1.8.2009
Mergjað kjaftæði
Við fengum staðfest áðan að hér ríkir ekki upplýsinga-, mál- eða tjáningarfrelsi og fjölmiðlar eru múlbundnir af hagsmunaaðilum ef þeim þykir ástæða til. Yfirlýsing Kaupþings er með ólíkindum. Þar segir m.a.: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings leggja áherslu á að með þessum aðgerðum séu bankarnir að bregðast við skyldum sínum til að tryggja trúnað við viðskiptavini sína og koma í veg fyrir að óviðkomandi hafi aðgang að upplýsingum um viðskipti þeirra..."
Trúnað við viðskiptavini, jamm. Trúnaður þeirra við Ólaf Ólafsson, Bakkabræður, Jón Ásgeir, Robert Tchenguiz og fleiri slíka er semsagt meiri og mikilsmetnari en trúnaður við íslenskan almenning. Og mér finnst ekki úr vegi að spyrja hvaða peninga var verið að höndla með og útbýta til valinna viðskiptavina og eigenda bankans. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að tíu hæstu lánin voru tæplega þreföld fjárlög ríkissjóðs, hvorki meira né minna.
En hvaða peningar voru þetta? Hvaðan komu þeir og ekki síst - hvert fóru þeir? Og hve stór hluti af gjaldþroti gamla Kaupþings eru þessi lán? Hver þarf að borga brúsann? Hvaða eignir íslensku þjóðarinnar þarf að leggja að veði til að friða kröfuhafa í þrotabú bankans? Hvað þarf íslenskur almenningur að þola t.d. í formi niðurskurðar og skattahækkana vegna græðgi, sukks og spillingar þessara eðalviðskiptavina og eigenda Kaupþings? Í yfirlýsingu Kaupþings frá í gær segir: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings..." Þetta er mergjað kjaftæði. Auðvitað eiga þessar upplýsingar erindi til almennings! Er það ekki sá sami almenningur sem situr uppi með efnahagslegt hrun landsins sem einmitt þessir viðskiptavinir ollu - ásamt ýmsrum öðrum? Það hefði ég haldið.
Ég vil ítreka áskorun mína til netmiðla og bloggara frá síðasta pistli um að allir sem tök hafa á birti sem mest af þessu á netinu - á bloggsíðum, netmiðlum, Facebook, Twitter og hvað þetta heitir allt saman. Eða slóðir að umfjöllun ef ekki vill betur til. Allir saman nú! Látum Kaupþing hafa fyrir því að krefjast lögbanns á alla netverja ef því er að skipta. Með því móti leggjum við okkar af mörkum til að mótmæla þeirri þöggun sem nú hefur verið samþykkt af embætti Sýslumanns. Ég hengi eintak af lánabókinni aftur neðst í þessa færslu og ítreka slóðina að WikiLeaks.
Fréttir RÚV - 1. ágúst 2009
Fréttir Stöðvar 2 - 1. ágúst 2009
Viðbót: Kannski kemur þetta málinu ekkert við, en er ekki beint traustvekjandi og vægast sagt umhugsunarvert. Ég var að fá upplýsingar - og kannaði þær nánar - að tengsl eru milli Sýslumannsins í Reykjavík og Kaupþings. Sýslumaður er Rúnar Guðjónsson (f. 1940). Rúnar var sýslumaður í Borgarnesi og rótarýfélagi Ólafs, föður Ólafs Ólafssonar. Sonur Rúnars er Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings. Eins og sjá má t.d. hér og hér var Frosti Reyr einn af kúlulánþegum Kaupþings.
Annar sonur Rúnars er Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Búið er að loka vef samtakanna, að því er virðist, og ég finn þau ekki í símaskránni. En lauflétt gúgl leiðir ýmislegt í ljós, m.a. að þessi samtök virðast hafa gengið einna lengst í að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef eins og sjá má t.d. hér og hér. Gúglið leiðir ýmislegt fleira í ljós um samtökin, eins og t.d. þetta.
Ég fékk upplýsingar á fésinu rétt í þessu um að samtökin heiti nú Samtök fjármálafyrirtækja. Guðjón er ennþá framkvæmdastjóri - og kíkið á hverjir eru í stjórninni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:41 | Facebook
Athugasemdir
Stöndum saman.
Tíðarandinn birtir einnig stórlánabókina.
Elfur Logadóttir, 1.8.2009 kl. 20:22
Já, við erum öll sammála þér um þetta Lára Hanna, hvort sem það þýðir eitthvað eða ekki.
Sæmundur Bjarnason, 1.8.2009 kl. 20:39
Það er nú gott að fá það beint í æð að ætlunin var að fela bolabrögð þessara manna... á okkar kostnað...
Við erum öll fórnarlömb þessara vitleysinga... við eigum algeran rétt á að engin leynd hvíli á einu né neinu í þessu máli.
Það er verið að hrækja á okkur... gefa skít í okkur...
Þurfum við frekari vitnana við... það er enginn að gæta hagsmuna okkar, þvert á móti,
DoctorE (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 20:48
fallega gert af bankanum að sýna "viðskiptavinum" sem settu bankann á hausinn og ætla sér ekki að borga "gjörninginn" til baka svona mikinn TRÚNAÐ
zappa (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 20:52
Hvers vegna fór RÚV ekki samstundis fram á að lögbanninu yrði hnekkt?
Helga (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 20:52
sýslumannaembættin eru gegnrotin. hvort það tengist því að þau eru mestmegnis skipuð konum skal ég ekki segja um.
Brjánn Guðjónsson, 1.8.2009 kl. 20:57
Sæl, Lára Hanna og takk fyrir öll þín greinargóðu skrif.
Ég var að hugsa um hvort dómsmálaráðherra getur ekki ómerkt þennan gjörning þ.e.a.s.
lögbannið. Það verður ljót auglýsing fyrir land og þjóð, þegar fjölmiðlar annrra landa fara að segja frá því, að Kaupþingbanki á Íslandi hafi fengið í gegn lögbann á íslenska ríkisútvarpið vegna fyrirhugaðrar umfjöllunar þesss um útlán bankans til valdra vina á síðustu dögum fyrir hrun, þar sem bankastjórnendur skenktu vinum og fjárglæframönnum hunduði miljarða, bara rétt si sona.Guð blessi Ísland, segi ég nú bara.
Kolbrún Bára (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 21:01
Finnur Torfi Gunnarsson. Tvífari ICEPRO verðlaunin í ár komu í hlut Glitnis, Kaupþings, Landsbanka og sparisjóðanna en verðlaunin voru veitt í 11. sinn á aðalfundi ICEPRO. Verðlaunin eru veitt þeim skarað hafa fram úr á sviði rafrænna samskipta. Í máli Jóns Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, sem veitti verðlaunin í gær kom fram að ákveðið hefði verið að þessu sinni að verðlaunahafar yrðu fleiri en einn og væri það í fyrsta skipti sem slíkt væri gert. Hlutu bankarnir og sparisjóðirnir verðlaunin fyrir öflug upplýsingatæknisvið, greið bankaviðskipti gegnum netið, innleiðingu auðkennislykla, framsetningu XML bankaskeyta og þátttöku í mótun rafrænna skilríkja.
Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, tók við viðurkenningunni fyrir hönd verðlaunahafanna, svokölluðum EDI-bikar, að því er segir á vef Samtaka atvinnulífsins.
Guðjón er sonur sýslumannsins í Reykjavík
Cilla (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 21:07
Egill er líka farinn að spyrja um stóra lánið frá SÍ/DO til KÞ. Við munum jú eftir því að skríllinn var í kjölfarið látinn bjarga SÍ frá gjaldþroti skömmu síðar með nokkur-hundruð-milljörðum. Á ekki erindi til skrílsins, haltu-kjafti-borgaðu.
sr (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 21:20
Og var þá ekki sýslumaðurinn bullandi vanhæfur? En það skiptir ekki máli.
Dólgarnir áttu ekki bara bankana, þeir eiga 3 stjórnmálaflokka og eru einkavinir dómaranna. Þessi sérstaki er sennilega settur til að gulltryggja að ekkert verði gert við þessa aumingja. Hvernig getum við fengið Interpol til aðstoðar?Það er fullt tilefni til og þótt fyrr hefði verið
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.8.2009 kl. 21:24
Lánið sem Kaupþing veitti til kaupanna á Högum notaði Baugur Group til að greiða niður skuldir við Kaupþing að upphæð 25 milljarðar og Glitni að upphæð fimm milljarðar.
Fyrirtækið Hagar ehf var stofnað árið 2005 og einn af þremur eigendum félagsins er Tinna Ólafsdóttir, forsetadóttir, hinir eru Jóhannes í Bónus, Jón Ásgeir og sá þriðji Pálmi Haraldsson bættist í hópinn seinna.
Cilla (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 21:32
Ég er svo reið í augnablikinu að ég get ekkert sagt í augnablikinu annað en takk fyrir þetta Lára Hanna! Varð við tilmælum þínum.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.8.2009 kl. 21:46
ég er bara fjúkandi ill...........
Hólmdís Hjartardóttir, 1.8.2009 kl. 21:49
Þakka þér fyrir þetta Lára Hanna, ég leyfði mér að "stela" frá þér viðbótinni og bæta við færslu á mínu bloggi. Það er með ólíkindum ef þetta á að viðgangast og ég held að það verði heitt á Austurvelli næstu daga ef þessi ósvífna ákvörðun héraðsdóms verður ekki afturköllið hið snarasta!
Ingibjörg Hinriksdóttir, 1.8.2009 kl. 21:52
Af hverju skildu stjórnmálamenn vilja hafa allt uppi á borðinu?
http://www.visir.is/article/20090421/FRETTIR01/383513707
Sigurlaug (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 21:52
Ég vill koma fram þökkum til hetjunar í þessu máli. Aðili sem ég hef ákveðið að kalla Kaupthing Deepthroat, og hef stofnað aðdáendasíðu fyrir hann/hana á Facebook. Ég vona að þetta verði til þess að fleirri Whistleblowers komi úr bönkunum!
Hannes (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 22:09
Ég er búinn að vista pdf skrána á tölvuna hjá mér og mun birta þetta á eins mörgum stöðum og mér er unnt næstu daga og vikur. Ég er eigandi að nokkrum lénum og mun alveg klárlega nýta mér þau öll til að gera lýðum ljóst hvers konar bananalýðveldi þessir karlar eru búnir að koma upp hér.
Tómas Þráinsson, 1.8.2009 kl. 22:39
Har allerede sendt pdf-file til norske og danske aviser
Jostein (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 22:43
Heimasíðu samtaka banka og verðbréfafyrirtækja má enn finna á vefnum, þótt samtökin hafi hætt að halda henni við, þökk sé snillingunum á www.archive.org, nánar tiltekið
http://web.archive.org/web/*/http://www.sbv.is/
Þú kannski bætir þessu við upprunalegu færsluna þína, Lára Hanna
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 23:41
Gjaldþrot Björgólfs er miklu stærra en stærsta gjaldþrot einstaklings í Bretlandi fyrr og síðar.
Þetta sýnir vel hve ruglið er mikið á Íslandi að einstaklingum sé lánað svo mikið gegnum engum eða ónýtum veðum og ekkert að gert þegar þessir aðilar koma fjármunum undan á síðasta sprettingum (sbr. t.d. Jón kaupir Haga af Baugi (sjálfum sér)).
http://www.telegraph.co.uk/finance/newsbysector/banksandfinance/5956509/Icelandic-bank-chief--in-500m-of-hot-water.html
Hvenær ætlar Silfrið og Kastljósið að koma úr sumarfríi - þetta gengur bara ekki lengur.
Björn H (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 23:54
Hvenær ætlum VIÐ...hin íslenska þjóð...að gera eitthvað??? Hvenær er nóg NÓG????
Bergljót Hreinsdóttir, 2.8.2009 kl. 00:01
.................... orðlaus yfir ruglinu!
Eysteinn Þór Kristinsson, 2.8.2009 kl. 00:17
Sæl Lára Hanna, frábær pistill.
Þetta og Eva Joly á einum degi, það er ekkert smávegis. Ekki nema von að Steingrímur og Jóhanna þegi þunnu hljóði.
Í raun eru þessar glærur bara staðfesting á því sem allir vissu, þeir skrældu allt bitastætt úr öllum bönkum og fyrirtækjum sem á vegi þeirra varð. Er hægt að setja lögbann á almannaróm??
Gunnar Skúli Ármannsson, 2.8.2009 kl. 01:46
Ég vil sjá aðgerðir strax, viðbjóðurinn er algjör hjá KB banka. Spillingin er búin að gegnsýra allt kerfið í allt of langann tíma. Mikil vinna er framundan við það að vinda ofan af spillingunni og spillingarliðinu....
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.8.2009 kl. 02:00
Ég hlóð þessu niður strax í gærkvöldi. Nú vantar okkur bara lánabækur frá Glitni og landsbankanum.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 2.8.2009 kl. 02:46
Getur þetta endað öðrusísi en með byltingu ?
Fransman (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 02:59
Auðvitað eru ekki sett neyðarlög um afnám bankaleyndar, en neyðarlög um að almenningur borgi fyrir fjármálasukkið var skellt á okkur á núll einni ! ástæðuna er kannski að finna í þessari frétt hér fyrir neðan og það kemur kannski allt upp á borðið þegar það er búið að hvítþvo allt klabbið(tekið af visir.is):
Stjórnmálamenn fengu óeðlilega fyrirgreiðslu úr bönkum
Mörg dæmi eru um að stjórnmálamenn, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, aðilar tengdir þeim og forsvarsmenn lífeyrissjóða, hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu í bankakerfinu. Þetta var kallað vildarkjarakerfið eða "special deal".
Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að fyrir bankahrunið hafi ýmsir stjórnmálamenn, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn, fengið óeðlilega fyrirgreiðslu hjá gömlu viðskiptabönkunum. Í þessum hópi var einnig fólk sem tengdist stjórnmálamönnum og forsvarsmenn lífeyrissjóða.
Í sumum tilvikum var um að ræða tugmilljóna króna lán til þess að kaupa hlutabréf, meðal annars í bönkunum sjálfum, án þess að leggja fram nein veð. Slík fyrirgreiðsla var ekki í boði fyrir almenning.
Þetta var í hópi banka- og stjórnmálamanna kallað "special deal" sem mætti kalla vildarkjör, eða vildarkjarakerfi stjórnmálamanna. Stundum þurfti einungis eitt símtal til þess að fá fyrirgreiðslu af þessu tagi. Ef vel gekk og hlutabréf hækkuðu í verði myndaðist eigið fé og menn högnuðust, en ef illa gekk og verð hlutabréfa lækkaði þurftu þeir ekki að taka skellinn.
Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið rannsakar meðal annars hvort stjórnmálamenn hafi notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu í bankakerfinu, eins og fréttastofan hefur áður greint frá. Rannsóknanefndin hefur heimild til að keyra kennitölur stjórnmálamanna í gegnum bankakerfið til að rekja slóð fjármuna. Bankaleynd gildir ekki um þá aðgerð.
Hins vegar gildir rík bankaleynd í Lúxemborg, en talið er að hluti af þessum viðskiptum hafi farið fram í gegnum dótturfélög íslensku viðskiptabankanna þar. Það torveldar starf Rannsóknarnefndarinnar, sem hefur enn ekki heimild til að fá þær upplýsingar sem hún óskar eftir að fá þaðan.
Sævar Einarsson, 2.8.2009 kl. 03:22
p.s. takk fyrir góðan pistil að vanda.
Sævar Einarsson, 2.8.2009 kl. 03:22
Þetta annars ágæta orð í íslensku máli, trúnaður, er að umbreytast í skelfilegt öfugmæli þegar það er misnotað eins og hér hefur verið gert.
Velkomin aftur á vaktina mín kæra.
Hildur Helga Sigurðardóttir, 2.8.2009 kl. 05:22
Er það skrítið að norðurlönd er treg að lána ykkur þegar allir glæpamennirir ganga ennþá lausir og bíða eftir að
fá meira fjármagn að sukka með þessir AUÐRÓNAR viraðas vera algjörlega án samvisku og svo eru stjórmála-
menn að verja þá með lögum en almenningur fær að blæða út. Þetta land virðist vera eitt sjóræningjabæli þar
sem heiðarlegt fólk getur ekki lifað en þjófar lifa flott...
Jóhannes (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 07:11
Sæl Lára og takk fyrir þína pistla sem eru ómissandi í tilverunni;-)))
Þessi Guðjón Rúnarsson var stærsta málpípa bankanna þegar þeir svindluðu sem mest,það mátti ekki segja eitt aukatekið orð gegn bönkunum þá var hann kominn í fjölmiðla að verja þá!
Birti hér blogg sem ég bloggaði um manninn í nóvember 2008!
Maðurinn sem seldi sál sína bönkunum!!!
Las grein í Morgunblaðinu eftir Guðjón Rúnarsson (vona að ég fari með föðurnafnið rétt)
Hann titlar sig sem "framkvæmdarstjóra samtaka fjárfesta" núna, en ef ég man það rétt ,þá var hann málpípa gömlu bankanna þegar allt lék í lindi.
Hann hefur líklega misst vinnuna þegar bankarnir fóru á hausinn.
Nú hvers vegna er ég að pæla í honum, jú, ef ég man það rétt þá var ég handviss á þessum tíma að maðurinn væri örugglega búin að selja sál sína bönkunum.
Öll gagnrýni sem bankarnir fengu á þessu tíma var varið út í rauðan dauðann af þessum manni.
Hann gagnrýndi mikið að Íbúðalánasjóður skildi ekki lagður niður og bankarnir tækju yfir hlutverk hans!
Maður hugsar til hryllings ef slík plön höfðu náð fram að ganga.
Og það var sama hvaða vitleysa bankarnir gerðu, alltaf var hann kominn í fjölmiðla til að verja þá vitleysu, enda hans vinna.
Og nú birtast hann á ný,engu vitrari og jafn seldur græðginni og sínum eigin hagsmunum og ver bankaleynd.
Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni að slíkir menn séu fyrst og fremst að verja sína eigin bankaleynd!
Slíkir menn sem tengjast svo náið gömlu bönkunum ættu að segja og skrifa sem allra minnst,allavega, meðan rannsókn á mesta fjármálabraski síðari tíma sé ekki lokið!
Konráð Ragnarsson, 2.8.2009 kl. 08:18
Hvernig sem við látum þá breytir það engu. Hemingur íslensku þjóðarinnar kýs þá flokka sem buðu upp á glæpinn. Eftir næstu kosningar komast þeir aftur til valda og efna til nýrrar veislu.
Hverjir eignast Ísland? Þeir sem eiga peninga. Hverjir eiga peningi? Þeir sem komu þeim undan eftir stóra ránið.
Dettur ykkur í hug að Björgólfur sé "gjaldþrota"? Því trúi ég fyrst þegar hann mætir með innkaupapoka hjá mæðrastyrksnefnd.
Snæbjörn Reynisson (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 11:22
Ömurlegt er hefur verið að horfa upp á jafnaðarmenn veltast um í spilllingu Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna. Ætlar þetta aldrei að enda. Hvnær á að taka á hlutunum Jóhanna ? Þetta er ekki hægt að láta auðskarfa komast upp með allt. Þið látið þá leiða ykkur um völlinn eins og auðsveip hæns.
Þið látið SI/DO setja peningi í Kaupþing. Þið tryggið allar sparireikinga í bönkum í topp. Þið látið 200 milljarða í sjóðauppgjör fallít bankana. Þið haldið í bankaleynd.
Svo getið þið ekkert gert fyrir heimilin í landinu !! Hvar er jöfnuðurinn í þessu ? Bara hægt að láta þá sem eiga nóg hafa meira ?
Þetta gengur ekki.
Rúnar (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 11:59
það fyrsta sem manni datt í hug þegar lögbannið var sett á : Hverjum tengist sýslumaður?? Þú svarar því - takk fyrir.
Sigrún Óskars, 2.8.2009 kl. 12:32
Ég skora á ríkisstjórnina að segja af sér og hér verði skipuð Utanþingsstjórn sem er ríkisstjórn sem er skipuð af fólki sem sitja ekki á alþingi. Þannig stjórn hefur einu sinni verið skipuð og hún er ástæðan fyrir því að við höldum hátíðlega upp á 17 júní.
Sævar Einarsson, 2.8.2009 kl. 13:10
Lára Hanna, hvar værum við án þín.
Er það ekki lán í óláni að enginn vill lána okkur meir?
Ég vil ekki að Þjóðin fái krónu meir í lán að utan, fyrr en alt þetta rotna pakk er farið frá. Og að það tryggt að Icesafe og aðrir kröfuhafar fari beint í mál við viðkomandi pólitíkusa og fjárglæframenn. Þetta hefur ekkert með þjóðina að gera. Það er deginum ljósara fyrir mér, að alt erlent lánsfé sem kæmi hér inn færi í gegnum sömu hendur glæpamanna og fjórflokksins, sem kom okkur í skítinn. Og þá yrði önnur veisla á kostnað þjóðarinnar.
Bæði Bretum og Hollendingum, og svo núna frændþjóðum okkar sem ætluðu að lána okkur, blöskrar spillingin hér. Og sú staðreynd að ekki er búið að handtaka neinn eða reka, fyrir spillingu eða kyrrsetja eignir. Og að pólitíski feluleikurinn blómstrar sem aldrei fyrr. Gerir það að verkum að traust stjórnvalda hér er minna en 0, vegna vasklegrar framkomu bæði þessarar og fyrrverandi stjórna í Icesafe og öðrum útrásarvíkinga málum, og tengsla þeirra.
Hér veitir ekki af að fá að minnstakosti einn sérstakan saksóknara til, erlendis frá, til að taka á pólitísku spillingunni sem reið hér röftum og gerir enn innan fjórflokksins.
Ég mæli með því að Eva Joly taki það að sér í nafni Þjóðarinnar, og að Ríkisstjórnin komi þar hvergi nærri, né Alþingi.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 14:28
Lára Hanna,
Enn og aftur kærar þakkir fyrir þína frábæru rannsóknafréttastöð.
Ljóst er að réttarkerfið á Íslandi virkar alveg prýðilega, snögg viðbrögð og engin vettlingatök ef réttir aðilar þurfa á þjónustu þess að halda.
DB (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 15:01
Lára Hanna, þakka þér fyrir samantekt þína hjá Sigurjóni á Bylgjunni í morgun. Þarft og gott yfirlit þar á ferðinni, ég treysti því að viðtalið við þig verði komið hér á bloggið innan tíðar.
Hitt er að í hádegisfréttum RÚV var ítrekað rætt um frétt sem RÚV mátti ekki birta. Er ekki möguleiki á að RÚV sendi innihald þessarar fréttar til þín og við bloggverjar birtum rækilega á okkar síðum og Fasbókinni? Kristinn Hrafnsson benti á að útlán til eins aðila hafi verið langt umfram það sem leyfilegt er en hann mætti ekki segja frá því hversu mikið eða hverjar fjárhæðirnar voru vegna lögbannsins. Er ekki ráð að fá þessar upplýsingar frá Kristni og birta þetta hér á fréttaveitu almennings?
Ingibjörg Hinriksdóttir, 2.8.2009 kl. 15:30
Ein viðbót við ættfræðina: Í stjórn Samtaka fjármálafyrirtækja, er ekki Sigurður Valtýsson, sonur saksóknara ríkisins?
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 15:43
Er hægt að setja lögbann á sannleikann þó óþægilegur sé sumum? Bankaleyndinni verður að aflétta, hún er hryggjarstykkið í svikamyllusysteminu. Vonandi að fleyri "litlir bankamenn" komi fram, eflaust lítur þetta lítið betur út í hinum bönkunum, aðeins þeir sem hafa slæman málstað að verja geta verið á móti því að flett verði almennilega ofan af ormagryfjunni og hreinsað ærlega til þar svo að óværan fái ekki þrifist þar í skjóli bankaleyndar aftur.
Georg P Sveinbjörnsson, 2.8.2009 kl. 16:38
Þessi Ríkisstjórn hefur haft nægan tíma til að aflétta bankaleyndinni.
En gleymum ekki því, að síðasti Viðskiptaráðherra, kallaði sig reyndar Útrásarráðherra, Björgvin G. Staðfesti þessa bankaleynd eftir hrun. Í boði Samspillingar. Og cóað af VG.
Þetta er nú "Alt upp á borðið" stefna þeirra. Hvað er þetta pakk að fela?
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 18:45
Allt upp á borðið sem þolir sjónir almennings, restin í gagnaeyðingu, svo sem sér dílar sem þingmenn og ráðherrar fengu frá sínum viðskiptabönkum, það flokkast undir ekkert annað en mútur. Það væri gaman að fá tölur frá þeim hjá Gagnaeyðing hvað viðskiptin hafi blómstrað eftir bankahrun.
Sævar Einarsson, 2.8.2009 kl. 18:54
Sæl Lára takk fyrir þitt magnaða starf
Rúnar Guðjónsson er stórvinur Valtýs smábísa saksóknara synirnir í þjónustu kaupþings lítið mál að afgreiða lögbann með einu símtali íslensk valdastétt sefur ekki á verðinum við hentug tækifæri.Hverjir slökkva eldana þegar langlundargeð borgarana þrýtur? Embættismannakerfið er sterkara en nokkur ríkisstjórn nú þarf neyðarlög yfir stjórnsýsluna strax
Huckabee
Huckabee, 2.8.2009 kl. 22:34
Eva Joly og Lára Hanna eru svo sannalega konur ársins. Flott grein Lára Hanna, eina leiðinn til að fletta ofan af þessari risa svikamillu er að byrta nóg af upplysingum um kvislingana.
Vilhjálmur Bjarnason (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 14:53
Tek undir orð Vilhjálms hér að ofan og sömuleiðis orð Þryms um ættfræðina. Þar liggja nefnilega réttu rannsóknarþræðirnir. Legg til að fólk sem er til í að leggja á sig að grufla í það komi saman og kortaleggi spillinguna á Íslandi útfrá ættar-, flokks, og vinatengslum og gefi það svo út. Ég er til í að vera með, sjá um grafísku vinnuna og prenta frumeintökin. Auglýsi hér með eftir samverkafólki. (Þú fyrirgefur Lára Hanna að ég auglýsi hér vonandi):
Ævar Rafn Kjartansson, 3.8.2009 kl. 22:04
Sæl Lára Hanna, já mér er alvara og hef tæknibúnaðinn og aðstöðuna til að vinna þetta. Til að vera ekki að blanda konunni inn í þetta setti ég upp nýtt netfang: hrun2008@gmail.com.
Öllum þeim sem eru tilbúnir til að vinna með mér að gagnasöfnun um hrunið og ábyrgðir er bent á að senda póst þangað. Það væri flott ef hægt væri að mynda starfshóp sem kemur reglulega saman og fer yfir gögn og kortleggur heljarkrumluna sem hefur stjórnað landinu sl. áratugi. Kannski þannig getum við breytt embætti huggulegs saksóknara yfir í að vera það sem hann á að vera.
Ævar Rafn Kjartansson, 3.8.2009 kl. 22:53
við erum svo miklir asnar. og gerum akkúrat ekkert í þvi nema borga nefskatt til RÚV sem fær svo fréttabann á sig.
Hildur (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 14:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.