24.4.2009
Arfleifð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar
Einu sinni, endur fyrir löngu, var Sjálfstæðisflokkurinn kannski ekki sem verstur. Notaði slagorðið "stétt með stétt" og innan hans rúmuðust margar stéttir í þessu "stéttlausa" landi. Það var reyndar mestanpart blekking, en hún virkaði. Jafnræði var þokkalegt þótt alltaf væru sumir jafnari en aðrir. Guðmundur Magnússon lýsir þessu ágætlega í bók sinni Nýja Íslandi sem kom út í fyrra.
Endur fyrir löngu sagði þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, þetta: Þeir eru allt of margir, ekki sízt á opinberum vettvangi, sem hafa tamið sér það að tala svo um andstæðinga sína sem þeir væru samblönduð hjörð fábjána og misindismanna ... slík baráttuaðferð er átakanlegt vitni þröngsýni og víðsýnisskorts. Hún er merki sjálfsbirgingshrokans, sem telur sig einan vita allt, þykist sjálfum sér nógur og upp yfir það hafinn að læra af öðrum ... Í fyrstu byrja sumir sjálfsagt þennan leik í hálfkæringi og alvöruleysi. Enda er það auðveldasta aðferðin í deilum um alvarleg mál að svara með getsökum og aðdróttunum. Áður en varir eru svo þeir, sem slíkt hafa um hönd, farnir að trúa sjálfum sér og verða þar með þröngsýnni með hverri stund er líður. Og verra en það. Sá, sem trúir því, að andstæðingi sínum gangi illt eitt til og hann kjósi fremur rangt en rétt, lendir áður en varir í þeirri hættu að hverfa frá baráttuaðferðum lýðræðisins. Það er býsna almenn trú, að illt skuli með illu út reka. Ef menn telja því að við óþokka eina að eiga, þá er viðbúið, að ekki verði þokkabrögðum einum beitt til að koma þeim fyrir kattarnef."
Svo tóku Davíð, Hannes Hólmsteinn og félagar við flokknum og þá breyttist nú aldeilis ýmislegt.
Sjálfbirgingshrokinn sem telur sig einan vita allt, þykist sjálfum sér nógur og yfir það hafinn að læra af öðrum varð alltumlykjandi í Sjálfstæðisflokknum - og er enn. Þröngsýni og víðsýnisskortur einkennir vel flest sem frá flokknum kemur og flokksmenn víla ekki fyrir sér að ljúga blákalt um allt og alla til að afla sér stuðnings. En það er ekki eins auðvelt nú og áður - þökk sé netinu, netmiðlum og bloggi. Hagsmunagæsla Sjálfstæðisflokksins, misréttið sem hann stendur fyrir og fáránleiki tvískinnungsins er öllum ljós sem vilja opna augun og skynja sannleikann. Enda hefur komið berlega í ljós undanfarnar vikur að Sjálfstæðisflokkurinn er á móti öllu því sem þjóðin vill og telur sér vera fyrir bestu. Það hentar nefnilega ekki hagsmunum flokksins og þeirra hagsmunahópa sem hann gengur erinda fyrir. Sjaldan hefur kjöftugum ratast jafnsatt á munn eins og þessum helsta hugsuði flokksins sem lýsir hér sjálfstæðismönnum í hnotskurn. (Meira hér og hér)
Framsóknarflokkurinn var stofnaður af bændum, um bændur og fyrir bændur, utanum fallega hugsjón - samvinnuhugsjónina. Eftir því sem völd og áhrif flokksins jukust fór æ minna fyrir fögrum hugsjónunum en æ meira fyrir hagsmunagæslu. Framsóknarflokkurinn hefur aðeins haft eina hugsjón í mínu minni - að halda völdum, hvað sem það kostar. Fara í stjórn með hverjum sem er, slá af hvaða kröfum sem er, gera hvað sem er - fyrir völd. Fyrir mörgum áratugum var farið að kalla Framsóknarflokkinn "melluna í íslenskum stjórnmálum" og ekki að ástæðulausu. Stundum var hann kallaður "jájá-neinei flokkurinn". Og hann var stærsta atvinnumiðlunin. Fólk gekk í flokkinn til að hafa trygga og góða atvinnu það sem eftir var ævinnar, skítt með alla pólitík. Flokkurinn sá um sína, hversu heimskir og hæfileikalausir þeir voru, og veldi þeirra byggðist að mestu á misvægi atkvæða. Munið þið eftir þessu? Hér talar þáverandi framsóknarmaður með innanflokksvitneskju og reynslu. Við skulum ekki láta okkur dreyma um að þetta hafi breyst með nýjum formanni. Það þarf miklu meira til - og margfalt lengri tíma. (Meira hér og hér)
Þessir tveir flokkar stjórnuðu Íslandi í sameiningu í 12 löng ár. Í vikunni var fjallað um hvernig misskipting tekna þróaðist á Íslandi í valdatíð flokkanna tveggja. Þetta hefur verið rannsakað ítarlega og niðurstöðurnar eru hrikalegar. Við vissum þetta alveg, sáum það gerast með eigin augum en skildum það kannski ekki alveg. Áttuðum okkur ekki á því hvernig þetta var hægt. Innst inni bærðist þó vitneskjan en við vildum ekki viðurkenna að Ísland væri orðið svona ómerkilegt. Svona ósanngjarnt og óréttlátt. Að misréttið væri orðið svona mikið. En þetta er staðreynd.
Viðfest neðst í færslunni er skýrsla um niðurstöðu rannsóknar Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar um þróun tekjuskiptingar á Íslandi 1993-2007 - Heimur hátekjuhópanna - auk tveggja greina eftir Stefán um skattamál Íslendinga. Ég fjallaði um hvernig flokkarnir hækkuðu skatta á almenning hér. Þessi umfjöllun er því tengd og er sláandi lesning sem ég hvet alla til að kynna sér. Í útdrætti segir m.a.: "Frjálshyggjuáhrifa tók að gæta á Íslandi með sívaxandi þunga frá um 1995 og einmitt frá þeim tíma tók tekjuskiptingin að verða mun ójafnari en áður hafði verið. Ákveðin tímamót eru við árið 2003 en frá þeim tíma jókst hraðinn í ójafnaðarþróuninni til muna. Aukning ójafnaðar á Íslandi virðist hafa verið mun örari en almennt var í OECD-ríkjunum. Í þessari grein er þeirri þróun ítarlega lýst, fyrst almennt og síðan með nánari greiningu á þróun háu teknanna í samfélaginu frá 1993 til 2007. Þá eru helstu áhrifavaldar hins aukna ójafnaðar greindir, svo sem áhrif fjármagnstekna, atvinnutekna og lífeyristekna, auk jöfnunaráhrifa skatta- og bótakerfisins." Ég mæli líka með að fólk lesi þetta.
Fréttir RÚV 21. apríl sl.
Hinir nýju formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks eru auðmenn, það held ég að sé algjörlega óumdeilt. Ég sé ekki fyrir mér að þeir beiti sér fyrir að meiri jöfnuður náist aftur á Íslandi. Óneitanlega væri hætta á að slíkt yrði á þeirra eigin kostnað, svo ekki sé minnst á hagsmunaaflanna sem stjórna flokkunum á bak við tjöldin. Við þurfum að spyrja okkur sjálf samviskuspurninga áður en við göngum til kosninga: Hvernig samfélag viljum í framtíðinni? Viljum við meira jafnræði eða viljum við viðhalda ójöfnuðinum sem myndaðist í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar? Svari nú hver fyrir sig og kjósi samkvæmt sannfæringu sinni og samvisku.
Að lokum legg ég til að næsta stjórn, hver sem hún verður, taki mið af rannsóknum og niðurstöðum Stefáns og Arnaldar Sölva þegar ákveðið verður hverju á að breyta, hvar skal skera niður, hvar að spara og hverja að skattleggja meira en aðra. Greinilegt er að sumir hópar í þjóðfélaginu eru aflögufærari en aðrir.
Svo má ég til með að skjóta hér inn myndbandi þar sem einn heittrúaðasti Sjálfstæðismaður allra tíma fer með morgunbænir... eða eru þetta formælingar? Sá þetta hjá Hjálmtý og grenjaði næstum úr hlátri. Ingvi Hrafn er óborganlegur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:53 | Facebook
Athugasemdir
Takk -takk. Þarfar áminningar.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 14:42
Lára Hanna!
Þú ert algjörlega frábær. Þakka þér fyrir þennan frábæra pistil og alla hina sem ég hef lesið með áfergju.
Svanhildur (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 15:31
Þetta gæti gert mann vinstri grænan ef maður væri ekki unnandi Álversflokksins.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 24.4.2009 kl. 16:01
Af hverju lesa svona margir bloggið þitt en fáir mitt?
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 24.4.2009 kl. 17:14
Það hef ég ekki hugmynd um, Benedikt. Mér dettur helst í hug að það sé af því þú ert Púllari...
Lára Hanna Einarsdóttir, 24.4.2009 kl. 17:19
Samfylkingarmaður sagði Rúv fyrir nokkrum árum að samfylkingin ætti að reyna höfða til fólks sem hefði það gott og væri að smíða sér grillpall eða þessháttar. Grilldótaríið hlýtur að vera svona „jolly millistéttarkonsept“.
hordurhalldorsson... (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 21:03
"Svo tóku Davíð, Hannes Hólmsteinn og félagar við flokknum og þá breyttist nú aldeilis ýmislegt. Sjálfbirgingshrokinn sem telur sig einan vita allt, þykist sjálfum sér nógur og yfir það hafinn að læra af öðrum varð alltumlykjandi í Sjálfstæðisflokknum - og er enn. Þröngsýni og víðsýnisskortur einkennir vel flest sem frá flokknum kemur og flokksmenn víla ekki fyrir sér að ljúga blákalt um allt og alla til að afla sér stuðnings."
Þetta má kalla íslenska lygasamfélagið 1991- 2008.
Merkilegt að nokkur maður með sómatilfinningu skuli kjósa flokkinn. Engin en stofnun í samfélaginu ber meiri ábyrgð á eyðileggingunni en Sjálfstæðisflokkurinn, nema ef vera skyldi stjórnarandstaðan síðustu árin.
Eg sá þessa tilvitnun í Herbert Spencer í grein eftir Þór Saari:
“Til er sú afstaða sem virðir allan fróðleik að vettugi, hunsar öll rök og festir manninn ætíð í kviksyndi fáviskunnar ævina á enda. Þetta er sú afstaða að vera á móti einhverju án þess að hafa kynnt sér það.”
http://www.borgarahreyfingin.is/2009/04/24/þor-saari-esb-og-kjarkleysið/
Samt veit eg um sómakært fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn enn, en skil það sem sagt alls ekki. Virði það ekki heldur. Afber það bara.
Sjálfum finnst mér Borgarahreyfingin mestu tíðindin í kjölfar efnahagshrunsins. Hreyfingin mun fljúga yfir 10% á morgun. Bara spurning hve langt.
Eg ætla að kjósa Borgarahreyfinguna. Segi það hverjum sem vill og líka hinum sem kæra sig ekkert um að vita það.
X-O
Þau sem ekki þekkja helsta talsmann Borgarahreyfingarinnar (hann hefur ekki verið keyptur inn á gafl landsmanna fyrir almannafé líkt og formenn annarra framboða) geta séð hann í yfirheyrslu Þóru Kristínar hér:
http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/03/23/thor_saari_i_zetunni/
Rómverji (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 22:13
Glimrandi góður pistill Lára Hanna.
Ég hef trú á góðum morgundegi.
Anna Einarsdóttir, 24.4.2009 kl. 22:55
Upprifjunarsíða fyrir almenning og fólk með gullfiska minni.Þú bregst ekki Lára Hanna
Konráð Ragnarsson, 25.4.2009 kl. 01:53
Takk Lára Hanna, sat einmitt hérna fyrr í kvöld og las minningar grein Bjarna Ben um langafa minn Jakob Möller. Þessir gaurar voru alvöru, gegnheilir baráttumenn, sanngjarnir og sýndu umhverfi sínu virðingu. Þeir börðust fyrir gildum sem við getum flest skrifað upp á í dag, en Sjálfstæðisflokkurinn er algerlega búinn að glutra frá sér. Frekar fúlt sem það nú er.
En Rómverji þessi tilvitnun í Herbert Spencer er afar góð og enn betri á frummálinu þar sem segir:
Herbie Spencer var augljóslega gaur með viti og það er Þór Saarí svo sannarlega líka :)
Við setjum X við O á morgun (eftir) kæru landar!
Baldvin Jónsson, 25.4.2009 kl. 02:34
Æ krakkar, missa sig nú ekki alveg í pólitískri fortíðarhyggju
Hildur Helga Sigurðardóttir, 25.4.2009 kl. 03:34
Tek undir með Hildi Helgu. Pólitísk spilling og spilling í viðskiptalífi er hundgamalt fyrirbrigði. Á Íslandi hefur lengi liðist yfirgengileg spilling. Efnahagshrunið er einhverskonar grand finale.
"Sakleysi" okkar gagnvart spillingu er rannsóknarefni. Það hefur eitthvað með etnískar hugmyndir að gera, einsleitni samfélagsins, einsleitni fjölmiðlunar ...
Eigum við ekki að kjósa Borgarahreyfinguna í dag?
Rómverji (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 08:36
Það er alveg ótrúlegt hvað það eru margir sem geta ekki hugsað sjálfstætt og geta engan vegin brotið sig út úr viðjum vanans, nú hef ég kosið ef ég man rétt 5 sinum 3 flokka til skiptis ,ég hika ekki við að refsa flokkum sem standa sig illa og það ætti fólk að íhuga ef það kýs Sjálfstæðis og Framsóknarflokkinn þá erum við á góðri leið með úrkynjun og status que.
Res (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 09:17
Góður pistill Lára Hanna, að vanda.
Ég hjó eftir einu í ræðu Þorgerðar Katrínar, á landsþingi þeirra frjálshyggjumanna, sem virðist ekki hafa fengið mikla athygli, en hluti af ræðu hennar var eitthvað á þessa leið sem sannar það sem ég hef lengi haldið fram um forgangsröðunina hjá íhaldinu. ,,Við sjálfstæðismenn verðum að standa saman og vinna áfram fyrir flokkinn en síðast en ekki síst fyrir fólkið í landinu"
Tek undir með öðrum athugasemjendum hér, áfram X O
Magnús Vignir Árnason, 25.4.2009 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.