Sannfæring eða...

Höskuldur Þórhallsson

Ég verð að gera játningu. Ég hafði ekki hugmynd um að framsóknarmenn hefðu sannfæringu. Að minnsta kosti sannfæringu sem ekki væri föl. Jú... kannski Bjarni Harðar og nýju stelpurnar. Ég vissi heldur ekki að sjálfstæðis- og framsóknarmönnum væri svona annt um skoðanir ESB. Lengi má manninn/Flokkinn reyna. Við erum jú í EES en hvorki í ESB né myndbandalagi Evrópu. Umsögn Seðlabanka Evrópu um frumvarpið var hafnað í síðustu viku. Hvaða stóridómur er þetta sem verið er að bíða eftir? Hvað sagði þessi ágæti útlendingur við nefndina í gærmorgun sem varð til þess að tveir framsóknarmenn, sem berjast um 1. sætið á lista Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi, skilja hann út og suður. Hvernig er tungumálakunnátta þeirra?

Ríkisstjórnin vildi að Seðlabankafrumvarpið færi í efnahags- og skattanefnd. Í henni sitja 9 þingmenn, þar af 5 úr stjórnarflokkunum og 1 framsóknarmaður. Framsóknarflokkurinn neyddi frumvarpið í viðskiptanefnd. Í henni sitja líka 9 þingmenn, þar af 3 úr stjórnarflokkunum og 2 framsóknarmenn. Í viðskiptanefnd skiptir samþykki Framsóknar meira máli en í efnahags- og skattanefnd. Það skiptir öllu máli - og svo fór sem fór.

Framsóknarþingmaður "fylgir sannfæringu sinni" og tefur afgreiðslu frumvarpsins. Frumvarps, sem gerir ráð fyrir því að einn mesti og hrokafyllsti skaðvaldur íslensku þjóðarinnar víki. Samkvæmt skoðanakönnunum vill 90% þjóðarinnar hann burt - en ekki hugumstóri framsóknarmaðurinn. Og hann ræður - eða hvað? Er þetta flétta? Var erindi Alfreðs í Seðlabankann um daginn að semja við Davíð? Þessir tveir flokkar hafa samið, plottað og skipt landinu á milli sín svo lengi að þeir ættu að kunna það. Eða eru strákarnir kannski bara í prófkjörsslag á kostnað þjóðarinnar?

Mikið væri gaman að vita hverjir stjórna á bak við tjöldin - og nota framagjarna drengi í skítverkin. Ekki er nóg með að Sjálfstæðisflokkurinn leggi stein í götu ríkisstjórnarinnar í góðum málum eins og komið hefur fram á fundum Alþingis, heldur gerir Framsóknarflokkurinn það ítrekað líka - flokkurinn sem lofaði stuðningi.

Viðtalið við Höskuld Þórhallsson í Kastljósi var sorglegur farsi. Ég fór hjá mér þegar ég horfði á það og vissi ekki hvort ég ætti að vorkenna Höskuldi. Ákvað þó að gera það ekki - hann kom sér í þetta sjálfur, drengurinn. Höskuldur var ítrekað í mótsögn við sjálfan sig, hikaði, tafsaði, talaði um "skynsemi og fagleg vinnubrögð". Hann var eins ósannfærandi og frekast gat verið. Hefur kannski ekki farið á nógu mörg námskeið hjá Eggerti Skúla í framkomu í fjölmiðlum en hafði greinilega vondan málstað að verja og maður fékk á tilfinninguna að "sannfæringin" væri ekki hans eigin. Framsóknarflokkurinn þarf að bjóða fram betra fólk ef hann vill bæta ímyndina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Höskuldur er þröskuldur.  Ég á varla orð til þess að segja hvernig mér líður.  En er mjög fegin að nýtt framboð er komið fram.  Mér líst vel á þennan unga mann sem er í forsvari fyrir nýja borgaraflokkinn.  Núna bíð ég spennt eftir því að sjá hvað borgaraflokkurinn hefur fram að færa. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.2.2009 kl. 02:33

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þetta er prófkjörsslagur í sinni lúmskustu mynd. Svo er þetta líklega plott milli flokka, undirbúningur fyrir næstu ríkisstjórn. Dapurt.

Arinbjörn Kúld, 24.2.2009 kl. 03:27

3 identicon

Eitt sem gleymist: Eftir 2. umræðu (en þá var samþykkt 50:0 ) að vísa til 3ju umræðu er einsdæmi að athugasemdir komi fram. Vafalaust má kenna þarna um þingreynsluleysi. Það er gert ráð fyrir því að allar athugasemdir séu fram komnar. Þetta er fyrirsláttur.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 08:41

4 identicon

Já, Höskuldur er sko þröskuldur, sem endurspeglar líka hve Framsóknarflokkurinn er raunar margklofinn og opinn í allar áttir sem fyrr.

Stefán (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 09:19

5 identicon

Það er eins og ég hef alltaf sagt, það að vera framsóknarmaður er ekki skoðun heldur erfðagalli !!!!!!!!!!

Sigurður R Stefánsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 10:15

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég bíð spennt eftir fleir bommertum þingmannsins.

Nú hefur IMF frestað komu sinni vegna málsins.

Skemmtilegt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.2.2009 kl. 11:12

7 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Höskuldur gæti verið sonur Finns Ingólfssonar......sami Framsóknarsvipurinn á þeim báðum. Vaaáá....hvað þeir eru likir!!!!!!!!!!!!!!

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 24.2.2009 kl. 11:38

8 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Hvað ætlum við að horfa lengi uppá þennan farsa? Það er búið að setja upp nýja „gamla“ bekki við Austurvöll. Þarf ekki að verma þá, kannski á morgun, Öskudag?

Ásgeir Kristinn Lárusson, 24.2.2009 kl. 11:45

9 identicon

Verð nú barasta að segja að skemmti mér bara þrælvel yfir áhorfinu.  Svo heimskulegur farsi orðinn, að þegar menn skjóta sig svona hryllilega í báðar lappirnar þá ekki hægt annað en að glotta út í annað - ef ekki bæði. 

Ég spái að þetta viðtal eigi eftir að lifa eitthvað áfram - grey kallinn, held hann geri sér grein fyrir því að gert sig að fífli þarna

ASE (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 19:25

10 identicon

Nýjar upplýsingar komu fram á fundinum á mánudag, þær verða komnar skriflega fram og búið að fara yfir þær á miðvikudag.

Meirihluti þingnefndar valdi að bíða eftir þessum upplýsingum.

Höskuldur og Birkir eru sammála í málinu en annar vill fá þessar upplýsingar fram áður en málið er afgreitt úr nefndinni.

Ég sé ekki neitt annað en að þetta sé "stormur í vatnsglasi"

Þetta er þingið að vinna sína vinnu og það ættu allir góðir menn að fagna því að loksins stendur þingið uppi í hárinu á framkvæmdavaldinu ! Er það ekki eina stóra fréttin í þessu máli ?

Jeramías Jósafatsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband