Réttlæti, sannleikur og traust í Silfri dagsins

Eva JolyFrábært Silfur og hápunkturinn var auðvitað viðtalið við Evu Joly, rannsóknardómara. Magnað viðtal sem enginn má missa af. Egill (og Björn Jónasson, útgefandi) eiga þakkir skildar fyrir að fá þessa reyndu og skörpu konu hingað. Vonandi bera íslensk yfirvöld gæfu til að fara að ráðum hennar. Það er óralangt á milli hugmynda Evu annars vegar um 20-30 manna hóp rannsóknaraðila, innlendra og erlendra sérfræðinga í fjársvikum, og hins vegar eins sýslumanns frá Akranesi og efnahagsbrotadeildar sem situr auðum höndum. Og Eva talaði hiklaust um frystingu eigna og haldlagningu þeirra - minntist ekki á að það væri "brot á mannréttindum".

Eva Joly sagði í miðju viðtali að ef almenningur fengi ekki að vita sannleikann og réttlætinu væri ekki fullnægt væri útilokað að sáttmáli samfélagins héldist. Lokaorð hennar voru þau að réttlæti væri grundvallaratriði fyrir fólkið í landinu til að búa í sátt sem þjóð, sannleikurinn væri nauðsynlegur og traustið byggðist á þessu tvennu - réttlæti og sannleika. Nákvæmlega það sem margir hafa verið að segja hér í ýmsu samhengi og ég skrifaði um fyrir nokkrum dögum, einu sinni sem oftar. Hér eru slóðir á fréttir um Joly á mbl, eyjunni og auðvitað á bloggi Egils Helgasonar. Ekkert fannst um hana á Vísi.is.

En fleira var í Silfrinu. Ég tek undir með Agli þegar hann óskar Valgerði Bjarnadóttur til hamingju með afnám eftirlaunalaganna. Hún átti einna mestan þátt í að vekja athygli á ósómanum, viðhalda fordæmingunni og hennar fyrsta verk þegar hún settist á þing sem varaþingmaður var að flytja frumvarp um afnám eftirlaunalaganna frá 2003. Sjálfstæðismaðurinn Birgir Ármannsson stakk því ofan í formannsskúffu í sinni nefnd og sagði það ekki verða afgreitt.

Mér fannst viðtalið við Ragnar Þór Ingólfsson stórmerkilegt (sjá Ragnar Þór í Silfrinu 30. nóv. sl.) og svolítið lýsandi fyrir spillingu og siðleysi þeirra sem hafa mikið fé til "umráða" og sinnuleysi almennings gagnvart verkum þeirra - eða kannski saklaust trúnaðartraust sem er síðan svikið. Við höldum að lífeyrissjóðirnir séu að vinna fyrir okkur á meðan þeir vinna jafnvel beinlínis gegn okkur. Fólki er gert skylt að borga í þá samkvæmt lögum, og ef það ekki borgar - og sættir sig við að féð sé notað í ofurlaun, lúxusbíla og áhættufjárfestingar - þá er það hundelt með vöxtum, vaxtavöxtum, lögfræðikostnaði og fleiri slíkum skemmtilegheitum. Hámark siðleysisins er að formaður VR, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs VR og fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi þegar m.a. þetta og þetta fór þar fram, Gunnar Páll Pálsson, býður sig fram aftur til að geta haldið sukkinu áfram. Eins og Ragnar Þór segir á bloggsíðu sinni hafa VR félagar nú tækifæri - í fyrsta sinn í 118 ára sögu félagsins - til að láta Gunnar Pál gjalda gjörða sinna með því að kjósa hann EKKI og sjá til þess að ný stjórn ráði nýjan forstjóra hjá lífeyrissjóðnum í leiðinni. En lítum á Silfrið.

Vettvangur dagsins -  Davíð Sch. Thorsteinsson, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari og Sigurður Ágústsson

 

Ragnar Þór Ingólfsson um lífeyrissjóðina

 

Eva Joly, rannsóknardómari - textað

 

Kvöldfréttir RÚV 8. mars 2009

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er líka svo sjúkt að tala um mannréttindabrot þegar talið berst að því að rannsaka rökstuddan grun um auðgunarbrotin sem margir hafa krafist rannsóknar á að það nær engu tali. Eva Joly lítur hins vegar út fyrir að vera einstaklega heill einstaklingur!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.3.2009 kl. 17:18

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Flott kona Eva.....vil fá hana sem ráðgjafa

Hólmdís Hjartardóttir, 8.3.2009 kl. 17:25

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sarkosi er hættulegur Globalisti, sem er útsendari þessara afla.  Allt á þetta rætur sínar að rekja í breska mónarkíið. Netið er þétt ofið og erfitt að brjóta, London, Belgía, Sviss, Manhattan og Vatikanið, believe it or not.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.3.2009 kl. 21:09

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Allar viðvörunarbjöllur ættu að hringja í framtíðinni, þegar nefnd eru hugtök eins og free market, free enterprise, globalisation, free trade, global market, etc.  Ekkert af þessu þýðir frelsi, nema fyrir fáa útvalda. Allt þetta þýðir kúgun þróunarlanda og faldar helfarir fólksins þar. Free er meira í ætt við ókeypis fyrir elítuna. Þessi hugtök þýða líka stríð, endalaus stríð án tilefnis. Það má t.d. segja að eftir að dollarinn fór af gulltryggingu árið 1972, þá hafi hann verið bakkaður af stríðsrekstri.  Það er ömurleg staðreynd.

Menn skyldu líta víðar en til USA, þegar leitað er sökudólga, því málið er hreinlega ekki eins einfalt og það sýnist og hin kalda greip Oligarkanna og kleptókratanna er stór.  Hægri og vinstri eru ekki öflin, því báðar öfgastefnur þjóna sama markmiði. Valkosturinn er lýðræði, hversu útvaskað og flekkað það er nú orðið eftir áratuga nauðgun. Eða eins og Frakkinn skýrði það: Frelsi (allra) Jafnrétti (fyrir alla) Bræðralag (allra).

Jón Steinar Ragnarsson, 8.3.2009 kl. 21:54

5 identicon

Ef ég þekki íslenska ráðamenn rétt þá kemur ekkert til með að gerast fyrr en almenningur mótmælir...og þess verður líklega þörf.  Á næstu dögum mun eitt af þrennu sýslast hér á landi:

 1. Ráðamenn ræða orð Evu Joly og leggja mikla áherslu að eitthvað í líkingu við það sem hún mælti með verði gert.

2. Menn gera lítið úr þessu og ræða þetta í hálfkæringi og mæra þriggja-manna-nefndina og laxveiðimanninn Ólaf Þór Hauksson...

3. ..eða að menn tali helst um það að þetta kosti of mikla peninga, óvíst verði um heimtur og svo drukknar þetta í íslenskri rökfræði: a+b = vaðall.

 En það er okkar að knýja á um rannsókn að hætti Evu Joly - að töluliður eitt verði ofan á - og til þess að svo verði verður almenningur að vera vakandi, standa sem örn á kvisti þegar Sjálfstæðisfálkinn byrjar að garga um að allt sé í réttum farvegi eða þegar Framsóknarstélið byrjar að veifa þessu inn á þvogulegar brautir...

 Það er okkar að láta þetta gerast. Og til að svo megi verða verður fólk að standa saman - annars verður hér algjörlega ólíft - einsog Egill Helga segir - nema fyrir mafíuna sem setti okkur á hausinn. Og ráðamenn.

Að lokum: Ég sá að á Visir.is var ekki stafur um viðtalið við Evu Joly, Morgunblaðið lét fréttina um Evu hrynja niður fyrir fréttum um að: Sigurður Ingi væri í fyrsta sæti, Gamlir naglar geta verið djásn, Óvæntur sauðburður á Ströndum, Hestakerrur fjúka á Suðurlandi og stuttu síðar var hún horfin af netútgáfu Moggans. Á fjölmiðlum er ekkert að græða, nema Eyjunni.

Beggi (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 22:27

6 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ég tek undir orð Evu. Sem betur fer sannleikurinn nú að komast upp á borðið þegar réttarhöld yfir fjárglæframönnum hefjast, líklegast í sumar.

Hilmar Gunnlaugsson, 8.3.2009 kl. 22:44

7 identicon

Nú vil ég fá upplýsingar um greiðslur  til stjórnmálaflokka frá styrktaraðilum þeirra,við skulum ekki leggja nein völd í þeirra hendur í komandi kosningum fyrr en að ljós eru samskipti fjármálamanna og stjórnmálamanna. Það er alveg ljóst af frumvörpum undanfarinna ára að tengsl hafa verið þar á milli

SG. (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 22:49

8 identicon

Ragnar á heiður skilið fyrir frumkvæði sitt að takast á við lífeyrissjóðina. Ég er ansi hrædd um að þessi barátta sé langhlaup og megi ekki takast í fyrstu atrennu. Samtryggingin er gífurleg í verkalýðs-og lífeyrissjóða bransanum, þarna eru þungir rassar í djúpum stólum sem sumir hafa vermt í yfir 20 ár.

Kolla (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 00:26

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Er ekki kominn tími á rannsókn á framferði yfirmanna í lífeyrissjóðunum líka, Það var með ólíkindum að hlust á Ragnar í gær.  Lífeyrissjóðirnir eru ekki fyrir hinn almenna borgara sem borgar sín 12% í hverjum mánuði.  Lífeyrissjóðurinn er fyrir stjórnendurna, sem taka sér ofurlaun fyrir varla neina vinnu.  Það þarf að stokka upp í lífeyrissjóðunum sem arðræna verkalýðinn grimmt.  Svo var viðtalið við hana Evu Joly frábært, ég vil fá fólk frá henni í vinnu fyrir okkur fólkið í landinu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.3.2009 kl. 01:12

10 identicon

Sýnist við geta sameinast ansi mörg um 
1. kröfu um alvöru rannsókn á fjárglæpum og skattsvikum.
2. kröfu um aukin framlög og völd til þeirra sem vinna fyrir okkur við að sækja grunaða til saka
3. kröfu um aðkomu erlendra, reyndra aðila að rannsókninni
Eru þetta ekki tilvaldar búsáhaldakröfur? Næsta laugardag til dæmis.

Solveig (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 01:30

11 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Sæl Lára Hanna og takk fyrir þitt flotta blogg. Ég get ekki betur séð en að búsáhalda byltingin haldi ótrauð áfram. Það er enn af nógu að taka og eftir frábært viðtal Egils við Evu Joly dómara með meiru í Silfrinu, er óhætt að láta hendur standa fram úr ermum og það...strax! Sammála 11 að öllu leiti. kveðja

Eva Benjamínsdóttir, 9.3.2009 kl. 02:05

12 identicon

Þú átt þakkir skildar fyrir alla gagnaöflunina, -varðveisluna og síðast en ekki síst fyrir að gera þetta aðgengilegt fyrir alla.

Þetta er hörkuvinna.

Takk, Lára Hanna.

Ragnhildur Blöndal (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 02:45

13 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Það sem sló mig mest í þessu viðtali er að hún sagði að bankarnir hafi vitað af því að krónan væri að falla  svo þeir fóru að bjóða fólki myntkörfulán, til að græða sem mest. Er ekki þarna  komin ástæða fyrir fólk að fara í mál við  bankana. Samkvæmt þessu þá var verið vísvitandi að blekkja fólk, þess vegna verður að fara fram rannsókn á þessu öllu.

Sigurveig Eysteins, 9.3.2009 kl. 04:17

14 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Gleymdi... Það væri gaman að vita hvað margir bankamenn í æðstu stöðum tóku myntkörfulán???? ég sagði í æðstu stöðum því ráðgjafar og gjaldkerar virðast ekki hafa verið upplýstir um eitt eða neitt.

Sigurveig Eysteins, 9.3.2009 kl. 04:23

15 Smámynd: ThoR-E

Tek undir með þér Lára, þetta Silfur var mjög athyglisvert og stóð upp úr þetta viðtal við rannsóknardómarann.

Vona að Íslenskir "rannsóknaraðilar" taki ráðum hennar. 

Kær kveðja

ThoR-E, 9.3.2009 kl. 10:34

16 identicon

Allar lánastofnanir landsins hafa vitað að gengi ísl. kr. færi að falla.  Þeir höfðu viðmið og vitneskju sem hinn almenni borgari og neytandi hafði ekki: Að gengi ísl. kr. var falskt/óvanalega hátt skráð (mitt ár 07) og ætti þ.a.l. eftir að falla.  Fólk í landinu er búið að vera að segja þetta sl. 1 1/2 ár.  Og með fallinu voru líka forsendur fólksins fyrir gengislánunum brostnar.  Svipað og með hinni óvanalegu verðbólgu sem fylgdi, voru forsendur fólsksins fyrir vísitölutryggðu lánunum brostnar. 

EE elle (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 11:58

17 Smámynd: Gerður Pálma

Globalisation (í því formi sem hún er útfærð) og ofurkapitalismi eru að gera útaf við lýðræðið í heiminum.

Stríð eru haldin í nafni einhvers sem bindur fólk saman, t.d. trúar, og innleiðingu lýðræðis, hvorutveggja er blekking til þess að ota fólki hvert á móti öðru, því það væri ekki hægt með heiðarleika.  Gróðahyggjan og viðbjóðurinn er skipulagður ofanfrá og allir sem smitast af þessum gróðavírusi virðast missa alla samkennd, sjálfsvirðingu og sjálfsaga.  Ég býð ykkur að logga hér inn til þess að sjá innleiðingu viðbjóðsins í nafni lýðræðis og samvinnu.

http://gerdurpalma112.blog.is/admin/blog/?entry_id=808556 

Græðgisfarsóttin sem búin er að herja á Íslendinga síðastliðin ár er að leggja saklaust fólk að velli, afleiðingar þess eru margfalt meiri en nokkurn tíma verður talið í krónum eða evrum. Örvænting og vonleysi lamar fólk og dregur úr öllum krafti þess.

Nú verdur skjaldborgin um heimilin ad verda sett upp. Ef ríkið ekki gerir það þá verðum við að gera það.  Skuldir sem fólk lendir í vegna eigin óráðsíu og ófyrirhyggju er eitt, en skuldir sem ríkið hefur neytt fólk í vegna vanstjórnar og vangæslu hlýtur að vera refsivert athæfi.  Hver hefur framið glæpinn?

Núverandi ríkisstjórn VERÐUR AРlagfæra þessi mál núna, og ekki degi síðar en nú. Það er mjög vel hægt, allt er þetta endanlega pappírsfærsla. Hver er bættari við að eyðileggja fólk, hver fær þessar íbúðir sem verið er að rýma?  Hver bætir andlegu brotin sem fólk og fjölskyldur verða fyrir í kjölfar þessa ´efnahagslega´ofbeldis  sem það nú verður fyrir? Hver borgar fyrir heilsutjón og sálarangist þeirra sem fyrir barðinu á þessari villimennsku verða. 

Það er hægt að setja lög sem færa lánin til 1sta jan.2008, leggja niður visitölutrygginguna og setja fasta lága vesti þar t.d.4% og síðan lækka niður í 2,5%, Það á að endurgreiða til þeirra sem hafa marið það að geta greitt okurvextina til þessa.  Það verður að færa vaxtahækkunina á þjóðina alla, og setja hátekjuskatta, við verðum öll að bera byrðina saman.´

Laga þarf skattakerfið og leggja meira á þá sem meiga sín. Þeir sem ekki þola hátekjuskatta sem aðeins snertir brot af hagnaði fyrirtækjanna vinsamlegast seljið eða leggið fyrirtækin ykkar í hendur annarra. (það má minna á að hagnaður fyrirtækis er undir eðlilegum kringumstæðum undir mannauði komið.

Hér á Íslandi vantar ekki vinnu, það vantar stefnu sem hlúir að þeim tækifærum sem bíða og gerir þeim kleift að framkvæmast. 

Það verður að byggja upp atvinnulífið NÚNA, stærsti og aðgengilegasti geirinn er ferðamálageirinn.

Ferðamálageirinn krefst ekki mikils gjaldeyris til þess að geta tvíeflst og færa gjaldeyri inn í landið. Framundan er fengitíminn, hvar er undirbúningurinn.  Það er hægt að skapa vinnu þar núna strax í sumar ef við brettum upp ermum. Gengið er hagstætt ferðaþjónustunni, nýtum það. 

Á meðan engin kynning er á hinum ýmsu tækifærum er ekki hugmynd um hvar á að byrja. 

Gerður Pálma, 9.3.2009 kl. 13:13

18 identicon

Akkúrat, það er ríkið sem er ábyrgt fyrir hinu óeðlilega falli gengisins og meðfylgjandi verðbólgu.  Líka fölsku/of hátt skráðu gengi þar á undan, verst um mitt ár 07.  Og skuldir sem skuldunautar banka og allra annarra lánastofnana hafa afskrifað, eiga að koma fólkinu til góða með lækkun lánanna sem fólkið skuldar, og sem flugu óeðlilega upp.  Hitt væru fjársvik gegn fólkinu.  Og yfirvöld verða að taka á þessu.  Ef ekki, eru yfirvöld vissulega að fremja refsivert athæfi og fólkið ætti að geta sótt ríkið.  Vísa í bloggsíðu Marinós G. Njálssonar.  Fjölskyldur og fyrirtæki eru í upplausn.  Fólkið grætur.  Fólkið flýr úr landi.  Já, brotin gegn fólkinu af yfirvöldum er villimenska.  Það var ríkisins að stoppa fjármoksturinn milli bankareikninga og Ehf´a og úr landinu.  Það var ekki verk fólksins og ekki verk heimilanna.  Það var verk yfirvalda.

EE elle (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 14:36

19 identicon

Aðeins ein örugg leið er til þess að koma í veg fyrir trúverðuga rannsókn á efnahagshruninu. Hún er sú að kjósa Framsóknarflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn.

Bræður og systur, athugið það.

Rómverji (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 16:28

20 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Hvernig fær Rómverjinn það út að eina leiðin sé að kjósa Framsókn og Sjálfstæðið ??????  Voru það ekki þeir sem eru búnir að vera með óstjórn síðustu 18 árin ????? Voru það ekki þeir sem voru við stjórn þegar allt fór til fjandans ?????  Er þetta ekki bara staðfesting á að sumir eru með gullfiskaminni ????? Þetta er bara sorglegt.............

Sigurveig Eysteins, 9.3.2009 kl. 18:03

21 identicon

Ég held Sigurveig sé að misskilja Rómverjann.  Held það hafi verið akkúrat öfugt: "Aðeins ein örugg leið er til þess að koma i veg fyrir frúverðuga rannsókn á efnahagshruninu".

EE elle (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 18:12

22 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Ef rétt er, (sé það ekki ) þá er ég komin með gullfiskagáfur, sem er bara skelfilegt..........

Sigurveig Eysteins, 9.3.2009 kl. 19:03

23 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Eva Joly

Ótrúleg kona!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 9.3.2009 kl. 20:47

24 identicon

Sigurveig. Þú er alveg nógu gáfuð. Það er bara eg sem er svo hrikalega gáfaður. Hyldjúpur. Meiraðsegja þannig að eg fæ sjálfur stundum engan botn í spekina. Meiningin var að segja að þeir sem vildu koma í veg fyrir trúverðuga rannsókn á efnahagshruninu skyldu kjósa framsókn og íhald til valda. Eg hef enga trú á að þeir flokkar vilji rannsaka hrunið.

Rómverji (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 21:00

25 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Silfrið var merkilegt í alla staði - upplýsandi eins og svo oft áður og Eva Joly mögnuð. Ég held samt  að Gunnar Páll verði kosinn aftur, alveg eins og við kjósum aftur og aftur yfir okkur liðið sem tók þátt í dansinum, var hluti af hruninu, í verstu tilfellum í aðalhlutverkum. Það er stór verndarkrumla sem heldur utan um glæpinn og ef hún verður ekki fjarlægð þá verður allt við sama.

Pálmi Gunnarsson, 9.3.2009 kl. 22:12

26 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Frábært Silfur. Líka fyrsti hlutinn, vettvangur dagsins þar sem Þór Saari var alveg hreint frábær. Svona menn vil ég fá á þing.

Margrét Sigurðardóttir, 10.3.2009 kl. 07:03

27 Smámynd: Héðinn Björnsson

Bendi fólki á fundinn á morgun í Iðnó um hvað við getum gert til að koma lögum yfir þessa menn:

Í IÐNÓ, miðvikudaginn 11. mars kl 20-22.

Fundarefni

500 milljarðar til eigenda - glæpur eða vinagreiði

Frummælendur
Atli Gíslason - þingmaður
Bjarni Benediktsson - þingmaður
Björn Þorri Viktorsson - hæstaréttarlögmaður

Héðinn Björnsson, 10.3.2009 kl. 12:05

28 identicon

Þetta er nú í fyrsta sinn sem ég fer inn á þetta blogg og mér finnst þessi skrif Láru Hönnu afar einkennileg og myndi nota orðið b....

Ert þú félagsmaður í VR eða LIVE?  Ef ekki hvað ert þú að tjá þig um þessi mál?  E.t.v. ert þú meðlimur á báðum stöðum og hefur tjáð þínar skoðanir þar á fundum.

Hefur þú kynnt sér staðreyndir á bak við skrif Ragnars Þórs (sem eru að mörgu leyti rangar)?

Finnst þér rétt að aðeins einn maður, Ragnar Þór fái að tjá sig í Silfri Egils, ekki bara einu sinni heldur tvisvar?  Þú hrósar þessum rangfærslum hans þar.

Og svo kemur þú með að "Gunnar Páll haldi sukkinu áfram .." - er ekki allt í lagi hjá þér kona.  Hvers konar mannfyrirlitning er þetta gagnvart manni sem hefur unnið að heilindum fyrir sitt félag - og lífeyrissjóði sem hann var i forsvari fyrir?  Hefur þú rætt við menn sem þekkja hann?  Hvaða leyfi hefur þú til að setja fram svona sleggjudóma?

Farðu nú að snúa þér að því sem þú e.t.v. ert betri í - þýðingar eða hvað það nú er - en að blanda sér í þjóðmálaumræðu - þar hefur þú hvorki kunnáttu né þekkingu - greinilega ekki áhuga á heldur að kynna sér málin.  Sleggjudómar betri.  Ekki blanda þér í kosningar hjá félögum sem þú ert ekki félagi - en þú virðist þrífast á að ata mann og annan auri - þér er vorkunn.

Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer inn á þessa síðu - ekki er ég hrifinn af þessu.

Hlöðver

Hlöðver Örn Ólason (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 23:02

29 Smámynd: ThoR-E

Undarlegt að lesa athugasemd Hlöðvers Arnar hér fyrir ofan. Miðað við ofsann að þá kæmi mér í raun ekkert á óvart ef þarna væri VR stjórnandinn/bruðlarinn sjálfur.

Ég spyr þig á móti.. þegar þú talar um þessi heilindi sem maðurinn hefur unnið að. Þarf hann 12 milljóna jeppa undir rassinn á sér til að vinna að þessum heilindum? Þarf hann þreföld verkamannalaun til að vinna að þessum heilindum?? Tala nú ekki um störf hans hjá Kaupþingi sem eru vægast sagt umdeild. 

Athugasemd þín Hlöðver væri í besta falli hlægileg ... ef málið væri ekki svona athyglisvert.

Sem betur fer var í kosningunni valinn hæfari maður. 

Bestu kveðjur

ThoR-E, 12.3.2009 kl. 13:21

30 Smámynd: ThoR-E

..ef málið væri ekki svona alvarlegt.

Átti þetta að vera.

ThoR-E, 12.3.2009 kl. 13:22

31 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Nákvæmlega Ace, hefði ekki getað orðað þetta betur.

 Fólk skyldi  leggja sperrt eyru að orðum og lýsingum Joly um alþjóðahlutann líka, hið maðksmogna fjármálakerfi sem þrífst samhliða okkur og mergsýgur almenning. Hún er að snerta lítilega á mörgu þarna sem ég hef talað um í áratugi, vonandi að hún opni augu sem flestra með hreinskilni sinni þó hættulegt sé manneskju með hennar status.

Ágætis byrjun á því að kynna sér hvernig ormagryfjan lítur út og hvernig hún festist í sessi fyrir margt löngu, öllu venjulegu fólki til óþurftar, er Falið Vald.

Síðan er Rothscild ættarnafnið og saga eitthvað sem allir eiga að þekkja, siðleysið er með ólíkindum.

Georg P Sveinbjörnsson, 13.3.2009 kl. 04:55

32 identicon

Satt hjá Ace og Georg.

EE elle (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband