17.7.2009
Lífsgildi þjóðar
Algengara er að tala um lífsgildi einstaklinga en lífsgildi þjóða. En Páll Skúlason flutti erindi með þessu heiti á jóladag í fyrra auk þess að tala við Evu Maríu Jónsdóttur þremur dögum síðar í sjónvarpinu. Ég lagði svolítið út frá viðtali þeirra Páls og Evu Maríu í pistlinum mínum á Morgunvakt Rásar 2 í morgun. Í þetta sinn tók ég pistilinn upp hér heima þar sem ég hef aðstöðu og tæki til þess - nema hljóðeinangrun. Slökkti á símum og vonaði að engin flugvél þyrfti að lenda eða fara í loftið rétt á meðan og var heppin. Hljóðskrá hangir neðst í færslunni auk nokkurra þátta þar sem Páll Skúlason kemur við sögu og deilir með okkur hugmyndum sínum. Og hér er mjög gott viðtal við Pál sem birtist í Mogganum rétt eftir hrun, 10. október.
Ég held að það sé tímabært að vinda ofan af þeirri gengdarlausu græðgis- og einstaklingshyggju sem nýfrjálshyggjustefna hrunflokkanna hefur hamrað á undanfarin 20 ár eða svo. Kannski skjátlast mér - en ég hef á tilfinningunni að sú vonda hyggja sé andstæð mannlegu eðli, geri ekki annað en ýta undir firringu, einangra fólk og gera það vansælt og einmana. Mér dettur þessi frábæri pistill Írisar Erlingsdóttur í hug í því sambandi. Við eigum að hlusta vandlega á fólk eins og Pál Skúlason og sameinast um að byggja upp manneskjulegt samfélag.
Ágætu hlustendur...
Ég hef verið að velta fyrir mér hugtökunum siðferði, réttlæti, samkennd og fleiru, sem frjálshyggja og einstaklingshyggja hafa rutt úr vegi í íslensku samfélagi undanfarin ár - jafnvel áratugi. Af því tilefni dró ég fram sjónvarpsviðtal Evu Maríu Jónsdóttur við hugsuðinn og heimspekinginn Pál Skúlason. Eflaust muna margir eftir viðtalinu, sem sýnt var milli jóla og nýárs. Ég birti það á bloggsíðunni minni seinna í dag ef einhver vill rifja það upp.
Þetta er stórmerkilegt viðtal þar sem Páll veltir meðal annars fyrir sér mögulegum orsökum og afleiðingum hrunsins, skoðar málið frá ýmsum hliðum og spáir í framtíðina. Í viðtalinu kemur fram að eitt af því sem olli efnahagshruninu, var að við höfðum frjálsan markað, en hvorki lög né reglur sem dugðu. Páll hefur sérstaklega gagnrýnt stjórnmálamenn fyrir að hafa ekki veitt viðnám og spilað bara með. Það sýni að eitthvað mikið sé að í íslenskum stjórnmálum. Hann vill hafa þar fólk með heilbrigða skynsemi sem þekkir þjóðlífið. Fólk, sem áttar sig á því hvernig almenningur hugsar... skilur hvernig fólk hugsar til dæmis í atvinnulífinu og menningarheiminum. Páll segir atvinnustjórnmálamenn einangrast frá þessum veruleika og líta svo á, að þeir eigi að hugsa fyrir fólk.
En hugsum við ekki sjálf? Þarf að hugsa fyrir okkur? Hvernig myndum við okkur skoðun? Jú... við lesum, horfum, hlustum, fylgjumst með - og fáum heildarmynd. Síðan drögum við ályktanir út frá öllu mögulegu, eins og reynslu, þroska, tilfinningum og skynjun okkar á því, hvernig samfélagi við viljum búa í.
Það er reyndar staðreynd, að sumir vilja láta hugsa fyrir sig. Þeir fylgja leiðtoga lífs síns, hvort sem hann er af þessum heimi eða öðrum, gapa upp í hann gagnrýnislaust, trúa hverju orði sem af vörum hans hrýtur - hversu fáránleg sem þau eru - og gera skoðanir leiðtogans að sínum - hversu heimskulegar sem þær eru. Það er sorglegt að horfa upp á þetta og ég vildi óska þess að allir sem byggja okkar litla land gætu fylgt þeirri ágætu reglu að ástunda ævinlega gagnrýna hugsun, leggja saman tvo og tvo upp á eigin spýtur og gæta þess að láta ekki ljúga sig fulla.
Er ekki rétt að við spyrjum okkur öll hvernig samfélag við viljum byggja upp á rústum þess sem hrundi. Viljum við endurtaka leikinn og hafa græðgina að leiðarljósi? Græðgina, sem viðheldur stöðugri löngun, sem aftur veldur því að við upplifum aldrei ánægju - því græðgin vill alltaf meira. Hún fær aldrei nóg og í sinni verstu mynd, sem við kynntumst rækilega hér á Íslandi, svífst hún einskis í eilífri ásókn eftir meiru. Græðgin ýtir síðan undir ójöfnuð og óeðlilega samkeppni á kostnað samvinnu.
Eða viljum við annars konar samfélag? Samfélag sem byggist á samkennd, virðingu, samvinnu, jöfnuði og samhjálp. Samfélag, þar sem allir geta notið heilsugæslu og menntunar, þar sem annast er vel um börn og eldri borgara og þar sem traust ríkir manna á milli. Viljum við samfélag þar sem fólk fær mannsæmandi laun, þar sem lög og reglur ná yfir alla, ekki bara suma - og þar sem sumir eru ekki jafnari en aðrir? Viljum við samfélag þar sem grunngildi samfélagssáttmálans, réttlætið, er í hávegum haft?
Er ekki kominn tími til að draga fram það sem sameinar okkur, í stað þess að einblína á það sem sundrar okkur? Að stjórnmálamenn og við, fólkið í landinu, stígum upp úr skotgröfunum og förum að vinna saman.
Hugsum málið.
Spjall þeirra Páls Skúlasonar og Evu Maríu vakti mikla athygli eftir útsendingu þáttarins 28. desember. Ekki síst orð Páls um landráð af gáleysi - sem hann viðhafði reyndar líka í erindi sínu, Lífsgildi þjóðar, á jóladag (viðfest hér að neðan). Miðað við alvarleika málsins vil ég gjarnan taka dýpra í árinni og kalla gjörningana landráð af vítaverðu gáleysi - og dæma samkvæmt því. Svo finnst mér rétt að rifja upp þetta frábæra viðtal Evu Maríu við Pál. Ég fékk leyfi þeirra beggja til birtingar strax daginn eftir útsendingu, en þetta hefur dregist dálítið hjá mér.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þennan græðandi pistil Lára Hanna! Ég veit ekki hvort þú hugsaðir hann þannig en hann orkar a.m.k. græðandi á mig
Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.7.2009 kl. 22:58
Þakka þér fyrir þetta, Lára Hanna. Þetta er góður pistill og einstaklega vel fluttur. Góð hugvekja ofan á þá þjónustu sem þú veitir okkur með því að setja þetta allt inn á bloggsíðuna þína og tengja þetta saman, gera okkur einmitt fært að fá einhverja yfirsýn til þess að reyna að mynda okkur skoðanir. Það sem Fjölmiðlarnir eigaq aqð gera en gera ekki. Takk, kæra Lára Hanna! Þú ert dýrgripur! En ofkeyrðu þig þó ekki!
Þorgrímur Gestsson, 17.7.2009 kl. 23:15
"Er ekki kominn tími til að draga fram það sem sameinar okkur, í stað þess að einblína á það sem sundrar okkur?"
Hvað er það sem á að sameina okkur? Mikið veltur á því. Að sannreyna og sýna að við búum í réttarríki? Eigum við að sameinast um það? Að gera umheiminum og sjáfum okkur ljóst að við búum í samfélagi þar sem hinn sterki getur ekki troðið á þeim veika án þess að sæta ábyrgð? Samstaða sem lítur framhjá þessum hlutum er einskis virði. Ég vil hana ekki.
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 18.7.2009 kl. 00:01
Þakka þér kærlega fyrir pistilinn, sem er sannur og góður.
Mér finnst það vera þetta umtalaða "hjarðeðli" sem mesta vandamál þjóðarinnar. Fólk hefur verið alið upp í efnishyggju hugsunarhætti frá blautu barnsbeini og síðan fylgja allir straumnum. Bókmenntir og sögur fyrir börn fjalla gjarnan um að prinsinn eða fátæki drengurinn/stúlkan eignaðist prinsessuna/prinsinn, hálft konungsríkið og gull og gersemar. Það virðist vera skilyrði fyrir hamingju og einnig að prinsessan var fögur. Þá fór ég að velta fyrir mér hvort það sé siðferðilega rétt að meta fólk eftir útliti, eins og því miður glanstímaritin kynda undir. Margir af mestu snillingum mannkyns hafa verið ófríðir (samkvæmt almennt viðurkenndu viðhorfi) Mín niðurstaða er að þarna er verið að fylla börn af ranghugmyndum um lífið og tilveruna, sem þau búa svo að á fullorðinsaldri. Sjálfur hef ég reynt að halda skandinavískum barnabókmenntum að mínum börnum. Höfundar eins og: Astrid Lindgren, Selma Lagerlöf, Thorbjörn Egner, Guðrún Helgadóttir, Herdís Egilsdóttir og Anne Kath. Vestly, því þau byggja á frumleika og þroskaðri kímni, ekki baráttu fyrir að eignast þetta og hitt eða vera sigurvegari. Er það kannski þess vegna sem besta stjórnarfar heimsins er að finna á norðurlöndunum?
Fólk er allt of mikið upptekið af að tilheyra hóp og vekja aðdáun innan hópsins. Væri ekki nær að keppast um að standa sig vel, ná árangri og vinna afrek til að gleðja sjálfan sig? Skiptir það ekki meira máli hver þú ert í eigin augum, frekar en annarra?
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 18.7.2009 kl. 18:26
Það er nýlunda að heyra fólk hvatt til sjálfstæðrar og óhindraðrar leitar að sannleikanum, í stað þess að fylgja viðteknum dilkdragandi stefnum og straumum í þjóðfélaginu eins og reyndin er yfirleitt á í dag. Þakka þér fyrir það Lára Hanna.
Til að rannsaka sannleikann sjálfstætt þarf fólk fyrst að gera ráð fyrir að hann sé til og að hann sé einn. Margir, jafnvel viðurkenndir lífsfræðarar, halda því fram að ekki sé til neinn sannleikur eða að ómögulegt sé a.m.k. að fólk komi sér saman um ákveðna útgáfu af honum.
Þess vegna lætur okkur best að fylgja einhverjum, svo til blint, sem segist hafa fundið og skilið sannleikann eða þá skipað okkur í dilk með þeim sem við höldum að eigi svipaðra hagsmuna að gæta og við sjálf og látið sannleikann sem slíkan lönd og leið.
Þannig verður málamiðlun og hrossakaup viðurkenndar leiðir til að ná niðurstöðum í mál, frekar en að leita hins eiginlega sannleika og fylgja augljósum niðurstöðum hans. Sjálfstæð og óhindruð leit hvers og eins, hlýtur að fela í sér að allir verða að leggja á sig að kanna málavöxtu, draga saman upplýsingarnar og fullvissa sig um að þær séu áreiðanlegar og allar "komnar í hús". - Ólíkt því t.d. sem gerist og gengur á hinu háa Alþingi okkar Íslendinga (og reyndar fleiri þjóðþingum) og t.d. umfjöllun um Icesave málið ber glöggt vitni um. - Þar lágu ekki allar upplýsingar fyrir, né var áhugi fyrir að leita eftir þeim, vegna þess að búið var með frumvarpinu að gefa sér fyrirfram ákveðna niðurstöðu.
Eftir að sæst hefur verið á að allar upplýsingarnar liggi fyrir fyrir, er nauðsynlegt að hefja málin upp á stig meginreglna. Þetta gerist nánast aldrei í því ferli sem notum í dag til að ráða ráðum okkar sem einstaklingar eða sem þjóðfélag. Megin vandinn er að finna þá meginreglu sem við á í hverju máli.
Í Icesave málinu t.d. , finnst mér meginreglan sem beri að hafa að leiðarljósi vera réttlæti.
(Ekki hvaða lagarefjar er hægt að troða til að losna við að borga eða ramm-flokks-pólitískar forsendur fyrir því hvers vegna við eigum að borga.)
Undirstaða einingar í mannlegu samfélagi eru nefnilega þessar meginreglur mannlegra og andlegra gilda.
Svo við höldum okkur við Icesave sem dæmi, ættu niðurstöður sjálfstæðrar og óhindraðrar leitar að öllum efnisatriðum Icesave málsins að lokum að skoðast í ljósi þess hvað er réttlátt og niðurstaða þings og þjóðar að að fylgja því.
Ég veit að þetta hljómar kannski eins og einhver predikun, en á alls ekki að vera það. Ég er aðeins að reyna að útskýra minn skilning á því hvað það þýðir í raun að leita sannleikans sjálfstætt og óhindrað eins og þú gengur út frá að sé fæðingarréttur okkar, í þínum góða pistli .
Svanur Gísli Þorkelsson, 18.7.2009 kl. 23:51
Það er með ólíkindum hvað fólk þykist ekki vita um hjarðeðli, skort á sjálfsöryggi og þeim vandamálum sem fylgja slíkri afneitun.
Af hverju stendur fólk og gapir yfir svona málum í stað þess að taka á þeim?
nicejerk, 18.7.2009 kl. 23:52
Með góðum kveðjum. - Helga Björk
Helga Björk Magnúsar Grétudóttir (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 00:25
Takk
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.7.2009 kl. 14:27
Ætli sá merkilegi maður hann Páll Skúlason, yrði ekki býsna ánægður með að lesa bæði greinina þína Lára mín og mörg ágætu innleggin hérna við hana? Ég gæti nú sem best trúað því og nefni til dæmis ígrundaðar Hugvekjur Húnboga og Svans Gísla, sem ágæt dæmi um það. (SG er vonandi bara sáttur við þá skilgreiningu frekar en að orð hans séu túlkuð sem predikun!?)
Ég sjálfur hef annars litlu við þetta að öðru leiti að bæta, en get svo sem laumað því að þér LH og kannski öðrum sem kunna að lesa, að ég hef í yfir tuttugu ár fylgst með og hlustað á Pál, fékk til dæmis hans stórmerku og sjaldgæfu Pælingarit í tvítugsafmælisgjöf frá elsta bróður mínum, en þau er örugglega með merkari heimspekiritum okkar Íslendinga.
Magnús Geir Guðmundsson, 19.7.2009 kl. 20:25
Þú ert góð að vanda Lára Hanna. Viðtal Evu Maríu við Pál Skúlason ætti að vera skylduáhorf - sérstaklega stjórnmála- og embættismanna.
Í viðtalinu komu fram margir gullmolar svo sem að eitthvað á þá leið að stjórnmál séu ekki fag sem við lærum í skólum. Má ekki líka segja að orðið sé dregið af þessu þ.e. og að við öll eigum að taka þátt í ,,stjórna okkar málum" -> stjórnmál. Bloggheimar eru mikilvægur vettvangur í stjórnmálaumræðu dagsins að mínu áliti og framlag þitt Lára Hanna hefur verið mikilvægt þar sem þú leggur mikið á þig að safna saman fróðleik og umræðu. Það er þetta viðhorf Páls Skúlasonar sem varð m.a. til þess að ég fór að láta í mér heyra og taka þátt í lýðræðislegri umræðu hér í bloggheimi. Ég lít á það sem lýðræðislega skyldu mína og læt mig hafa það þó ég hafi orðið fyrir ,,aðkasti" vegna þessa. Það fylgir tjáningarfrelsinu.
Uppskriftin er einföld. Lög, reglur og siðferði. Allt þetta vantaði hjá okkur virðist vera og stóra spurningin í dag er þessi: Hafa núverandi stjórnvöld bætt úr þessu eða erum við enn að ,,baka" eftir sömu uppskrift og með sömu ,,bakarameistara" og fyrir hrun, en með nýjum ,,aðalleikendum"?
Jón Baldur Lorange, 20.7.2009 kl. 16:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.