Skelfilegt sinnuleysi

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég veit ekki lengur mitt rjúkandi ráð. Hvernig er hægt að vekja mína ástkæru þjóð af  Þyrnirósarsvefninum? Hvernig er hægt að beina athygli fólks að því, hvernig verið er að fara með landið okkar, auðlindirnar og okkur sjálf - fólkið sem byggir þetta harðbýla en yndislega land? Er fólki virkilega sama? Ég vil ekki trúa því.

Hve margir horfðu á myndina í sjónvarpinu í fyrrakvöld - Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls? En hve margir horfðu á myndina Einkavæðing og afleiðingar hennar sem sýnd var á RÚV í lok maí? Innihald þessara mynda passar bara vel við það sem er að gerast á Íslandi.

Ég fæ orðið klígju þegar alls konar spekingar nefna sem lausn á vanda þjóðarinnar: "... að við eigum svo miklar auðlindir". Við þurfum bara að nýta þær og þá er allur okkar vandi leystur. Auðlindum sjávar sé svo vel stjórnað og orkuauðlindirnar endurnýjanlegar og tandurhreinar. Þetta er blekking og þeir sem vita betur hafa ítrekað reynt að koma því á framfæri.

Fiskurinn í sjónum er bókfærð eign kvótakónga og veðsettur upp í rjáfur í erlendum bönkum af því strákana langaði svo að leika sér og kaupa einkaþotur, þyrlur og annan lúxus. Afganginn geyma þeir á leynireikningum í útlöndum og við borgum skuldirnar þeirra. Þó að ákvæði sé í lögum eða stjórnarskrá um að þjóðin eigi auðlindir sjávar er nákvæmlega ekkert að marka það. Nú eru þær í eigu erlendra banka eða erlendra kröfuhafa bankanna. Merkilegt að strákarnir skuli samt fá að halda kvótanum.

Orkuauðlindirnar - sem eru hvorki endurnýjanlegar né tandurhreinar eins og reynt er að telja þjóðinni og útlendingum trú um - er verið að einkavæða og selja frá þjóðinni fyrir slikk. Engu að síður er vitað að verðmæti þeirra getur ekki annað en aukist næstu ár og áratugi. Arðurinn af þeim fer úr landi og almenningur ber æ þyngri byrðar fyrir vikið. Hér á líka við að eignarhald þjóðarinnar á pappírunum er einskis virði ef nýtingarréttur og yfirráð eru í höndum einkaaðila.

John Perkins, fyrrverandi efnahagsböðull og aðalpersóna myndarinnar í fyrrakvöld, varaði okkur við. Hann sagði að þetta snerist allt um auðlindir. Hann sagði líka þetta: "Andstaðan verður að koma frá fólkinu. Við getum ekki búist við að leiðtogarnir búi yfir kjarki eða getu til að koma á breytingum nema við, fólkið, krefjumst þess. Hér á Íslandi verðið þið Íslendingar að krefjast þess að þið eigið auðlindirnar. Þetta er landið ykkar. Þið búið í því. Forfeður ykkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Þið megið ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna ykkur svona. En það verður að koma frá ykkur." Sagði John Perkins.

Á þriðjudaginn fór fram auðlindasala í Ráðhúsi Reykjavíkur í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Það var rækilega auglýst í fjölmiðlum og á Netinu. Þegar mest var voru á annað hundrað manns að mótmæla auðlindasölunni. Hvenær gerir fólk sér grein fyrir því, að verið er að selja Ísland, éta okkur með húð og hári - beint fyrir framan nefið á okkur?

Sinnuleysi Íslendinga er skelfilegt.

**********************************************

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég orðin meira rugluð á öllu þessu,skil ekki fyrir hvað hver einstakur stjórnmálaflokkur stendur. Getum við ekki gleymt því liðna,(sem miður fór),byggt upp öflugan flokk,,,,, þetta er að verða of hátíðlegt,en er veik von.

Helga Kristjánsdóttir, 19.9.2009 kl. 12:58

2 identicon

Ágætur pistill. En hvað kemur þér svona á óvart? 90% kjósenda, eftir að hafa séð landið sitt rænt mannorði og peningum, sögðu já takk, meira af sama í síðustu kosningum. Skv. síðustu skoðanakönnun er FLokkurinn með yfir 30% fylgi. Já takk, meira af sama.

sr (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 13:02

3 identicon

Sæl Lára Hanna,

mér er minnistætt atvik í sjónvarpinu, sem ég held að hafi verið í aðdraganda kosninganna 2007. Þar var Ómar Ragnarsson ásamt öðrum frambjóðendum í sjónvarpssal og fór með kvæði sem tók á Kárahnjúkavirkjun og öðrum virkjanahugleiðingum. Kvæðið man ég ekki alveg en það endaði einhvern veginn svona: "og er ykkur öllum bara alveg andsk.... sama!"

Þeir sem sátu í kringum hann, frambjóðendur sem sjónvarpsfólk, horfðu á hann smá stund, eins og þau vissu ekki alveg hvernig þau ættu að bregðast við. Skautað var áfram í eitthvað annað, og maður fékk á tilfinninguna af viðbrögðunum að þarna væri maður (Ómar Ragnarsson) sem gengi ekki alveg heill til skógar, það var þaggað niður í málflutningi hans, eða svo fannst mér.

Ég vaknaði á þessum tíma til meiri vitundar um hvað hafði verið í gangi hér misserin á undan, en ég var þá nýlega flutt heim aftur eftir 9 ára búsetu erlendis og hafði mikið til hætt að fylgjast með framgangi mála á Íslandi. Svo fór að ég kaus Íslandshreyfinguna og var verulega svekkt þegar hún kom ekki manni inn á þing. Enn svekktari var ég þegar hún gekk til liðs við Samfylkinguna, Íslandshreyfingin var eina stjórnmálahreyfingin þar sem umhverfismál voru númer 1, 2 og 3!

Lára Hanna, ég er þér svo hjartanlega sammála þegar þú spyrð hér í pistli þínum hversu lengi Íslendingar ætli að horfa upp á eyðileggingu lands og spillingu í stjórnmálum og viðskiptum án þess að hreyfa við mótmælum. Við skulum þó vona að ekki þurfi að ganga svo langt að regnvatnið verði einkavætt, eins og raunin var í Bólivíu, áður en fólk stendur upp gegn þessu. Hins vegar verð ég því miður að segja að það kæmi mér ekki á óvart þó að það þyrfti til.

Nafnleysa (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 13:22

4 identicon

Auðlindasalan fór fram í boði fjórflokksins.

Þetta er sjónarspil.  Þessi svívirðilega landsala var ekki eingöngu í boði þessarra tveggja flokka sem þú minnist á. 

Þessi söluferill er fjölmörg skref. Ríkisstjórnarflokkarnir hefðu hæglega getað stöðvað þennan feril á viðkvæmum stigum. En þeir gerðu það ekki.

Því fyrr sem "fólkið" áttar sig á þessu því betra. 

Þú veltir fyrir þér sinnuleysi fólks.

Hvernig tók Lögreglustjórinn í Reykjavík með umboði Rögnu  Árnadóttur dómsmálaráðherra  á borgaranum sem henti klósetpappírsrúllu að ræðumanni í Ráðhúsinu ?

"Og í kjölfarið fylgu fimm fílefldir lögreglumenn til að aðstoða hina þrjá við að snúa einn mann niður".  (Af bloggsíðu Heiðu B. Heiðars).

Hver voru skilaboðin í raun ?: Ekki "anda á" ákvarðanir félaga fjórflokksins - eða trufla orðræðuna - Annars hefurðu verra af !

Fólkið er óttaslegið við þetta lögregluofbeldi sem það fær framan í sig ef það andmælir.

Ræðumönnum (Borgarfulltrúum) finnst eðlilegt og sanngjarnt að móðga viðstadda með skilaboðum sínum, en ef áhorfandi sýnir í verki andúð sína (henda pappírsrúllu) er ráðist á hann og hann borinn burt með valdi - og niðurlægður.

Þetta er einmitt hluti af þeirri "stýringu" sem hér er við lýði.  Hún er úthugsuð og byggir að grunni til á samvinnu og samráði fjórflokksins.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 13:32

5 identicon

Og fyrir þá sem vilja vera "sinnaðir" og eru að spekúlera í peningakerfinu og takmörkunum þess; Zeitgeist: Addendum verður endursýnd í Ríkissjónvarpinu núna kl. 15.

Margt afar merkilegt í þeirri mynd.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 14:15

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Lára Hanna:

Það hlýtur nú að vera hjálp í því að VG ráði yfir menntamálaráðuneytinu og þar með RÚV. Hver áróðurs heimildarmyndin rekur aðra, sem styður stefnu umhverfissinna og að auki leggja erlendir visthagfræðingar undir sig bæði fréttir RÚV, Kastljósið og Silfur Egils. Páll og Egill þora ekki öðru en að hlýða skipunum, sem auðsjáanlega berast úr menntamálaráðuneytinu um hverjum skuli boðið í þætti sjónvarpsins eða hvað skuli fjallað um í fréttatímum sjónvarpsins og útvarpsins.

Vinstri heilaþvottur fréttamanna RÚV, sem viðgengist hefur um árabil hefur stóraukist eftir að félagshyggjuríkisstjórnin tók við. Það sem er einkennilegast er að Alþýðusamband Íslands hlýðir ekki vinstri mönnum og leggst á sveif með Samtökum atvinnulífsins. BSRB hlýðir formanni sínum, þótt hann sé í leyfi, og tekur við skipunum úr heilbrigðisráðuneytinu. Ekkert heyrist frá Kennarasambandi Íslands eða BHM enda hefur öllum þessum samtökum verið stýrt af völdum vinstri mönnum um áratuga skeið. Ég veit því ekki hvaða væl þetta er.

Við sjálfstæðismenn getum ekkert að því gert að þjóðin vilji sjá framkvæmdir í orkufrekum iðnaði og hafi skipt um skoðun frá því fyrir ári síðan. Ég segi bara loksins er þjóðin komin með jarðsamband! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.9.2009 kl. 14:26

7 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Þú ferð einfaldlega með rangt mál þegar þú fjasar um mál HS Orku. Auðlyndinrnar voru í eigu HS Orku og Reykjanesbær keypti þær af fyrirtækinu til þess að eignin á auðlyndunum væri í opinberri eigu en seldist ekki til fjárfesta með fyrirtækinu. Fyrirtækið hefði ekkert þurft að selja landið til Reykjanesbæjar og hefði ekki gert það ef leigan á auðlyndunum hefði verið óhófleg. Sömuleiðis hefði ekkert fyrirtæki verið tilbúið til þess að koma með lífsnauðsynlegt fjármagn inn í fyrirtækið nema leigutíminn væri nýttur samkvæmt lögum því hagnaður/arður lítill nema til langs tíma vegna fjárfrekra fjárfestinga.

Ég held að ef þú viljir hjálpa til við að vekja fólk ættirðu að vekja fólk til athafna til bjargar heimilum og litlum fyrirtækjum sem uppáhalds stjórnin þín er að drepa með aðgerðarleysi.Sömuleiðis hvernig stjórnvöld koma beinlínis í veg fyrir hraðari uppbyggingu með ómarkvissum móttökum og ruglingslegum skilaboðum til erlendra fjárfesta. Síðast en ekki síst lélegrar PR vinnu stjórnvalda gagnvart útlendum fjölmiðlum. Þar er þjóðin að sofa þyrnirósarsvefni.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 19.9.2009 kl. 15:11

8 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það hafa engar íslenskar auðlindir verið seldar einkaaðilum.  Aftur á móti er einkaaðilum leigður afnotaréttur að auðlindum, sem hægt er að afturkalla hvenær sem er.  Núverandi ríkisstjórn gerði svokallaðan "Stöðuleikasáttmála" við aðila vinnumarkaðarins í sumar og þá átti að fara í miklar framkvæmdir til að auka atvinnu.  En síðan hefur ríkisstjórnin ekkert gert nema að þvælast fyrir að hægt væri að fara í framkvæmdir.  Það hafa fjöldi erlendra fjárfesta lýst yfir áhuga á að fjárfesta á Íslandi fyrir marga milljarða, en allt stoppar þetta á ríkisstjórninni, sem virðist alveg sátt við ástandið eins og það er í dag.  þú segir að orkuauðlindir okkar séu ekki endurnýjanlegar.  Hvílíkt andskotans kjaftæði, heitt vatn endurnýjast alltaf með hitanum sem er í iðrum jarðar og fallvötnin endurnýjast með rigningunni.

Jakob Falur Kristinsson, 19.9.2009 kl. 18:12

9 identicon

Gunnar Guðbjörnsson: Þú virðist loka augunum fyrir þeirri augljósu staðreynd að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem olli hruninu. Ég spyr: Hvernig er það hægt þegar staðreyndirnar blasa við allstaðar frá? Er siðleysið svona mikið eða er það sjálfsblekkingin sem ræður þarna för? Segðu okkur.

disa (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 23:18

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jakob Falur:  Þú hefur einfaldlega hrapalega rangt fyrir þér um endingu jarðorku. Lestu þig betur til um málið. og sparaðu þér stóru orðin. Borholur kólna og vatnsæðakerfin eyðast. Það er nefnilga svo merkilegt, að það tekur talsverðan tíma fyrir vatn að síga í gegnum berg og á hverjum degi er verið að bora og leita nýrra svæða. Ekki til að bæta við, heldur til að finna staðgengil þess sem fyrir er. Það er ekkert sjálfsagt að finna slíkt, enda væri ekki eytt milljörðum í leit að öðrum kosti. Ísland er ekki endalaus uppspretta orku og þolir ekki ótakmarkað álag. Ef þú ætlar að slá um þig einhverri heimatilbúinni sérfræði, þá bendi ég á leitarvélina GOOGLE. Ágætt að spyrja hana áður en maður ýtit á "senda" og gerir sig að kjána.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.9.2009 kl. 23:45

11 identicon

Ég er svo sammála þér Lára Hanna. Ég trúi því ekki að Íslendingar átti sig á því sem er að gerast í auðlindamálum. Þjóðin þarf að vakna af Þyrnirósarsvefni og mæta aftur niður á Austurvöll. Við þurfum að láta undiskriftarlista fara af stað og standa á okkar rétti. Þjóðin er á þessari stundu uppgefin eftir allt sem hefur gengið á síðustu mánuðina og árið. Ég fór á Austurvöll í fyrra og fann fyrir létti eftir hvern fund. Létti vegna þess að ég væri að gera eitthvað í málunum. og ég veit að upplifun manna var yfirleitt sú samal Til þess að losna við þennan doða sem þjóðin virðist upplifa þessa dagana þurfum við að mæta niður á Austurvöll aftur á laugardögum og sýna öllum flokkum að við Ísleningar, kjósendur, séum sýnileg stærð sem ekki sé hægt að svíkja og pretta. Við látum ekki ljúga einhverri vitleysu að okkur.

Auður Inga Einarsdóttir (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband