Landráð af vítaverðu gáleysi?

Magma Energy Corp.Í dag rennur út frestur sá er Magma Energy veitti ríkinu til að íhuga sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju nokkrir Reykvíkingar, Hafnfirðingar og Reyknesingar geta ekki sest niður og samið um málið sín á milli í stað þess að ganga að fráleitu kauptilboði Magma. Hafa samráð við Samkeppnisstofnun og leysa málið. Þetta eru jú allt Íslendingar fyrst og fremst og þeim ber skylda til að halda auðlindinni í þjóðareigu. Ég hef skrifað mikið um þetta mál í sumar og síminn hefur ekki stoppað hjá mér og tölvupósti rignt yfir mig. Fólk er að vakna til vitundar um hvað er að gerast þarna - og það eru skelfilegir hlutir.

Skoðanir fólks á málinu má til dæmis sjá í fréttum Eyjunnar sem hefur verið duglegt að fjalla um auðlindasöluna undanfarið. Ég bendi t.d. á þessa frétt, þessa, þessa og þessa. Og ég hvet alla til að lesa athugasemdirnar við allar þessar fréttir. Í þeim kemur ótalmargt fróðlegt fram. Flokksráð VG ályktaði um að HS Orka ætti að vera í samfélagslegri eigu, en Samfylkingin virðist ekkert skipta sér af málinu eða veita ráðherrum sínum nokkurt aðhald. Einstaklingar innan flokksins hafa tjáð sig um það, t.d. Ólína og Dofri. Að öðru leyti virðist Sigrún Elsa, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn OR, fá lítinn stuðning við sinn málflutning, a.m.k. opinberlega. 

Tveir af yngri kynslóð Samfylkingar skrifuðu hvor sína greinina um Samfylkinginmálið fyrir helgi. Magnús Orri telur að þrátt fyrir samning á ystu nöf ef ekki beinlínis ólöglegan milli Reykjanesbæjar og HS Orku, eigi ríkið ekki að stíga inn í kaup Magma og hindra söluna. Skúli Helgason skrifar bloggpistil í sama dúr og athyglisvert er að lesa athugasemdirnar við hann. Þar endurspeglast skoðun fólks á þessum gjörningi prýðilega. Skúli ber því m.a. við að ríkið eigi ekki þessa 12 milljarða sem um ræðir. Bíðum við... Hér kemur fram að það kosti 13-14 milljarða að ljúka við tónlistarhúsið. En það eru ekki til 12 milljarðar til að halda afnotum af einni gjöfulustu orkuauðlind Íslendinga í meirihlutaeigu almennings. Er ekki eitthvað öfugsnúið við þennan forgang? Má ég þá heldur biðja um að tónlistarhúsinu verði frestað og haldið verði í auðlindir okkar, þótt ekki sé nema vegna komandi kynslóða. Við höfum ekkert leyfi til að einkavæða eða selja þær frá afkomendum okkar. Samfylkingin vill selja.

Svo er mérGeysir Green Energy hugleikin sú spurning hver á Geysir Green Energy, hinn eiganda HS Orku sem mun líklega sameinast Magma ef af kaupunum verður. Hér fór ég yfir eignarhald GGE og fæ ekki betur séð en þetta sé skel utan um gjaldþrota menn og fyrirtæki, væntanlega í umsjá skilanefnda bankanna. Við vitum að margt er undarlegt við skilanefndirnar og þær virðast frekar hafa hagsmuni vina, vandamanna, klíkubræðra og samflokksmanna að leiðarljósi en hagsmuni þjóðarinnar. Hvernig í ósköpunum stendur á því að skilanefndirnar eru ekki búnar að ganga að veðum eigenda Geysis Green Energy og yfirtaka reksturinn? Hvernig í ósköpunum stendur á því að gjaldþrota auðmönnum er leyft að ráðskast með auðlindirnar okkar og selja þær til að redda sjálfum sér fyrir horn og halda í sveitasetrin, snekkjurnar og ljúfa lífið? Getur einhver svarað því? Vill einhver rannsóknaraðili svo gjöra svo vel að fara ofan í saumana á fjármálum vissra stjórnmálamanna, bæjarstjóra, forstjóra og fleira fólks sem að auðlindasölunni standa? Athuga bankareikninga þeirra hérlendis og erlendis, möguleg skúffufyrirtæki í þeirra eigu og fleira í þeim dúr? Takk fyrir.

Forstjóri Magma Energy, Ross Beaty, var í Kastljósviðtali í síðustu viku. Hann skrúfaði frá kanadíska sjarmanum, elskaði land og þjóð og vildi endilega hafa hagsmuni okkar að leiðarljósi þegar hann, og skúffufyrirtækið sem hann notar til að komast bakdyramegin inn, fengi kúlulánið hjá OR til að kaupa HS Orku. Ég var búin að lesa mér svo mikið til um manninn og málefnið að mér varð beinlínis óglatt við að hlusta á hjalið í honum. Og ég hefði viljað fá miklu gagnrýnni spurningar. Ef ég hef einhvern tíma séð úlf í sauðargæru var það þegar ég horfði og hlustaði á þetta viðtal.

Kastljós 26. ágúst 2009

 

Ég skrifaði Bréf til Beaty og flutti það á Morgunvakt Rásar 2 á föstudaginn. Vonandi hefur einhver þýtt það fyrir hann en ef það hefur farið fram hjá hinum íslensku aðstoðarmönnum hans þá bæti ég úr því hér. Ross Beaty segist nefnilega vilja kaupa auðlindirnar í sátt við íslensku þjóðina. Ekki vera í stríði við neinn. Ef aðstoðarmenn hans eru starfi sínu vaxnir þýða þeir allar athugasemdir við fréttirnar sem ég benti á hér að ofan, sem og annað sem skrifað hefur verið um málið. Hljóðskrá er viðfest neðst að venju.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ef ykkur er sama ætla ég ekki að tala til ykkar í dag. Ég ætla að ávarpa Ross Beaty, forstjóra Magma Energy, sem vill ólmur krækja í orkuauðlindirnar okkar. Hann var í viðtali í Kastljósinu í fyrrakvöld og ég fékk ofbirtu í augun frá geislabaugnum sem hann hafði fest yfir höfði sér fyrir viðtalið. En hér er bréf til Beaty.

Sæll vertu, Ross,

Þú varst flottur í Kastljósinu, maður. Tungulipur, ísmeygilegur og útsmoginn. Örugglega hafa einhverjir látið glepjast af sjarmerandi yfirborðinu og fagurgalanum. En ekki náðirðu að hrífa mig. Ég sá bara úlf í sauðargæru. Einhver virðist hafa sagt þér frá andstöðunni gegn áætlunum þínum í íslensku samfélagi. Ummæli þín um að þú hafir heillast af Íslandi frá fyrstu sýn voru afar ósannfærandi. Haft er eftir þér í viðtölum erlendis að þú njótir þess að skapa auð fyrir þig og hluthafana þína. Að þú farir fram úr á morgnana til að græða. Vertu bara ærlegur og segðu eins og er: að þú hafir heillast af gróðamöguleikum auðlindanna á Íslandi. Það væri bæði heiðarlegra og sannara.

Yfirlýsingar þínar um jarðhitaorku í ýmsum viðtölum eru alveg ótrúlegar. Sem jarðfræðingur áttu til dæmis að vita, að jarðvarmi er ekki endalaus og eilífur eins og þú segir í einu viðtalinu og nú hef ég eftir þér í lauslegri þýðingu: "...Ég held að jarðvarmi sé eitt besta svarið við orkuskortinum. Hann er hreinasta form orku, ódýrasta, hann er stöðugur og forðinn er ókeypis... Þetta er bara ofboðslega frábær bissness. Jarðvarminn er eilífur og tiltækur víða í heiminum." Ross þó! Maður með jarðfræðimenntun á að vita að endurnýjanleikinn er háður jarðfræðilegri óvissu og endingin fer eftir því hve mikið og hratt auðlindin er nýtt. Og af því þú lifir fyrir að gera sjálfan þig og vini þína ríka, áttu líka að vita að enginn verður ríkur á að nýta orkuna eins og á að gera - skynsamlega.

Einn af okkar fremstu jarðvísindamönnum, Stefán Arnórsson, sagði í útvarpsviðtali fyrir nokkru að tvö sjónarmið væru ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi. Þetta sagði Stefán. Kjarni málsins er siðferði, Ross, og við vitum að græðgina skortir allt siðferði.

Þú ert ekki kominn til Íslands til að vera eins og þú sagðir í Kastljósi. Þú vinnur ekki þannig. Þú ert hingað kominn til að gera viðskiptasamning sem tryggir þér afnot af verðmætri auðlind til 130 ára. Þú ætlar að búa til söluvarning - eftirsóknarvert viðskiptamódel - selja svo hæstbjóðanda og græða feitt. Kannski selurðu Kínverjunum sem keyptu námurnar þínar, hver veit? Mér þætti líka fróðlegt að vita hvort það er tilviljun að þú hefur verið með námur í ýmsum löndum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið að væflast.

Nei, ég hreifst ekki af hjali þínu í Kastljósi og bið þig lengst allra orða að hverfa af landi brott tómhentur sem allra fyrst. Hér mun aldrei ríkja friður um auðlindakaup þín. Við Íslendingar höfum fengið meira en nóg af spákaupmönnum og gróðapungum og græðgi þeirra.

Vertu blessaður.

**********************
Nokkrir pistlar um málið:
Hugleiðingar um einkavæðingu - áríðandi skilaboð
Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?
VARÚÐ - Nýtt REI-mál í uppsiglingu
Svikamyllan á Suðurnesjum

Hin fallna þjóð og afsal auðlinda
Fjöregginu fórnað
Auðlindir á tombólu
"Þetta snýst allt um auðlindir"
Salan á auðlindum Íslendinga er hafin
Hafa ráðamenn ekkert lært?
Stórslys í uppsiglingu á Suðurnesjum

Agnar Kristján:
Einka(vina?)væðing HS
Skuggaverk á Suðurnesjum I
Skuggaverk á Suðurnesjum II
Spurningar varðandi tilboð Magma og ársreikning HS

Alda Sigmundsdóttir:
While we're looking the other way...
More on that ludicrous Magma HS Orka deal
Magma Energy and the second coming

Ótal pistlar hjá Hannesi Friðrikssyni

Ég stóðst ekki mátið að hafa orðið landráð í fyrirsögn þessa pistils, þótt það sé mér ekki tamt í munni, vegna þessarar bloggfærslu Egils Helga og athugasemdanna þar. Mér finnst enda kominn tími til að skilgreina þetta orð og hvað það raunverulega merkir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Held að þetta sé fyrsta "verðbréfafyrirtækið" sem fær starfsleyfi eftir hrunið mikla.

19.08.2009

Fjármálaeftirlitið veitir Capacent Glacier hf. starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki

Fjármálaeftirlitið hefur veitt Capacent Glacier hf., kt. 560209-0530, Borgartúni 27, 105 Reykjavík, starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki, samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Starfsleyfi Capacent Glacier hf. tekur til viðskipta og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti sem felst í fjárfestingarráðgjöf skv. tölulið 6 d og umsjón með útboði verðbréfa án sölutryggingar skv. tölulið 6 f í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Capacent Glacier hf. hyggst að auki stunda starfsemi á grundvelli e og g liðar 1. tl. og c og f liðar  2. tl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 31.8.2009 kl. 05:08

2 identicon

Blaða og fréttafólk ætti að skammast sín þegar það les pistlana þína.  Þú skrifar fréttir, þau ... ja, þeirra vinna með sínum tele-prompterum og lestri á fréttatilkynningum PR stjóra og hagsmunasamtaka er meira í ætt við leiklist.

Georg O. Well (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 08:21

3 identicon

Algerlega sammála þér með viðtalið við Ross Beaty. Fagurgalinn var þvílíkur að mér fannst ansi augljóst að hann vildi slá ryk í augu fólks. 

Mér finnst skelfilegt hvað ríkisstjórnin er liðlaus í þessu máli. Hvar er Katrín Júlíusdóttir ... og Svandís? 

Sólveig (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 09:59

4 identicon

Góður pistill hjá þér Lára Hanna. Ég sá Ross Beaty einnig í umræddu sjónvarpsviðtali og fékk sömu tilfinningu og þú ert að tala um. Þessi náungi ber ekki hag lands og þjóðar fyrir brjósti að sjálfsögðu! þetta er gróðrarbraskari og ekkert annað og sá sér færi um leið og allt hrundi hér. Sá sér færi á að græða á óförum annarra. Hrægammar hegða sér svona.  Það þyrfti að setja lög um að svona gjörningar séu bannaðir með öllu. Það er hrikalegt að hugsa til þess að fáeinir einstaklingar hugsi ekki lengra en nefið nær og geti keypt og selt óhindrað þær auðlindir sem landið býr yfir. Ef þetta viðgengst þá töpum við öllu áður en við vitum. Það er ótrúlegt hvað ráðamenn eru sofandi gagnvart þessu, og þó...þeir virðast vera sofandi gagnvart svo mörgu.

