningi til að viðhalda hæfilegum stöðlum og verja almannahagsmuni. Samt sem áður fór Fjármálaeftirlitið að haga sér fremur eins og þátttakandi í hagnaðarleit bankanna fremur en sem eftirlitsaðili, og hjálpaði meira að segja Icesave að safna inneignum í Hollandi eftir að bresk yfirvöld reyndu að setja hömlur á starfsemi Icesave. Fjármálaeftirlitið gerði engin próf á virði uppgefinna eigna bankanna og fjárfestingarfyrirtækja, sem reyndust svo vera „falskar" að stórum hluta, þar sem bankar og fjárfestingarfyrirtæki voru í vitorði um að ofmeta eignirnar. Í stuttu máli sagt, annar flokkur fólks sem ber ábyrgð eru eftirlitsmenn í Seðlabanka og Fjármálaeftirlitinu.  

Í þriðja flokknum eru íslenskir og erlendir hagfræðingar sem færðu endurtekið fyrir því rök að íslensku bankarnir væru tryggir að hunsa ætti vísbendingar um hið gagnstæða. Richard Portes og Friðrik Már Baldursson höfnuðu viðvörunum mínum í Financial Times í bréfi sem þeir sendu til sama blaðs. Þeir sögðu um bankana:

„Íslandi kemst ekki upp með það á Evrópska efnahagssvæðinu að nota „eins léttvægar reglugerðir og mögulegt er". Það hefur þurft að beita nákvæmlega sömu lögum og reglugerðarramma og bankar í aðildarríkjum ESB, og Fjármálaeftirlitið er afar fagmannleg stofnun". 

Þeir sögðu enn fremur: „Í lok árs 2007 var uppbygging fjármögnunar í bönkunum áþekk því sem gerist í bönkum á Norðurlöndunum, og í sumum tilvikum er hlutfall innlána og útlána betra sem og uppbygging binditíma."

Þeir gátu einungis komist að þessari niðurstöðu með því að túlka efnahagsreikning bankanna bókstaflega. Viðskiptaráð Íslands styrkti rannsókn þeirra.

Á hinn bóginn hunsuðu einfaldlega Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og margir íslenskir hagfræðingar endurteknar viðvaranir um hættur framundan. Þegar Robert Aliber, einn fremsti sérfræðingur heims á sviði fjármálakerfa og fjármálaerfiðleika, kom til Íslands árið 2007 og aftur 2008 og varaði við miklum hættum framundan, var viðvörunum hans að mestu hafnað. Árið 2007 ók Aliber um Reykjavík og taldi byggingarkrana og sagði síðan opinberlega: „Það líður ár þar til þið lendið í erfiðleikum".  Aliber var spurður hvað þyrfti að gera til að fá ríkisstjórnina til að taka viðvaranirnar alvarlega.  Hann svaraði: „Þeir sem sjá hvað er að gerast verða bara að halda áfram að hrópa hærra og hærra".

HVAÐ ÆTTI RÍKISSTJÓRNIN AÐ GERA NÚNA

Skuldabréf íslensku bankana eru nú seld á 1-7% af nafnvirði þeirra - þ.e.a.s., kaupendur skuldabréfanna borga einungis 1-7% af nafnverðinu.  Þetta er mælikvarði á íslensku kreppuna.  Leiðin til bata verður löng, því það er langt þangað til þátttakendur á peningamörkuðum taka íslensku bankana aftur alvarlega, orðspor þeirra hefur skaðast það mikið.

En Ísland hefur smá umhugsunarfrest fram í maí 2009. Eftir það þarf að endurfjármagna háar skuldaupphæðir. Hvort hægt sé að endurfjármagna þær eða ekki og með hvaða tilkostnaði veltur á því hvað ríkisstjórn Íslands gerir á næstu mánuðum. Eins og ég sagði áður: Nú er að duga eða drepast.

SKREF SEM GRÍPA ÞARF STRAX TIL

Fyrstu skrefin sem grípa þarf strax til að endurreisa efnahag Ísland er að kalla saman hóp mjög hæfra og erlendra (ekki íslenskra) sérfræðinga í bókhaldsrannsóknum (forensic accountants) og endurskipulagningu ríkisskulda til að framkvæma ítarlega rannsókn á því hvar peningarnir eru og kortleggja mögulega leið til bata.   Þetta hefði átt að gerast strax eftir hrunið í september-október (eins og ég sagði í viðtali við íslenska sjónvarpið á þeim tíma).  Í stað þess höfum við séð röð nánast tilviljanakenndra viðbragða þar sem Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið Robert Wadevirðast fara um víðan völl, að hluta til vegna þess að ekki hefur verið til staðar góður þekkingargrunnur á eignum og skuldum bankanna og fjárfestingarfyrirtækjanna.

Annað skref sem grípa þarf strax til, til að endurheimta orðsporið, er að bjóða seðlabankastjóra að leita sér að vinnu annars staðar. Með öðrum orðum, víkja honum úr starfi fyrir alvarlega vanrækslu við skyldustörf.  Seðlabankastjóri hefur greinilega lítinn skilning á alþjóðlegum fjármálum. Ef hann hefði það, hefði hann ekki reynt að festa krónuna við evru í október 2008 þegar Ísland átti vart nokkurn gjaldeyrisforða eftir, ákvörðun sem seðlabankastjóri tók án þess að ráðfæra sig við yfirhagfræðing Seðlabankans. Það var skammlífasta festing eins gjaldmiðils við annan sem vitað er um.  Allir erlendir álitsgjafar sem fjallað hafa um íslenska vandann - þeirra á meðal Willem Buiter og Richard Portes - hafa kallað eftir brottvikningu seðlabankastjóra. Brottvikning myndi senda fjármálamörkuðum heimsins merki um að Íslandi væri alvara með að koma sér aftur á beinu brautina.    

Þriðja skrefið sem grípa þarf strax til er að forsætisráðherra biðji þjóðina afsökunar á því áfalli sem landið hefur orðið fyrir á meðan ríkisstjórn hans fór með stjórn efnahagsmála. Það er sannarlega undarlegt að enginn háttsettur stjórnmálamaður skuli hafa beðist afsökunar - leiðtogi Samfylkingar, sem kom inn í ríkisstjórnina löngu eftir að fyrri ríkisstjórn hefði átt að vera ljóst að íslenska bankakerfið var óstöðugt, er þar að hluta til undanskilinn.  Íslenska ríkisstjórnin myndi sína lýðræðisvilja sinn best í verki með því að boða til nýrra kosninga. 

SKREF SEM GRÍPA ÞARF FLJÓTLEGA TIL

Atvinna 

Íslenska ríkisstjórnin ætti að leggja sig fram um að kynna sér hvað aðrar aðrar ríkisstjórnir eru að gera til að verja atvinnu og lágmarka atvinnuleysi. Hugsanlegar aðgerðir eru m.a.: 

(a) styrkja atvinnurekendur til að bjóða þeim sem koma úr skóla upp á störf sem lærlingar (fremur en að styrkja starfsþjálfun í einkageiranum); 

(b) styrkja atvinnurekendur til að stytta vinnutíma starfsmanna fremur en að segja þeim upp, með því að greiða starfsmönnunum fyrir þá daga sem upp á vantar; 

(c) bjóða upp á opinberar vinnuáætlanir, þar sem unnið er við raunveruleg störf á lágmarkslaunum, allt frá störfum í félagslega geiranum til byggingarvinnu.

Markmiðið ætti að vera að lágmarka þann fjölda fólks sem fær atvinnuleysisbætur og koma þannig í veg fyrir þá hættu að skapa týnda kynslóð ungs fólks sem hefur litla starfsreynslu þegar enduruppbyggingin hefst. 

Lífeyrir

Ríkisstjórnin ætti að grípa inn í og verja lífeyri þeirra sem fá nú þegar lífeyri og gera ráðstafanir til að hægja á hruni lífeyrissjóðanna. 

Fjárhagsreglugerðir og enduruppbygging

Ríkisstjórnin verður að herða á reglugerðum í fjármálageiranum. Eftir að kreppunni lýkur verður viðhorfið í heiminum almennt þannig að farið verður með fjármálastarfsemi eins og áfengi, eiturlyf, sprengiefni eða fjárhættuspil, sem allt er starfsemi þar sem óheft dreifing á vörum skapar mikinn „ytri" kostnað fyrir þjóðfélagið og markaður með vöruna því takmarkaður með pólitískum ákvörðunum.

Nánar tiltekið, allar ríkisstjórnir verða að gera það ljóst hvaða gerðir fjármálafyrirtækja geta fengið þrautavaralán og tryggja að þau fyrirtæki sem falla innan þess öryggisnets séu háðar ítarlegum varfærnisreglugerðum - svo sem þaki á þeirri skuldaupphæð eða vogun sem þau geta stofnað til í hlutfalli við eigið fé.  Í öðru lagi ættu ríkisstjórnir að kveða á um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, eins og gert var í Bandaríkjunum allt þar til Glass-Stegall lögin voru felld úr gildi árið 1999.

Í þriðja lagi ættu ríkisstjórnir að stefna að því að skapa bankakerfi sem leggur meiri áherslu á stöðugleika og varfærni og minni áherslu á „nýsköpun". Hugsanlega sjáum við „blönduð" bankakerfi birtast þar sem talsverður hluti banka verður starfræktur sem „opinber þjónustustofnun" fremur en einkafyrirtæki sem stefnir að hámarksgróða hluthafa.

Á Íslandi þarf að auka verulega umboð og valdsvið Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, nú þegar búið er að afsanna kenninguna um að fjármálamarkaðir geti nokkurn veginn sett sér sínar eigin reglur.

Endurbætur á opinberri þjónustu

Kreppan hefur svipt hulunni ef alvarlegum göllum í opinberri stjórnsýslu á Íslandi og eftir því sem ríkisstjórnin kemur meira inn í hagkerfið á næstu árum er enn mikilvægara að gera endurbætur í opinberri þjónustu.

Borgarafundur 12.1.09 - Ljósm. Mbl. Árni SæbergSmæð Íslands þýðir að fjölskyldutengsl, hollustutengsl og einkavinavæðing eru stöðugar hættur þegar kemur að ráðningum og stöðuhækkunum í opinbera geiranum. Sem utanaðkomandi aðili finnst mér ótrúlegt að hér sé ekki starfandi neitt í líkingu við embættismannanefnd sem fer með óháð eftirlit með hæfni þess fólks sem ráðið er til opinberrar þjónustu og fær stöðuhækkun hjá hinu opinbera. Tvennt gerist þegar slíkt óháð eftirlit er ekki til staðar. Í fyrsta lagi er fólk ráðið vegna þess að það er vinur vinar eða félagi í sama stjórnmálaflokki, án þess að vera endilega hæfast í þá stöðu. Maður þarf ekki að eyða löngum tíma á Íslandi til að átta sig á að hér eru margir í háum stöðum í opinberri stjórnsýslu sem myndu ekki standast hæfnispróf. Í öðru lagi er vel hæft fólk ekki ráðið eða veitt hærri staða því óhæfu innanbúðarfólki finnst hæfara fólk ógna sér og vill ekki að eigin vanhæfni komi í ljós.  Báðir þessir þættir skaða skilvirkni opinbera geirans.

Ef embættismannanefnd væri sett á stofn og veitt raunverulegt vald gæti það haft verulegar umbætur í för með sér. Ísland ætti að líta til Singapúr og skoða hvernig annað lítið samfélag fer að því að koma upp eftirliti gegn fjölskyldutengslum og hreinni spillingu. Singapúr hefur ekki eingöngu öfluga embættismannanefnd. Þar er háttsettum opinberum starfsmönnum greidd laun eftir formúlu sem bindur laun þeirra við meðaltal 10 hæstu launa í einkageiranum á sama atvinnusviði, en ef þessir opinberu starfsmenn verða uppvísir að spillingu kemur það í kollinn á þeim eins og múrsteinstunna.

Innganga í evrusvæðið

Ísland verður að gefa upp á bátinn þá hugmynd að endurheimta stöðu sína sem miðstöð alþjóðlegra banka.  Of margar aðrar alþjóðlegar bankamiðstöðvar eru til staðar sem ekki hafa skaðað orðspor sitt með efnahagshruni. Landið verður að þróa annars konar atvinnustarfsemi en fjármálastarfsemi.

Koma þarf aftur upp „venjulegum" fjármálageira á landsvísu og í þeim tilgangi fylgja því stórir kostir að ganga inn í evrusvæðið.   Það er rétt að miklar umræður eiga sér stað í Róm, Madrid og Dublin um að hætta með evruna, vegna neikvæðra áhrifa þess að missa fullt vald yfir gengisskráningu og peningamálastefnunni.  Sé þessi umræða tekin bókstaflega bendir hún til þess að evrusvæðið geti liðast í sundur - sem bendir til þess að innganga sé ekki skynsamleg fyrir Ísland.  Hins vegar ætti ekki að taka umræðuna um að þessi lönd láti af notkun evrunnar bókstaflega. Þau verða áfram þátttakendur því þau vita að ef þau hætta með evruna verða gjaldmiðlar þeirra óstöðugir vegna árása spákaupmanna - eins og raunin yrði um íslensku krónuna.

Íslandi getur ekki gengið í evrusvæðið fyrr en hægt er að sýna fram á stöðugan gjaldmiðil í nokkur ár og að til staðar sé raunverulegur gjaldeyrismarkaður.  Byrja verður strax að skapa þessi skilyrði og að láta krónuna fylgja evrunni - á mun lægra gengi en gert var fyrir kreppu - er ein leið sem hægt er að fara. 

Innganga í evrusvæði myndi ekki eingöngu gera gjaldmiðilinn stöðugri. Það myndi einnig forða ríkisstjórninni frá þeirri freistingu að nota stýrivexti til að gera gjaldmiðilinn stöðugri og eiga það á hættu að lama fyrirtæki með Evrurháum vöxtum.  Enn fremur myndu regluleg samskipti íslenskra embættismanna við evrópska starfsbræður, auk þess að fella íslenska stjórnsýslu undir sameiginlega evrópska staðla, hamla gegn núverandi tilhneigingu til fjölskyldutengsla og spillingar í stjórnsýslunni.  

Hins vegar er annar valkostur í boði í stað þess að ganga inn í evrusvæðið, eða sem formáli að því, sem væri að gera samning við Noreg um (a) að íslenska krónan fái að fylgja norsku krónunni og (b) að norski seðlabankinn verði reiðubúinn að veita Seðlabankanum stuðning með gjaldeyrisskiptum.  Þetta hefði talsverða kosti fyrir Ísland, en einnig ókosti því gengi norsku krónunnar er ofmetið þar sem Noregur er olíuhagkerfi, og meiri frávik eru þar á stýrivöxtum en á evrusvæðinu en þar endurspegla vextir víðtækari efnahagsaðstæður.  

Hverjir væru kostirnir fyrir Noreg? Fyrir það fyrsta væri Noregur ekki eins einangraður í Evrópska efnahagssvæðinu ef Ísland heldur sig utan evrusvæðisins.  Í öðru lagi væri Noregur betur í stakk búinn til að verja fiskveiðistefnu sína gegn skaðlegri fiskveiðistefnu ESB ef Ísland tekur ekki upp fiskveiðistefnu ESB, sem það þyrfti líklega að gera við inngöngu.  Því gæti Noregur viljað aðstoða Ísland við að halda sér utan við evrusvæðið/ESB.

Á hinn bóginn gæti Noregur viljað sjá Ísland semja um aðild að ESB í þeirri von að orðspor Íslands sem eitt fárra landa sem hefur tekist að stjórna fiskimiðum sínum með sjálfbærum hætti og sú staðreynd að Ísland er háðara fiskveiðum eftir kreppu, muni í sameiningu leiða til þess að framkvæmdastjórn ESB slaki á kröfu sinni um að Íslandi taki upp hina hörmulegu fiskveiðistefnu ESB. Ef framkvæmdastjórnin krefst þess ekki að Íslandi taki upp fiskveiðistefnu ESB gæti það veitt Noregi meiri sjálfstjórn ef Noregur ákveður að sækja um inngöngu síðar, og margir valdamiklir Norðmenn vilja að Noregur gangi í ESB en fiskveiðimálin koma í veg fyrir það. Í stuttu máli sagt, fiskveiðimálin gætu hvatt Noreg til að styðja inngöngu Íslands í ESB fremur en latt.  

Þetta eru augljóslega mikilvæg mál sem fá þarf á hreint hjá norskum stjórnvöldum. Og ljóslega á íslenska ríkisstjórnin flókna ákvarðanatöku í vændum varðandi aðild að ESB og evrusvæðinu. Augljósleg eru einnig góð rök fyrir því að ríkisstjórnin boði til kosninga til að fá nýtt umboð frá þegnum sínum.

Íslensk þýðing: Guðmundur Erlingsson

Viðtalið við Robert Wade í Kastljósi 12. janúar 2009

Viðtöl frá júlí og október 2008 hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: SM

takk fyrir að gera það sem fjölmiðlar gera ekk.

Wade: Annað skref sem grípa þarf strax til, til að endurheimta orðsporið, er að bjóða seðlabankastjóra að leita sér að vinnu annars staðar. Með öðrum orðum, víkja honum úr starfi fyrir alvarlega vanrækslu við skyldustörf.  Seðlabankastjóri hefur greinilega lítinn skilning á alþjóðlegum fjármálum. 

Kannski er Wade skríll...hvernig vogar hann sér?

SM, 13.1.2009 kl. 15:12

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Það yrði alveg ný upplifun ef einhver stjórnmálamaðurinn tæki upp á því að biðjast afsökunar enda yrði það enganveginn nóg. Afsögn er eina meðalið sem fólk á að sætta sig við. Það væri strax í áttina ef Davíð segði starfi sínu lausu og ág tala nú ekki um fjármálaeftirlitið í heild sinni.

Þórbergur Torfason, 13.1.2009 kl. 15:18

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Frábært hjá þér. Hvernig fórstu eiginlega að þessu?

María Kristjánsdóttir, 13.1.2009 kl. 15:29

4 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Gott hjá þér Lára. í framhaldi af þessu má benda á að Þóra Arnórsdóttir (Hannibalssonar?) reyndi í viðtalinu í Kastljósi í gær að gera Wade tortryggilegan með því að bendla hann við vinstrimennsku og að það hafi verið ástæðan fyrir því að íslensk stjórnvöld hafi ekki tekið mark á honum í fyrra.

Nú hefur forsætisráðherra greinilega snúist hugur (frá því í fyrra er hann lýsti grein Wade sem lesendabréfi í DV!!!), segist hafa sagt það sama (sem er lygi því Geir fullyrti lengi að kreppunni yrði lokið um mitt þetta ár!) og boðar Wade til fundar við sig í dag!!!!!

Já, vegir Geirs eru órannsakanlegir!

Torfi Kristján Stefánsson, 13.1.2009 kl. 15:34

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Það er margt athyglisvert í þessu. Ekki síst fyrstu tvær málsgreinarnar sem koma á eftir spurningunni (millifyrirsögninni) "Hver ber ábyrgðina?"

Þá virðist Wade ekki á sömu línu og Carsten Valgreen sem gagnrýndi stjórnvöld fyrir þremur dögum, en hann varaði líka við bankakreppu í fyrra og fékk skammir fyrir. Sá danski er ekki eins trúaður á evruna, ekki fyrir það þjóðfélag sem tekur við eftir bankahrun.

Eina sem mér hugnast ekki í þessu er að nota Ísland sem "múrbrjót" fyrir Noreg til að verja Norðmenn "gegn skaðlegri fiskveiðistefnu ESB" eins og Wade orðar það. Þetta er brothætt mál og á því margar hliðar. Hins vegar geta allir verið sammála um að leita að nýrri vinnu fyrir seðlabankastjóra. Góður punktur.

Haraldur Hansson, 13.1.2009 kl. 15:38

6 Smámynd: Einar Indriðason

Raunar sagði Wade í töluðu máli (ekki þessu ritaða), að það væri sennilega best, og minnsti skaðinn, að setja Dabba sem kóng yfir einhverri EYÐI-eyjunni í kyrrahafinu.  Hann fékk standandi lófaklapp fyrir þetta, salurinn virtist vera algjörlega allir sem einn, sammála þessari uppástungu.  Wade fékk raunar slatta af standandi lófaklappi, ekki bara þarna.

Flott hjá þér, Lára Hanna.  Nú er bara að reyna að nálgast hinar ræðurnar á skrifuðu formi.

(Og spurning hvort við ættum að koma því til aðstandenda borgarafundanna, að taka þá sjálfir upp, og birta á vefsíðunni sinni, svona ef/þegar fjölmiðlar aðrir standa sig ekki.

(Ég ætla að vona að ég hafi ekki smitað þig í Iðnó af einhverri flensunni?)

Einar Indriðason, 13.1.2009 kl. 15:47

7 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Maður skyldi ætla að maður með alla þessa bókstafi á eftir nafninu sínu vissi hvað hann er að segja. Hann er t.d. ekki dýralæknir.

Góð hugmynd með upptökur af borgarfundum þar sem fjölmiðlar virðast sofa á vaktinni.

Rut Sumarliðadóttir, 13.1.2009 kl. 15:54

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir Lára Hanna, hinn eini og sanni óháði fjölmiðill á Íslandi.

Sigrún Jónsdóttir, 13.1.2009 kl. 16:00

9 identicon

Borgarafundirnir eru alltaf teknir upp og ræðurnar má nálgast t.d. hér: http://www.youtube.com/borgarafundur. Hins vegar er þetta upptekið fólk sem stendur að þessu og misjafnt hversu hratt myndskeiðin detta inn.

Guðmundur (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 16:01

10 identicon

Takk, Lára Hanna fyrir að birta fyrirlesturinn og takk Guðmundur Erlingsson fyrir góða þýðingu!

Ég á eftir að lesa fyrirlesturinn mjög oft til að skilja sérhverja setningu, sérhverja hugsun og ná að fóta mig í efninu. En eftir fyrstu yfirferð þykir mér þetta vera athyglisverðast:

"Fyrstu skrefin sem grípa þarf strax til að endurreisa efnahag Ísland er að kalla saman hóp mjög hæfra og erlendra (ekki íslenskra) sérfræðinga í bókhaldsrannsóknum (forensic accountants) og endurskipulagningu ríkisskulda til að framkvæma ítarlega rannsókn á því hvar peningarnir eru og kortleggja mögulega leið til bata. Þetta hefði átt að gerast strax eftir hrunið í september-október (eins og ég sagði í viðtali við íslenska sjónvarpið á þeim tíma)."

Þetta er meðal þeirra efnisþátta sem fréttamenn ættu að hafa haldið vakandi og í umræðunni hvern dag frá 6. október sl., en tíma þeirra hefur verið varið í annað .

Helga (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 16:08

11 Smámynd: Einar Indriðason

Takk, Guðmundur, þetta vissi ég ekki.

Einar Indriðason, 13.1.2009 kl. 16:16

12 identicon

Torfi Kristján, hvernig dettur þér í hug að segja að Þóra Arnórsdóttir hafi reynt að gera Wade tortryggilegan með þessari spurningu? Hún rifjaði upp gagnrýni sem sett hefur verið fram til að reyna að gera Wade tortryggilegan og spurði hvort íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðilar hafi e.t.v. lagt eyrun eftir slíku og því ekki tekið eins mikið mark á honum og ella. Fullkomlega eðlilega spurning og til þess fallin að fá þessa gagnrýni upp á borði í sjálfu viðtalinu í stað þess að menn reyni að afskrifa Wade eftir á með hælbitum.

Arnar (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 16:18

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta er mikil og góð ræða.   Spurningin er hvort stjórnvöld hlusti núna.  Alveg snilld þetta orðalag hans að bjóða seðlabankastjóra að leita sér að nýju starfi.

Það var þó eitt atriði, sem ég hjó eftir og mér finnst vera á misskilningi byggt.  Lán sem tekin voru þegar krónan var sterk, voru dýr lán, ekki ódýr.  Það er mun ódýrara að skulda lán sem tekið er á "óhagstæðu" gengi (GVT há), heldur en lán sem tekið er á "hagstæðu" gengi (GVT há).  Fólk er almennt að taka lánið miðað við upphæð í íslenskum krónum og því er betra að færri CHF eða JPY standi að baki skuldinni.

Marinó G. Njálsson, 13.1.2009 kl. 16:27

14 identicon

Wade bendir á óhæft embættismannakerfi hérna og við fáum fréttir af því á sama fundi hvernig Guðlaugur Þór hegðaði sér við ráðningu Steingríms Ara.  Ömurlegt!

Einar (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 17:39

15 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Vonandi kemur e-ð gott útúr fundi Wades með forsætis-og viðskiptaráðuneytisfólki á morgun. Þetta verður varla svona huggulegt teboð...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 13.1.2009 kl. 19:39

16 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Heimildamynd frá fyrri Borgarafundum var sýnd og í henni var það helsta sem komið hefur fram til þessa, það var gott að vera stödd á staðnum og upplifa troðfullan salinn taka undir aftur og aftur við áhorf myndarinnar. Eins þótti mér heilmikið varið í framsögu Herberts nokkurs aðgerðarsinna, sem var afar skýr í sínum spurningum og mótmælum. Stjarna kvöldsins var þó án efa hagfræðingurinn Robert Wade, sem eins og þú Lára Hanna útskýrði hrunið á mannamáli og hvernig við ættum að bregðast við. Þú ert búin að segja allt sem fjölmiðlar hefðu átt að skrifa um. Þakka þér fyrir góðan pistil og gagnýnina á fjölmiðlana. En nú er eitthvað að koma í Kastljósi. Baráttukveðjur og góðan bata

Eva Benjamínsdóttir, 13.1.2009 kl. 19:59

17 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

heyrðu, svo funduðu ráðherrar með honum. getur verið að þeir séu að sjá að sér? séu að fatta að þeir viti ekkert í sinn haus?

Brjánn Guðjónsson, 13.1.2009 kl. 20:28

18 Smámynd: Páll Gröndal

Ég fékk gæsahús við að lesa ræðu Wade. Er ekki frábært að sjá sannleikann settann fram umbúðalaust og af slíkum fagmanni á sínu sviði? Ég þarf ekki að endurtaka það sem aðrir hafa sagt hér að ofan, er flestum sammála, en fannst þetta kurteislega spark að "bjóða" D að leita sér að annarri vinnu alveg frábært. Lára Hanna, þú átt mikið lof skilið fyrir starf þitt að halda úti þessari vefsíðu. Takk fyrir!!!

Páll Gröndal, 13.1.2009 kl. 20:40

19 Smámynd: Páll Gröndal

Afsakið! Þetta átti auðvitað að vera gæsahúð :)

Páll Gröndal, 13.1.2009 kl. 20:41

20 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Kærar þakkir fyrir þetta framtak Lára og Guðmundur.

Það er hefðu verið eðlileg viðbrögð stjórnvalda að leita til Norðurlandanna um aðstoð við stjórn Seðlabanka og FME strax eftir bankahrun. Þarna gætu komið 3 sérfræðingar að hvorri stofnun frá þessum vinaþjóðum okkar og hinir íslensku stjórnendur væru settir til hliðar. Með því móti hefði alla vega skapast eitthvað traust á þessum stofnunum bæði innan lands og erlendis.

Valgeir Bjarnason, 13.1.2009 kl. 20:44

21 identicon

Takk Lára Hanna. Þú ert gersemi!!!

Guðfríður Lilja (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 22:12

22 identicon

Þetta er mjög góð ræða hjá Róberti Wade.

Þessi málsgrein er sér í lagi eftirtektarverð: Seðlabankastjóri hefur greinilega lítinn skilning á alþjóðlegum fjármálum. Ef hann hefði það, hefði hann ekki reynt að festa krónuna við evru í október 2008 þegar Ísland átti vart nokkurn gjaldeyrisforða eftir, ákvörðun sem seðlabankastjóri tók án þess að ráðfæra sig við yfirhagfræðing Seðlabankans. Það var skammlífasta festing eins gjaldmiðils við annan sem vitað er um.  Allir erlendir álitsgjafar sem fjallað hafa um íslenska vandann - þeirra á meðal Willem Buiter og Richard Portes - hafa kallað eftir brottvikningu seðlabankastjóra. Brottvikning myndi senda fjármálamörkuðum heimsins merki um að Íslandi væri alvara með að koma sér aftur á beinu brautina. 

Ég hef ekki séð þessa fullyrðingu áður: ,,seðlabankastjóri tók án þess að ráðfæra sig við yfirhagfræðing Seðlabankans''. 

Ef rétt er þá er það gríðarlega alvarlegt, þetta er risavaxin ákvörðun og algjört glapræði að taka án víðtæks samráðs við fagfaólk. Mér þykir undarlegt að þessi fullyrðing (staðreynd?) hafi ekki ratað á forsíðu blaða. 

Það eina sem Róbert hefði mátt skerpa betur á eru bankar í opinberri eigu. Það er, útskýra hvernig honum finnst að koma eigi í veg fyrir að slíkir bankar stundi hrossakaup og séu ranglega notaðir sem hagstjórnartæki (líkt og gerðist með Íbúðalánasjóð og var ein af stærri rótum verðbólgunnar í dag). 

Björn Hauksson (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 22:28

23 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk fyrir þetta. Saknaði þó kaflans um Halldór Blöndal

Hólmdís Hjartardóttir, 13.1.2009 kl. 23:05

24 identicon

Björn, ég heyrði því fleygt að hagfræðingar seðlabankans hefðu fyrst lesið um festingu krónunnar við evru á heimasíðu Seðlabankans.

Guðmundur (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 23:07

25 Smámynd: Offari

Takk fyrir.

Offari, 13.1.2009 kl. 23:42

26 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Það er rétt, það vantar hina kostulegu lýsingu á skýringum Halldórs Blöndal á hruninu. Áheyrendum Halldórs þótti víst ekkert skrítið að allt væri hér í rúst fyrst þessi maður hefði komið að hlutunum. Þetta hlýtur að koma fram á morgun (dag) þegar fundinum verður sjónvarpað.

Haraldur Rafn Ingvason, 14.1.2009 kl. 00:21

27 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Skrifaði ég Halldór Blöndal..............en hugsði um Pétur

Hólmdís Hjartardóttir, 14.1.2009 kl. 00:40

28 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Wade er mjög flottur -og, eins og allt greindasta fólkið, þá talar hann mannamál...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 14.1.2009 kl. 06:16

29 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Sammála ofan fyrri ræðumönnum, þetta er algjörlega á mannamáli og ég á eftir að lesa þessa grein nokkrum sinnum þvílík er gæsahúðin. Takk Lára Hanna fyrir að standa plikt sem fjölmiðlar landsins eiga að vera gera. Þú ert ómissandi!

Harpa Oddbjörnsdóttir, 14.1.2009 kl. 09:06

30 identicon

Lára Hanna! Íslensku fálkaorðuna fyrir óeigingjarnt starf í þágu lýðræðis á Íslandi.

Takk kærlega upplýsinguna!!!!

Þórður Runólfsson (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 11:05

31 identicon

Fálkaorðuna?

Hver vill fá fálkaorðuna eftir þetta:

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður, Bretlandi, riddarakross fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi
http://forseti.is/Forsida/Falkaordan/Falkaordan2007/

ari (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 13:31

32 identicon

Ekki er að spyrja að þessum útrásarfálkum, órg og Sigurði Einarssyni.

Fyrirlestur Wades er skilmerkilegasta lýsing á ástæðum efnahagshrunsins sem eg hef heyrt.

Við skulum fá Wade til að sjá um alþjóðlegt útboð á réttinum til að rannsaka þetta fyrirbæri. Íslenska efnahagshrunið er hvalreki fyrir vísindasamfélagið í heiminum. 

Rómverji (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 21:31

33 Smámynd: Hörður Hilmarsson

"Glöggt er gests augað"
Það er gersamlega frábært að fá hér þýdda ræðu Robert Wade af borgarafundinum s.l. mánudag.
RW greinir kjarnann frá hisminu, segir hlutina eins og þeir voru og er ekkert að skafa utan af þeim.

Bestu þakkir Lára Hanna, fyrir framtakið. Það er búið að gengisfella fálkaorðuna, þó ekki þannig að það séu bara fálkar sem hana hljóta, en þú átt a.m.k. skilið sokkabandsorðuna fyrir framlag þitt.

Með vinsemd og baráttukveðju

Hörður Hilmarsson
www.hoerdur.blog.is

Hörður Hilmarsson, 15.1.2009 kl. 02:38

34 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Bestu þakkir Lára. Segja má að þú standir þig betur en Morgunblaðið og aðrir fjölmiðlar.

Það sem bresk og íslensk yfirvöld gátu ekki: að upplýsa okkur hvers vegna hermdarverkalögunum var biett á Íslendinga, má segja að Robert Wade hafi útskýrt nokkuð vel í máli sínu.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.1.2009 kl. 12:09

35 identicon

Stelpa, þú verður að fara á þing, ertu komin í einhvern flokk? Nei í alvöru, við þurfum á þér að halda. Lítil þjóð kallar!

Hrefna (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 22:10

36 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk kærlega fyrir þetta, Lára Hanna, þú átt svo sannarlega skilið að fá orðu fyrir að vera svona dugleg að miðla upplýsingum.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.1.2009 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband