29.7.2009
Dagar Kompáss taldir?
Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég pistil um ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum og birti auk þess pistil um sama efni af Morgunvakt Rásar 2. Í honum fór ég fram á við mennta- og fjármálaráðherra að veitt yrði fé til að stofna og reka sjálfstæðan og óháðan rannsóknar- og upplýsingahóp fjölmiðla. Þetta ætti að vera auðsótt mál og oft var þörf en nú er nauðsyn. Ríkisstjórnin hefur ekkert að fela, er það? Þótt fréttastofur og hefðbundnir fjölmiðlar séu góðra gjalda verðir svo langt sem þeir ná, er ekki nóg að fá aðeins 2 mínútna frétt eða þriggja dálka grein af stórmálum og síðan ekki söguna meir. Fréttirnar þarf að setja í samhengi, grafa og grufla, tengja og skýra, finna orsakir og afleiðingar, komast að niðurstöðu og fylgja fréttunum eftir.
Ég, eins og svo ótalmargir aðrir, hef beðið eftir að Kompás kæmi aftur á skjáinn en ekkert hefur bólað á honum. Silfur Egils hætti í maí, kemur væntanlega ekki aftur fyrr en í september og Kastljósið fór skyndilega í sumarfrí. Um þessar mundir er því engar fréttaskýringar að fá í sjónvarpi og þótt Spegillinn standi sannarlega fyrir sínu vantar myndrænu útfærsluna. Þetta er fáránleg staða sem almenningi er boðið upp á af fjölmiðlunum. Við þurfum á miklu öflugri fjölmiðlun að halda en hægt er að sinna nú miðað við samdrátt og niðurskurð. Eða er kannski eitthvað galið við forganginn hjá miðlunum? Það skyldi þó aldrei vera.
Í Mogganum í dag er sagt að dagar Kompáss séu taldir. Ég neita að trúa því. Skortur á gagnrýnni fjölmiðlun á gróðærisárunum og í aðdraganda hruns hefur orðið okkur dýrkeyptur. Við verðum að læra af þeirri reynslu og efla fjölmiðlunina ef eitthvað er. Hlustið á Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, í myndböndunum neðst í þessum pistli. Við getum ekki haft miklar væntingar til einkarekinna fjölmiðla í eigu sjálfra útrásarauðmannanna sem eiga risastóran þátt í stöðu okkar í dag og því sem rannsaka þarf. En við getum gert miklar kröfur til Ríkisfjölmiðilsins sem við eigum og kostum sjálf. Og til ríkisstjórnarinnar sem fer með fjárveitingarvaldið.
Hér fyrir neðan er greinin úr Mogganum í dag (smellið þar til læsileg stærð fæst) og valin sýnishorn af umfjöllun Kompáss um mikilvæg mál í íslensku samfélagi. Ég vil fá meira af slíku - ekki er vanþörf á um þessar mundir! Set líka inn umfjöllun um Kompás og viðtöl úr Kastljósi og Spjalli Sölva.
Morgunblaðið 29. júlí 2009
Kompás 20. nóvember 2007 - um Seðlabankann, vexti og verðbólgu
Kompás 13. október 2008 - um efnahagskreppuna
Kompás 20. október 2008 - um útrásina
Kompás 15. apríl 2008 - um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum
Kompás 29. apríl 2008 - um olíuslys
Kompásmál í Kastljósi 27. janúar 2009
Sölvi Tryggva spjallar við Kompássmenn - Skjár 1 - 3. apríl 2009
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þjóðin er gjaldþrota eða því sem næst á svo ótalmörgum sviðum. Hún hefur varla efni á menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu eða húsnæðinu sem hún býr í. Getur varla staðið undir að borga bílinn sinn. Hvernig ætti hún að fjármagna fréttaþætti sem útskýra fyrir henni hvernig hún kom sér í þessar aðstæður?
Gjalþrota þjóð þarfnast bréfpoka, ekki sannleika. Gjaldþrota þjóð þarf raunveruleikaþætti, ekki fréttaskýringar. Gjaldþrota þjóð þarf að fyrirgefa en ekki rannsaka.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 13:06
100% Sammála Lára Hanna.
En ég er ekki viss um að stjórnvöld séu sammála þér. Allavega bólar lítið á "Alt upp á borðið." Og loforðunum að upplýsa þjóðina heiðarlega og hreinskilnislega, núna.
Arnór Valdimarsson, 29.7.2009 kl. 13:41
Já hvað varð um þetta allt upp á borðið. Fyrsta skylda stjórnvalda er upplýsingarskyldan.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.7.2009 kl. 14:20
Ég er svo gjörsamlega sammála þér Lára Hanna!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.7.2009 kl. 21:19
Eigum við ekki fólk sem á nóg af peningum sem vill betra og upplýstara Ísland? Hvað með Vilhjálm Bjarnason formaður fjárfesta, formaður hverja er hann? Er engin sem getur fjármagnað þennan þátt? Helgi í Góu! Samtök atvinnulífsins (frekar ólíklegt)
Hvernig væri að Kompás menn færu í að gera þátt um eigin fjármögnun! Fara með myndavélina og heimsækja fyrirtæki og einstaklinga, ráðherra og aðra. Markmiðið er upplýstara samfélag! Þeir sem vilja það ekki yrðu settir í mynd og spurðir afhverju ekki?
Virkar eins og örvæntingarfull leið en í þessu árferði gerir maður það sem þarf að gera! Ef kompás menn vilja halda áfram með þáttinn þá verða þeir að fara ókunnar slóðir. Ef almenningur sér hvað þeir eru að gera þá koma peningarnir inn. Almenningur vill styðja á bakið við fólk sem vill berjast fyrir betra Íslandi. Kompás menn mega ekki gefast upp.
Þröstur Halldórsson (IP-tala skráð) 30.7.2009 kl. 08:44
Kvöldið
Ég er svo hjartanlega sammála þér Lára, við þurfum að taka a þessu fra A til Ö.
Ekkert hálfkák og upplýsingaflæði i fjölmiðlum sem og sjónvarpi má
ávallt bæta til betri vegar.
Kompáss á fullan rétt á sér og gott betur.
Spurning um að útbúa undirskrifalista, senda til Rúv og búa um þetta þannig að allir geti tekið virkan þátt.
Gísli Þór Viðarsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 22:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.