Lýst eftir réttlætiskennd þjóðar

Að blogga eða ekkiEins og þeir vita sem hingað koma reglulega flyt ég pistla á Morgunvakt Rásar 2 á föstudögum. Síðasta föstudag var 6. pistlinum útvarpað og mig hryllir við hve tíminn er fljótur að líða. Það er svo stutt síðan sá fyrsti var tekinn upp. Og ég er ekki fyrr búin með einn en komið er að þeim næsta.

Þegar ég settist niður við að semja þennan pistil sem hér birtist var ég ekki búin að ákveða um hvað hann ætti að fjalla og byrjaði án þess að vita hvernig framhaldið yrði. Þetta er skrýtið ferli en þó orðið kunnuglegt eftir alla bloggpistlana. Oftast er bara óljós hugmynd í kollinum þegar byrjað er - þ.e. um textann sjálfan. Svo kemur kannski í ljós að pistillinn hefur verið að gerjast í undirmeðvitundinni og sprettur fram þegar ég byrja að skrifa.

En hér er pistill síðasta föstudags og hljóðskrá fylgir neðst að venju. Mér fannst frábært að lagið sem ég bað um hafi verið spilað á eftir pistlinum. Það passaði nefnilega eins og flís við rass... hlustið.

Morgunvaktin á Rás 2

Ágætu hlustendur...

Vitið þið það... ég hef ekki tölu á því hve oft það hefur komið fyrir mig í vetur að hugsa - eða segja beinlínis upphátt þegar nýjar fréttir berast: "Nei! Ég get ekki meira!" Mig grunar ég sé ekki ein um þetta. Eftir því sem stungið er á fleiri graftarkýlum spillingar, óráðsíu, lögbrota, siðleysis og glæpa því erfiðara er að burðast með þetta allt á bakinu og horfa til framtíðar.

Danski hagfræðingurinn Carsten Valgreen sagði meðal annars þetta í blaðagrein í janúar: "Ísland er lítið, einsleitt samfélag þar sem innibyrðis Carsten Valgreentengsl eru mikil. Þetta er bæði mikill styrkleiki og veikleiki. Þetta er rót kreppunnar. Slík samfélagsgerð virkar næstum eins og fjölskylda eða eitt fyrirtæki. Útilokun tiltekinna vandamála og ákvörðun um að þagga þau niður þróast mjög auðveldlega, og af því leiðir að erfitt er að grípa inn í þegar þau hafa hreiðrað um sig."

Þetta er alveg hárrétt hjá Carsten. Þessi nánu tengsl í íslensku samfélagi þar sem ættingjum, vinum, klíku- og flokksbræðrum og -systrum er hyglað án tillits til hæfni eða getu hafa reynst þjóðinni skelfilega afdrifarík. Sagt er að embættismannakerfið, sjálf stjórnsýslan sem á að halda þjóðfélaginu gangandi, sé handónýtt apparat þar sem skipta þurfi ansi mörgum út til að kerfið virki almennilega. Gömlu stjórnarflokkarnir tveir höfðu áratugum saman komið sínu fólki fyrir í kerfinu og nú, þegar ný stjórn með aðrar hugmyndir er við völd, eru útsendarar fyrri stjórna í fínni aðstöðu til þess beinlínis að vinna gegn þeirri nýju á ýmsan hátt. Væri ekki viturlegt að fara ofan í saumana á þessu kerfi og breyta því?

Umburðarlyndi og langlundargeð þjóðarinnar gagnvart spillingu, dómgreindarleysi og jafnvel lögbrotum fólks sem á að heita í vinnu hjá almenningi hefur líka verið með ólíkindum en virðist vera að þverra - góðu heilli. Rifjum upp nokkur atriði sem hefðu umsvifalaust valdið afsögnum eða vanhæfi í siðmenntum löndum:

- Fjármálaráðherra átti hlutabréf í banka, fékk greiddan arð í ágúst 2008 en neitaði að gefa upp fjárhæðir. Hann hafði lengi vitað um afleita stöðu bankanna en sat áfram í stóli ráðherra.
- Þingmaður var í sjóðstjórn gjaldþrota banka, þáði stórfé fyrir auk þingfararkaups og ríkið dældi fé inn í sjóðinn eftir hrun. Maðurinn var aftur kjörinn á þing.
- Þingmaður stal úr ríkiskassanum og sat í fangelsi. Flokksbræður veittu honum uppreist æru og hann flaug aftur inn á þing.
- Ríkissaksóknari er nátengdur forstjóra eins stærsta eiganda stærsta bankans sem er til rannsóknar. Vanhæfið blasir við en embættismaðurinn harðneitar að segja af sér.
- Fjármálaeftirlitið vísar manni úr skilanefnd banka vegna mögulegra hagsmunaárekstra, en skilanefndin ræður hann þá umsvifalaust sem framkvæmdastjóra hins gjaldþrota banka.
- Nokkrir banka- og auðmenn rændu íslensku þjóðina, lifa áhyggjulausir í vellystingum hérlendis og erlendis, en ekki hefur verið hróflað við þeim eða eigum þeirra tæpu ári eftir ránið. Þó vita allir hverjir þeir eru og hvar þá er að finna.

Þetta eru aðeins örfá dæmi af fjölmörgum um siðspillingu í íslenskum stjórnmálum og embættismannakerfi. Þjóðin hefur liðið þetta alla tíð, en nú vottar loksins fyrir vísi að vakningu og þar leika fjölmiðlar stórt hlutverk. Það var yndislegt að verða vitni að viðbrögðum fjölmiðla og almennings við lögbanni Kaupþings á RÚV um síðustu helgi. Þar lögðust allir á eitt við að gera lögbannið að engu - og það tókst.

Ég lýsi eftir viðlíka samstöðu í fleiri réttlætismálum.

************************************

Ég fékk eftirfarandi tölvupóst upp úr hádegi á föstudag:

Sæl Lára,

Góður þótti mér pistillinn þinn á rás 2 í morgun en leitt þótti mér að heyra að þú færir með rangfærslur um Illuga Gunnarsson. Þar furðaðirðu þig á því að hann hefði ekki sagt af sér vegna þess að ríkissjóður hafi greitt inn í sjóð 9. Þetta er auðvitað kolrangt.

Illugi GunnarssonÉg skora á þig að leiðrétta þennan hvimleiða misskilning.

Illugi gerir raunar mjög vel grein fyrir nákvæmlega þessu á vefsíðu sinni:

5. Voru peningar greiddir úr ríkissjóði inn í sjóð 9?

Engir peningar fóru úr ríkissjóði í sjóð 9. Þessi misskilningur er tilkominn vegna þess að þegar fyrirtækið Stoðir fór í greiðslustöðvun þurfti að loka sjóði 9 tímabundið. Eins og áður sagði var það gert til að tryggja að allir sjóðsfélagar sætu við sama borð. Þann 30. september ákvað svo stjórn Glitnis (sem var þá enn banki í eigu einkaaðila) að kaupa skuldabréf Stoða af sjóði 9 með afföllum. Til kaupanna notaði Glitnir sína eigin fjármuni og engir peningar fóru úr ríkissjóði.

Sagan um 11 milljarðana frá ríkissjóði hefur verið nokkuð þrálát í umræðunni, þrátt fyrir að hið rétt hafi komið fram fyrir löngu síðan. Þeir sem vilja fullvissa sig um hið sanna geta lesið fjáraukalög á vefsíðu Alþingis. Samkvæmt 40. grein stjórnarskrárinnar er bannað að greiða nokkurt gjald úr ríkissjóði án þess að heimild sé fyrir því í fjárlögum. Fjáraukalögum fyrir árið 2008 voru samþykkt í desember og þar kemur skýrt fram að engin greiðsla fór til sjóðs 9. Margt má segja um ríkissjóð og útgjöld hans en eitt er þó víst að 11 milljarðar eru ekki teknir úr ríkissjóði án þess að það komi fram í bókhaldi hans.

Fjáraukalög má finna hér á vef Alþingis www.althingi.is
http://www.althingi.is/altext/136/s/pdf/0482.pdf

 ********************************************

Þessu er hér með komið til skila EN... Í fyrsta lagi furðaði ég mig ekki á því að hann hefði ekki sagt af sér, það var ekki venjan þá en verður vonandi framvegis - heldur furðaði ég mig á því að hann hafi boðið sig fram aftur með þennan bagga á bakinu sem aldrei upplýstist nægilega vel.

Í öðru lagi furða ég mig á því að ekki hafi verið farið ofan í saumana á málefnum einstakra frambjóðenda FYRIR kosningar. Það hefur reyndar ekki verið gert ennþá - og ég bíð óþreyjufull eftir að það verði gert. Ekki veitir af að hreinsa andrúmsloftið.

Í þriðja lagi furða ég mig á því að ég hef hvergi séð tekinn af allan vafa um málið og mér nægir alls ekki þetta hefðbundna... "að viðkomandi vísi ávirðingum á bug..." og síðan ekki söguna meir. Ég þarf miklu ákveðnari, augljósari og betri sannanir til að trúa. Og fjáraukalög Alþingis eru engin sönnun fyrir einu eða neinu í mínum huga. Slík er tortryggnin orðin og lái mér hver sem vill.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Illugi segir: Til kaupanna notaði Glitnir sína eigin fjármuni og engir peningar fóru úr ríkissjóði.Til kaupanna notaði Glitnir sína eigin fjármuni og engir peningar fóru úr ríkissjóði.

Ríkissjóður dældi peningum inn í Glitni og hann er í dag í ríkiseigu. Að staðhæfa að ríkið (við skattgreiðendur) hafi ekki greitt tapið á sjóð 9 er hártogun. Það skiptir ekki máli hvort peningarnir komu úr hægri eða vinstri vasa - Almenningur/skattgreiðendur borga.
Hefi stutt Sjálfstæðisflokkinn í 40 ár. Ekki lengur - Quantum Satis.

Quo Vadis (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 08:42

2 identicon

Aldrei að gleyma að taka Baldur ráðuneytsstjóra með í allar úttektir. Siðlausasta athöfn af öllu.  Læddi sér heim eftir  Lundúna fundinn og seldi allt í LÍ.

Hafa eins og Kaoto gamli hafði það. Svo legg ég til að ....................

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 11:03

3 identicon

Er nú ekki með hina fínni punkta varðandi sjóð 9 á hreinu. Kannski er það rétt að Glitnir hafi fiffumfaffað innan sinna reikninga vegna falls Stoða fyrir ríkisyfirtöku.
En það þarf ekki alltaf sjást á fjárlögum eða fjáraukalögum þegar gripið er til sameiginlegra fjármuna þjóðarinnar. Eftir fall bankanna og yfirtöku ríkisins á þeim keyptu nýju bankaranir bréf úr peningasjóðum hinna gömlu fyrir 200 milljarða króna. Bréf þessi voru í raun verðlítil og óseljanleg en engin umæða fór fram áður en þessi ákvörðun var tekin. Þarna er þó aldeilis verið að nota almannaeign. Þetta kemur fram í grein Sölva Tryggvasonar í DV 17. júlí sl.

Solveig (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 12:41

4 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Á þeim tíma sem stjórn Glitinis ákvað að kaupa öll bréf Stðoða út úr Sjóði 9, var búið að tilkynna um að ríkið myndi yfirtaka 75% hlutabréfa í Glitini. Það er því hálfsannleikur (eða 25% sannleikur) að Glitnir hafi verð í eigu einkaaðila á þessum tíma. Stuttu síðar var Glitnir yfirtekinn algjörlega af ríkinu og þar með lenti stærri skellur á þjóðarbúinu og minni skellur á fjárfestum í Sjóði 9.

Peningarnir sem Glitnir lagði þarna inn í Sjóð 9 komu hvorki úr engu né úr vasa eigenda (þá tilvonandi 25% eigenda) Glitnis. Peningarnir komu úr vösum allra þeirra sem fengu skellinn af falli Glitnis. Þeir koma úr vasa hinna svokölluðu kröfuhafa Gamla Glitnis, úr vasa ríkissjóðs sem leggur hinum fallna Glitni til fé til endurreisnar bankakerfisins og úr vasa allra þeirra sem þola verðbólgu með hækkaðri lánskjaravísitölu og hækkuðu vöruverði og lækkuðu atvinnustigi. Við getum ekki bent á það hvaða króna kom hvaðan, en við getum bent á það hvaða króna fór hvert, með því að benda á þá sem fengu meira út úr Sjóði 9 en ella hefði orðið.

Stóra spurningin er: Af hverju var ráðist í það að dæla fé inn í Sjóð 9? Til að bjarga hverju? Fjárfestunum í sjóðnum? Andlitum þeirra sem sátu í sjóðsstjórninni? Af hverju - af öllu því sem var að fara fndans til - átti að bjarga Sjóði 9? Illugi Gunnarsson, af hverju?

Soffía Sigurðardóttir, 10.8.2009 kl. 16:01

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Rétt hjá Solveigu. Þessi tölvupóstur er aumur kattarþvottur. Hvaða "eigin fjármuni" notaði Glitnir í kaupin á verðlausum Stoðabréfunum? Bankinn var orðinn þurrausinn af fé á þessum tíma, daginn eftir að ríkið yfirtók bankann 75%. Ríkið greip einmitt inn í af því að bankinn var kominn í greiðsluþrot.

Það hefur farið fram hjá þessum vitring sem sendi tölvupóstinn, nema hann sé að ljúga vitandi vits.

Theódór Norðkvist, 10.8.2009 kl. 16:10

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Við Soffía sendum innlegg á sama tíma og sögðum að miklu leyti sama hlutinn! Bloggið er frábært.

Theódór Norðkvist, 10.8.2009 kl. 16:11

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Bankarnir borguðu inní peningamarkaðssjóðina þar á meðal sjóð 9 sem auk þess fékk bætt tapið af FL-Group bréfunum þar sem bankinn keypti þau sérstaklega, svo borgum við fyrir endurreisn bankans og því meira sem nemur því sem Þeir settu í annað en þeim bar. Ef Landsbankinn t.d. setti 100 milljarða í peningamarkaðssjóðina þarf ríkið hærri upphæð sem því nemur til að endurfjármagna bankann auk þess sem minna endurheimtist til Icesave vegna þess að eignir bankans eru verðminni sem nemur peningatilfærslum til eins sparnaðarforms frá öðru.

Þegar sagt ert að bankinn hafi greitt í sjóðinn eða að bankinn hefi keypt bréfin en ekki ríkið er það bara útúrsnúningur þegar bankinn sjálfur er gjaldþrota og kostnaðurinn af því að endurreisa hann lendir á ríkinu.

Helgi Jóhann Hauksson, 10.8.2009 kl. 20:43

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

PS. Peningamarkaðssjóðirnir tilheyra allir innlenda hluta bankanna og því nýju bönkunum. Kostnaður af því að leggja þeim til meira fé en eignir þeirra raunverulega hrukku til  fer því allur á ríkið við endurfjármögnum bankanna. Því meira sem fór í að styrkja peningmarkaðssjóðina því verðminni eru eignir bankanna og því meira þarf ríkið að leggja þeim til - uppá krónu.

Helgi Jóhann Hauksson, 10.8.2009 kl. 20:47

9 identicon

Ætlaði reyndar líka að þakka fyrir góða pistla. Ekki vanþörf á að tala um embættismannakerfið. Þar er áreiðanlega víða innbyggð tregða sem tefur og jafnvel vinnur á móti nýrri hugmyndafræði. Með fullri virðingu fyrir því fólki sem í þeim stöðum er, það er bara mannlegt.
Þarna er smæðin til vandræða. Þó hún geti örugglega verið kostur eins og að hafa yfirlit og stuttar boðleiðir.
Hvað fjölmiðlana varðar upplifði ég um daginn nokkuð óþægilegt. Leiðari Mbl fjallaði um tengsl fjár og valds og þar var margt sem ég gat tekið undir. En vegna tengsla fjölmiðla og valds setti ég fyrirvara og fór að hugsa að eitthvað annað en heiðarleg meining lægi að baki þessara skrifa. Ferlega vont en svona er þetta.
Það er að mínu mati langt í land að maður fari að treysta aftur.
Spurning reyndar hvort það er barnaskapur að halda að hægt sé að treysta án fyrirvara. En það er nú annað mál.
Allavega, takk fyrir þitt framlag til aukins réttlætis og ekki síður fyrir að standa vörð um náttúruna og auðlindir okkar.

Solveig (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 21:38

10 identicon

Ég held að samstaðan sé "lífræn" meðal þjóðarinnar. Enginn skipulagði búsáhaldabyltinguna. Hún spratt af sjálfri sér þegar nógu margir urðu nógu reiðir. Það sama gerðist við lögbannið. Ég held að við eigum eftir að sameinast um að knýja á um réttlæti í fleiri málum. Þjóðarsálin er mögnuð, en þó hún láti bjóða sér ansi margt þá fer ekki framhjá neinum þegar henni er nóg boðið.

Ég held að þjófagengið sem setti okkur á hausinn ætti ekki að láta fara of vel um sig. Við erum ekki farin að finna mikið fyrir klúðrinu, miðað við það sem verður. Þá verður sama hvað rannsakendur reyna að draga lappirnar vegna frændsemi og/eða vinfengis. Menn geta ekki endalaust farið í grafgötur og lagaflækjur með það sem liggur í augum uppi fyrir öllum sem vilja sjá.

Nú ræða menn stundum um tortryggni í neikvæðum tón. (Líklega mest þeir sem eitthvað hafa að fela.) Ég held að hún sé ekki aðeins skiljanleg heldur okkar besta vopn í þeirri rannsókn sem nú stendur fyrir og við þurfum greinilega öll að standa vaktina og fylgjast vel með.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband