Sjónarspil eða svikamylla - breytir engu

Þessi pistill frá 15. mars 2008 er í beinu framhaldi af þeim fyrri eins og sjá má. Hér ávarpa ég og svara þeim sem gerðu athugasemdir við hann og nauðsynlegt að lesa hann og allar athugasemdirnar við hann til að ná merkingu þessa pistils. Og lesa jafnframt athugasemdirnar við þennan.

*********************************************
Skaftafell

Ég sé mig knúna til að taka aftur til máls í tilefni af sumum athugasemdunum við færsluna hér á undan, jafnvel þótt ég þurfi að endurtaka bæði það sem ég skrifaði í færslunni, sem og eigin svörum í athugasemdunum þar. Sumir virðast bara ekki lesa það sem á undan er komið, eða skauta svo hratt yfir að kjarninn fer fram hjá þeim og þeir misskilja allt - viljandi eða óviljandi. Þetta málefni er einfaldlega of mikilvægt til að hægt sé að leiða slíkt hjá sér.

Dynjandi Ég var búin að skrifa þetta mestallt í athugasemdakerfið en minnug orða bloggvinar míns,  Sæmundar Bjarnasonar, sem segir að maður eigi ekki að sólunda löngu máli í athugasemdir heldur nota það frekar í nýja færslu, ætla ég að gera það. Þeir sem lesa þessa færslu þurfa því að lesa þessa fyrst - og allar athugasemdirnar við hana - til að skilja hvað ég er að fara.

Það gladdi mig mjög að sjá og heyra Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, tjá sig um gjörninginn í Helguvík í fréttum aðeins nokkrum klukkustundum eftir að ég setti inn síðustu færslu. Hún kallaði þetta sjónarspil og vafasama stjórnvaldsákvörðun og var varkárari í orðum en ég, en meining okkar var nákvæmlega sú sama. Enn er því von.


Ég finn ekki til með þeim sem vilja virkja og nýta orkuauðlindir, Örvar Þór. Þeim er engin Hænuvík við Patreksfjörð vorkunn nema kannski að því leytinu til að þeir virðast hafa misst af þeirri upplifun sem að mínu mati er nauðsynleg og ómetanleg - að kunna að meta ósnortna náttúru landsins síns, sérstöðu hennar og mikilvægi þess fyrir efnahag, framtíðina og komandi kynslóðir að ganga hægt um gleðinnar stóriðjudyr og gá að sér. Auðvitað þarf alltaf að virkja eitthvað, skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda er nauðsynleg. En það sem hefur einkennt virkjanaæði og stóriðjufíkn undanfarinna ára er hve menn einblína á stundarhagsmuni og skyndigróða, sýna fullkomið fyrirhyggjuleysi í framkvæmdum og vanvirðingu við afkomendur okkar. Það á ekki að skilja neitt eftir handa þeim. Því get ég ekki með nokkru móti verið sammála. Þetta er kallað rányrkja þegar auðlindir hafsins eru annars vegar og fordæmt harðlega. Nákvæmlega sama máli gegnir um orkuauðlindirnar.

Látrabjarg Stóriðja er ekki, getur ekki verið og má ekki vera eina lausn Íslendinga á byggðavanda. Margt annað kemur til sem þarf að skoða betur áður en stokkið er til og plantað álverum eða olíuhreinsistöðvum í firði og flóa þessa fallega lands. Sjáið bara hvað Hornfirðingar eru að gera! Þeir eru frábærir og hugmyndaríkir.

Í einhverjum athugasemdum er ég kölluð, að því er virðist mér til hnjóðs, "menntakona", "vel lærð á bókina" (eins og það skipti einhverju máli hér) og sögð sýna "menntahroka". Í því sambandi er vert að geta þess að ég er algjörlega ómenntuð. Ekki einu sinni með stúdentspróf. Eina prófgráðan sem ég get státað mig af er próf úr Leiðsöguskóla Íslands þar sem sú ást og aðdáun á náttúru Íslands sem ég hlaut í uppeldi mínu fékk aukinn byr undir báða vængi og gott ef ekki stél líka. Að öðru leyti hefur lífið verið minn skóli og ég endurtek það sem ég sagði í athugasemd minni (nr. 12) við síðustu færslu: "...ég hef enga fordóma gagnvart starfsfólki í neinni atvinnugrein. Ég var alin þannig upp að það sé sama hvað fólk gerir - ef það er heiðarlegt og sinnir sínu af alúð og samviskusemi." Ég hef haft þann boðskap foreldra minna í heiðri hingað til og hyggst gera hér eftir." Ég endurtek líka, að ég sagði að ég þekkti engan sem langaði að vinna í álveri. Það þýðir síður en svo að enginn vilji gera það - aðeins að ég væri ókunnug þeim sem hefðu þær hugmyndir um framtíðina. Sjálf hef ég aldrei verið hálaunakona. Útgjöldin sem fylgja aukinni þenslu, vaxtaokri og verðbólgu, m.a. vegna stóriðjuframkvæmda, eru að sliga mig. En ég hafna því algjörlega að fórna náttúrunni til að ég geti fengið nokkrum krónum meira í budduna, keypt mér nýrri bíl eða farið í fleiri utanlandsferðir. Mér finnst það einfaldlega ekki þess virði og ég vil skila landinu eins ósnortnu og gjöfulu og frekast er unnt til komandi kynslóða.

Þorsteinn Valur talar um "sovét hugsun" um stofnun og rekstur fyrirtækja og að Norðurál Í Vigur starfi samkvæmt lögum og sé frjálst að hefja framkvæmdir og eitthvað fleira sem ég fæ ekki almennilegt samhengi í. Þorsteinn Valur virðist ekki átta sig á því frekar en Árni Árnason, að álver í Helguvík er alls ekki einkamál
Reyknesinga, Suðunesjamanna eða erlendra auðhringa sem vilja græða meiri peninga. Síður en svo. Því til stuðnings vísa ég í færsluna sjálfa og svör mín í athugasemdakerfinu - og reyndar athugasemdir annarra s.s. Eggerts Vébjörnssonar og Gunnars Jónssonar - þar sem bent er á að tengdar framkvæmdir og neikvæðar afleiðingar þeirra snerta hvorki meira né minna en 2/3 landsmanna, íbúa alls suðvesturlands. Meðal annars þess vegna er svo mikilvægt að fram fari umhverfismat á öllum tengdum framkvæmdum sem einni heild eins og ég minnist á í færslunni. Þess vegna lagði Landvernd fram kæru sem á eftir að úrskurða um og þess vegna átti Árni Sigfússon að bíða þess úrskurðar en ekki að einblína á eigin pólitíska framtíð. Þess í stað kjósa álverssinnar á Suðurnesjum að ana út í óvissuna, sannfærðir um að þrýstingurinn sem þeir skapa með því nægi til að þagga niður í þeim sem átta sig á óhæfuverkinu.

Dverghamrar á Síðu Það virðist vera einhver lenska um þessar mundir að stóriðjusinnar á landsbyggðinni segi að okkur hér í Reykjavík komi ekkert við það sem þeir eru að bralla í sínum landshlutum. Þeir geti bara gert það sem þeim sýnist og "liðið í 101" eigi ekkert með að hafa skoðanir á því, hvað þá að skipta sér af. Engu að síður fá Reykvíkingar reglulega skilaboð eins og nú síðast frá bæjarráði Fljótsdalshéraðs, þar sem þess er krafist að borgarstjórn heimili uppbyggingu á aðstöðu við Reykjavíkurflugvöll því Reykjavík sé fyrir landsmenn alla. Ég efast reyndar um að landsbyggðarfólk átti sig á álaginu sem fylgir því að hafa flugvélagný yfir höfðinu daga og nætur inni í miðri íbúðabyggð, en það er önnur saga.

Ég er alin upp við mikla ást og aðdáun á Íslandi og móðir mín þreyttist aldrei á að tala Drangaskörð um hve heppin við værum að vera Íslendingar, eiga þetta dásamlega land með hreinu lofti, tæru vatni og óviðjafnanlegri náttúru. Aldrei vottaði fyrir þeirri hugsun hjá henni að einn landshluti væri betri eða fallegri en annar, þótt sterkustu taugarnar væru til Vestfjarða þar sem hún fæddist og ólst upp. Þangað var farið á hverju ári og auk þess í a.m.k. eina eða tvær hálendisferðir á sumri með Ferðafélagi Íslands. Þessa hugsun hlaut ég í arf og er mjög þakklát fyrir. Ég hrekk í kút og mér sárnar þegar því er slengt framan í mig að mér komi ekki við þegar Austfirðingar, Vestfirðingar, Norðlendingar eða Reyknesingar ætla að leggja dásamlega náttúru Íslands í rúst til að reisa eiturspúandi verksmiðjur í fallegum fjörðum í þágu erlendrar stóriðju. Í mínum huga er Ísland okkar allra, rétt eins og Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna eins og bæjarráð Fljótsdalshéraðs bendir réttilega á. Við höfum öll ástæðu og leyfi til að hafa skoðanir á því hvað gert er við landið og náttúru þess, við eigum þar öll hagsmuna að gæta.


Sólarlag í Hænuvík Misvitrir stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina att landshlutunum hverjum gegn öðrum með  eigin hagsmuni í huga, meðal annars í krafti misvægis atkvæða í kosningum. Nýjasta dæmi um slíkt er t.d. sú ákvörðun að í kjölfar Héðinsfjarðarganga skuli byrjað á Vaðlaheiðargöngum. Með fullri virðingu fyrir Norðlendingum hefði ég heldur kosið að þeim peningum væri varið í uppbyggingu samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum og íbúum þar gert kleift að ferðast á milli norður- og suðurhluta kjálkans svo þeir geti orðið eitt atvinnusvæði. En mönnum virðist svo tamt að hugsa bara um naflann á sjálfum sér og telja hann miðju alheimsins en gleyma því að aðgerðir þeirra hafa áhrif á ótalmarga utan þeirrar miðju - oftar en ekki alla landsmenn á einn eða annan hátt.

Fjallsárlón


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú reynir ávalt að vera "málefnaleg & færir ávalt góð rök fyrir þínum skoðunum", ég er yfirleitt sammála þeim skoðunum sem þú setur fram.  Ekkert að því að vera ósammála í einhverjum málum, aðalatriði er að "sannleikurinn" komi fram og mér sýnist þú ávalt leggja mikið upp úr slíku.  Þá er því miður ráðist á þína persónu, sem er ótrúlegt í ljósi þess hversu "heilsteypt & indæl þú ert" - hafði ekki áhyggjur af fólki sem reynir að gera lítið úr þér, það lýsir bara furðulegu innræti þess.  Persónulega finnst mér unnun að lesa það sem kemur frá þér, Teit Atlasyni, Agli Helgasyni & Baldur McQueen.  Þið eruð mjög víðsýn - þannig upplifi ég alaveganna ykkar skrif..!

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 13:53

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sammála því, að mjög ómálefnalegt er að ráðast að persónu fólks, sem getur bent einmitt til málefnafátæktar.

Ég skil þó alveg Húsvíkinga, sem vonast eftir álveri. Mín skoðun á álverum, er ekki eins neikvæð og skoðun hennar Láru Hönnu. En, sannleikurinn um hag ísl. af þeim, er sennilega sá að andstæðingar vanmeta það haggildi, á meðan að álverssinar sennilega ofmeta það.

Helsti galli þessara nýju framkvæmda, er gríðarleg stærð þeirra, er krefst mjög mikilla framkvæmda til nýtingar raforku. Það getur valdið því, að harðar sé gengið gegn svæðum, en góðu hófi gegnir.

Ég legg þó ekki eins mikið upp úr svoköllum "sjónrænum verðmætum" og sumir, þ.e. að ég tel mannvirki geta farið vel í landslagi, ef þau eru vel hönnuð og vel frá þeim gengið. Þannig að sjónræn verðmæti, séu ekki endilega spillt, þó einhver mannvirki séu til staðar.

En, að mínu mati, eru það fullkomlega málefnaleg rök, að hafa ótta í brjósti um þá gríðarlega miklu nýtingu, sem álverin 2. krefjast. Það má alveg vera, að rétt sé að meira sé kappið, en forsjáin, þannig að nýtingin sé meiri en tiltekin svæði bera með góðu móti til langs tíma.

Ef, af þessum framkvæmdum verður ekki, þá hefur það þau áhrif, þ.e. efnahagsleg, að ekki kemur það fjármagn inn í landið. Það er slæmt að því leiti, að vegna skulda, verður mjög mikið fjármagnsútstreymi úr landinu, vegna allra þeirra er skulda í erlendum gjaldmiðli en hafa ekki eigin gjaldeyristekjur, og þurfa því að skipta krónum og færa þannig fjármagn úr hagkerfinu.

Erlend fjárfesting, getur nokkuð þarna komið á móti. En, ef er um verulegt nettó fjárstreymi úr landi að ræða, þá framkallar það stöðugan þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar. Þ.e. einmitt ástæða þess, að ég tel gjaldeyrislán upp á cirka 1.000 milljarða, vera gagnslausa framkvæmd.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 1.10.2009 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband