SÁÁ, dulnefni og reynslusögur

SÁÁMér er afar hlýtt til SÁÁ enda er ég stofnfélagi samtakanna. Árið 1977 gekk undirskriftalisti um vinnustað minn þar sem fólki var boðið að gerast stofnfélagar. Ég held að flestir ef ekki allir hafi skrifað nafnið sitt á listann. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan og samtökin hafa bjargað mörgu mannslífinu. Sem betur fer hef ég aldrei þurft á aðstoð þeirra að halda, líklega vantar í mig tilheyrandi gen. En enginn veit þó sína ævina fyrr en öll er.

Mér þykir líka afar vænt um nafnið mitt, Lára Hanna - í þessari röð. Ég er skírð í höfuðið á tveimur ömmum mínum, þeim Láru og Jóhönnu. Þar til fyrir rúmum 10 árum var ég eini Íslendingurinn með þessu nafni. Til voru fjölmargar Hönnu Lárur en bara ein Lára Hanna enda er nafninu mínu oft snúið við og ég kölluð Hanna Lára - mér til mikils ama. Svo uppgötvaði ég fyrir 9 árum að ég átti litla nöfnu, alls óskylda mér, sem nú er nýorðin 10 ára dama. Ég hef ekki hitt hana ennþá, en það má alltaf bæta úr því. En við erum semsagt bara tvær á Íslandi, Láru Hönnurnar.

Dulnefni hafa alltaf tíðkast. Til dæmis í dagblöðum (Svarthöfði, Víkverji o.fl.) og tímaritum (dálkar þar sem fólk segir sögu sína undir dulnefni og fær ráðgjöf misviturra "sérfræðinga"). Rithöfundar skrifa jafnvel heilu bækurnar undir dulnefni. Notkun dulnefna hefur farið ört vaxandi eftir að bloggið kom til sögunnar og fleira þvíumlíkt á netinu. Opinskáar reynslusögur eru oft sagðar undir dulnefni og er þá notast við ýmist tilbúin nöfn eða algeng nöfn eins og Sigga, Palli, Nonni, Gunna eða eitthvað slíkt þar sem ekki er nokkur leið að finna út hver viðkomandi er - a.m.k. ekki út frá nafninu.

Það kom mér því á óvart þegar ég fékk tölvupóst frá kunningja mínum með slóð að reynslusögum spilafíkla - svona lítur síðan út:

Reynslusögur spilafíkla - SÁÁ

Siggi, Nonni, Sigga og - viti menn - Lára Hanna! Þetta sjaldgæfa nafn sem aðeins tveir Íslendingar bera er notað sem dulnefni við reynslusögu spilafíkils sem hafði leitað ásjár SÁÁ og segir sögu sína á vef samtakanna. Ég varð eiginlega hálf hvumsa og 14. apríl sendi ég tölvupóst á netfangið saa@saa.is til að spyrjast fyrir um hvort einhverjar reglur giltu hjá samtökunum um notkun dulnefna á vefsíðum þeirra.

Í dag er 20. apríl og ekkert svar hefur borist. Mér svosem alveg sama um þetta þótt ég hafi orðið steinhissa í fyrstu. Þetta er í besta falli fyndið og í versta falli afar ósmekklegt. En samt er nú alltaf skemmtilegra að fá svör við fyrirspurnum, er það ekki?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þeir hljóta að vera svona bissí.

Annars skil ég þig. Ég held að ég eigi enga alnöfnu og það rynnu á mig tvær grímur ef Jenný Anna væri skrifuð fyrir reynslusögu.

Kynlífsfíkn, dóp eða spiló, hmprmf

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.4.2009 kl. 17:12

2 identicon

Sæl Lára Hanna Ég er vefstjóri SÁÁ og kannast ekki við þessa reynslusögu Láru Hönnu á vef SÁÁ. Mér sýnist augljóst að slóðinn sem þú birtir í myndinni með blogginu þínu, sé alls ekki slóði á vef SÁÁ, heldur eitthvað allt annað. Getur verið að þú sért að hengja bakara fyrir smið?

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 20:08

3 identicon

Sæl enn

 Ég sé að í myndinni, sönnunargagni eitt, er vísað á netfangið spilafikn@saa.is

Það netfang er ekki til. Enginn hjá SÁÁ svarar þessu netfangi eða sendir póst sem notandi.

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 20:15

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sæll, Arnþór,

Hér er slóðin: http://www.geinarm.com/sidur_efni/swf/Reynslusogur3.swf

Ef þú ferð þessa venjulegu leið að rót slóðarinnar stendur þessi slóð eftir: http://www.geinarm.com/

Síðan er merkt með SÁÁ-lógóinu með titlinum Spilafíkn og slóðin heitir "Spilafíkn uphafssíða".

Þú getur líka farið á þessa síðu sem er vel merkt SÁÁ: http://www.geinarm.com/sidur_efni/reynslusogur.html

Ég sendi mína fyrirspurn á netfangið saa@saa.is - hér er hausinn á póstinum:

 
----- Original Message -----
Sent: Tuesday, April 14, 2009 8:29 PM
Subject: Spurning um reynslusögu
___________________________________________________________

 Þetta fer að verða mjög dularfullt...

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.4.2009 kl. 20:19

5 identicon

Sæl Lára

Ég get ekki svarað því til af hverju notandi saa@saa.is svarar ekki fyrirspurn. ( tel reyndar að réttara hefi verið fyrir þig að senda á netfangið sem þú birtir sem sönnunargagn, s.s spilafikn@saa.is) En vefsíðan sem þú vísar til hefur augljóslega ekkert með SÁÁ að gera. SÁÁ notar veffangið www.saa.is og hefur gert það í meira en áratug.

 Það væri gott ef þú gætir leiðrétt þennan misskilning. Ég skal svo athuga hvaða fólk er að villa á sér heimildir og nota lógó SÁÁ í óleyfi.

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 20:27

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sæll aftur, Arnþór,

Ég sendi póstinn á saa@saa.is því það er aðalnetfang SÁÁ, mér fannst það eðlilegast því ábyrgðin á undirsíðum hlýtur að liggja þar, enda átti ég ekki von á að einhverjir væru að villa á sér heimildir.

Ef sú reynist raunin að athuguðu máli verður mér bæði ljúft og skylt að upplýsa það á þessari síðu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.4.2009 kl. 20:48

7 identicon

Sá sem notar slóða http://www.geinarm.com/ er augljóslega ekki SÁÁ. Það þarf ekkert að athuga það frekar.

Enginn hjá SÁÁ hefur haft nokkra vitneskju um þennan dularfulla vef fyrr en þú bendir á hann. Enda sýnist mér vefurinn vera alveg nýr. Þarna er gefið upp símanúmer ´(800 5200) og netfang (spilafikn@saa.is) sem tengjast SÁÁ ekki neitt. En ég skil vel að fólk geti látið blekkast.

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 20:56

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sæll aftur, Arnþór,

Mér finnst alls ekki augljóst að sá sem notar slóðina sé ekki SÁÁ. Allir linkar á síðunni vísa beint í síður SÁÁ eins og sjá má þegar smellt er á t.d. Sjálfspróf, Stuðningur, Reynslusögur o.s.frv. Svo er símanúmer SÁÁ og netfang neðst á rammanum. Fyrir þann sem ekki er heimavanur á síðum SÁÁ er ekki nokkur leið að átta sig á að hér sé ekki um samtökin að ræða. Þið ættuð að athuga þetta þótt ekki fái ég nú séð í fljótu bragði að verið sé að gera SÁÁ neinn grikk.

Anna Sigríður... mér er alveg sama þótt ég sé bendluð við Vog þótt ég hafi aldrei komið þangað og hef ekki orðið vör við fordóma gagnvart fólki sem þar hefur leitað sér hjálpar - síður en svo. Ég held að flestum finnist virðingarvert þegar fólk gerir eitthvað í sínum málum frekar en að láta reka á reiðanum. Annað sem þú talar um skil ég nú eiginlega ekki, enda stóð ekki til að hefja neinar umræður um kosti og galla stofnunarinnar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.4.2009 kl. 23:36

9 identicon

Sá sem er skráður fyrir léninu geinarm.com er: Guðjón Einar Magnússon,  Lyngholti 6,   Ísafjörður, með símanúmer 848-4228. Hann hlýtur að bera ábyrgð á því efni sem þarna birtist, að því er virðist í óþökk SÁÁ.

Heimir (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 01:23

10 identicon

Sæl enn Lára Hanna

Engir linkar á þessari falsara síðu vísa á SÁÁ, nema linkur á forsíðu sem heitir saa.is. Lénið er greinarm.com og tengist SÁÁ ekki neitt. Ég sé ekki hvernig það getur verið augljósara. Menn þurfa ekki að vera heimavanir til að skilja hvað hér er á ferðinni. Það er samt ekkert óeðlilegt að einhverjir láti blekkjast. Og nú hefur komið fram að Guðjón Einar Magnússon er eigandi þessa léns. SÁÁ mun að sjálfsögðu hafa samband við Guðjón og biðja hann um að loka þessum vef.

Falsarinn heitir Guðjón eins og bent hefur verið á

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 08:31

11 identicon

Það var alls ekki meiningin að standa í þrasi við þig. Samt er betra að hafa það sem sannara reynist. Lénið geinarm.com tengist SÁÁ ekki neitt. SÁÁ notar að sjálfsögðu sitt eigið lén, nefnilega saa.is. Ég get ekki skilið hvað þú vilt hafa augljósara. Ef þú vilt að ég sanni að SÁÁ sé ekki að villa á sér heimildir með léninu geinarm.com, þá hefur þú snúið málinu algerlega á haus. Að lokum vil ég taka fram að ég tel óheppilegt að búið sé að birta nafn ábyrgðarmanns á þessu dularfulla léni. SÁÁ temur sér aðgát í umgengni við fólk.

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 09:24

12 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Er póstum til spilafikn@saa.is hent til baka þegar sent er á það, eða svarar bara enginn þar?

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 21.4.2009 kl. 19:07

13 identicon

Netfangið spilafikn@saa.is hefur aldrei verið til í raunveruleikanum. Frá því kemur sama svar og ef ég sendi bréf á Hildigunni á Séstvallagötu.

AJ

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 21:19

14 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Amm, það bendir til þess að verið sé að reyna að koma höggi á Láru Hönnu, skrítin leið atarna.

Það er mjög erfitt að sjá að þessi síða sé ekki vistuð hjá SÁÁ ef fólk er ekki mikið í að skoða url, svindlið er afskaplega vel gert að öðru leyti. Þeir sem eru ekki vel inni í netmálum gætu líka vel haldið að lénið geinarm.com sé eitthvað undirlén hjá saa.is þó netwise fólk sjái að það sé afskaplega ólíklegt.

Vonandi verður þetta tekið niður sem fyrst.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 21.4.2009 kl. 22:34

15 identicon

Það má vel vera að fólk láti blekkjast um stund af vefnum á léninu geinarm.com. Eða haldi í alvörunni að geinarm.com sé undirlén hjá SÁÁ, sem er reyndar ótrúlega langsótt hugmynd. En það væri mjög undarlegt að ætla sér að halda því fram til streitu. Það er nefnilega búið að upplýsa hver ber ábyrgð á þessu léni. Við skulum reikna með að vefurinn verði tekinn niður fljótlega og að höfundurinn sé bara nytsamur sakleysingi.

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband