Draumsýn einfeldningsins

Eftir að bankarnir hrundu og ríkið tók þá yfir (munið að við erum ríkið) hélt ég að auðvelt yrði að virða vilja og ákvarðanir ríkisstjórnar og ráðherra. Ég hélt að loforð þeirra og fögur orð um að hjálpa skuldsettum almenningi og heimilunum í landinu yrðu efnd. Meðal annars í þeim tilgangi að fólk yrði ekki gjaldþrota í hrönnum og til að hindra landflótta.

Ég hélt líka að tekið yrði hart á útrásardólgum og fyrirtækjum, þar sem óbeisluð græðgi hafði verið í fyrirrúmi. Þar sem tekin höfðu verið alls konar lán, eignir veðsettar upp í rjáfur og peningunum, afrakstri græðginnar, jafnvel í einhverjum tilfellum stungið í vasa stjórnenda eða eigenda fyrirtækjanna og komið fyrir í skattaskúmaskotum.

Þetta virðist hafa verið draumsýn einfeldningsins.

Allir vita um kröfu eða ósk Björgólfsfeðga um að fella niður helming af útistandandi skuld þeirra vegna kaupa á Landsbankanum áramótin 2002-2003. Og allir vita líka að krafa þeirra er enn óafgreidd í höndum m.a. Huldu Styrmisdóttur stjórnarformanns Nýja Kaupþings, dóttur Styrmis Gunnarssonar vinar Björgólfs eldri (vandi Íslands í hnotskurn). En  Morgunblaðið, DV og fleiri fjölmiðlar hafa sagt frá tveimur fyrirtækjum sem hafa flúið skuldir sínar og skilið þær eftir í gömlu bönkunum (les.: hjá okkur skattgreiðendum), en flutt eignir og verðmæti yfir á nýjar kennitölur með vitund og vilja bankanna. Semsagt - kennitöluflakk og byrjað með hreint borð, skuldlaus. Þetta eru bara tvö dæmi af... hve mörgum? Maður spyr sig...

Hér er umfjöllun Agnesar um hið dularfulla fyrirtæki Stím.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)
Morgunblaðið 23. nóvember 2008

Hér segir svo DV frá kennitöluflakki eigenda Stíms, sem neita þó að Stím komi málinu við.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

DV 10. júlí 2009

Hér segir Agnes frá fyrirtækinu Soffaníasi Cecilssyni á Grundarfirði og gríðarlegri skuldsetningu þess.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Morgunblaðið 31. maí 2009

Og hér segir frá kennitöluflakki Soffaníasar Cecilssonar og hvernig þeir komu sér undan skuldum.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Morgunblaðið 14. júní 2009

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, spurði viðskiptaráðherra á Alþingi í gær um kennitöluflakk með vitund og vilja bankanna. Ráðherra sagði engar reglur til um slíkt flakk, en að kennitöluskipti væri oft eðlileg leið til að bjarga verðmætum og tryggja áframhaldandi rekstur.

Þetta er athyglisvert svar - bjarga verðmætum - í ljósi fréttar sem birtist í Morgunblaðinu í morgun og sagði frá hjónum í fjárhagsvanda sem fengu enga fyrirgreiðslu hjá bankanum sínum. Þeirra saga er ekki frábrugðin allmörgum sögum sem ég hef heyrt og er gjarnan ástæða þess að fólk hefur flúið land.

Ég má til með að spyrja í þessu samhengi hvernig við metum verðmæti. Hvað eru verðmæti? Ég hefði haldið að gríðarleg verðmæti fælust í fólkinu sjálfu og því mikilvægt að koma málum þannig fyrir að það geti lifað hörmungarnar af. En svo virðist ekki vera. Verðmætin felast í fyrirtækjunum og eigendum þeirra, ekki almenningi. Hann má éta það sem úti frýs og borga síðan skuldir fyrirtækjanna.

Vissulega er mikilvægt að fyrirtæki geti lifað af til að veita fólki atvinnu. En það er gagnslaust að bjarga fyrirtækjunum ef fólkið sem á að vinna hjá þeim hefur flúið land. Er ekki rétt að ríkisstjórnin - eða þeir fulltrúar hennar sem stjórna bönkunum - fari að taka hlutverk sitt gagnvart skuldsettum almenningi alvarlega? Að farið verði að huga að réttlætinu og grundvelli samfélagssáttmálans sem getur ekki falist í viðlíka hrópandi óréttlæti. Er ekki tímabært að endurskoða verðmætamatið?

Morgunblaðið í dag -  Hjón fá enga lausn í bankanum.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Morgunblaðið 14. júlí 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er bara á tyllidögum sem talað er fjálglega um mannauð.

Hanna Kr. Hallgrímsdóttir (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 15:08

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mér liggur við að ákalla almættið og hersveitir himinsins eftir lestur þessa pistils! Hann er svo sannur og réttlætismiðaður. Þetta er í raun hinn einfaldi kjarni málsins: Hvers vegna líðst óréttlætið sem þú bendir á? Hvað ræður? Eru þeir sem áttu peninga og fyrirtæki verðmætari en auðurinn sem liggur í hinum venjulega vinnandi manni/konu, kynslóðunum sem eru að vaxa upp og hinum sem nálgast nú sitt ævikvöld?

Miðað við þá reynd sem við höfum orðið vitni að og þú bendir á í pistli þínum þá liggur svarið í augum uppi! Sá sannleikur sem þú bendir á hér er sárari en tárum taki. Hann er svo sár að í bili dregur hann úr mér allan mátt en það er virkilega gott að sjá að þú og fleiri eru hvergi af baki dottin! Takk fyrir mig kæra Lára Hanna!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.7.2009 kl. 16:13

3 Smámynd: Anna

Það er allt leyfilegt á Íslandi. Kennitöluflakk er nú bara lítið bort af þeirm aðferðum sem þessir gaurar nota sér í hag.

Það versta er hvessu fjandi skyld við erum.

Anna , 14.7.2009 kl. 16:14

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Get ég stofnað Anna ehf. og fengið kennitölu og sett íbúðarlánið mitt á þá tölu?

Þá get ég bjargað verðmætum og haldið áfram rekstri heimilisins?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.7.2009 kl. 16:36

5 identicon

Af hverju er verið að hneykslast á reiði almennings, sem kemur fram í því að skvetta málningu á hallir útrásardólga og auðróna? Eiga þeir skilið að fá að vera í friði að leika sér að OKKAR peningum og hlægja að okkur sem vinnum fyrir þeim tilneyddir? Er það ekki það sem þarf, að láta þá finna að þeir eru ekki vel séðir í samfélagi jarðbundins og vinnandi fólks?

kreppukarlinn: Væri staðan ekki verri ef ekkert væri "froðusnakkið og blaðrið" eða "málefnaleg umræða"? Líklega er það rétt hjá þér, að það gæti þurft að fara að beita meiri hörku. Tala ekki um ef það er kominn fram hópur furðufugla sem ætlar að safna undirskriftum fyrir því að koma Davíð Oddssyni (af öllum!!!) aftur á þing.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 18:37

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

15.júl. 2009 - 00:30

Kaupþing afskrifar fasteignalán: Skuldabyrðina verður að minnka

Kaupþing ætlar að afskrifa veðskuldir umfram virði fasteigna í höndum einstaklinga og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Forstjóri bankans segir að til að efnahagslífið komist aftur af stað verði að minnka skuldabyrðina.



Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Reikna má með að allt sem stendur umfram 110% af virði fasteignar, samkvæmt fasteignamati, verði afskrifað.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri, segir þetta leið sem bankinn hafi verið að þróa og prófa að undanförnu. Kostnaður sé óljós en til lengri tíma litið sjái hann ekki aðra lausn.

„Skuldir eru orðnar of miklar. Til að efnahagslífið komist aftur af stað verður einfaldlega að minnka skuldabyrðina,“ segir hann.



Pressan greindi í seinasta mánuði frá tölvupósti frá Finni til starfsmanna Kaupþings þar sem hann sagði að úrræði sem stjórnvöld hefðu kynnt til endurreisnar íslensks efnahagslífs dygðu ekki. Bankinn væri því að þróa eigin lausn til að lækka skuldir heimilanna.



Pressan sagði einnig í gær frá bréfi Finns til bloggara þar sem hann sagði að einfaldlega yrði að afskrifa skuldir. Bankinn gæti ekki tekið yfir minni fyrirtæki, sem byggi allt sitt á ákveðnum starfsmönnum eða eigendum, líkt og stórfyrirtæki. „Það þarf að lækka skuldabyrðina að öðrum kosti fara fyrirtækin í þrot. Og með fjöldagjaldþroti fyrirtækja kemur enn meira atvinnuleysi og viðvarandi efnahagskreppa. Því verður að afskrifa skuldir, svo einfalt er það

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 15.7.2009 kl. 01:57

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

......ef Björgulfsfeðgar ná fram að fella níður 50% skuldir gagnvart RÍKISBANKA þa gildir sama um mig og þig Einar og alla aðra!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 15.7.2009 kl. 02:05

8 identicon

Akkúrat Kreppukarl, hugsaði nákvæmleg þetta.  Nú bíð ég eftir fréttinni af niðurfellingu skuldar þessara blessuðu feðga.

Þetta róar mig ekki, ég verð alveg jafn déskoti reið. svo vægt sé til orða tekið.

Erna Kristín (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband