Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Stórustu pissudúkkur í heimi

Hér er tíu mínútna myndband með viðtali við John Mynderup, blaðamann á Ekstrablaðinu í Danmörku. Hann leiddi lítinn hóp rannsóknarblaðamanna sem fór ofan í saumana á eignamyndun og -tengslum íslenskra fyrirtækja og banka. Blaðið birti svo samantekt sína við lítinn fögnuð þessara fyrirtækja og ráðamanna á Íslandi eins og frægt varð.

Þetta er dæmi um einkaframtak Íslendings sem varði bæði fé og miklum tíma í að kanna mál sem honum fannst vanta umfjöllun um í íslenskum fjölmiðlum. Viðtalið var miklu lengra og vonandi fáum við að sjá meira á einhverri sjónvarpsstöðinni.


Forsætisráðherra fabúlerar

Býður sig einhver fram í að greina þetta viðtal, benda á mótsagnir, rangfærslur, vitleysu, pólitískt kjaftæði, skjóta inn spurningum, ganga eftir skýrari svörum og bara almennt að koma vitinu fyrir forsætisráðherra...? Það gæti mögulega verið umbun í boði ef vel tekst til.



Í framhaldi af þessu viðtali bendi ég á þennan pistil á nýjasta vefmiðlinum, Smugunni og óska aðstandendum hans til hamingju með von um beitta umfjöllun um ókomna framtíð.

Spilling á spillingu ofan

Ég renndi yfir Moggann og viðskiptablað Moggans í morgun. Þar kennir ýmissa grasa og ég set hér inn nokkrar greinar sem enginn má missa af og ég mæli með að fólk lesi vandlega. Hve lengi ætla yfirvöld að haga sér svona? Hve lengi komast þau upp með þetta? Þrjár greinar þarf að smella á til að fá læsilega stærð.

Moggi_081120_Viðskipti-1

Moggi_081120_Viðskipti-2 Moggi_081120_Viðskipti-3

Moggi_081120_Viðskipti-4 Moggi_081120_Viðskipti-5

Elías Pétursson - Mbl. 20.11.08


Þrumugrein Hallgríms Helgasonar

Hallgrímur aftur - nú með þrumugrein í Fréttablaðinu í dag. Ég get ekki séð eina einustu setningu sem ég er ekki sammála.

Hallgrímur Helgason - Fr�ttabla�i� 20.11.08


Hallgrímur Helga rappar í Kiljunni

Hallgrímur Helgason fór á kostum í Kiljunni í kvöld. Hann var þangað mættur til að tala um nýju bókina sína sem ber þann langa og frumlega titil: "Tíu ráð til að hætta að drepa fólk og fara að vaska upp". Svolítið dönskuskotinn þarna í endann (vaska upp) en þetta er örugglega fínasta lesning.

En svo fóru þeir Egill að spjalla um mótmæli og ástandið í þjóðfélaginu og þá stóð Hallgrímur upp og rappaði nýjan texta eftir sig við lagið "Ísland er land þitt" sem flestir þekkja. Nú er bara að byrja að æfa sönginn fyrir næstu mótmæli eða borgarafund. Til hægðarauka við æfingar skrifaði ég textann niður eftir rappi Hallgríms og set hann inn hér að neðan.


Ísland er stjórnlaust, því enginn því stjórnar
Ísland er fleki af dýrustu gerð
Ísland er landið sem Flokkurinn fórnar
Ísland á reki í sjónum þú sérð

Ísland í forsetans orðanna skrúði
Ísland sem bankana auðmönnum gaf
Ísland sem sonanna afrekum trúði
Ísland er land sem á verðinum svaf

Íslensk er þjóðin sem allt fyrir greiðir
Íslensk er krónan sem fellur hvern dag
Íslensk er höndin sem afvegaleiðir
Íslensk er trúin: "Það kemst allt í lag"

Íslensk er bjartsýna alheimskuvissan
um íslenskan sigur í sérhverri þraut
Íslensk er góðæris átveisluhryssan
sem íslenskan lepur nú kreppunnar graut

Ísland er landið sem öllu vill gleyma
sem Ísland á annarra hlut hefur gert
Íslenska þjóð, þér var ætlað að geyma
hið íslenska nafn sem þú hefur nú svert

Íslandi stýra nú altómir sjóðir
Ísland nú gengur við betlandi staf
að Íslandi sækja nú alls konar þjóðir
Ísland er sokkið í skuldanna haf

 ___________________

Ég fann ekki lagið án söngs svo ég skelli bara hér inn myndbandinu sem ég gerði í byrjun júní í tilefni af fyrirhugaðri olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Það var reyndar frumraunin mín í myndbandagerð. Lagið er líka í tónspilaranum merkt: "Pálmi Gunnarsson - Ísland er land þitt."


Æemmeff og Haraldur veðurfræðingur

Veðurfræðingar hafa sumir hverjir verið áberandi í þjóðlífinu, einkum þeir sem koma fram í sjónvarpi og hafa skopskyn. Vér miðaldra munum eftir Trausta Jónssyni sem varð goðsögn í lifanda lífi og þurfti einhverju sinni að gefa út tilkynningu um að fregnir af andláti sínu væru stórlega ýktar.

Siggi stormur er auðvitað löngu orðinn landsfrægur og ég bíð ennþá spennt eftir að hann byrji aftur með Veðurmolana sína á sunnudagskvöldum. Það hefur ekki bólað á þeim eftir sumarfrí.

Í allri fjármálaumræðunni undanfarið hefur pirrað mig óstjórnlega þetta "æemmeff" tal í öllum, jafnt fréttamönnum, stjórnmálamönnum, hagfræðingum og öðrum sem hafa tekið sér enska skammstöfun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í munn - og geta ekki einu sinni íslenskað hana og sagt "iemmeff".

En á laugardaginn var veðurfræðingurinn Haraldur Ólafsson með lausn á málinu undir lok veðurfréttatímans á RÚV. Það er nokkuð ljóst að Haraldur hefur bæði húmor og máltilfinningu. Ég legg til að þeir sem þurfa að tjá sig opinberlega um téðan sjóð taki Harald sér til fyrirmyndar, fari að tillögu hans og tjái sig um sjóðinn á íslensku.


Hvítþvottur Davíðs og viðbrögð við honum

Hér er ræða Davíðs Oddssonar sem hann flutti á fundi Viðskiptaráðs í morgun í hverri hann hvítþvær sjálfan sig og Seðlabankann, ýjar að ýmsu og segir annað sem mér heyrist að sumir túlki sem hótanir. Og hann segist vita af hverju Bretar brugðust við eins og þeir gerðu. Auðvitað var það ekki vegna orða Davíðs en ekki upplýsti hann um ástæðuna.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum við ræðu Davíðs og bendi ég þar á hádegisfréttir Ríkisútvarpsins, síðdegisfréttirnar sem og Síðdegisútvarpið á Rás 2. Geir, Össur, Björgvin G. og fleiri koma af fjöllum eins og jólasveinarnir og kannast ekki við neitt. Þegar þetta er skrifað stendur enn yfir fundur Samfylkingarinnar um ræðu Davíðs.

Maðurinn má bara ekki opna munninn, þá gerist eitthvað. Vonandi fréttist þetta ekki til útlanda. Þessu tengt bendi ég á stórfínan pistil Ólínu Þorvarðardóttur hér. Þessu ótengt bendi ég á þetta.



Fréttir sjónvarpsstöðvanna, Ísland í dag og Kastljós voru undirlögð af ræðu Davíðs í kvöld. Hér fyrir neðan má sjá og heyra viðbrögð ýmissa við ræðu Davíðs og hér er fréttaskýring eftir Björn Vigni Sigurpálsson á Mogganum. Ég bæti líka við slóðum á kvöldfréttir Ríkisútvarps og umfjöllun Spegilsins í kvöld. Sú umfjöllun er líka í tónspilaranum hér á síðunni merkt: Spegillinn - Ingvi Örn Kristinsson um ábyrgð Seðlabankans o.fl.

Byrjum á fréttum Stöðvar 2.
 

Þá eru það fréttir RÚV.

 
 
Næst er Ísland í dag.

 

Og að lokum Kastljós.

 

Við hverju bjóstu?

Ég glopraði út úr mér í síðustu færslu í gærkvöldi, líklega í bjartsýniskasti,  að væntanlega yrði fjallað ítarlega um það sem gerðist á borgarafundinum í gærkvöldi í öllum fjölmiðlum í dag. Af nógu var að taka, því þarna var troðfullt hús af fólki, fjórir frábærir frummælendur, fjölmargir fulltrúar fjölmiðla í pallborði og ótalmargt bar á góma. Þeir landsmenn sem ekki komust á fundinn af einhverjum ástæðum bíða væntanlega í ofvæni eftir fréttum af honum - skiljanlega. Þeir geta ekki upplifað stemmninguna eða spurt spurninga, en það hlýtur að vera hlutverk fjölmiðlanna að miðla til þeirra því sem þarna gerðist.

Í ástandi eins og nú ríkir á landinu þar sem fólk er hrætt, reitt og jafnvel örvæntingarfullt, er mjög mikilvægt að allir fái vitneskju um andann sem þarna ríkti, samstöðuna sem viðstaddir upplifðu, gagnrýnina sem fram kom og viðbrögð við henni. Alveg eins og gerðist á laugardaginn þegar fólk um allt land horfði á beina útsendingu frá fundinum á Austurvelli og grét. Það grét af því það upplifði það sama og við sem þar vorum - mikinn samhug, ljós í myrkrinu og örlitla von. Við þurfum öll á slíku að halda núna og það hlýtur að vera hlutverk fjölmiðlanna að miðla því til allra landsmanna. Vonandi verður bein útsending frá næstu fundum, bæði á Austurvelli á laugardaginn  og Háskólabíói á mánudaginn.

Svo eru fjölmiðlar alltaf svolítið sjálfhverfir og hafa gaman af að fjalla um sjálfa sig og hvern annan. Ég bjóst í einlægni við þó nokkuð ítarlegri umfjöllun. En nú er ég búin að leita með logandi ljósi í Mogga og Fréttablaði og þetta hér fyrir neðan er allt og sumt sem ég finn. DV fæst ekki nálægt mér - salan hjá kaupmanninum á horninu mínu þykir víst of lítil til að það taki því að henda þangað blaðabunka svo ég sé það aldrei.

En þetta er allt og sumt sem ég fann í Fréttablaðinu:

Borgarafundur á NASA 17.11.08

Og þetta var öll umfjöllunin í Mogganum:

Borgarafundur á NASA 17.11.08 - Morgunblaðið


Fjölmennur og flottur borgarafundur

Þeir Gunnar Sigurðsson og Davíð A. Stefánsson, skipuleggjendur borgarafundanna sem haldnir hafa verið þrisvar, eiga mikið hrós skilið fyrir framtakið. Fundurinn í kvöld var mjög fjölmennur, hvert sæti skipað og staðið alls staðar. Þarna voru margir fulltrúar fjölmiðlanna í pallborði, mjög góðir frummælendur og spurningar og/eða athugasemdir fundargesta flestar beittar. Fjölmiðlamennirnir á staðnum fengu það heldur betur óþvegið, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Fram kom að öllum ráðherrum og þingmönnum hefði verið boðið að koma á fundinn - aðeins þrír þingmenn mættu, engir ráðherrar. Þessir þingmenn voru: Árni Páll Árnason (S), Guðjón Arnar Kristjánsson (F) og Pétur Blöndal (D). Þeir létu lítið fyrir sér fara en fá rós í hnappagatið fyrir að mæta. Væntanlega verður fjallað ítarlega um allt sem þarna kom fram í öllum fjölmiðlum á morgun, en RÚV tók forskot í tíufréttunum áðan.

Næsti borgarafundur verður að viku liðinni, næsta mánudagskvöld, og þá í Háskólabíói. Ég efast ekki um að fólk þyrpist á fundinn og troðfylli bíóið og það er full ástæða til þess að sjónvarpsstöðvar og útvarpsstöðvar sendi beint frá þessum fundum. Andrúmsloftið er engu líkt og á fundinum var Herði Torfasyni þakkað sérstaklega fyrir laugardagsfundina á Austurvelli með kraftmiklu lófataki.



Munið borgarafundinn í kvöld!

Í kvöld verður haldinn þriðji opni borgarafundurinn um stöðu þjóðarinnar, í þetta sinn á NASA (gamla Sigtúni) við Austurvöll. Þar ættu að komast fyrir nokkuð fleiri en í Iðnó. Ritstjórar og fréttastjórar helstu fjölmiðla landsins verða í pallborði og eins og áður verða fjórir frummælendur. Ríkisstjórn og alþingismenn eru hvattir til að mæta, hlusta og taka þátt í umræðum.

Borgarafundur 17. nóvember 2008


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband