Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Spillingarbælið Ísland

Ég hef aldrei skilið af hverju Ísland mælist svo óspillt hjá Transparency International sem mælir spillingu í stjórnsýslu 180 þjóða heims. Við vorum í 7. sæti síðast yfir MINNSTA spillingu, þar áður í 6. sæti og höfðum þá reyndar hrapað úr því fyrsta. Ég skrifaði um spillingu t.d. hér, hér, hér og hér. Reyndar um lögbrot ráðamanna líka.

Af nógu er að taka þegar spilling er annars vegar í stjórnsýslunni og víðar á Íslandi. Í dag gekk tölvupóstur ljósum logum milli manna og bloggsíður voru undirlagðar af efninu. Staðfest var í kvöldfréttum Ríkisútvarps og beggja sjónvarpsstöðvanna að efni tölvupóstsins ætti við rök að styðjast: Kaupþing hafði afskrifað skuldir valinna starfsmanna, væntanlega skuldir sem þeir höfðu komið sér upp vegna kaupa á hlutabréfum í bankanum. Þetta gerðist rétt fyrir hrun bankanna. Upphæðin er sögð vera um 50 milljarðar, peningar sem við hin þurfum að borga því verðmæti bankans lækkaði auðvitað sem þessu nam. Spilling? Ekki spurning. Lögbrot? Örugglega.

Þúsundir Íslendinga eru með útistandandi lán í bönkunum, fjöldi fólks átti hlutabréf í þeim og hafði jafnvel veðsett eignir til að kaupa þau. Þetta fólk fær væntanlega ekki að afskrifa skuldirnar þótt eignin sé töpuð. Ég er með húsnæðislánið mitt í Kaupþingi og það hefur hækkað um nokkrar milljónir á skömmum tíma þótt það sé í íslenskum krónum en ekki erlendri mynd. Það er um það bil að verða mér ofviða. Ætli ég geti fengið það afskrifað hjá bankanum?

Rannsókn er hafin á starfsemi gömlu bankanna þriggja. Það á að vinna skýrslu um þessa banka og kanna hvort ástæða sé til lögreglurannsóknar á starfsemi þeirra síðustu mánuðina fyrir hrunið. Eins og sést á dæminu hér að ofan er svo sannarlega ástæða til þess. Til starfans valdi Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara og Boga Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknara. Svo "óheppilega" vill hinsvegar til að sonur Valtýs er m.a. forstjóri Exista, aðaleiganda gamla Kaupþings og sonur Boga m.a. forstöðumaður Stoða, stærsta hluthafa gamla Glitnis. Eru þeir Valtýr og Bogi vanhæfir til starfans? Að sjálfsögðu! En þeim finnst það ekki. Spilling? Pottþétt.

Maður gerir vel við vini sína, eða hvað? Hvað er rúm milljón á mánuði á kostnað Reykvíkinga? Það er að minnsta kosti svolítið minna en andvirði 500 milljónanna af peningum Reykvíkinga sem OR samdi um að borga Sveitarfélaginu Ölfusi gegn greiðvikni í skipulags- og byggingamálum vegna virkjana. Spilling? Það er nokkuð ljóst.

Augu heimsins hvíla á okkur. Erlendir fjölmiðlar fylgjast grannt með hvað hér er að gerast og hvernig tekið er á því. Aðgerðarleysi stjórnvalda hefur vakið furðu og þá einkum að enginn hafi verið látinn sæta ábyrgð, ekki einu sinni aðalbankastjóri Seðlabankans sem hæðst er að fyrir vanhæfni um víða veröld. Maðurinn sem gaspraði um Rússalánið og lýsti því yfir að ekkert yrði borgað af erlendum skuldum bankanna. Nú eiga tveir ríkissaksóknarar að rannsaka m.a. syni sína. Hvar í veröldinni myndi þetta vera liðið?

Nafna mín Júlíusdóttir sagði: VÖNDUM OKKUR. Ég tek undir með henni og hvet fólk eindregið til að kíkja á þessa bloggfærslu hjá Bylgju, sem ég sá vísað í hjá Kristjönu, bloggvinkonu. Þvílík sjálfsblekking í gangi þarna! Eða trúðu þeir þessu kannski?

