Meira um Rússagull og peningaþvætti

Meltdown Iceland - Roger BoyesÉg fjallaði um hvort Rússland væri glæparíki í þessum pistli og um íslensku tengslin í þessum. Í einni athugasemd var bent á þessa athyglisverðu grein um víkingainnrás nýrrar kynslóðar. Og ég fékk þónokkra tölvupósta. Í einum þeirra var ábending um ummæli í bók sem virðast ekki hafa vakið neina athygli, merkilegt nokk! Bókin kom út í byrjun október, heitir Meltdown Iceland og er eftir Roger Boyes. Lítið hefur verið fjallað um hana hér á Íslandi en margt verið skrifað um hana erlendis. Mogginn segir frá henni 3. október og Andri Geir skrifar um hana. Ég fann ekki mikið fleiri umsagnir um bókina á íslensku en vonandi er það mín handvömm. Höfundur bókarinnar skrifaði grein í Times með nöturlegri fyrirsögn: "Ísland afhjúpað: Hvernig heilli þjóð var sturtað niður í klósettið". Þótt þetta sé ógeðfelldur titill er hann í eðli sínu dagsannur. Hér er umsögn Sunday Times um bókina og mér virðist á öllu sem ég hef lesið um hana að Davíð nokkur Oddsson fái þar skelfilega útreið. En ég hef ekki fundið neitt um ummælin sem hér um ræðir í neinum skrifum um bókina og fjalla um Rússana og peningaþvættið.

Ég fór á stúfana og reyndi að ná mér í bókina. Öll eintök (veit ekki hve mörg) Borgarbókasafnsins voru í útláni, Mál og menning hafði aldrei haft hana á boðstólum og í Eymundsson var hún uppseld - en 4 eintök til í Bókval á Akureyri. A.m.k. eitt er á leiðinni til mín núna í boði einstaklega elskulegs starfsmanns í Eymundsson í SPRON-húsinu á Skólavörðustíg.

En mér áskotnaðist skannað eintak af kaflanum sem hér um ræðir. Það er 4. kafli, hann heitir "Virðing" (Respect) og fjallar um dekurdrengi Davíðs, Björgólfsfeðga. Ég klippti úr honum það sem ég vil sérstaklega benda á.

Meltdown Iceland - Roger Boyes - 4. kafli Respect - bls. 55 og 56

Samkvæmt þessu var sendur hingað sérstakur njósnari árið 2005, alls ótengdur sendiráðinu, til að grennslast fyrir um Rússatengsl og peningaþvætti. Og ekki bara Rússagull, heldur einnig hryðjuverkapeninga. A.m.k. Bretar og Danir, sem vissu líklega einna mest um hvað gerðist á bak við tjöldin í íslensku bönkunum, höfðu þungar áhyggjur en tókst greinilega ekki að sanna neitt... ennþá. En eins og við vitum nú orðið - þegar peningar eru annars vegar þá vega siðferði og heiðarleiki ekki mjög þungt.

Sem minnir mig á það... Hryðjuverkamenn þurfa vopn. Munið þið eftir Tchenguiz-bræðrum sem voru í nánum tengslum við Kaupþing? Prófið að gúgla Vincent Tchenguiz og athugið hvað þið sjáið. Kannski var alls ekki að ástæðulausu að sett voru hryðjuverkalög á íslensku bankana í fyrrahaust... eða hvað?

Eins og flestir vita er London full af rússneskum ólígörkum, ýmist útlægum eða ekki. Minni spámenn hafa verið myrtir, aðrir lifa í stöðugum ótta. Rússarnir drepa þó fleiri heima hjá sér, s.s. blaðamenn sem tala illa um þá og óþæga bankamenn eins og kom fram í umfjöllun Ekstrablaðsins. Ég ræð auðvitað ekki við hugrenningartengslin og minnist orða Davíðs í byrjun Kastljóssviðtalsins fræga frá 7. október 2008. Þar talar hann um meint Rússalán - sem kom öllum á óvart jafnt innanlands sem utan - og segir Geir Haarde hafa lagt drög að því um sumarið. Flestir muna eftir orðum Geirs korteri fyrir hrun þegar hann sagðist alltaf hitta Björgólf Thor þegar hann væri á landinu. Til hvers? Var það Björgólfur Thor sem lofaði Rússaláninu?

 

Í bók sinni segir Roger Boyes m.a. að íslensku ólígarkarnir hafi keypt stjórnmálamennina og sú fullyrðing kemur ekkert á óvart. En vissu þeir fyrir hvernig fengið fé var greitt? Ég ætla að leyfa mér að efast um það en maður spyr sig engu að síður...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er rosalegt............og eins og þú segir, skýrir hryðjuverkalalögin ef satt er. Ég stóla á að þú gefir okkur útdrátt úr bókinni þegar þú ert búin að lesa hana.

Harpa Björnsdóttir (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 10:02

2 identicon

Ahugavert, eg hafdi ekki einu sinni heyrt um tessa bok, er tad ekki alveg klassiskt....

tverhaus (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 10:16

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Eins og ég skrifaði hér um daginn. Danir hafa ekki sett neina rannsókn í gang á Íslendingum í Danmörku og íslensk stjórnvöld hafa ekki samband við dönsk í tengslum við rannsóknir sínar á fjárglæframönnum frá Íslandi, sem gerðu viðskipti/umsvif í Danmörku.

Þú skrifar: "Ég ætla að leyfa mér að efast um það en maður spyr sig engu að síður..." Ertu nokkuð komin af Gróu?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 27.11.2009 kl. 10:19

4 identicon

Það hefur verið öllum kunnugt að allt frá upphafi hefur breska fjármálaeftirlitið haft áhyggjur af að The National Bank of Iceland væri stærsta þvottavél Evrópu. Ég man það að ríkisstjórnin fékk fyrirspurn varðandi þetta aður en skrifað var undir samninga en Davíð Oddsson svaraði með alkunnu útrásarvíkingarsvari um að þessir menn væru einhvað öfundsjúkir út í menn sem gengi vel í bussiness.

En það er líka athyglisvert að gera sér grein fyrir því af hverju þeim Samsonum gekk vel í Rússlandi. Ingimundur Sigfússon er ekki í vafa um að þeim hafi tekist að ræna bjórverksmiðjunni frá sér með fulltyngi glæpasamtaka.  En af hverju voru þeir Samsonar innundir hjá glæpasamtökunum??????

Kanski við ættum að rifja upp ástand mála í Rússlandi um 1990. Þá var allt falt fyrir rétt verð, vopn, málmar, flugvélar, þjóðargersemar o.sv. frv.

En ef rússnensk glæpasamtök vildu flytja pakka frá stað A til B án þess að það færi hátt, hver hafði þá yfirburðarþekkingu á skipamiðlun?

Það er mín kenning að Samsonar hafi notið yfirburðarþekkingar þess gamla og þess vegna hafi þeir fengið sérstaka meðferð í undirheimunum. 

Vilhjálmur stundum þarf að lesa í meir en það sem sauðsvörtum almúganum er sagt og það er ekki óalgengt að leynilegar aðgerðir fari leynt og oftast er betra að vera grænn og spurja sig engu að síður um sannleikan og efast um það sem helst er í fréttum

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 10:45

5 identicon

Barnaskapur og trúgirni Vilhjálms Arnars um góðmennsku og heiðarleika Björgólfsfeðga og Magnúsar,er virkilega aðdáunarverð.Öllum þeim,sem bent hafa og eiga eftir að benda á þessi tengsl,getur ekki skjátlast.Ekki eru allir vitleysingar og lygarar,egar kemur að því að fjalla um,vægast sagt skrautlegan feril þremenninganna.Það er komið í ljós að 40 milljarðarnir,sem þeir ætluðau að koma með var enn ein lygin.Ekki kom króna inn í landið.Það er líka grátbroslegt að Björgólfur yngri sagði á sínum tíma að ætla að heiðra minningu forföðurs síns Thor Jensen.Ég held að gamli maðurinn myndi afþakka svona heiður.Ekki eru öll kurl komin til grafar.

Ægir Geirdal (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 10:47

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"the british activated a secret agent in iceland - not in the embassy or attached to it -  
in 2005 with brief to watch cash flow between russia and iceland."

Er ekki hægt að hafa samband við þennan gaur og spyrja nánar útí þetta ?  Hvaða heimildir hann hafi fyrir þessu o.þ.h.

Þarna sko, ef agentin á að hafa átt að fylgjast með peningaflæði milli rúss. og isl. - þá hljótum við að vera að tala um insider hérna, hátt settan og í stöðu til að fylgjast með slíku.   Þ.e. þeir "virkjuðu agentinn"

Nei, eg segi nú svona.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.11.2009 kl. 11:01

7 identicon

Athyglisvert upphaf á setningu: "They feared that the banks were so poorly regulated..."

Þá hef ég verið þeirrar skoðunar að við rannsókn á hruninu ætti að fjalla sérstaklega um fjárreiður stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, og það ekki skemur en 10 ár aftur í tímann.

Hrímfaxi (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 11:03

8 Smámynd: Loopman

Góð umræða. Ég verð að koma inn þessum link http://icelandtalks.net/?s=russian

Hér kemur fram ansi mikið af athyglisverðu efni um þessi tengsl Íslendinga og mafíupeninga. Leitið á síðunni og það kemur allt í ljós.

Loopman, 27.11.2009 kl. 11:14

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mögnuð lesning. Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds að lesa þetta um allt þetta brask og þessa siðlausu braskara.

Þú nefnir Róbert Tchenquiz. Hann er sennilega þekktastur fyrir að hafa farið á brott með 280 milljarða út úr Kaupþing banka örfáum vikum fyrir bankahrunið. Þessir bankar voru í raun eins og ræningjabæli þar sem menn gerðu það sem þeim sýndis án nokkurrar samvisku eða einhvers minnsta siðferðisþroska. Þetta eina lán slagar hátt í eina milljón á hvert mannsbarn á Íslandi! Þessi braskari er stjórnarmaður í Exista og er líklega hugmyndafræðingurinn ásamt Bakkabræðrum að  auka hlutafé þess fyrirtækis um 50 milljarða án þess að ein einasta króna væri greitt til félagsins! Tilgangurinn var auðvitað að tryggja sér félagið og gera hluti annarra að engu.

Þú ættir að kíkja í 3ja tölublað Frjálsrar verslunar frá árinu 2007. Á forsíðu er glottið á þessum breska braskara og í blaðinu er viðtal við hann: „Ég læt „heit“ lönd eiga sig“. Hver þessi „heitu“ lönd eru skuluð þið lesa um. Ísland og íslendingar var þessum bröskurum svo auðveld bráð.

Góðar stundir!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 27.11.2009 kl. 15:02

10 identicon

Upphaf fjárstreymis græðgiáranna á milli Íslands og Rússlands með viðkomu í Lúxemborg, á Kýpur og Brezku Jómfrúreyjum (Tortola) má rekja til fyrsta ársins, sem Björgólfur seníor átti tíð erindi til Pétursborgar, þar sem hann var verktaki hjá gosdrykkjaverksmiðjunni Baltic Bottling Plant. Íslendingar, sem hittu Björgólf í Pétursborg 1993, hafa sagt frá því að BG hafi stoltur greint þeim frá þessum nýja reynsluheimi sínum, m.a. hvernig samskiptum við borgaryfirvöld  og fleiri væri háttað. Fram kom, að hann hefði “hörkumann” innan borgarkerfisins á sínum snærum og hann þyrfti að borga honum mútur uppá 200-300 Bandaríkjadali á mánuði. Annar heimildarmaður minn segir mér, að mútugreiðslur til embættismanna hefðu verið nauðsynlegar á þessum árum, en upphæðir fyrir góð sambönd hefðu verið a.m.k. 500 dollarar. Í DV-greinum mínum sem birtust í lok september og í upphafi október fjallaði ég svolítið um tengsl Björgólfsfeðga og Magnúsar Þorsteinssonar við borgaryfirvöld í Pétursborg og nefndi sérstaklega til sögunnar Yakovlev, sem var aðstoðarborgarstjóri Pétursborgar, en tók við borgarstjórastarfinu af Pútín, þegar hann tók við stjórn Rússlands. Þessi Yakovlev var á mynd, sem birtist í DV, en hún var tekin þegar gosdrykkjaverksmiðja BBP var opnuð. En tengsl Björgólfsfeðga og MÞ við valdamenn í svokallaðri Pétursborgarklíku voru víðtækari og má nefna Leonid Reiman, forspilltan fyrrverandi símamálaráðherra Rússlands, sem Pútín neyddist til að láta fara fyrir röskum tveimur árum. Reiman var sá ráðherra, sem Pútín hélt lengst hlífiskildi yfir af spilltum ráðamönnum í Moskvu og lét hann komast upp með að sanka að sér símafyrirtækjum út um Rússland, þvert og endilangt, og stofna Megafon, sem var með um 70% af allri símaþjónustu í landinu. Reiman þessi hafði útsjónarsaman  lögmann, Galmond að nafni, Dana, sem sá um að koma gróðanum af fjársvikastarfi Reimans í skattaskjól. Svo vill til, að Galmond þessi var lögmaður Björgólfsfeðga í málaferlum BBP gegn þeim í Rússlandi – og sinnti öðrum verkefnum fyrir þá, t.d. þegar þeir breyttu nafni BBP verksmiðjunnar í Bravo International þrátt fyrir að eignatilfærslan byggði á meintum fölsuðum skjölum skv. átta dómum, sem féllu um málið í Rússlandi og tveimur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Tengslin teygja sig vítt og breitt um valdakerfi Rússlands, og ekki leikur minnsti vafi á góðum samböndum Samson-þremenninganna í Pétursborg og Moskvu. Magnús Þorsteinsson á einnig ríka hagsmuni í Pétursborg og víðar. Prentsmiðjan, sem Þorgeir í Odda keypti fyrir að sögn 20 milljónir dollara er gjarnan nefnd. Hún heitir MDM Pechat. Skiptastjóri Landsbankans hefur sagt Björgólf tengjast henni í gegnum sitt eigið eignarhaldsfélag. Af því, sem nefnt hefur verið opinberlega er þó athyglisverðast að huga að stórfelldum hafnarframkvæmdum Björgólfs eldra og Magnúsar Þorsteinssonar í Pétursborg. Höfnin þótti ákaflega erfið og hægvirk og missti borgin viðskipti til Murmansk og svo annarra hafna við Eystrasalt.  Til þess að koma yfirleitt til greina sem þátttakandi í  endurbyggingu  eins af sex stórum svæðum hafnarinnar, tugmilljarðaverkefni, segir sig sjálft að þeir Björgólfur og Magnús hefðu ekki komið til álita án þess að hafa mjög öflug og traust sambönd  hjá stjórnendum borgarinnar. Fyrir utan að nota mútur til að liðka fyrir þjónustu embættismanna og kaupa frið frá mafíu, þá skipti mjög miklu máli í nýfrjálsu Rússlandi í kringum 1992-3, þegar opnað var á fjárfestingar útlendinga samhliða einkavæðingu ríkisfyrirtækja að hafa fína titla. Sem dæmi má nefna að Björgólfur Thor varð ræðismaður Íslands þegar hann dvaldi í Pétursborg og við embættinu tók svo Magnús Þorsteinsson! Magnús var sviptur þessu embætti, þegar hann varð gjaldþrota og flýði til Rússlands.   Samson-félagarnir voru á kafi í rússneskum viðskiptum  og margt bendir til þess, að 350 milljóna dollara kaupverð Heineken á Bravo International bjórverksmiðjunni hafi að stórum hluta setið eftir í höndum lánardrottna og samverkamanna þremenninganna í Pétursborg. Málið er víst svo flókið að skiptastjóri Landsbankans gaf í skyn, að skiptastjórnin væri að gefast upp á því að eltast við Rússlandstengslin. Það má ekki verða. Í mjög athyglisverðrir frétt í Morgunblaðinu þ. 31.marz s.l. undir fyrirsögninni Samson greiddi fé til Tortola sagði í upphafi fréttarinnar:“Samson eignarhaldsfélag greiddi (lánaði?) 580 milljónir króna til félags sem heitir Opal Global Invest og er skráð á Tortola-eyju, lánaði tengdu félagi, Bell Global Lux, 1,5 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í hafnarverkefni í Pétursborg og lánaði félögum í eigu Björgólfs Guðmundssonar 2,5 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins. Auk þess fékk fjárfestingarfélagið Grettir, sem er einnig í eigu Björgólfs, 393 milljóna króna lán.”Lykillinn að “gátunni” um Rússagull o.fl. felst að nokkru leyti í ofangreindri setningu og þessari setningu úr skýrslu skiptastjóra Landsbankans frá því í febrúar: 

“Af skýrslunni að dæma virðast flestar eignir Samson í dag vera lán til annarra félaga í eigu Björgólfsfeðganna.”

                                                                                                                 Halldór Halldórsson, blm.  

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 15:51

11 identicon

Það verður fróðlegt að fylgjast með þegar þessi rússahnykill verður rakinn upp, hverjir voru eiginlegir gerendur og hverjir nytsamir sakleysingjar. Hvernig stóð á þessu sérkennilega tilboði um gigant lán frá Rússum í upphafi hrunsins, erinda hverra gekk seðlbankastjórinn. Eru þessi mál inn á borði sérstaks saksóknara ?

Thora Gudmundsdottir (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 17:16

12 identicon

Takk fyrir góða samantekt, Lára Hanna! Þú hefur unnið þetta af þinni alkunnu alúð og nákvæmni, frábært! Hef oft sagt það og segi enn að okkur, almenningi, hefur ekki verið sagt frá aðdraganda hrunsins og sérstaklega ekki hvað gerðist í bretlandi dagana, vikurnar og mánuðina fyrir hrun. Mér finnst ýmislegt benda til þess að hryðjuverkalögin hafi verið þaulhugsuð nauðvörn breta gegn því sem ég við kalla fjárhagslegri hryðjuverkastarfsemi íslensku bankanna. Af hverju gerðu íslenskir ráðamenn ekkert? Af hverju hringdi Geir ekki í Brown? Hann sagði bara "Maybe I should have". Þetta finnst mér benda til þess að þessir menn og konur sem stjórnuðu Íslandi þá hafi ekki haft sérlega góða samvisku. Er til einhver betri skýring? Mér sýnist á öllu að smátt og smátt muni sannleikurinn koma í ljós og ég á alveg eins von á að sú saga verði verri en versta lygasaga sem mönnum getur dottið í hug um málið.

HF (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 23:02

13 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæl Lára Hanna og þakka þér fyrir enn einn góðan pistil um hrunið.  Það er hægt að fá þessa bók á amazon (http://www.amazon.com/Meltdown-Iceland-Lessons-Financial-Bankrupt/dp/1608190188/ref=sr_1_1?ie=UTF8&s=books&qid=1259436400&sr=1-1)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 28.11.2009 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband