Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Framsýni, virðing og óábyrgt raup

Það er ekki seinna vænna að setja þennan Morgunvaktarpistil hér inn því nýr kemur á morgun. Hann var hluti af baráttunni í síðustu viku en ég steingleymdi að birta hann. Pistillinn stendur engu að síður fyrir sínu þótt fresturinn til að gera athugasemdir við Bitruvirkjun sé útrunninn. Hljóðskrá er viðfest neðst.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Tvær helstu sjálfstæðishetjur Íslendinga voru samtímamenn. Þetta voru 19. aldar mennirnir Jón Sigurðsson, kallaður forseti, og Jónas Hallgrímsson, skáld. Margar kynslóðir Íslendinga hafa alist upp við undurfögur ljóð Jónasar Jónas Hallgrímssonog frásagnir af  hvatningarorðum og skörungsskap Jóns.

Meðal þess sem einkenndi ljóð og málflutning þessara tveggja manna var framsýni, ættjarðarást og umhyggja fyrir komandi kynslóðum - okkur, meðal annars. Þeir boðuðu virðingu fyrir náttúrunni og frelsi þjóðarinnar.

Ólíkt hafast menn að nú til dags. Það er ótrúlegt að horfa upp á hamslausa frekju og yfirgang misvitra stjórnmálamanna, hagsmunaafla og þrýstihópa. Ekki hvarflar að þessum mönnum að sýna framsýni eða skynsemi gagnvart landinu og komandi kynslóðum. Eigin stundargróði er það eina sem kemst að hjá þeim þó að ljóst megi vera hverjum sem nennir að kynna sér málin, að fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir fyrir tvö álver þurrausi orkuauðlindir okkar nær algjörlega og ekkert verði eftir í aðra atvinnustarfsemi eða handa afkomendum okkar.

Ómar Ragnarsson, sá mæti baráttumaður, hefur oft sagt söguna af því þegar hann spurði - fyrir margt löngu - einn helsta ráðamann þjóðarinnar sem var illa haldinn af virkjanafíkn, hvað gerðist þegar orkan væri öll uppurin. Sá svaraði um hæl: "Það verður vandamál þeirra sem þá verða uppi." Mig hryllir við slíkum hugsunarhætti sem afhjúpar sérgæsku, fyrirhyggjuleysi og fullkomið virðingarleysi fyrir komandi kynslóðum.

Ég er alin upp við mikla ást og aðdáun á Íslandi og móðir mín þrJón Sigurðssoneyttist aldrei á að tala um hve heppin við værum að vera Íslendingar, eiga þetta dásamlega land með hreinu lofti, tæru vatni og óviðjafnanlegri náttúru. Mér var líka kennt að við ættum landið öll saman og séum samábyrg fyrir framtíð þess. Rétt eins og íbúum á landsbyggðinni kemur við hvað gert er í höfuðborginni þeirra, þá kemur mér við hvernig þeir fara með landið mitt. Svo einfalt er það.

Nú biðla ég til þjóðarinnar - eða þess hluta hennar sem lætur sér annt um náttúruna, tæra vatnið og hreina loftið - Bitruvirkjun er aftur komin á dagskrá. Sveitarfélagið Ölfus er enn með á prjónunum að breyta náttúruperlunni Ölkelduhálsi í iðnaðarsvæði. Frestur til að skila inn athugasemdum við gjörninginn rennur út á morgun, 3. október. Þið getið lesið allt um málið á bloggsíðunni minni - larahanna.blog.is - og ég hvet alla sem þykir vænt um landið sitt og vilja ekki gera Ísland að sóðalegri verksmiðju þakið háspennumöstrum, til að taka þátt í andófinu.

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur, skrifaði stórfína grein í vefritið Smuguna í gær og sagði meðal annars: "Því miður er það svo að stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands er tómt plat. Þetta eru skýjaborgir sem byggðar eru á raupi óábyrgra manna sem ógerlegt er að vita hvort eða hvað hugsa. Það er fráleitt að æða út í framkvæmdir við álver eins og gert er í Helguvík og halda að það "reddist einhvern veginn" þegar fyrirsjáanlegt er að það reddast ekki."

Stöndum með okkur sjálfum, landinu okkar og komandi kynslóðum Íslendinga.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Málefnið er...

Ja, um hvað snerist Málefnið? Icesave eða Davíð? Þátturinn á Skjá einum vakti gríðarlega athygli, svo mikla að Morgunblaðið sagði að Davíð Oddsson hefði sett skjáinn á hliðina. Ég náði a.m.k. engu sambandi við Skjáinn á meðan sýningu stóð og sá ekki þáttinn fyrr en daginn eftir.

En ætla mætti að þátturinn hafi snúist um Davíð Oddsson en ekki Icesave... sem ég held að hafi nú reyndar verið ætlun Sölva og félaga. Mikið hefur verið fjallað um persónu Davíðs eftir sýningu þáttarins, en minna um það sem þar kom fram um Icesave-samninginn. Vissulega kom Davíð inn á Icesave, en virtist búinn að gleyma ýmsu, þar á meðal eigin ábyrgð sem forsætisráðherra og síðan seðlabankastjóra. Sumum reynist erfiðara en öðrum að líta í spegil og enn aðrir virðast ekki eiga neinn spegil. Er ekki rétt að horfa aftur á þáttinn.

Fréttaskýringin um Icesave-málið

 

Davíð Oddsson

 

Árni Páll,  Bjarni Ben, Sigmundur Davíð og Steingrímur Joð

 


Heimildarmynd um Evu Joly á RÚV í kvöld

 Af vef RÚV - 3. júní 2009 


Halló, Kópavogur!

Þetta eru þónokkuð mörg árslaun. Eru ekki sveitarstjórnarkosningar að ári?

Kastljós 19. og 20. maí 2009

 

 
Fréttir Stöðvar 2 - 20. maí 2009


Síðasta Silfrið á sólríkum sumardegi

Ég er löngu búin að klippa og hlaða inn Silfrinu en hef hikað við að skrifa og birta færsluna. Átta mig ekki alveg á af hverju. Kannski af því þetta var síðasti þátEgill Helgason - Ljósm. Mbl. Kristinnturinn í bili - þangað til í haust. Kannski finnst mér einhver punktur vera settur aftan við eitthvað, að kafla í lífinu ljúki þegar ég hef komið þessu frá mér. Ég veit það ekki, en hitt veit ég - að ég á eftir að sakna Egils og Silfursins hans alveg óskaplega. Og það er einhver óhugur í mér við tilhugsunina um að Egill fari í frí með Silfrið... og jafnvel bloggið sitt líka. Það er sem mig gruni að óprúttnir aðilar sjái sér leik á borði í fjarveru hans. En sjálfsagt er það nú bara ímyndun og ég sé fram á að eiga sjálf frí á sunnudögum næstu vikur og mánuði.

Í mínum huga hefur Egill Helgason, Silfrið hans á RÚV og bloggið hans á Eyjunni gegnt gríðarlega mikilvægu lykilhlutverki frá því hrunið varð í haust. Ég er sannfærð um að flestir hugsandi Íslendingar eru sammála því - hvort sem þeir eru alltaf sammála Agli og nálgun hans eða ekki. Eða getur einhver hugsað sér liðinn vetur án Silfursins? Ekki ég. Ekki frekar en mótmælafunda Harðar Torfa á Austurvelli og Borgarafunda Gunnars og félaga í Iðnó, á Nasa og í Háskólabíói. Ef við horfum á heildarmyndina og samspil allra þessara þátta - auk frétta, Kastljóss, Íslands í gær, netmiðla og bloggs - þá sést glögglega hve miklu umfjöllun allra þessara miðla, fjölmiðlafólks, bloggara og samtakamáttur almennings hefur áorkað í vetur.

En betur má ef duga skal. Eins og kom glögglega fram í máli margra í Silfrinu í dag eru ennþá ótalmargir pottar brotnir og ástandið skelfilegt. Ég minni á greinar Ólafs Arnarsonar sem ég benti á í gær í þessari færslu og minnst er á í fyrsta kafla Silfursins - og bókina hans. Mér skilst að fljótlega sé von á annarri bók um hrunið eftir sagnfræðinginn Guðna Th. Jóhannesson.

Ég bendi líka á þennan pistil Baldurs McQueen um pólitíska ábyrgð - og skort á henni hjá íslenskum stjórnmálamönnum. Við vitum ekki einu sinni ennþá hvaða íslensku  stjórnmálamenn voru í fjárhagslegum tengslum við bankamenn og útrásarauðmenn en kjósum þá samt aftur til trúnaðarstarfa á þingi. Án þess að vita sannleikann um... ja... nokkurn hlut raunar. Það er enn svo margt óupplýst og leyndinni er vandlega viðhaldið.

Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka Agli fyrir veturinn. Þakka honum fyrir að standa vaktina svona vel. Og fyrir að fá í þáttinn til sín allt þetta frábæra fólk sem þar hefur upplýst okkur og frætt, leitt okkur ýmislegt fyrir sjónir, bent á og útskýrt, huggað og hughreyst. Takk fyrir mig.

Vettvangur dagsins 1 -  Ólafur Arnarson, Sveinn Aðalsteins, Andri Geir og Sigrún Davíðs

 

Vettvangur dagsins 2 - Lára Ómars og Eiríkur Stefáns

 

Paul Bennet

 

Jóhannes Björn

 


Sjálfsagt og velkomið

Ég er búin að fá ótal fyrirspurnir og beiðni um notkun á textanum í þessum pistli. Sumir vilja lesa þetta upp, aðrir prenta út og hengja upp á vinnustöðum eða annars staðar. Skemmst er frá að segja að fólk má nota þetta að vild, prenta út og hengja upp hvar sem því sýnist. Bara geta heimilda.

Baldur setti þetta upp í .pdf skjal strax í gær og það er viðfest hér að neðan ef fólk vill stytta sér leið og nota það. Titilinn vantar reyndar en kannski bætir Baldur úr því og þá set ég inn nýtt eintak hér. En þetta er líka fínt svona og þjónar þeim tilgangi sem ætlast er til. Nýtt .pdf skjal komið inn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aprílgabb forsætisráðherra

Ég var að grúska í gullastokknum eina ferðina enn og rakst á ummæli forsætisráðherra frá 31. mars þar sem hann sagði að nú væri botninum náð. Daginn eftir var 1. apríl og hann hélt áfram að gaspra í Kastljósi, því sama og sýnt var brot úr í fréttum RÚV í gærkvöldi. Erlendur sérfræðingur hafði sagt m.a. í fréttatímanum á undan að ríkissjóður væri of smár miðað við bankana, en því var Geir aldeilis ekki sammála! "Þetta er gagnrýni sem stundum heyrist, að bankakerfið sé orðið of stórt fyrir íslenska ríkið, en ég tel ekki að svo sé". Æ, æ, Geir. Það voru ótalmargir búnir að segja þetta og nú súpum við seyðið, meðal annars af því sem Geir neitaði að viðurkenna í aprílgabbi sínu.

Daginn eftir þetta viðtal voru Geir og Ingibjörg Sólrún að fara á NATO-fund og höfðu leigt sér einkaþotu til fararinnar. Geir réttlætir þá ákvörðun með því að tími þeirra sé svo mikils virði að það borgi sig. Hann sér enga möguleika á að nýta biðtímann eins og fólk þarf nú að gera almennt þegar það er í viðskiptaerindum erlendis. Svo er hann hálfmóðgaður við Sigmar fyrir að hnýta í þetta - það voru jú 4 sæti laus og fjölmiðlum boðið að nota þau! Þá eiga þeir ekkert að vera að gagnrýna fjáraustur hins opinbera.

Lokaorð í aprílgabbi Geirs eru þau, að þegar líður á árið og kemur fram á það næsta muni rofa til. Forsætisráðherra er greinilega ekki spámannlega vaxinn og hefur tekist, með dyggri aðstoð félaga sinna í Flokknum, ríkisstjórnar, alþingismanna, embættismanna í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti, bankamanna - að ógleymdum útrásarauðmönnum sem margir vilja gera útlæga - að koma heilli þjóð á vonarvöl með betlistaf í hendi. Þrátt fyrir það sitja allir stjórnmálamenn og embættismenn ennþá í sínum mjúku stólum og þiggja fyrirtakslaun (og svo eftirlaun) af fólkinu sem þeir sviku - en sem vill alls ekki hafa þá áfram í vinnu og heimtar afsögn þeirra. Hvað þarf til að þeir skilji kröfur almennings?

Páll Skúlason sagði í ágætu viðtali við Evu Maríu í gærkvöldi að þrátt fyrir ólíka reynslu okkar og upplifun af efnahagshruninu sé sameiginleg reynsla okkar sem Íslendinga og sem þjóðar sú, að öryggisnetið okkar, ríkið, hafi brugðist. Ríkið sá ekki til þess að grundvallarhagsmunir okkar væru tryggðir heldur hafi það verið notað sem tæki til að sundra okkur í stað þess að sameina okkur. Þetta er hárrétt hjá Páli og ég kann ríkisstjórninni litlar þakkir fyrir. En hér er aprílgabb forsætisráðherra. Ég lenti í svolitlum vandræðum með vinnsluna og verið getur að tal og mynd fari ekki alveg saman.

Ég hlakka til að sjá yfirlit sjónvarpsstöðvanna yfir fréttir ársins. Við fengum örlítið sýnishorn á RÚV.

Að lokum spillingarfréttir hjá Stöð 2. Ég man þegar millifærslumálið kom fyrst upp fyrir um 2 mánuðum. Ekkert virðist hafa gerst í því og það er að koma aftur upp núna. Ég tek undir með Ragnari í seinni fréttinni sem spyr fyrir hverja forstjóri lífeyrissjóðsins og formaður stéttarfélagsins vinna. Og hvernig getur launakostnaður lífeyrissjóðsins verið 270 milljónir á einu ári? Fram kom um daginn að forstjórinn er með vel yfir 2 milljónir í mánaðarlaun og Gunnar Páll er með 1,7 milljónir á mánuði hjá stéttarfélaginu. Lægstu taxtar VR eru um 140.000 á mánuði. Í þessa hít er fólki skylt að borga samkvæmt lögum. Hvað yrði gert við mann ef maður neitaði að borga í svona sukk? Þetta verður að taka með í reikninginn þegar stokkað verður upp á nýtt og gefið aftur í framtíðinni.


Stórmerkilegt viðtal

Nú hlýtur Samfylkingin að gera eitthvað í málinu. Ætli Össur mæti á Austurvöll kl. 15 í dag? Nógu er hann reiður. Og athyglisvert sem Geir segir að þeir Davíð hafi talað saman ótal sinnum um "þessi mál" - en samt gerðu þeir aldrei neitt.


Árni Darling og Björgvin G.

Enn og aftur stöndum við frammi fyrir spurningunni: Hver segir satt og hver lýgur? Það var fróðlegt að heyra þetta margumrædda ráðherraspjall. Darling  áhyggjufullur og ekki gat ég heyrt að svör Árna róuðu hann. Nú þyrfti einhver blaðamaður að rekja garnirnar úr Björgvin og annar (breskur?) úr Darling og bera síðan saman frásagnir af fundinum í september sem Darling vísar í. Hvað sagði Björgvin? Hverju lofaði hann og hverju lofaði hann ekki? Eða lofaði hann kannski engu?

Hér er umfjöllun Kastljóss um símtal Árna og Darling. Textann má líka lesa á Eyjunni.

Fjallað var um málið í tíufréttum RÚV í kvöld.

En mér fannst ekki síður áhugavert viðtalið við Jón Daníelsson sem kom á eftir. Hann pakkar áliti sínu ekki inn í bómull, hvað svo sem fólki finnst um skoðanir hans.


Athyglisvert endurlit

Við ættum að líta oftar um öxl og rifja upp söguna, hversu langt eða stutt aftur sem við förum. Það hefur gjarnan vantað mjög mikið upp á að við lærum af reynslunni - kannski gerum við það aldrei. Við eyðum allt of miklum tíma og orku í að karpa um aðferðafræði og áherslur í þessu örþjóðfélagi sem ætti að vera hægt að reka í sátt og samlyndi öllum til góðs.

Hér er svolítil upprifjun frá árinu 2007 þegar nokkrir "djarfhuga" Íslendingar virtust vera að kaupa heiminn - eða sigra hann - og var hampað af ýmsum. Áhugavert í ljósi stöðunnar eins og hún er nú. Þá er bara spurning hvort við lærum af þeim mistökum sem gerð hafa verið í efnahagsstjórn landsins undanfarinn áratug eða svo eða leyfum mönnum áfram að hafa frítt spil með eignir, afkomu og gjaldmiðil þjóðarinnar.

Frelsi er vandmeðfarið og getur reynst okkur öllum skeinuhætt ef menn kunna ekki með það að fara, hugsa einungis um eigin buddu og láta örlög allra hinna lönd og leið. Einhvers staðar sá ég þetta kallað að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið. Það er líklega mjög nærri sanni. 

Markaðsannáll Stöðvar 2 - 28. desember 2007


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband