Áskorun til fjölmiðlafólks

Ég er forviða á fjölmiðlum landsins, flestum hverjum. Nú fékk ég í fyrsta sinn að upplifa það, að komast ekki á mótmæla- eða borgarafund vegna veikinda. Varð að sitja heima og treysta á upplýsingar fjölmiðla og fyrst fundinum var hvorki sjónvarpað né útvarpað beint fær maður aðeins eftiráupplýsingar. Hamrað hefur verið á því undanfarna mánuði að góðar, ítarlegar og gegnsæjar upplýsingar til almennings skipti sköpum við að afhjúpa, fræða, skýra og fá þjóðina með í að byggja upp framtíðina.

Skemmst er frá því að segja, að eini miðillinn sem hefur staðið sig sæmilega sómasamlega er RÚV. Í gærkvöldi var bæði sagt frá fundinum í fréttum kl. 19 og 22, sem og viðtal við Robert Wade í Kastljósi. Ekki var minnst á fundinn í hádegisfréttum Bylgjunnar eða kvöldfréttum Stöðvar 2. Ísland í dag fjallaði um Idolið og kjólana á Golden Globe. Kompás fjallaði um krabbamein í hundum. Örsmáar fréttir um að húsfyllir væri í Háskólabíói birtust á mbl.is og visir.is.

Eftir að fundi lauk var ég friðlaus. Í tíufréttum RÚV hafði verið ýjað að sprengjum sem varpað var á fundinum og smátt og smátt, eftir lestur bloggs fundargesta, varð mér ljóst að það var sprengjuregn. Ég þaut milli netmiðlanna en fann smánarlega lítið. Allar aðrar upplýsingar varð ég að fá úr bloggum og tölvupósti. Þetta var á dv.is og þetta á Smugunni. Eyjan birti líka umfjöllun og tengdi í Smuguna. RÚV-vefurinn er dyntóttur í meira lagi og ég komst ekki inn á útvarpsfréttirnar.

Í morgun bjóst ég við ítarlegri umfjöllun prentmiðlanna, Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, um fundinn og allar sprengjurnar sem þar var varpað. En viti menn... Þetta er það eina sem kom um fundinn í Mogganum - engin efnisleg umfjöllun.

Háskólabíó fylltist - Mbl. 13.1.09

Og þessi agnarsmáa klausa var í Fréttablaðinu, sem er örþunnt í dag í stað þess að vera stútfullt af greinum og fréttaskýringum af atburðum undanfarinna daga. Það liggur við að þeir hefðu allt eins getað sleppt þessu alveg. Aumara verður það varla.

Salurinn þéttskipaður - Fbl. 13.1.09

Aftur á móti var viðtal við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur á Morgunvakt Rásar 1 í morgun og RÚV tók fundinn upp og boðaði sýningu á honum eftir tíufréttir á miðvikudagskvöld. Blaða- og fréttamenn fjölmiðlanna eru á nákvæmlega sama báti og við hin - þeim líður eins og okkur. Þeir eru auk þess upp til hópa heiðarlegir, klárir og vilja gera vel. Af hverju láta þeir þagga niður í sér? Hverju er þeim hótað? Hver hótar þeim?

Ég skora á íslenska fjölmiðlamenn og -konur að stíga fram, standa með þjóðinni og sjálfum sér og upplýsa okkur um það sem er að gerast í þjóðfélaginu, á bak við tjöldin og í forarpyttum stjórnmála, stjórnsýslu og fjármála. Láta ekki múlbinda sig lengur. Ráðherra hótaði Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur í gær. Hún sýndi hugrekki, lét það sem vind um eyrun þjóta og lét þjóðinni í té mikilvægar upplýsingar. Ég treysti því að hún standi við orð sín og fylgi þeim eftir. Segi allri þjóðinni sögu sína, ekki bara þeim sem voru í Háskólabíói. Ef allir sem eitthvað vita, bæði fjölmiðlafólk og viðmælendur þess, feta í fótspor hennar með heiðarleika og hugrekki, eigum við von.

Að lokum tek ég ofan minn ímyndaða hatt fyrir RÚV, útvarpi og sjónvarpi.

Viðtal við Robert Wade í Kastljósi

 

Umfjöllun í RÚV-fréttum um borgarafundinn í gærkvöldi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Það er greinilega þöggun í gangi....ætlaði að fara að skria um þetta en ég get ekki bætt þín skrif.

Hólmdís Hjartardóttir, 13.1.2009 kl. 11:54

2 Smámynd: Sylvía

það var heldur ekki sagt frá því að Wade uppskar mesta klappð og allur salurinn reis úr sætum þegar hann sagði að Davíð ætti að leita sér að annari vinnu. Mest óttast ég að fundurinn verði klipptur eitthvað ,,þægileg'' til fyrir sýningu.

Sylvía , 13.1.2009 kl. 12:00

3 Smámynd: hilmar  jónsson

Alveg hrikalega dapurlegt. Fjölmiðlar brugðust hlutverki sínu í undanfara bankahrunsins, eftir það, og gera það enn.

hilmar jónsson, 13.1.2009 kl. 12:08

4 Smámynd: Þórbergur Torfason

Við verðum að bíða miðvikudagskvölds og treysta því að fundurinn verði sendur út í heild sinni. Það verður því nauðsynlegt að einhverjir sem þar voru, fylgist með og upplýsi hvort einhverju verði sleppt í útsendingunni.

Þórbergur Torfason, 13.1.2009 kl. 12:11

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þetta segir okkur að það er óheiðarleg þöggun í gangi.  Forkastanleg vinnubrögð fjölmiðla.

Sigrún Jónsdóttir, 13.1.2009 kl. 12:23

6 identicon

Það er ótrúlegt að fjölmiðlar fjalli ekkert um bombuna sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir lét falla á fundinum. Það eina sem þeir hafa birt er á Vísi um það hver hafi hótað henni fyrir fundinn í stað þess að krefja ráðherran svara um hegðun sína!

Ráðherran hefði átt að vera búinn að segja af sér í seinasta lagi í  morgun eftir þessi ummæli.

Elín Anna (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 12:25

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst að Sigurbjörg eigi að nefna nafn ráðherrans. Hún ákveður sjálf að segja söguna og hún er ekki um neitt hveersdagslegt. Það snertir alla þjóðina ef ráðherraer að hóta fólki. Ef menn eru að segja þá sögu finnst mér fólk eiga kröfu á að vita hvaða ráðherra þetta er.Það eru ekki nornaveiðar að segja satt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.1.2009 kl. 12:28

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Guðlaugur Þór neitar að hafa verið ráðherrann. Auðvitað á Sigurbjörg að nefna nafnið. Ég er líka dolfallinn yfir slökum fréttaflutningi af fundinum. Þetta var frétt dagsins og hún kemur aðallega fram á bloggsíðum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.1.2009 kl. 12:30

9 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Sæl Lára Hanna. Ég hef aldrei orðið svona vör við alvöru þöggun, kannski bara af því að ég hef ekki verið með opin augun. En nú komst ég bara ekki hjá því að verða vör við hana.

Fyrir það fyrsta var tengingin við bloggfærsluna mína rofin á frétt sem var aðalfréttin í morgun og snérist um rekstur ríkissjóðs, næst þegar ég gáði var búið að staðsetja þá frétt undir fullt af fréttum í viðskiptadálkinum. Það fannst mér voða skrýtið svo ég ákvað að gera tilraun.

Ég skrifaði nánast sama bloggið aftur og tengdi við þá frétt sem þá var aðalfréttin á forsíðu mbl.is og snérist um að ríkið skuldaði 653 milljarða. Ég tók reyndar út nafnið á Guðlaugi Þór sem ég hafði inni í fyrra blogginu, setti bara xxx í staðinn svo tengingin var ekki rofin í það skiptið en stuttu seinna var sú frétt líka komin neðarlega í bunkann í viðskiptadálkinum og þá sé ég að fréttirnar fyrir ofan, eitthvað um Sony og fleiri fréttir um pundið og svíþjóð oþh, þar hafði tímasetningunum verið breytt svo kerfið metur það svo að þær fréttir séu nýrri en hin fréttin. Þannig hafa þeir grafið þessar báðar fréttir til þess að losna við að fólk læsi bloggin sem tengd voru við þær.

Ég verð að viðurkenna að það fer um mig óhugur og ég fæ kvíðahnút í magann af því að upplifa þetta svona. Ég hreinlega vissi ekki að fjölmiðlaumhverfið hér á landi væri svona slæmt.

Mig langar því til að þakka þér fyrir allt það sem þú leggur á þig til þess að færa okkur hinum upplýsingar sem við fáum ekki annarsstaðar. Ég bý úti á landi og það er því fullt af upplýsingum sem ég hef ekki tækifæri til að nálgast nema í gegnum fjölmiðla og ég hef í auknum mæli leitað út fyrir hefðbundnu fjölmiðlana enda fæ ég ekki upplýsingarnar öðruvísi.

Ég er búin að lesa bloggið þitt lengi og um daginn sá ég að einhver bað þig í athugasemd að setja reikningsnúmerið þitt inn á síðuna þína svo við sem viljum getum styrkt þennan óhefðbundna fjölmiðlil og ég vil taka undir þessa beiðni. Ég hef ekki efni á að fá ekki þessar upplýsingar.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 13.1.2009 kl. 12:34

10 identicon

Það er óbærilega rétt hjá þér Lára. Hérlendir fjölmiðlar eru svo ónýtir orðnir að þeir senda ekki fréttamenn á borgarafundi og mótmæli. Treysta á að bloggheimar upplýsi um efni fundanna. Á þessum fundi var efnið svo eldfimt að þjóðin á skilið víðtæka umfjöllun um það í ÖLLUM fjölmiðlum og það strax. Já og ég skora á RÚV að setja upptökuna af fundinum á vefinn sinn núna – bæði fyrir alla þá sem ekki voru á fundinum en ekki síður til þess að blaðmenn (sem geta ekki hafa verið þar) komist í efnið og geti farið að vinna vinnuna sína.

Helgi Hilmarsson (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 12:47

11 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Lára Hanna,

ég er í svipuðum sporum og þú því ég er að vinna úti á landi þessa dagana. Ég komst ekki á fundinn í gær og hef verið að drepast úr fréttaþorsta af fundinum. Reyndar mætti kona mín og hringdi í mig í gær og sagði mér frá bombunni. Því beið ég í ofvæni eftir uppslætti á þessu á öllum miðlum dagsins. Nei, þetta virðist ekki hafa náð í gegnum síuna. Þvílík þöggun!!

Þannig Lára mín, þú verður að halda áfram að bera okkur fréttir.

Gunnar Skúli Ármannsson, 13.1.2009 kl. 12:55

12 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Ég skrifaði upp viðtalið við Robert Wade í Kastjósinu. Sat yfir því með ónot í maga yfir öllu sem hann sagði. http://harpao.blog.is/blog/harpao/entry/769608/

Harpa Oddbjörnsdóttir, 13.1.2009 kl. 13:02

13 identicon

Þetta verður þaggað þar til við gleymum.. það er planið sem hefur virkað svo vel á íslandi í gegnum tíðina

DoctorE (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 13:13

14 identicon

Nú komst ég ekki á fundinn í gær og er ferlega svekkt yfir því, blóðlangaði á hann.

 En skil ég þetta rétt, að Sigurbjörgu hafi verið hótað af ráðherra í ríkisstjórn ef hún mætti á fundinn? Hverju þá og eruði að segja mér að þetta hafi EKKI ratað í fjölmiðlana?

 Þetta er rosalegt svo ekki sé meira sagt. Það verður svo fróðlegt að horfa á fundinn í kvöld - ég á svo eftir að kíkja á bloggið til að sjá hvort þetta hefur eitthvað verið klippt til. Úff, ég fæ alveg í magann að hugsa til þess hvar við værum eiginlega stödd ef ekki væri fyrir netið! Hugsiði ykkur bara.

Hólmfríður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 13:44

15 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

RÚV er allavega að standa sig sæmilega og ég hef enga trú á öðru en að fundinum verði sjónvarpað óbrengluðum. 365 veldinu finnst hins vegar þessi fundarhöld og mótmæli ekkert lengur eiga erindi til fólks.

Emil Hannes Valgeirsson, 13.1.2009 kl. 13:47

16 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Við látum ekkert þagga þetta niður...gat því miðp ur ekki verið á fundinum í gær og eins og  þú beið ég eftir fréttum í morgun af þeim ræðum sem þarna voru haldnar og hef frá fyrstu hendi frá einum sem þarna var að það hefðu komið fram magnaðar upplýsingar. En nei. Varla orð. Hvers konar landi búum við eiginlega í....Hvað eru fjölmiðlamenn að hugsa???

Hvetjum alla til að horfa á þáttinn annað kvöld eftir tíufréttir á Rúv. Vonandi að hann verði óklipptur! 

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 13.1.2009 kl. 13:48

17 identicon

Eg dáist að Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur. Hún þarf ekkert að nefna ráðherrann frekar en hún vill. Fréttamenn hljóta að ganga á milli ráðherranna og draga sínar ályktanir.

Fundurinn var annars góður. Fínir framsögumenn, en hlutur Viðskiptaráðs þó aumur. Viðskiptaráð var flóttalegt.

Aðspurð um skoðanir Viðskiptaráðs setti Halla Tómasdóttir á ræðu um að yfir 30 manns sætu í Viðskiptaráði, sem kæmu héðan og þaðan, með allskonar skoðanir. Líkt og engar skoðanir hefðu verið settar fram í nafni ráðsins. Eins og til dæmis þessi:

“Sjálfsprottnar reglur
Höftum og íþyngjandi reglum verði aflétt af öllum atvinnuvegum og viðskiptalífinu verði í auknum mæli gefinn kostur á að setja sér sjálft reglur.”

http://www.vi.is/news.asp?ID=526&type=one&news_id=536

Í ljósi þessa var líka ósvífið af framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, að halda því fram, að ráðið hefði aldrei farið fram á að reglum yrði aflétt af fjármálafyrirtækjum. Aðeins að fyrirtækin settu sér sjálf reglur til viðbótar þeim sem þegar giltu. Það væri meiningin með "sjálfssprottnum reglum."

 

 

   

 

 

Rómverji (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 13:54

18 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Mjög spennandi að sjá hvort fundurinn verði sýndur óklipptur á miðvikudaginn. Ég vona það svo sannarlega. Ef ekki þá er það enn ein vísbending á því hversu mikið ritskoðun viðgengst hér á landi.

Úrsúla Jünemann, 13.1.2009 kl. 14:50

19 identicon

Talandi um fjölmiðla. Þá mætti skora á Kompás að koma með eitthvað almennilegt.

Hvað var djúsí fréttaskýringaþátturinn Kompás að fjalla um seinast. Voru þeir að grafa upp spillinguna (sem eigandinn Baugur tengist alls staðar krosseignatengslum væntanlega) Nú þeir fjölluðu í seinasta þætti um krabbamein í hundum!

ari (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 03:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband