Valtýr og vanhæfið

Vogarskálar réttlætisBogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, sagði sig frá skýrslugerð um hrun bankanna í byrjun nóvember. Hann hafði verið ráðinn til verksins af Valtý Sigurðssyni, eftirmanni sínum í embætti. Bogi gerði hið eina rétta þegar hæfi hans var dregið í efa sökum fjölskyldutengsla, en sonur hans var framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Stoða. Hann hætti.

En Bogi gerði gott betur en að sýna heiðarleika og gott siðferði í þessu máli. Hann skrifaði merkilegt bréf sem ég hengi neðst í færsluna og hvet fólk til að lesa. Valtýr þrjóskaðist við og fannst hann ekki vanhæfur þótt sonur hans væri forstjóri Exista, eins stærsta hluthafans í stærsta bankanum. Valtýr sagði sig þó frá verkinu nokkrum dögum á eftir Boga. Nú þrjóskast hann við aftur.

Það sem mér finnst furðulegast er, að þessum mönnum og öðrum í svipuðum stöðum, bæði í embættismannakerfinu og stjórnmálunum, er í sjálfsvald sett hvort þeir meta sig vanhæfa eða ekki. Stór mál, meðferð þeirra og niðurstaða geta semsagt oltið á siðferði eins manns.

Jafnvel þótt sonur Valtýs hafi ekki stöðu grunaðs, jafnvel þótt Valtýr hafi sagt sig frá málum sem viðkoma sérstökum saksóknara (sjá bréf hans í viðhengi neðst í færslunni), jafnvel þótt Valtýr sé strangheiðarlegur, gegnheill og góður maður - hann er samt vanhæfur til að gegna embætti ríkissaksóknara um þessar mundir. Mér finnst það einhvern veginn segja sig sjálft. Mér finnst líka að hann eigi ekki sjálfur að vera sá sem metur hæfi sitt eða vanhæfi. Það er ekki sanngjarnt gagnvart honum, hvað þá þjóðinni.

Nú þekki ég ekki hvernig kerfið virkar, en mér þætti ekki ólíklegt að Valtýr, í krafti stöðu sinnar, geti haft aðgang að alls kyns gögnum og jafnvel haft áhrif á framvindu mála. Annað eins viðgengst nú aldeilis í þessu gjörspillta kunningjasamfélagi. Illugi segir kerfið ónýtt og byggt á spillingu, klíkuskap og sjálfumgleði. Hárrétt. Það er hvorki rétt eða siðlegt að setja Valtý í þessa aðstöðu - né heldur að hafa þann vafa hangandi yfir öllum málum sem viðkemur rannsókninni. Eva Joly hefur hárrétt fyrir sér - Valtýr verður að víkja alveg úr starfi ríkissaksóknara. Annað er siðlaust og viðheldur tortryggni.

Hér er svolítil upprifjun á máli Boga og Valtýs frá í byrjun nóvember og svo nokkur atriði um mál Valtýs nú. Ég hef þetta í tímaröð og meti svo hver fyrir sig.

Kastljós 3. nóvember 2008

 

Fréttir RÚV 4. og 6. nóvember 2008

 

Morgunblaðið og Fréttablaðið 4. og 7. nóvember 2008

Bogi Nilsson og Valtýr Sigurðsson - Fbl. og Mbl. 4. og 7.11.08

Tíufréttir RÚV 10. júní og kvöldfréttir 11. júní 2009

 

Kastljós 11. júní 2009

 

Eva Joly í Íslandi í dag 11. júní 2009

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að Valtýr stígi til hliðar í rannsókn bankahrunsins ætti að vera svo sjálfsagt og eðlilegt að ekki þurfi að ræða það eða velta því fyrir sér. Hins vegar átta ég mig ekki á því hvers vegna hann þarf að víkja úr embættinu eins og það leggur sig. Dómarar víkja oft í einstökum málum vegna fjölskyldu- eða hagsmunatengsla en það er ekki þar með sagt að þeir séu óhæfir sem dómarar almennt séð og ég átta mig ekki á því hvers vegna annað gildir í þessu tilfelli.

Guðrún (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 01:12

2 identicon

"Eftirlitsstofnanir sinntu ekki eftirlitinu"... segir Joly í viðtalinu við Heimi.

Er þetta ekki það sama og Sigríður sagði í viðtalinu í skólablað Yale-háskóla?

Ætli Jónas klagi Joly líka?

Helga (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 01:35

3 Smámynd: Þórólfur Ingvarsson

Það verður allt notað til þess að Eva Joly segi sig frá þessu og hætti allri vinnu fyrir okkur og þetta er einn leikurinn í því, Valtýr Sigurðsson ætlar ekki að víkja og lét sig meira að segja hafa það að kalla þetta flugeldasýningu hjá Joly.

Það ljósa í þessu er, það eru allir logandi hræddir við að allt verði dregið fram í dagsljósið og öll spillingin komi í ljós því þá fær þjóðin að sjá ótrúlegasta fólk, embættismenn, þingmenn og fleiri með allt niður um sig.

Þórólfur Ingvarsson, 12.6.2009 kl. 02:39

4 Smámynd: Heidi Strand

Þegar rannsóknarnefndin lykur störfum, tekur Valtyr ákvæði um i hvaða mál verður ákært.

Þórólfur, þú hittir naglann á höfuðið. Ef Eva verður hrakin í burtu, fáum við aldrei sannleikan fram í dagsljósið.

Heidi Strand, 12.6.2009 kl. 07:10

5 identicon

Enn og aftur sami helvítis íslenski embættismannahrokinn. Menn sem taka sjálfa sig og eigin aumu prívathagsmuni (vellaunað ríkisdjobb) fram yfir hagsmuni heildarinnar (þjóðarinnar) eru ekki Íslendingar. Allra síst þegar svo mikið er undir eins og nú. Valtýr, þú ert ekki beðinn um að segja af þér. Þér er hér með skipað að gera það í nafni íslensku þjóðarinnar.

rex (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 08:11

6 identicon

Mikið rett hjá þórólfi. Eg held að það se farið að hrikta í stoðum stjórnarheimilisins.

Vilhjálmur Bjarnason (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 08:34

7 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Eva Joly sagði í Kastljósi að mikilvægt væri að rannsóknaraðilar hefðu aðgang að ríkissaksóknara sem þau gætu leitað til. Augljóst er að sá aðili verður að vera hafinn yfir allan vafa.

Margrét Sigurðardóttir, 12.6.2009 kl. 08:41

8 identicon

Það dugar ekki að Valtýr víkji bara í málum tengdum bankahruni, eða víkji alveg tímabundið af því að:

 1. Ríkissaksóknari er yfirmaður ákæruvaldsins alls í landinu, hlutverk ákæruvaldsins er að að rannsaka mál og gefa út ákærur. Fyrir undirmenn ríkissaksóknara er það tvennt ólíkt að gefa út ákærur á fjölskyldu fyrrverandi yfirmanns og að gefa út ákærur á fjölskyldu verðandi yfirmanns (eða starfandi yfirmanns í öllum öðrum málum). Ekki vildi ég vera í stöðu undirmanna Valtýs!

  2. Ríkissaksóknari hefur mikil völd. Á þeim völdum þarf rannsókn á bankahruninu að halda! Jafnvel þó það sé komið sérstakt útibú frá ríkissaksóknara sem á að deila þessum völdum með "alvöru ríkissaksóknaranum" þá er það ekki það sama. Embætti sérstaks ríkissaksóknari verður að geta treyst á 100% stuðning og aðstoð frá ríkissaksóknara, embætti ríkissaksóknara og allra undirmanna hans, án alls efa og vafa um hagsmunatengsl bein eða óbein. 

3. Hver er það sem ákveður hvaða mál (sem berast ríkissaksóknara frá lögreglu eða fjármálaeftirliti) tengjast bankahruninu og hvaða mál tengjast því ekki? Þessi mörk verða alltaf loðin og teygjanleg.

Ég er 100% sammála Evu Joly, Valtýr verður að víkja alveg! En mér finnst að hann eigi að fá myndarlegan starfslokasamning.

Jens (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 08:41

9 identicon

Það væri hægt að komast hjá þessu með lagabreytingu þar sem embætti sérstaks saksóknara væri gert algjörlega sjálfstætt. Það var alltaf þannig að þegar settir voru á fót sérstakir saksóknarar, eins og t.d. í Geirfinnsmálinu, heyrði sá sérstaki saksóknari beint undir dómsmálaráðherra. Þetta var vandkvæðum háð þegar kæra áttir ákvarðanir um að ákæra ekki, fella niður rannsókn og fleira í þeim dúr. Með nýju sakamálalögunum nr. 88/2008 var þessu hins vegar breytt þannig að sérstakir saksóknarar heyrðu undir ríkissaksóknara. Það segir jafnframt í lögum um sérstaka saksóknara bankahrunsins að hann heyri undir ríkissaksóknara.

Ef þessu yrði breytt þannig að sérstaki saksóknarinn yrði gerður sjálfstæður og heyrði beint undir dómsmálaráðherra væri hægt að komast hjá því að víkja Valtý, heiðarlegum, metnaðarfullum og góðum ríkissaksóknara frá störfum. Væri sérstaki saksóknarinn sjálfstæður skv. lögum hefði ríkissaksóknari ekkert vald yfir honum, engar ákvarðanir sem þyrfti að taka af honum og Valtýr þannig ekki vanhæfur.

Það er alveg ljóst að með fyrirkomulaginu eins og það er í dag er Valtýr vanhæfur - enginn er óhlutdrægur þegar börnin manns gætu farið í fangelsi.

Birkir (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 09:24

10 identicon

Það er alveg með ólíkindum að maðurinn RÁÐI sjálfur hvort hann er vanhæfur eða ekki!! Hvurslags lög búum við við eiginlega?

Einhver hlýtur að vera yfir manninum og geta rekið hann. Auðvitað ætti hann sjálfur að hafa frumkvæðið að því að fara í frí og segir bara allt um heilindi hans í málinu að hann neiti að víkja.

Nú þegar hefur hann gerst brotlegur með því að draga lappirnar í máli bankana eins og kom fram í Kastljósi í gær.

Veit einhver hver er yfir þessum manni?

Dóra (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 09:52

11 identicon

Ef maðurinn sér ekki þetta sjálfur (sem held að flestum öðrum þyki augljóst eins og Lára Hanna bendir á), verðum við þá ekki að hjálpa honum að átta sig á því?  Þetta er ekkert persónulegt, bara of miklir hagsmunir fyrir þjóðina í húfi og þegar svo er þá verður einn maður að víkja fyrir heilli þjóð.  Það er bara það eina rétta í stöðunni.

Fyrst ákvörðunin virðist hjá honum getum við ekki einhvern veginn hvatt manninn til að gera hið rétta fyrir þjóð sína.  Sammála Jens að hann eigi að fá myndarlegan starfslokasamning ef hann tekur hagsmuni þjóðarinnar fram yfir sína eigin hagsmuni (hagsmunum sonar hans væri sennilega líka betur borgið ef hann hætti því með Valtýr í stól ríkissaksóknara mun alltaf vera einhver efa varðandi allt sem viðkemur syni hans).  Mín vegna má hann vera á fullum launum þar til hann fer á eftirlaun, svo framarlega sem það er engin hætta á því að hann geti spillt rannsókninni á neinn hátt (viljandi eða óviljandi).

Valtýr Sigurðsson, fyrir hönd þjóðarinnar þá hvet ég þig til að óska eftir starfslokaviðræðum við þína yfirmenn.  Yfirmenn Valtýrs, hvet ykkur til að bregðast höfðinglega við ósk hans um starfslok.

ASE (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 10:00

12 identicon

Almenn krafa í réttarríkjum er að hæfi embættismanna sé hafið yfir skynsamlegan vafa. Á Íslandi þarf að færa sönnur á vanhæfi embættismanna eigi þeir að víkja.

Opinber stjórnsýsla er og á að vera almannaeign. Íslensk stjórnsýsla er rekin sem sameign stjórnmálaflokkanna, sem eiga í henni misstóran hlut. Stjórnsýsla á Íslandi er vanhæf eins og hún leggur sig, jafnónýt til verka og flokkarnir sjálfir.

Moka þarf flórinn.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 10:27

13 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sefur nú á sinni kinn,

svífandi í draumalandi.

Lára Hanna, "litla skinn",

lúin mjög af næturstandi.

Magnús Geir Guðmundsson, 12.6.2009 kl. 11:08

14 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er svo sannarlega gott að eiga vonarstjörnur á himni á þessari vargöld sem nú ríður yfir íslenskt samféllag. Þú er svo sannarlega önnur þeirra sem blikar á mínum himni. Enn og aftur takk fyrir þína skýru réttlætiskennd og ódrepandi eldmóðinn!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.6.2009 kl. 11:52

15 identicon

Sæl Lára Hanna.

Þann 21. apríl sl. sendi ég ábendingu um hugsanleg lagabrot til Páls Hreinssonar, formanns Rannsóknarnefndar Alþingis - sjá hér að neðan.

Málið tengist Exista.

Kv.

Gunnar

***

Sæll Páll.

I.

Í eftirfarandi samantekt minni frá því í marz 2008 eru leidd rök að því að yfirtökutilboð Exista í allt hlutafé Skipta

1. braut sett skilyrði við einkavæðingu Símans;

2. skapaði eldri eigendum Exista nokkurra milljarða skaða;

3. ofmat að sama skapi verðmæti Skipta í bókhaldi Exista; sem

4. jafngilti margföldu bókhaldsbroti af því tagi sem Jón Ásgeir var sakfelldur fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. maí 2007.

II.

Þann 21. marz 2008 sendi ég eftirfarandi tölvupóst til viðskiptaráðherra:

Sæll Björgvin.

Ég tek mér það bessaleyfi að senda þér hérmeð umsögn mína um yfirtökutilboð Exista í allt hlutafé Skipta.

Umsögnin er innlegg mitt á viðskiptaþræði málefnin.com.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson

III.

Þann 6. apríl 2008 sendi ég eftirfarandi tölvupóst til Umboðsmanns Alþingis:

Hæstvirtur Umboðsmaður Alþingis.

Með hliðsjón af ákvæðum 5. gr. laga nr. 85/1997 leyfi ég mér að senda yður til athugunar í viðhengi lauslega samantekt varðandi embættisfærslu ráðherra í sambandi við nýafstaðin viðskipti í hlutabréfum Skipta.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson

[kennitala]

IV.

Viðskiptaráðherra og Umboðsmaður Alþingis létu tölvupóstum mínum ósvarað.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson

***

Yfirtökutilboð Exista í allt hlutafé Skipta - brýtur sett skilyrði við einkavæðingu Símans.

1. Í greinargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu dags. 4. apríl 2005 um fyrirkomulag sölu á hluta ríkisins í Landsíma Íslands hf. (sjá hér að neðan) segir m.a. að “Sala bréfa til hóps kjölfestufjárfesta verður háð eftirfarandi skilyrðum”, þ.m.t. þessu:

“að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007, og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni slíkri sölu.”

2. Viðskipti | mbl.is | 19.3.2008 | 10:48

Exista vill yfirtaka Skipti

Stjórn Exista ákvað á fundi sínum í morgun að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Skipta, móðurfélag Símans. Tilboð Exista hljóðar upp á 6,64 krónur á hlut sem er sama verð og í nýafstöðnu hlutafjárútboði Skipta. Greitt verður með nýjum hlutum í Exista sem verða verðlagðir í samræmi við lokagengi á OMX í gær sem var 10,1 króna á hlut.

Fyrirhugað er að tilboðið standi í átta vikur. Verði gengið að tilboðinu mun Exista leggja til við stjórn Skipta að óskað verði eftir afskráningu félagsins eins fljótt og auðið er.

Stefnt að skráningu á ný síðar

Í tilkynningu til kauphallar OMX er kemur fram að ástæða tilboðs Exista er sú að félagið telur ekki vera grundvöll fyrir eðlilega verðmyndun með hlutabréf Skipta á markaði í ljósi niðurstöðu nýafstaðins hlutafjárútboðs og þeirra óvenjulega erfiðu markaðsaðstæðna sem nú ríkja.

Vegna samþjappaðs eignarhalds og markaðsaðstæðna eru verulegar líkur á því að félagið og hluthafar þess muni ekki njóta þeirra kosta sem fylgja skráningu í kauphöll. Stefnt er að því að kanna skráningu félagsins á ný þegar aukið jafnvægi verður komið á fjármálamörkuðum.

„Það er mat Exista að tilboðsverðið, 6,64 krónur á hlut, endurspegli á sanngjarnan hátt núverandi raunvirði Skipta í samanburði við önnur fjarskiptafyrirtæki á markaði og nýlegar yfirtökur á sambærilegum fyrirtækjum.

Exista og dótturfélög þess eiga þegar 43,68% hlutafjár í Skiptum og gerir Exista tilboð í alla útistandandi hluti félagsins. Verði tilboðið samþykkt mun stjórn Exista nýta heimild í samþykktum félagsins til útgáfu allt að 2.846.026.330 nýrra hluta í Exista. Hlutafé Exista mun því að hámarki aukast úr 11.361.092.458 hlutum í allt að 14.207.118.788 hluti og eigið fé félagsins mun aukast um allt að 28,7 milljarða króna,” samkvæmt tilkynningu.

Tilboðið er háð skilyrði um samþykki samkeppnisyfirvalda að því marki sem það kann að vera áskilið lögum samkvæmt.

Skipti voru skráð í Kauphöll OMX á Íslandi í dag í kjölfar hlutafjárútboðs.

Útboðið og skráning félagsins á hlutabréfamarkað var í samræmi við ákvæði kaupsamnings sem upphaflega var gerður við sölu ríkisins á 98,8% hlut í Landssíma Íslands hf. árið 2005.

Í útboðinu, sem stóð frá 10. til 13. mars 2008, var almenningi og öðrum fjárfestum boðið að kaupa 30% hlutafjár félagsins. Einungis seldust um 7,5% hlutafjár í félaginu.

3. Skilyrði um sölu 30% hlutabréfa til almennings og annarra fjárfesta var án fyrirvara um hugsanlegt söluverð:

Fyrirkomulag sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur að undanförnu unnið að undirbúningi við sölu á hlutabréfum í Landssíma Íslands (Símanum) í samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin og ráðherranefnd um einkavæðingu hafa markað.

Ákveðið hefur verið að selja eftirstandandi hlut ríkisins (98,8%) í einu lagi einum hóp kjölfestufjárfesta. Sala bréfa til hóps kjölfestufjárfesta verður háð eftirfarandi skilyrðum:

að enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar, eignist stærri hlut í Símanum, eða í félagi sem stofnað er til kaupa á hlut í ríkisins í Símanum, en 45%, beint eða óbeint, fram að skráningu félagsins á Aðallista í Kauphöll.

að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007, og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni slíkri sölu.

að Síminn verði skráður á Aðallista Kauphallar hér á landi að uppfylltum skilyrðum Kauphallarinnar samhliða sölu til almennings og annarra fjárfesta, og innlausnarrétti verði ekki beitt gagnvart núverandi hluthöfum í Símanum (1,2%) fram að skráningu félagsins á Aðallista Kauphallar.

að kjölfestufjárfestir fari ekki með eignaraðild, beina eða óbeina, í fyrirtækjum í samkeppni við Símann hér á landi.

Allir áhugasamir aðilar, sem hafa til þess getu, nægjanlega reynslu og fjárhagslegan styrk til að ljúka kaupum, koma til greina sem kaupendur. Upplýsingar um gang söluferlisins verða gefnar út með reglulegu millibili, en eðli máls samkvæmt verða ákveðnar upplýsingar varðandi söluferlið bundnar trúnaði, sem og til að viðhalda forsendum til samkeppni.

Stefnt er að því að ljúka söluferlinu í júlí n.k. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu áskilur sér rétt til þess að hafna öllum tilboðum. Ráðherranefnd um einkavæðingu tekur ákvörðun um við hvaða aðila verður samið, að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um einkavæðingu.

Við mat á tilboðum verður meðal annars horft til verðs, fjárhagslegs styrks og lýsingar á fjármögnun, reynslu af rekstri fyrirtækja, hugmynda og framtíðarsýn varðandi rekstur Símans, starfsmenn fyrirtækisins og þjónustu í þéttbýli og dreifbýli næstu fimm árin, og annarra viðeigandi þátta.

Ráðgjafar- og fjármálafyrirtækið Morgan Stanley í Lundúnum er framkvæmdanefnd um einkavæðingu til ráðgjafar við undirbúning sölu.

Reykjavík, 4. apríl 2005

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu

4. Í markaðshagkerfi eins og því íslenzka ræðst raunvirði hlutabréfa af aðstæðum á hlutabréfamarkaði hverju sinni. Verð sem mætir ekki væntingum samningsaðila réttlætir því ekki að skilyrði um sölu bréfa til kjölfestufjárfesta séu sniðgengin.

5. Þann [3. maí 2007] var Jón Ásgeir Jóhannesson sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir “meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.”

6. Undirtektir almennings og annarra fjárfesta við útboðið á 30% hlutafjár Skipta jafngilda ótvíræðri staðfestingu á því að útboðsgengið 6,64 krónur á hlut var verulega umfram raunverulegt markaðsvirði.

7. Ef yfirtökutilboð Exista á öllum útistandandi hlutum í Skiptum á genginu 6,64 gengur eftir, þá mun útgáfa 2.846.026.330 nýrra hluta í Exista skapa eigendum þeirra 11.361.092.458 hluta sem fyrir eru tjón að upphæð mismuninum á 6,64 krónum og raunverulegu markaðsvirði x 2.846.026.330 - e.t.v. tjón upp á nokkra milljarða króna.

8. Eftir yfirtökuna myndi verðmæti Skipta í bókhaldi Exista vera ofmetið að sama skapi.

9. Meint bókhaldsbrot Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fólst í því að hafa “látið færa til eignar (........) í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf., sem lækkuð vörukaup, kr. 61.915.000 á grundvelli rangs og tilhæfulauss kreditreiknings (afsláttarreiknings) frá Nordica Inc., Miami í Flórída í Bandaríkjunum, dagsetts 30. ágúst 2001, að fjárhæð USD 589.890, sem jafngilti kr. 61.915.000 á færsludegi.”

10. Hliðstætt bókhaldsbrot virðist blasa við ef yfirtökutilboð Exista á öllum útistandandi hlutum í Skiptum gengur eftir.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 13:11

16 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Lofthæðin á skrifstofu ríkissaksóknara mun víst vera átta metrar það miklu hefur verið stungið þar undir stól.

Baldur Fjölnisson, 12.6.2009 kl. 14:19

17 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Maðurinn hefur þegar sagt sig frá þeim málum, sem snerta rannsóknir á bankamálunum og nýr saksóknari hefur verið settur yfir þau mál.  Það er sá saksóknari, sem mun taka ákvörðun um hvaða málum verður vísað til sérstaka saksóknarans og Evu Joly, þar með.

Það er ekki hægt að reka æðsta embættismann rannsóknarmála í hvert skipti sem einhver sem hann þekkir, eða er skyldur, er orðaður við einhver glæpa- eða spillingarmál.  Þá segir hann sig að sjálfsögðu frá þeim málum.  Það hefur Valtýr þegar gert.

Til að það þvælist nú ekki fyrir neinum, þá þekkir sá sem þetta skrifar Valtý ekki neitt og tengist honum ekki á nokkurn hátt.

Axel Jóhann Axelsson, 12.6.2009 kl. 16:46

18 identicon

Hvað þarf til að vera vanhæfur í starfi ?

Allt sem búið er að koma fram segir mér , og ef til vill mörgum öðrum, að Valtýr Sigurðsson er vanhæfur í starfi ríkissaksóknara !  Því miður er það þannig að valdaklíkan sér um sína og það á um Valtýr líka !  Það verða alltaf til ,,vinir"  valdaklíkunar sem koma fram og segja okkur hinum að ekki sé hægt að segja meðlimum valdaklíkunar upp !  Auðvitað birtast þeir hér líka !   

JR (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 20:13

19 Smámynd: Kristinn Sigurjónsson

Það er ljóst en rannsókn ríkissaksónara á bankamálinu verður umfangsmeira en nokkurn mun gruna, ef málið verður ekki svæft og þæft.

Sonur Valtýrs er forstjóri Exista og hann tilnefnir einn af aðalmönnum í stjórn Kaupþings, þessir kumpánar munu þekkja fjölda manna sem með einum eða örðum hætti hafa verið að braska með peninga í gegnum hlutafélög, eignahaldsfélög eða bara með makaskiptum.  Þetta er stór vinahópur, ekki bara viðskiptavinir, heldur líka flokksfélagar, golffélagar, Roytari- og Lionsfélagar og hvað þessi fínu félög öll heita að ógleymdu frímúrarar.  Því er það rosalega mikilvægt að þessi stóri og öflugi vinahópur vita hvað er að gerast á skrifstofu ríkissaksónara, svo hægt sé að hafa réttu svörin þegar þeir eru kallaðir til viðtals.  Þetta nær Langt langt út fyrir rannsóknina á Kaupþingi eitt og sér.   Já hver vill ekki styðja börnin sín og þeirra vinahóp.   Þetta þarf bara Eva að skilja.

Kristinn Sigurjónsson, 12.6.2009 kl. 20:57

20 identicon

Mér finnst þetta hætt að vera kjánaskapur hjá Valtý og orðin hrein vanvirðing við íslensku þjóðina. Við þurfum á því að halda að rannsóknin geti haldið áfram, og hún gerir það ekki með góðu svo lengi sem hann þrjóskast við og þykist betri en þjóðin.

Halldóra (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 00:54

21 identicon

Um hæfi og ekki hæfi. Merkilegt:

 http://www.dv.is/blogg/johann-hauksson/2009/6/12/mengun-hugarfarsins/ 

Rómverji (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 02:12

22 Smámynd: Kristinn Sigurjónsson

Þetta er meiriháttar fínn pistill hjá Jóhanni Haussynir á DV sem slóðin

http://www.dv.is/blogg/johann-hauksson/2009/6/12/mengun-hugarfarsins//

vísar á.   Ég hvet alla til að lesa hana.

Svo var nú verið að segja frá því fréttum Stöðvar 2 að Sigurður G lögmaður sé kominn í hóp þeirra sem gagnrýna Evu Joly, í Pressunni , en þess bera að geta að samkvæmt fréttum Stöðvar 2 þá var Sigurður í stjórn gamla Glitnis

Það er ljóst að þjóðinn þarf að standa vörð um þá sem eiga rannsaka spillinguna.

Kristinn Sigurjónsson, 13.6.2009 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband