3.7.2009
Við vitum þetta...
Ég veit ekki alveg hvað ég er búin að koma mér í. Samþykkti um daginn að vera pistlahöfundur hjá nýrri Morgunvakt Rásar 2... veit ekki hve lengi. Ég held bara í sumar. Ég verð með pistla á föstudögum... eða spjall. Þetta er í mótun. Orkuboltinn og kjarnakonan Lára Ómarsdóttir fékk mig í þetta og fyrsti pistillinn var tekinn upp hjá RÚV á Akureyri í gær. Bjössi tæknimaður var mjög góður við byrjandann og allt gekk eins og í sögu. Eftir prufurennslið sagði hann að þetta yrði ekkert betra svo við létum það bara standa.
"NOOOHHH!", heyrði ég í heyrnartólunum þegar ég var búin að flytja pistilinn. "Hvað þýðir það?", spurði ég. "Þú tekur djúpt í árinni," sagði Bjössi. "Það er full ástæða til þess," sagði ég. En mér fannst ég ekkert taka of djúpt í árinni, síður en svo. Reyndar var ég búin að ákveða allt annað umfjöllunarefni en skipti um skoðun eftir fréttirnar á miðvikudagskvöldið.
Svo tók það mig miklu lengri tíma að stytta pistilinn en að semja hann. Mátti vera hámark 4 mínútur en upphaflegur pistill var 7 mínútur. Þegar þetta gerist - og ég hef reynslu af að reyna að stytta skrif mín úr 10-15.000 slögum í 5.000 slög sem er blaðagreinalengdin - finnst mér allt kjöt horfið af beinunum og skrifin/pistillinn vera komin(n) í einkennilegan skeytastíl. Þess vegna gafst ég upp á sínum tíma við að stytta pistlana mína og senda í dagblöðin. Ég er einfaldlega plássfrekari en leyfilegt er.
En hér er pistillinn, frumraun mín á þessum vettvangi - hljóðskrá hengd við neðst ef fólk vill hlusta líka.
Ágætu hlustendur...
Ég er að lesa hryllingssögu í tíu köflum. Bókin heitir Íslenska efnahagsundrið og er eftir Jón F. Thoroddsen. Í henni er farið yfir aðdraganda íslenska efnahagshrunsins og persónur og leikendur í þjóðarharmleik Íslendinga. Þetta er skelfileg lesning og segir mikla sögu. Skúrkarnir eru margir og með sótsvarta samvisku. Spillingin, siðleysið og græðgin bókstaflega skvettist framan í mann af hverri síðu.
Önnur bók, Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson, var ekki síður fróðleg en sjónarhornið annað. Þriðja bókin, Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson, er samantekt sagnfræðingsins. Þessar þrjár bækur ættu að vera skyldulesning. Námsbækur í framhaldsskólum og framhaldsögur í útvarpi. Við verðum öll að vita sannleikann, þekkja forsöguna, vita hvernig á ekki að gera hlutina, hverjum má ekki treysta og læra af reynslunni. Fleiri bækur koma út með meiri upplýsingum sem við verðum að lesa til að vita sannleikann um það sem gerðist og hverjir bera ábyrgð á hruninu mikla, sem mun fylgja íslenskri þjóð um ókomna tíð og setja svartan blett á sögu hennar.
Við vitum ýmislegt nú þegar. Við vitum hvaða flokkar voru við völd. Við vitum hvaða flokkar einkavinavæddu auðlindina í sjónum, bankana og fleiri fyrirtæki og stofnanir í eigu almennings. Og buðu okkur svo jafnvel að kaupa hlut í fyrirtækjunum sem við höfðum sjálf átt áratugum saman. Við vitum hvaða flokkar afnumdu höft og reglur sem gerðu spilltum og siðlausum bankamönnum kleift að setja okkur á hausinn. Við vitum hvaða flokkar prédikuðu frjálshyggju, einkavæðingu, græðgi og sérgæsku sem gróf undan réttlæti, jafnræði, samvinnu og samhjálp í þjóðfélaginu og ýtti undir misskiptingu og óréttlæti. Og við vitum að þessir flokkar hafa ekkert breyst.
Af því ég veit að við vitum þetta öll fékk ég létt áfall yfir niðurstöðu nýrrar Gallupkönnunar í fyrradag. Flokkarnir tveir, sem bera höfuðábyrgð á græðgisvæðingunni og hruninu, höfðu aukið fylgi sitt og ríkisstjórnin tapað fylgi. Erum við virkilega svona gleymin? Við vitum að leiðtogar beggja flokkanna eru auðmenn. Þeir eru líka gasprarar sem lofa upp í bæði ermar og skálmar eins og heyrist á málflutningi þeirra á Alþingi. Ég sé þá ekki fyrir mér vinna að endurheimt jafnræðis eða samfélagslegri ábyrgð í íslensku þjóðfélagi. Ég sé flokkana þeirra ekki heldur stuðla að réttlæti og alls ekki að rannsókn á hruninu. Það er af og frá. Til þess eru þeir allt of stórir leikendur í aðdraganda þess.
Við erum kannski ekki alveg sátt við núverandi stjórn. Kvörtum yfir skorti á upplýsingum og margir gagnrýna Icesave-samninginn. Fleiri atriði má nefna, eins og fáránlega sérhagsmunagæslu samgönguráðherra. En þrátt fyrir allt held ég að stjórnin sem nú situr sé skásti kosturinn. Hún er ekki öfundsverð af að taka við hrundu þjóðarbúi og skafa grómtekinn skítinn eftir fyrri stjórnir. Engar ráðstafanir eru vinsælar undir þeim kringumstæðum en látum okkur ekki detta í hug að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar myndu gera betur. Og núverandi stjórn virðist að auki vera alvara með að leita réttlætis - þótt hægt gangi. Réttlæti er grundvallaratriði og vegur mjög þungt. Er ekki rétt að gefa Jóhönnu og Steingrími tækifæri til að halda áfram að moka flórinn? Við vitum að þau gera það af heilum hug og leggja nótt við dag í þágu þjóðarinnar.
Ekki vildi ég vera í þeirra sporum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:09 | Facebook
Athugasemdir
Hléið er afsakað!
Tek heils hugar undir pistil þinn.
Er búin að lesa Sofandi að feigðarósi og langt kmn með Hrunið, ætla að lesa Íslenska efnahagshrunið að því loknu. Þetta gengur aðeins hægar envant er um lestur hjá mér af því að ég tek svona bækur ekki með mér á fjöll!
Soffía Sigurðardóttir, 3.7.2009 kl. 13:54
Til hamingju með að vera orðinn pistlahöfundur hjá RÚV! Sammála því að Bjössi er alveg yndislegur tæknimaður. Þeir voru það reyndar allir þrír sem voru hér fyrir norðan þegar ég starfaði þar og erfitt að gera upp á milli en það er bara einn Bjössi. Ég myndi taka noohinu hans sem hrósi
Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.7.2009 kl. 14:01
Puff - error og page!
Svona átti kommentið mitt að vera:
Hléið er afsakað!
Tek heils hugar undir pistil þinn.
Er búin að lesa Sofandi að feigðarósi og langt komin með Hrunið, ætla að lesa Íslenska efnahagshrunið að því loknu. Þetta gengur aðeins hægar en vant er um lestur hjá mér af því að ég tek svona bækur ekki með mér á fjöll!
Í aðdraganda kosninga hitti Dagur B. Eggertsson kjósanda sem kvartaði yfir því að Jóhanna Sigurðardóttir væri alltaf svo reið, eins og Soffía frænka. Dagur spurði hann hvort hann vildi heldur kjósa Soffíu frænku eða ræningjana þrjá. Nú hafa 60% aðspurðra svarað því í skoðanakönnun að þeir vilji heldur kjósa ræningja en reiða konu með sóp.
Soffía Sigurðardóttir, 3.7.2009 kl. 14:03
Mjög góður og þarfur pistill. Lára og Freyr hafa greinilega góðan smekk á pistlahöfundum ;)
Gunnar Hrafn (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 14:06
Rétt hjá þér Lára Hanna, ... þú ert plássfrekari en kemst fyrir í útvarpið :-)
Eins og þú segir, þá hefði mátt hafa meira kjöt á beinunum, og mér finnst þú síst hafa verið of dómhörð eða harðorð. Það má *EKKI* gleymast hverjir stóðu bak við það að setja landið okkar á hliðina! Það má *EKKI* gleymast.
Og ég er svo sammála þér með þessa skoðanakönnun.... að vilja hlaupa beint í fangið á þeim sem gerðu þetta... ég bara skil það ekki. Ég bara næ þessu ekki......
Einar Indriðason, 3.7.2009 kl. 14:12
kærar þakkir fyrir pistilinn firnagóður! ég er mjög sammála með skoðannakönnunina en líklega er gleymska höfuðböl okkar þegar kemur að stjórnmálum hér á landi. þessa vegna vita þessir gasparar hvað við á hverju sinni. En Bjarni og Sigmundur Davíð eru bara að verja sína auðmenn þeirra leið væri fjöldaatvinnuleysi einkavæðing á heilsugæslu þetta verður hinn almenni kjósandi að muna gefum núverandi ríkisstjórn frið annars fáum við aðra einkavinavæðingu yfir okkur Og það viljum við ekki eða hvað?
Bergljót Aðalsteinsdóttir, 3.7.2009 kl. 14:39
Komdu sael og blessud Lara Hanna og velkominn ur sumarfriinu, thu attir thad skilid eftir allt thitt erfidi.
Og til hamingju med pistilinn, hann er godur og eg baedi las og hlustadi.
Thetta er buid ad vera tomlegt a medan thu varst i burtu, en nu lagast thetta :-)
Bestu kvedjur
Islendingur (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 14:47
Það er nauðsynlegt að muna jú...
En ósammála þér um a.m.k eitt : Ég veit ekkert um það af hvaða hug, heilum, hálfum eða kúguðum, Jóhanna og Steingrímur eru að vinna. Það er ekki eins og þessi stjórn sé að standa við kosningaloforðin. Og eru þaú í raun og veru að moka flórinn?
Dúa, 3.7.2009 kl. 15:24
Þú talar eins og núverandi stjórnarflokkar séu stikkfrí, það er bara ekki svo gott. Þeir komu í veg fyrir frjálsa fjölmiðlun (fjölmiðlafrumvarp) og Samfylkingin ber fulla ábyrgð á IceSave klúðrinu gegnum viðskiptaráðherrann. Það sem mig undrar mest við þessa skoðanakönnun er að flokkarnir skildu yfirleitt fá stuðning því þeir eru allir handónýtir. Og svo er eitt sem mér finnst að pistlinum þínum og það ver hvað þú er bundin á skoðanaklafann ég styð mína menn hvað sem yfir dynur.
P.S. varðandi ávörpin á Alþingi legg ég til að þeim verði breitt í lágtvirtur og lægstvirtur sem er nær áliti þjóðarinnar á viðkomandi aðilum.
Einar Þór Strand, 3.7.2009 kl. 15:34
Einar Þór: Ég veit ekki hvernig þú færð "stikkfrí" út úr því að núverandi stjórn miðli illa upplýsingum, hafi samið af sér í Icesave og stundi fáránlega sérhagsmunagæslu. Þetta er bara spurning um "big picture" vs. einstaka ágreiningsatriði.
hmm (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 15:43
Eitt af fyrstu verkum nýs fjármálaráðherra var að lána VBS og Saga Capital tugi milljarða króna úr ríkissjóði á 2% vöxtum. Ef mönnum finnst það ekki nógu spillt, var það upplýst að Sparisjóður Þórshafnar (þarsem fjármálaráðherra er stofnfjárfestir og margir af frændum hans og vinum) ætti milljarð inni hjá Saga Capital og myndi falla ef Saga Capital félli.
Og nú spyr ég: Er það bara spilling ef það er Sjálfstæðismaður er fjármálaráðherra? Eigum við það hlutskipti í vændum að verja Steingrím Sigfússon fyrir gerðir sem við hefðum talið Árna Mathiesen til vansa? Er það framtíðin?
Doddi D (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 16:37
Ég óska þér til hamingju Lára Hanna með nýtt hlutverk þitt í Rás 2. Nafna þín Ómarsdóttir er frumleg og þorir að gera nýja hluti eða hlutina með nýjum hætti.
Það skyggir nokkuð á ,,gagnrýna hugsun" þína og það aðhaldshlutverk sem þú hefur haft ef þú ætlar binda trúss þitt við núverandi ríkisstjórn og sjá allt svart sem stjórnarandstaðan gerir, eða sérstaklega fulltrúar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Vissulega er ábyrgð þeirra mikil á hruninu. Vissulega hlaupa kjósendur ekki umhugsunarlaust upp á vagninn hjá þeim. Þeir eru brenndir af afrekum þeirra.
Hins vegar voru kosnir nýir fulltrúar fyrir þessa flokka í síðustu kosningum og mér finnst að það þurfi að hlusta vel á rök þeirra og framgöngu. Við getum ekki ,,afsakað" dugleysi núverandi stjórnar með því að benda alltaf á mistök fyrri stjórnenda. Fortíðin er liðin og við glímum við nútíðina og framtíðina. Einbeitum okkur að því. Ég vona þess vegna að þú dettir ekki Lára Hanna ofan í skotgrafir stjórnvalda hvorki núna né í framtíðinni. Þitt hlutverk hefur verið að veita stjórnvöldum aðhald og vonandi verður svo áfram.
Með sumarkveðju, JBL
Jón Baldur Lorange, 3.7.2009 kl. 16:52
Mjög góður pistill hjá þér að venju, og ég tek heilshugar undir hvert orð. Takk innilega fyrir að koma aftur og blása okkur byr í brjóst. -
Og gangi þér vel á rúv ég hlakka til að fylgjast líka með pistlum þínum þar.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 3.7.2009 kl. 17:24
Sæl Lára Hanna
Um leið og ég óska þér til hamingju með starfið á Morgunvaktinni, þar sem ég vona að þú verðir jafn beitt, vakandi og skelegg fyrir hönd þjóðarinnar og þú hefur verið hér á blogginu þínu, þá vil ég samt tjá áhyggjur mínar af því að nýja starfið geti hugsanlega dregið athygli þína og kraft frá bloggsíðunni þinni.
Þessi bloggsíða er nefnilega lífsnauðsyn fyrir þjóðina og ég tel - reyndar að illa athuguðu máli - að á fáum öðrum vettvöngum gefist íslenskum almenningi kostur á að innbyrða jafn altæka umfjöllun um Hrunið, orsakir þess og eftirmála, en á þessari síðu.
Við (íslenska þjóðin) höfum einfaldlega EKKI EFNI Á að missa þig héðan - ekki einu sinni að hluta - og þess vegna langar mig til þess að beina því til annarra lesenda bloggsíðu Láru Hönnu, hvort við getum ekki með sjálfum okkur, hvert og eitt, ákveðið að styrkja Láru Hönnu með nafnlausum fjárframlögum til þess að halda áfram að halda úti bloggsíðunni af fullum krafti. Þótt hún gegni þakklátu hlutverki hlýtur það að vera tímafrekt og trufla hana við það að afla salts í grautinn.
Rödd Láru Hönnu má ekki dofna! Getum við ekki styrkt hana einhvern veginn?
Ísak Harðarson (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 19:50
Þú spjarar þig í þessu eins og öllu sem þú tekur að þér. Til hamingju.
cindy, 3.7.2009 kl. 20:08
Þakka þér fyrir pistilinn sem var bæði vel fluttur - ég hlustaði og las samtímis - og efnismikill. Það er ekki hægt að kafa djúpt í 4 mínútna pistli. Ef ég má langar mig til að benda JBL á að það hefur enn ekkert uppgjör farið fram við fyrri stjórnvöld - stjórnvöld hrunsins! Þó nútíðin og framtíðin séu mikilvæg er ekki síður mikilvægt að halda áfram að moka flór "gærdagsins". Skoðanakönnunin um fylgi flokkanna styður sannarlega sjónarmið Hönnu Láru að það þurfi frekar að hallast á sveif með ríkisstjórninni en ganga í lið með ræningjaflokkunum eins og þjóðin virðist gera! Þú nefnir að hlusta þurfi á nýja liðsmenn stjórnarflokkanna! Ertu þá að vísa til Sigmundar Davíðs og Ásbjörns Óttarssonar sem báðir hafa látið ljós sitt skína? Finnst þér þeir vera góðir fulltrúar Nýja Íslands - hins óspillta norræna velferðarríkis sem hér á að rísa úr rústunum þess gerspillta hryllingsþjóðfélags sem var - og lifir enn??? Það eru engar skotgrafir - við erum á bersvæði og skotmark allra, ekki síst spillingarflokkanna og auðmanna-/valdastéttanna í landinu sem vilja viðhalda kerfinu eins og það var - og virðist ganga vel að sannfæra þjóðina um ágæti sitt!
Ragnar Eiríksson
Ragnar Eiríksson, 3.7.2009 kl. 20:26
Góður pistill,
Ég myndi vilja fá þig á þing í næstu kosningum (sem verða fljótlega)
Það má aldrei gerast, bara alls ekki að D og B komist aftur til valda næstu 10-20árin, það er morgunljóst að þeirra fyrsta verk
verður að stöðva rannóknina.
En ég er því miður ekki viss um að núverandi starfi að heilum hug að rannsóknarvinnuni, eða tiltekt í t.d. bönkunum.
Mér finnst eins og skilanefndirnar geti hagað sér eins og þær vilja, og enginn skipti sér af.
Mér finnst einnig allt frumkvæði vanta við rannsóknina, afhverju þurfti Joly til að benda á að Skagamaðurinn gæti þetta aldrei einn, hver sem viljinn er.
Þetta var búið að benda á úti um allt, en vantaði greinilega meiri þrýsting.
Afhverju var ekki búið að útvega henni vinnuaðstöðu?
Og svo lánið til VBS, hefur fengið ótrúlega litla umfjöllun.
Þar var Steingrímur alveg greinilega að misnota aðstöðu sína með fáránlegum lánakjörum.
Hvar er skjaldborgin?
Hvar er gegnsæjið?
Viðskiptaráðherra sagði að Icesafe væru hrikalegustu mistök íslandssögunar, en framkvæmt með vitneskju og samþykki íslenskra yfirvalda, og því bæri ríkiðssjóður ábyrgð.
Ef ábyrgðin er komin til vegna þess að íslensk yfirvöld klikkuðu á vaktinni, hvernig er hægt að bjóða upp á það að Björgvin sé enn á þingi?
Ráðherra bankamála og yfirmaður FME, er það eðlilegt?
Er það boðlegt?
Að kjósa S, eða VG, bara til þess að kjósa EKKI D eða B er skammsýn hugsun.
Heimurinn er stærri en þessir fjórflokkar sem mér finnst allir jafn ónýtir.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 20:50
Ég ætla ekki bætast í ánægju kórinn, þrátt fyrir að mér finnist vinna þín í að upplýsa íslenskan almenning margfalt betri en bæði einka og ríksvæddra fjölmiðla þá get ég ekki tekið undir þá skoðun sem mér finnst skína í gegn hjá þér að bara að einhver sé ekki jafn slæmur og einhver annar þá hljóti hann, eða hún að vera góður/góð.
Það er var og verður alltaf niðurstaðan sem skipotir máli, persónur og leikendur eðru aðeins aukahlutverk. Það að maður hafi gert eins vel og maður gat eru og verða aldrei rök fyrir því að þar af leiðandi sé niðurstaðan nógu góð. Af ávöxtunum skulð þið þekkja þá! Silli & Valdi eða var það biblían.
Að segja að sitjandi ríkissjórn sé besti kosturinn er að mínu mati algjör uppgjöf, mundu að flest það fólk sem nú situr á ráðherrastóli sat á Alþingi á árunum fyrir bankahrunið án þess að það gætti því eftirlitshlutverki sem það var kjörið til, það heyrðist varla hósti eða stuna fyrr en eftir ósköpin. Ég treysti einfaldlega ekki þessu fólki lengur. Hins vegar er til miklu fleira fólk á Íslandi og mörgum þeirra betur treystandi en fólki sem þegar hefur sannað vanhæfni sína.
Hvar er framsæknin, hvar eru áformin um að skapa tekjur til Íslands annar staðar frá en frá Íslendingum sjálfum?
Ég sakna meira að segja þeirrar séríslensku þrákelni sem gaf okkur 200 mílna fiskveiðilögsögu og ótrúlega leiðinlegar veislur.
Ef þið ætlið að leggjast í duftið og láta hneppa þjóðina í ánauð um aldur og ævi, kem ég aldrei aftur.
Vertu til er kreppan kallar á þigVertu til að velta ríkisstjórnVertu til því að þjóðin hún mun þrá þigVertu til að færa þessa fórn. Mundu hvernig að flokkurinn hann sá þigMundu daga þegar allt var gottMundu nú að bankinn vill ekki sjá þigMundu allt sem þótti þá svo flott Rístu upp og krefðu fíflin svaraRístu upp og leggðu hönd á plógRístu upp og láttu ekki fara Land þitt út í ysta ysta bóg.Með von um betri tíð og lægri vexti.
Kjartan Björgvinsson, 3.7.2009 kl. 21:36
Flottur pistill. Verð líka að hrósa þér að þú með því að vakta fréttir og spyrja fólk heldur hér úti bloggsíðu sem er að mörguleiti vandaðri en fjölmiðlarnir hér landi.
Verð að viðurkenna að fyrir svona misseri hafði ég einhvern vegin myndað mér skoðun á blogginu þínu að þú værir að leita uppi fréttir til að styðja þína skoðun. En fyrir löngu búin að átta mig á að öll söfnun þín er til að hjálpa þér og öðrum að mynda þér rökstudda skoðun á málunum. Ég er ekki alltaf sammála þér en oft og þar á meðal þessu pisli þínum.
Magnús Helgi Björgvinsson, 3.7.2009 kl. 22:08
Þar kom að, að kona fékk að hlusta á almennilega hugvekju að morgni dags. Bestu þakkir.
Solveig (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 00:11
Hjartanlega velkomin á vettvang þjóðmálaumræðunnar á ný Lára Hanna!
Ég ætla ekki að endurtaka þau hrósyrði mín um þig sem ég áður látið falla á síðunni þinni en þau halda sínu gildi enn. Þú ert okkur ómissandi og einu má gilda hvar þú ert á vettvangi. Sannarlega tek ég undir það að við þurfum að gæta þess að falla ekki í þá gryfju að hafna þessari ríkisstjórn vegna þess að við látum hrífast af populismanum í málflutningi Íhalds og Framsóknar; því líkt og þú bendir á þá nægir að horfa til þess umhverfis sem forysta þessara flokka kemur úr.
Þessi ríkisstjórn tekst nú á við erfiðasta hlutverk sem nokkur ríkisstjórn hefur staðið frammi fyrir í sögu okkar lýðveldis í það minnsta. Og það skulum við muna að þar er engin mild lausn í boði né sársaukalaus.
Árni Gunnarsson, 4.7.2009 kl. 01:23
Ert eða varst að flækjast hérna, en rataðir ekki í höll mína!? Ég er nú að nóttu til bara svekktur!
Magnús Geir Guðmundsson, 4.7.2009 kl. 02:54
Eg tek undir thad sem Isak Hardarson sagdi i numer 15 her ad ofan. Lara Hanna tharf ad fa hjalp og styrk til ad geta haldid afram ad skrifa sitt blogg. Og eins og Isak segir.
Þótt hún gegni þakklátu hlutverki hlýtur það að vera tímafrekt og trufla hana við það að afla salts í grautinn.
Med bestu kvedju.
Islendingur (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 03:24
Lára Hanna, áfram með þig. Ég er einlægur aðdáandi af blogginu og ég veit að það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig.( Eins og skáldið sagði.). Gangi þér sem best og takk fyrir mig.
Sólveig Margrét Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 03:44
Sæl Lára Hanna,Ég hef verið að lesa bloggið þitt eftir að ég "uppgötvaði" þig og síðuna þína. Mér hefur fundist þú skrifa aðdáunarverða pistla sem hafa náð eyrum mínum svo um munar. Hlustaði núna á þig á morgunvaktinni í gærmorgun og fannst ég heyra annan tón frá þér. Ég var í fyrsta sinn verulega ósammála þér. Að halda fram að núverandi ríkisstjórn sé að moka flórinn svo eftir sé tekið er ég ALLS EKKI sammála. Samfylkingin er gjörspilltur flokkur sem sannarlega tók þátt í "spillingardansinum 2007" ef svo má að orði komast. Samfylkingin þáði risavaxna styrki líkt og Sjálfsstæðisflokkurinn og væntanlega fleiri flokkar. Hvar er endurgreiðslan frá Samfylkingunni? Ég get ekki betur séð að heimilin séu að sligast og skattpíning sem framundan er eins og að halda að olíulaus vél geti gengið endalaust án smurningar. Icesave málið segir allt sem segja þarf um hvernig allt eigi að vera upp á borðinu og gegnsætt líkt og stjórnarliðar hafa haft í hávegum.
Kolbrún (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 10:36
Kolbrún og fleiri...
Ég er ekki að lýsa fullkominni ánægju minni með ríkisstjórnina í þessum pistli, síður en svo. Og alls ekki Samfylkinguna. Mér hreinlega misbauð þegar ég sá framboðslista Samfylkingarinnar fyrir kosningar, sá hve margir "vafasamir" stjórnmálamenn voguðu sér að bjóða sig aftur fram. Og þeir voru kosnir, mér til mikillar furðu. Það varð ekki til að auka trú mína á íslenskum kjósendum og vilja þeirra til byltingar hugarfarsins. Auk þess voru sumir þessara stjórnmálamanna gerðir að ráðherrum - sem olli mér gríðarlegum vonbrigðum.
Ég er ekki að verja þetta fólk, gjörðir þeirra fyrr og nú eða flokkinn þeirra þótt innanum sé fyrirtaksfólk sem ég treysti ágætlega.
Það sem ég á við er að við höfum bara vissa kosti í stöðunni. Einu flokkarnir sem eru saklausir af hruninu eru Vinstri grænir og Borgarahreyfingin. Ég á fjöldan allan af upptökum, bæði innan þingsins og utan, þar sem þingmenn VG fara hamförum yfir því sem var að gerast í efnahagsmálum á Íslandi. Þeir vöruðu við, héldu ræður, skrifuðu greinar - en enginn hlustaði. Ég efast reyndar um að allar viðvaranir þeirra hafi komist í fjölmiðla, því flestir þeirra spiluðu jú með í græðgisvæðingunni. Sumar af þessum ræðum VG-þingmanna má sjá í þessari færslu minni frá í október sl. þar sem ég klippti saman umfjöllun um efnahagsmál í sjónvarpsfréttum fyrstu þrjá mánuði ársins 2008.
En hvaða kostir eru þá í stöðunni? Þessi stjórn sem nú er við stjórnvölinn eða... hvað? Ekki geta Vinstri grænir og Borgarahreyfingin myndað stjórn og ég vil ALLS EKKI að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn komi nálægt stjórnartaumunum næstu árin að minnsta kosti. Ég veit að Jóhanna Sigurðardóttir er heiðarleg og heilsteypt manneskja sem vill þjóð sinni vel. Steingrímur J. líka og þau vinna bæði myrkranna á milli til að reyna að leysa úr því svartnætti sem íslenska þjóðin er umvafin um þessar mundir. Spurning hvort þau hafa nógu gott fólk með sér sem hægt er að treysta.
Sér fólk einverja aðra lausn á ríkisstjórnarmálum Íslendinga - aðra en kannski utanþingsstjórn, sem ég hef reyndar alltaf verið hlynnt.
Lára Hanna Einarsdóttir, 4.7.2009 kl. 17:19
Sæl, Lára Hanna! Þú spyrð: "Sér fólk einhverja aðra lausn á ríkisstjórnarmálum Íslendinga - aðra en kannski utanþingsstjórn"... Eins og þú þá vildi ég fá utanþingsstjórn strax í október. En ekki lengur vegna þess að viðskiptaráðherrann hagar sér orðið eins og stjórnmálamaður í ríkisstjórninni en ekki fagmaður og þetta hefur dregið úr trausti mínu á því að utanþingsstjórn sé sú besta. Ég tek því undir með Atla Gíslasyni sem frá því í haust hefur viljað þjóðstjórn.
Með þjóðstjórn kæmu allir þingmenn að málinu: Þeir yrðu allir að vinna saman. Þjóðin yrði laus við að þingmenn græfu sig í skotgrafir flokkanna.
Það eru nokkrir ágætiseinstaklingar á þingi en flokksaginn er þvílíkur að fólk á erfitt með að vinna með einstaklingum úr öðrum flokkum af því að flokkurinn þeirra álítur það vera svik. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að þingmenn hagi sér svona heimskulega. Þeir verða að skilja hvað staðan er alvarleg og vinna að þjóðarheill en ekki flokkaheill. Treysti þeir sér ekki til að slíta af sér flokksböndin og vinna með hverjum sem er að góðum og uppbyggilegum hugmyndum þjóðinni til heilla þá eiga þeir að segja af sér.
Annað sem vinnst með þjóðstjórn er að þá geta stjórnmálamenn ekki lengur rekið fleyg í raðir kjósenda, eins og þeir gera ítrekað á hverjum degi. Með þjóðstjórn ættu allir kjósendur fulltrúa í ríkisstjórninni og það væri mikilsverður ávinningur.
Núverandi ríkisstjórn heldur því fram í áróðursskyni að verði ríkisábyrgð á Icesave-nauðungarsamningunum felld þá þýði það stjórnarslit. Þetta er ekkert annað en kúgun vegna þess að það er undir ríkisstjórninni sjálfri komið hvort stjórnin fellur eða ekki. Þingmenn úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum hafa sagt að þeir muni ýmist ekki krefjast þess að stjórnin segi af sér eða að þeir hafa boðist til að styðja hana falli. Það er m.ö.o. undir ríkisstjórninni komi hvort hún lifir eða deyr - en hún virðist ætla að fara kúgunarleiðina.
Margir þingmenn þurfa að læra að lýðræði felur m.a. í sér samræður þings og þjóðar um sameiginleg mál, þetta á ekki síst við um Jóhönnu og Steingrím. Ég held að því fari fjarri að þau séu öðrum fremur hæf sem ráðherrar. Ef þau eru í vinnunni nótt sem nýtan dag þá er það í mínum huga merki um að þau kunna ekki að vinna með öðrum, kunna ekki að deila verkefnum milli manna og treysta ekki öðrum til verka. Yfirmaður sem telur sig þurfa að vera á vaktinni stöðugt er ekki endilega duglegur og samviskusamur. Það mætti kanna hvort hann sé ekki þvert á mót óhæfur ef hann þarf sjálfur að vera með nefið alls staðar alltaf.
Hvað varðar það orðspor sem fer af Jóhönnu og Steingrími um að þau séu heiðarleg og heilsteyptar manneskjur þá leyfi ég mér að setja spurningamerki við það! Er það misminni hjá mér að þau hafi ekki ætlað að leggja nauðungarsamninga sína við hollensk og bresk stjórnvöld fram? Er það misminni hjá mér að þau hafi skýlt sér á bak við trúnað sem fulltrúi Hollendinga kannaðist ekki við? Er það misminni hjá mér að þau hafi ætlað að koma á gagnsæi? Er það misminni hjá mér að þau hafi viljað bindandi þjóðaraðtkævðagreiðslu um mikilvæg mál og tali núna um ráðgefandi þjóðaraðkvæðagreiðslu? Það má lengi halda áfram að tína til dæmi ef maður nennti að fara nokkur ár aftur í tímann.
Helga (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 18:38
Ég er hjartanlega sammála þér - einkavinavæðingar og græðgisflokkarnir tveir fengu um 40% atkvæðanna í kosningunum í apríl. Eru þessir kjósendur fólk sem hagnaðist svona svakalega vel undir stjórn þessara flokka? Það hlýtur að vera. Fólk þyrfti að vera með Stokkhólmssyndróm eða með alvarlega greindarstíflu til að vilja kjósa þetta yfir sig aftur.
Ég held að innan tveggja ára verði myndin svona: Allir ráðherrastólar þjóðarinnar aftur orðnir blágrænir, útrásarvindbelgirnir og hirðfífl þeirra munu hafa "keypt" (með hrunsþýfinu) á uppsprengdu verði þær eignir landsmanna sem þeir ekki höfðu þegar ryksugað upp í hruninu.
Það er eitthvað eðlislægt þræls- og sauðareðli í Íslendingum sem gerir það að verkum að þeim er fyrirmunað að tileinka sér þá visku sem þarf til farsællar sjálfsstjórnunar. Þú vitnaðir í Laxness, Sjö Töframenn, hérna á síðunni um daginn; ég held að þar sé lýsingin á þjóðarsálinni í hnotskurn
"Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteisi en Íslendingar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendingar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól."
Iris Erlingsdottir (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 19:56
Þessi tilvitnun í verk Halldórs Laxness, sem Íris rifjar upp, á vel við afstöðu sumra ráðherra og þingmanna ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu og til landsstjóra AGS, eins og ýmsir þingmenn hafa kallað svo.
Ég þakka Löru Hönnu fyrir ærlegt svar. Hins vegar vara ég við hugsunarhættinum að ,,útiloka" hitt liðið vegna fyrri mistaka. Þar með er lokað alla frjóa umræðu og komið í veg fyrir það aðhald sem stjórnarandstaða á að veita. Hitt er svo annað að auðvitað eiga þeir sem báru ábyrgð á ,,klúðrinu" og voru í klappliði útrásarliðsins að koma fram og biðja þjóðina afsökunar og iðrast, og gera hrein fyrir sínum dyrum. Sömuleiðis þarf að hraða rannsókninni sem loksins er hafin af alvöru með Evu Joly i fararbroddi og refsa þeim sem sekir eru. Þannig getur endurreisnin hafist og sárin farin að gróa.
Það hefur sýnt sig í umræðunni á síðustu vikum að þetta uppgjör hefur ekki farið farm og þjóðin vantreystir ennþá stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og viðskiptalífinu. Margt á eftir að gera til að lágmarkstraust skapist aftur og auðvitað valdist Jóhanna Sigurðardóttir til forystu í ríkisstjórn vegna þess að hún mátti ekki vamm sitt vita og þjóðin treysti henni til góðra verka.
Mistökin sem þessi ríkisstjórn er sek um er að vaða í Icesave málið að því er virðist af vanbúnaði og fljótfærni. Í svo stórum málum eins og þessu, þar sem skilur milli feigs og ófeigs þjóðar, þá verður að skapa samstöðu allra stjórnmálaflokka til að eining náist um niðurstöðuna. Þjóðin vantreystir samninganefndinni, vantreystir viðsemjendum og vantreystir ríkisstjórnarflokkunum, a.m.k. öðrum, þegar það blasir við að annað hangi á spýtunni, eins og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, orðaði það á þingi í gær. Sem sé aðild að Evrópusambandinu sem er eitt umdeildasta mál Íslandssögunnar fyrr og siðar. Spurningum í þessu máli hefur ekki verið svarað með sannfærandi hætti svo sem hvort þjóðinni beri að borga skuldir útrásarliðsins, hvort allra leiðir hafi verið notaðar til að ná hagstæðari samningum, hvaða ,,eignir" þjóðarinnar eru að veði, hvernig AGS tengist málinu o.fl. o.fl. Þetta er óásættanlegt og úr þessu er aðeins ein leið. Alþingi Íslendinga felli samninginn í óþökk ríkisstjórnarinnar því þannig getur ríkisstjórnin alltaf sagt við viðsemjendur að lýðræðið verði að virða, þetta sé lýðræðisleg niðurstaða þjóðþings og taka verði upp samninginn að nýju. Mér heyrist ráðherrar gera því skóna, eins og reyndar oft áður, að þjóðkjörið þing landsins megi ekki hafa sjálfstæða skoðun - þingið eigi að vera afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins.
En þetta er orðið allt of langt en andinn kom yfir mig :-)
Jón Baldur Lorange, 4.7.2009 kl. 20:30
Það ríkir mikil óvissa varðandi ákvörðunina um Icesave. Ég hvet alla til að
hlusta á Þór Saari og Lilju Mósesdóttur í Vikulokin á Rás 1 í dag. Það er
ekki nóg með að við erum komin yfir þau hættumörk að geta ekki greitt lán
af þessu tagi sem er um 150% af landsframleiðslu, eða að það megi
gjaldfella allt lánið ef við lendum í vanskilum með eitthver önnur lán, sem
við gerum örugglega á nk. 15 árum. Lilja nefnir að það sé mjög mikilvægt að
skoða heildarmyndina og að við gerum okkur grein fyrir því að við örlitlar
gengisbreytingar er samningur fallinn hvort sem er. Ætlum við að stóla á að
gengið sé stöðugt nk. 15 ár? Það sem stakk mig líka var að danir fylgjast
grannt með öllu sem við höfum gert sl. 100 ára og þekkja stjórnsýslu okkar
betur en flestar þjóðir. Menn rýna í það að sama fólkið situr á þingi og í
ríkisstjórn í dag sem er ábyrgt frá því í fyrri ríkisstjórn. Þar er rótin
að tortryggni nágrannalanda okkar, í okkar garð og útskýrir að mörgu leyti
hörku þeirra í okkar garð, því að hér ríkir ekkert "gegnsæi" eins og okkur
var lofað og nágrannaþjóðirnar sjá heldur ekki þetta umtalaða gegnsæi.
Horfum út fyrir kassann og reynum að skilja hvernig aðrar þjóðir líta á
okkur og hvers vegna.
Í öðru lagi þá hafa Framsókn og Borgarahreyfingin lofað að verja
ríkisstjórnina falli ef að hún synjar Icesave. Á Alþingi 4. mars 2003 sagði
Steingrímur J :"Ekki getur það verið vandinn að nokkrum manni í þessum sal,
þingræðissinna, detti í hug að þjóðin sé ekki fullfær um að meta þetta mál
sjálf og kjósa um það samhliða því að hún kýs sér þingmenn. Stundum heyrist
að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti
ekki í þjóðaratkvæði. Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég
heyri".
Eiga þessi orð ekki einmitt við í dag? Á þjóðin ekki að eiga síðasta orðið?
Er það ekki þjóðin sem á að greiða þessar skuldir um ókomin ár, skuldir sem
hún hefur ekki einu sinni stofnað til?
Þetta er réttlætismál og nú reynir virkilega á lýðræðisleg vinnubrögð landans.
Sigurlaug (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 20:55
Sammála Jóni Baldri hér ofar.
Eru vítin ekki til þess að varast þau -- hefði fyrrverandi ríkisstjórnum ekki verið hollara að taka gagnrýni t.d VG til greina. Að ekki sé nú minnst á aðra gagnrýni.
Ég sé síðan ekki betur en núverandi ríkisstjórn sé að feta sömu götu og búast mætti við fyrirrennurum hennar. Það er líklega of einfalt og satt að nefna það að; frekari erlendar lántökur eru ekki lækning fyrir þá sem skulda allt allt of mikið. Þetta virðist samt ekki einu sinni komast til umræðu og nú er allt lagt undir til þess að fá enn meiri erlend lán. Bugtað sig fyrir AGS og skrifað undir icesave í flýti.
Ég var satt best að segja að vonast eftir einhverjum sýnilegri breytingum með nýju fólki í stjórn.
Ólafur Eiríksson, 4.7.2009 kl. 21:05
oops, átti auðvitað að vera: "... útrásarvindbelgirnir og hirðfífl þeirra munu hafa "keypt" (með hrunsþýfinu) á TOMBÓLUVERÐI (óskandi að það væri "uppsprengdu verði") þær eignir landsmanna sem þeir ekki höfðu þegar ryksugað upp í hruninu."
Mann talar ekki svo gott íslanskt no more ...
Iris Erlingsdottir (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 21:11
Sæl Lára Hanna,
Ég sé menntamálaráðherra með fjárglæframann sem ráðuneytissjóra og skilanefndir bankanna skila inn reikning eftir "behag". Frysting eða lækkun á launum til fólksins í þessu landi. Alveg frábær mokun á flór. Svo á fólk á atvinnuleysisbótum og á elli og öroskulífeyrisbótum að borga brúsann.
Er ekki Valtýr Sig ennþá ríkissaksóknari. Eva Joly heimtaði að hann yrði látinn fara, annars væri hún farin. Valtýr fer ekki og því fer Eva Joly.
Var svo ekki verið að tala um einhverja tæpa 800 milljarða ríkisábyrgð sem að við munum taka á okkur í næstu viku, en það má ekki hrófla við eigum útrásarvíkinga né Landsbankaskúrkara.
Já, þvílík hreinsun og mokun á flór............
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 23:59
Ég hef lesi Hrunið. En nú orka ég ekki að lesa meiri hrylling. Héðan í frá mun ég eingöngu lesa guðsorð!
Sigurður Þór Guðjónsson, 5.7.2009 kl. 00:16
Svo vil ég benda öllum á að lesa Hvítu bókina eftir Einar Má Guðmundsson. Margt athyglisvert þar á ferð.
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 00:44
Samsæriskeningasmíðar og tortryggnissáning, ekki er vöntun á slíku hér að ofan!Helga einhver toppar þetta líklega. Ég veit ekki hversu oft þarf að rifja það upp, en þjóðstjórn var andvana fædd hugmynd strax í fæðingu af þeirri einföldu ástæðu, að hinn "mikli og göfugi" flokkur, D, sem t.d. hann Jón Baldur hérna, hefur greinilega von í brjósti um að komist aftur til valda þrátt fyri allt, heimtaði að leiða! Það kom auðvitað ekki til greina.
Það er alrangt að stjórnin nú hafi komið með þetta "slitaútspil" ef samkomulagið um Icesave næði ekki fram að ganga á alþingi. Mér vitanlega var það Dr. Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, sem fyrst varpaði þessu fram og hefur svo síðar orðið pæling hjá fjölmiðlum.Það er svo löngu búið að hrekja þau rangindi, að Jóhanna og Steingrímur hafi með oddi og egg nánast viljað leyna innihaldi samkomulagsins og það hefur meðal annars komið dramatískt fram hér hjá Láru Hönnu sjalfri er hún fyrir "vald örlaganna" fékk að fara á fund með þeim tveimur ásamt Herði Torfasyni!
Svo eru það þessar dylgjur og meintu vonbrigði með Gylfa magnússonog hann sé farin að haga sér einvhern vegin eða líkt og stjórnmálamaður?
Bíðum nú við, hvernig þá, er það óeðlilegt að hann komi inn á þingið til dæmis til að svara fyrir það sem hann er að gera líkt og þinkjörnir ráðherrar gera líka?Og ef hann fær á sig gagnrýni, á hann ekki að svara fyrir sig ef hann er ekki sammála eða telur réttu máli hallað? Og mér er enn spurn, er til einvher sérstök uppskrift af því hvernig utanþingsráðherra á að vera vaxin eða hvernig hann á að hefða sér? Af máli þessarar Helgu og fleiri, mætti halda að svo væri!
Þetta er nú meira bullið og leitt til þess að vita að fólk tali svona, sem virðist þó hvorki ílla upplýst né gefið að ritfærni þess að dæma.
En þegar m.a. pólitísk andúð blindar sín í bland við reiði kannski og vonbrigði, þá ber það oftar en ekki skynsemina ofurliði.
Magnús Geir Guðmundsson, 5.7.2009 kl. 02:24
alveg óþarfi hjá mér að segja að eitthvað sé andvana fætt í fæðingu, það segir sig víst sjálft!
Magnús Geir Guðmundsson, 5.7.2009 kl. 02:27
Hvernig væri að handtaka Björgólfsfeðga, og knýja þá til að borga upp í IceSave - skuldirnar? Ef það verður ekki gert þá neita ég að borga krónu upp í IceSave - skuldirnar, auk þess að IceSave - samningurinn felur í sér afsal á sjálfstæði Íslands, og það mun ég ekki sætta mig við. Ég skora einnig á aðra að borga ekki sukk og svínarí útrásarvíkinganna, þeir geta það ósköp vel sjálfir.
Jóhann Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 09:55
Magnús Geir Guðmundsson! Ég held að síðasta málsgreinin hjá þér segi allt sem segja þarf um innlegg þitt:
Jón Baldur Lorange, 5.7.2009 kl. 19:00
Já er það, Jón Baldur Lorange,
hvaða óskynsemi eða blindu sýn skildi vera hægt að lesa út úr línum mínum, ég tala nú ekki um reiði eða vonbrigði?
Magnús Geir Guðmundsson, 5.7.2009 kl. 23:55
Lára Hanna, frábær pistill, þó útþynntur sé vegna tíma.
Mér finnst sárara en tárum taki sum svörin hér - við bara MEGUM EKKI GLEYMA að það eru ekki til neinar töfralausnir, það var vitað þegar núverandi stjórn tók við, það er engin auðveld og sársaukalaus leið til. Jóka og Steini hafa ekki umbreyst í vonda liðið við að taka við stjórnartaumum, þau eru sannarlega að gera sitt allra besta. Óhugnanlegt hvernig fólk getur farið að treysta BéBé númer tvö og vindhananum sem rataði í forystu Framsóknar. Hvað er að landanum? Maður fer að halda að okkur sé virkilega ekki við bjargandi :'(
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 6.7.2009 kl. 01:05
Takk fyrir góðan pistil Lára Hanna,
langar að lesa hann í fullri lengd.
Ég trúi því að nafna mín og Steingrímur J. leggi allt sem þau geta í að koma okkur í gengum þetta mikla klúður sem okkur hefur verið komið í með aðstoð og aðkomu fyrri stjórnvalda. Að sönnu var Samfylkingin í síðustu stjórn en miklu styttra en Framsóknarflokkurinn. Ekki aðrir kostir í boði að mínu mati.
Ég minnist þess líka að hafa oft heyrt að VG væru svo reið og neikvæð að þeim væri ekki treystandi til að stjórna landinu, líkt og vitnað var í með Jóhönnu Sigurðardóttur.
Finnst samlíkingin alveg dásamleg með Soffíu frænku og ræningjanna.
Ég treysti þessum flokkum langbest til að leiða okkur af einhverju viti og siðferði í gegnum þessa miklu fjárhagserfiðleika sem við erum lent í. Og dettur ekki í hug að það verði gert öðruvísi en það að hækka skatta, skera niður jafnvel í skóla og heilbrigðismálum.
Hlakka til að heyra í þér á morgun
Jóhanna Leópoldsdóttir (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 01:51
Lára Hanna, þakka pistilinn.
Einkavæðing. Spursmálið er hvort um er að ræða heiðarlega einkavæðingu eða einkavæðingu andskotans. Mér skilst að ýmsir aðilar tengdir Glitni sáluga og S-hópnum séu að baki einkavæðingu orkulinda á Suðurnesjum. Þarf að hafa fleiri orð um fnykinn sem af þessu stendur.
Síðan er það skuldasukkið sem er hjá Landsvirkjun og fleiri aðilum í orkugeiranum. Tekst að halda þessum eignum í innlendri eigu? Eða verðum við að afhenda þessar eignir ásamt vatnsréttindum og öðrum landsréttindum til erlendra aðila? Gerið þið ykkur ljóst hvað okkur verður sagt ef svo fer? Að sjálfsögðu að það verði mjög jákvætt. Erlent fjármagn kemur inn í landið til uppbyggingar landsins o.s.frv.
Það er með ólíkindum að fylgjast með hve framganga ráðamanna í stjórnmálum og embættisfærslu er á lágu stigi hérlendis.
það lá svo mikið á að ganga frá Ísþrælasamningnum til þess að hægt væri að koma aðildarumsókn að ESB í framkvæmd að samningamenn okkar létu nánast allt yfir sig ganga. Þeir gáðu ekki að því að okkur lá ekkert á að ganga að svívirðilegum kröfum nýlenduveldanna.
Nú er svo komið að nauðsyn ber til þess að stofna eins konar sjálfstæðis og varnarsamtök Íslands. Samtök fólks sem vill siðvæða landið og verja þjóðina gagnvart svívirðilegri ásókn smámenna í auð og afl fólksins í þessu landi. Og það er ekki einungis þetta. Slík samtök verða að stuðla að nýrri framsókn til viðskiptatækifæra. Viðskiptatækifæra sem geta sparað dýrmætan gjaldeyri eða orðið til gjaldeyrisöflunar til hagsbóta furir land og lýð.
Páll R. Steinarsson (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 00:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.