28.1.2009
Kompássprengjur í Kastljósi
Vonandi hafa sem flestir séð Kastljósið í gærkvöldi. Ef ekki þá er brotið sem ég vísa í hér fyrir neðan. En eins og allir muna var Kompás tekinn af dagskrá Stöðvar 2 sl. fimmtudag, 22. janúar og aðstandendum þáttarins sagt upp störfum um leið og Sigmundi Erni og Elínu, konu hans. Ég hef áður skorað á RÚV að ráða Sölva Tryggvason sem var látinn hætta í Íslandi í dag um áramótin. Ekkert bólar á þeirri ráðningu og ég veit ekki hvað varð um Sölva.
Enn skora ég á RÚV og nú að sýna Kompássþáttinn og jafnvel taka þættina upp á arma sína. Ef með þarf er skorað á væntanlegan menntamálaráðherra að veita fé til RÚV í þeim tilgangi einum saman - og til að efla fréttastofu og rannsóknarfréttamennsku í fréttum og Kastljósi. Ég vil sjá þennan Kompás. Ef ég ætti eintak gæti ég sýnt hann hér.
Lokaorð Kristins Hrafnssonar voru alveg hárrétt: "Maður spyr sig náttúrulega bara um ábyrgðarhlut og ábyrgðarsýn eigenda Stöðvar 2 á þjóðfélagslegt hlutverk og stöðu fjölmiðilsins inni í samfélaginu á þessum ögurstundum sem við lifum á... Að draga þarna úr fréttaþjónustu og draga úr getu Stöðvarinnar til þess að sinna gagnrýnni umfjöllun." Oft var þörf en nú er algjör nauðsyn á að efla allan hlutlausan fréttaflutning og rannsóknarblaða- og -fréttamennsku til að upplýsa þjóðina um sannleikann á bak við efnahagshrunið og kreppuna.
Því verður ekki á móti mælt að ábyrgð fjölmiðla er gríðarleg, jafnvel meiri en starfsfólk þeirra gerir sér almennilega grein fyrir. Ábyrgð þeirra er mikil undir venjulegum kringumstæðum en margföld eins og málum háttar þessa dagana, vikurnar og mánuðina. En hér er Kompás í Kastljósi.
Vísir bar blak af eigendum sínum í gærkvöldi og birti þetta klukkan rúmlega ellefu:
Gömul frétt??? Fimm daga gömul frétt um mögulegan stórþjófnað eða fjársvik og jafnvel landráð sem ekki er búið að taka á - gömul frétt?! Við megum ekki hugsa svona! Þetta er ekki gömul frétt fyrr en málið er upplýst. Og svo er þetta ekki nema hálfsannleikur. Upphæðir eru allt aðrar og margfalt lægri í frétt Stöðvar 2, ekkert er minnst á skattaskjól á bresku Jómfrúreyjum og fleira nefndi Kristinn sem fréttin tekur ekki á eins og heyra og sjá má hér í tilvitnaðri frétt:
Í viðtali seinna í Kastljósi dró Jón Daníelsson í efa að hægt væri að frysta eigur auðmanna og ná í skottið á þeim - sjá hér. Erfitt, flókið, alþjóðlegt vandamál eða eitthvað í þá áttina. Þá spyr ég, því ég er ekki í neinum vafa um að sukkið í bönkunum var ólöglegt: Til hvers er Interpol? Eins og sjá má á þessari síðu kemur Interpol víða við. Bendi sérstaklega á undirsíðurnar Corruption og Financial and high-tech crime.
Undir "Corruption" segir m.a. þetta: "INTERPOL, in partnership with the StAR Initiative, is working towards the recovery and return of stolen assets. This project allows INTERPOL to actively engage national law enforecement bodies in co-ordinated efforts to trace, seize, confiscate and return public funds to victim countries". Ég fann til undarlegrar samsömunar þegar ég las þetta. "Financial and high-tech crimes" tekur m.a. á fjárböðun (money laundering). Var ekki verið að tala um fjárböðun Rússagulls í gegnum Landsbankann á Íslandi í boði rússnesku mafíunnar? Á ekkert að rannsaka það mál?
Ísland er aðili að Interpol. Bað fráfarandi ríkisstjórn þá um aðstoð við að finna peningana okkar? Mun ríkisstjórnin sem er í burðarliðnum gera það? Eða verðum við, almenningur, að senda Interpol póst og fara fram á aðstoð. Líkast til eru þúsundir milljarða í húfi - og okkur munar heldur betur um minna.
Að lokum: Lesið þetta - og takið eftir þessu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:07 | Facebook
Athugasemdir
Jey, jey! góður Hörður Kannski verður hægt að koma böndum yfir efnahagsbrotamennina þegar Davíð er farinn frá! Kannski með aðstoð Interpol. Við endurheimtum a.m.k. aldrei aftur æruna ef þessir voguðu þjóðarauðsræningjar eiga að komast upp með að grýta okkur í hóp fátækustu þjóða heims um einhverra áratuga skeið á meðan þeir fitna af digrum ránsfegnum!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.1.2009 kl. 04:32
Það "borgar" sig greinilega að þekkja réttu mennina!
Kjartan Pétur Sigurðsson, 28.1.2009 kl. 07:31
Sæl Lára, þú varst að velta fyrir þér hvar hann Sölvi væri í dag, en hann er kominn á Skjá 1 með þáttinn Málefnið ásamt Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur. Sjá heimasíðu þeirra hér: http://skjarinn.is/einn/islenskt/malefnid/
Magnús Þór Friðriksson, 28.1.2009 kl. 08:31
Stjórnvöld munu ekki bera sig eftir ránsfénu af neinni alvöru enda annað hvort flækt inn í spillingarvef þessara "viðskipta" eða skortir nauðsynlegt siðferðisþrek til að standa í því að bögga vini sína.
Fólkið í landinu þarf að þrýsta á kyrrsetningu eigna þessara manna (sem tóku innlán, sjóðsfé og millibankalán til eigin nota) og alþjóðlega rannsókn á afdrifum fjársins.
Ef ekkert verður að gert þá mun Ísland líða undir lok sem réttarríki og velferðarþjóðfélag.
TH (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 09:25
Af hverju vill Ingibjörg Sólrún ekki fallast á kröfur Vinstri Grænna um frystingu eigna? Vonandi ekki vegna sterkra tengsla Jóns Ásgeir inní Samfylkinguna.
Dísa (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 09:39
Alltaf versnar það. Það setur að mér hroll. Hvaða fréttir fáum við á morgun? Kompásþátturinn er visælasti þáttur stöðvar2 svo það er augljóst að það eru annarlegar ástæður fyrir því að leggja hann niður. Vonandi verða hópuppsagnir áskrifenda í kjölfarið.
Ég rak eyrun í þessa setningu hjá Jóni Daníelssyni: "Hátekjuskattur er vinnuletjandi" Þessi gamla, leiðinlega tugga hægri manna að hátekjuskattur dragi úr áhuga fólks til að ná árangri. Þá vaknar spurning: Hefur verið gerð einhver rannsókn á því? Hefur þessi kenning fengið staðfestingu einhversstaðar?
Núna finnst mér sjálfstæðismenn haga sér eins og þeir séu í kappræðukeppni. Málefnin og hagur þjóðar eru gleymd.
Ég get ómögulega séð að auðmennirnir þurfi að taka því illa þó eignir þeirra séu frystar og þeir séu vinsamlegast beðnir um aðstoð við að bæta skaðann. Á sama hátt og ef ég klessi á bíl nágrannans og er í órétti, þá leggst kostnaðurinn af tjóninu á mig og ég reyni þar að auki að hjálpa nágrannanum að lágmarka skaðann. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 10:38
Ég mundi nú ekki taka þetta alveg trúanlegt með þetta lán til Roberts. Ég yrði að sjá lánveitingu áður en ég triði þessu. Lögðu stjórnarformenn Kaupþing ekki bara þessa peninga inn á bankareikning Roberts sem eru þeirra eigin peningar. En þeir eru svo forhertir þeir munu ljúga sér út úr spillingu á ein eða annan hátt.
Einnig vil ég upplýsa her. "The Sun" birti grein 18 desember 2008. Eggert Magnússon og Björgólfur Guðmundsson eigendur West Ham voru búinr að lofa félaginu 100m punta til liðsins. Björgólfur er búin að leggja nú þegar 120m punta í liðið.
Hvaða bankastjóri skrifaði undir þessi lán fyrir þá. Þeir eru jafn sekir.
Það er ekki að furða að landið er á kúpuni þar sem auðmenn landsins hafa fengið að mjólka bankanna.
Anna , 28.1.2009 kl. 12:03
Það trúir því ekki nokkur maður að Kompás hafi bara verið lagður niður vegna fjárskorts. Af hverju var þá ekki sendur út þáttur sem var tilbúinn til sýningar og vinna og peningar höfðu verið lögð í?
Meira hvað þetta er rotið.
Margrét Birna Auðunsdóttir, 28.1.2009 kl. 12:12
Ef Stöð 2 sagði frá þessu tókst þeim að finna leið til að gera það án þess að það vekti neina eftirtekt - enda er þessi Óskar Hrafn yfir maður allra frétta 365 þar á meðal Fréttablaðsins og visir.is og hefur síðust misserin tekist að breyta fréttastofu Stöðvar 2 í hreina PR-stofu og áróðursfréttastofu í anda USSR. Kosturinn við það er sá að þá fara allir að sjá falsið og hræsnina á Fréttastofu sem þannig vinnur og enginn tekur lengur mark á neina sem þaðan birtist.
Allur fréttaflutningur af mótmælum og mótmælendum er þessu skýra marki brenndur en fréttastofa Stöðvar2 gleymir hve margir voru sjálfir þátttakendur og geta vitnað við sína vini og fjölskyldumeðlimi um lygina.
- Eins var í gær þegar Sindri fyllti í eyðurnar í viðtali við Þorgerði Katrínu og leyfði sér að staðhæfa ítrekað að ISG hefði ekki getað umborið vinkonu sinni Þorgerði Katrínu að verða fyrst kvenna forsætisráðherra og það hefði verið stjórnarslita ástæðan - en ekkert um Davíð eða að forsætisráðuneytið hefði yfir Seðlabankanum að segja.
Helgi Jóhann Hauksson, 28.1.2009 kl. 12:22
Ef þátturinn var tilbúinn eða næstum tilbúinn myndi hver heilvita stjórnandi nýta sér það verk.
Helgi Jóhann Hauksson, 28.1.2009 kl. 12:24
Meistari Þórhallur hjá RUV lék þarna snilldarlega á Stöðvar 2 - mafíuna, sem greinilega er stjórnað út í eit af eiganda sínum.
Stefán (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 13:20
Þáttur sem búið er að framleiða og greiða er tapað fé nema hann sé sýndur. Miðað við fjárhagsstöðu 365 mætti ætla að menn hendi ekki verðmætum. Eða hvað? Aumt yfirklór um að þátturinn hafi ekki haft lengur fréttagildi er bara til að ýta undir meiri tortryggni í þeirra garð.
Ævar Rafn Kjartansson, 28.1.2009 kl. 13:38
"Maður bara missti höfuðið,"Eins og einn sveitungi minn sagði eitt sinn yfir ótrúlegum fréttum,yfir þessum Kastljós þætti. Svo er stjórnmálamönnum alltaf kennt um það er erfiðra um að tala að fást við Mafíu. það hafa Ítalir fengið að reyna.
Ragnar Gunnlaugsson, 28.1.2009 kl. 14:06
Nú kemur það heldur betur til með að nýtast fyrrverandi stjórnvöldum og grúppíum þeirra hversu erfitt verður að finna vinstrisinnaða lögmenn, hvað þá einhverja sem eru sérfróðir í eignarétti.
Einnig eiga embættisveitingar í stöður dómstóla eftir að nýtast þessum sömu aðilum vel.
Það verður mjög erfitt að brjóta þetta lið á bak aftur enda eru þau búin að byggja kerfið allt upp í kringum sína hagsmuni í amk 90 ár.
Fyrstu viðbrögð fjölmiðla var að finna lögfræðinga til að draga úr voninni um réttlæti hjá áhorfendum sínum enda er það besta leiðin til að fá fólk til að hætta að berjast :(
Sóley Björk Stefánsdóttir, 28.1.2009 kl. 15:23
Það þarf að fá her erlenda rannsóknarnefnd. Eftir hverju er verið að bíða. Stöð 2 fjölmiðlar, fyrirtæki,bankar. Auðmenn eiga peninga í þessu öll....er fólk ekki farið að átta sig á þessu enn. Þessir menn stjórna her öllu. Einnig ráða þeir verðlæginu í þjóðfélaginu. Og það virðist vera að ríkið getur ekkert gert í málunum.
Anna , 28.1.2009 kl. 16:47
Gætu RUV sýnt þennan þátt?
Hólmdís Hjartardóttir, 28.1.2009 kl. 17:10
Sæl Lára Hanna og kærar þakkir fyrir þitt frábæra starf og innlegg á síðustu vikum og mánuðum.
Ég bý í Bretlandi og verð að benda þér á viðtal við Geir H. Haarde á Newsnight á BBC2 fyrr í kvöld (28.01.09). Hef nefnilega oft óskað eftir að sjá vana nagla eins og Jeremy Paxman yfirheyra íslenska ráðamenn eða viðskiptamenn. Frekar stutt viðtal en samt, eins og bjóst við þá vafðist honum aðeins tunga um tönn þegar hitti loks fyrir almennilegan spyrjenda - svei mér ef viðurkenndi bara ekki einhverja ábyrgð á stöðunni !!!!!
Finnst þetta viðtal verðskulda athygli Íslendinga og vonast til að þú getir birt það hér á þessari frábæru vel lesnu síðu þinni.
Baráttukveðjur
ASE
ASE (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 22:55
alveg sammála
TH 28.1.2009 kl. 09:25
"Ef ekkert verður að gert þá mun Ísland líða undir lok sem réttarríki og velferðarþjóðfélag."
Og nú má Framsóknarflokkurinn ekki hlaupast undan merkjum þó einhver hagfræðingurinn í London hafi dregið í efa að hægt væri að frysta eignir auðmanna. Þetta VERÐUR einfaldlega að GERA ALLT til að þá réttu seku til ábyrgðar og INTERPOL er klárlega rétti aðilinn í þeim málum.
Við þurfum ALLT upp á borðið, LÍKA hjá komandi ríkistjórn,
Tíminn er naumur !!!
ag (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 23:04
Eitthvað virðast ráðningasamningar fréttamanna vera öðruvísi úr garði gerðir heldur en ráðningasamningur Davíðs Oddssonar
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 28.1.2009 kl. 23:30
Fyrst stoppar frétt í DV....Síðan St2
Hvað er sameiginlegt með þeim annað en að miðla þeim fréttum sem þeim hentar, nú eða hentar ekki..
Í stuttu. Jón Ásger Jóh. ! (BÓNUS !!) Hættum nú að versla við þessa glæpona !
ppfffffffff..........
Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 00:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.