Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.10.2009
Brátt verða hliðin opnuð
Kunningjakona mín kom heim eftir stutta dvöl í útlöndum fyrir rúmri viku. Hún hafði ekki farið út fyrir landsteinana um nokkurt skeið og henni brá þegar hún kom aftur. Þetta er næm kona og hún sagðist hafa fundið svo neikvæða orku þegar hún steig á íslenska grund. Þetta kom mér ekkert á óvart. Neikvæðnin er nánast áþreifanleg í samfélaginu. Og það á sér vitaskuld ofureðlilegar skýringar.
Þótt ég ætli ekki að fara náið út í saumana á margslungnu andrúmsloftinu á Íslandi hér og nú er ég sannfærð um að hin neikvæða orka sem kunningjakona mín fann við heimkomuma er nátengd réttlætinu. Ef það er eitthvað sem okkar þjakaða og þjáða þjóðarsál þarfnast um þessar mundir er það réttlæti.
Búið er að skrifa undir Icesave-samning sem skuldsetur okkur í marga áratugi - en þeir sem höfuðábyrgðina bera ganga lausir og baða sig í illa fengnu fé eins og Jóakim aðalönd. Réttlæti?
Seðlabankinn henti nokkur hundruð milljörðum í gjaldþrota bankana dagana fyrir hrun og ríkissjóður öðru eins til að bjarga fjármagnseigendum. Vanhæfur seðlabankastjórinn og einn af arkitektum hrunsins, sem loks tókst að losna við úr embætti með lagasetningu í febrúar, þeytir nú skítabombum út um víðan völl sem ritstjóri um leið og hann reynir að hvítþvo sjálfan sig og þátt sinn í hruninu. Réttlæti?
Virkjana- og stóriðjusinnar fara nú mikinn og heimta að allt verði virkjað, orkuauðlindir þurrausnar í margar kynsóðir, til að breiða yfir gróðærisklúður einkavinavæddra bæjarstjóra sem seldu sér og vinum sínum opinberar eigur og settu bæjarfélögin sín á hausinn. Auðlindum kynslóðanna á að fórna á altari græðgi nokkurra manna og frasarnir fljúga. Álver eða dauði! Minnir óhugnanlega á æðið sem reið yfir þegar fjármálabólan var að þenjast út. Réttlæti?
Þetta eru bara þrjú dæmi af ótalmörgum sem varpa kannski einhverri ljóstýru á hina neikvæðu orku sem svífur yfir vötnunum á Íslandi. Eygjum við einhverja von? Vonandi - en eitt er víst: Ef hrunflokkarnir ná aftur völdum getum við, sem krefjumst réttlætis og þráum það umfram allt, pakkað saman og farið. Þá verða allir hrunvaldar hvítþvegnir og haldið áfram þar sem frá var horfið í einkavinavæðingar- og spillingarferlinu. Þá verður réttlætinu ALDREI fullnægt, sannið þið til. "Alting bliver igen som för", eins og segir í textanum með myndinni af Jóakim hér að ofan.
Pistillinn minn á Morgunvaktinni síðasta föstudag fjallaði ekki nema óbeint um þetta. Jú, kannski ljóðið hans Eyþórs. Ég kaus alltént að skilja það þannig að ljónið í búrinu væri réttlætið - og að brátt verði hliðin opnuð og ljónið brjótist út. Guðir allra trúarbragða hjálpi þeim sem á vegi þess verða. Hljóðskrá er viðfest neðst. Pistlunum er útvarpað svo snemma að það er enginn vaknaður - ja... að minnsta kosti ekki ég.
Ágætu hlustendur...
Einu sinni, endur fyrir löngu, var ég stolt af að vera Íslendingur. Spáði ekkert of mikið í pólitík en fylgdist samt með. Las blöðin, horfði á fréttir, lagði saman tvo og tvo og dró mínar ályktanir. Muldraði í barminn, tautaði og tuðaði, skammaðist yfir misvitrum ákvörðunum ráðamanna en hafðist ekki að. Reyndi ekki að fá greinar birtar í dagblöðum eða leggja orð í belg á annan hátt. En ég hugsaði mitt og safnaði í hugarsarpinn.
Hvað ætli þessi lýsing eigi við marga Íslendinga? Hve margir hafa hingað til beygt sig af þýlyndi undir hið lífseiga ofbeldi stjórnmálaflokkanna, sem kveður á um að við megum bara tjá skoðanir okkar með atkvæðinu á fjögurra ára fresti? Við eigum að þegja og hafa okkur hæg þess á milli. Ekki hafa skoðanir og leyfa stjórnmálaflokkunum að athafna sig í friði - hvort sem þeir eru að efna eða svíkja kosningaloforðin, láta þjóðina styðja innrásir og stríð eða gefa eigur hennar vinum sínum. Er þetta lýðræði? Ja... að minnsta kosti ekkert venjulegt lýðræði.
Já, ég var stoltur Íslendingur. Stolt af landinu mínu og þjóðinni minni. Menntaða fólkinu, náttúrunni, hreina loftinu, tæra vatninu og jafnvel eldgosum og jarðskjálftum. Slíkt tilheyrði því að vera Íslendingur. Árið 1983 var ég á leið heim eftir stutta heimsókn til Frakklands. Þegar ég fór í gegnum vegabréfaskoðun á flugvellinum í París sagði maðurinn sem þar vann: "Ah... Ísland! Ekkert sjónvarp á fimmtudögum og í júlí - og enginn bjór!" Ég var þessu vön en honum fannst þetta skemmtileg sérkenni og við hlógum dátt saman. Ekki varð ég vör við að hann vissi fleira um Ísland. En það gerði ekkert til, ég var örugg í þeirri fullvissu, að það væri gott að vera Íslendingur.
Nú er öldin önnur. Þegar Íslendingar viðurkenna þjóðerni sitt erlendis nú um stundir - ef þeir þora því á annað borð - fá þeir glósur um að við séum þjófar og glæpamenn. Ekki er talað lengur fallega um land og þjóð, bara minnst á hrunið og spurt af hverju ekki sé enn búið að handtaka neinn fyrir að ræna þjóðina. Fyrir að rýja hana inn að skinni - ekki aðeins af fé heldur líka sjálfsvirðingu, stolti og reisn. Og við spyrjum líka: "Af hverju? Hvað dvelur réttlætinu?"
Stundum finnst mér ég vera eins og dýr í búri. Ég æði um, öskra svolítið á blogginu, en finnst ég vera innilokuð á svo margan hátt. Kefluð með hendur bundnar í skuldafangelsi og sé ekki ennþá von um betra líf eða réttlæti, almenningi til handa. En svo las ég lítið ljóð í nýútkominni ljóðabók eftir Eyþór Árnason, hið kunna ljúfmenni sem fékk verðlaun Tómasar Guðmundssonar á þriðjudaginn fyrir sitt fyrsta verk. Ljóðið heitir Dagar og það veitti mér örlitla von:
Dagar
Dagarnir eru
eins og ljón
í búri
Ég bíð í hringnum
Brátt verða
hliðin opnuð
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
17.10.2009
"Formannssynir fyrr og nú"
Mikið hefur verið rætt um hinn svokallaða "nepótisma" og "cronyisma" sem þýðir frændhygli og/eða einkavinavæðing, og er þá einkum verið að tala um stjórnsýsluna á Íslandi og aðrar áhrifastöður í þjóðfélaginu. Carsten Valgreen er fyrrverandi aðalhagfræðingur Danske Bank og einn af þeim sem skrifuðu fræga rannsóknarskýrslu árið 2006, þar sem varað var við því sem var að gerast á Íslandi en var hæddur og spottaður af íslenskum yfirvöldum og auðmönnum fyrir vikið. Í grein sem Carsten Valgreen skrifaði í janúar sl. segir hann m.a.: "Ísland er lítið, einsleitt samfélag þar sem innbyrðis tengsl eru mikil. Þetta er bæði mikill styrkleiki og veikleiki. Þetta er rót kreppunnar. Slík samfélagsgerð virkar næstum eins og fjölskylda eða eitt fyrirtæki. Útilokun tiltekinna vandamála og ákvörðun um að þagga þau niður þróast mjög auðveldlega, og af því leiðir að erfitt er að grípa inn í þegar þau hafa hreiðrað um sig." Ég nefndi þetta í pistli um Evu Joly í júní.
Rót kreppunnar, hvorki meira né minna. Það eru stór orð en sannleikurinn er sá, að embættismannakerfið og stjórnsýslan eru gegnsýrð af pólitískum bitlingum þar sem menntun og hæfileikar hafa þurft að víkja fyrir flokksskírteinum og frændsemi. Hagsmunir flokkanna og valdsins látnir ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Eins og gefur að skilja eru þar sjálfstæðis- og framsóknarmenn í yfirgnæfandi meirihluta eftir óralanga stjórnarsetu flokka þeirra. Ég hef kallað þetta fyrirbæri fimmta valdið.
Gríðarlegar sviptingar hafa verið hjá "blaði allra landsmanna", Morgunblaðinu. Þar hefur átt sér stað ein mesta hreinsun síðari ára og nú síðast hverfa frá störfum fjórir af bestu blaðamönnunum sem eftir voru. Mbl.is ku hafa sett mikið niður og Moggabloggarar hverfa á önnur mið hver á fætur öðrum. Þeir sem eftir eru kvarta yfir að hafa ekki almennilegar fréttir til að tengja bloggin sín við. Þetta sést reyndar glöggt á heimsóknartölum helstu fréttabloggaranna, sem mér virðist hafa hrapað. Og Mogginn hefur breyst verulega eins og Gunnar skrifar t.d. um hér.
Mikilfengleg árásarhrina er í gangi hjá sjálfstæðismönnum gegn bloggi, gagnrýni og frjálsri fjölmiðlun. Tjáningarfrelsið á að beisla, einkum tjáningarfrelsi Egils Helgasonar að því er virðist, því sannleikurinn má ekki koma í ljós. Það er hættuleg þróun að þeirra mati sem stórskaðar valdastrúktúrinn sem þeir voru búnir að koma sér upp. Aðalmálpípa árásarhrinunnar skreið út úr fylgsni sínu þegar Leiðtoginn settist í ritstjórastólinn og skvettir nú skoðunum sínum yfir landslýð af miklum móð og hirðir ekkert um hvað er satt og rétt. Völdin skulu endurheimt með lygum og óhróðri ef ekki vill betur til. Hér mærir hann t.d. félaga Björn og segir hann betri en Egil Helgason. Ekki vissi ég að samkeppni væri þar á milli, en takið sérstaklega eftir orðum hans um Evu Joly. Það fer um mig ónotahrollur við tilhugsunina um hvað verður um rannsóknir á gerendum hrunsins ef þetta lið kemst aftur til valda. Svo fabúlerar hann um meinta samsærisfundi nokkurra manna sem ég hef öruggar heimildir fyrir að hafi aldrei átt sér stað.
En aftur að nepótismanum. Sagt er að eigendur Morgunblaðsins geti ráðið og rekið þá sem þeim sýnist og það er strangt til tekið alveg hárrétt. Engu að síður gagnrýni ég harkalega þann gjörning eigendanna að reka blaðamenn á sjötugsaldri sem höfðu varið allri starfsævi sinni á blaðinu og áttu eftir örfá ár í eftirlaun. Löglegt kannski, en fullkomlega siðlaust. Því fylgir nefnilega mikil samfélagsleg ábyrgð að reka fjölmiðla.
Jóhann Hauksson skrifaði bloggpistil í gær um væntanlega viðbót við blaðamannaflóruna á Mogganum. Og viti menn! Það er sonur besta vinar aðal - en ekki hvað? Mannsins sem sigldi áreynslulaust inn í Hæstarétt á flokksskírteini og vináttuböndum. Jóhann vitnar í grein sem nýi blaðamaðurinn skrifaði fyrir tæpum tveimur árum þegar FLokkurinn réð son Leiðtogans, óverðugastan umsækjenda, í dómaraembætti fyrir norðan. Þar beitir blaðamaðurinn þekktum réttlætingum fyrir lögbrotum og siðleysi: Þetta hefur verið gert áður! Og fyrst þeir gerðu það megum við gera það líka. Hér er grein blaðamannsins úr Morgunblaðinu 25. janúar 2008:
Ég bendi á áðurnefnt blogg Jóhanns hvað innihaldið varðar - en vil þó sérstaklega staldra við lokaorð greinarinnar. Lýsinguna á meintu lýðræði á Íslandi þar sem pöpullinn fær að segja skoðun sína á fjögurra ára fresti en er gert að halda kjafti þess á milli og vera ekki með neitt væl, þ.e. gagnrýni. Þannig hefur lýðræðið verið túlkað af a.m.k. sjálfstæðis- og framsóknarmönnum sem sátu í valdastólum allt of lengi. En við vitum betur, einkum eftir atburði ársins.
Embættisveitingin sem hér er fjallað um er væntanlega öllum í fersku minni. Björn Bjarnason lét Árna Mathiesen ráða aðstoðarmann sinn og son Leiðtogans í embætti sem hann var talinn síst fallinn til af umsækjendum. Þráinn Bertelsson gerði þessu m.a. skil í dagbókarfærslu í Fréttablaðinu 22. desember 2007. Embættisveiting þessi er með þeim umdeildari hin síðari ár og ekki að ástæðulausu. Árni reif bara kjaft yfir gagnrýninni, var væntanlega að hlýða fyrirmælum, og viðhafði fordæmalaus orð um væntanlegt álit Umboðsmanns Alþingis. Margir vilja meina að með þessu máli hafi pólitískur ferill Árna verið ráðinn. Enda starfar hann nú loks við það sem hann menntaði sig til, dýralækningar.
Árni Mathiesen og Umboðsmaður Alþingis - mars 2008
Frá hruni hefur mikið verið talað um bætt siðferði hjá yfirvöldum, í stjórnsýslunni og meðal almennings. Staðreyndin er nefnilega sú að "hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það." Yfirvöld verða að ganga á undan með góðu fordæmi, hvaða flokkar sem eru við völd hverju sinni. Ég bind vonir við að Þjóðfundurinn í næsta mánuði taki siðferðið föstum tökum og tali enga tæpitungu. Vonandi fær þessi maður að vera með í þeirri umræðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.10.2009
Eru svona bændur bústólpar?
Svona mál ættu að vera hætt að koma manni á óvart. En ég rak engu að síður upp stór augu þegar ég horfði á fréttir Stöðvar 2 í kvöld. Þar var sagt frá fyrirtæki Brynjólfs Bjarnasonar, forstjóra Símans, Lamba ehf. Tilgangur þess er sauðfjár- og geitarækt. Brynjólfur orðinn bóndi? Ónei, ekki aldeilis. Fyrirtækið... eða réttara sagt einkahlutafélagið... var notað til að slá lán og braska. Virðist ekki hafa komið sauðfjár- og geitarækt nokkurn skapaðan hlut við.
Skuld einkahlutafélags Brynjólfs er nú þúsund milljónir - einn milljarður - sem bankinn gæti þurft að afskrifa. Ætli Brynjólfi þyki óábyrg meðferð á fé að borga skuldir sínar eins og Bjarna Ármannssyni? En eins og Lóa Pind segir í lok fréttarinnar: Það er ekki sama Jón og Jón ehf.
Fréttir Stöðvar 2 - 14. október 2009
Viðbót: Agnar minnti mig á þetta myndbrot úr Silfrinu þar sem Ari Matthíasson sagði söguna af því þegar hann lenti á fundi með mönnum þar sem verið var að kynna skattaskjól og hvernig hægt væri að koma fé undan skatti. Þarna er Brynjólfur Bjarnason einmitt nefndur til sögunnar. Skattrannsóknarstjóri brást við sögu Ara eins og sjá má hér og hér. Hvar ætli þetta mál sé statt?
Silfur Egils 25. janúar 2009
Önnur viðbót: Það er ekki að spyrja að DV og skúbbinu þeirra. Ég var minnt á að fréttin um Lamba hans Brynjólfs og skulduga geitarækt forstjórans birtist í DV í maí sl. DV hefur hvað eftir annað afhjúpað alls konar sukk, svínarí og spillingu þótt þær fréttir rati ekki alltaf í aðra fjölmiðla. Ég held að þeir sem treysta DV ekki ennþá ættu að endurskoða afstöðu sína, fara að kaupa blaðið og gera því þar með kleift að koma út oftar!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.10.2009 kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
12.10.2009
Kvartað og kveinað, volað og vælt
Undanfarið ár hefur margoft komið fram, að ein af ástæðum hrunsins hafi verið skortur á gagnrýni. Útrásardólgum, bankastjórnendum, stjórnmálamönnum og talsmönnum þeirra sem mærðu eigin hæfileika og félaga sinna var trúað og treyst. Allt of fáir settu sig inn í málin og bentu á mistökin og fáránleikann sem leyndist undir yfirborðinu. Nokkrir reyndu en voru skotnir í kaf af hagsmunaaðilum. "Niðurrifsmenn!" hrópaði auðelítan hástöfum og útskúfaði gagnrýnisröddunum.
Hingað til hefur það talist góður siður hjá öllu skynsömu, heiðarlegu fólki að læra af reynslunni. Gera ekki sömu mistökin æ ofan í æ. Sem þýðir a.m.k. í mínum huga að nú gagnrýnum við það sem okkur þykir gagnrýnivert og pukrumst ekkert með þá gagnrýni. Í því sambandi verðum við að hafa ýmislegt í huga - m.a. þá staðreynd að enn eru talsmenn og útsendarar gróðahyggjunnar sem knésetti okkur við völd víða í samfélaginu. Þeir eru ekki á því að breyta um kúrs og vilja halda áfram að höndla með samfélagið að vild og eftir eigin hentisemi. Þeir væna gagnrýnendur um mannorðsmorð ef einhver dirfist að setja út á orð þeirra eða gjörðir. Gagnrýnin er líka kölluð McCarthyismi, sem er ein fáránlegasta og siðlausasta samlíking sem hugsast getur. Fólk sem þannig talar þekkir hvorki né skilur söguna og alvarleika McCarthyismans í Bandaríkjunum um og eftir miðja síðustu öld. Það ætti að skammast sín fyrir að líkja réttmætri gagnrýni íslensks almennings á spillta hrunvalda við slíkan ósóma.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, skrifar innblásna grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fetar í fótspor Sigmundar Davíðs og líkir skósveinum útrásardólga við fólk sem var ofsótt fyrir skoðanir sínar í tíð McCarthys. Þeir eru reyndar ekki fyrstir til að gera það. Í mars sl. skrifaði ég pistil um samskonar gagnrýni - Eru auðmenn "kommúnistar" samtímans? Þá var hægri hönd Ólafs Ólafssonar að kveinka sér við gagnrýni. Lítum á harmakvein Árna Sigfússonar.
Árni fellur í nákvæmlega sömu gryfju og Sigmundur Davíð hér þar sem hann segir m.a. "...að þessir menn hafi einhvern tíma tengst Landsbankanum eins og líklega tugir þúsunda annarra Íslendinga..." og leggur þar að jöfnu vini og viðskiptafélaga Björgólfs Thors og saklausa viðskiptavini bankans. Árni segir: "En á Íslandi í dag virðist gilda að þeim sem hafa á einhvern hátt komið að samstarfi við fyrirtæki þekktustu nafnanna í íslensku útrásinni er att fyrir nornaveiðara". Hverslags dómadagsvitleysa er þetta? Skilja þeir ekki að sumir eru einfaldlega vanhæfir til vissra verka og ábyrgðarstarfa? Traust almennings var fótum troðið og sá trúverðugleiki sem nauðsynlegur er í samfélaginu hefur ekki verið endurreistur - og verður ekki fyrr en heiðarlegt uppgjör hefur farið fram. Meðal annars uppgjör Suðurnesjamanna við Árna Sigfússon, sem nú hefur rúið Reykjanesbæ inn að skinni, selt allar eigur bæjarins og afnotarétt orkuauðlindarinnar á Reykjanesi að auki.
Gagnrýni og tortryggni almennings beinist ekki að blásaklausum, almennum starfsmönnum banka eða annarra fjármálafyrirtækja heldur þeim, sem voru innstu koppar í búri og tóku fullan þátt í þeirri spillingu, græðgisvæðingu og blekkingu sem setti efnahag Íslands á annan endann. Slík gagnrýni á fullan rétt á sér, er í hæsta máta eðlileg og heldur vonandi áfram á fullum dampi framvegis.
Árni rifjar upp kommagrýluna sem veifað var framan í íbúa Vesturlanda á McCarthy-árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Hann segir að margir Vesturlandabúar hafi óttast hættuna af hugmyndafræði kommúnista og séð hana birtast í árásum á frelsi fólks, gerræðisstjórnum, fátækt, einræði og ofbeldi. Árásir á frelsi, gerræðisstjórnum, einræði og ofbeldi. Er hann að lýsa stjórnarháttum Davíðs Oddssonar? Mér sýnist það.
Og nú geysast helsárir vogunarsjóðsmenn fram á ritvöllinn (sjá viðhengi neðst í færslunni) og tala um "óhróður blogglúðrasveitar Samfylkingarinnar". Ég verð að hryggja þá með því, að henni tilheyri ég að minnsta kosti ekki, né heldur Agnar, Jenný og margir fleiri sem hafa tjáð sig um þetta mál. Sigmundur Davíð, Árni Sigfússon, vogunarsjóðsmenn og aðrir sem nú kveina sáran undan réttmætri og heilbrigðri gagnrýni almennings verða að átta sig á því, að ekki liggja allir í flokkspólitískum skotgröfum og láta leggja sér orð í munn þótt þeir þekki kannski ekki önnur viðmið sjálfir. Vita ekki að fólk getur haft skoðanir þótt það tengist ekki pólitískum flokki. Sem betur fer er til nóg af fólki með gagnrýna hugsun sem býr yfir heilbrigðri skynsemi og réttlætiskennd og lætur ekki sérhagsmuni eða flokkspólitíska blindu villa sér sýn eða leggja sér orð í munn. En kannski er ekki nema von að menn, sem sjálfir láta stjórnast af eigin-, sér- og flokkshagsmunum, geri sér enga grein fyrir því.
Við munum sjá meira af yfirlýsingum eins og frá Árna Sigfússyni, Sigmundi Davíð, vogunarsjóðsmönnum og ýmsum meðreiðarsveinum útrásardólganna. Þeir eru í vörn því veldi þeirra stendur höllum fæti. Ef réttlætið nær fram að ganga í íslensku þjóðfélagi sjá þeir sæng sína upp reidda. Þeir munu halda áfram að kalla eðlilega gagnrýni McCarthyisma og gagnrýnendur skríl, kommúnistadrullusokka eða blogglúðrasveitir andskotans ef því er að skipta. En við megum aldrei aftur láta þagga niður í röddum réttlætis, sannleika og heilbrigðrar skynsemi.
Verum vel á verði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
11.10.2009
Tortryggni, teygðar meiningar og tengsl
Það var ekki ætlun mín að skrifa meira alveg strax um meðreiðarsveina Sigmundar Davíðs og Höskuldar á fundum þeirra með þingmönnum í Osló. Ekki fyrr en ég hef fengið meiri upplýsingar. En tvennt varð til þess að ég ákvað að nefna nokkur atriði í viðbót.
Fram hefur komið sá undarlegi skilningur einhverra - eða misskilningur - að tilgangur minn eða heimildamanns míns hafi verið að kasta rýrð á erindi þeirra félaga til Osló og göfugan tilgang. Svo er alls ekki. Ég hef ekkert minnst einu orði á skoðun mína á þeim hluta málsins og ætla ekki að gera. Þeir höfðu með sér fjóra aðstoðarmenn og ég gerði aðeins athugasemd við tvo þeirra. Hér eru engar samsæriskenningar á ferðinni, bara verið að benda á staðreyndir sem blasa við.
Sigmundur Davíð gerði að mínu mati mikil mistök í gær sem kasta rýrð á tilgang hans með förinni, hversu göfugur sem hann kann að hafa verið. Mistökin kristallast í viðtölum við báðar sjónvarpsstöðvarnar, RÚV og Stöð 2. Hlustið á manninn.
Hér vogar Sigmundur Davíð sér að gera lítið úr ofureðlilegum ótta, tortryggni, reiði og vanþóknun fólks á þeim mönnum sem settu íslenskt þjóðfélag á hausinn og samverkamönnum þeirra. "Á Íslandi tengjast allir einhverjum á einhvern hátt," segir Sigmundur Davíð og gerir ekki greinarmun á vogunarsjóðum, skúringakonum og leikfangabúðum. Er auðmaðurinn Sigmundur Davíð þarna að verja félaga sína, hina auðmennina? "Ég veit ekkert um hvort einhverjir sem voru með okkur á þessum fundum hafi einhvern tíma verið viðskiptafélagar Björgólfs Thors," segir Sigmundur Davíð og fer svo að tala um nornaveiðar og McCarthyisma. Mér finnst ég hafa heyrt svona kjaftæði fyrir ekki svo ýkja löngu - í margar vikur eftir hrun þegar þáverandi stjórnvöld voru upptekin við að persónugera ekki hlutina. Síðan segir Sigmundur Davíð: "Ætla menn að troða þetta allt niður í svaðið af því þeir hafi hugsanlega þekkt einhvern sem var einhvern tíma með einhverjum útrásarmanni." Ja, hver skollinn... hugsaði ég með mér. Annaðhvort hefur tunguliprum töffurunum tekist að blekkja Sigmund Davíð svona hressilega eða eigin- eða pólitískir hagsmunir bera samvisku hans ofurliði.
Sigmundur Davíð á að vita betur - og gerir það. Hann er í ábyrgðarhlutverki í þjóðfélaginu og honum leyfist ekki hvað sem er. Mennirnir tveir í vogunarsjóðnum eru ekki bara "einhverjir sérfræðingar" - þeir eru vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thors Björgólfssonar - fyrrverandi aðaleiganda bankans sem bjó til Icesave. Hér er ekki um að ræða að þeir hafi "hugsanlega þekkt einhvern sem var einhvern tíma með einhverjum útrásarmanni". Og ég skal hengja mig upp á að Sigmundur Davíð veit þetta mætavel. Ef ekki skal ég gefa honum vísbendingar:
Vogunarsjóðurinn Boreas Capital Fund tengist Björgólfi Thor á a.m.k. tvennan hátt - fyrir utan vináttuna - við meðreiðarsveina Sigmundar Davíðs. Sjóðurinn var... ég held að það sé kallað að vera vistaður hjá... Landsvaka, sem er hluti Landsbankans. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því, að þar hafi Boreas Capital komist upp með ýmislegt af því þetta voru vinir Bjögga.
Eins og áður hefur komið fram var Boreas Capital stofnað um mitt ár 2007. Í þessari frétt kemur fram að sjóðurinn lokaði fyrir nýja fjárfesta í ágústlok 2007 og var fjárfestingargeta hans þá 126 milljónir evra sem á núvirði eru rúmir 23 milljarðar íslenskra króna. Hér er ársfjórðungsuppgjör Straums fyrir 3. ársfjórðung 2007. Takið eftir að á bls. 23 er sagt að eignarhlutur Straums í Tanganyika Oil Company er 32 milljónir evra.
Á 4. ársfjórðungi er hluturinn kominn niður í 20 milljónir, en aftur á móti á Straumur nú 19 milljónir evra í... jú, einmitt - Boreas Capital Fund - sjá bls. 39. Þessi hlutur Straums er heil 15% af fjárhæðinni sem Boreas Capital lagði upp með í lok ágúst þetta ár, 126 milljónunum.
Á 1. ársfjórðungi 2008 er hlutur Straums í Tanganyika Oil 28 milljónir evra og áfram19 milljónir í Boreas Capital, en á 2. ársfjórðungi er hluturinn í Tanganyika horfinn og hluturinn í Boreas Capital 18 milljónir. Spurning hvort þetta sé sami Tanganyika hluturinn - eða einhver annar. Á þessum tímapunkti virðist Boreas Capital sjóðurinn hafa skroppið saman og var orðinn 10 milljarða virði eins og sjá má hér í stað 23. milljarða rúmu ári áður.
Stökkvum nú fram í 3. ársfjórðung 2008 - plús október og kíkjum í sérstaka Fjárfestabók. Þarna eru inni fyrstu 10 mánuðir ársins 2008 og þar hefur hlutur Straums í Boreas Capital hækkað upp í 24 milljónir evra. En eitthvað gerist í nóvember og desember 2008 því í árslok, í lok 4. ársfjórðungs, er eignarhlutur Straums í Boreas Capital horfinn. Liðurinn "other", þ.e. önnur óskráð fyrirtæki, stekkur hins vegar úr 86 milljónum evra í 173 milljónir. Eins og sjá má á þessari mynd var Boreas Capital Fund einn af 20 stærstu hluthöfum í Straumi í lok október 2008. Stjórnarformaður og aðaleigandi Straums var Björgólfur Thor Björgólfsson, æskuvinur Franks Pitt, stjórnarformanns Boreas Capital. Straumur varð gjaldþrota í mars 2009.
Þetta er sett hér fram til að sýna tengsl. Ég er ekki að halda því fram að viðskiptin sem vísað er í séu að neinu leyti ólögmæt - það veit ég hreinlega ekkert um og hef ekki forsendur til að meta það. En ég efast ekkert um að viðskiptatengsl þessara manna séu miklu meiri og flóknari en ég get nokkurn tíma skilið.
Málið er að Sigmundur Davíð og Höskuldur gerðu mikil og stór mistök með því að taka með sér tvo fulltrúa vogunarsjóðs, sem jafnframt eru vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thors, á fund norsku kollega sinna. Frá því hrunið átti sér stað og sannleikskornin hafa komið upp á yfirborðið eitt af öðru hefur oft verið sagt að Ísland hafi verið einn stór vogunarsjóður. Það er bæði landinu til hnjóðs og raunsönn lýsing á starfsemi vogunarsjóða.
Annars vegar er það blaut tuska framan í þjóðina að taka vini og viðskiptafélaga eins aðalleikarans í hruninu með sér. Hins vegar eru það hrikaleg skilaboð til norsku þingmannanna að taka menn úr vogunarsjóði með til að biðja um lán - hversu göfugur sem tilgangurinn er. Það er eins og að biðja um pening með spilafíkil við hliðina á sér.
Mogginn er orðinn nokkurs konar barómeter. Allir vita að hinum nýja ritstjóra þóknuðust Björgólfsfeðgar - enda gaf hann þeim Landsbankann og hefur liðið þeim hvaðeina sem þeim hefur dottið í hug. Geir Haarde sagði þegar hrunið var að bresta á að hann talaði alltaf við Björgólf Thor þegar hann væri á landinu. Ábending mín í síðasta pistli (lesið athugasemdir Magnúsar nr. 53, 54 og 57) hefur þótt frétt í velflestum fjölmiðlum og um málið fjallað í Pressunni, á Eyjunni, í DV og sjónvarpsfréttunum hér að ofan. Fjölmargir bloggarar hafa ýmist fjallað sjálfir um málið eða linkað í mitt. En hvað segir Mogginn? Ekkert á mbl.is svo ég viti en minnst á málið í þessari grein í sunnudagsmogganum. Þetta segir í greininni um málið:
Svo mörg voru þau orð. Ritstjórinn stendur með sínu fólki og er að undirbúa nýja stjórn til að gæta sérhagsmuna ýmiss konar. Spurning hvort hann sé að biðla til Framsóknar...
9.10.2009
Getur einhver útskýrt þetta?
Nú skil ég hvorki upp né niður og bið lesendur um aðstoð. Eins og alþjóð veit eru tveir framsóknarmenn í Noregi að kynna stöðu efnahagsmála á Íslandi. Kannski að fiska eftir láni. Stóru láni. Fram kom í fréttum RÚV í gærkvöldi að þeir hafi hitt fulltrúa allra flokka á norska stórþinginu. Þeir eru sem sagt í Noregi sem stjórnmála- og alþingismenn, ekki einkaaðilar. Lítum á fréttina.
Ég er með ómanngleggri manneskjum og á yfirleitt erfitt með að púsla saman nöfnum og andlitum. Þetta er genetískur galli. Ekki að ég hafi þekkt þessa náunga, það gerði ég ekki. En mér barst tölvupóstur frá lesanda sem benti á þetta og ég kannaði málið. Ég sé ekki betur en að ábendingin sé réttmæt.
Í júní 2007, á hápunkti gróðærisins, var stofnaður vogunarsjóður (hedge fund) sem heitir Boreas Capital. Eins og sjá má ef smellt er á linkinn er þetta platsíða. Ekkert á bak við hana frekar en síðu þessa fyrirtækis, sem ku hafa velt milljörðum en er nú gjaldþrota. Maður fær því upplýsingar á erlendum síðum og innlendum, því hér er nýleg frétt um að fjárfestingar sjóðsins hafi skilað 70% ávöxtun í miðju hruni. Hér er enn nýrri frétt um gagnrýni sjóðsstjóra vegna olíumála Íslendinga - ímyndaðra eða raunverulegra. Strákarnir hafa líklega ætlað að græða á olíuauðlindinni. Lái mér hver sem vill, en ég er tortryggin gagnvart svona fréttum eftir það sem á undan er gengið.
Boreas Capital vogunarsjóðurinn mun tengjast Landsbankanum og/eða Landsvaka í gegnum einhvers konar umboðsmennsku. Ég kann þó ekki að greina frá þeim tengslum frekar og læt mér fróðari um það. En vert er að kynna sér skilgreiningu á hvað vogunarsjóðir eru og hætturnar af þeim hér.
Stjórnarformaður Boreas Capital er Frank Pitt og einn af stjórnarmönnum, eigendum og stofnendum vogunarsjóðsins er Ragnar Þórisson. Báðir hafa þeir ýmis tengsl við banka og einstaklinga, m.a. segir hér að þeir séu vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thors, eins aðaleiganda gamla Landsbankans.
Og þá er það stóra spurningin: Hvað voru tveir forsvarsmenn þessa vogunarsjóðs að gera með framsóknarmönnunum Sigmundi Davíð og Höskuldi í Osló í gær? Ef til vill er til eðlileg skýring á því og þá væri auðvitað mjög fróðlegt að heyra hana. Einhver?
Frank Pitt lengst til vinstri og tvær smámyndir - Ragnar Þórisson næstur og ein smámynd.
*******************************************
Ábending frá lesanda: Boreas Capital er skráð til húsa að Hellusundi 6 í Reykjavík. Þar er einnig til húsa fjárfestingarfélagið Teton, en stjórnarformaður þess er Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (86)
9.10.2009
Ég fann mikið til...
...með Birni Þorra, alveg eins og Marinó, þegar hann sat andspænis samfylkingarþingmanninum Magnúsi Orra Schram í Kastljósi í gærkvöldi til að ræða aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Það er erfitt að vera í þeirri aðstöðu. Ætla mátti að Magnús Orri neitaði að skilja. Hann ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum og maður fékk á tilfinninguna að hann hefði ekki grænustu glóru um hvað hann var að tala. Hann heyrði ekki í Birni Þorra, skildi hann líklega ekki, og hélt bara áfram í frasafílingnum. Minnti óhugnanlega á Árna Pál.
Veit Magnús Orri ekki hvað höfuðstóll er? Skilur hann ekki að vextir og kostnaður er reiknaður af höfuðstóli lána? Fattar hann ekki að verðtryggingin bætist við höfuðstólinn? Veit hann ekki að húsnæðis- og bílalán í erlendri mynt líta allt öðruvísi út í dag en fyrir rúmu ári, hvað þá tveimur? Nær hann ekki að það er ekki sök lántakenda, heldur auðmanna, bankamanna, fyrri ríkisstjórna og annarra gráðugra áhættufíkla? Sama má segja um vísitölutryggðu lánin þótt þau hafi ekki hækkað nándar nærri eins mikið. Skilur Magnús Orri ekki að það er grundvallaratriði að leiðrétta höfuðstólinn? Meira að segja ég skil það - og er ég þó ekki efnahagslega vaxin. Ég beini þeim tilmælum til Samfylkingarinnar að senda næst einhvern sem veit hvað hann er að tala um þegar mál, sem eru lífsspursmál fyrir mestalla þjóðina, eru til umfjöllunar. Ekki smástrák á rangri hillu sem vanvirðir heilbrigða skynsemi. Eru kannski "lausnir" ríkisstjórnarinnar í stíl?
Hagsmunasamtök heimilanna hafa unnið gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf fyrir skuldsettar fjölskyldur í landinu - hvað allir athugi! Samtökin ályktuðu um "lausnir" ríkisstjórnarinnar. Þar innanborðs er fólk sem hefur mikla þekkingu á því sem við hin og botnum ekkert í. Einn af þeim er Marinó G. Njálsson sem skrifaði bloggpistil eftir Kastljósið og bókstaflega valtaði yfir Magnús Orra og málflutning hans. Ég hvet alla til að lesa pistil Marinós sem er skýr og skilmerkilegur eins og allt sem hann lætur frá sér fara. Lesið líka styttri pistil Baldvins Jónssonar. Þarna er Baldvin að tala um niðurfærslu lána milli gömlu og nýju bankanna.
Ef einhver veit ekki hvað þar fór fram er hér dæmi: Jósafat skuldaði gamla Landsbankanum 20 milljónir í húsnæðislán. Nýi Landsbankinn "kaupir" skuldina af þeim gamla á 10 milljónir. Það er 50% niðurfærsla eða afskrift. EN... Nýi Landsbankinn rukkar Jósafat ekki um 10 milljónirnar, heldur 20 eins og upprunalega skuldin kvað á um. Jósafat nýtur því í engu niðurfærslunnar eða afskriftarinnar, heldur ætlar nýi bankinn að innheimta skuldina sem hann fékk á hálfvirði í topp. Mér skilst að þannig sé farið um öll húsnæðislán bankanna.
Á meðan þessu fer fram fá vildarvinir skilanefnda gömlu bankanna afskrifaðar milljarðaskuldir og halda fyrirtækjum sínum og eignum. Er nema von að fólki sé misboðið?
Kastljós 8. október 2009
Viðbót: Talað var við Marinó G. Njálsson og Árna Pál Árnason í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Marinó skrifaði pistil um málflutning Árna Páls og ég hengi upptöku með viðtölunum við þá hér fyrir neðan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
7.10.2009
Við borgum ekki!
Alltaf er hollt og nauðsynlegt að rifja upp. Það er nefnilega gert ráð fyrir því að við gleymum og höfum ekki aðgang að upplýsingum. Nú er það Kastljósviðtalið fræga 7. október 2008. Í tengslum við þetta bendi ég á bloggfærslur Vilhjálms Þorsteinssonar og Egils Helgasonar og athyglisverðar umræður í athugasemdakerfum þeirra.
Kastljós 7. október 2008
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.10.2009 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.10.2009
Dúllurassinn Davíð
Síðast þegar ég reyndi að grínast og vera kaldhæðin misheppnaðist það gjörsamlega. Kjarni pistilsins fór alveg fram hjá lesendum og ég tók á það ráð að endurbirta hann næstum strax. Ég var tekin alvarlega og hét sjálfri mér að reyna þetta aldrei aftur. Þetta er því ekki kaldhæðinn pistill. Seiseinei. Algjör misskilningur.
En Davíð Oddsson er dúllurass. Ég komst að því á sunnudaginn var þegar ég las leiðarann hans í Mogganum sem bar yfirskriftina "Um bloggara og gleðigjafa". Þessi elska var að dásama bloggara, þar á meðal mig. Ég tók þetta allt til mín... eðlilega. Ég fékk auðvitað bakþanka vegna þess sem ég hef skrifað um Davíð og spurði sjálfa mig hvort ég ætti að fá samviskubit. Hvernig getur mér mislíkað Davíð fyrst hann er svona hrifinn af mér?
Í leiðaranum kallar Davíð mig skynsama og velmeinandi og segir að bloggið mitt sé læsilegt og að ég sé góður penni. Hann segir mig grandvara og fróða og að ég komi að upplýsingum í skrifum mínum sem ekki hafi ratað inn í venjulega fjölmiðla. Að umræður sem spinnast af skrifum mínum hafi í einstökum tilfellum haft áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru í þjóðfélaginu eða opni augu manna fyrir nýjum sannindum.
Og Davíð heldur áfram að mæra mig af sinni alkunnu snilld. Hann segir að ég haldi úti vefsíðu af miklum myndarskap og hafi með skarplegum athugasemdum heilmikil áhrif á umræðuna.
Ég roðnaði þegar ég las þetta. Var upp með mér og fann svolítið til mín. Svona eins og þegar barni er hrósað fyrir að taka fyrstu skrefin. Þessi elska erfir ekki alla skammarpistlana mína og finnst ég bara helvíti góð. Aldrei hefði ég trúað þessu upp á þennan krúttmola. En svo bregðast krosstré...
Leiðari Morgunblaðsins 4. október 2009
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)