Mbl. 2. nóv. 2008 - Lára V. Júlíusdóttir


Silfur dagsins

Þá er það Silfur dagsins. Gunnar Smári var kaldhæðinn að venju og sumu sem hann sagði var ég sammála, öðru ekki. Ég var aftur á móti ofboðslega hrifin af málflutningi Sigrúnar Elsu og Sveins Valfells. Þegar Sveinn sagði, eins og allir hagfræðingar og sérfræðingar í efnahagsmálum undanfarið, að virkjanir og stóriðja væri alls ekki það sem ætti að fara í nú um stundir sló mitt náttúrhjarta hraðar og Sveinn hitti mig þar í hjartastað - fyrir nú utan allt hitt sem hann sagði. Ég var ekki síður hrifin þegar í ljós kom að Sigrún Elsa átti stóran þátt í að forða orkuauðlindunum okkar frá útrásarbarónunum. Setti hana umsvifalaust á stall.

Næstur var Stefán Ólafsson sem fjallaði um "Finnsku leiðina". Mér finnst, og hefur alltaf fundist, Stefán magnaður. Hann er eldklár, hefur hjartað á réttum stað og þekkingu til að færa rök fyrir hverju einasta orði sem hann lætur út úr sér. Sáuð þið línuritið um skuldir þjóðarbúsins? Ótrúlegt. Egill birti það á blogginu sínu hér. Hlustum á Stefán - alltaf.

Hér brengla ég röðinni og tek Steingrím J. næst. Hann sagði margt sem mér líkaði vel. Kom mér á óvart. Til dæmis þetta: "Okkur er að bera af leið. Við erum að missa þessa hluti út í vitleysu. Það er verið að Ameríkanisera íslenskt samfélag á tvöföldum hraða. Við erum að hverfa frá þeim gildum sem best hafa gefist okkur, sem eru norrænt, samábyrgt velferðarsamfélag." Þetta er alveg hárrétt hjá Steingrími og það fyrsta sem mér dettur í hug er einkavæðing heilbrigðiskerfisins. Svo tek ég að sjálfsögðu undir lokaorðin hans - nema hvað!

Svo eru það hagfræðingarnir tveir, Gylfi Zoega og Jón Daníelsson. Ég legg til að fólk hlusti mjög vandlega á þá. Stoppi, spóli til baka, hlusti aftur og melti það sem þeir eru að segja. Egill minnist á grein sem þeir skrifuðu og var birt í Morgunblaðinu 27. október sl. Ég set hana inn hér fyrir neðan og kannski væri best að lesa hana fyrst og hlusta svo á þá félaga. Ég spurði Jón í dag hvort hann væri fáanlegur til að flytja heim og verða seðlabankastjóri og hann sagði ekki já - en hann sagði heldur ekki nei. Hann sagði aftur á móti ýmislegt annað.

  Gylfi Zoega og Jón Daníelsson - Mbl. 27. okt. 2008


Mótmæli og niðurstaða skoðanakönnunar

Laugardagsmótmælin verða æ fjölmennari, hvað sem talningu lögreglunnar líður, og búast má við að eftir því sem afleiðingar efnahagskreppunnar skella með meiri þunga á fólki fjölgi enn í hópi mótmælenda. Þau fara vonandi bráðum að endurspegla niðurstöður skoðanakönnunarinnar hér að neðan. Baldur McQueen sagði m.a. í athugasemd við síðustu færslu að hver einasta mannvera sem lét sjá sig þarna væri tífalt meira virði fyrir framtíð Íslands en þeir sem heima sátu. Þetta held ég að sé alveg rétt hjá Baldri.

Þeir sem mæta eru þeir, sem eru tilbúnir til að leggja eitthvað á sig til að sjá breytingar. Tilbúnir til að láta hæðast að sér fyrir að mæta, láta kalla sig ónefnum eins og tíðkast hefur að gera á Íslandi af hinum betur megandi - valdaklíkunni sem hugnast ekki að láta hrófla við auði sínum, valdi og yfirstéttarvelmegun. Tilbúnir til að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins. Þeir sem mæta eru þeir, sem gera sér grein fyrir því að alvarlegt mein hefur um árabil, jafnvel áratugaskeið, étið stjórnkerfið innan frá og feysknir innviðir þess eru nú búnir að koma þjóðinni á vonarvöl. Þeir sem mæta á laugardagsfundina er það fólk sem hefur fengið nóg af fáræði, spillingu og skoðanakúgun. Þeir sem mæta eru þeir Íslendingar, sem eru búnir að fá yfir sig nóg af stjórnvöldum og spilltu stjórnkerfi sem svífst einskis, gefur þeim fingurinn og hunsar vilja þeirra ítrekað og blygðunarlaust. Réttlætiskennd þeirra er misboðið. Þeir sem mæta á mótmælafundina ástunda gagnrýna hugsun, vilja ekki láta kúga sig lengur og þeir eru tífalt meira virði fyrir framtíð Íslands en þeir sem heima sitja.

Í Mogganum í dag eru birt úrslit skoðanakönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir blaðið dagana 27. - 29. október. 1.200 manns á aldrinum 18-75 ára voru í úrtakinu, handahófsvaldir úr viðhorfshópi Capacent Gallup og var endanlegt úrtak 1.117 manns. Svarhlutfall var 58,7% eða 656 manns. Hér eru niðurstöðurnar, sumar úrklippurnar þarf að smella á til að fá læsilega stærð:

Spurning:  Hvað af eftirtöldu lýsir best líðan þinni eftir að efnahagskreppan skall á?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008


Spurning:
  Hvað af eftirtöldum fullyrðingum á best við um atvinnuhorfur þínar á næstunni?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008


Spurning:
  Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að taka evru upp sem gjaldmiðil á Íslandi í stað íslensku krónunnar?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008


Spurning:
  Vilt þú að næstu alþingiskosningar fari fram samkvæmt áætlun árið 2011 eða vilt þú að boðað verði til kosninga fyrir þann tíma?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008


Spurning:
  Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa? - En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu? - Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008

 

Hér má sjá aldursskiptinguna.

Morgunblaðið 2. nóvember 2008

 

Hvert fer fylgi flokkanna frá síðustu kosningum?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008

 

Hér er samanburður á síðustu kosningum, Þjóðarpúlsi Gallup sem nær yfir allan október og þessari könnun Morgunblaðsins sem, eins og áður segir, fór fram dagana 27. - 29. október.

Morgunblaðið 2. nóvember 2008

 


Fjölmenn mótmæli

Enn taldi lögreglan vitlaust og enn höfðu fjölmiðlar það eftir. Í þessari frétt á mbl.is gerði viðkomandi blaðamaður sig að fífli. Fréttin er sett á vefinn kl. 14.28, en þá var gangan sem fór niður Laugaveginn ekki komin á Austurvöll. Þeir fyrstu voru að ganga inn á Austurvöll um kl. 14.35. Þar biðu heilmargir eftir göngunni og hóparnir sameinuðust. Engu að síður segir í fréttinni að mótmælendur séu "líklega í kringum eitt þúsund" og að fundurinn á Austurvelli standi yfir. Klukkan 14.28 var ennþá rúmur klukkutími þar til Sturla tók til máls þótt blaðamaður segi hann vera byrjaðan.

Svona sögðu sjónvarpsstöðvarnar tvær frá göngunni og fundinum. Þetta var önnur frétt hjá Stöð 2 og fyrsta frétt hjá RÚV.

Hér eru nokkrar myndir teknar af Berglindi Steinsdóttur og Jóhanni Þresti Pálmasyni. Á þeim sést mjög greinilega að þarna er miklu fleira fólk en fjölmiðlar nefndu og höfðu eftir lögreglunni - enn og aftur. Ég kalla eftir sjálfstæðu mati fjölmiðlamanna á fjölda. Þeir kunna örugglega betur að telja en lögreglan.

Mótmæli 1.11.08 - Berglind

Mótmæli 1.11.08 - Berglind

Mótmæli 1.11.08 - Jóhann Þröstur

Mótmæli 1.11.08 - Jóhann Þröstur

Mótmæli 1.11.08 - Jóhann Þröstur


mbl.is Samfylking með langmest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætum á útifundinn á Austurvelli í dag

MótmæliFyrir hálfum mánuði skrifaði ég þetta: "Svo horfum við á fréttir í sjónvarpinu og göpum yfir myndum sem sýna fjöldamótmæli í útlöndum þar sem þau þykja sjálfsögð. Myndum sem sýna tugþúsundir borgara þramma um götur og torg með spjöld hrópandi skoðanir sínar og vilja til að beita yfirvöld lýðræðislegum þrýstingi. Við erum ýmist full aðdáunar eða fyrirlitningar en rumskum og rísum upp við dogg þegar í ljós kemur að mótmælin í útlöndum báru árangur. Spyrjum: Af hverju gerum við aldrei neitt svona? Já, af hverju? Af hverju eru Íslendingar svona frábitnir mótmælum en fagna samt þegar einhver gerir eitthvað eins og flutningabílstjórar fyrr á árinu? Ísland á að heita frjálst þjóðfélag þar sem við megum segja skoðun okkar og mótmæla ef á okkur er brotið - en við gerum það ekki. Við kunnum ekki að meta frelsið til að mótmæla en vorkennum þeim þjóðum sem hafa það ekki."

Í dag las ég þessa frétt á Eyjunni. Þetta fólk kann ekki að skammast sín. Inga Jóna og GeirÁ meðan þúsundir eru að missa vinnuna fær forsætisráðherrafrúin, sem áreiðanlega lepur ekki dauðann úr skel og var auk þess formaður nefndar um byggingu "hátæknisjúkrahúss" síðast þegar ég vissi, þessa fínu og virðulegu stöðu. Hvaða laun ætli hún fái fyrir djobbið? Buðust engir betri eða er bara verið að hampa sér og sínum? Þetta er ósvífni. Taktleysi af verstu sort og blaut tuska framan í blæðandi þjóð. En þeim er sama, þau þurfa hvort sem er ekki að axla neina ábyrgð á gjörðum sínum og þessir þjónar þjóðarinnar eru ósnertanlegir og ráða því sjálfir hvort þeir verða reknir eður ei.

Fyrir hálfum mánuði skrifaði ég líka: "Á morgun, laugardag klukkan 15, er boðað til mótmæla á Austurvelli. Fólk er hvatt til að vera þátttakendur, ekki þolendur. Þetta eru ekki flokkspólitísk mótmæli, ekki skotgrafahernaður, ekki kommúnistar, múgur, skríll eða hyski heldur ofurvenjulegt fólk, almenningur á Íslandi að láta skoðun sína í ljós með því að mæta. Að krefjast þess að gert verði hreint í skúmaskotum rotinna innviða stjórnsýslunnar. Að krefjast þess að hagur þjóðarinnar verði tekinn fram yfir flokkshagsmuni og hagsmuni örfárra, útvalinna einstaklinga sem hafa plantað sér í dúnmjúk, vellaunuð hásæti og neita að standa upp. Að krefjast réttlætis í stað ranglætis."

Og í kvöld sá ég þetta á RÚV og Mbl.

Hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess að við trúum og treystum fólki sem hagar sér eins og það þurfi aldrei að standa þjóðinni skil á gjörðum sínum, segir ýmist ósatt eða ekki neitt og talar í kross eins og lesa má hér á Eyjunni? Lesið þennan stórfína pistil Marinós G. Njálssonar þar sem hann segir betra lýðræði í Austur-Evrópu en á Íslandi. Sláandi lestur.

Mótmæli Fyrir hálfum mánuði mættu um 2.000 manns til að mótmæla á Austurvelli og svipaður fjöldi á tvo fundi fyrir viku. Þetta er fáheyrð mæting á mótmæli á Íslandi. En lögreglan kann ekki að telja og sá bara 500 og fjölmiðlar höfðu það eftir þrátt fyrir fjölda mynda og myndbanda sem sýndu annað. Í dag, laugardag, verður aftur útifundur á Austurvelli klukkan 15. Á undan fundinum, kl. 14, stendur hópur fólks fyrir mótmælagöngu frá Hlemmi sem endar á fundinum á Austurvelli. Ræðumenn á fundinum verða Pétur Tyrfingsson og Lárus Páll Birgisson. Ávörp flytja Óskar Ástþórsson, Díana Ósk og Ragnhildur G. Guðmundsdóttir.

Ég hvet fólk til að mæta annað hvort í gönguna eða á fundinn - eða bæði í gönguna og á fundinn. Ekki láta andúð ykkar á einhverjum einstaklingum sem hafa haft sig í frammi hindra ykkur í að tjá skoðun ykkar með því að mæta. Það er allt of mikið í húfi til þess. Hörður Torfason, sem stendur fyrir fundinum, er friðarins maður og hvetur til samstöðu. Aldrei er hægt að gera öllum til hæfis eða hindra að einhverjir séu með athafnir sem fólki mislíkar. En það er auðvelt að leiða slíkt hjá sér og sýna samstöðu með því að mæta.

Hér er myndband sem Hjálmtýr V. Heiðdal, kvikmyndagerðarmaður, setti saman eftir mótmælin fyrir hálfum mánuði.


Ljós í myrkrinu

Þegar ég renndi yfir Moggann í gær sá ég ljós í myrkrinu - og það var góð tilfinning.

Þessi óskapnaður, nýjar höfuðstöðvar Glitnis, mun að líkindum ekki rísa á Kirkjusandi.

Nýjar höfuðstöðvar Glitnis við Kirkjusand

Og þessir hroðalegu kassar, nýr Landsbanki, munu ekki rísa í gamla miðbænum í Reykjavík.  Miðbær - Nýr Landsbanki Landsbankabygging-texti

 Góð ábending frá Emil í athugasemd - glerhöllin World Trade Center milli Hafnarstrætis og tónlistarhúss

WorldTradeCentre-1

WorldTradeCentre-2


Hvað þarf til að ofbjóða þjóðinni?

Mig langar að biðja þá sem líta hingað inn að lesa textann hér fyrir neðan, horfa síðan á bæði myndböndin frá upphafi til enda og spyrja sig svo: Er þetta það sem ég vil? Er þetta það stjórnarfar sem þjóðinni er fyrir bestu? Vil ég að hagsmunir stjórnmálaflokka, fámennrar klíku og nokkurra einstaklinga séu alltaf látnir ganga fyrir mínum hagsmunum og mikils meirihluta þjóðarinnar?

Víðsjá á Rás 1 - lógó

Víðsjá heitir frábær útvarpsþáttur á Rás 1 sem er á dagskrá kl. 17 alla virka daga. Þar eru oft beittustu pistlar sem ég heyri þessa dagana. Beittari og kjarnyrtari en nokkuð annað efni í útvarpi mér vitanlega. Ég ætla að vitna í hluta úr pistli sem fluttur var í Víðsjá 23. október sl.:

Þyrla"En mikið djöfull sem þetta er farið að fara illa í mann, ágætu hlustendur. Myndirnar af sumarhúsunum, vínkjallararnir, snekkjurnar, þyrlurnar... þrjúhundruð milljónir fyrir það eitt að fara á fætur. Eitt er víst. Allir eru búnir að fá nóg af upplýsingum um laun íslensku bankastjóranna, hinar siðlausu upphæðir sem ná upp í rjáfur og ríflega það - og menn þáðu vegna þess að þeir báru ábyrgð. Nú hefur komið upp úr dúrnum að þeir báru aldrei ábyrgð á öðru en rassgatinu á sjálfum sér. En við... við getum ekkert sagt við þessa menn. Þetta voru frjálsir menn á frjálsum markaði.

Annað gegnir um stjórnmálamennina. Við kusum þá, við hleyptum þeim til valda... En við stjórnmálamennina - við hljótum að geta sagt eitthvað við þá. Við ættum að minnsta kosti að geta hvatt til þess að stjórnmálaflokkar sem nú eru með öllu gjaldþrota og draghaltir, að þeir séu nú studdir út af sviðinu. Sannarlega án blóðsúthellinga en samt nokkuð rösklega.

Það snjóar og Ísland er ömurlegt klíkusamfélag. Ég held að Jón Baldvin MörgæsirHannibalsson hafi talað um það í sjónvarpinu sl. sunnudag. Ísland er Rótarýklúbbur frá helvíti. Gamlir menntskælingar halda hér hópinn betur en mörgæsir. Árás á eina þeirra jafngildir árás á þær allar. Klíkukarlarnir hittast í rúmgóðum einbýlishúsum á kvöldin og grípa í spil. Þeir kunna yfirlitin frá bönkunum utanbókar. Þeir fara fram nafni skynsemi, þeir trúa á heilann, þeir eiga Ísland og hús á nokkrum hæðum...

Þeir töldu okkur trú um að rétt væri að virkja, rétt væri að selja bankana, þeir allra hörðustu vildu selja Ríkisútvarpið. Í seinni tíð hafa þeir lesið söguna um Bjart í Sumarhúsum en lítið af henni lært. "Hvað er heimur? Þetta er heimurinn. Heimurinn, hann er hér. Sumarhús, jörðin mín, það er heimurinn. Og þó þú ætlir þér að gleypa sólina í einhverri augabragðsvitfirringu, af því þú sérð bláa peninga frá Amríku sem auðvitað eru falsaðir eins og allir miklir peningar sem berast upp í hendur einstaklingnum án hans atgerða, þá skaltu sanna það fyrr eða síðar að Sumarhús, það er heimurinn og þá veit ég að þú hugsar til minna orða."

MörgæsirNú eru gæsirnar bara óvart búnar að setja okkur á hausinn. En bara óbeint því það voru ekki beinlínis þær sem settu okkur á hausinn heldur grínistarnir. Og nú er hlegið að Íslendingum út um allan heim. Það er búið að gefa út yfirlýsingu á alþjóðavettvangi að gæsirnar séu hálfgerð flón sem skilja ekki nútíma hagkerfi. Við hefðum allt eins getað látið hunda stjórna landinu, geitur eða seli. En hvað gera Íslendingar? Já, hvað ætlið þið að gera, Íslendingar? Ætlið þið að bíða og sjá? Athuga hvort innistæðan tekur ekki við sér? Athuga hvort ekki leynist enn örlítið líf í sjóði númer 9? Athuga hvort þetta hafi ekki allt verið örugglega bara nettur gustur að utan - jafnvel bara pínulítið hressandi gustur.

Andri Snær Magnason, rithöfundur, skrifaði fræga bók með undirtitlinum "Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð". Andri hitti naglann á höfuðið og hann er einn af þeim sem á lof skilið fyrir sitt tal á undanförnum árum. Íslendingar eru logandi hræddir. En við hvað eru þeir hræddir? Jú, þeir eru hræddir við mörgæsir. Þeir óttast ekkert meira en þennan kjólfataklædda og sjóðmilda söfnuð sem stendur svo vel saman og af sér alla hríðarbylji. Þeir eru hræddir við mörgæsir.

Ísland er Rótarýklúbbur dauðans og honum er stjórnað af mörgæsum sem Mörgæsirhalda hópinn og létu sig dreyma um þægilega setustofu með leðursófasetti, koníaksglögg í glasi, málverk af Þingvöllum og stutt í næsta spilastokk og hesthús þar sem hægt er að moka skít. En hvað fengu þær? Þær fengu katastrófu. Þessar gæsir mega alveg halda áfram að standa saman mín vegna ef þær bara standa  ekki í stafni á sama tíma..."

Svo mælti Eiríkur Guðmundsson í Víðsjá í einum af sínum kjarnyrtu og beinskeyttu pistlum.

Hvað þarf til að ofbjóða þjóðinni? Hversu langt geta stjórnvöld gengið í hroka sínum og yfirlæti án þess að eitthvað bresti einhvers staðar? "Það er ekki þar með sagt að þetta sé vilji þjóðarinnar," sagði Geir eftir að 90% hennar hafði hafnað Seðlabankastjóra. Hvað er það ANNAÐ en vilji þjóðarinnar? Geir sagði líka: "Mér finnst óviðeigandi að persónugera þann vanda sem við er að fást í þeim einstaklingum sem sitja í stjórn Seðlabankans." Það má ekki kenna neinum um. Það má ekki benda á augljós mistök manna, endalaust klúður og fullkomlega óhæfa stjórnendur - hvað þá að krefjast þess að þeir taki pokann sinn og aðrir hæfari taki við. Hvað má gera? Bíða og sjá til eins og Eiríkur nefnir í pistlinum sínum? Þegja og lúta höfði í þýlyndu þakklæti eins og ég sagði í einhverjum pistli? Hvers konar framkoma er þetta eiginlega hjá þessum klíkubræðrum sem telja sig eiga Ísland með manni og mús og geta ráðskast með okkur að vild? Og þeim finnst það auk þess alveg sjálfsagt!

Ef þið hafið ekki horft á myndbandið í færslunni hér á undan skuluð þið gera það núna - áður en lengra er haldið. En horfið svo á þessi tvö hér fyrir neðan, frá upphafi til enda, og spyrjið ykkur hvort þetta sé það stjórnarfar sem þið viljið og tengið við lýðræði. Lesið svo pistlana hans Péturs Tyrfingssonar. Alla bara, það er öruggast.

Úr fréttum Stöðvar 2 - 29. október 2008

 

Úr Silfri Egils 9. mars 2008 og Tíufréttum RÚV 10. september 2008


Holdgervingar hrokans

Það er búið að segja svo margt og skrifa enn meira. Ég held að þetta myndband þarfnist ekki frekari skýringa en fólk er auðvitað velkomið að segja skoðun sína í athugasemdum.

Viðbót: Ég fékk ábendingu í tölvupósti frá bloggvinkonu í morgun um þessa tilvitnun í Hannes Hólmstein, stjórnarmann í Seðlabankanum, í Fréttablaðinu í dag. Hér kemur hroki og yfirlæti frjálshyggjupostulans vel í ljós.

Fréttablaðið 29.10.08 - Hannes Hólmsteinn

Svo ætla ég að bæta þessu myndbandi hér inn. Viðtalið við Geir mun hafa verið í mars á þessu ári.

Athugasemd sem skrifuð var við myndbandið á YouTube vakti athygli mína. Hún hljóðar svona og þarfnast varla þýðingar:

The Icelandic Prime Minister and his ministers of incomptence have bankrupted Iceland and lost hundreds of thousunds of ordinary citizens in the UK, Holland and Belgium their savings.
Why is he still running around as a Prime Minister of Iceland? There must be something wrong with the people of Iceland.
Must be some sort of Mugabe effect that keeps him and his idotic Government in power.

Leigh Hartley


Einar Már leggur sitt af mörkum

Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, hefur heldur betur látið frá sér heyra um ástandið í þjóðfélaginu, aðdraganda þess og afleiðingar, og er beinskeyttur með afbrigðum. Hér er grein eftir hann frá 16. október og viðtal við hann í Silfri Egils 19. október. Einar Már flutti ræðu á mótmælafundinum á Austurvelli sl. laugardag kl. 15 og hann var einn ræðumanna á borgarafundinum í Iðnó í gærkvöldi. Svo birtist mögnuð grein eftir hann í Morgunblaðinu í dag. Ég lýsi eftir fleiri kraftmiklum málsvörum almennings af kalíberi Einars Más.

Einar Már á borgarafundinum í Iðnó 27. október 2008 - Mbl Sjónvarp

 Frá borgarafundinum - hádegisfréttir Stöðvar 2
Pétur Blöndal er ekki í góðu sambandi við þjóðina ef hann heldur að við teljum nóg að aðeins EINN maður segi af sér!

Grein Einars Más í Morgunblaðinu 28. október 2008
(smellið þar til hún stækkar í læsilega stærð)

Moggi 28.10.08 - Einar Már Guðmundsson


Dótið frá Bjögga frænda

Halldór Baldursson þarf ekki mörg orð til að varpa ljósi á hlutina.

Halldór - Moggi 28. október 2008


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband