Færsluflokkur: Bloggar
8.11.2009
Auðmenn, tjáningarfrelsi og réttlæti
"Íslenskir útrásarvíkingar hafa umsvif í Bretlandi, þar sem meiðyrðalöggjöf er miklu strangari en á Íslandi og útgjöld vegna meiðyrðamála eru nánast óbærileg venjulegum launþegum. Til þess að höfða mál gegn íslenskum ríkisborgurum þarf aðeins að koma því í kring, að ummæli, sem stefna á fyrir, birtist einhvers staðar á ensku, til dæmis á netinu. Íslenskur auðmaður með hagsmuni í Bretlandi þarf því aðeins að sjá um slíka birtingu og höfða síðan mál í Bretlandi, og þá er þess ekki langt að bíða, að sá, sem hann stefnir, verði gjaldþrota, hvort sem hann tekur til varna eða ekki og hvort sem hann vinnur málið eða tapar því."
Þannig hefst annar hluti fréttaskýringar Eyjunnar um Auðmenn, málfrelsi og lögsögu meiðyrðamála sem birt var í gær. Fyrsti - eða fyrri hlutinn, Eiga auðmenn að geta þaggað niður gagnrýni? birtist á fimmtudaginn.
Málið sem fjallað er um í þessum fréttaskýringum er grafalvarlegt og gæti haft háskalegar afleiðingar ef ekki verður brugðist við af löggjafanum á Íslandi. Ég fjallaði um þetta í föstudagspistlinum á Morgunvakt Rásar 2 og hvet alla til að lesa líka Eyjupistlana tvo sem vísað er í hér að ofan. Hljóðskrá viðfest neðst að venju.
Ágætu hlustendur...
Mér hefur orðið tíðrætt um málfrelsið; tjáningarfrelsið sem hefur blómstrað undanfarið, einkum á netmiðlum og bloggi. Ég hef sagt, og stend við það, að þeir sem ekki lesa netmiðla og blogg fái ekki nægilega góða heildarmynd af því sem er að gerast í samfélaginu, atburðunum sem leiddu til hrunsins og því sem gengið hefur á þetta ár sem liðið er síðan.
Einhvern tíma gilti löggjöf hér á landi sem kvað á um að ekki mætti vega að æru opinberra starfsmanna. Ekki einu sinni þótt sagt væri satt. Ef sannleikurinn var talinn skaða æru viðkomandi átti að þegja. Af hverju heiður opinberra starfsmanna var álitinn heilagri en annarra veit ég ekki, en lögunum var breytt, meðal annars vegna þrýstings frá Þorgeiri heitnum Þorgeirsyni.
Nýverið féll hæstaréttardómur í máli þar sem blaðamaður var gerður ábyrgur fyrir orðum viðmælanda síns um starfsemi afar umdeilds athafnamanns á höfuðborgarsvæðinu. Fordæmalaus dómur sem vakti furðu og óhug en hefur nú verið áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Eins og prentlögin eru nú, ræður kærandinn hverjum hann stefnir - viðmælanda, blaðamanni eða útgefanda - en því og fleiru mun eiga að breyta með nýjum fjölmiðlalögum.
En nú virðist íslenskum blaðamönnum og öðrum sem tjá sig á opinberum vettvangi stafa ógn af meiðyrðalöggjöf í Bretlandi, sem mun vera strangari en gerist og gengur víða á Vesturlöndum. Netmiðillinn Eyjan sagði í gær frá hótun íslensks auðmanns um að stefna miðlinum fyrir breska dómstóla vegna skrifa blaðamanns um sig og starfsemi sína á Íslandi. Hann sagði að Eyjupistillinn, sem auðvitað var á íslensku, yrði bara þýddur yfir á ensku og Eyjunni stefnt fyrir að skaða viðskiptahagsmuni sína í Bretlandi - hverjir sem þeir eru.
Nokkuð hefur verið fjallað um þessa kæruleið í íslenskum og erlendum fjölmiðlum og viðbrögð til dæmis Bandaríkjamanna við bresku dómunum - en þeir neita að taka mark á þeim og líta á þá sem þöggun eða skerðingu tjáningarfrelsis.
Málaferli sem þessi eru rándýr og mun kostnaðurinn talinn í tugum milljóna. Hinn ákærði þarf að kosta vörn sína sjálfur og sanna mál sitt, en kærandinn virðist ekki þurfa að sanna neitt. Honum virðist nægja að dylgja um meintan skaða. Slík málaferli eru ekki á færi annarra en auðmanna, og ef ekki verður tekið fyrir þetta strax stafar tjáningarfrelsi á Íslandi - og annars staðar í heiminum - stórhætta af.
Ef ekki verður brugðist við aðförinni er hætt við að íslenskir útrásardólgar og auðmenn verði jafn ósnertanlegar og heilagar kýr eins og opinberir starfsmenn forðum og þaggi niður alla gagnrýni í krafti misvel fenginna fjármuna sinna og lagatæknilegra brellna í erlendum höfnum.
Að lokum legg ég til að íslensk lög og dómar íslenskra dómstóla snúist um réttlæti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.11.2009
Eva Joly í norska og sænska sjónvarpinu
Eva Joly var gestur Skavlans í norska og sænska sjónvarpinu í gærkvöldi. Þátturinn mun vera tekinn upp í Noregi en sendur út samtímis í báðum löndum. Mörgum er í fersku minni þegar Geir H. Haarde var gestur Skavlans í september og talaði þessa líka fínu norsku. Í þetta sinn tók ég upp sænska sjónvarpið því þar var texti sem ætti að hjálpa einhverjum - þótt sænskur sé. Eva Joly og Skavlan ræddu saman á móðurmáli beggja, norskunni.
Svt1 - Sænska sjónvarpið - Skavlan og Eva Joly - 6. nóvember 2009
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég rakst á þennan snilldarpistil eftir Jón Orm Halldórsson, dósent við HR. Pistillinn birtist í Fréttablaðinu 29. mars 2006 og heitir Ástin á gömlum skoðunum. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.11.2009
"Fjör á fjármálamarkaði"
Alltaf er gaman þegar maður rekst fyrir tilviljun á gömul skrif sem beinlínis vísa til ástandsins í dag. Hér skrifar Egill Helgason á Vísi.is og skrifin birtust í DV, að þessu sinni 2. mars 2006.
Bloggar | Breytt 9.11.2009 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.11.2009
Vinir í banka eru vinir í raun
Um daginn hringdi maður mér nákominn í bankann sinn, Kaupþing, og bað um hækkun á yfirdrætti um heilar 100.000 krónur. Hann var með 200.000 fyrir en mikið lá við. Hann skuldar ekkert annað, hvorki þeim né öðrum - ekki krónu. Er í fastri vinnu og með hreint fjárhagsvottorð. Afgreiðslan fór þannig fram að þjónustufulltrúinn tók við beiðninni og um 2 tímum seinna fékk hann ópersónulegt sms - NEI. Hann ætlar að skipta um viðskiptabanka.
Í ljósi þess hvernig bankarnir koma fram við "óbreytta" viðskiptavini sem þurfa á þeim að halda er þetta hér hreint með ólíkindum. Getur verið að þetta sé rétt?
Bloggar | Breytt 7.11.2009 kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
6.11.2009
ESB-nefndin
Við hljótum að fá meiri upplýsingar um fólkið í sérstöku samningahópunum. Kynjaskiptingin ef á heldina er litið virðist nokkuð jöfn og rétt að fagna því. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2009
"Geta ekki hætt að ljúga og stela"
Mér varð bumbult þegar ég sá þetta. Nú þyrfti að grafa upp sundurliðun á kostnaðarliðnum "sérfræðiráðgjöf" hjá bönkunum. "Þessir sömu menn sitja enn við kjötkatlana í bönkunum og virðast ekki geta hætt að ljúga og stela". Svo er spurning hver græðir á laxveiðileyfunum.
Fréttir Stöðvar 2 - 5. nóvember 2009
Þetta var í Tíufréttum RÚV áðan og mér fannst það kallast hressilega á við hina fréttina. Hvað ætli laxveiðiferðir sumarsins hefðu fætt margar fjölskyldur og hve lengi? Viljum við svona þjóðfélag?
Tíufréttir RÚV 5. nóvember 2009
Bloggar | Breytt 8.11.2009 kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
4.11.2009
Kreppan og kunningjaþjóðfélagið
Sigrún Davíðsdóttir hélt erindi um Kreppuna og kunningjaþjóðfélagið á Hádegisfyrirlestri Sagnfræðingafélags Íslands í Þjóðminjasafninu í gær. Hægt er að hlusta á erindi Sigrúnar hér, og lesa útdrátt mbl.is hér, en ég gerði eigin útgáfu af erindinu í þessu formi:
Sigrún er löngu kunn af ýmsum störfum og undanfarið hefur hún verið með stórfína pistla í Speglinum á Ríkisútvarpinu sem alla má lesa og hlusta á hér, sem og frábærar fréttaskýringar á Eyjunni hér. Hún hefur líka verið gestur í Silfri Egils og við skulum rifja upp þátt hennar þar undanfarið ár.
Silfur Egils 14. desember 2008
Silfur Egils 8. febrúar 2009
Silfur Egils 22. febrúar 2009
Silfur Egils 1. nóvember 2009
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.11.2009
Rödd og raddleysi almennings
Hvað veldur því að almenningur á Íslandi hefur ekki hafið upp raust sína að neinu marki fyrr en nú? Ekki veitt stjórnvöldum hverju sinni nauðsynlegt aðhald, látið sér nægja að kjósa á fjögurra ára fresti, yppt öxlum þegar stjórnmálamenn svíkja kosningaloforð og ganga á bak orða sinna og sagt: "Þetta er bara svona" eða "þetta kusum við yfir okkur". Fólk hefur látið sukk með almannafé og spillingu yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust svo áratugum skiptir og ekki einu sinni refsað stjórnmálamönnum og -flokkum þegar það hafði þó tækifæri til.
Vantaði þennan vettvang fyrir fólk til að tjá sig sem undanfarið ár hefur blómstrað á netinu? Ég held að það sé nú ekki eina skýringin þótt hún vegi talsvert þungt. Velmegun hefur gert okkur löt og gagnrýnislaus, auk þess sem yfirvöld hafa alltaf verið dugleg við að kveða niður gagnrýnisraddir, haft til þess tækifæri og vettvang og sagt fólki að mótmæla eða samþykkja gjörninga þeirra með atkvæðinu eftir X mörg ár - fullviss um gullfiskaminni kjósenda. Þannig hafa yfirvöld getað farið sínu fram án teljandi fyrirstöðu.
Fjölmiðlar hafa líka spilað stórt hlutverk í gagnrýnisleysinu með því að krefjast ekki skýrari svara ráðamanna eða ganga á eftir málum og krefjast rökstuðnings og sannana. Hve oft hefur maður ekki séð blaða- eða fréttamenn taka viðtöl við ráðherra eða alþingismenn um mál sem augljóst er að fréttamaðurinn veit ekkert um og hefur ekki hundsvit á. Þar er jafnvel kornungt fólk á ferðinni, reynslulaust sem hefur hvorki þekkingu né burði til að ræða við þaulreynda stjórnmálamenn sem eru vanir að geta stungið upp í fólk með einföldum frösum. Enda er veruleiki íslenskra blaða- og fréttamanna sá, að þeir fá hvorki tíma né tækifæri til að kafa ofan í mál og gera þeim almennileg skil. Hvað þá að fylgja þeim eftir.
Þó er vert að geta þáttar Egils Helgasonar í að veita almenningi rödd í Silfrinu sínu á RÚV eftir hrun. Hann er einn af allt of fáum fjölmiðlamönnum sem hefur lagt sig fram við að bjóða hinum almenna borgara að tjá sig í ljósvakamiðlum sem eru því miður allt of einokaðir af stjórnmálamönnum og þeirra skotgrafahernaði. Svo er ég líka með pistla á Morgunvakt Rásar 2 - ef einhver skyldi hafa misst af því.
Það er líka athyglisvert að skoða viðbrögð fólks við því þegar "maðurinn af götunni" tekur sig til og gerir eitthvað - segir eitthvað - mótmælir - eða hefur frumkvæði að einhverju sem hingað til hefur talist til verkefna sérstakra hópa í þjóðfélaginu. Það eru kannski stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk eða einhverjir aðrir sem "eiga" sviðið og fólk er því ekki vant að almennir borgarar láti sig nokkru skipta hvað þar fer fram. Og mér virðist eins og fólki finnist að manni komi þetta bara ekki við - jafnvel þótt málefnin snerti líf okkar og framtíð afkomenda okkar. Undarlegt.
Gott dæmi um slíkt er bréfið sem nokkrir borgarar sendu til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ég fjallaði um hér. Sagt var frá því samdægurs í nokkrum netmiðlum en síðan ekki söguna meir. Hvorki Fréttablaðið né Morgunblaðið minntust á þetta framtak í dag, hvorug sjónvarpsstöðin flutti fréttir af málinu og ég hef ekki orðið vör við að fjallað hafi verið um framtakið á útvarpsstöðvunum. Af hverju skil ég ekki. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert í öðrum löndum þar sem AGS hefur haft viðkomu með sín umdeildu vinnubrögð svo mögulega er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem hópur almennra borgara hefur beðið um fund með framkvæmdastjóra AGS.
Svo eru það viðbrögð hins almenna borgara við bréfinu. Sjá má sýnishorn við færsluna mína hér. "Það heimskulegasta sem ég hef lesið lengi" segir einn og líkir þessu við för framsóknarmanna til Noregs. Gerir ekki greinarmun á alþingismönnum og almenningi. Einn lesandi hefði heldur viljað að hópurinn skrifaði útrásardólgunum. Annar spyr hvort þetta sé "einhvers konar sjálfskipuð, ný ríkisstjórn". Enn annar virðist ekki hafa hugmynd um hvers konar fyrirbæri AGS er og heldur að sjóðurinn sé eins og notalegur tilsjónarmaður sem vilji okkur allt hið besta. Athyglisverð viðbrögð við frumkvæði almennra borgara sem láta sér ekki nægja þær skýringar sem þeim eru gefnar af valdhöfum. Í umfjöllun Eyjunnar má líka sjá viðbrögð fólks og athugasemdir. Mjög fróðleg lesning.
Þetta er orðinn ansi langur formáli að erindinu, sem er að vekja athygli á frumkvæði Gunnars Sigurðssonar, Lilju Skaftadóttur, Herberts Sveinbjörnssonar, Heiðu B. Heiðarsdóttur og fleiri sem vinna að athyglisverðri heimildamynd um efnahagsundrið á Íslandi og hrun þess. Myndin er gott dæmi um hverju venjulegt fólk - almenningur - getur áorkað með hugviti, dugnaði, samvinnu og hugsjón. Framtakið ætti að vera öðrum fyrirmynd og hvatning til að láta til sín taka á einhvern hátt. Taka þátt í að kryfja orsakir ástandsins og afleiðingar þess, sem og að móta framtíð okkar sjálfra og afkomenda okkar. Það er tími til kominn að hinn almenni borgari á Íslandi geri sér grein fyrir því hvers hann er megnugur - og að sameinuð sigrum við, hvað sem við er að etja.
Kastljós 3. nóvember 2009
Ég skrifaði pistil í byrjun ágúst um gerð myndarinnar og birti þar úrklippur úr viðtali Gunnars Sigurðssonar við þingmann breska Verkamannaflokksins, Austin Mitchell. Set það hér með til upprifjunar en tek fram að ég hef ekki hugmynd um hvað úr viðtalinu verður notað í myndinni - ef eitthvað.
Viðtalsbrot - Austin Mithcell, þingmaður breska Verkamannaflokksins
Að lokum er hér stikla fyrir myndina fyrir fólk sem vill dreifa henni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2009
Dönum kennt - Dönum bent
Ég rakst á þetta í grúski - og það er frá 10. mars 2006! Þá þegar voru farnar að koma fram efasemdir um íslenskt efnahagslíf. Íslensku auðjöfrunum fannst rétt að upplýsa Dani um sannleikann - þ.e. þeirra sannleika sem við vitum nú að var byggður á sandi. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Í sama blaði sá ég þessa frétt um hugmyndir starfshóps um hugsanleg áföll í íslensku fjármálalífi. Þar var talið æskilegt að FME hefði vald til að víkja frá stjórnum, bankastjórum eða framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja. Þær hugmyndir urðu ekki að veruleika fyrr en um seinan - og reyndar ekki búið að skipta út nógu rækilega ennþá. Guðjón Rúnarsson var nefndur til sögunnar hér - og hann stýrir ennþá sömu samtökum, sem nú heita Samtök fjármálafyrirtækja. Smellið til að stækka.
Bloggar | Breytt 4.11.2009 kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)