28.5.2009
Komið, spámenn...
Nýr pistill Eiríks Guðmundssonar í Víðsjá á Rás 1 fjallar um þörf Íslendinga fyrir sannindi. Eiríkur tekur síst of djúpt í árinni. Þangað til sannleikurinn kemur í ljós verðum við í lausu lofti - og það er afleitt. Stjórnvöld verða að tala meira við þjóðina - og segja sannleikann.
Komið, spámenn
Á Íslandi er nú töluverð þörf fyrir mikil sannindi. Þjóðin þráir speki, þráir sannindi, helst dálítið dularfulla speki, sem sögð er á framandi máli, við munum taka Dalai Lama fagnandi, rétt eins og við tókum bandaríska kvikmyndaleikstjóranum David Lynch fagnandi á dögunum. Eins og við tókum Evu Joly fagnandi, þegar hún kom og sagði okkur, beint eða óbeint, að hér hefðu glæpamenn verið að verki.
Það er eftirspurn eftir erlendum sannindum, og það er ekki að ástæðulausu! Þjóðin trúir ekki innlendu spekingunum, treystir ekki á íslenskt hyggjuvit, og það er eðlilegt, það voru jú Íslendingar sem léku okkur grátt. Þess vegna bíðum við nú eftir því að einhver komi, með eitthvað. Við erum opin fyrir austrænni speki, norrænni speki, andlegum fróðleik við trúum við sem við okkur er sagt, vegna þess að við erum beygð og þurfum á einhverju að halda. Í því ástandi sem Íslendingar eru nú taka þeir á móti hverju sem er. Helst einhverju heimsfrægu. Dalai Lama er á leiðinni til landsins, hann virkaði reyndar ekki beysinn í myndinni sem sjónvarpið sýndi í gærkvöldi, hann var eins og hver annar grínari, sem stakk til dæmis upp á því að menn leystu deilur Palestínumanna og Ísraelsmanna með því að fara í lautartúr. Menn eiga bara að róa sig niður, sagði Dalai Lama. Og svo var það spekin um að hinir fátæku séu hamingjusamari en hinir ríku. Stórhættulegur boðskapur, fyrir þjóð í þeirri stöðu, sem Íslendingar eru nú.
En það er sannarlega engin ástæða til að ýta mönnum út af borðinu, þótt þeir komi furðulega út, í einum sjónvarpsþætti, það er sjálfsagt að hlusta á Dalai Lama, og raunar alla þá sem vilja færa okkur einhvern uppbyggilegan boðskap. Ekki veitir af.
En sumarið, ágætu hlustendur, það er strax byrjað að slæva mann. Áður en maður veit af er maður farinn að borða pönnukökur með kanilsykri undir berum himni, áður en maður veit af er maður orðinn heimskulegur í stuttbuxum, það er vonlaust að hugleiða hlutskipti sitt, af einhverri alvöru, á stuttbuxum. Ekki síst þess vegna, veitir ekkert af uppörvandi innspýtingu inn í hugarfarið, þótt maður nenni ekki endilega, að láta segja sér, að róa sig niður. En hættan er sú, ágætu hlustendur, í maílok, að fegurðin í náttúrunni slævi mann, að maður gleymi sér glápandi niður Flosagjá, að maður gleymi sér undir allt of háum hamravegg, gleymi sér við að bera smurolíu á reiðhjólið, eða lesandi Kvöldvísur við sumarmál, franska skáldsögu um hafið, ég veit það ekki, ég veit ekki til hvers heimurinn ætlast af manni, ég veit ekki hvernig ég á að taka öllum þessum ráðleggingum, veit ekki hvað á að gera, þegar grænu skuggarnir skríða á land, volgir upp úr funheitum hafdjúpunum.
Ég veit ekki hvernig á að lifa kreppuna af. Ég veit ekki hvort Dalai Lama hefur svarið, eða David Lynch, eða Eva Joly, eða villt blóm sem vaxa undir hamravegg, eða andlit sem speglast í djúpum hyl á Þingvöllum, ég bind reyndar af einhverjum ástæðum vonir við rússneska hljómsveitarstjórann Gennadij Rosdestvenskij, sem ég sá í sjónvarpinu í gær. Það var bara eitthvað í því, hvernig hann talar og ber sig að, þegar hann stjórnar hljómsveit. Hann ku vera á leiðinni til landsins.
En þannig er staðan, nákvæmlega núna, ágætu hlustendur, á Íslandi er nú töluverð þörf fyrir sannindi, við bíðum eftir fljúgandi dúfum með hálsbindi, við bíðum eftir því að sannleikurinn komi siglandi, utan úr heimi, við nemum hann í viðtali, sem verður sent út með íslenskum texta síðar. Þangað til verðum við - eins og hingað til - algerlega í lausu lofti.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hmmm, ég er ekki viss um að við séum svona algerlega í lausu lofti eins og Eiríkur teiknar upp. Við eigum vissulega við þann vanda að etja ofan á allt annað að fjölmiðlar hér eru alveg arfaslakir í að grafast fyrir um sannleikann fyrir okkur - en mér fannst við sem þjóð sýna góða takta í vetur við að rýna og skoða. EF við höldum því áfram, jafnvel á asnalegum stuttbuxum maulandi sykurpönnsuna - þá getum við kannski litið um öxl eftir einhver ár og talað um Búsáhaldabyltingu fremur en andvana uppreisn á Austurvelli - því það verður hún ef þjóðin hættir að kalla fram sannleikann.
Guðrún Helgadóttir, 28.5.2009 kl. 13:57
Hatur þarf að sefa og slæva. Ef það er rétt hjá þér Lára Hanna að pönnukökur með kanilsykri undir berum himni og að glápa niður Flosagjá hafi slævandi áhrif, hefur Dalai Lama eflaust hárrétt fyrir sér þegar hann segir að lautartúr geti leyst deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs.
Svanur Gísli Þorkelsson, 29.5.2009 kl. 03:07
Sannleikurinn mun gera yður frjálsa...
Hildur Helga Sigurðardóttir, 29.5.2009 kl. 03:23
Íslenska lygi, nei takk!
Veljum útlenskt.
Rómverji (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 14:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.