2.4.2009
"Stjórnmálin líða fyrir valdhroka"
Fjölmiðlarnir skipta gríðarlega miklu máli. "Einn djúpstæðasti vandi íslensks lýðræðissamfélags eru fjölmiðlarnir," sagði Vilhjálmur Árnason, heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands. Þetta eru stór orð, en Vilhjálmur skýrir þau og rökstyður prýðilega í viðtali sem Bergljót Baldursdóttir tók við hann og sýnt er á kosningavef RÚV sem vert er að vekja athygli á. Þar kennir nú þegar ýmissa grasa sem fólk ætti að kynna sér og fylgjast svo með.
Bergljót spyr líka í upphafi hvort ekki þurfi eitthvað mikið meira en kosningar til að breytingar eigi sér stað á Íslandi. Góð spurning - og mitt svar er tvímælalaust jú. Það þarf hugarfarsbyltingu, siðferðisbyltingu, miklar atferlisbreytingar hjá almenningi, þingmönnum, í stjórnsýslunni... ja, bara um allt þjóðfélagið. Það þarf líka miklu meiri samlíðun með náunganum, tillitssemi og viðurkenningu á því, að við búum hér öll saman og rassinn á manni sjálfum er enginn gullrass sem sjálfsagt er að hlaða undir á kostnað annarra. Við myndum samfélag sem þarf nú að endurskoða gildismat sitt frá grunni. Og við þurfum margfalt meira aðhald - ekki síst af hendi fjölmiðla.
Í fyrsta bloggi sínu á kosningavefnum segir Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, að fréttamenn séu hliðverðir lýðræðisins, hversu flókið, þvælið, tafsamt og þreytandi sem það geti verið. Vonandi bera þeir allir gæfu til að standa sig í þessu Lykla-Péturshlutverki, á hvaða miðli sem þeir starfa. Við hin, sem á þá horfum og hlustum, gerum miklar kröfur til þeirra og reynum að vera sanngjörn. En mig grunar að viðhorf fólks almennt sé margfalt gagnrýnna nú en nokkru sinni áður. Það er gott.
Ég mæli eindregið með þessu viðtali Bergljótar við Vilhjálm Árnason.
Vilhjálmur var líka í Silfrinu 9. nóvember sl.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:22 | Facebook
Athugasemdir
Sæl, Lára Hanna. Þú segir réttilega: "Það þarf hugarfarsbyltingu, siðferðisbyltingu, miklar atferlisbreytingar hjá almenningi, þingmönnum, í stjórnsýslunni... ja, bara um allt þjóðfélagið. Það þarf líka miklu meiri samlíðun með náunganum, tillitssemi og viðurkenningu á því, að við búum hér öll saman og rassinn á manni sjálfum er enginn gullrass sem sjálfsagt er að hlaða undir á kostnað annarra. Við myndum samfélag sem þarf nú að endurmeta gildismat sitt."
Hefurðu kynnt þér stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar, www.xo.is?
Þráinn Bertelsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 04:32
Sæl Lára Hanna.
Orð Óðins eru eins og hvert annað prump sem hverfur út í vindinn með hinum klisjunum. Það þarf nefnilega ekki minni hugarfarsbreytingu meðalfjölmiðlafólks en almennings, og kannski meiri. Fjölmiðlar hafa lítinn áhuga á öðru en því sem vekur ágreining og dregur fram mismun í áherslum sínum. Þeir kunna ekki annað, enda stöðugt haldið fram að það slíkt sé hlutverk þeirra. Fréttamenn eru jafnan mjög kaldhæðnir þegar kemur að "hugarfarsbyltingu, siðferðisbyltingu, eða miklum atferlisbreytingum, og það skín í gegn um umfjöllun þeirra, að þeim finnst slíkt tal hálfgert píp, eins og reyndar miklum meirihluta landsmanna finnst líka. - ÉG held að þrátt fyrir allt vilji fólk ekki breytast. Það verður reitt og vill fá útrás fyrir reiðina, og einhverja til að skammast út í, en sjálft vill það ekki breytast. Og það sem meira er, að það er ekkert afl í sjónmáli sem að knýr fólk í þá átt.
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.4.2009 kl. 08:07
Gott dæmi um hroka spilltra stjórnmálamanna má lesa í þessari færslu hér, ef myndin með færslunni er skoðuð nánar, þá má sjá mörg kunnugleg andlit:
http://www.photo.is/bb2/viewtopic.php?t=179
Annað dæmi um hroka er Þorgerður Katrín varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Kínafarinn í boði ríkisins og sú sem dansaði uppi á borðum í boði Kaupþings í London þar sem Tom Jones var fenginn til að syngja undir borðum!
Hér má lesa blogg sem að ég skrifaði um hana, fyrir um ári síðan, hversu góðu sambandi hún væri annars við sína umbjóðendur:
http://photo.blog.is/blog/photo/entry/382604/
hér má svo sjá stóra nýja hesthúsið hennar Þorgerðar (mynd nr. 2), sem er líklega með því stærra og veglegra sem þekkist:
http://www.photo.is/07/06/3/pages/kps06070440.html
Kjartan Pétur Sigurðsson, 2.4.2009 kl. 08:16
Það er engin hugarfarsbreyting í sjónmáli. Og gildismatið verður eiins og það hefur verið:efnishyggja og eigingirni þar sem hver hugsar um sig. Þannig verður þetta. Af öllum syndum er óraunsæi aumust.m
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.4.2009 kl. 08:16
Svanur og Sigurður eruð þið ekki orðnir of pessimistic svona í upphafi dymbilviku.
Ég vil allavega trúa því að hugarfarsbreyting hafi einmitt átt sér stað. Forsenda hennar var hrunið, öðruvísi var aldrei von til að fá augu efnishyggjukynslóðanna til að opnast og sjá að það stefnir ekki alltaf allt í norð-austur.
Sársaukafullt, já á öllum vígstöðvum.
Nú má ekki glutra niður þessum sprota breytts hugafars, því það er eina von til að stemma stigu við spillingunni.
Spillingin mun alltaf skrimmta áfram, en málið er að halda ófétinu í skefjum, með dreifðu valdi, gegnsæi og banni við valdaþrásetu.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 2.4.2009 kl. 08:59
Menn skulu ekki búast við neinum lýðræðisumbótum frá fjórflokknum. Hann gerir ekkert nema tilneyddur í þeim efnum. Til vitnis um það má hafa ráðgerð örlög frumvarpsins um persónukjör. Svik þingmanna Samfylkingar, Vg. og Framsóknarflokksins við kjósendur.
Persónukjör var boðað með lúðrablæstri í málefnasáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar og Vg. Eitt lítið skref til meiri áhrifa almennra kjósenda í alþingiskosningum líkt og er löndum í kringum okkur. Þá var enn hiti í búsáhaldabyltingunni. Þegar til átti að taka og standa við stóru orðin um litla skrefið, þá gugnaði Jóhanna og ríkisstjórnin. Þá var búsáhaldabyltingin komin á Þjóðminjasafnið og fjórflokkurinn farinn að jafna sig á sjokkinu.
Ríkisstjórnin dró upp úr hatti sínum bráðabirgðaálitsgerð "yfirlögfræðings Alþingis". Þegar farið var ofan í saumana á álitgerðinni reyndist hún vera hvorki fugl né fiskur. Aðeins skálkaskjól. Hneyksli. Um það má sannfærast með því að lesa sjálf kosningalögin og álitsgerðina, skálkaskjól þingmannanna. Hægt er að stytta sér leið með því að lesa lögfræðiálit sem Borgarahreyfingunni barst í hendur:
http://www.borgarahreyfingin.is/2009/04/01/alitsger%C3%B0-vegna-frumvarps-um-personukjor/
Ragnar Aðalsteinsson lögmaður sagði um álitsgerð Jóhönnu að það væri "ekki mjög sannfærandi." Hver einasti leikmaður sem les kosningalögin og álitsgeriðina frá Alþingi myndi taka undir það. Ragnar sagði hins vegar um lögfræðiálit Borgarahreyfingarinnar, að það væri "skynsamlega unnið og lögfræðilega sannfærandi."
Hér höfum við tvö gagnstæð álit, alvarlegar athugasemdir við annað þeirra, aðalatriði í málefnasáttmála ríkisstjórnarinnar. Samt kveikja fjölmiðlar ekki á perunni.
Hefði lögfræðiálitið sem vísað er á hér ofar komið frá einhverjum fjórflokkanna, þá hefðu Kastljós og fréttatímar beggja sjónvarpsstöðva tekið málið rækilega fyrir (Spegillinn gerði það reyndar í gær með sóma, eins og hans var von og vísa). Borið gagnstæð álit undir lögspekinga og krafið forsætisráðherra og e.t.v. fjármálaráðherra svara.
Málið er bara að fjórflokkurinn hefur grafið um sig í höfði fréttamanna. Það sem ekki kemur frá fjórflokknum getur ekki verið merkilegt.
Rómverji (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 10:00
Sammála Svani Gísla. Líka Rómverja þar sem hann segir að fjórflokkurinn hafi grafið um sig í höfði fréttamanna. Ég lít líka á þetta með persónukjörið sem svik. Það hefði verið afar auðvelt að koma því á, en auðvitað hættulegt fjórflokknum.
Svo vissi ég ekki að það væri komin dymbilvika.
Sæmundur Bjarnason, 2.4.2009 kl. 13:13
Rétt er að halda því til haga að eg tel fjórflokkinn hafa grafið um sig í höfði landsmanna yfirleitt, okkar allra. Því miður eru fréttamenn ekki undanskyldir. En það er alltaf fagnaðarefni að hitta fyrir í þeirra hópi þá sem hafa "frelsast". Þeir eru til.
Rómverji (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 13:30
Hroki stjórnmálamanna er ekkert nýtt. Gott að Vilhjálmur lét það flakka ég hefði sennilega verið sagður ennþá heimskari og hrokafyllri en raun er hefði ég látið það flakka á undan honum. Ég verð þó minna var við "stjórnmálamannahrokann" rétt fyrir kosningar.
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 15:06
Hrokinn einkennir stjórnmálamenn og auðmenn. Stundum er þetta einn og sami maðurinn.
Helga Magnúsdóttir, 2.4.2009 kl. 18:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.