Málfrelsi - skoðanafrelsi - tjáningarfrelsi

73. grein stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands hljóðar svo: "Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum."

Flott - allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að láta í ljós hugsanir sínar. Enga ritskoðun eða tálmanir á tjáningarfrelsi. Glæsilegt - svona er Ísland... eða hvað? Nei.

Ekki aldeilis. Okkur eru væntanlega flestum í fersku minni ýmsar uppákomur í gegnum tíðina þar sem fólk hefur verið látið gjalda orða sinna og skoðana sem voru ekki stjórnvöldum eða vinnuveitendum þeirra þóknanlegar. Þessi skoðanakúgun hefur valdið ótrúlegri hræðslu í þjóðfélaginu og ótta margra við að tjá sig og segja sannleikann um ýmis málefni. Fólk þarf að óttast atvinnumissi, faglegan róg og fleira miður skemmtilegt ef það fylgir sannfæringu sinni. Geðslegt þjóðfélag? Nei.

Líka á Alþingi Íslendinga. Við vitum mætavel að margir þingmenn greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni þótt 48. grein stjórnarskrárinnar hljóði svo: "Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum." Þeir virðast æði oft vera trúrri flokknum en sannfæringu sinni eða fólkinu í landinu. Því ef þingmaður greiðir atkvæði gegn vilja flokksins eru til ýmis ráð til að gera þingmanninn "skaðlausan" og þar með áhrifalausan með öllu. Við höfum fordæmi fyrir þessu á Alþingi. Virðing fyrir sannfæringu alþingismanna? Nei.

Guðmundur Gunnarsson, verkalýðsforingi, minnist á ILO 58 regluna í þessari bloggfærslu. ILO stendur fyrir International Labour Organization eða Alþjóðaatvinnumálastofnunina. Reglan sem Guðmundur vitnar til gengur út á að atvinnurekandi verði að tilgreina ástæðu fyrir uppsögn starfsmanns. Guðmundur segir að flestar Evrópuþjóðir og margar þjóðir Asíu hafi staðfest þessa reglu - en ekki Ísland. Hér má reka fólk úr vinnu og svipta það lífsviðurværinu eftir geðþótta yfirmanna, m.a. ef þeim líkar ekki við skoðanir starfsmannsins. Skoðana- og tjáningarfrelsi? Nei.

Halldór Kristinn Björnsson, bifvélavirki hjá Toyota og virkur andófsmaður, skrifaði bloggfærslu og var rekinn úr vinnunni. Bloggfærslan ógurlega er hér. "Skortur á virðingu gagnvart samstarfsmönnum og vilja til samstarfs."

Þröstur Helgason, blaðamaður á Morgunblaðinu og ritstjóri Lesbókar, skrifaði meðal annars þennan pistil um miðjan janúar og var rekinn um síðustu mánaðamót. "Skipulagsbreytingar."

Þröstur Helgason - Mbl. 15.1.09

Halla Gunnarsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu og þingfréttamaður þess, tók virkan þátt í Borgarafundunum, hélt ræðu á einum þeirra og talaði fyrir þeim. Hún var líka rekin um síðustu mánaðamót. "Skipulagsbreytingar."

Málfrelsi? Skoðanafrelsi? Tjáningarfrelsi? Hverjir ráða þarna för og hvaða hvatir liggja að baki? Hver hefur hag af því að hér ríki áfram ótti við að tjá skoðanir sínar? Margir sem fjalla um viðkvæm mál, einkum þau sem snerta pólitík og auðmyndun einhvers konar, hafa fundið ítrekað fyrir hræðslu fólks við að tjá sig opinberlega - meira að segja ég.

Ómar Ragnarsson hefur fundið harkalega fyrir þessari ógnun og fjölmargir vísindamenn, svo dæmi sé tekið, hafa ekki þorað að stíga fram með upplýsingar t.d. hvað varðar jarðgufuvirkjanir og ótalmargt fleira sem kæmi sér illa fyrir ríkjandi yfirvöld eða vinnuveitendur þeirra. Sjálf hef ég fengið fjölmörg ummæli, bæði í síma og tölvupósti, þar sem mér er þakkað og hrósað fyrir að hafa kjark og þor til að skrifa það sem ég skrifa og birta það sem ég birti. Þó er ég aðeins að segja skoðanir mínar og það sem ég tel sannleika - og ég er nú bara pínulítið peð í samfélagi mannanna.

Agnes Bragadóttir, blaðamaður, skrifaði athyglisverða grein um þetta í nóvember 2007 sem hún kallaði Hræðsluþjóðfélagið (smellið þar til læsileg stærð fæst). Viljum við að þjóðfélag framtíðarinnar verði áfram hræðsluþjóðfélag? Ekki ég.

Agnes Bragadóttir - Mbl. 12.11.07


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vill fólk núna viðurkenna að ,,nafnleysi"  á vefmiðlum gæti bjargað einhverjum frá svona örlögum ?

JR (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 22:45

2 identicon

Mig langar að benda á að fjölmiðlar á Íslandi segja ekki frá því sem er að gerast hér í samfélaginu. Atvinnulaust fólk verður fyrir því að það fær ekki greiddar út bætur vegna "mannlegra mistaka" hjá stofnunum. FÓLK Á EKKI AÐ BORÐA. Það er enginn að segja frá þessu. Fólkið kemur ekki að fyrra bragði til fjölmiðlanna og segir frá. Fjölmiðlar eiga að leita þetta fólk uppi og veita stofnunum aðhald með frásögnum af daglegu lífi sístækkandi hópa Íslendinga sem eiga ekki fyrir mat. HVAÐ ER AÐ SKE HÉR Á LANDI?

Margrét (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 23:06

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Mikið rétt - mikið rétt.

Arinbjörn Kúld, 5.2.2009 kl. 23:09

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég þori nú varla að athugazemdast við dona færzlu.

Steingrímur Helgason, 5.2.2009 kl. 23:26

5 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þarna.... eins og oft áður.... hittir þú beint í mark, Lára Hanna !

Anna Einarsdóttir, 5.2.2009 kl. 23:48

6 Smámynd: Baldvin Jónsson

JR, þetta er einmitt mergurinn málsins. Ég vill búa í samfélagi þar sem að ég GET skrifað undir nafni án þess að þurfa að verja það sérstaklega.

Baldvin Jónsson, 6.2.2009 kl. 00:00

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þrælsótti við yfirmenn á að vera liðin tíð. Það er ekki það sama og virðing. Á þessum vinnustað (TYOTA) ríkir ekki gagnkvæm virðing og jafnrétti. Skrif mannsins eru skiljanleg og sýna að þarna er starfsmönnum mismunað milli stétta. Viðbrögð fyrirtækisins segja meira um hugsanagang yfirmanna en þeir gera sér grein fyrir. Tímarnir eru erfiðir í þjóðfélaginu og það er verkefni okkar allra að komast í gegnum erfiðleikana. Þarna vantar samstöðuna og talið eðlilegt að yfirmenn njóti fríðinda á meðan almennir starfsmenn þola mikla launaskerðingu. Slíkt er afar óeðlilegt, svo ekki sé meira sagt.

Verkalýðshreyfingin hefur í mörg ár barist fyrir því að ILO samþykktin taki hér gildi, en ekki haft erindi sem erfiði. Nú erum við að sjá það mjög greinileg hvers vegna atvinnulífið og aðrir hafa þumbast. Til að gat hent þeim óþægu út án skýringa.

Það er víða pottur brotinn og mikið verk fyrir höndum til að ná fram fullum og jöfnum rétti allra.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.2.2009 kl. 00:15

8 identicon

Það hlýtur að fara að styttast í að þú verðir rekin Lára. Þú tekur á málum sem aðrir þegja yfir. Það getur ekki gengið endalaust. Þú færð uppsagnarbréf á næstu dögum. Þú ert að gera góða hluti og ég nýt þess að koma hér og fá að vita hlutina eins og þeir eru.

Þórður Möller (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 00:23

9 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ertu ekki örugglega sjálfstætt starfandi Lára Hanna?  Heldurðu að hún reki sig vegna þessa alls Þórður?

Það er möguleiki, ég myndi líka reka mig ef ég væri hún. Eyðir öllum sínum tíma í efnissöfnun fyrir vitundarvakningu þjóðarinnar á blogginu :)

Baldvin Jónsson, 6.2.2009 kl. 00:30

10 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér duttu í hug orð úr vísu Kn.  Haltu kjafti hlýddu og vertu góður.  Það er lítið málfrelsi hér á landi, Toyota umboðið hefur greinilega vanvirt málfrelsið.   Ætli starfsmaðurinn brottrekni, hafi undirritað trúnaðarskjöl að hann mætti ekki tjá sig um fyrirtækið?  Það er skömm að þessu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.2.2009 kl. 01:49

11 identicon

Þetta er ein af meinsemdunum í okkar þjóðfélagi. Grein Agnesar er góð, síðasta málsgreinin segir margt.

Sá einu sinni í útlandinu auglýsingu um "hotLine" sem hringja mátti í nafnlaust ef maður hafði upplýsingar um eitthvað misjafnt. Í okkar landi er ekki talin ástæða til að gera "uppljóstrurum" auðvelt fyrir. (Var hugsað til starfsfólks "á gólfi" hjá bönkunum, sem eflaust hefur séð sitt af hverju, jafnvel annast hinar skrautlegustu millifærslur)

Hér er skúrkurinn sá sem kjaftar frá. Skondnasta dæmið er þegar þýskur skattrannsóknarmaður kom til að rannsaka skattsvik við hrossakaup (sem allir vissu að blómstruðu). Þá sá landbúnaðarráðherrann ástæðu til að hafa hin ljótustu orð um þennan illa sendiboða.  Annað dæmi er um heilbrigðiseftirlitsmanninn sem kjaftaði frá sóðaskap við kjúklingabú, hann var að sjálfsögðu hrakinn úr starfi.

Svo hneykslast menn á andlitslausum mótmælendum. Ætli yfirmönnum hetjunnar Halldórs hafi ekki verið fullkunnugt um virka þátttöku hans í mótmælunum.

Færsla Guðmundarsem þú vitnar í er athyglisverð. Sjálfstæðismenn hafa staðið í vegi fyrir ILO58, en það er ekki eina ástæðan, hin er handónýt verkalýðsforusta.

sigurvin (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 02:16

12 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er svo hneyksluð á brottrekstri unga mannsins að mig skortir orð til að lýsa henni! En þú, Lára Hanna, hefur svo sannarlega gert því skil sem þarf að segja um þetta mál.

Ég held að allir viti og viðurkenni m.a. að hér hefur ríkt skoðanaþöggun. Ég trúi því hins vegar ekki að neinn vilji búa við þetta! Núna er tækifæri til að snúa blaðinu við en við verðum að standa saman til að fá þessu breytt.

Þess vegna verðum við að hugsa rökrétt og átta okkur á því hver hefur búið þessa þöggun til? Hvað það er sem má ekki segja frá? Hverjir það eru sem þöggunin á að ná yfir? og hverjir það eru sem eiga að þegja? Eða í stuttu máli hvað er verið að verja með þögguninni og á hverju/-um hún bitnar?

Ég reikna með að flest hugsandi fólk geti gefið sér svarið/svörin við öllum þessum spurningum sjálft enda koma þau nær fullkomlega fram í lokum greinar Agnesar Bragadóttur. En við verðum að átta okkur á því að það er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri óþægilegu staðreynd lengur að hér viðgengst mjög hættuleg kúgun. Ef við bregðumst ekki við henni þá er tómt mál að láta sig dreyma um að hér muni ríkja fullkomið lýðræði í nánustu framtíð!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.2.2009 kl. 03:45

13 identicon

Flott grein hjá þér, Lára Hanna, og tími til kominn. Á dögunum var bloggfærsla mín sem var hörð og beinskeytt gagnrýni í garð núverandi stjórnvalda fjarlægð af blogginu hér á Mbl.is. Ég ætla að senda tölvupóst til kerfisstjórans í fyrramálið og krefja hann skýringa hvers vegna færslan mín var fjarlægð, ég læt ekki endalaust traðka á mér, það er liðin tíð.

Jóhann Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 05:01

14 Smámynd: TARA

Sammála, málfrelsið er fótum troðið og það hef ég séð hér á blogginu undanfarnar vikur.  Fólki er bannað að blogga um fréttir og hafa skoðanir þó það taki dálítið djúpt í árina, tali óheflað og stundum gróflega.  En ég hélt að skoðanafrelsi væri löglegt.

TARA, 6.2.2009 kl. 10:36

15 Smámynd: Anna

Málfrelsi er nú algjört joke her á landi. Jafnvel fjölmiðlar þora ekki að tjá sig eða segja skoðun sína. Þetta er svo rótgróið. Einnig er ég alveg sammála Erlingi her að ofan.

Var ekki Helgapósturinn lagður niður vega þessa. Það fékk ekki að prennta skoðun sína.

Lýðræðið er lögu farið út um gluggann.

Anna , 6.2.2009 kl. 11:08

16 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Leiðinlegt mál en gott að maðurinn segir frá þessu.

Hólmdís Hjartardóttir, 6.2.2009 kl. 11:23

17 identicon

Slæmt mál.

Þetta undirstrikar það sem ég hef alltaf sagt um að blogga nafnlaus... að hindra að nafnlaus bloggi sjáist og eða að banna þau er aðför að mannréttindum.. .það er stuðningur við glæpastarfssemi.
Um heim allan eru nafnlausir bloggarar að koma upp um sukk og svínarí í stjórnmálum, trúmálum ... you name it.... .krafa skítugra stjórnmálamanna, trúaðra og annarra glæpamanna er að banna nafnlaus blogg... því þeir eiga á hættu að upp um þa´komist.
Haldið þið að ruglið hjá mbl með nafnlaus blogg sé tilviljun... nosiribob...
Nafnlaus blogg eru í mörgum tilvikum eina mögulega leiðin fyrir fólk að benda á svik og pretti... þau eru mjög mikilvæg í mannréttindabaráttu.... og þess vegna er mbl að útiloka nafnlaus blogg.
Face the muzak

DoctorE (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 11:55

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég gagnrýndi stjórnendur þessa bloggs fyrir höft á tjáningarfrelsi með að skikka fólk til að skrifa undir nafni ellegar verða gerðir ósýnilegir. Þetta var væntanlega gert til að hefta uppljóstranir. Engar gildar ástæður voru allavega gefna. Fyrir þetta var ég tekin af forsíðu og gerður ósýnilegur, þótt ég hafi alltaf skrifað undir fullu nafni. Aðsókn að bloggi mínu hrundi niður í ekkert og hef ég enga átæðu til að halda bloggi mínu opnu nema til þess að skrifa athugasemdir undir nafni.

Hér ríkir skoðanakúgun og þöggun í anda ráðstjórnarríkjanna og stendur Árni Matthíasson líklegast fyrir því, fremstur í flokki hjá blog.is en bloggar þó sjálfur á fosíðu og ólíklegt að hann beiti sig sömu skorðum eða hvað?

Jón Steinar Ragnarsson, 6.2.2009 kl. 13:56

19 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það skal tekið fram að ég skrifaði ekki blogg til að gagnrýna þá heldur skrifaði þeim pósta og spurði ágengra spurninga á bloggi Árna.  Það þurfti ekki meira til að niður í mér yrði þaggað.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.2.2009 kl. 13:58

20 identicon

Er þá ekki bara tími kominn til að fara að blogga hjá öðrum miðli en mbl.is ? Það væri sterkasta ráðið.

Mbl er líka farinn að rukka fasteignasala sem ég hef ekki sérstaka skoðun á. En mér fannst skondið að sjá að þeir héldu því fram að það væri enn allt í blóma hjá þeim á fasteignavefnum. Þar er nú hálftómt og hér um bil flestar eignir komnar á fasteignir.is !!!

margret Einarsdottir Long (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 15:14

21 identicon

Það er alvarlegur misskilningur að á Íslandi ríki tjáningarfrelsi. Skoðaðu 73. gr. stjórnarskrárinnar betur. Fyrsta og önnur málsgrein eru fínar, ekkert við þær að athuga. Síðan kemur sú þriðja, sem útskýrir hvenær yfirvöld mega banna fólki að tjá sig, og svo eru listaðar allar hugsanlegar ástæður.

Tjáningarfrelsi, ef það orð á að þýða nokkurn skapaðan hlut, hlýtur að þýða rétt þegnanna til að tjá sig. Sá réttur þegna á Íslandi er bundinn þeim takmörkunum að þeir segi ekkert sem sé bannað að segja (t.d. að gantast með trúarbrögð eða erlenda þjóðhöfðingja, sjá 95. gr. og 125. gr. laga 19/1940, almenn hegningarlög)... og stjórnarskráin tryggir yfirvöldum réttinn til að banna fólki að segja meira eða minna hvað sem er.

Hvort sem það eru grófir textar, kynferðisleg ljóð, skoðanir á innflytjendum eða trúarhópum, stjórnmálasamtökum eða fólki með orðstír, þá er bannað að segja meira eða minna allt á Íslandi, og þau lög standast öll vegna þess að þriðja málsgrein "tjáningarfrelsis"-greinarinnar í stjórnarskrá beinlínis heimilar yfirvöldum að banna þessa hluti.

Nefndu eina skoðun sem gæti hugsanlega verið umdeild í þjóðfélaginu, sem yfirvöld gætu ekki bannað. Þau banna auglýsingar eftir því hvort þeim þykir varan góð eða ekki. Þau banna mannorðshnekki, allar umdeildar skoðanir á útlendingum (tjah, eða öðrum Íslendingum ef út í það er farið), öllum trúarhópum, erlendum þjóðhöfðingjum, öllum fánum bæði erlendum og íslenskum, það er bannað að segja allt á Íslandi.

Hinsvegar er allur gangur á því hvernig þessum lögum sé framfylgt, og það gefur Íslendingum þá hugmynd að hér ríki tjáningarfrelsi. Reyndu að birta grein í Morgunblaðið um þá margstaðfestu, borðliggjandi og nánast óumdeildu staðreynd að kannabisefni séu barnaleikfang við hliðina á áfengi, og það eru allar líkur á því að lögfræðingur Morgunblaðsins mæli gegn því að birta greinina vegna þess að sennilega mætti líta svo á að maður væri að hvetja til kannabisneyslu, sem er jú bannað (að hvetja til lögbrota). Þess vegna birtist greinin ekki og fer ekki einu sinni fyrir rétt, vegna þess að ritskoðun þykir eðlilegur hluti af íslenskri menningu. Íslenska hugmyndin um tjáningarfrelsi er gjörsamlega út í hött, hún er beisiklí þannig að allir mega lofa blóm og regnboga, en um leið og þú segir eitthvað sem meirihlutanum gæti ekki þótt gott að heyra, þá er vel mögulegt að þú verðir annaðhvort ritskoðuð af miðlinum sem þú notar (hvort sem það er Mbl.is eða einhver annar), og ef ekki, þá að þú verðir kærð og jafnvel dæmd í hæstarétt fyrir brot á hegningarlögum, sem banna þér að opinberlega tjá þá skoðun sem þú annars hefur.

Eina vörnin gegn þessari ræðu minni sem ég hef heyrt, er að við megum víst tjá það sem okkur sýnist í eigin húsakynnum. Með öðrum orðum, svo lengi sem enginn heyrir álit þitt, þá er þér frjálst að segja það sem þér sýnist.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 15:18

22 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Það er ekki nema von að svona þöggunarsamfélag viðgangist þegar að yfirmönnum tekst að komast upp með að traðka á þeim sem gera athugasemdir við augljósa (í tilfelli Toyota) spillingu yfirmannsins. Það er svona Berlusconi bragur á þessu og Íslendingar virðast furðu ánægðir með slíka tilhögun mála, svona oftast. Þetta er þó greinilega að breytast og vei því - vonandi leiðir það af sér heilbrigðara samfélag.

Anna Karlsdóttir, 6.2.2009 kl. 16:13

23 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hvað segja menn þá um þá kröfu Radda fólksins um pólitískar hreinsanir í fjölmiðlum, bönkum, ríkisfyrirtækjum og háskólum, sjá hér

Axel Jóhann Axelsson, 6.2.2009 kl. 16:52

24 identicon

Eg myndi aldrei skrifa nema undir fullu nafni. Aldrei.

Rómverji (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 21:24

25 Smámynd: Alexander Kristófer Gústafsson

233 grein a í hengingarlögunum er augljóst brot á tjáningafrelsi og ætti sú ólög að vera afnumið núna

Alexander Kristófer Gústafsson, 7.2.2009 kl. 04:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband