Hvað er Íslandi EKKI fyrir bestu?

Og hverjum er ekki sama um Landsfund Sjálfstæðisflokksins? Góðar spurningar. Öðru máli gegnir um laugardagsfundina á Austurvelli, Ísafirði, Akureyri, Selfossi og í dag í fyrsta sinn á Egilsstöðum. Engum ætti að vera sama um þá - hvort sem fólk vill kalla þá mótmælafundi, samstöðufundi eða hvað sem er. Það skiptir minnstu máli. Öllu máli skiptir að mæta og láta þannig í ljós óánægju sína með ótrúleg viðbrögð stjórnvalda og stjórnkerfisins við efnahagshruninu og afleiðingum þess og krefjast úrbóta. Enn er verið að svalla og sukka á kostnað almennings á Íslandi. Lesið bara þetta, t.d. Ef satt reynist er verið að mergsjúga okkur ennþá meira og líkast til með vitund og samþykki stjórnvalda. Bjarga vinum sínum fyrir horn, skítt með afleiðingarnar fyrir þjóðina. Svo kemur Geir í sjónvarpsviðtal og segist ekkert skilja í því af hverju erlendur gjaldeyrir skilar sér ekki inn í landið til að styrkja krónuna! Það þarf enginn að segja mér að hann viti þetta ekki.

Einhverjir lásu kannski þennan pistil þar sem bent var á Eirík Guðmundsson og pistlana hans í Víðsjá. Ég ætla að birta hér þann sem var í Víðsjá í fyrradag, fimmtudag. Í honum kemur glöggt fram hve siðblindir stjórnmálamenn eru... eða hraðlygnir. Er ekki ástæða til að andæfa slíkum hugsunarhætti á Austurvelli - svo dæmi sé tekið?

Eiríkur Guðmundsson - Víðsjárpistlar

Hvað er Íslandi EKKI fyrir bestu?

Það var gaman að heyra í Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra á Morgunvaktinni í morgun. Björn ræddi Evrópumál, enda nýbúinn að senda frá sér bók sem heitir Hvað er Íslandi fyrir bestu? Í þeirri bók fjallar Björn, ef marka má baksíðuna, um stöðu Íslands í hnattvæðingunni, um þátttöku íslands í Schengensamstarfinu, hann spyr hvaða aðferðum beri að beita við töku ákvarðana um Evrópusamstarfið, og hvaða kosti íslendingar eiga í gjaldmiðilsmálum, svo eitthvað sé nefnt, þetta kemur allt fram á baksíðu bókarinnar.

Björn BjarnasonUndir lok viðtalsins á Morgunvaktinni í morgun, var það borið undir Björn hvort það væri ekki undarlegt að hér á landi hefði enn enginn axlað ábyrgð því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Umsjónarmaður gerði því skóna að í öðrum löndum væru menn fyrir löngu búnir að segja af sér. Björn virtist koma af fjöllum, hann sagði að í útlöndum væru menn ekki að segja af sér út af svona hlutum, þar segðu menn af sér af persónulegum ástæðum. Hverjir eru að segja af sér í útlöndum þótt vandinn sé mikill, í öllum löndum, sagði Björn efnislega. Af orðum Björns mátti ráða að á Íslandi hefði ekkert það gerst, sem ekki hefði gerst í öðrum löndum. Afsagnir hér væru því út í hött.

Það var fróðlegt fyrir dauðlegan hlustanda Ríkisútvarpsins að fá innsýn, svo snemma morguns, inn í það hvernig ráðamenn, og í þetta sinn, forystumaður í Sjálfstæðisflokknum hugsa. Um það, hvað Íslandi sé fyrir bestu, nú, í miðjum janúarmánuði árið 2009. Áfram halda fjölmiðlar að spyrja forkólfa um það hvað Íslandi sé fyrir bestu. Hvers vegna? Jú, vegna þess að sömu menn, sömu kólfar, halda áfram að stjórna landinu, þrátt fyrir það sem gerst hefur, þeir halda áfram að ráðleggja mönnum að sækja um mikilvægar stöður, og ráða í þessar sömu stöður. Þeir halda áfram að skrifa bækur með titlinum: Hvað er Íslandi fyrir bestu? Því skyldu menn sem vita hvað Íslandi er fyrir bestu, segja af sér, snemma morguns eða síðla nætur, nei hér hefur ekkert það gerst sem kallar á slíkt.

Íslendingar bera gæfu til að eiga menn sem vita hvað þjóðinni er fyrir bestu, eini vandinn er sá að þjóðin fór á hausinn á meðan þeir réðu ríkjum. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir að skuldir íslenska ríkisins séu um 2200 milljarðar- 2200 milljarðar, eiga menn að segja af sér út af því? Nei, menn segja af sér út af einhverju persónulegu, ef þeir gera í buxurnar prívat, en ekki ef þeir hafa fylgt og trúað blint á hugmyndafræði, sem gert hefur heila þjóð gjaldþrota. 2200 milljarðar, það er á engan hátt persónuleg tala, að því leyti hefur Björn Bjarnason rétt fyrir sér.

Hvað er best fyrir Ísland? Að fulltrúar þeirrar hugmyndafræði, sem nú er búin að setja þjóðina á hausinn, haldi áfram að stjórna landinu? Að menn sem pissuðu í buxurnar af samúð með Bandaríkjamönnum þegar flogið var á turnana í New York árið 2001, en treysta sér ekki til að fordæma afdráttarlaust og án undanbragða fjöldamorðin í Palestínu, haldi áfram að stjórna landinu? Hvað er best fyrir Ísland? Það hlýtur að vera orðið ljóst að þeir kónar sem mestu hafa ráðið á Íslandi, undanfarin ár vissu ekki hvað Íslandi var fyrir bestu. Ef þeir hefðu vitað það væri þjóðin ekki í þeirri stöðu sem hún er í. Að minnsta kosti ÞAÐ ætti að liggja ljóst fyrir. Meira að segja góðir og gegnir Sjálfstæðismenn átta sig á því. En, Björn Bjarnason, hann virðist enn halda að það sé nokkur eftirspurn eftir því sem honum, og hans félögum finnst vera þjóðinni fyrir bestu - ég dreg reyndar ekki þekkingu Björns á Schengensamstarfinu í efa.

Sennilega heldur Björn Bjarnason að íslenska þjóðin bíði spennt eftir Sjálfstæðisflokkurinnlandsfundi Sjálfstæðisflokksins!!! Að við bíðum spennt eftir einhverjum niðurstöðum landsfundar sjálfstæðisflokksins. Að við séum á nálum, yfir því hvað muni gerast á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hér hlýtur að vera eitthvað grín í gangi - Þröstur Helgason, blaðamaður Morgunblaðsins, skrifar athyglisverðan pistil í miðopnu blaðsins í dag; Þröstur segir: ,,Hvers vegna ætti okkur ekki að vera sama um það hvað sjálfstæðisflokkurinn ályktar um Evrópusambandsaðild á landsfundi sínum eftir nokkra daga? Á undanförnum vikum og mánuðum hefur nánast allt snúist um þennan blessaða landsfund. .... Sjálfstæðismenn virðast svo uppteknir af þessum fundi að það kemst ekkert annað að. Það er engu líkara en þeir hafi slegið lífinu í þessu landi á frest þar til fundurinn er afstaðinn. Á meðan dýpkar kreppan. Á meðan eykst reiðin. Á meðan átta landsmenn sig alltaf betur og betur á því að þessi flokkur hefur brugðist. Á meðan minnkar fylgið við sjálfstæðisflokkinn." Þetta segir Þröstur Helgason í Morgunblaðinu. Og ekki lýgur Mogginn.

Að lokum þetta:
Á Íslandi undanfarin ár hefur verið rekin glórulaus stefna. Við höfum fjarlægst Norðurlöndin, þokkalegustu samfélög í heimi, og nú er svo komið að við getum varla nefnt okkur í sömu andrá og þau. Við erum úti í mýri. Þökk sé mönnum sem héldu, að þeir vissu hvað væri Íslandi fyrir bestu. Og þessir menn halda ÁFRAM að segja Íslendingum hvað þeim er fyrir bestu. Áfram eru þeir spurðir: Hvað er íslandi fyrir bestu? Ég bið forláts, en þetta gengur einfaldlega ekki upp. Það eru meira að segja til Sjálfstæðismenn sem átta sig á því, þess vegna hefur fylgið hrunið af sjálfstæðiflokknum. 2200 milljarðar, stendur á forsíðu Morgunblaðsins í dag, og ekki lýgur Mogginn. ,,Það liggur í augum uppi að ályktun Sjálfstæðisflokksins um Evrópusambandsaðild á ekki eftir að skipta miklu máli." Stendur í Mogganum í dag. ,,Flokkurinn hefur einfaldlega ekki nægilegt traust til þess að hafa afgerandi áhrif á það hvað þjóðin ætlar að gera í þessum efnum." Stendur í Mogganum í dag. ,,Hann er ekki sá ráðgjafi sem maður myndi kjósa sér í mikilvægum efnum þessa dagana." Stendur í Mogganum í dag. ,,Hugmyndalega er hann gjaldþrota." Stendur í Mogganum í dag.

Herra Björn Bjarnason, hvað er Íslandi fyrir bestu? Herra Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hvað er Íslandi fyrir bestu? Herra Geir Haarde, hvað er Íslandi fyrir bestu?

Nei, þetta er að verða gott, þið hljótið að sjá það.

______________________________________________________

Hér er greinin í Morgunblaðinu eftir Þröst Helgason sem Eiríkur vitnar í.

Þröstur Helgason - Mbl. 15.1.09

Og góðar umræður í Kastljósi í gærkvöldi.

Síðan spyr ég aftur sömu spurninga og fyrir viku:

Ó, þjóð mín þjóð... 

Hvar ertu?

Hvar eruð þið, sem skrifið svo fjálglega um ástandið og spillinguna?
Hvar eruð þið, sem ræðið um byltingu í heitu pottunum og á kaffistofunum?
Hvar eruð þið, sem fordæmið bankamenn og útrásarauðmenn?
Hvar eruð þið, sem skammið ríkisstjórn, alþingismenn og embættismenn?
Hvar eruð þið, sem hallmælið gróðærinu og viljið annað siðferði?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við aðgerðir og aðgerðaleysi ráðamanna?
Hvar eruð þið, sem viljið réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á hlutabréfakaupum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á peningamarkaðssjóðum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað lífeyrinum ykkar?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við að bankarnir afskrifi skuldir auðmanna?
Hvar eruð þið, sem viljið ekki selja þeim fyrirtækin aftur skuldlaus?
Hvar eruð þið, sem horfið á aldraða foreldra flutta hreppaflutningum?
Hvar eruð þið, sem viljið jafnræði?
Hvar eruð þið, sem sjáið húsnæðislánin ykkar rjúka upp?
Hvar eruð þið, sem hafið misst vinnuna?
Hvar eruð þið, sem viljið kosningar og nýja stjórn?
Hvar eruð þið, sem teljið réttlætiskennd ykkar misboðið?
Hvar eruð þið, sem eruð að lenda í heljargreipum verðtryggingar - sumir aftur?
Hvar eruð þið, sem viljið láta frysta eigur auðmanna?
Hvar eruð þið, sem fordæmið leynd og ógegnsæi aðgerða stjórnvalda?

Hvar er samviska ykkar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég mun mæta eins og undanfarna 13 laugardaga á mótmæla/samstöðufundinn á Austurvelli á morgun laugardag.  Og ég ætla að hafa börnin mín með mér, þau sem ekki eru að vinna eða fyrir norðan. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.1.2009 kl. 03:26

2 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ég er allavega hér og mæti á fundinn á morgun.  

Ég bara þoli ekki þessa hallærislegu flokkshollustu.   Þetta er eins og sértrúarsöfnuðir, heilþvegnir semsagt.  Flokkurinn skiptir meira máli en fólkið.  Mér finnst flokkshollusta púkaleg.  

Sjálfstæðisflokkurinn er verstur.  Það synda allir á eftir hverjum öðrum og allir gera eins. 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 17.1.2009 kl. 03:55

3 identicon

Eins og þú bendir á hér hafa auðmennirnir nú tekið upp svartamarkaðsbrask með gjaldeyri þjóðarinnar. Þeirra hugur er bundinn við eyjur Karabíska hafsins. Hagsmunir þjóðarinnar er ekki þeirra deild. Og Þyrnirós sefur (FME, SÍ, efnahagsbrotadeild, stjórnvöld).

En það er ekkert lát á spillingunni. Gullkálfar Kaupþings fengu 50 mja kr. lán sem þeir færðu í eignarhaldsfélög og síðan aflétti stjórn bankans persónulegri ábyrgð og færði þeim þar með lánið að gjöf. En... það þarf að greiða skatt af gjöfinni segir skattstjóri. Nú á að redda því vandamáli með kaupum á verðlausum bréfunum á gengi í lok september! (er þetta virkilega satt!). Einhver ráðherra mun víst eiga hagsmuna að gæta.

Þetta var í fréttum í gær. Það er af mörgu að taka. Þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Og það erum VIÐ, börnin okkar og barnabörn, sem þurfum að borga reikningana! (Auðæfin sem liggja á reikningum á Tortolla og Cayman).

Stjórnvöld hafa gefið skít í og hunsað algjörlega samkomurnar á Austurvelli og borgarafundi. Áróður þeirra um að þeir sem láti sjá sig á Vellinum séu vinstri grænir virðist hafa náð í gegn að einhverju marki. Ég hef aldrei verið VG og hef ekki hug á því, þó hef ég mætt á flesta fundina, svo er um marga fleiri. Mér er alveg sama þó ekki sé mótmælt nákvæmlega eins og "ég víl að mótmælt sé" Alltof margir sitja heima á þessum forsendum.

Ef ekki mæta meira en 8 þúsund í dag mun hunsunin halda áfram. Þeir sem ekki mæta eru (já, ég verð að segja það) að SAMÞYKKJA upplýsingaskortinn, ógegnsæið, yfirhilminguna, peningaflutningana, álögurnar, óheiðarleikann og spillinguna.

Það þarf að hreinsa útúr FME og og fá þangað heiðarlega, óspillta aðila, það þarf að kjósa í vor og fá óspillta ríkisstjórn. Ef það gengur ekki með friðsamlegum mótmælum munu öðruvísi mótmæli taka við. Það viljum við ekki.

sigurvin (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 05:08

4 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Af hverju er ekki búið að handtaka þessa menn ? gamalmenni stal lifrapylsu úr búð því hann var svangur, hann fékk dóm á sig. Ég er orðin alveg rugluð á þessu öllu. Af hverju eru eignir þessara manna ekki frystar? Hvað er það sem þessir menn skilja ekki en við öll hinn skiljum ? Hver er það sem ræður í þessu landi ? Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta er bara mafía, sem er að setja okkur á bóla kaf, og ef þetta fer ekki að hætta þá eigum við ekki eftir að rísa upp aftur.  Og þetta með Björn ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður hlusti á hann, það kemur ekkert af viti frá honum, nema þá helst afneitun.

Núna verða bara allir að mæta á mótmæli þetta getur ekki gengið svona. Við getum ekki verið búin að gefast upp, það er það sem þeir eru að bíða eftir, að þetta lognist bara útaf, það getur ekki verið að það sé það sem við viljum.

Sigurveig Eysteins, 17.1.2009 kl. 06:04

5 identicon

Kannski verður Sjálfstæðisflokkurinn betri þegar allir gömlu kallarnir eru dauðir.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 07:33

6 Smámynd: Heidi Strand

Þetta endar með að þjóðin tekur bara lögin í sinar hendur eins og hefur gerst í öðrum löndum.
Húnbogi, þetta er vont en versnar.

Heidi Strand, 17.1.2009 kl. 08:27

7 Smámynd: Einar Indriðason

*URGH!*

Einar Indriðason, 17.1.2009 kl. 09:08

8 Smámynd: Víðir Benediktsson

Er Hólmsteinninn horfinn af yfirborði Jarðar. Þessi athyglissjúki sjálfumglaði hrokagiggur sem talið hefur sig vita allt betur en allir situr uppi með það að kenningar hans gufuðu upp í skítalykt. Hann hefur hljótt um sig núna. Nú er karlgreyið í sömu sporum og gömlu Rússakommarnir sem hann hataði svo mjög og sleppti aldrei tækifæri til að niðurlægja þá. Venjulegt fólk gerir ekki greinarmun á ofurfrjálshyggju og öfgavinstristefnu. Hannes er því í góðum félagsskap núna.

Víðir Benediktsson, 17.1.2009 kl. 09:17

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég var að frétta að Ástþór Magnússon ætli að eyðileggja fundinn á Austurvelli, hefur boðað komu sína kl. 15.15 eða eitthvað slíkt ásamt fleirum.  Ég veit auðvitað að það er öllum heimilt að mótmæla, en þaft fólk virkilega að leggjas svona lágt að reyna að yfirtaka og eyðileggja fund hjá öðrm, löngu boðuðum og fyrirsjáanlegum.  Eftir því sem ég hef heyrt ætlar hann sér upp á pall og halda ræðu ofan í ræðumenn Raddar þjóðarinnar.

Þessi vitleysingur er kominn út fyrir allt svei mér þá.  Er eitthvað hægt að gera í þlessu ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.1.2009 kl. 09:53

10 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þótt þú sért mest lesni Moggabloggarinn finnst mér orðið tímabært að skrifin þín fari í blöðin líka. Sannfæringarkraftur þinn er svo mikill að m.a.s. Gunnar Th. er hættur að gera athugasemdir - en það er enn slatti af fólki sem ekki les á tölvu með morgunkaffinu.

Berglind Steinsdóttir, 17.1.2009 kl. 10:10

11 Smámynd: Anna

Ef ráðamenn vissu hvað væri þjóðinni fyrir bestu hvess vega sitjum við í djupum skit að skuldum og spillingu.

Anna , 17.1.2009 kl. 10:10

12 Smámynd: Einar Indriðason

Það verður virkilega aumt af Ástþóri ef hann ætlar að leggjast svo lágt, að skemma fyrir á þennan hátt.

Þá má eiginlega segja að Ástþór sé farinn að vinna FYRIR stjórnvöld í landinu, en ekki á móti þeim.

Aumt er það!

Einar Indriðason, 17.1.2009 kl. 10:14

13 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Eiríkur góður og vér dauðlegir hlustendur Ríkisútvarpsins þökkum fyrir menn einsog hann.  Ekki er hægt að segja það sama um Straum-Burðarás; þeirra kukl flokkast einfaldlega undir lándráð.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 17.1.2009 kl. 10:35

14 identicon

Er ekki hægt að slá vopnin úr höndum Ástþórs með því að bjóða honum að halda ræðustúf?

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 10:36

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er spurning hvað hægt er að gera.  Reyna að gera þetta friðsamlega, svo maðurinn geti ekki gert eitthvað úr þessu eins og síðast. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.1.2009 kl. 10:40

16 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Vona að sem flestir mæti í dag, takk enn og aftur.

Rut Sumarliðadóttir, 17.1.2009 kl. 11:14

17 identicon

það er alveg sjálfsagt að leyfa þeim ( Ástþóri )að komast þarna enn EKKI kl.15.15 og nú er verkefni fyrir lögregluna að passa það.

þetta er svo augljósleg skemmdarverk á friðsamlegum mótmælum, sem við látum ekki neinn eyðileggja !!!

ag (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 12:43

18 identicon

Mig langar að tilheyra samfélagi þar sem er gildin eru; réttlæti, jafnræði, jöfnuður.  Þar sem við höfum norðurlöndin okkur til fyrirmyndar.  Stefán Ólafsson er t.d. búin að stand vel vörðu um umræðu um hvað við erum að fjarlægjast norðurlöndin t.d. í velferðarmálum og er vel, og hefur bent á hvað jöfnuður hefur verið á undanhaldi.  Ég finn mig ekki í neinum flokki, er reyndar í dag skráð í tvo flokka (ég er leitandi) en kýs jafnvel hvorugan í næstu kosningum... því ég er svo lost.  Ég er svo hrædd um að eina ástæðan fyrir því að samfylkingin sé enn í ríkisstjórn sé heilsan á Ingibjörgu Sólrúnu. Hún tekur auðvitað ekki svona drastíska ákvörðun í miðjum veikindum, því hún hefur bara ekki orku eða athyglina til þess að fara úr ríkisstjórn. Þetta finnst mér erfitt fyrir þjóðina. Ég er eiginlega viss um að sannir samfylkingarmenn vilja ekki samstarf við SJÁLFSTÆÐISFLOKKINN (græða á daginn og grilla á kvöldin og vera sama um aðra bara á meðan þeir græða).  Og okkur vantar greinilega leiðtoga, annan en t.d. Ingibjörgu Sólrúnu (hún er veik, komm on, hún getur ekki á fullu gasi komið flokknum í annan farveg en hann er núna).

Best maður reyni að setja í forgang að mótmæla við Austurvöll, samt svo erfitt því maður á jú frídag og væri fínt bara að þrífa og gera eitthvað uppbyggilegt... en okey, skylda að mæta.

Hrefna (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 12:44

19 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Ef Ásþór ætlar að gera tilraun til að eyðileggja fundinn þá verður fólk bara að koma til hans skilaboðum með góðu úúúúiiiiii.............. annars efast ég um að hann skilji það. Þetta er akkúrat það sem ríkisstjórnin bíður eftir. geta kallað okkur sundraðan skríl sem getur ekki verið sammála um nokkurn skapaðan hlut. Sumir eru bara svo sjálfumglaðir að þeir skilja það ekki, sjá ekki lengra en nefið á sér.

Sigurveig Eysteins, 17.1.2009 kl. 12:46

20 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Úff..... þvílíkt forarsvað sem við erum komin í. 

Ég held að Þröstur Helgason tali fyrir þjóðina;  Okkur gæti ekki verið meira sama um hvað þeir sjálfstæðismenn (með litlu ess-i) segja á einhverjum fundi.   Þeir hafa fengið uppsagnarbréfið en kunna víst ekki að lesa það.

Ég vil að RÚV.... sjónvarp allra landsmanna.... sjónvarpi frá öllum fundum á Austurvelli héðan í frá.  Þá er tækifæri fyrir sjálfskipaða ráðamenn þjóðarinnar til að fylgjast með og heyra hvað fólkið fer fram á.

Anna Einarsdóttir, 17.1.2009 kl. 12:59

21 Smámynd: Víðir Benediktsson

Ég vil að RUV sjóvarpi frá Akureyri. Þar er enginn Ástþór, engar rúður brotnar, engum eggjum kastað, lögreglan sést ekki nálægt mótmælendum. Kannski það sé ástæðan fyrir áhugaleysi fjölmiðla á mótmælum þar.

Víðir Benediktsson, 17.1.2009 kl. 13:19

22 Smámynd: Steingrímur Helgason

Já, alveg rétt, það er að koma landzfundur ...

Steingrímur Helgason, 17.1.2009 kl. 14:20

23 Smámynd: Bó

Algerlega sammála þér Kristinn Pétursson.

En af hverju ert þú, færsluhöfundur, að reyna að fá sem flesta til að mæta á mótmælafundi? Hvaða trúarbrögð eru það? Hvaða vandamál leysast við að sem flestir mæti á mótmælafundi á Íslandi? Hvernig leysir það fjármálakreppu heimsins? Hvaða vandamál leysast ef réttkjörnir fulltrúar þjóðarinnar sem mynda ríkisstjórn Íslands segi af sér?

Hvernig væri að þið mótmælendadýrkendur færuð nú að einbeita ykkur að því að koma Íslandi upp úr þeirri lægð sem það er í með einhverjum eðlilegum hætti? Ef þú, færsluhöfundur, fengir nú allan þennan fjölda Íslendinga sem að þú vilt að mæti á mótmælafundi til að vinna t.d. að nýsköpunarverkefnum í staðin fyrir að lufsast niður í bæ með mis gáfuleg slagorð í munni, þá kæmumst við örugglega talsvert fyrr upp úr þessum erfiðleikum. Notaðu frekar þessa miklu orku sem þú greinilega býrð yfir í eitthvað nýtilegt og notaðu þennan mikla sannfæringarmátt, sem þú augljóslega líka býrð yfir, í að fá fólk til að gera eitthvað uppbyggilegt. Þá fyrst myndi ég meta þig að meiri, því þessi tilgangslausa barátta þín til að fá sem flesta til að standa eins og illagerðir hlutir í miðbær Reykjavíkur (og víðar um land) skilar okkur engu.  

, 17.1.2009 kl. 16:05

24 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Það er komið svar frá Norræna Íhaldsflokknum  Þetta eru ekki einungis öfgatrúaðir, heldur rasistar líka

Komst því miður ekki á fundinn, er veik en kem þá pottþétt næst.

Það hefur maður hér fengið dóm fyrir að stela ostaköku úr matvöruverslun.  Það er ekki einu sinni neinn handtekinn fyrir að svindla á þjóðinni og arðræna hana og kúga.  Er þetta lið orðið svona sýkt af spillingu að það sér ekki hvað hefur í raun gerst alveg eins og margir afbrotamenn sem sjá alls ekki sök sína?

Margrét St Hafsteinsdóttir, 17.1.2009 kl. 17:12

25 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Einhverra hluta vegna verður mér illt í maganum þegar ég heyri orðin "alþjóðleg fjármálakreppa".  Þegar stjórnmálamenn, eins og Valgerður, Geir og fleiri, segja þessi orð; ALÞJÓÐLEG FJÁRMÁLAKREPPA eru þau að láta sem við kjósendur séum heimsk !   Þessi bankabóla okkar kom alltaf til með að springa.... hún gerði það bara örfáum vikum fyrr út af utanaðkomandi aðstæðum en hún hefði ella gert.  Þessi tvöþúsundogtvöhundruð milljarða króna skuld okkar varð ekki bara til út af einhverju sem gerðist erlendis. 

Skrambans fokking fokk.

Anna Einarsdóttir, 17.1.2009 kl. 17:25

26 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Hanna Lára,

þú ert frábær að venju. Ástþór er haldin einhverju sérkennilegu heilkenni sem ég átta mig ekki á. Hann boðar það á sinni nýju heimasíðu að hann ætli að trufla alla næstu mótmælafundi. Hvað gengur manninum til? Getur hann ekki bara boðað sinn eigin fund?

Með Landsfund Sjálfstæðisflokkinn þá er sjálfsagt mikið af góðu fólki þar Kristinn. Ég tel reyndar að þetta ágæta fólk hafi mjög takmörkuð völd og komi illa góðum málum áfram. Flokksklíkan stjórnar öllu.

Hvað um það, það er fáranlegt að örlög þjóðarinnar hanga á einhverjum landsfundarsamþykktum en ekki starfi kjörinna fulltrúa okkar.

Gunnar Skúli Ármannsson, 17.1.2009 kl. 20:26

27 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nokkuð merkilegar upplýsingar um þessa nýju leið til að hagnast á gjadeyrisviðskiptum. Ég heimsótti kunningja minn sem búinn er að flakka milli sjúkrastofnana undanfarna mánuði. Hann sagði mér sögu sem ég lagði engan trúnað á fyrr en núna þegar ég las þetta. Meðal annars sem hann sagði mér af sínum högum var að hann hefði ekki lengi haft jafn rúm fjárráð eins og nú. Hann hafði átt nokkrar krónur í sjóði og farið að kaupa dollara af rælni. Á síðustu viðskiptum hafði hann hagnast um 170 þús krónur. Þetta sagði hann að væri vandalaust. Alltaf væri verið að auglýsa niðursett verð á fargjöldum til útlanda og málið væri bara að grípa tækifærið og kaupa sér miða á svona sjöþúsundkall eins og oft væri færi á. Kaupa síðan dollara fyrir hálfa milljón og-"þá geturðu bara hent miðanum!" Hversu margir ætli að séu búnir að leika þetta undanförnu?

Árni Gunnarsson, 17.1.2009 kl. 20:48

28 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eiríkur Guðmundsson er reyndar einhver leiðinlegassti penni landsins. Munnræpan í honum er nánast yfirnáttúruleg.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.1.2009 kl. 01:14

29 identicon

Hef verið að fylgjast með umræðunni og er nú svo komið eftir mótmæli dagsins að ég hugsa eigum við eitthvað skárra skilið.Það eru sömu helv. flokka drættirnir í gangi og settu okkur á hausinn sem þjóð. Nú hlakkar í Geir, Davíð og félögum við að sjá ruglið sem er í gangi, við sem mótmælum erum að eyðileggja okkur innan frá.Það er bara þannig að þú skilur ekki útundann þó þér þykki einhver leiðinnlegur,leifið 'Asþóri að tala ansk hafi það og þá er það frá.Annars er það mín skoðun að menn eigi að mótmæla fyrir opnum tjöldum sá sem er með klút fyrir andlitinu hefur eitthvað að fela. Það hafa nú liðið 15 vikur og allt er  nánst óbreytt.Ég held svei mér þá að næst sé að berjst við lögguna á Austurvelli .
En við verðum að sína samstöðu og dagurinn í dag var ömulegur.

Gummi Helga (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 01:50

30 identicon

Tja, misjafn er smekkur manna, Sigurður. Mér þykir vaðallinn í Eiríki einmitt oft jaðra við snilld. Og 39 þrep er ein betri bóka sem hefur verið skrifuð á íslensku. Finnst mér. Gaman að þessu:)

Guðmundur (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 01:57

31 Smámynd: Þórbergur Torfason

Ég sé að Kristinn Pétursson er enn við sama heygarðshornið. Hann mærir þá mest sem hentu honum út. Á honum sannast hið fornkveðna að þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.

Vesalings mannhörmungin.

Þórbergur Torfason, 18.1.2009 kl. 02:11

32 identicon

Ég mætti í dag og ég mæti næsta laugardag ef á kost á því sökum vinnu. Og það er gott til þess að vita og horfa uppá að fólk er ekkert að gefast upp á því að mótmæla. Þökk sé þér Lára Hanna. Þökk sé Herði. Þökk sé Gunnari leikstjóra. Þökk sé þeim sem þorðu.

Það er gott að uppgötva  það að það leynist manndómur eða kvenndómur ef svo skyldi kallla meðal íslendinga.
Það er gott að vita til þess að sumir hverjir eru ekkert að gefast upp eftir 100 daga í þöggun.
Það er gott að upplifa sjálfan sig meðal hinna réttþenkjandi og siðvæddu og taka slaginn næstu 100 daga.

Gott að hafa fordæmi og fyrirmynd sem ykkur ágæta fólk sem berst fyrir siðvæðingu, réttlæti og umbótum á handónýtu sérhagsmunarkerfi siðspilltra eiginhagsmunaseggja.

Tökum slaginn næstu 100 daga og svo áfram og áfram ...................

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 02:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband