21.4.2009
Sjálfstæðisflokkurinn og skattarnir
Sjálfstæðisflokkurinn er í tómu tjóni þessa dagana og skyldi engan furða eftir þann gríðarlega skaða sem hann hefur valdið þjóðinni. FLokkurinn veit ekki sitt rjúkandi ráð og skilur ekkert í af hverju kjósendur trúa ekki bullinu og mótsögnunum sem vellur upp úr frambjóðendum og klappliði flokksins. Þeim hefur hingað til tekist að ljúga fólk fullt en nú virðast mun færri trúa þeim en áður. Það er jafnvel gripið til ótrúlegustu uppátækja eins og hér má sjá. Kannski þurfti hrunið til að fólk áttaði sig á blekkingum FLokksins, en það var æði dýrkeypt lexía.
FLokkurinn hamast nú við að auglýsa - og ekki bara sjálfan sig og huggulega fólkið sitt heldur eyða einhver dularfull öfl, væntanlega á hans vegum, miklum peningum í upplognar auglýsingar um skelfilegar skattahækkanir ef "vinstri stjórn" kemst til valda eftir kosningar. Samkvæmt þessu eru þar bæði lygar og villandi upplýsingar og passar engan veginn við það sem sagt hefur verið. Þetta er þekkt taktík í stjórnmálum og víðar og gjarnan nefnd "Látum þá neita því" aðferðin. Hún felst í því að ljúga einhverju upp á andstæðinginn sem hann síðan ber til baka. En fræi efans er sáð, sá er tilgangurinn. Þetta er ein sóðalegasta og óheiðarlegasta baráttuaðferð sem fyrirfinnst í stjórnmálum.
En það er þetta með skattana... Sjálfstæðiflokkurinn reynir nú hvað hann getur að telja kjósendum trú um að hann geti veifað töfrasprota og þurfi ekki að hækka álögur á almenning í landinu. Slíkt sé algjör vinstrivilla sem ekki sé hlustandi á. Þetta er auðvitað fáránlegt. Sjálfstæðismenn með eignarrétt yfir þótt ekki sé nema nokkrum heilasellum sjá að slíkar fullyrðingar eru þvættingur í ljósi þeirra aðstæðna sem einmitt FLokkurinn sjálfur hefur komið þjóðinni í. Ég hef enga trú á að nokkur kjósandi með viti falli fyrir svona málflutningi.
Sjálfstæðismönnum eru þó skattar mjög hugleiknir og hafa verið manna duglegastir við að hækka skattbyrði almennings í landinu í stjórnartíð sinni. Man einhver eftir skýrslum Stefáns Ólafssonar frá vorinu 2006 þar sem Stefán sýndi með ótvíræðum hætti fram á að skattbyrði þeirra sem minna mega sín hefði hækkað mjög á Íslandi frá 1995 til 2005? Ég man vel eftir þessu og hve harkalega sjálfstæðismenn reyndu að neita því. En ári síðar, í mars 2008, komu niðurstöður úr rannsókn OECD sem staðfestu allt sem Stefán hafði haldið fram = Skattbyrði einstaklinga og fjölskyldna hafði aukist verulega á Íslandi 1995-2005, mun meira en í öðrum OECD-ríkjum. Þetta er einfaldlega staðreynd sem ekki verður horft fram hjá. Rifjum þetta aðeins upp.
Fréttir Stöðvar 2 - 12. - 16. mars 2008
Fréttir RÚV 12. mars 2008
Það sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði aftur á móti var að breyta Íslandi í skattaparadís fyrir fyrirtækjaeigendur og fjárfesta. Það er líka staðreynd.
Viðfest neðst í færslunni er nýtt skjal frá Stefáni Ólafssyni með myndrænum skýringum á skattamálum og þróun þeirra undanfarinn hálfan annan áratug. Ég hvet alla til að skoða skjalið vel og vandlega og senda þessar upplýsingar áfram til sem flestra. Ef skjalið opnast ekki hjá einhverjum útbjó ég albúm með skýringarmyndunum hér þar sem hægt er að fara í gegnum þær. Neðst í færslunni er einnig viðfest Spegilsviðtal við Stefán Ólafsson frá 12. mars 2008.
Að lokum vitna ég í lokaorð Stefáns í skjalinu þar sem segir:
"Í dag segja þeir sem hækkuðu skattbyrði 90% almennings í góðærinu (Sfl. og Ffl.) að þeir ætli ekki að hækka neina skatta nú, þrátt fyrir geigvænlegan halla á ríkisbúskapnum (um 170 milljarðar). Þeir sögðu ósatt um skattastefnu sína 1995 til 2005. Er þeim treystandi þegar þeir segjast ekki ætla að hækka nú? Eða vilja þeir frekar leggja íslenskt samfélag í rúst?
Samanlögð útgjöld félags- og tryggingamálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins eru um 172 milljarðar. Það þyrfti að loka menntakerfinu og velferðarkerfinu (almannatryggingum o.fl.) alveg, ef niðurskurðurinn væri allur tekinn þar. Heilbrigðiskerfið kostar 115 milljarða á árinu og dugir því ekki að loka því alveg einu og sér. Menntakerfið (58 milljarðar) þyrfti t.d. að fara líka! Heildarkostnaður ríkisins er um 555 milljarðar árið 2009. Ef allur hallinn er tekinn með niðurskurði þarf að stórskaða alla grunngerð samfélagsins. Eða er markmiðið að einkavæða í staðinn og bjóða upp á menntun og heilsugæslu eingöngu fyrir þá sem hafa greiðslugetu fyrir slíku?
Þá væri Ísland orðið mun "amerískara" en Bandaríkin."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:46 | Facebook
Athugasemdir
Og ekki gleyma að telja upp skýrslu fjármálaráðuneytisins frá síðustu dögum Árna Mathiesen m.a.s. - að þar kom fram að skattbyrði hafði aukist umtalsvert síðustu árin og hlutfallslega lang mest á þá lægst launuðu.
Þessu bombaði ég á BB á opinberum fundi en hann sagði nei - þvættingur
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 21.4.2009 kl. 01:59
SjálftökuFLokkurinn er mesti óvinur okkar lýðsins. Hann er FLokkur einkavina sem eiga peninga, og spillingaraflanna í þjóðfélaginu okkar í dag. SjáLftökuFLokkurinn er versti óvinur skattgreiðenda á Íslandi í dag, og besti vinur óreiðumanna sem svíkja og stela.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.4.2009 kl. 02:02
Það verður bara að sýna þessa fréttatíma aftur í sjónvarpi fyrir kosningar. Getur ekki einhver fengið stöð 2.( Ísland í dag) til að sýna þetta aftur, svo þetta aumingja fólk sem heldur að Sjálfstæðismenn hækki ekki skatta geti séð þetta ??? Það er bara hræðilegt að hugsa til þess að það er hellingur að fólki þarna úti sem á ekki í sig og á, og það ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn því það sér ekki í gegnum þá.
Sjálfstæðismenn hafa ekki hingað til haft áhuga á fátækum, þeir hugsa bara um ras..... á sjálfum sér og auðvita þá ríku. Þess vegna er það bara sorglegt að fátækir skuli leggja sig svo lágt að lafa í afturendanum á þeim og hirða upp brauðmolana eftir þá. þeir sem ég þekki sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru annað hvort ríkir eða fátækt ylla upplýst fólk, (horfir ekki á fréttir eða les blöðin) og er bara að kjósa þá af gömlum vana. Þessi skatta-áróður Sjálfstæðismanna er hræðilegur og skelfilegt að fólk trúi þessu.
Sigurveig Eysteins, 21.4.2009 kl. 04:01
Sjálfstæðisflokkurinn kemur núna með sama áróðurinn og hefur verið áberandi hjá honum fyrir allar kosningar sem ég man eftir. Það er: að skapa þá ímynd að aðeins aldraðir eigi eignir! Afskaplega lúalegt.
Svo hafa þeir verið að bera út þá lygasögu að Steingrímur J. Hafi grætt 16 milljónir á eftirlaunalögunum. Finnst fólki trúlegt að maður sem hefur alltaf verið í fullu starfi, hafi fengið eftirlaun?
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 08:43
Frábær samantekt hjá þér Lára Hanna. Rændi þessu á Facebook síðuna mína:)
Sigrún Jónsdóttir, 21.4.2009 kl. 10:17
Ég elska að fólk sé farið að rita FLokkurinn! held að þetta deyji seint eða aldrei! og verður þá vonandi minnisvarði Péturs Blöndal um skítleg vinnubrögð og siðspillu FLokksins. Hann vildi nú láta tónlistarhúsið standa sem minnisvarði um eyðslu og geðveikina, en nú hefur FLokkurinn búið til FLottari minnisvarða alveg sjálfir :D
Og mér lýst vel á að xO sé að mælast með 7% bara uppá við
Unnsteinn (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 11:06
Að fólk skuli gleypa við þessu.....sanntrúaðir munu kjósa Flokkinn áfram því miður.
Hólmdís Hjartardóttir, 21.4.2009 kl. 11:35
Staðreyndir og einfaldleiki.
Fullyrðing að heimili og atvinnulíf geta ekki borgað þessa háu vexti.
Vextir lækka, og þá á að setja hærri skatta , getur sá er ekki getur borgað vexti getur hann borgað hærri skatta.
Hærri fjármagnstekjuskattur (sem ég væri undir venjulegum kringumstæðum hlyntur) þýðir einfaldlega hærri vexti.
Getur heimili sem hefur farið varlega og á sína húseign skuldlitla en báðar fyrirvinnur atvinnulausar borgað hærri skatta hvort sem er tekjuskatta eða eignaskatta. Og til að bæta gráu ofan á svart borga eignaskatt af fasteignaverðmati sem er úti í hött. Því samkvæmt lögum verður því ekki breytt til lækkunar á næstunni.
Evra eða EU tekur 1-3 ár að komast í gegn og breytir engu um ástandið næstu mánuði, trúverðuleiki eykst smá saman en hefur trúlega ekki áhrif að ráði fyrr en á næsta ári. Sjálfsagt að skoða þetta og fá að vita hvað ætlum við að kaupa af EU og hvað ætlum við að selja == og þá hvað kostar þetta og hvað fáum við í staðin. EU skapar ekki stöðugleika án Evru - spurning sem verður að svara hvenær fáum við Evru.
Ef Evra kemur eftir þátttöku í EMR í fimm ár þá skipti EU ekki máli við verðum hvort sem er komin á hausin.
Ef fólk kýs ekki eða skilar auðu þá er það ekki að taka afstöðu til þessara mála.
Guðmundur (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 12:28
Það er hressandi að koma inn á svona hreinræktaða kommasíðu eins og þessa. Lára Hanna skautar framhjá því algerlega að sanngjarni 2% eignaskatturinn sem VG ætlar að leggja á alla sem eiga íbúð, er til viðbótar öllu því sem Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að leggja á áður og lýst er hér að ofan
Ekki ætlarðu að afskaffa þær hækkanir fyrst ?
Halldór Jónsson, 21.4.2009 kl. 16:35
Halldór, kemur enn ein lygin. VG hefur reifað að leggja eignaskatt á stóreignamenn, eftir því sem ég best veit kemur ekki til greina að leggja eignaskatt á íbúðir og hús sem fólk býr sjálft í.
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 21.4.2009 kl. 18:14
Halldór, er sem sagt allt hitt ósatt? Eða geta Sjálfstæðismenn viðurkennt að skattar á lágtekjufólk hafi hækkað á þessu árabili - eins og OECD segir ..............???
Harpa Björnsdóttir, 21.4.2009 kl. 18:53
Þeir ætla ekki að hækka skatta. Alls ekki. Þeir ætlar að nýta "tekjutengingar" sagði konan á Selfossi í gær. Tekjutengingar? Jamm og já!
Nýjasta útspil snillinganna í auglýsingum er að varaformaðurinn lofar 50% lækkun á greiðslu húsnæðislána.
Spái því að næst verði lofað góðu veðri.
alla (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 19:18
Húrra fyrir þér Lára Hanna....orð í tíma töluð og við skulum hafa það sem sannara reynist....hér sést hver hinn raunverulegi Skattmann er á hinn venjulega borgara þessa lands!!
Valgerður Lísa Gestsdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 21:06
Fnykur frá kaldastríðsárunum hjá Halldóri Jónssyni. Að kalla gagnrýnisraddir "kommana". Þannig var, á kaldastríðstímanum, að allir sem spurðu spurninga sem ekki féllu í kramið hjá Flokknum, Heimdalli eða Varðberg voru úthrópaðir "Kommúnistar". Mér finnst, að vera kallaður "Kommúnisti" af þessu liði, vera hrós: Það þýðir: að vera opinn fyrir upplýsingum (frekar en áróðri), gagnrýninn og sjálfstætt hugsandi. Mikið sé ég eftir að hafa aldrei komist í Keflavíkurgöngu.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 21:27
Halldór ! Er ekki nóg hér ósvarað , af þinni hálfu ? Lára Hanna ! Tær snilld . ;)
Hörður B Hjartarson, 21.4.2009 kl. 22:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.