Færsluflokkur: Bloggar
Hópur áhyggjufullra Íslendinga skrifaði bréf til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, og fór fram á fund með honum til að fá skýr svör við ýmsum spurningum sem brenna á almenningi á Íslandi. Hópnum finnst ekki nóg að lágt settir starfsmenn sjóðsins, s.s. svokallaður "landstjóri" AGS á Íslandi, svari eða svari ekki eftir atvikum þeim spurningum sem upp koma hverju sinni og að sjóðurinn hafi sína hentisemi með framtíð þjóðarinnar og komandi kynslóða.
Hér er íslensk útgáfa bréfsins, en ensk útgáfa var send Strauss-Kahn bæði í tölvupósti og með UPS/DHL hraðsendingu fyrr í dag.
Reykjavík, 2. nóvember 2009
Hr. Dominique Strauss Kahn
framkvæmdastjóri
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
Washington, D.C., 20431
U.S.A.
Ágæti Strauss Kahn,
Íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir miklum erfiðleikum. Þeir erfiðleikar orsakast að hluta til vegna alheimskreppunnar. Ástæðan fyrir stærð vandamálsins á Íslandi er sú að íslenskir bankar, sem voru einkavæddir m.a. í samræmi við stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins snemma á þessari öld, tefldu allt of djarft. Mjög ámælisvert er að þessi þróun hafi átt sér stað án þess að íslensk stjórnvöld hafi gripið í taumana. Í kjölfar bankahrunsins leituðu íslensk stjórnvöld til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð í október 2008.
Við, undirrituð, teljum vafa undirorpið að sú samvinna sem Ísland hefur tekið upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé íslenskri þjóð til hagsbóta og viljum fá úr því skorið. Það er að renna upp fyrir okkur að stefna sjóðsins er öðru fremur að skuldsetja íslensku þjóðina til að gæta hagsmuna fjármagnseigenda. Ábyrgð Íslendinga er mikil og það er okkar að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir verði skuldsettar með þeim hætti að þær geti ekki staðið í skilum. Sem almennir borgarar á Íslandi förum við fram á skýr svör.
Skoðanakannanir sýna að meirihluti íslensku þjóðarinnar er andvígur frekara samstarfi við AGS. Þarna vegur þyngst sú staðreynd að AGS stillti íslenskum stjórnvöldum upp við vegg í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Það er óásættanlegt að alþjóðastofnun hagi sér á slíkan hátt, enda hefur þetta rúið sjóðinn því trausti sem hann hafði á Íslandi.
Þar sem hagsmunir heillar þjóðar og afkomenda okkar eru í húfi, förum við hér með fram á fund með þér, framkvæmdastjóra sjóðsins. Við viljum ræða við þig efnahagsáætlun AGS og fá skýringar á einstökum þáttum hennar. Við munum leggja fram rökstudda gagnrýni byggða á opinberum gögnum. Fundurinn getur farið fram í Reykjavík eða Washington eða annars staðar ef það hentar. Afar brýnt er að fundurinn fari fram sem allra fyrst og eigi síðar en 15. desember 2009.
Við, sem undir þetta bréf ritum, erum almennir borgarar á Íslandi. Við erum á öllum aldri, af báðum kynjum og styðjum mismunandi stjórnmálaflokka. Eftir efnahagshrunið sem varð sl. haust stóðum við fyrir opnum borgarafundum þar sem ráðherrar og þingmenn hafa mætt og svarað spurningum almennings milliliðalaust. Við teljum það heiður fyrir þig, framkvæmdastjóra AGS, að feta í fótspor fulltrúa elsta þjóðþings veraldar, Alþingis, og eiga með okkur opinn og heiðarlegan fund.
Agnar Kr. Þorsteinsson sérfræðingur í tölvuþjónustu atvinnulaus
Ásta Hafberg, verkefnastjóri Markaðsstofu Austurlands
Elías Pétursson, framkvæmdastjóri
Einar Már Guðmundsson, rithöfundur
Guðmundur Andri Skúlason, vélstjóri
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Gunnar Sigurðsson, leikstjóri
Halla Gunnarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur
Haraldur L. Haraldsson, hagfræðingur
Heiða B. Heiðarsdóttir
Helga Þórðardóttir, kennari
Herbert Sveinbjörnsson, kvikmyndargerðarmaður
Lára Hanna Einarsdóttir, þýðandi og leiðsögumaður
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður
Ólafur Arnarson, rithöfundur og Pressupenni
Hér er enska útgáfan af bréfinu.
Bloggar | Breytt 3.11.2009 kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.11.2009
Ó, mín gleymna þjóð!
"Íslendingum er ekki viðbjargandi," hugsaði ég með mér þegar ég horfði á fréttirnar í gærkvöldi þar sem sagt var frá niðurstöðum nýjasta þjóðarpúls Gallups. Til hvers er maður eiginlega að berjast? Hvað veldur því að fólk vill aftur vöndinn sem sárast beit? Vönd valdhafanna sem skópu hrunið og allar skelfilegu afleiðingar þess. Valdhafanna sem afnámu nánast skatta á auðmenn og fyrirtæki á kostnað almennings. Valdhafanna sem gáfu eigur okkar vinum sínum, samþykktu Icesave á sínum tíma og lögðu þjóðina að veði, afnámu allar reglur í fjármálaheiminum, leyfðu kvótakóngum ýmist að veðsetja auðlindir hafsins mörg ár fram í tímann eða selja orkuauðlindir fjárglæframönnum - og svo framvegis, og svo framvegis. Og þessir valdhafar frömdu fleiri glæpi gagnvart þjóðinni - ótalmarga. Er þýlundin alger? Er ekki allt í lagi?
Fólk kvartar og kveinar undan efnahagshruninu, missir vinnuna, fer á hausinn, horfir á lánin sín hækka úr hófi fram, flýr úr landi, mótmælir... en samt fá aðalhrunflokkarnir tveir samtals 49% í skoðanakönnun. Er fólki ekki sjálfrátt? Er gullfiskaminnið svona hrikalegt? Gerir fólk sér virkilega ekki grein fyrir því hvað gerist ef þessir flokkar ná aftur völdum á Íslandi? Maður spyr sig...
Mig grunar að herför Sjálfstæðismanna nú sé vegna þess að einhvers staðar sé verið að sauma að þeim og hætt sé við að ógeðslegur sannleikurinn sé að koma upp á yfirborðið. Þeir munu hætta við allar rannsóknir og reka Evu Joly ef þeir komast aftur til valda. Svo einfalt er það. Er það það sem fólk vill? Það er það sem fólk fær ef það kýs þessa flokka, svo mikið er víst. Og ég frábið mér ESB eða Icesave-saminga umræðu í þessu sambandi. Þau mál koma þessu einfaldlega ekki við. Hér er til umræðu uppgjör við fortíðina og ábyrgð á núverandi ástandi.
Rifjum upp örfá atriði - af nógu er að taka - og ekkert af þessu hefur enn verið gert upp.
Stöð 2 og RÚV í apríl 2009
RÚV 13. apríl 2009
Stöð 2 - 21. apríl 2009
Vill þjóðin virkilega láta tala niður til sín aftur í þessum stíl?
Bloggar | Breytt 2.11.2009 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
30.10.2009
Að kyssa vöndinn sem sárast bítur
Hin svokallaða skoðanakönnun sem Viðskiptablaðið lét framkvæma fyrir sig vakti nokkra athygli þegar niðurstöður voru birtar í téðu blaði í gær. Hún var eiginlega svolítið hlægileg og ég lagði út af henni í föstudagspistlinum. Hljóðskrá viðfest neðst.
Ágætu hlustendur...
Ef ástandið í íslensku þjóðfélagi væri ekki svona alvarlegt væri mér líklega skemmt. Mér fyndist samtakamáttur rógsherferðar sjálfstæðismanna sennilega bara meinfyndið sprikl þar sem þeir reyna, hver um annan þveran, að endurskrifa söguna og hvítþvo sig, flokkinn sinn og Hinn Mikla Ástsæla Leiðtoga. Enda komu sumir skríðandi úr fylgsnum sínum með pennann á lofti um leið og Leiðtoginn settist í ritstjórastólinn og enn aðrir brýndu deigu járnin og gáfu í. Og hjarðeðlið er slíkt að hörðustu áhangendur bergmála gagnrýnislaust bullið sem borið er á borð af þessum heiftúðugu harðlínumönnum.
Samt er ekki liðið nema ár frá hruni og enn koma sukk- og spillingarmál fortíðar upp á hverjum degi og hreingerningarliðið hefur ekki við að moka flórinn eftir þessa sömu menn og flokka þeirra. Er fólk nokkuð búið að gleyma þessu?
Nýjasta útspilið var að fá svokallaða skoðanakönnun um hverjum landsmenn treysta best til að leiða sig út úr kreppunni. Möguleikarnir voru eðlilega formenn stjórnmálaflokkanna - en bara fjögurra stærstu. Einnig mátti velja framkvæmdastjóra samtaka verktaka, álvera, steypu- og kvótaelítu og formann alþýðukúgunarsambands Íslands, sem af tvennu illu vill frekar hækka álögur á almenning en innheimta auðlindagjald af erlendum auðhringum og kvótakóngum.
Rúsínan í pylsuendanum var ritstjórinn. Neinei, ekki Reynir Traustason eða einhver minni spámaður! Það var að sjálfsögðu Hinn Mikli Ástæli Leiðtogi, nýráðinn ritstjóri Morgunblaðsins, sem hélt flokknum sínum og þjóðinni allri í járnkrumlu einvaldsins um langt árabil. Og svo skemmtilega vildi til að könnunin var pöntuð af blaði í eigu félaga hans, hins nýráðna ritstjórans. Þessi uppákoma smellpassar inn í valdastríðið sem geisar á miðlum hinnar valdaþyrstu harðlínuklíku.
Þessi skoðanakönnun ber augljós merki þess að niðurstaðan hafi verið fyrirfram ákveðin. Af hverju ætti annars aðeins einn af mörgum ritstjórum að hafa verið þar á blaði? Var þetta kannski bara auglýsing fyrir Morgunblaðið? Mín niðurstaða er sú, að stríðsmenn Flokksins hafi staðið að könnuninni í samráði við þrútið egó Hins Mikla Ástsæla Leiðtoga, ritstjórans í Hádegismóum. Þetta er því fullkomlega ómarktæk könnun en ég óttast engu að síður, að taktíkin þeirra virki á þann hluta landsmanna sem þekkir ekki gagnrýna hugsun og passar svo undurvel við eftirfarandi lýsingu Halldórs Laxness úr smásögunni Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933:
"Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteisi en Íslendingar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendingar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól."
Góðir landsmenn - varist úlfa í sauðargærum og valdagráðuga kúgara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
30.10.2009
Ráðleysið í kjölfar hrunsins
"Mörg lönd hefðu upplifað djúpa fjármálakreppu, bæði fyrr og síðar, Ísland skæri sig ekki endilega úr þótt fallið hefði verið dramatískt. Líka traustvekjandi að hugsanleg svik væru í rannsókn. En það sem hefur mest áhrif á afstöðu alþjóðlega fjármálageirans er hvað íslensk yfirvöld virtust lengi vel ráðlaus. Icesave er eitt dæmið og viðbrögðin reyndar skopleg á köflum. Við, sem fylgdumst með Íslandi, veltum því fyrir okkur á hverjum morgni hvaða merkilega uppákoma yrði í dag, sagði þessi bankamaður sem nefndi, að reiptog ríkisstjórnarinnar og þáverandi seðlabankastjóra hefði komið útlendingum spánskt fyrir sjónir. Í stuttu máli: Sjálft hrunið fór ekki verst með orðspor Íslands erlendis - heldur ráðleysið sem fylgdi í kjölfarið."
Sigrún Davíðsdóttir var með enn einn upplýsandi pistil í Speglinum í gærkvöldi. Ég hugsaði með mér þegar ég hlustaði - og kom sjálfri mér á óvart með því að skilja (held ég) allt sem hún sagði - að fyrir rúmu ári hefði ég ekkert botnað í þessu. Spurning hvenær maður fær diplómaskjal í hagfræði.
Hljóðskrá í viðhengi hér fyrir neðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.10.2009
Heimsmyndin og arfleifðin
Ég rakst á þessa skemmtilegu teikningu af heimsmynd Ronalds Reagan á Eyjunni og fór að skoða teiknarann nánar, David Horsey. Fann þá aðra heimsmynd sama manns, svipaða hinni og skemmtilega pælingu og skýringar. Þarna er giskað á að myndin sé frá ca. 1983-1984 og rætt um hve heimsmyndin hafi furðanlega lítið breyst. Flestir muna hver heimsmynd Georges W. Bush var, ekkert ósvipuð þessari, en vonandi fær Obama að vera nógu lengi í embætti til að hjálpa löndum sínum að kynnast umheiminum betur. (Smellið til að stækka.)
Í grúskinu rakst ég svo á þessa frábæru teikningu eftir Horsey af arfleifð Bush. Mikið væri gaman að sjá útgáfu íslenskra teiknara af arfleifð Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins. Yfir til ykkar, snillingar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.10.2009
Hlekkir hugarfarsins

Ágætu hlustendur...
Eitt af því sem einkenndi íslensku þjóðina, a.m.k. undanfarna áratugi, var að yppta öxlum og segja: "Þetta er bara svona!" þegar valdhafar misbuðu henni - og gjarnan mjög gróflega. Annars vegar vissi fólk sem var, að ekki yrði hlustað á kvartanir eða því yrði jafnvel refsað á einhvern hátt fyrir þá ósvífni að andmæla yfirvaldinu. Hins vegar var búið að heilaþvo þjóðina og afmá samfélagshugsun og náungakærleik hennar. Hugarfarið hafði verið einkavætt og hver orðinn sjálfum sér næstur. Samvinna og samhjálp var strokað út úr huglægum orðasöfnum Íslendinga.
Þetta var skelfileg þróun sem margir vonuðu að myndi snúast við eftir hrun - en það er nú öðru nær! Líklega heyrum við einna best að þetta hugarfar er enn við hestaheilsu, þegar hlustað er á yfirgengilega heimtufrekju bæjarstjórans í Reykjanesbæ og nokkurra meðreiðarsveina hans. Þeir krefjast þess að fá allt upp í hendurnar; að þéttbýlasta svæði landsins þurrausi orkuauðlindir sínar og leggi náttúruperlur í rúst til að skapa þeim nokkur störf í óarðbærum atvinnurekstri. Svo heimta þeir milljarðahöfn og þjóðin á að borga. Þarna er "ég um mig frá mér til mín" hugsjónin lifandi komin. Hvorki vilji né geta fyrir hendi til að horfa á heildarmyndina og taka tillit til náungans.
Samtök atvinnulífsins, sem eru hávær sérhagsmunasamtök, og Alþýðusamband Íslands, sem enginn veit fyrir hverja vinnur og hefur ekkert með alþýðu manna að gera lengur, taka undir í þessum frekjukór og reyna að valta yfir heilbrigða skynsemi. Talsmönnum þessara sérhagsmunahópa er fyrirmunað að skilja, að fyrirhyggju- og agaleysi er aðferðafræði fortíðar og ef við ætlum að lifa áfram í þessu landi og búa afkomendum okkar öruggt skjól, þá verðum við einfaldlega að stíga varlega til jarðar. Skipuleggja vandlega áður en við framkvæmum í stað þess að æða út í óvissuna í græðgisham með skammtímareddingar og treysta á guð og lukkuna.
Guðmundur Andri Thorsson skrifað magnaða minningargrein um Morgunblaðið á vefsíðu Tímarits Máls og menningar í vikunni. Hann sagði meðal annars þetta:
"Ég vil ekki Davíð Oddsson, Ólaf Ragnar Grímsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes Jónsson, Björgólf Thor. Ég vil ekki Sigurð Einarsson, Baldur Guðlaugsson, Existabræður, Bakkabræður, Kögunarfeðga, N1-frændur... og hvað þeir heita allir, bankaskúmarnir og viðskiptaminkarnir.
Ég vil þá ekki. Þeir eru frá því í gær; þeir sköpuðu okkur gærdaginn og eru staðráðnir í að láta morgundaginn verða á forsendum gærdagsins. Enn sjá þeir ekki sína miklu sök, sína stóru skuld, vita ekki til þess að þeir hafi gert neitt rangt. Þeir mega ekki halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, vegna þess að það hefur allt í skorist - allt hrundi, allt fór.
Ég vil ekki sjá að þeir komi nálægt því að skapa það þjóðfélag sem bíður barnanna minna og þeirra barna. Þeir standa fyrir hugmyndafræði sem má aldrei oftar trúa, aðferðir sem má aldrei oftar beita."
Þetta sagði Guðmundur Andri.
Ég skora á Íslendinga að brjótast úr hlekkjum hugarfarsins og byrja á að breyta sjálfum sér.
Ef einhver skyldi velkjast í vafa um hvaða hlekkir hugarfarsins eru einna hættulegastir er hér lítið, glænýtt dæmi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Maður er nefndur Jeff Randall og hann er með viðskiptaþátt á sjónvarpsstöðinni Sky. Í gær spjallaði hann við Tony Shearer, fyrrverandi bankastjóra Singer & Friedlander sem Kaupþing keypti á sínum tíma. Shearer fór yfir ýmislegt sem læra mætti af reynslunni og nefndi hina alræmdu lánabók Kaupþings. "Þeir brutu allar reglur." Lítum á spjallið.
Fjallað var um Tony Shearer í byrjun febrúar þegar hann kom fyrir rannsóknarnefnd breska þingsins og bar Kaupþingsmönnum ekki góða söguna. Ég skrifaði um málið á sínum tíma og birti umfjöllun Channel 4 um væntanlega yfirheyrslu nefndarinnar og um Kaupþing - Singer & Friedlander frá 2. febrúar 2009.
Hér er yfirheyrslan í þingnefndinni 3. febrúar 2009 og annar pistill hér.
Hér er svo fréttaumfjöllun um yfirheyrsluna á Stöð 2 - 3. febrúar 2009.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
25.10.2009
"Haltu þér saman!"
...hrópaði ég í tví- eða þrígang þegar ég reyndi að horfa og hlusta á vettvang dagsins í Silfrinu í dag. Þar sat kona sem greip hvað eftir annað fram í fyrir öðrum gestum, stal orðinu og þvaðraði botnlaust bull. Ein af þessum óþolandi gjammgelgjum á þingi sem kann enga mannasiði. Kom upp um fáfræði sína, vanþekkingu og getuleysi til að segja nokkurn skapaðan hlut af viti og ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum - kannski úr stjórnmálaskóla eða einhæfu skoðanaumhverfi. Svona framkoma er ekki bjóðandi áhorfendum og konan má skammast sín fyrir að eyðileggja umræðuna í eina þættinum af þessum toga sem boðið er upp á í íslensku sjónvarpi. Og því miður var hún eini fulltrúi kvenþjóðarinnar í þessum þætti.
Ég held að það sé misskilningur að opna Silfrið fyrir stjórnmálamönnum aftur. Mér er mjög minnisstæður feginleikinn sem greip um sig í þjóðfélaginu fyrir ári þegar þeim var úthýst og "venjulegu fólki" boðið að koma og ræða málin. Á meðan sá háttur var hafður á fengu allir að ljúka máli sínu, sýndu hver öðrum og þáttastjórnanda almenna kurteisi og áhorfendum þá sjálfsögðu virðingu að gjamma ekki eins og fífl, grípa orðið, tala ofan í aðra, leyfa fólki ekki að ljúka máli sínu og almennt að haga sér eins og illa upp aldar gelgjur. Áhorfendur Silfursins fengu miklu meira út úr umræðuköflum þáttanna og þeir sem voru hættir að horfa á Silfrið, að mestu leyti vegna fyrrgreindra gjammara, fóru að horfa aftur og líkaði vel.
Tveir viðmælendur Egils í dag voru með glærur. Þetta virkar ekki nógu vel - a.m.k. ekki fyrir mig. Mér finnst ekki gott að sjá hvað á glærunum stendur, jafnvel þótt skjárinn sé stór. Ég varð vör við á Fésinu í dag að fleiri voru á þessari skoðun, svo ég fékk glærur Jóns F. Thoroddsen sendar í tölvupósti og er búin að stækka þær og setja inn í þetta albúm. Fólk getur þá opnað þar og stækkað hverja glæru fyrir sig á meðan það horfir aftur á umfjöllun Jóns um gervimarkaðinn sem hér viðgekkst í fjármálalífinu. Ég vonast til að fá glærur Hjálmars Gíslasonar líka og meðhöndla þær þá á sama hátt með þeim kafla Silfursins.
Jón F. Thoroddsen í Silfri Egils 25. október 2009
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (61)