Ógleymanlegt bréf til Egils

Eins og þeir vita sem lesa blogg Egils Helgasonar reglulega birtir hann oft bréf sem hann fær. Stundum nafnlaus, stundum fylgja nöfn bréfritara. Þau eru misjöfn, þessi bréf. Sum eru stútfull af upplýsingum, góðum pælingum og öllum mögulegum fróðleik. Önnur lýsa persónulegum upplifunum fólks og snerta mann á annan hátt. Öll skipta þau máli í umræðunni og Egill velur þau yfirleitt af kostgæfni, að því er virðist.

Á hádegi í gær birti Egill nokkur bréf. Eitt þeirra hefur verið að velkjast í huga mér síðan og ég losna ekki við það úr huganum. Ég er búin að lesa bréfið þrjátíu sinnum og það er með ólíkindum. Bréfið vekur upp í mér gríðarlega reiði, nístandi sárindi, óskaplega skömm og djúpa sorg. Ég hef þráspurt sjálfa mig síðan ég las það hvers konar samfélag hefur fóstrað svona fólk. Hvort þeir séu margir sem hugsa svona. Hvernig hægt sé að vera svona þenkjandi í þessu litla samfélagi okkar. Svona eigingjarn og sérgóður á meðan þjóðinni blæðir út. Hvers konar siðferði hefur mótað slíka sérhagsmunagæslumenn sem gefa skít í allt og alla nema sjálfa sig?

Bréfið  segir mikla og stóra sögu í látleysi sínu. Takið eftir eignarhaldi jöklabréfanna. (Vill einhver fjölmiðill vinsamlegast komast að eignarhaldi þeirra!) Ég skil mætavel niðurstöðu og ákvörðun bréfritara. Spurning hvort maður fetar í fótspor hans. Svona hljóðar bréfið:

"Ég var í samkvæmi um helgina. Þar var maður sem sagðist eiga nokkur hundruð milljónir í jöklabréfum skráð á félag á Tortóla. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til þess að gefa tommu eftir, hann hefði jú fjárfest í góðri trú. Stuttu seinna fóru umræðurnar að snúast um afturköllun aflaheimilda. Útgerðarmaður í hópnum hló að þessar ríkisstjórn og sagði að þeir myndu fljótlega ganga á vegg með þetta. Þarna töluðu allir digurbarkalega um að verja rétt sinn og aflandseyjar.

Í dag opnaði ég netbankann minn. Teygjulánið var komið inn (skipti um íbúð rétt fyrir hrun og náði ekki að selja hina). Það sem á að bætast aftan við lánið er sett í reitinn VANSKIL. Mér sortnaði fyrir augum, það hvarf hjá mér öll löngun til að hjálpa þessu landi. Ég hafði jú fengið erlent lán hjá bankanum, en nokkrum vikum seinna hringdi sami bankinn og bað mig um að setja allan sparnaðinn í sjóð 9 því að það væri svo pottþétt.

Ég hef vel undan að borga en löngunin er horfin. Ég hringdi í lögfræðing og ætla að skipuleggja þrot mitt fram í tímann."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Neo

Ég er hjartanlega sammála þér Lára Hanna, ég las þetta bréf í gær og það situr ennþá í mér. Við þurfum að venjast þeirri tilhugsun að það eru andfélagslegir og siðblindir persónuleikar (psycopaths) allstaðar í þjóðfélaginu okkur. Flestir þeirra eru ekki morðóðir eins og Hollywood vill meina heldur þrífast þeir víst mjög vel í viðskiptum þar sem krafan er siðleysi og eru þeir því oft hátt settir í stórum fyrirtækjum. Ég sá myndband um slíka persónuleika á einhverju blogginu hér á mbl um daginn, kannski einhver annar geti bent á það? John Perkins talaði einnig um þetta í Silfrinu. Ég hef spurt mig: hvort voru útrásavíkingarnir bláeygðir fábjánar eða vammlausir skúrkar sem sökktu þjóðinni vísvitandi? Fyrir mitt leiti þá er það seinni útskýringin. Siðleysi í bland við kókaínneyslu. 

Þegar ég las þetta þá rann upp fyrir mér ljós:

Auðvitað hafa þessir menn sogið alla peninga út úr þjóðinni, komið þeim undan í skattaskjólum og síðan fjárfest aftur í Jöklabréfunum til að fullkomna glæpinn! 

Hver eru rökin fyrir að halda Jöklabréfseigendum leyndum? Er það bankaleyndin gamla góða? Einnig, finnst engum óréttlátt að Jöklabréfaeigendur fái 15% hagnað greyddan út í gjaldeyri um hver mánaðarmót? Það eru einu rökin fyrir því að hafa vextina svona háa að mér sýnist. Það er því augljóst hverjir eru ennþá með tögl og haldir í samfélaginu...

Neo, 15.5.2009 kl. 08:09

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Kaldranalegur boðskapur um þróun íslensks samfélags undir fána frjálhyggju. Nafnlaus bréf eru reyndar ekki mínar uppáhaldsheimildir. En um þetta bréf má einu gilda hvort það er samið af laglega skrifandi höfundi um dæmi sem gæti verið satt eða hvort það er sönn frásögn. Sagan er sönn um ástand sem allir vita að er staðreynd og margir hafa fundið brenna á eigin hörundi.

Árni Gunnarsson, 15.5.2009 kl. 09:56

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þetta er ótrúverðugt bréf að því leyti að einungis fábjánar myndu tala um krónubréfin sín á slíkum vettvangi. Ef satt er sagt frá, hefur þetta verið afar undarleg samkunda.

Ketill Sigurjónsson, 15.5.2009 kl. 11:14

4 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Sagan endurtekur sig. Graccus bræður reyndu á sínum tíma að snúa við öfugþróuninni, höfðu smá árangur, en töpuð samt í lokin. E.t.v. voru þeir aðallega að hugsa um eigin hag. Vandamálið var svipað, bændur þá, heimilin nú. Áhrifin þau sömu, ofurríki yfirstétt og alslausir öreigar, þjóðfélagssáttmálinn rofinn. Enginn vilji hjá þjóðinni til að standa undir bruðlinu eða halda kerfinu við. Þegar yfirstéttinni var kollvarpað (500-600 árum síðar) þá var almenningi sama enda þrautpíndur. Farið hafði fé betra.

http://en.wikipedia.org/wiki/Gracchi

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 15.5.2009 kl. 11:20

5 identicon

Í mörg ár hef ég ekki skilið af hverju ekki er tekið á málum hér á landi. Það er eiginlega sama hvert er litið: Þingið með alla sína já-flokksmenn, opinber rekstur með endalausri umframfjárþörf, skattar sem sífellt eru hækkaðir, endalaus samráð hjá bönkum, olíufélögum, tryggingarfyrirtækjum, margs konar verslunum (s.s. byggingarvöru), þrátt fyrir samkeppniseftirlit, sóðaleg umgengni unglinga um eignir annarra, umferðin sem er alveg sér kapítuli, spól jeppa og mótorhjóla í náttúruperlum landsins og yfirleitt alls staðar þar sem hægt er að komast, loftmengun frá virkjunum sem eiga að vera grænar, yfirgangur fjárglæframanna, skattsvik sem vitað er um, alls konar svindl og svínarí hjá bönkum, fjármögnunarfyrirtækjum bíla og véla, kvótasvínaríið og svo má lengi telja. Held að umferðin, sem er sér kapítuli, sýni ágætlega hvernig ástandið í þjóðfélaginu er yfirleitt og almennt. Þar er ótrúlega stór hluti allra bifreiða óskoðaður, þ.e. er ekki skoðaður á tilsettum tíma eða ekki farið með í endurskoðun á tilsettum tíma, einnig er mín reynsla að þegar ekið er á löglegum hámarkshraða fara flestir fram úr. Tillitssemi í umferðinni er varla til og ofbeldi er eiginlega besta lýsingin á ástandinu þar. Það er einfaldlega ekki tekið á öllum þessum málum eða þá notuð vettlingatök. Ég vil benda á að frændur okkar Danir og Norðmenn taka mun harðar á málum en gert er hér. Þetta var ekki svona slæmt hér áður fyrr.

Mér finnst subbuskapurinn sem sagt er frá í umræddu bréfi bara lýsandi dæmi um allan subbuskapinn í okkar litla þjóðfélagi. Eigingirni, græðgi, ofbeldi og ekki farið að lögum. En er það ekki allt í lagi fyrir viðkomandi, siðgæði er ekki metið og það er ekki tekið á þessum málum?

Verð þó að viðurkenna að stundum hvarflar það að mér hvort fólki finnst þetta yfirleitt allt í lagi og hvort það er ellin sem gerir mig ósáttan við þetta ástand? Er að verða löggilt gamalmenni.

HF (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 12:21

6 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Um ein útrásarvíkinginn : þegar maður er alinn upp í siðleysi, og að það sé í lagi að stela, og lærir ekkert á að fara í fangelsi fyrir þjófnað,(enda aðeins örfáir mánuðir) þá er ekki von á góðu, siðleysið verður eðlilegt.

Sigurveig Eysteins, 15.5.2009 kl. 13:36

7 identicon

Bréfið er alls ekki ótrúverðugt. Búrar af þessu tagi komast einmitt til metorða í frumstæðu og siðvilltu "ættbálkasamfélagi" eins og því íslenska. Lygasamfélagi Sjálfstæðisflokksins.

Siðblindan hefur náð hæstu hæðum og menn sjá ekkert athugavert við gerðir sínar. Styrmir Gunnarsson talar alveg ófeiminn um hvernig fjármálastofnunum almennings var ráðstafað í hendur tiltekinna fjárglæframanna sem voru í "kallfæri" við FLOKKINN. Bara soldið montinn að vera innundir, vita og taka þátt í svínaríinu með aðal. Ekki er heldur reynt að fela rökþrotin þegar frændur, vinir eða synir eru skipaðir dómarar. Ekki í neinni alvöru. Hvað þá þegar flokksgæludýrunum er raðað ínn í stjórnsýsluna sem flokkurinn telur sig eiga.

Eg hef sjálfur hlustað á hálfbjána bulla fulla um "kúlur" og kúlulán og milljónirnar sínar.

Þetta bréf til Egils er mjög trúverðugt og engan þarf að undra yfir því.

Langlundargeð þjóðarinnar, sinnuleysið. er það sem kemur manni sífellt á óvart. Hve lengi á það að endast? Hér þarf að gera miklu meira en Jóhanna og Steingrímur geta ímyndað sér. Miklu meira en þau eru reiðubúin að gera.

Rómverji (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 14:54

8 Smámynd: Haraldur Baldursson

Sorglegt....

Haraldur Baldursson, 15.5.2009 kl. 15:13

9 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það er til lítils að safna auði, ef ekki er hægt að monta sig af honum einhversstaðar !

Bréfið hljómar hugsanlega ótrúverðugt, en hvað annað höfum við ekki heyrt upp á síðkastið ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 15.5.2009 kl. 16:53

10 identicon

Hverjir eru eigendur jöklabréfa finnst mér vera mál dagsins. Af hverju er þetta ekki upplýst? 

Kolla (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 18:53

11 Smámynd: Anna

Er það ekki rétt að Danir sendu kríma hingað til Ísland til refsíngar í gamla gamla daga. Her hafa þeir fengið að unga út börnum og barnabörnum. Blóðbornir krímar í aldanna rás. Það skýrir nú mannfólkið í dag sem sjá ekki að krímmaskapur sé síðleysi.

Anna , 15.5.2009 kl. 19:46

12 identicon

Finnst bréfið frekar ótrúverðugt. Mjög sennilega "nafnlaust"

Er einhver svo vitlaus að auglýsa svona "veldi" sitt í dag ? Vitandi það að fólk er reitt yfir akkúrat svona "útrásar" aumingjum ?

Held frekar að bréfritari hafi smíðað þetta til að ýfa upp og gera fólk reitt ! Og honum tekst það ágætlega !

 Hitt er svo annað mál að allt sem fólk segir hér er rétt ! við eigum heimtingu á að vita hverjir eru eigendur þessara jöklabréfa.Ef eitthvað af þessu krimma liði á þau, á umsviflaust að setja lög sem gera bréfin upptæk eða jafnvel bara ógild ! Við, almenningur hefum fengið á okkur ólög, af hverju ekki þessir sem hafa komið okkur í þessa krísu. grrrrr.......

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 20:55

13 identicon

 Hér vantar nú ýmislegt áður en að menn taka efnislega afstöðu til ályktunar þessa einstaklings.  Nú er það bara svo að það er til fullt af fólki á landinum sem var áhættufælið á þessum ótrúlega tíma. Vidi ekki kaupa fyrr en það seldi. Margir stækkuðu ekki við sig vegna þess að þeim fannst verðið á húsnæðinu fáranlega hátt miðað við tekjur. Sat, og situr enn í allt of litlu húsnæði miðað við fjölskyldurstærð. Situr semsagt ekki uppi með tvær eignir. Vildi ekki, hvort sem að það var upplýst ákvörðun eðu ei, taka lán, taka áhættu. Hvorki í erlendri né íslenskri mynt. Var semsagt svolítið mikið þýzkt í sér. Eins og umræðan hefur verið að þróast þá sýnist manni að ekki sé gerður heilbrigðri skynsemi venjulegs fólks og því neyslufylleríi sem að sumir ginnungagapar féllu fyrir. Og að allir þeir sem að í dag eiga peninga hljóta að hafa fengið þá með illum hætti. Eins og staðan er í dag þá virðast þetta vera einu raunverulegu peningarnir sem til eru. Ef að ganga á þá vegferð sem að hér er boðuð þá verður að ganga á þetta fé. Og þykir sjálfsagt, með tilvísun í það að olígarkarnir gerðu þetta líka.

Réttlæting sem að mér sýnist vera beitt hér er að fyrst að fjárglæframenn komust upp með skömmina þá ég sem einstaklingur einnig að geta það. Fyrir það ofangreinda fólk sem ég hef talið til hefur slík afstaða enga samúð. Ekki frekar en hjá því vinnandi fólki sem að lagði fyrir af litlum tekjum í sparnað í stað bruðls á tímum gróðærisins.

Það vantar fyrst og fremst eru gögn, mælingar, upplýsingar. Uppýsingar sem eru ekki byggðar á heildartölum eða meðaltölum. Uppýsingar sem ekki eru byggðar á sálarangist einstaklinga sem að kunnu ekki fótum sínum fjörráð. Einstaklingar sem að nú sæta lagi og segja fyrst að einhver komst upp með að skulda trilljónur og leggja þær á skattgreiðendur framtíðarinnar þá hlýtur að vera í lagi að mínar milljónir fari á herðar þess einnig. Herðar þeirra sem að ekki tóku þátt skulu sem sagt bara éta það sem að úti frís, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar, þrisvar, ...

"Af því að þetta allt er náttúrulega ekki mér að kenna." Heimfærið þessa setningu undir hvern þann stórgrósser sem ykkur dettur í hug. Áður en að þið gerið slíkt spurjið ykkur að því hvort að hugsanlega sé hægt að heimfæra þetta upp á ykkar eigið skinn.

einar

einar (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 21:59

14 identicon

Já Kolla. Það hafa margir spurt um eigendur jöklabréfa. Fátt um svör. Önnur góð spurning er: "Hverjir voru stærstu eigendur í sjóði 9?

Alltuppáboðið-ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hlýtur að sjá til þess að almenningur - sem á að borga brúsann - fái að vita þetta. Eða hvað?

Rómverji (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 22:26

15 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Nafnleysingjarnir leggja trúnað við söguna. Segir það ekki allt sem segja þarf?

Ingimundur Bergmann, 16.5.2009 kl. 00:35

16 identicon

Það er dauði og djöfulsnauð,

er dyggðasnauðir fantar.

Safna auð með augun rauð,

þegar aðra brauðið vantar.

J.þ.A. (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband