1.10.2009
Svikamyllan á Suðurnesjum
Það er hreint með ólíkindum að hlusta á málflutning Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, þessa dagana og vikurnar. Hann slær um sig með stórkarlalegum yfirlýsingum um fyrirhugað álver í Helguvík, framkvæmdaleyfi, útboð og fleira án þess að nokkur innistæða sé fyrir kokhreystinni. Það vantar bara upp á að sjá hann með skóflu í hönd að taka fyrstu stunguna með glott á vör.
Staðreyndin er nefnilega sú að lausir endar eru enn svo margir og svo gríðarlega mikilvægir, að það er fullkomið ábyrgðarleysi og sóun á skattpeningum íbúa Reykjanesbæjar og Garðs að stinga skóflu í svörð eins og staðan er. Þótt Árni segi þeim ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir er sannleikurinn engu að síður sá, að enn sem komið er hlýtur framkvæmdin að teljast fullkomlega óraunhæf. Stundum er sagt að hlutirnir séu "talaðir niður" en í þessu tilfelli er verið að "tala upp", þ.e. láta líta út eins og allt sé í lagi þótt álversmenn á Suðurnesjum séu með allt niðrum sig.
Lítum nánar á málið.
Í fréttum í gær kom fram að búið væri að samþykkja nauðsynlegt deiliskipulag, bæði í Garði og Reykjanesbæ, til að framkvæmdir gætu hafist við að reisa álverið í Helguvík. Gott og vel. En varla er nú skynsamlegt að reisa álver án þess að hafa tryggt sér tilskylda orku. Til að hægt sé að reka skepnuna þarf gríðarlega mikla orku og hana þarf að flytja frá viðkomandi virkjunum. Ekki nema lítið brot af nauðsynlegri orku fæst úr virkjunum á Reykjanesi. Af þeim 260 MW sem talin eru upp í töflu Skipulagsstofnunar um "líklegustu virkjunarkosti Hitaveitu Suðurnesja" eru líklega að minnsta kosti um 115 MW óraunhæf sökum umdeildra orkuflutninga og/eða andstöðu við markmið Suðurlinda, sem er að nýta orkuna heima í héraði. Raunhæf orkuöflun í héraði er því í besta falli 145 MW - en til að keyra skrímslið þarf 435 MW. Eftir er þá að afla 290 MW - sem er nákvæmlega tvöfalt það magn sem Reyknesingar geta sjálfir skenkt sér í álverið.
Álversfíklar Suðurnesja hyggjast þá leita á náðir Reykvíkinga með orkuöflun og þiggja orku frá Orkuveitu Reykjavíkur, einkum úr virkjunum sem hvorki er búið að veita leyfi fyrir né byrjað að reisa. Þar er fyrst að nefna Bitruvirkjun sem rísa myndi á Ölkelduhálsi, skammt fyrir norðan Hellisheiði. Gríðarleg andstaða er gegn þeirri virkjun, bæði meðal almennings, fjölmargra borgarfulltrúa í Reykjavík og þingmanna. Ölkelduháls og umhverfi hans er náttúruperla sem væri glæpur að hrófla við.
Í því sambandi er vert að nefna, að í viðtali í 24 stundum 16. febrúar sl. sagði Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar OR: "Ég mun ekki styðja neitt sem ógnar Ölkelduhálsi og Klambragili og þessum mjög svo mikilvægu útivistar- og fræðslusvæðum." Á forsíðu Fréttablaðsins 22. febrúar sl. sagði forstjóri OR að fyrirtækið selji ansi mikla orku til álvera og ekki sé heppilegt að hafa öll eggin í sömu körfu. Í áformum Norðuráls er gengið út frá því, að 175 MW fáist frá OR en aðeins hefur verið samið um 100 MW. Ef marka má orð forstjóra OR verður ekki samið um meira á þeim bænum.
Gríðarlega umdeildir orkuflutningar í gegnum mörg sveitarfélög gera alla orku á Hengilssvæðinu að óraunhæfum valkosti fyrir álver í Helguvík. Mörg þessara sveitarfélaga hafa þegar lýst því yfir að engar háspennulínur verði lagðar í þeirra landi.
Ég hef áður skrifað um þann reginmisskilning sem sífellt er hamrað á, að jarðgufu- eða jarðvarmavirkjanir séu hrein og mengunarlaus orkuöflun. Nú þegar hefur brennisteinsvetnismengun frá Hellisheiðarvirkjun einni farið yfir hættumörk á höfuðborgarsvæðinu. Verði af fleiri virkjunum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði eykst sú mengun til mikilla muna. Fram hefur komið, m.a. í Speglinum á Rás 1 þann 7. nóvember sl. að ef Bitru- og Hverahlíðarvirkjanir bætist við verði losun brennisteinsvetnis frá þessum þremur virkjunum orðin ríflega FIMMFALT meiri en öll náttúruleg losun brennisteinsvetnis frá jarðvarmasvæðum landsins. Langtímaáhrif á heilsu fólks eru ekki þekkt svo þarna væri rennt staurblint í sjóinn og jafnvel tekin óviðunandi áhætta með líf og heilsu íbúa á suðvesturhorni landsins.
Í þessum sama Spegli, þar sem rætt er við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, kemur einnig fram að óæskilegt sé að beina ferðafólki inn á þessi svæði ef virkjanirnar verða að veruleika. Þorsteinn segir að þessi mikla losun brennisteinsvetnis fari ekki saman við ferðamennsku með tilliti til mögulegra áhrifa á heilsufar fólks. Og sama er sagt gilda um náttúruna og fólkið - langtímaáhrif mengunarinnar eru ekki kunn. Þetta ættu að vera fullkomlega nægjanleg rök gegn þeirri fullyrðingu virkjana- og álversfíkla að allt sé þetta nú gert í fullri sátt við umhverfið, því hvað er umhverfi annað en náttúran og fólkið sem vill njóta hennar?
Sem sagt - Árni Sigfússon og félagar ætla samt að byrja að reisa álver og æða áfram með frekju og yfirgangi, enda þótt þeir séu langt í frá búnir að tryggja sér þá orku sem til þarf til að reka það. Væntanlega er þeim líka slétt sama um þótt þeir stefni mögulega heilsu ríflega helmings landsmanna í hættu með brennisteinsvetnismengun og leggi ósnortnar náttúruperlur í rúst. Í mínum huga heitir þetta glæpsamlegt athæfi óforsjálla manna, sem eins og sannir fíklar hugsa ekki um neitt nema fix dagsins í dag og skyndigróðann á kostnað bæði okkar og komandi kynslóða.
Árni Sigfússon hefur oft lýst því yfir í fjölmiðlum að álver í Helguvík sé lífsspursmál fyrir Suðurnesjamenn því það vanti svo sárlega störf eftir að herinn fór. Þetta er bull sem mjög auðvelt er að hrekja. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er í lágmarki og þar, eins og á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið flutt inn erlent vinnuafl í stórum stíl því heimamenn anna ekki þeim störfum sem í boði eru. Fram kom í frétt 4. mars sl. að samkvæmt samantekt Hagstofunnar hafi íbúum fjölgað mest á Suðurnesjum af öllum landshlutum í fyrra. Ekki bendir það beinlínis til að erfitt sé að fá vinnu við hæfi á svæðinu.
Það er nóg annað um að vera á Suðurnesjum. Eins og fram kom í grein eftir Berg Sigurðsson, framkvæmdastjóra Landverndar, í Morgunblaðinu 23. febrúar sl. drýpur smjör af hverju strái á Suðurnesjum. Hann nefnir t.d. 200 störf tengd nýju hóteli við Bláa lónið, 90 störf við fyrirhugaða kísilverksmiðju, nokkur hundruð störf til að þjónusta hið nýja háskólasamfélag á flugvallarsvæðinu, 150 störf við netþjónabú auk 60-70 nýrra starfa á ári í tengslum við aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli. Bergur telur að fjöldi þessara starfa samsvari starfsmannafjölda u.þ.b. þriggja ávera.
Árni hefur nú gert sér grein fyrir því að hjalið um skort á störfum og atvinnuleysi er ósannfærandi þvættingur. Hann veit sem er að ekki þýðir að ljúga þessu lengur og er nýlega búinn að skipta um plötu á fóninum. Nú heitir þetta "að skapa vel launuð störf", eins og hann sagði í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær. Aldrei hef ég heyrt minnst á að almennt starfsfólk álvera sé hátekjufólk. Það er að minnsta kosti ekki talið upp með skattakóngum og -drottningum landsins. Ja... kannski forstjórarnir. Aukið menntunarstig íslensku þjóðarinnar hefur aukinheldur leitt til þess að fæstir geta hugsað sér að eyða vinnuævinni í álveri, hvað þá að þar sé framtíð barna okkar og barnabarna.
Hverjir halda menn að starfi við að reisa álverin og virkjanirnar? Eru það vel launuðu störfin handa Suðurnesjamönnum og öðrum Íslendingum? Ef marka má framkvæmdir undanfarinna ára verða fluttir inn erlendir farandverkamenn í þúsundatali til að vinna við byggingarframkvæmdirnar við misjafnar undirtektir heimamanna. Þessir verkamenn búa við óviðunandi aðbúnað eins og margoft hefur komið fram, þar sem þeim er hrúgað saman í hesthús eða iðnaðarhúsnæði eins og sauðfé og ekki hirt um annað en að kreista út úr þeim sem mesta vinnu fyrir ómannsæmandi laun. Þetta er ekkert annað en nútíma þrælahald sem við ættum að skammast okkar fyrir.
Ég gæti haldið endalaust áfram að tína til alls konar atriði sem hanga í lausu lofti og eru ókláruð en VERÐA að vera í lagi áður en hafist er handa við að reisa álver í Helguvík. Umhverfisráðherra á til dæmis eftir að úrskurða um kæru Landverndar þar sem farið er fram á heildstætt umhverfismat á áhrifum álvers í Helguvík. Þetta þýðir einfaldlega að Landvernd fer fram á að öll framkvæmdin verði metin í einu lagi - allar tengdar framkvæmdir metnar sem ein heild - virkjanir, raflínur og álver. Slíkt heildarmat ætti vitaskuld að vera sjálfsagt og eðlilegt, því allt hangir þetta saman og myndar órjúfanlega heild.
Norðurál hefur ekki fengið úthlutað mengunarkvóta eða losunarheimild fyrir álver í Helguvík, við eigum hann ekki aflögu. Nóg mengum við samt og erum næstum búin með kvótann sem okkur er heimilaður. Getur "hreina, græna Ísland" vera þekkt fyrir að menga andrúmsloftið svo gríðarlega að það þurfi að kaupa mengunarkvóta til viðbótar við þann sem við höfum? Hvaða áhrif ætli það hefði á sívaxandi ferðaþjónustu sem dælir peningum inn í þjóðarbúið?
Annan álíka pistil mætti skrifa um efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar. Um þann þátt berast mjög misvísandi skilaboð þar sem ljóst er að stóriðjusinnar ætla að tala yfir okkur kreppu - ef ekki verði reist nokkur álver og helst olíuhreinsistöð líka. Sú hlið á málinu er rannsóknarefni út af fyrir sig sem ég fer ekki út í hér.
Niðurstaða:
Starfsleyfi fyrir álver í Helguvík liggur ekki fyrir. Breytt skipulag allra þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli liggur ekki fyrir. Leyfi þeirra til orkuflutnings og lagningar háspennulína liggur ekki fyrir. Losunarheimild liggur ekki fyrir. Starfa við álver er ekki þörf, hvorki við byggingu né rekstur. Úrskurður um umhverfismat virkjana og heildarmat álversframkvæmda liggur ekki fyrir.
Æðibunugangur Árna Sigfússonar og Norðuráls er óskiljanlegur í ljósi þess að nánast ekkert af því sem til þarf er í höfn. Menn eru með allt niðrum sig, næstum allt er óklárt. Hver er þá tilgangurinn með þessu háværa gaspri? Af hverju láta fréttamenn Árna komast upp með bullið án þess að upplýsa sannleikann um á hve miklum brauðfótum yfirlýsingagleðin stendur? Hér er verið að blekkja almenning á svívirðilegan hátt, láta fólk halda að allt sé klárt, ekkert til fyrirstöðu, bara kýla á þetta þótt engin nauðsynleg leyfi eða heimildir séu fyrir hendi. Svo þegar byrjað er að framkvæma verður sagt: "Það er of seint að snúa við!" Þá verður beitt óbærilegum þrýstingi til að fá hlutina í gegn og helst á hraða ljóssins sem gerir öðrum hagsmunaaðilum ókleift að láta rödd sína heyrast í öllum gauraganginum. Ef orðið "stjórnsýsluofbeldi" er til á það prýðilega við hér.
Er það þetta sem kallað er "klækjastjórnmál"? Ég veit það ekki, en hitt veit ég að það er óbærileg skítalykt af þessu máli. Það er blekkingarleikur og svikamylla í gangi á Suðurnesjum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Náttúra og umhverfi, Spilling og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Svona vinnubrögð eins og hjá Árna Sigfússyni á bara ekki að liða. Æða út í einhverjar meiri en umdeildar framkvæmdir sem vanta mest allar undirstöður til. Og fyrst það er byrjað (á mjög varasömum forsendum) þá má ekki hætta við. "Þetta hefur jú kostað svo mikið hingað til". Þetta er eins og í Villta Vestri: Skjóta fyrst og spyrja svo.
Úrsúla Jünemann, 1.10.2009 kl. 10:43
Jæja, erum við þá byrjuð á þessu aftur ?
Þú segir að það drjúpi smör af hverju strái á Reykjanesi, og nefnir fjölda nýrra starfa því til stuðnings. Þar þykir mér þú fara heldur frjálslega með staðreyndir, T.D. eru ekki nema orfáir starfsmenn (5 - 10 kannski) við hótelið í Bláa lóninu. Bláa lónið hefur, líkt og önnur fyrirtæki verið að segja fólki upp, til ,,hagræðingar", og eitthvað er orðum aukið starfsmannafjöldi á Keflavíkur flugvelli, held ég. Kjarninn er allavegana, að miðað við orð þín, þá var Árni Johnsen þingmaður Suðurnesja að ljúga í fréttum í gær, ha ?. Hann sagði að 1600 manns væru atvinnulausir á Suðurnesjum.
Hvað varðar virkjun á Hellisheiði, þá finnst mér, og ég hef lýst þeirri skoðun áður, að það eigi að virkja fjallið eins mikið og hægt er, þó með öryggis sjónarmið að leiðarljósi. Síðan vil ég sjá Hellisheiði gerða að útivistarsvæði fyrir mótorsport af öllu tagi, enda staðsetningin brilliant. Ég er sannfærður um að þetta tvennt, virkjanir og mótorsport getur vel farið saman, og fjölbreytt landslag heiðarinnar er afar vel fallið til þess.
Auðvitað verður að halda áfram að virkja Þjórsá, telji vísindamenn það hagkvæman kost. Og hver vissi svo sem af Trölladyngju áður en Ómar Smári og félagar fóru að flengjast um allt Reykjanes í leit að Geirfinni ?
Að senda línuna aftur í mat, er ekkert annað en skemmdarverk, sem þjóðin þarf síst á að halda núna, þegar við erum með allt niðrum okkur. Þetta er hegðun, sem maður ætti von á að sjá hjá ódælum krakka, og minnir helst á skemmdarverk eins og Egill framkvæmdi forðum, þegar hann fékk ekki að fara til útlanda með stóra bróður sínum, En Egill var náttúrulega geðsjúkur alkóhólisti.
Ég tel Álver og gagnageymslu góðar hugmyndir, og lyftistöng fyrir lífið á Suðurnesjum, reyndar allt Reykjanesið. Það er einu sinni svo, að Íslendar eru þisvar sinnum fleiri en fyrir hundrað árum, og á einhverju verðum við að lifa, og landsins gæði koma þar fyrst til álita. Raforkuframleiðsla er eitthvað sem liggur vel að okkur, og Álver eru traust og góð atvinnustarfsemi, sem er ekki eins háð sveiflum í pólítík og árferði og ýmislegt annað. Helst ekkert nema náttúruhamfaris stoppar álver, en þé eyðast svosem berjamóar og grasaheiðar líka,
Börkur Hrólfsson, 1.10.2009 kl. 11:00
Þegtar upp er staðið snýst þetta bara um eitt, þ.e. tekjur fyrir Bæjarfélögin og Ríkið. Fórnarkostnaður er aldrei tekinn með í reikninginn hjá sveitarfélögum en stefnumörkun Ríkisisins á að taka mið af slíku. Sem málamiðlun legg ég til að allt innanlandsflug verði flutt til Keflavíkur gegn því að Suðurnesjamenn hætti við álversuppbyggingu í Helguvík
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.10.2009 kl. 11:02
Árni Sigfússon er tákngervingur fyrir hræðsluáróður, frekju og yfirgang áverssinna.
Það ætti að kalla þetta heilkenni hans "suðurnesjamennsku."
þg (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 11:04
Það er alger nauðsyn á því að breyta sveitarstjórnarlögum - í bæjar- og sveitarstjórnum er fólk kosið til starfa. Þar fer hvergi eftir hæfi eða fagmennsku.
Allt of mörg sveitarfélög eyða ekki fjármagni í næg kaup á sérfræðiþekkingu. Það fólk sem situr í sveitarstjórnum er jafnvel ekki með meiri menntun en grunnskólapróf - og hvaða forsendur liggja þá að baki ákvörðunum um að byggja álverksmiðjur - orkumál - umhverfismál, félagsleg mál ?
Nei - íbúum Reykjanesbæjar er vorkunn - þar er búið gjörsamlega að tæma alla sjóði og skuldsetja samfélagið upp á 8 milljarða.
Sem sagt - vonlaust case - væri ekki einu sinni hægt að setja upp barnaleikvöll miðað við skuldastöðu !
Og hvar er fjármagnið ?
Auk þess sem rammaáætlun er sú áætlun sem miða á við - þar hafa færustu vísindamenn forgangsraðað svæðum til virkjana með tilliti til vistkerfisins.
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 1.10.2009 kl. 11:12
Það má nú kannski draga aðeins frá í málflutningi Árna og bæta aðeins við þinn málflutning. Það er nú ekkert verið að tala bara um álver í Helguvík. Margt annað hangir á spýtunni. Það er skiljanlegt að fólk sem er búið að ganga til samstarfssamninga við erlenda verktaka og fyrirtæki á grundvelli laga og reglna sem síðasti ráðherra skuli vera dálítið svekkt þegar öll vinna, fjármögnun og sambönd eru sett í uppnám með einu pennastriki. Skynsamleg nýting auðlinda landsins held ég að sé alveg nauðsynleg og sumt af því sem Árni nefndi hefur verið á dagskrá í einhvern tíma og undirbúningur kominn vel á veg. Það er náttúrulega óþolandi fyrir fólk sem stendur í nýsköpun og fyrirtækjarekstri, sama hvaða nafni hann nefnist (þá á ég ekkert endilega við ÁS), að þurfa að eiga allt undir duttlungum misviturra stjórnmálamanna sem breyta kannski leikreglum í miðjum síðari hálfleik. Held að það sé aðallega stjórnsýslan sem fer í fólk.
En fyndið að þú skulir nefna Bláa lónið sem dæmi í atvinnusköpun. Er það ekki með stærstu umhverfisslysum sem orðið hafa á Íslandi?
Soffía (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 11:16
Börkur... Pistillinn er skrifaður 12. mars 2008 og lýsir ástandinu eins og það var þá. Ég deili engan veginn skoðunum þínum um virkjanir og stóriðju - hvað þá mótorsport í fallegri og viðkvæmri náttúru.
Soffía... Engum lögum eða reglum var breytt. Þvert á móti. Það er farið eftir ferli sem er fyrir hendi og ber að fara eftir ef skynsemin á að vera í fyrirrúmi. Það var Árni bæjarstjóri sem fór fram úr sér og reiknaði ekki með að farið yrði eftir þeim.
Hvort Bláa lónið var umhverfisslys eða ekki ætla ég ekki að meta. Ég veit hvernig það varð til. Nú malar það alltént gull.
Lára Hanna Einarsdóttir, 1.10.2009 kl. 11:29
Sæl Lára, einhvern veginn, þarf að fá fram sátt í virkjana-, iðnaðar- og náttúruverndamálum.
Ég er einn af þeim, sem leitast við að sjá 2. hliðar á öllum málum, hið minnsta.
Gekk á sínum tíma, til liðs við hann Ómar frænda, og hreyfingu hans, og sat reyndar neðarlega á lista þeirra samtaka, á Nl-Eystra. En, samt er ég ekki eins heitur náttúruverndarsinni, og hann. Mín andstaða við Kárahnjúka, snerist meira um neikvæð efnahagsleg áhrif fremur en náttúruspjöll. En þannig er það, stundum geta menn komist að svipaðri niðurstöðu, úr sitthverri áttinni. En, þegar þá, var ljóst að ekki stæði til að gera nægilega mikið, til að slá á þá efnahagslegu ofþenslu, er sú gríðarlega stóra framkvæmd var að framkalla. Þ.e. sérstaklega, alger skortur á efnahagslegum gagnaðgerðum, er ég var mjög ósáttur við. Tel þetta, eiga stóran hlut í því, að hér fór af stað bóluhagkerfi.
Aftur á móti, nú í dag, er ekki þensla heldur efnahagslegur slaki. Í dag er nægilegt framboð af verkafólki, að ónógt framboð er ekki ástæða til innflutnings verkamanna, eins og þá.
En, á hinn bóginn, er þetta það stór framkvæmd, að hana þarf að bjóða út á öllu EES svæðinu, og því er engin trygging fyrir að ísl. verktakar hneppi hnossið. Því getur alveg farið svo, eins og þú talar um, að ekki verði sú framkv. til að slá neitt að ráði á atvinnuleysi, - en það þarf þó ekki að fara þannig. Það að nóg framboð er í dag, vegna atv.leysis, eykur líkur þess að ísl. verkamenn verðir notaðir.
Persónulega, er ég ekki á móti virkjun, neðri Þjórsár. Hef skoðað svæðið, þ.s. virkjað verður, og að mínu eigin mati, er það svæði miklu mun minna að mikilvægi en Kárahnjúkasvæðið.
Aftur á móti, þarf aðeins skoða betur allar þessar gufuvirkjanir, er standa fyrir dyrum. Sennilega er rétt, að þær nýta ekki nema e-h á milli 20-30% af orkunni. En, það þarf ekki endilega að skoðast sem alvarleg gagnrýni, þ.s. að þ.e. samanborið við 0% nýtingu í dag. En, tengja má slíkar virkjanir einnig við hitaveitu, þ.e. nota gufuna síðan til að hita kalt vatn, í gegnum varmaskipti. Einnig, er það rétt ábending, að gufuvirkjanir hafa nokkra mengun, þ.e. einkum brennistein. Það virkilega þarf, að nota tæknina til að hreinsa brennisteininn úr gufunni, áður en henni er hleypt út í andrúmslftið. En aukning brennisteins í loftinu, getur valdið margvíslegum skaða, allt frá tæringu yfir í læknisfræðilega kvilla. Að auki, þarf að fara varlega með svæðin, í þeim skilningi að vera má, að of geyst sé farið með nýtingarplön, að of mikið magn af gufu sé tekið.
-----------------------------
Svo niðurstaðan, er væntanlega sú. Að það sé réttmæt krafa, um að staldra við, og meta gufuvirkjanamál frekar, og íhuga t.d. alvarlega, að gera strangari kröfur um nýtingu, t.d. krefjast lægra nýtingarhlutfalls.
Við eigum ekki að nýta með þeim hætti, að við skemmum mikilvæg náttúruverðmæti, með varanlegum hætti.
Sem dæmi, nefni ég Steingrímsstöð. En mín skoðun hefur verið, að sú virkjun hafi valdið alvarlegasta náttúrutjóni, einstakra virkjana á Ísl. þó Kárahnjúkavirkjun, sé tekin með. Þarna, er náttúrulega um mitt eigið mat að ræða, á því hvað teljast vera mikilvæg náttúruleg verðmæti. En á því, er einungis hægt að gera gildishlaðið mat. Með öðrum orðum, hafa skoðun.
Ég er náttúrulega, að tala um urriðastofninn í Þingvallavatni, og einnig um bitmýið í efsta hluta Sogsins. Ég mat það þannig, að Kárahnjúkavirkjun, væri ekki alvarlegt náttúrutjón, þ.s. ekki væri dýrategundum ógnað, með alvarlegum hætti, né væru til staðar plöntusamfélög er hvergi annars staðar væru til staðar. Svo, að mat mit með eða á móti, sneris um haglegt mat. Á þeim grunni, snerist ég gegn þeirri framkvæmd.
Þarna skilur sennilega á milli mín og þín, þ.s. að ég met svokallað "sjónrænt verðmæti" sem er fullkomlega gildishlaðið mat, ekki neitt sérlega hátt. Er ekki endilega á því, að sjónrænt verðmæti sé ævarandi skaðað, af mannlegum mannvirkjum, svo fremi sem vel sé gengið frá þeim, öll hönnun til fyrirmyndar, o.s.frv.
En, ég átta mig á, að margir meta "sjónrænt verðmæti" með allt öðrum hætti.
Einhvern veginn, þarf að sætta sjónarmið, mætast á einhverri miðri leið.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 1.10.2009 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.