Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Ólafur Hannibalsson um Icesave

Þessi grein Ólafs Hannibalssonar er afskaplega áhugaverð. Morgunblaðið birti aðeins hluta hennar í prentútgáfu sinni í morgun en greinin er í heild birt hér. Greinin Icesave-hamfarirnar í Hollandi eftir Þórð Snæ Júlíusson sem Ólafur vitnar í er hér og skýrsla Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega, Hagkerfi bíður skipbrot, er hér. Auk þessara greina segist Ólafur hafa byggt grein sína á bókunum Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson og Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson.

Ólafur Hannibalsson - Icesave - Moggi 6.7.09


Engar áhyggjur, landsmenn!

Þessa skopmynd eftir snillinginn Halldór Baldursson fann ég í 24 stundum frá 29. desember 2007. Mér fannst hún passa prýðilega inn í þá umræðu sem á sér stað þessa dagana.

Halldór Baldursson - 24 stundir - 29. desember 2007


Til íslenskra yfirvalda og löggjafans

Eins og þið vitið öll er hrópað á réttlæti - og það hátt. Eitt af því sem veldur andstöðu almennings við Icesave-samninginn er að höfundar hans og ábyrgðarmenn ganga allir lausir og baða sig í ríkidæmi - fé sem þjóðin lítur á sem illa fengið. Þó að bresk stjórnvöld séu kannski ekki hátt skrifuð hjá öllum um þessar mundir, hvort sem þau verðskulda það eður ei, má ýmislegt læra af þeim engu að síður.

Ég legg til að þið lesið og hlustið á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur sem hún flutti í Speglinum á föstudaginn, þann 3. júlí. Hljóðskráin er viðfest neðst í færslunni. Ég ætla að leyfa mér að birta hann hér og feitletra sérstaka kafla til áhersluauka. Pistillinn fjallar um frystingu eigna. Ég legg líka til að þið lærið af þessu og útvegið ykkur heiðarlega lögfræðinga sem ekki eru tengdir vafasömum mönnum til að semja og/eða útfæra lög um frystingu eigna. Nú þegar. Slík aðgerð myndi strax slá eitthvað á ólguna í samfélaginu.

Sigrún Davíðsdóttir - Pistlar í Speglinum á RÚV
Frysting eigna

Frysting eigna er svo öflug aðgerð að meðal enskra lögfræðinga er henni líkt við kjarnorkuvopn - og þeim er að sjálfsögðu ekki beitt af neinu kæruleysi. Frysting eigna fæst með dómsúrskurði. Þegar eignir Landsbankans hér voru frystar var það gert með dómsúrskurði.

Frystingu eigna er þó hægt að beita við ýmis tækifæri, bæði í málum sem einstaklingar höfða, í málum sem hið opinbera höfðar - og svo er frysting eigna notuð þegar felldir hafa verið dómar til að koma í veg fyrir að dæmdir glæpamenn geti áfram notað illa fengið fé.

Tökum fyrst dæmi um þetta síðasta: nýlega var lögfræðingur dæmdur fyrir innherjaviðskipti ásamt tengdaföður sínum. Lögfræðingurinn vann í fyrirtæki og frétti þar að verið væri að selja fyrirtækið. Það var því ljóst að hlutabréf í fyrirtækinu ættu eftir að hækka verulega. Tveimur dögum áður en tilkynnt var um kaupin keypti tengdafaðir lögfræðingsins hluti í fyrirtækinu. Tengdafaðirinn hafði aldrei áður keypt hlutabréf og græddi 50 þúsund pund, rúmar tíu milljónir króna.

Nokkrum mánuðum síðar fékk lögfræðingurinn ávísun upp á helming þeirrar upphæðar frá tengdaföðurnum. Fjármálaeftirlitið lét frysta afrakstur hlutabréfakaupanna meðan málið var í rannsókn. Í vor voru tengdafeðgarnir á endanum dæmdir í átta mánaða fangelsi - já hvorki meira né minna - fyrir þessi innherjaviðskipti.

Dómurinn þykir mjög strangur en er liður í því að taka innherjaviðskipti og annað markaðssvindl föstum tökum. Afraksturinn var gerður upptækur á endanum. Viðkomandi menn eru engir stórkarlar í ensku viðskiptalífi svo fréttir um fangelsun þeirra lenti ekki á neinum forsíðum. Það er hins vegar athyglisvert hvað dómurinn er þungur: átta mánaða fangelsi fyrir innherjaviðskipti í eitt skipti og illa fengnar tíu milljónir króna. Fjármálaeftirlitið hér hefur lýst því yfir að dómurinn og fleiri innherjaviðskipti sem eru í rannsókn sé ábending um að eftirlitið ætli að taka hvers lags markaðsmisnotkun mjög föstum tökum.

Einkaaðilar sem fara í mál geta farið fram á frystingu eigna rétt eins og opinberir aðilar. En svona kjarnorkuvopni má ekki veifa af neinni léttúð. Það eru ýmislegar kringumstæður sem getur leitt til þess að þetta öfluga vopn er notað. Þegar verið er að höfða mál gegn aðilum sem áður hafa orðið uppvísir að svikum eða glæpsamlegu athæfi, eða sem hafa sýnt tilburði til að koma eignum undan er þessi leið farin. Þá er viðkomandi einfaldlega ekki treyst.

En þar sem frysting getur valdið fjárhagslegum skaða verður sá sem fer fram á eignafrystingu að borga kostnaðinn sem hlýst af ef í ljós kemur að frystingin var ekki réttmæt. Og vei þeim sem brýtur gegn eignafrystingu! Það fellur undir að sýna dómstól fyrirlitningu og er einfaldlega mjög alvarlegur glæpur.

Það hefur vakið athygli að eignir bandaríska svikahrappsins Bernard Madoff voru frystar meðan mál hans var í rannsókn. Nú verða eignirnar gerðar upptækar þar sem hann hefur verið dæmdur, í 150 ára fangelsi eins og kunnugt er. Kona hans fær þó að halda eftir eignum sem eiga að duga henni til framfærslu.

Hér í Englandi hafa ekki komið upp nein svona stór fjársvikamál svo það er ekki hægt að benda á neinar hliðstæður. En kjarnorkuvopnið er til og það er notað. Lögunum var breytt fyrir nokkrum árum sem gera það að verkum að það er auðveldara en áður að bæði frysta eignir og síðan að gera þær upptækar. Áður var það flókið og seinlegt ferli að fá dómsúrskurð. Nú er þetta aðgerð sem hægt er að fá skorið úr með hröðum og einföldum hætti. Það hefur því haft í för með sér að það er nú orðið algengara að frystingu sé beitt.

Og frysting gildir ekki aðeins eignir sem viðkomandi á þegar frystingu er komið á heldur eignir sem hann fær eftir það. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að viðkomandi hafi minnsta möguleika á að selja eða eiga önnur viðskipti með eignir sem grunur er á að séu annaðhvort fengnar með sviksamlegum hætti eða eigi að fara upp í gjaldþrotakröfur eða aðrar kröfur.

Það sem menn hérlendis verða að taka með í reikninginn er að eignir þeirra geta verið frystar meðan mál eru í rannsókn. Þeir geta því vel átt von á því að einn góðan veðurdag birtist fulltrúar laganna og taki eignir eins og bíla, loki bankareikningum og öðrum aðgangi að eigum. Saksóknari þarf aðeins að færa rök fyrir að eignirnar séu hugsanlega afrakstur ólöglegrar starsemi. Þau rök þurfa ekki að vera jafn veigamikil og forsendur sem eru notaðar í rétti.

Eins og áður er nefnt eru engin stór fjársvikamál hér sem gætu verið hliðstæður mála sem hugsanlega gætu komið upp á Íslandi. Serious Fraud Office, stofnunin sem rannsakar viðamikil efnahagsafbrot, nýtir óspart frystingu eigna þar sem það þykir eiga við.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Friðhelgi heimilanna

Staksteinar Morgunblaðsins 4. júlí 2009Ég fékk tölvupóst frá vinkonu minni í morgun. Hún hafði verið að lesa Staksteina Morgunblaðsins. Henni fannst undarlegt að staksteinahöfundur skyldi gagnrýna fólk fyrir að skvetta málningu á hús auðmanna og segja: "En heimili fólks eru friðhelg. Og þau eiga ekki að vera vettvangur mótmæla af neinu tagi." Þessir sömu auðmenn hafa hins vegar svipt fjölmarga heimilum sínum af ótrúlegri ófyrirleitni og steypt öðrum heimilum í þvílíkt skuldafen að þeim eru allar bjargir bannaðar. Engin leið er að segja til um hvernig ótal heimilum mun reiða af í framtíðinni með þann skuldabagga á bakinu sem íslensku þjóðinni hefur verið skenktur... af téðum auðmönnum. Hvar er friðhelgi heimila þessa fólks? Verður tekið tillit til friðhelgi heimila þessara fjölskyldna þegar þær verða bornar út vegna skulda auðjöfranna? Ætli Staksteinn dagsins hafi íhugað það?

Staksteinn þessi segir ennfremur: "Það er glæpsamlegt að ráðast að heimilum fólks. Friðhelgi heimilisins er grundvallaratriði í samfélagi okkar." En miðað við hamfarir undanfarinna mánaða eru bara sum heimili friðhelg, önnur ekki. Sumir rétthærri en aðrir. Ef ræða á um grundvallaratriði í samfélagi okkar ættum við kannski að byrja á að ræða um réttlætið

Annar vinsæll frasi hjá þeim, sem verja útrásardólga, bankamenn og aðra auðjöfra er að höfða til tilfinninga fólks um fjölskylduna. Konurnar og börnin. "Hafa ætti í huga að einstaklingarnir, sem um ræðir, eiga flestir fjölskyldu, maka og börn, sem ekkert hafa til saka unnið og enga ábyrgð bera," segir Staksteinn. Það sagði Hannes Smárason líka í yfirlýsingu sinni frá 24. júní sem sjá má hér. Hannes segir þar: "...Engu að síður er nauðsynlegt að vanda umfjöllun um viðkvæm mál og fara hægt í að kynda undir galdrabrennurnar því að í öllum tilvikum eru börn og fjölskyldur sem tengjast viðkomandi aðilum." 

Í þessu samhengi velti ég fyrir mér hvort Hannes Smárason og aðrir hans líkar hafi íhugað afleiðingar gjörða sinna fyrir fjölskyldur sínar áður en þeir frömdu þá gjörninga sem gerðu þá að auðjöfrum á kostnað almennings á Íslandi. Áður en þeir, vitandi vits, ryksuguðu fé út úr bönkum og fyrirtækjum sem jafnvel hafði tekið marga áratugi að byggja upp og þeim tókst að rústa á örfáum árum. Ég spyr líka hvort dópsalar og -smyglarar, ofbeldismenn, nauðgarar, ótíndir þjófar og aðrir glæpamenn eigi ekki líka fjölskyldur sem þarf að taka tillit til. Geta þeir höfðað til meðaumkvunar á sama hátt? Eða allar fjölskyldurnar sem þetta fólk hefur lagt í rúst með gjörðum sínum. Hvað með þær? Verðskulda þær ekki að tekið sé tillit til þeirra? Bera þær einhverja ábyrgð?

Það þarf enginn að segja mér að eiginkonur auðmannanna hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Og einhverjar að minnsta kosti tekið þátt í því, þótt ekki væri nema að eyða peningunum til dæmis í ofurlúxusferðir eins og þessar á meðan Ísland brennur. Ef eitthvað bærist í höfði þessara kvenna vita þær, að eyðslueyririnn var illa fengið fé. Lánsfé sem íslenska þjóðin þarf að borga. Ég held líka að eiginkonurnar þurfi að hafa verið ansi meðvitundarlausar til að vita ekki að verið var að skrifa á þær eignir og nota nöfn þeirra í vafasömum tilgangi. Eins og t.d. þegar Sigurjón Þ. Árnason notaði nöfn mágkonu sinnar og eiginkonu til að komast yfir Landsbankabenzinn sinn eins og sagt var frá í DV 16. júní sl

Og það þarf enginn að segja mér að eiginkonur þessara manna hafi ekki vitað af því sem Lóa Pind Aldísardóttir lýsir hér - og tekið fullan þátt í því. Eigum við að vorkenna þessu fólki? Þótt ég myndi aldrei skvetta málningu á neins manns hús held ég samt að ég hafi ekki geð í mér til þess.


Við vitum þetta...

Ég veit ekki alveg hvað ég er búin að koma mér í. Samþykkti um daginn að vera pistlahöfundur hjá nýrri Morgunvakt Rásar 2... veit ekki hve lengi. Ég held bara í sumar. Ég verð með pistla á föstudögum... eða spjall. Þetta er í mótun. Orkuboltinn og kjarnakonan Lára Ómarsdóttir fékk mig í þetta og fyrsti pistillinn var tekinn upp hjá RÚV á Akureyri í gær. Bjössi tæknimaður var mjög góður við byrjandann og allt gekk eins og í sögu. Eftir prufurennslið sagði hann að þetta yrði ekkert betra svo við létum það bara standa.

Morgunvaktin á Rás 2

"NOOOHHH!", heyrði ég í heyrnartólunum þegar ég var búin að flytja pistilinn. "Hvað þýðir það?", spurði ég. "Þú tekur djúpt í árinni," sagði Bjössi. "Það er full ástæða til þess," sagði ég. En mér fannst ég ekkert taka of djúpt í árinni, síður en svo. Reyndar var ég búin að ákveða allt annað umfjöllunarefni en skipti um skoðun eftir fréttirnar á miðvikudagskvöldið.

Svo tók það mig miklu lengri tíma að stytta pistilinn en að semja hann. Mátti vera hámark 4 mínútur en upphaflegur pistill var 7 mínútur. Þegar þetta gerist - og ég hef reynslu af að reyna að stytta skrif mín úr 10-15.000 slögum í 5.000 slög sem er blaðagreinalengdin - finnst mér allt kjöt horfið af beinunum og skrifin/pistillinn vera komin(n) í einkennilegan skeytastíl. Þess vegna gafst ég upp á sínum tíma við að stytta pistlana mína og senda í dagblöðin. Ég er einfaldlega plássfrekari en leyfilegt er.

En hér er pistillinn, frumraun mín á þessum vettvangi - hljóðskrá hengd við neðst ef fólk vill hlusta líka.

************************

Ágætu hlustendur...

Íslenska efnahagsundrið - flugeldahagfræði fyrir byrjendurÉg er að lesa hryllingssögu í tíu köflum. Bókin heitir Íslenska efnahagsundrið og er eftir Jón F. Thoroddsen. Í henni er farið yfir aðdraganda íslenska efnahagshrunsins og persónur og leikendur í þjóðarharmleik Íslendinga. Þetta er skelfileg lesning og segir mikla sögu. Skúrkarnir eru margir og með sótsvarta samvisku. Spillingin, siðleysið og græðgin bókstaflega skvettist framan í mann af hverri síðu.

Önnur bók, Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson, var ekki síður fróðleg en sjónarhornið annað. Þriðja bókin, Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson, er samantekt sagnfræðingsins. Þessar þrjár bækur ættu að vera skyldulesning. Námsbækur í framhaldsskólum og framhaldsögur í útvarpi. Við verðum öll að vita sannleikann, þekkja forsöguna, vita hvernig á ekki að gera hlutina, hverjum má ekki treysta og læra af reynslunni. Fleiri bækur koma út með meiri upplýsingum sem við verðum að lesa til að vita sannleikann um það sem gerðist og hverjir bera ábyrgð á hruninu mikla, sem mun fylgja íslenskri þjóð um ókomna tíð og setja svartan blett á sögu hennar.

Við vitum ýmislegt nú þegar. Við vitum hvaða flokkar voru við völd. Við Sofandi að feigðarósivitum hvaða flokkar einkavinavæddu auðlindina í sjónum, bankana og fleiri fyrirtæki og stofnanir í eigu almennings. Og buðu okkur svo jafnvel að kaupa hlut í fyrirtækjunum sem við höfðum sjálf átt áratugum saman. Við vitum hvaða flokkar afnumdu höft og reglur sem gerðu spilltum og siðlausum bankamönnum kleift að setja okkur á hausinn. Við vitum hvaða flokkar prédikuðu frjálshyggju, einkavæðingu, græðgi og sérgæsku sem gróf undan réttlæti, jafnræði, samvinnu og samhjálp í þjóðfélaginu og ýtti undir misskiptingu og óréttlæti. Og við vitum að þessir flokkar hafa ekkert breyst.

Af því ég veit að við vitum þetta öll fékk ég létt áfall yfir niðurstöðu nýrrar Gallupkönnunar í fyrradag. Flokkarnir tveir, sem bera höfuðábyrgð á græðgisvæðingunni og hruninu, höfðu aukið fylgi sitt og ríkisstjórnin tapað fylgi. Erum við virkilega svona gleymin? Við vitum að leiðtogar beggja flokkanna eru auðmenn. Þeir eru líka gasprarar sem lofa upp í bæði ermar og skálmar eins og heyrist á málflutningi þeirra á Alþingi. Ég sé þá ekki fyrir mér vinna að endurheimt jafnræðis eða samfélagslegri ábyrgð í íslensku þjóðfélagi. Ég sé flokkana þeirra ekki heldur stuðla að réttlæti og alls ekki að rannsókn á hruninu. Það er af og frá. Til þess eru þeir allt of stórir leikendur í aðdraganda þess.

HruniðVið erum kannski ekki alveg sátt við núverandi stjórn. Kvörtum yfir skorti á upplýsingum og margir gagnrýna Icesave-samninginn. Fleiri atriði má nefna, eins og fáránlega sérhagsmunagæslu samgönguráðherra. En þrátt fyrir allt held ég að stjórnin sem nú situr sé skásti kosturinn. Hún er ekki öfundsverð af að taka við hrundu þjóðarbúi og skafa grómtekinn skítinn eftir fyrri stjórnir. Engar ráðstafanir eru vinsælar undir þeim kringumstæðum en látum okkur ekki detta í hug að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar myndu gera betur. Og núverandi stjórn virðist að auki vera alvara með að leita réttlætis - þótt hægt gangi. Réttlæti er grundvallaratriði og vegur mjög þungt. Er ekki rétt að gefa Jóhönnu og Steingrími tækifæri til að halda áfram að moka flórinn? Við vitum að þau gera það af heilum hug og leggja nótt við dag í þágu þjóðarinnar.

Ekki vildi ég vera í þeirra sporum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband