Er græðgi góð?

"Andrúmsloftið í samfélaginu einkennist í ríkum mæli af græðgi sem við höfum ekki áður upplifað jafnsterkt og um þessar mundir. Það hefur fjarað undan samfélagslegum gildum, samkennd og samhjálp."

Ég hef verið að grúska allsvakalega í kvöld og rakst á þessa grein eftir Kristján G. Arngrímsson í Mogganum frá 14. október 2005. Í upphafi greinarinnar er vitnað í Grétar Þorsteinsson, þá forseta ASÍ. Ég veit ekki hvort það er tilviljun, en greinin birtist sama dag og sagt er frá setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem var daginn áður. Um þessar mundir hafði Flokkurinn verið samfleytt við völd í 14 eða 15 ár, þar af 10 ár með Framsóknarflokknum. Við þekkjum framhaldið allt of vel.

Vonandi bera Íslendingar gæfu til að hafna báðum græðgisflokkunum í kosningunum og kjósa fólk og flokka sem hafa samfélagsleg gildi, samkennd og samhjálp að leiðarljósi. Við þurfum öll á því að halda núna - sárlega.

Er græðgi góð? - Moggi 14.10.05


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

"Græðgi er óseðjandi þrá eftir meiru" ... og "andhverfa ánægjunnar" segir í greininni... það er einmitt það sem mér hefur fundist um þá aðila sem verið hafa hvað stórtækastir á Íslandi í græðginni... þeir brosa lítið og hafa allt á hornum sér... hálfgerðir fýlupúkar...

Brattur, 4.4.2009 kl. 11:10

2 identicon

Ég les helst ekki snepilinn sem kallast Fréttablaðið en í morgun gluggaði ég í það yfir morgunkaffinu. Svo óvenjulega vildi til að þar er að finna gífurlega áhugaverða grein eftir Michael Hudson sem heitir Stríðið gegn Íslandi. Hudson segir:

"Ísland hefur orðið fyrir árás - ekki hernaðarárás, heldur fjármálaárás. Afleiðingarnar eru jafn banvænar þrátt fyrir það. Fleiri verða veikir, lifa í örvæntingu og deyja fyrir aldur fram eftir þjóðin neitar ekki að greiða til baka megnið af þeim lánum sem prangað hefur verið inn á hana á síðustu átta árum. En leiðin til bjargar er þyrnum stráð. Voldugir skuldunautar á borð við Bandaríkin og Bretland munu siga áróðursmeisturum sínum, sem og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum, á Íslendinga og krefjast þess að þeir verði hnepptir í skuldafangelsi með því að þvinga þá til að greiða skuldir sem þessar þjóðir myndu aldrei greiða sjálfar."

Þegar ég las þetta þá skyldi ég loksins hvers vegna mér líður eins og það sé stríðsástand á Íslandi - það ER stríðsástand á Íslandi og almenningi blæðir. Hudson heldur áfram og segir okkur frá því að skuldugar þjóðir hafi í gegnum tíðina prentað peninga til að minnka skuldabaggann en íslensk stjórnvöld hafi annað í huga.

"Í stað þess að auðvelda hina hefðbundnu skuldaleiðréttingu hefur verið sköpuð paradís lánadrottna og hinni sígildu flóttaleið skuldsettra þjóða lokað. Þjóðin hefur fundið leið til að steypa sér í skuldir með hjálp verðbólgunnar, í stað þess að vinna sig úr þeim með henni. Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánadrottna"...

Hudson talar sérstaklega um Bretland og Bandaríkin sem þær þjóðir sem öskra hæst á íslendinga að greiða skuldir sínar en segir svo að þar stjórni menn sem "dytti aldrei í hug að leggja slíkar byrgðir á eigin þegna."

Ég man eftir umræðu um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi fyrir einum tveimur árum. Þar var sagt að austur Evrópskar mafíur væru að koma sér fyrir á Íslandi og leið þeirra inn í landið væri að innlima fólk sem þegar bjó á Íslandi inn í samtökin sín og þannig reyndist þeim auðvelt að fóta sig í samfélaginu og hefja glæpastarfsemina. Ég gat ekki annað en hugsað til þessa þegar ég las grein Hudsons og þá sérstaklega:

"Það fyrsta sem Íslendingar verða að gera er að átta sig á að landið hefur orðið fyrir efnahagslegri árás útlendinga, sem studdir voru af íslenskum bankamönnum. Til að hafa sigur reyndu þessir lánadrottnar að sannfæra þjóðina um að skuldir væru framleiðsluhvetjandi og að hafkerfið efldist, þar sem verðmæti þess ykist. Þannig var gert ráð fyrir að verð myndi aldrei lækka."

Hudson segir svo það sem heyrist reglulega en enginn ráðamaður þorir að segja. "Íslendingar verða að gera sér grein fyrir að ekki er hægt að greiða þessar skuldir og um leið halda uppi sanngjörnu samfélagi." Hann fer inn á þá braut sem allir sem stjórna forðast eins og heitann eldinn og talar um niðurfellingu skulda til almennings. Hudson segir:

"Alþjóðlegir lánadrottnar munu mótmæla harðlega [niðurfellingu skulda]. Markmið þeirra er að halda fjármálaheiminum utan alþjóðalaga og gera innheimtu skulda óháða lýðræðislegum reglum. Þannig reyna alþjóðlegar fjármálastofnanir að hindra stjórnvöld í að koma böndum á óhefta lánastarfsemi og eiganupptöku. Málpípur fjármagnseigenda saka þannig stjórnvöld um að hefta hinn frjálsa markað, þegar þau eru í raun aðeina aflið sem getur komið í veg fyrir að heilu þjóðirnar verði hnepptar í skuldafangelsi." Það versta er að mér finnst ekki einu sinni hægt að treysta VG eða Jóhönnu til að standa vörð um hag almennings. Það virðast allir sem fá einhver völd falla saman undan þrýstingi þessa lánadrotta. Ég biðst afsökunar á því að misnota kommentakerfið þitt hér Lára Hanna en ég veit að síðan þín er mikið lesin og mér finnst þessi grein Hudsons bara eiga svo mikið erindi við hinn almenna íslending sem horfir á samfélag sitt molna í þessu "stríðsástandi" - sérstaklega með kosningar framundan. Vil enda hér á lokaorðum Hudsons:

"Ísland getur tekið forystu og orðið fyrirmynd annarra þjóða í efnahagslegu jafnrétti. Aldrei hefur verið betra tækifæri til að taka afstöðu ti þess um hvað standa á vörð - óyfirstíganlegar skuldir eða framtíð íslensks samfélags? Munu stjórnvöld verja þegna sína fyrir afætum fjármálaheimsins, eða munu þau færa þeim íslenska hagkerfið á silfurfati?"

Lesið endilega greið Hudsons í heild sinni í Fréttablaðinu (þó að það sé áróðurspési fyrir Baug).

Kolbrún (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 15:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband