23.5.2009
Sakamálin saksóknarans
Þar kom að því að eitthvað gerðist, nærri 8 mánuðum eftir hrun. Allir hafa þeir því haft nægan tíma til að fela slóðir og eyða gögnum. Eða hvað? Eva Joly sagði reyndar að hægt væri að rekja peningaflutninga fram og aftur blindgötuna um langt skeið. Vonandi er það rétt, en þá er að fá upplýsingarnar.
Norðurlöndin gerðu nýverið samning við Bresku Jómfrúreyjar (sem Tortóla tilheyrir) um að fá upplýsingar um skúffufyrirtæki og sitthvað þvíumlíkt. En hvernig standa málin með Kaupþing í Lúx? Nóg virðist hafa farið af þýfi þar í gegn, skilst manni. Sigrún Davíðsdóttir hefur unnið ötullega að upplýsingaöflun um þessi mál - skúffufyrirtæki og leynifélög hér og hvar - og hún er líklega orðin sérfræðingur í skattaskjólinu Lúxemborg. Ég bendi á hina ómetanlegu pistla hennar í Speglinum sem lesa má og hlusta á hér. Pistlar Sigrúnar eru hafsjór af fróðleik.
En loksins, loksins er eitthvað að gerast. Sérstakur saksóknari kominn í stellingar og búinn að gera húsleit. Þetta hefði gerst fyrir löngu víða annars staðar - og menn verið hnepptir í varðhald vegna þess að rökstuddur grunur væri um að lögbrot hefði verið framið. En ringulreiðin sem tröllriðið hefur stjórnsýslunni hér er með ólíkindum. Enginn veit af hverju ekkert var aðhafst strax. Hinir brotlegu bjuggust við því og gerðu ráðstafanir eins og fram kemur m.a. í myndbandi hér. En enginn var handtekinn, engar eignir frystar - ekkert slíkt hefur gerst ennþá.
Hvort saksóknari og hans fólk fann eitthvað við húsleit og þá hvað vitum við ekki. Né heldur af hverju var byrjað akkúrat þarna. En af nógu er að taka og einhvers staðar verður að byrja. Til upprifjunar bendi ég á pistilinn Réttlæti óskast - má kosta peninga. Ég var orðin allverulega óþolinmóð fyrir 2 mánuðum, hvað þá núna.
Ég klippti saman nokkrar fréttir um Katar-Kaupþingsmálið. Fréttir af kaupum Katarfurstans birtust fyrst 22. september sl. Svo heyrðist ekkert af því máli fyrr en í janúar þegar farið var að draga þann gjörning í efa. Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson mótmæltu hástöfum, gáfu út yfirlýsingar og sögðu viðskiptin ofureðlileg. Einmitt það.
Fréttir Stöðvar 2 og RÚV frá september 2008, janúar 2009 og maí 2009
Kastljós 19. janúar 2009 - Ólafur Ólafsson, Pétur Blöndal og Vilhjálmur Bjarnason
Ég hef fjallað um hinar undarlegu Nærmyndir af auðmönnum sem birtust í Íslandi í dag í ársbyrjun. Hér gat ég mér þess til að tilgangur þeirra væri að mýkja hug og hjörtu landsmanna gagnvart þeim þegar eitthvað stóð til. Hér er ein Nærmyndin í athyglisverðu samhengi. Einnig var gerð Nærmynd af Ólafi Ólafssyni. Takið eftir að hún birtist á skjánum 13. janúar, en fyrsta fréttin af meintum svikum í Katar-Kaupþingsmálinu birtist 14. janúar og fleiri næstu daga. Þetta er auðvitað afskaplega heppilegt - búið að mýkja okkur svolítið með notalegri Nærmynd rétt áður en sprengjurnar falla. Klókur leikur eða undarleg tilviljun?
Ísland í dag 13. janúar 2009 - Nærmynd af Ólafi Ólafssyni
Síðast en hreint ekki síst hengi ég við færsluna tvö Spegilbrot. Hið fyrra er frá 20. janúar og er viðtal við Vilhjálm Bjarnason um Katar-Kaupþingsmál. Hið síðara er pistill Sigrúnar Davíðsdóttur frá 30. janúar um Katar, Kaupþing, Lúx og Líbýu. Mjög fróðlegt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 24.5.2009 kl. 21:52 | Facebook
Athugasemdir
Ætli þessi sérstaki saksóknari hafi ekki gefið umræddum útrásarvíkingum tíma til hvítþvottar??? Mér er spurn?
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.5.2009 kl. 04:09
Sefur þú aldrei Lára okkar?
Arinbjörn Kúld, 23.5.2009 kl. 04:54
Um daginn var sagt frá því að bótasjóður Sjóvá hafði verið veðsettur. Fannst athyglisvert hve lítið var gert úr fréttinni í fjölmiðlum. Það þykir kannske ekkert tiltökumál að bótasjóðir tryggingafélaganna hér á landi hafi verið veðsettir eða tæmdir. Hélt að það giltu mjög strangar reglur um bótasjóði. Ég lít þannig á að það jafngildi því að peningunum sem ég borga í tryggingar sé stolið og fyrir það fari menn í fangelsi.
HF (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 10:08
Mér finnst lítið fara fyrir umræðu um það að Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem eftir dúk og disk setti þennan sérstaka saksóknara til að rannsaka spillinguna, á tengdason sem er einn af þessum vafasömu einstaklingum sem þarf rannsóknar við!
rósa (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 11:54
Auður þessara auðmanna byggist á lánum, sem tekin eru af verðmætum sem vinnandi fólk hefur skapað og ef skuldir eru reiknaðar frá eignum, þá eiga þeir minna en ég og þú. Samt lifa þeir í vellystingum og ferðast á einkaþotum. Í mínum huga eru þessir auðmenn Verstu blóðsugur og snýkjudýr heimsins. Þeir lifa svo sannarlega á kostnað annarra.... Ojbara..... Svona skíthæla vil ég ekki hafa í mínum kunningjahóp.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 12:11
Mikið hlýtur að vera gott að búa hjá Láru Hönnu, í landi rugludallanna, þar sem hægt er að sleppa öllu sem heitir rannsókn og dómsmeðferð, og rjúka bara beint í að sakfella menn út á það eitt að Láru Hönnu finnst að svo eigi að vera.
Lára Hanna fer í flokk með fólki eins og Agli Helgasyni, fólk sem þrífst á því að ríghalda í hið neikvæða og illa ígrundaðar samsæriskenningar. Fólk sem virðist ekki finna fróun í neinu öðru en að ala á ósætti og kjaftasögum. Lára Hanna, það hryggir mig að það skuli vera til fólk eins og þú, fólk sem höfðar til lægstu kennda samborgaranna... líklegast til þess eins að upphefja sjálfa þig eitt andartak og finnast þú vera merkilegur pappír.
Liberal, 23.5.2009 kl. 14:11
Liberal - settu inn það sem þér sýnist - skrifaðu mikinn og langan texta ! Sittu lengi við og þar áfram götuna ! Það eflir okkur hin gagnvart þér og þínum líkum !
Lára Hanna - takk takk takk.
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 23.5.2009 kl. 14:25
Jæja allir meiga segja sína skoðun. En ég þakka fyrir þessar uppl. sem ég hafði misst úr fréttum. Það segir sig alveg sjált að viðskiptahættir bankanna voru óeðlilegir og ekki samkvæmt lögum. Mer finnst Björn Bjarnasson ekki samfærandi maður. Og er gott að erlendir aðilar koma her að rannsókn málsins. Því öll erum við skild. Og hafa her bankaviðskiptin gengið á milli vina og ættingja. Mer finnst einnig Bössur og Forsetinn mætu mæta í viðtal hjá kastljós og upplý. almenning hversskonar viðskipti átti sig stað þarna úti. Þeir fóru þangað. En til hvess fóru þeir út. Hvessvegna voru þeir að koma nálægt bankaviðskiptum. Eiga þeir í fyrirtækjum á Jónfrúeyjum. Mer finnst bara að flestir þessarra manna komu nálægt þessu. Fyrrverandu Ríkisstjórn og fyrrverandi Seðlabankastjórni. Þeir voru allir saman í bankaviðskiptunum. Og ættu allir að vera yfirheyrðir með tölu.
Anna , 23.5.2009 kl. 14:40
Það var ekkert gert meðan Ingibjörg og Geir Gunga voru við völd, Geir sagði jú að það ætti að horfa framávið, en ekki að leita að sökudólgum.
Svo mátti ekki trufla þau, því þau voru alltaf í miðjum brimskaflinum að moka!!
Magnus (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 14:58
Barnalegar og kjánalegar gagnrýnislausar frásagnir beggja "fréttamannanna", þegar þeir segja frá "kaupunum" í fyrsta myndbandinu, hreinlega öskrar á mann.
Báðar "fréttastofurnar" tóku að sér að vera tilkynningamiðstöðvar þeirra sem áttu hagsmuna að gæta við að hylja slóð sína rétt áður en þeir misstu andlitið. (Þessir sömu menn sæta nú rannsókn hjá sérstökum saksóknara). Læddist virkilega aldrei grunar að þessum "fréttamönnum" að eitthvað óeðlilegt væri í gangi í Kaupþingi?
Öll áhersla "fréttamannanna" er á þennan Quatar-mann (Guð má vita hvort hann er til). Ekki er gerð tilraun til að setja þessi "kaup" í samhengi við það, sem þá þegar var vitað, að bankinn var vaxinn þjóðinni yfir höfuð. Svarið er líklega að það að halda sannleikanum utan við frásögnina hentaði bankamönnunum eins og þeir voru kallaðir þá, en voru fjárglæframenn eins og öllum er nú ljóst. Hvernig datt nokkrum "fréttamanni" í hug að taka þetta hlutverk að sér?
Hvernig datt íslenskum "fréttamönnum" í hug að þvæla ræktun hesta inn í frétt um að íslenskur tröllvaxinn banki var enn að vaxa? Banka sem var vaxinn þjóðinni yfir höfuð. Hvarflaði ekki að "fréttamönnnunum" að það sem þeir ættu að grafast fyrir um væri hvaða áhrif stærð bankans hefði á íslenskt efnahagslíf en ekki hvort hestaræktandi myndi taka sæti í stjórn bankans?
Það var Kaupþingsmönnum nauðsynlegt að "fréttin" um "kaupin" segði helst ekki neitt um það sem undir lá. En hvernig datt "fréttamönnum" í hug að taka að sér að lesa fréttatilkynningu made in Kaupþing án minnstu gagnrýninnar rökhugsunar?
Hvar skilja svona "fréttamenn" rökhugusn sína eftir meðan þeir dvelja á vinnustað sínum? Myndskreyttu yfirmenn Kaupþings líka "fréttina" af hestaræktandanum?
Helga (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 15:06
Lára varaðndi það hverning þetta væri gert hjá öðrum löndum þá held ég að fólk ætti að varast svona fullyrðingar. Fólk hefur t.d. tekið USA sem dæmi um aðgerðir og t.d. ENRON. En í heimildarmynd sem gerð var um það mál þá kom fram að það tók jú 3 til 5 ár að fá þá menn dæmda fyrir bort sín. Minni á að í einu máli sem hér er í rannsókn hefur verið m.a. farið í gegnum 800.000 tölvupósta. Finnst illa gert að vera alltaf að ráðasta að þeim sem eru að rannsaka þessi mál. Þetta tekur tíma og mest um vert er að þetta sé unnið vel og að gögn séu tryggð.
Eins þá átt þú að vita þar sem þú fylgist vel með að það eru á 3 tug mála komin til sérstaks saksóknara. Það eru mörg mál í gangi í FME. Það er rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem hefur víðtækarheimildir til að afla gagna og hefur yfirheyrt alla aðal þátttakendur í þessu máli.
Held að það sé öllum fyrir bestu að hér verði ástunduð vönduð vinnubrögð sem tryggja að allir sem hafa staðið að saknæmu atferli í þessum málum svari til saka og málum verði ekki vísað frá vegna slælegra vinnubragða. Og eins að við fáum ekki ný Hafskipsmál sem væru yfir okkur næstu áratugi þar sem að rifist væri um hvort að menn hafi verið sekir eða ekki. Ef að göng eru varðveitt þá höfum við tíma til að vanda vinnuna og það vona ég að menn séu að gera.
Magnús Helgi Björgvinsson, 23.5.2009 kl. 15:18
Einhver Liberal ýjar að samsæriskenningum. En það þarf mikið til að dómstólar heimili húsleit. Það liggur alltaf fyrir mjög vel rökstuddur grunur um afbrot, ef slík heimild er veitt. Enginn eldur án reyks.
Finnur Bárðarson, 23.5.2009 kl. 16:43
Þegar fjármálaeftirlitið í Hollandi tók yfir Landsbankann þar í landi, fyrir mörgum mánuðum, var þeirra fyrsta verk að leiða alla stjórnendur bankans í járnum út úr bankanum. Ekki var verið að kveða uppúr með sekt eða sýknu, en yfirvöld vildu vera viss um að yfirmenn bankans fengju ekki framar færi á að spilla gögnum.
Rannsókninni á bankahruninu hér heima er vægast sagt áfátt. "Sérstök" svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Egill Helgason og Lára Hanna hafa unnið þjóð sinni mikið gagn. Ekki er útséð með að íslenskt samfélag lifi þessar hörmungar af. Almenningur hefur það í hendi sér.
Eina leiðin til þess að samsæriskenningar verði ekki að þjóðaríþrótt, er að gera rannsóknina á efnahagshruninu trúverðuga. Til þess þarf utanaðkomandi sérfræðikunnáttu. Líka þarf að virkja landsdóm.
Rómverji (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 20:32
Eitt sem Pétur Blöndal sagði undir lok viðtalsins við hann vakti athygli mína, hann sagðist telja að afrit hefðu verið tekin af öllum tölvugögnum bankanna strax í upphafi hruns.
Veit einhver hvað er til í þessu? Hefur einhver staðar komið fram staðfesting á því?
Ef rétt er þá er það gott og í raun meira en ég hafði búist við af yfirvöldum hér.
Andrés (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 21:35
Það sem ég staldra helst við þegar ég renni huganum yfir þessi rannsóknarefni öll er það hvernig við munum vinna úr þessu. Að því gefnu að nú séu á þriðja tug mála komin inn á borð sakóknara þá er nokkuð ljóst að áður en lýkur mun þetta verða slíkur fjöldi mála að rúmgott húsnæði með tölvukerfi og fjölda starfsfólks með sérþekkingu þarf til að skipuleggja rannsóknargögn, tengingu þeirra innbyrðis og undirbúa lokaákvarðanir um sakfellingu. Miðað við 5 ára barning sækjenda í Baugsmálinu einu sem enn er ólokið sé ég ekki fyrir mér að þetta verkefni sé framkvæmanlegt.
Er ekki bara einfaldast að ríkið bjóði kröfuhöfum Icesave innstæðnanna og öðrum ámóta kröfuhæfra innstæðna bankaútibúanna erlendis skuldajöfnun með veiðileyfi á innstæður grunaðra á Jómfrúareyjum og öðrum viðlíka skattaparadísum?
Og afhenda þeim rannsóknargögn til frekari úrvinnslu og yfirheyrslna jafnharðan og þau berast.
Í alvöru talað. Hugsið ykkur umfang þessara mála allra, þegar á næstu mánuðum!
Árni Gunnarsson, 23.5.2009 kl. 23:32
Ég botna ekkert í hversu miklum tíma mönnum var skaffaður til að hylja slóðir og tæta skjöl í öreindir. Vonandi kemur eitthvað út úr þessum skríaleik annað stór reikningur til skattgreiðenda. Á virkilega ekki að uppfæra dómskerfið áður en þessi mál verða tekin fyrir?
Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 01:37
Þakka þér kærlega fyrir góða færslu og að standa vaktina fyrir okkur
Ég er líka að velta fyrir mér hvað varð um þessar 500 miljón evra sem Seðlabankinn lánaði Kaupþing rétt áður en bankinn hrundi ?
Kom þessi peningur til baka eða sogaðist hann til þeirra ?
http://new.vb.is/frett/1/48120/kaupthing-faer-lan-hja-sedlabankanum
Ruth, 24.5.2009 kl. 02:56
Nákvæmlega Viðar. Það þarf greinilega að uppfæra dómskerfið til að takast á við þetta yfirgripsmikla mál. En dómkerfið verður aldrei uppfært með tilteknar flýtimeðferðir í huga. Það stæðist varla alþjóðlegar reglur um meðferð sakamála. Þess vegna getum við hætt öllum fagnaðarlátum varðandi þessar rannsóknir á efnahagsbrotum nema þá ef við setjum upp margar dómstofur til viðbótar en hvort það er framkvæmanlegt er svo önnur saga.
Og þessar 500 þúsund evrur Ruth777! Ósköp er lítið sagt frá afdrifum þeirra, og hvers vegna skyldi það nú vera?
En mér krossbrá þegar ég sá sagt frá tengdasyni Björns Bjarnasonar. Reyndar er það enn ein staðfesting þess hve vanmegnaðir við Íslendingar erum þegar kemur að svona umfangsmikilli rannsókn. Og nú má enginn taka þessi orð mín svo að ég væni Björn Bjarnason um óheiðarleika eða tilraunir til yfirhylminga í neinu efni. Ég ætla að trúa því í lengstu lög að Björn sé vandaður maður. En þegar kemur að vinum hans og samstarfsmönnum þá vandast málið hjá þeim. Og þetta á við um alla Íslendinga sem eru meira og minna tengdir með ýmsum hætti.
Árni Gunnarsson, 24.5.2009 kl. 11:59
Árni það er einmitt vandamálið Íslenskir aðilar eru fæstir hæfir til rannsókna innanlands.
Þar sem við Íslendingar vorum í fararbroddi í efnahagshruni heimsins eigum við að nýta okkur þá sérstöðu. Drífa í að setja upp alþjóðlegan fjárglæpa-dómstól í samvinnu við önnur ríki, svipað dæmi og Alþjóða stríðsglæpa-dómstóllinn.
Hægt er að finna honum stað á gamla vallarsvæðinu á Miðnesheiði eða í einhverju af stórhýsunum sem standa auð á stór-Reykjavíkursvæðinu. Þetta er dæmi um nýsköpun sem leiðir af sér mörg störf mun skila gjaldeyri í þjóðarbúið.
Nóg er af verkefnum. Fjárglæpamenn hafa vaðið um heiminn og framið efnahagsleg hryðjuverk í öllu heimsálfum.
Til að þetta geti orðið þurfum við að byrja á okkar eigin glæpamönnum.
Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 16:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.