Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.10.2009
Ráðleysið í kjölfar hrunsins
"Mörg lönd hefðu upplifað djúpa fjármálakreppu, bæði fyrr og síðar, Ísland skæri sig ekki endilega úr þótt fallið hefði verið dramatískt. Líka traustvekjandi að hugsanleg svik væru í rannsókn. En það sem hefur mest áhrif á afstöðu alþjóðlega fjármálageirans er hvað íslensk yfirvöld virtust lengi vel ráðlaus. Icesave er eitt dæmið og viðbrögðin reyndar skopleg á köflum. Við, sem fylgdumst með Íslandi, veltum því fyrir okkur á hverjum morgni hvaða merkilega uppákoma yrði í dag, sagði þessi bankamaður sem nefndi, að reiptog ríkisstjórnarinnar og þáverandi seðlabankastjóra hefði komið útlendingum spánskt fyrir sjónir. Í stuttu máli: Sjálft hrunið fór ekki verst með orðspor Íslands erlendis - heldur ráðleysið sem fylgdi í kjölfarið."
Sigrún Davíðsdóttir var með enn einn upplýsandi pistil í Speglinum í gærkvöldi. Ég hugsaði með mér þegar ég hlustaði - og kom sjálfri mér á óvart með því að skilja (held ég) allt sem hún sagði - að fyrir rúmu ári hefði ég ekkert botnað í þessu. Spurning hvenær maður fær diplómaskjal í hagfræði.
Hljóðskrá í viðhengi hér fyrir neðan.
29.10.2009
Heimsmyndin og arfleifðin
Ég rakst á þessa skemmtilegu teikningu af heimsmynd Ronalds Reagan á Eyjunni og fór að skoða teiknarann nánar, David Horsey. Fann þá aðra heimsmynd sama manns, svipaða hinni og skemmtilega pælingu og skýringar. Þarna er giskað á að myndin sé frá ca. 1983-1984 og rætt um hve heimsmyndin hafi furðanlega lítið breyst. Flestir muna hver heimsmynd Georges W. Bush var, ekkert ósvipuð þessari, en vonandi fær Obama að vera nógu lengi í embætti til að hjálpa löndum sínum að kynnast umheiminum betur. (Smellið til að stækka.)
Í grúskinu rakst ég svo á þessa frábæru teikningu eftir Horsey af arfleifð Bush. Mikið væri gaman að sjá útgáfu íslenskra teiknara af arfleifð Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins. Yfir til ykkar, snillingar...
28.10.2009
Hlekkir hugarfarsins
Ágætu hlustendur...
Eitt af því sem einkenndi íslensku þjóðina, a.m.k. undanfarna áratugi, var að yppta öxlum og segja: "Þetta er bara svona!" þegar valdhafar misbuðu henni - og gjarnan mjög gróflega. Annars vegar vissi fólk sem var, að ekki yrði hlustað á kvartanir eða því yrði jafnvel refsað á einhvern hátt fyrir þá ósvífni að andmæla yfirvaldinu. Hins vegar var búið að heilaþvo þjóðina og afmá samfélagshugsun og náungakærleik hennar. Hugarfarið hafði verið einkavætt og hver orðinn sjálfum sér næstur. Samvinna og samhjálp var strokað út úr huglægum orðasöfnum Íslendinga.
Þetta var skelfileg þróun sem margir vonuðu að myndi snúast við eftir hrun - en það er nú öðru nær! Líklega heyrum við einna best að þetta hugarfar er enn við hestaheilsu, þegar hlustað er á yfirgengilega heimtufrekju bæjarstjórans í Reykjanesbæ og nokkurra meðreiðarsveina hans. Þeir krefjast þess að fá allt upp í hendurnar; að þéttbýlasta svæði landsins þurrausi orkuauðlindir sínar og leggi náttúruperlur í rúst til að skapa þeim nokkur störf í óarðbærum atvinnurekstri. Svo heimta þeir milljarðahöfn og þjóðin á að borga. Þarna er "ég um mig frá mér til mín" hugsjónin lifandi komin. Hvorki vilji né geta fyrir hendi til að horfa á heildarmyndina og taka tillit til náungans.
Samtök atvinnulífsins, sem eru hávær sérhagsmunasamtök, og Alþýðusamband Íslands, sem enginn veit fyrir hverja vinnur og hefur ekkert með alþýðu manna að gera lengur, taka undir í þessum frekjukór og reyna að valta yfir heilbrigða skynsemi. Talsmönnum þessara sérhagsmunahópa er fyrirmunað að skilja, að fyrirhyggju- og agaleysi er aðferðafræði fortíðar og ef við ætlum að lifa áfram í þessu landi og búa afkomendum okkar öruggt skjól, þá verðum við einfaldlega að stíga varlega til jarðar. Skipuleggja vandlega áður en við framkvæmum í stað þess að æða út í óvissuna í græðgisham með skammtímareddingar og treysta á guð og lukkuna.
Guðmundur Andri Thorsson skrifað magnaða minningargrein um Morgunblaðið á vefsíðu Tímarits Máls og menningar í vikunni. Hann sagði meðal annars þetta:
"Ég vil ekki Davíð Oddsson, Ólaf Ragnar Grímsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes Jónsson, Björgólf Thor. Ég vil ekki Sigurð Einarsson, Baldur Guðlaugsson, Existabræður, Bakkabræður, Kögunarfeðga, N1-frændur... og hvað þeir heita allir, bankaskúmarnir og viðskiptaminkarnir.
Ég vil þá ekki. Þeir eru frá því í gær; þeir sköpuðu okkur gærdaginn og eru staðráðnir í að láta morgundaginn verða á forsendum gærdagsins. Enn sjá þeir ekki sína miklu sök, sína stóru skuld, vita ekki til þess að þeir hafi gert neitt rangt. Þeir mega ekki halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, vegna þess að það hefur allt í skorist - allt hrundi, allt fór.
Ég vil ekki sjá að þeir komi nálægt því að skapa það þjóðfélag sem bíður barnanna minna og þeirra barna. Þeir standa fyrir hugmyndafræði sem má aldrei oftar trúa, aðferðir sem má aldrei oftar beita."
Þetta sagði Guðmundur Andri.
Ég skora á Íslendinga að brjótast úr hlekkjum hugarfarsins og byrja á að breyta sjálfum sér.
Ef einhver skyldi velkjast í vafa um hvaða hlekkir hugarfarsins eru einna hættulegastir er hér lítið, glænýtt dæmi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Maður er nefndur Jeff Randall og hann er með viðskiptaþátt á sjónvarpsstöðinni Sky. Í gær spjallaði hann við Tony Shearer, fyrrverandi bankastjóra Singer & Friedlander sem Kaupþing keypti á sínum tíma. Shearer fór yfir ýmislegt sem læra mætti af reynslunni og nefndi hina alræmdu lánabók Kaupþings. "Þeir brutu allar reglur." Lítum á spjallið.
Fjallað var um Tony Shearer í byrjun febrúar þegar hann kom fyrir rannsóknarnefnd breska þingsins og bar Kaupþingsmönnum ekki góða söguna. Ég skrifaði um málið á sínum tíma og birti umfjöllun Channel 4 um væntanlega yfirheyrslu nefndarinnar og um Kaupþing - Singer & Friedlander frá 2. febrúar 2009.
Hér er yfirheyrslan í þingnefndinni 3. febrúar 2009 og annar pistill hér.
Hér er svo fréttaumfjöllun um yfirheyrsluna á Stöð 2 - 3. febrúar 2009.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
25.10.2009
"Haltu þér saman!"
...hrópaði ég í tví- eða þrígang þegar ég reyndi að horfa og hlusta á vettvang dagsins í Silfrinu í dag. Þar sat kona sem greip hvað eftir annað fram í fyrir öðrum gestum, stal orðinu og þvaðraði botnlaust bull. Ein af þessum óþolandi gjammgelgjum á þingi sem kann enga mannasiði. Kom upp um fáfræði sína, vanþekkingu og getuleysi til að segja nokkurn skapaðan hlut af viti og ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum - kannski úr stjórnmálaskóla eða einhæfu skoðanaumhverfi. Svona framkoma er ekki bjóðandi áhorfendum og konan má skammast sín fyrir að eyðileggja umræðuna í eina þættinum af þessum toga sem boðið er upp á í íslensku sjónvarpi. Og því miður var hún eini fulltrúi kvenþjóðarinnar í þessum þætti.
Ég held að það sé misskilningur að opna Silfrið fyrir stjórnmálamönnum aftur. Mér er mjög minnisstæður feginleikinn sem greip um sig í þjóðfélaginu fyrir ári þegar þeim var úthýst og "venjulegu fólki" boðið að koma og ræða málin. Á meðan sá háttur var hafður á fengu allir að ljúka máli sínu, sýndu hver öðrum og þáttastjórnanda almenna kurteisi og áhorfendum þá sjálfsögðu virðingu að gjamma ekki eins og fífl, grípa orðið, tala ofan í aðra, leyfa fólki ekki að ljúka máli sínu og almennt að haga sér eins og illa upp aldar gelgjur. Áhorfendur Silfursins fengu miklu meira út úr umræðuköflum þáttanna og þeir sem voru hættir að horfa á Silfrið, að mestu leyti vegna fyrrgreindra gjammara, fóru að horfa aftur og líkaði vel.
Tveir viðmælendur Egils í dag voru með glærur. Þetta virkar ekki nógu vel - a.m.k. ekki fyrir mig. Mér finnst ekki gott að sjá hvað á glærunum stendur, jafnvel þótt skjárinn sé stór. Ég varð vör við á Fésinu í dag að fleiri voru á þessari skoðun, svo ég fékk glærur Jóns F. Thoroddsen sendar í tölvupósti og er búin að stækka þær og setja inn í þetta albúm. Fólk getur þá opnað þar og stækkað hverja glæru fyrir sig á meðan það horfir aftur á umfjöllun Jóns um gervimarkaðinn sem hér viðgekkst í fjármálalífinu. Ég vonast til að fá glærur Hjálmars Gíslasonar líka og meðhöndla þær þá á sama hátt með þeim kafla Silfursins.
Jón F. Thoroddsen í Silfri Egils 25. október 2009
24.10.2009
Vísdómsorð sem vega þungt
Þessum vísdómsorðum ætla ég að beina til alþingismanna og ráðherra af báðum kynjum og þakka Sólveigu Ólafsdóttur kærlega fyrir þetta frábæra innlegg í athugasemd við þennan pistil.
Í bókinni Stríð og söngur, eftir Matthías Viðar Sæmundsson, sem kom út hjá Forlaginu árið 1985 er viðtal við Guðrúnu Helgadóttur þar sem Vilmundur kemur við sögu. Guðrún hefur orðið:
"Stjórnmálalmenn eru haldnir þeirri villutrú, að tilfinningalíf og stjórnviska fari ekki saman. Flestu fólki hættir raunar til þess að skipta daglegu lífi sínu í hólf þar sem ekki er innangegnt á milli. Á daginn nota menn vitið, á nóttunni ástina, og listina við sýningaropnun á laugardagseftirmiðdögum. En vit ástar og lista er engin viska, ekki heldur stjórnviska.
Þær konur sem ganga inn í heim þeirra stjórnmála, sem karlmenn hafa búið sér til, ættu að forðast þetta sundurhólfaða líf. Við eigum einmitt að opna á milli hólfanna. Það er engin ástæða til að vera eins og heil hreppsnefnd í framan þó að maður sé á þingi. Því síður er það fólk traustvekjandi sem misst hefur lífsneistann úr augunum.
En lífsneistinn er kulnaður, af því að allir eru að þykjast. Auðvitað eru allir að skrökva, að sjálfum sér og öðrum. Engri manneskju er þetta líf eðlilegt, en fæstir þora að opna á milli. Hvers vegna skyldi ekki geta verið gaman að sitja á Alþingi? Alþingi ætti að vera staður gleði og tilhlökkunar. Til hvers erum við þarna? Til þess að gera líf fólksins gott og fallegt. Eða hvað?
Nei. Aðallega eru þarna ábúðarmiklir karlar að lesa hver öðrum tölur úr Fjárhagstíðindum og skýrslum Þjóðhagsstofnunar, dauðir í augunum. Orð eins og börn, konur, list, ást hamingja, fá menn til að fara hjá sér, þau bera tilfinningasemi vott. Og tilfinningar eiga ekki heima á Alþingi. Innst inni finnst þeim konur ekki eiga að vera þar heldur. Þeir eru svo hræddir um að við gleymum vitinu heima á morgnana og komum með ástina með okkur í vinnuna.
Stundum sakna ég Vilmundar. Hann átti það til að taka vitlausa tösku."
Mér finnst við hæfi eftir þessi vísdómsorð Guðrúnar að setja inn lagið Elska þig af plötunni Von með Mannakornum sem flutt var í Kastljósi fyrir skemmstu.
23.10.2009
Einar Már og Kjarni málsins
Mörgum eru greinarnar hans Einars Más í fersku minni - þessar sem birtust í Morgunblaðinu í fyrravetur og urðu undirstaðan í Hvítu bókinni góðu. Einar Már er kominn á kreik aftur og þar sem þessi grein er merkt númer 1 er væntanlega von á fleirum. Þótt flestir séu hættir að lesa Morgunblaðið er sumt einfaldlega skyldulesning. Þessi birtist í dag - smellið þar til læsileg stærð fæst.
23.10.2009
Svívirða, sársauki, sorg og söknuður
Ég hef verið að velta ýmsu fyrir mér, rifja upp, pæla í þjóðarsálinni, merkingu orðanna, skilning okkar á þeim og samhengi hlutanna. Ég hef verið að hugsa um fólk og hvernig það upplifir kreppuna. Ég hitti lítinn hóp af góðu fólki eitt kvöldið í vikunni. Þar sagði ung kona: "Þetta er velmegunarkreppa". Það má til sanns vegar færa - a.m.k. hjá sumum. Önnur kona sagði reynslusögu. Hún var í apóteki og fyrir framan hana í röðinni var gömul kona að sækja lyfin sín. Þegar verið var að afgreiða gömlu konuna fór hún að skjálfa - hún grét. Þarna stóð hún með aleiguna í höndunum, 12.000 krónur. Lyfin kostuðu 9.000. Átti hún að borga lyfin og eiga bara 3.000 krónur til að lifa af út mánuðinn eða...? Þessi gamla kona var ekki að upplifa velmegunarkreppu.
Eflaust er þetta veruleiki margra þótt eldri borgarar séu kannski í meirihluta af því þeir hafa ekki tök á að auka tekjur sínar á neinn hátt. En þetta er gömul saga og ný. Það hefur alltaf verið til fátækt á Íslandi og alltaf hefur verið stéttskipting í okkar "stéttlausa", litla þjóðfélagi. Kannski er þetta meira áberandi nú en alla jafna, ég veit það ekki. Maður spyr sig hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að jafna lífsgæðin betur í örsamfélagi eins og okkar - af hverju þeir sem hafa yfrið nóg og gott betur geta ekki hunskast til að hjálpa sínum minnstu bræðrum og systrum. Af hverju nokkrum einstaklingum finnst bara sjálfsagt að velta sér upp úr peningum eins og Jóakim aðalönd á meðan aðrir eiga ekki til hnífs og skeiðar.
Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki slíkan þankagang - hef aldrei gert og mun aldrei gera. Mér finnst þetta svívirðilegt og óafsakanlegt.
Svo er það sársaukinn. Við vorkennum okkur alveg óskaplega. Okkur finnst illa með okkur farið af alþjóðasamfélaginu svokallaða. Fólk, sem fætt er með silfur- eða jafnvel gullskeiðar í munni og hefur ekki hugmynd um hvað það er að líða skort eða þurfa að neita sér um nokkurn hlut, lætur eins og heimurinn sé að farast af því það fær ekki sínum prívatvilja framgengt í öllum málum svo það geti hlaðið enn meira undir sig og sína.
Mér hefur æ oftar, í öllum ósköpunum sem hafa gengið á, orðið hugsað til forsíðumyndar á tímariti sem ég kom auga á fyrir margt löngu. Ég keypti tímaritið og geymdi forsíðumyndina. Ég gerði það til að minna sjálfa mig á hvað ég hef það helvíti gott - hvað sem á gengur og þrátt fyrir allt og allt. Til að minna sjálfa mig á hve kvartanir okkar Íslendinga yfir léttvægum, efnislegum lífsgæðum eru í raun fáránlegar þegar upp er staðið. Þetta var í ágúst árið 1992 og myndin var á forsíðu The Economist. Stríðið í Bosníu var í algleymingi og þar átti fólk um sárt að binda. Ég gróf þessa forsíðu upp og skannaði hana inn í tölvuna. Sjáið þið það sem ég sá þá og sé enn? Hvað erum við að kvarta?
Ég hef líka verið að hugsa um stjórnmálin og stjórnmálamennina og -konurnar. Reyni öðru hvoru að fylgjast með umræðunum á Alþingi en gefst alltaf upp. Þvílíkur farsi! Þvílíkar gervimanneskjur og gervimálstaður sem þar er á ferðinni! Hvaða fólk er þetta eiginlega sem kosið var til að leiða þjóðina á erfiðum tímum? Gjammandi gelgjur og útblásnar blaðurskjóður? Það er undantekning ef einhver kemur í ræðustól og talar af hugsjón, skynsemi og sannfæringu. Þá hugsa ég til Vilmundar Gylfasonar og hans stutta en minnisstæða ferils á þingi. Og ég sakna heiðarlegra hugsjónamanna og -kvenna sem hægt er að treysta.
Vilmundur lést langt fyrir aldur fram og hans var sárt saknað af ótalmörgum. Blöðin voru uppfull af minningargreinum um hann, en ein er mér minnisstæðust þeirra allra. Það var persónulegasta og stórkostlegasta minningargrein sem ég hafði lesið á þeim tíma, og hún var eftir Guðrúnu Helgadóttur sem þá sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið.
Guðrún sagði m.a. í minningargrein sinni, sem bar hinn einfalda titil Til Vilmundar og birtist í Þjóðviljanum á útfarardegi Vilmundar 28. júní 1983: "Þú þoldir svo miklu meira en ætla mátti, vegna þess að þú varst svo heiðarlegur og sanntrúaður á málstað þinn, og svo ótrúlega lítið kænn. Fyrir þá eiginleika kveðja þig í dag þúsundir Íslendinga í einlægri sorg. Þeir vita að við eigum kappnóg af kænu fólki." Svo segir Guðrún seinna: "Sannleikann í þér tókst þér aldrei að dylja. Þess vegna þótti svo mörgum vænt um þig, og þess vegna var ýmsum ekkert hlýtt til þín. Sannleikurinn er ekki öllum fýsilegur fylgisveinn." (Af hverju tengi ég þessi orð við Bjarna Ben og Sigmund Davíð... og fleiri af þeirri sort?) Í grein sinni minnist Guðrún á ræðu ræðanna á Alþingi - ræðu sem enn þann dag í dag er talin sú besta sem þar hefur verið flutt. Takið eftir ummælum Vilmundar um nýja stjórnarskrá og varðhunda valdsins. Ég hengi ræðuna neðst í færsluna.
Það er þetta með stjórnmálamenn, heiðarleikann og sannleikann. Hve marga stjórnmálamenn sem nú sitja á þingi væri hægt að skrifa slík eftirmæli um?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.10.2009 kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
22.10.2009