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 10:10

5 Smámynd: Sævar Einarsson

Takk fyrir þennan pistill Lára ! þú stendur þig 1000% betur en þeir sem "skrifa" fréttir um þetta, það er copy paste fréttamennska hjá þeim, ekki nenna þeir að vinna vinnuna sína, það er nokkuð ljóst.

Sævar Einarsson, 31.8.2009 kl. 10:29

6 identicon

Ég googlaði manninn og er sammála þessu.  Hann minnir mikið útrásarvíkingana okkar.

Hekla (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 11:19

7 Smámynd: Baldvin Jónsson

Allar hugleiðingar um að það séu ekki til peningar til að kaupa hlutinn eru einfaldlega fáránlegar!!  Magma Energy á ekki heldur peninga, heldur á OR að lána þeim fyrir kaupunum.

Væri ekki heldur ráð að OR lánaði bara Almenningi ehf. fyrir kaupunum?

Samfylkingin hefur staðið sig hræðilega í þessu máli og það er ég viss um að vinur minn Ómar Ragnarsson og félagarnir úr Íslandshreyfingunni sem gengu þar inn, séu að upplifa núna stórkostleg svik við fyrri yfirlýsingar Samfylkingarinnar um umhverfismálin.

Baldvin Jónsson, 31.8.2009 kl. 11:50

8 identicon

Við byggjum upp velferðarkerfi og borgum skuldir með jöfnum tekjum af auðlindum okkar.

Einskiptis brunaútsala vegna lausafjárskorts og fjármálaóreiðu er eins og að pissa í skóinn sinn.

Hvað gera VG?  Á endalaust að fylgja endurreisnaráætlun Geirs og Sollu?  Til hvers voru þá stjórnarskipti?

TH (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 12:10

9 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Líkt og Geysir Green þarf Magma Energy að reka og eiga Orkufyrirtæki sem nýtir jarðvarma til að teljast gjaldgengir við kaup og rekstur slíkra fyrirtækja í þriðja heims löndum. Með því að eiga góðan hlut í HS-Orku uppfylla þeir þau skilyrði. Um þetta snýst málið en ekki hag íslensks almennings.

Ómar Bjarki Smárason, 31.8.2009 kl. 12:16

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú þarft engan að biðja afsökunar Lára Hanna. Landráð eru landráð og einu gildir þó reynt sé að finna eitthvað fínna nafn. Það er kominn tími til að tala umbúðalaust um viðskiptasiðferðið á Íslandi.

Árni Gunnarsson, 31.8.2009 kl. 12:31

11 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Augljóslega "crisis profiter", eitt það ógeðfeldasta sem andar, svona hrægammar sjá endalaus tækifæri fyrir gírugar krumlur sínar þegar fólk og þjóðir lenda í hremmingum.

Georg P Sveinbjörnsson, 31.8.2009 kl. 13:12

12 identicon

Hitaveita Suðurnesja.

Orkuveita Reykjavíkur.

Ég held að menn ættu að byrja að að rifja upp upprunaleg nöfn þessara fyrirbæra og hvað þau segja um það í eigu hverra þau raunverulega eru. Íbúanna. Hvernig voga menn sér að láta eins og þau séu í einkaeigu?

Ég er brjáluð í dag. Eins og allir sem gera sér grein fyrir því hvað er um að vera.

Skítt með Icesave.

Þetta er mikilvægt til miklu lengri framtíðar.

Ef þetta gengur í gegn verðum við að fara að gera alvarlegar tilraunir með sólarorku, sjávarfallavirkjanir og vindmyllur. Það má aldrei verða að íslenskur almenningur neyðist til að versla við þessa glæpamenn.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 13:19

13 identicon

Takk kærlega fyrir thennan pisil.  En sjalf verd eg ad vidurkenna ad eg er grati næst yfir skammsyni rikistjórnarinnar í þessu máli. Var ad lesa frett a mbl.is um ad rikisstjornin komi ekki med tilbod i hlut OR.   Thad er huggun i thvi ad lesa bloggid thitt, og lesa ad thad er folk med viti a Islandi i dag, en svo virdist sem ad engum stjornmalaflokki se treystandi til thess ad halda audlindunum i almanna eigu. Fagurgali fra Steingrimi i frettum sidustu daga gaf von um ad rikisstjornin myndi reyna ad stödva thetta, enn NEI, thad er ekki stadid vid neitt. 

 Afstada samfylkingarinnar, fravera forsætisráðherra, iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra er óskyljanleg.  Ég helt að a.m.k Umhverfisráðherra frá VG myndi taka mun meiri þátt í umræðunni og þrísta á að VG myndi ná í gegn að þessi sala til Magma yrði ekki að veruleika. Enn Nei, ekkert að heyra þaðan.

 Íslendingar eru að selja frá sér vit og virðingu með þessari sölu, það hefur greinilega ekkert breyst eftir hrunið. Spillingin heldur áfram, nánast verri enn hún var.

Þetta mál núna er búið að vinna hroðalega illa og OR látið Magma stjórna ferlinu nánast alfarið. Þessi 10 daga frestur var í raun bara grín, allt of lítill tími til þess að koma þessu máli farsællega í höfn fyrir þjóðina.  Það þarf  mikið af upplýsingum að koma fram til almennings til þess að fólk geri sér grein fyrir mikilvægi þess að auðlindirnar séu í almanna eigu, í dag áttar fólk sig greinilega ekki á þessu. 

Við erum í raun sannkallað þróunarland í dag þar sem spillingin, græðgin, klíkan og óupplýstur almenningur er daglegt brauð. Þar sem auðlindirnar eru seldar lægst bjóðenda. Verra getur ástandið ekki orðið.

Thorhildur Fjola Kristjansdottir (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 15:01

14 Smámynd: GG

Þetta er stormur í vatnsglasi.

GG, 31.8.2009 kl. 17:12

15 identicon

Þú ættir að stofna netsjónvarpsstöð þar sem maður getur séð svona fréttir.Þú átt skilið fréttamannaverlaun fyrir svona verk eins og þetta hér.

Þegar maður segir fréttir þá verður maður að kafa eftir fréttinni eins og þú gerir, ekki bara lesa það nýjasta sem liggur á yfirborðinu.Takk fyrir mig.

Fjölnir M

Fjölnir baldursson (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 17:45

16 Smámynd: AK-72

Bendi á að þar sem þessi svívirða hefur verið samþykkt að ekki er enn von öll úti. Samningurinn þarf að vera samþykktur af eigendum OR, þ.e. af borgarstjórn og bæjarstjórnum(Akranes og Borgarbyggð). Ef við sem eigum heima í þessum sveitarfélögum leggjumst öll á árarnar og skrifum bréf, mótmælum og látum í okkur heyra þannig að þeim verði það ljóst að þetta sé óhæfusamningur til handa óreiðumönnum, þá er hægt að stöðva þetta.

Einnig hvet ég alla til að skrifa til þingmanna og ráðherrra og krefjast að þeri grípi inn í og sjái til þess að orkufyrirtæki verði ekki í ienkaeign með öllum mögulegum ráðum s.s. þjónýtingu. Þetta má alls ekki gerast að auðlndir okkar séu settar í hendur innlendra og erlendra fjárglæframanna.

AK-72, 31.8.2009 kl. 19:21

17 identicon

Eitt sinn stóð ég niður við Ráhús Reykjavíkur og reyndi að aftra undirskrift Ingibjargar Sólrúnar fyrir hönd Rvk.borgar vegna starfsleyfis til Landsvirkjunar vegna Kárahnúkavirkjunar - þar voru margir aðrir - og við kölluðum "Segðu nei, Solla" en hún hlustaði ekki á okkur -eitt af þeim pólitísku feilsporum sem á endanum felldu hana.

Í dag sjáum við fram á annað feilspor, pólitískt jafnt og efnahagslegt, og hvern getum við ákallað til að þetta verði ekki? Borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórnir Akraness og Borgabyggðar hafa nú úrslitavaldið - getum við kallað til þeirra að samþykkja ekki - "Segðu nei, Hanna Birna" - "Segið nei, samvisku ykkar vegna" - Látum ákallið hljóma! Bréf, mótmælastaða, samtöl við áhrifafólk - í guðanna bænum látum í okkur heyra!

Harpa Björnsdóttir (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 20:22

18 Smámynd: AK-72

Eitt hér sem þið getið gert, það hefur verið stofnaður Facebook-hópur fólks sem vill kaupa HS-Orku til að halda því í eigu almennings fremur en braskara. Ef þið viljið slást í þann hóp þá má finna hann hér:

http://www.facebook.com/home.php?ref=logo#/group.php?gid=123082401486&ref=nf

AK-72, 31.8.2009 kl. 20:31

19 identicon

Takk fyrir góðan pistil!

Landráð eru þetta en varla af vítaverðu gáleysi.

Það þyrfti að rannsaka hverjum var mútað í þessu máli.

HF (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 21:02

20 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Af hverju eru alltaf drottningarviðtöl við glæpakóngana? Hvað varð um málstað fórnarlambana? Skiptir orðið engu máli að ræða umdeild mál frá báðum hliðum? Brotaviljinn gegn íslenskum hagsmunum verður alltaf berari og berari. Drottningarviðtöl af þessu tagi eru einn vitnisburðurinn um það. Hann kemur þó enn betur fram dæminu sem þú tekur, Lára Hanna, tónlistarhús við Reykjavíkurhöfn er látið ganga fyrir orkuauðlind sem erlendur glæpamaður hefur fengið augastað á...

Hver hefur efni á að fara á tónleika þegar hann er nær sligaður af þeim álögum sem þessi forgangsröðun þýðir. Verður kannski ókeypis aðgangur að tónleikum hið nýja ópíum fyrir fólkið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.8.2009 kl. 21:54

21 Smámynd: AK-72

Ég var aðeins að lesa bloggið hans Dofra Hermanns sem er líklegast einn af örfáum Samfylkingarmönnum sem er að fetta fingur út í þetta ásamt Sigrúnu Elsu. Þar kemur eitt athyglisvert fram:

"Samkvæmt umsögn Fjármálastjóra Reykjavíkurborgar um útreikning á núvirðingu sem lögð var fram íborgarráði 26. ágúst sl. samsvarar tilboðið sem fyrir liggur genginu 4,93 sé miðað við 10% ávöxtunarkröfu. Í þeim útreikningum hefur verið tekið tillit til væntrar álverðshækkunar en skuldabréfið er tengt álverði að hluta. Sé ekki gengið útfrá hækkun álverðs samsvarar tilboðið enn lægra gengi eða 4,4 mv. 10% ávöxtunarkröfu.

Miðað við þessar forsendur tapar því OR 5-6 milljörðum á viðskiptunum."

AK-72, 31.8.2009 kl. 23:58

22 identicon

Lára Hanna þú ert 'MÖGNUÐ'.

Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds að sjá að ríkissjónvarpið er sífellt við sama heygarðshornið.

Það eru ALLTAF gróðabraskarar sem fá þessa líka fínu auglýsingu þegar landsmenn eru sem flestir fyrir framan skjáinn.

Hver man ekki eftir Kára sem var duglegur við að selja okkur genin okkar. (Hann sést ekki mikið þessa dagana).

Þess á milli er sýniþörf okkar virkjuð með sögum um ófarir þeirra sem lenda í greiðsluörðugleikum og fá ekki rönd við reist.

Er virkilega enginn tilbúinn að mæta í þessa þætti og andmæla þessum einstaklingum sem ætla að kaupa landið?

Það verður að fara að hreinsa til á Bláskjá! Þyrfti að búsáhaldaberja þá í burtu sem sitja sem fastast í Fréttum og Kastljósinu (Öðru nafni ókeypis vörutorg fyrir braskara).

Kannski þarf að safna undirskriftalista til að taka þetta fólk ÚT í eitt skipti fyrir öll.

Halló...stjórnar sjálfstæðisflokkurinn ennþá á bak við tjöldin?

Hver réði þetta fólk? Hvar er sanngirnin og réttlætiskenndin?

Ragnheiður (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 01:06

23 identicon

Sæl Lára,

Eins og þú þá hef ég skoðað þetta Magma / OR mál.  Í framhaldi af þeim fréttum í gær að OR hafi gengið að kauptilboði Magma í hlut OR í HS Orku og 95% hlut Hfj í gegnum OR í sama fyrirtæki.  Ég vil ekki taka svo sterkt til máls að kalla svona gjörninga landráð, heldur vanhæfi stjórnenda opinberra fyrirtækja.

Miðað við það sem fram hefur komið í fjölmiðlum varðandi efni sölusamnings OR til Magma má draga saman þessa niðurstöðu um áhrif hans á rekstur OR.  Það skal tekið fram að ég er ekki endurskoðandi, en það væri fróðlegt að fá álit endurskoðanda með þekkingu á uppgjörsreglum orkufyrirtækja.

Beint sölutap OR af þessum samningi er lauslega áætlað 4,211 milljarðar.  Inn í þeirri upphæð er sölutap upp á 743 milljónir vegna kaupa OR og framsals á hlutum Hafnarfjarðarbæjar (95% hlutur þeirra í HS Orku).

Vaxtaberandi skuldir OR bera allt að 9.325% vexti á ári (sjá árshluta uppjör þeirra 30.06.2009).  Miðað við þá vaxtabirgði félagsins má áætla að nettó vaxtakostnaður OR á hverju ári vegna láns á 70% kaupverðsins sé 657 milljónir á ári, eða 4,601 milljarður næstu 7 árin.  OR er mjög skuldsett félag og þar sem kaupverðið er að meirihluta lánað þá getur OR ekki greitt niður aðrar skuldir sínar á móti, eru í raun að taka lán til að lána Magma, ergo netto vaxtakostnaður OR næstu 7 árin 4,601 milljarður.

Heildartap OR á sölu hlut sínum í HS Orku er því varlega áætlað 8,813 milljarðar króna eða 54% af heildarverðmæti hlutanna beggja (bókfærtverð hlutanna beggja er 16,211 milljarðar en söluverðið er sagt vera 12 milljarðar).

Gengisáhætta OR af 8,4 milljarða (ca 66.9 milljónir USD) láni til Magma er eftirfarandi:  Ef gengi íslensku krónunar styrkist um 10% gegn US dollar, þá þýðir það tap upp á 840 milljónir.  Ef krónan styrkist um 20% er upphæðin 1,680 milljarðar.  Það skal tekið fram að mjög miklar líkur eru á því að gengi krónunar styrkist næstu 7 árin, út á það miðar efnhagsáætlun ríkisins og IMF.

Ég óska eftir því að stjórn OR og/eða fulltrúar eigenda félagsins (borgarfulltrúar) leiðrétti mína útreikninga ef þeir eru rangir, en svona lítur málið út miðað við þær fréttir sem stjórn OR hefur gefið út vegna þessarar sölu.

Ég spyr, ef útreikningar mínir eru réttir, eru hagsmunir eigenda OR borgið með sölu hlutabréfanna til Magma Energy núna, heildartap upp á 8,813 milljarð króna auk hugsanlegs gengistap ef krónan styrkist?

Að lokum vil ég benda á að óbeint eignarhald OR í HS Orku vegna veðs í hlutabréfunum er 22%.  Samræmist það kröfu Samkeppnisstofnunar um að OR megi ekki eiga meira en 10% í félaginu?  Er samningurinn því ekki brot á úrskurði Samkeppnisstofnunar og þar með ólögmætur?  Hvernig hyggst stjórn OR tryggja að veðið rýrni ekki í virði?

Almenningur á Íslandi á rétt á því að efni sölusamningins OR til Magma Energy sé gert opinbert og hlutlaus úttekt á heildarkostnaði af honum verði einnig gerð opinber.  Það er búið að leggja alltof miklar byrðar á þjóðina vegna "díla" sem gerðir eru í skjóli viðskipta- og bankaleyndar.  Opinber fyrirtæki eiga ekki að starfa í skjóli viðskiptaleynda, þetta eru fyrirtæki í eigu almennings.

Birgir Gislason (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 18:47

24 Smámynd: Baldvin Jónsson

Biðst velvirðingar Birgir Gíslason, en ég ætla að fá að afrita þennan texta og birta hann. Þetta er of magnað til þess að senda ekki áfram.

Baldvin Jónsson, 2.9.2009 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband