Gullkorn mannanna

Ef þú vilt vera þjófur skaltu hlusta vel á mig,
steldu nógu miklu og þá semja þeir við þig.
Sá sem stelur litlu skilur ekki baun
í hvernig kerfið virkar
og að lokum lendir inni á Litla Hrauni.

Hljómar sannleikanum samkvæmt, ekki satt? Þetta er brot úr texta á plötu sem kemur út um miðja næstu viku. Lagið sem textinn er úr heitir Þjóðarskútan. Ég hef verið í forréttindahópi undanfarna daga, sem er fátítt en í þessu tilfelli mjög gefandi og skemmtilegt. Ég fékk að hlusta á alla nýju Mannakornsplötuna - Von. Hún er algjört gullkorn.

Eini tónlistarmaðurinn sem hefur komist næst því að vera tónlistarlegt átrúnaðargoð í lífi mínu er Ómar Ragnarsson. Þá var ég um 10 ára og Ómar að hefja feril sinn. Cliff Richard komst ekki með tærnar þar sem Ómar hafði hælana á þeim tíma nema hvað mér hefur líklega fundist Cliff sætari en Ómar. Þó er það alls ekki víst.

Pálmi GunnarssonFyrir utan þetta hefur aðallega tvennt staðið að ráði upp úr í tónlistarsmekk mínum. Mér fannst, og finnst enn, Dark side of the moon með Pink Floyd besta plata allra tíma. Og mér finnst Pálmi Gunnarsson besti söngvari á Íslandi - og eru þeir þó ansi margir mjög góðir. Það er eitthvað töfrandi og seiðmagnað við raddbeitingu Pálma. Hvernig hann tjáir hvað sem hann syngur. Hvernig hann kemur textanum frá sér, svo skýrt en þó eðlilega. Minnir mig á hvernig Hilmir Snær gat látið texta Shakespeares hljóma eins og nútímatalmál á fjölum Þjóðleikhússins um árið. Pálmi er og hefur verið minn uppáhaldssöngvari í fleiri áratugi en ég kæri mig um að muna.

Hitt Mannakornið er auðvitað Magnús Eiríksson. Í augnablikinu man ég ekki eftir öðru eins eintaki af tónlistarmanni. Manni sem getur allt í senn - samið ódauðleg lög og texta, spilað, sungið og líka tekið ljóð skáldanna og samið ógleymanleg lög við þau. Ég er sannfærð um að margir átta sig ekki á hve löng og glæsileg afrekaskrá Magnúsar er. Við heyrum lögin, þau sitja í okkur en við pælum ekkert sérstaklega í hver samdi þau. Man einhver eftir lögum eins og Ég er á leiðinni, Ræfilskvæði, Jesús Kristur og ég, Göngum yfir brúna, Braggablús... Svona mætti halda áfram lengi. Allt lög eftir Magnús og textar eftir hann, Stein Steinarr, Vilhjálm frá Skáholti. Man einhver eftir þessu textabroti:

Ofmetnastu ekki
af lífsins móðurmjólk.
Kirkjugarðar heimsins
geyma ómissandi fólk.
(Ómissandi fólk - lag og texti Magnús Eiríksson)

Einn aðalstyrkur Magnúsar Eiríkssonar sem textahöfundar er að hann hittir Magnús Eiríkssonmann í hjartastað og sem lagahöfundar að lagið hverfur ekki úr huga manns, gleymist ekki. Sumir eru annaðhvort góðir lagahöfundar eða textahöfundar - en Magnús er snillingur í hvoru tveggja.

Þegar þessir tveir leggja saman, Pálmi og Magnús, getur ekki annað en komið út úr því frábær tónlist. Því höfum við fengið að kynnast í hvað... 30 ár? Ég man ekki hvað þeir hafa unnið lengi saman. Ég hef notið þess í tætlur að hlusta á nýju plötuna, Von, aftur og aftur og aftur. Þetta eru fjölbreytt lög - tregi, húmor, rómantík, sorg, ástríða, gagnrýni, háð... Þeir spila á allan skalann. Eitt lagið, Kraftaverk, hefur hljómað á Rás 2 (veit ekki um aðrar útvarpsstöðvar) og ég kannaðist strax við það. Platan verður reyndar plata vikunnar á Rás 2 alla næstu viku. Leggið við hlustir.

Ég beitti öllum mínum sannfæringarkrafti - sem getur verið allnokkur þegar mikið liggur við - við útgefandann til að fá að skrifa um plötuna og birta einn texta og lag. Það tókst og ég þakka fyrir góðfúslegt leyfið, sem er ekki sjálfgefið að fá. Ætli Jens Guð kalli þetta ekki að skúbba. Ég hef aldrei skrifað um tónlist, aldrei langað til þess fyrr. Er enda enginn sérfræðingur eða tónlistarspekúlant og nýt tónlistar með tilfinningunum og hjartanu, ekki höfðinu. En mig langaði að segja frá þessari plötu því tónlistin snerti mig svo innilega. Og ég má til með að nefna umslagið. Það er listaverk, enda eftir Ólöfu Erlu sem ég man eftir að fjallað var um í sjónvarpinu í vetur. Þvílík listakona! Sjáumst í Salnum í Kópavogi á fimmtudaginn - það verður gaman!

Von - Mannakorn - Útgáfutónleikar í Salnum 28. maí 2009

Farðu í friði

Við fæðumst til að ferðast meira,
fæðing dauði er ferðalag.
Margra bíður sultur seyra
en sumum gengur allt í hag.

Öll við fáum okkar kvóta
af meðlæti og mótlæti.
Flest við munum einnig hljóta
okkar skerf af ástinni.

Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný.

Úr hjarta mínu hverfur treginn
er ég hugsa um hlátur þinn.
Bros þitt veitti birtu á veginn
betri um stund varð heimurinn.

Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Þar til heimsins þungi dynur
þokar okkur heim á ný.

Sólin skín á sund og voga
sumar komið enn á ný.
Horfið burt í bláum loga
stjörnublik á bak við ský.

Lag og texti: Magnús Eiríksson


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þeir fá varla betri eða vandaðri gagnrýni. Ef ég væri tónlistarmaður þá myndi ég a.m.k. vilja að áheyrendur mínir nytu listar minnar með tilfinningunum og hjartanum. Það væri svo bónus ef einhver þeirra gæti lýst áhrifunum eins heiðarlega og þú.

Takk fyrir sýnishornið. Þetta eru gimsteinar

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.5.2009 kl. 03:53

2 identicon

Nokkuð svo sammála. Mjög innilhaldsrík og góð umfjöllun. Eftir að hafa heirt tóndæmi sem þú hefur sett í myndbrotin í þínum bloggum þá held ég að þú hafir góðan tónlistarsmekk. Talsvert betri en konurnar á Rás2.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 08:55

3 identicon

Ég er líka svo heppin að hafa heyrt lögin á plötunni (er í klíkunni ) og BARA elska þau ÖLL. Á allan katalóginn með Mannakorn og það virðist ætla að verða eins með þessa plötu og hinar, maður spilar þær yfirleitt alltaf allar í gegn, þó að alltaf verði einhver uppáhalds á hverri og einni. Þér hefur greinilega orðið vel ágengt með útgefandann því að þú komst skrefinu lengra en undirrituð, að fá coverið líka  - ok - fyrirgef það! Það verður örugglega magnað að vera á þessum útgáfutónleikum, ætla að reyna að komast suður til að geta fengið þetta flotta efni beint í æð  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 10:28

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Bíð spennt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.5.2009 kl. 12:05

5 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Bíð líka spennt, svo sammála þér með þessa pilta, hvor öðrum betri.

Rut Sumarliðadóttir, 25.5.2009 kl. 12:16

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Já þau eru mörg uppáhaldslögin mín af Mannakornsplötum. Þeir eru frábærir saman og sitt í hvoru lagi.

Hrönn Sigurðardóttir, 25.5.2009 kl. 19:22

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Flottir! Og þú!

Villi Asgeirsson, 28.5.2009 kl. 08:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband