Straumur vonar

"Eva Joly birtist alltaf eins og stormsveipur, hvar sem hún kemur. Og ekki eru allir sáttir við hana, sérstaklega vegna þess að hún þykir full opinská þegar viðkvæm mál eru annars vegar." Þannig hófst umfjöllun Gísla Kristjánssonar um Evu Joly í Speglinum miðvikudaginn 11. mars, þremur dögum eftir að Eva tók íslensku þjóðina með trompi. Hún kom svo sannarlega eins og stormsveipur til Íslands og áreiðanlega eru ekki allir sáttir. Ég skal veðja að einhverjir skjálfa á beinunum núna.

Það gerist ekki oft að einhver höfði svona sterkt til heillar þjóðar. Undanfarna daga hefur farið straumur um þjóðfélagið - straumur vonar. Ferill, framkoma og ekki síst orð Evu Joly vöktu þá von með þjóðinni að ef til vill nái réttlætið fram að ganga þrátt fyrir allt - þótt síðar verði. Við skynjum öll hve nauðsynlegt það er og munum öll leggja okkar af mörkum ef með þarf. Að minnsta kosti við sem höfum hreina samvisku - og það er meirihluti þjóðarinnar. Ég efast ekki um það eitt augnablik.

Í fyrradag spurði ég ungan mann hvað hann sæi þegar hann horfði á þessa mögnuðu mynd hans Ómars af Evu Joly sem fylgir viðtalinu í Morgunblaðinu hér að neðan. Hann hugsaði sig um augnablik og svaraði síðan: "Gamla konu". Ég hló og sagði honum að hann þyrfti að læra að lesa fólk. Lesa í þessar tjáningarríku hrukkur, brosið, svipmótið og það mikilvægasta af öllu - augun. Að lesa myndir og fólk er mjög stór hluti af lesskilningi. Ég ætla ekki að segja hvað ég sé - lesi hver fyrir sig. Mikið væri gaman að fá að heyra í athugasemdum hvað fólk les út úr myndinni.

Viðtalið sjálft við Evu Joly er líka frábært, enda einn af bestu blaðamönnum landsins hér á ferðinni, Kristján Jónsson. Lesið hvert einasta orð og gleymið ekki að lesa myndina líka. Hún er risastór hluti af viðtalinu. Smellið þar til læsileg stærð fæst og Spegilsbrotið er viðfest neðst í færslunni ásamt öðru Spegilsviðtali við dómsmálaráðherra.

Eva Joly - Mbl 11.3.09


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð samantekt að vanda, var búin að lesa og heyra þetta allt en góð vísa aldrei of oft kveðin. Rétt hjá þér, Eva Joly vekur von og trú á að rannsókn á fjármálasvindlinu leiði til ásættanlegrar niðurstöðu.

Myndin sýnir evrópska konu, þar sem innihaldið skiptir meira máli en umbúðirnar..í anda Jeanne Moreau leikkonunnar sem lengi vel var í mestu uppáhaldi hjá mér.Pollrólegur og góðlegur augnsvipur traustvekjandi. Öll froða fjarri.

Herta Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 06:15

2 identicon

Myndin sýnir mjög greinda, lífsreynda, réttsýna, ákveðna og sterka konu.

.Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 07:39

3 Smámynd: Einar Indriðason

Glettnisglampi í augunum....

Einar Indriðason, 13.3.2009 kl. 08:00

4 identicon

Hún horfir beint framan í myndavélina, hreinskilni og ákveðni. Hún brosir, en engu glennibrosi, meira svona kennslukonubros, ég veit ýmislegt og ég get kennt þér það. Hárið er svolítið úfið, eins og oft á "prófessorum", Eva Joly er afburðagáfuð. Hún er í jakka sem er auðveldlega hægt að renna upp í háls, en hefur hann opinn niður á bringu... eins og er. Hún er með gleraugun tilbúin á nefinu til að rýna í skýrslur og skjöl sem gætu skipt máli.

Kristín í París (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 08:10

5 Smámynd: Jón Halldór Eiríksson

Mér dettur í hug ein af góðu Nornunum í Ísfólkinu.      Myndin er frábær.   Hjartahlý en um leið er stríðnislegur glampi í augunum.    Eva Joly er straumur vonar, svo sannarlega.

Ég komst við þegar hún talaði um réttlætið hjá Agli.    Mér leið eins og hún skildi mig!  Því ég hef hamrað á þessu að réttlætið yrði að fá framgang.    Öðruvísi verður ekki heilun í íslensku samfélagi.

Jón Halldór Eiríksson, 13.3.2009 kl. 08:42

6 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ég sé konu sem ekki lætur glepjast af fagurgala og hindurvitnum. Hún hefur séð margt í gegnum tíðina og nýtt það til að öðlast visku. Hún er ekki til í að láta ljúga að sér, sér í gegnum það og verður harðsvíruð ef einhver reynir að plata hana. Ég held að þeir sem hafa eitthvað að fela hafi fyllstu ástæðu til að skjálfa á beinunum!

Anna Karlsdóttir, 13.3.2009 kl. 09:39

7 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Þetta er heiðarleg og gáfuð kona sem er óhrædd við að afhjúpa óréttlæti. Hún gefur skítt í allt glingur og einbeitir sig að því sem máli skiptir.

Úrsúla Jünemann, 13.3.2009 kl. 11:35

8 identicon

Jæja, ég ætla að vera rebellinn einu sinni sem oftar.

Er það bara ég eða er umræðan um þessa konu farin að minna ískyggilega á komu þýska saksóknarans í Guðmundar og Geirfinnsmálinu?

Það er mjög auðvelt að tapa sér í réttlætisfróuninni en við megum ekki blindast.

m.b.k.

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 11:37

9 Smámynd: Heidi Strand

Eva Joly verður í viðtali á norska spjallþáttinn Grosvold kl 21.25 norskum tíma í kvöld.
Kynnt var: Eva joly skal jakte pð islandske svindlere!


Nú er rétta manneskjan komin í málið. Nú fara sumir að sófa illa

Heidi Strand, 13.3.2009 kl. 15:53

10 identicon

Greindarleg augu, hlýleg, og örugglega mannvinur og sér pottþétt í gegnum allar Hvítþvottabækur.

Það þarf fleira til enn Evu, ÞAÐ ÞARF FJÁRMAGN SEM EKKI MÁ HORFA Í !

Heiður (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 16:00

11 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Stórkostleg kona og einkar mikilvægt að komist verði til móts við þær kröfur sem hún setur til að koma megist til botns í spillingunni sem fyrst.

Hilmar Gunnlaugsson, 13.3.2009 kl. 16:04

12 identicon

Ómetanlegur pistill.  Og með Moggafréttunum af EVA JOLY.  Merkileg kona, orð hennar traustvekjandi og trúverðug, hlýleg og gáfuleg og traustvekjandi í fasi og svip.

EE elle (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 22:42

13 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Góð, greind, hugrökk, dugleg, ákveðin kona með ríka réttlætiskennd.

Einmitt rétt kona á réttum stað.  Hún færði mér, eins og þér, von.

Anna Einarsdóttir, 14.3.2009 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband