Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
29.1.2009
Hlutverk fjölmiðla á óvissutímum
29.1.2009
Hvalablástur Kristjáns í Kastljósi
Hvaða skoðun sem maður hefur svosem á hvalveiðum og hinni furðulegu og umdeilanlegu reglugerð sjávarútvegsráðherra á síðustu starfsdögum sínum verður þetta efni að teljast makalaust. Mér leikur forvitni á að vita hvernig Sigmari leið... hvernig honum tókst að halda andlitinu. Kristján er verri en ruddalegasti pólitíkus og ómálefnalegri en ergilegustu sjálfstæðismenn og -konur þessa dagana... nefnum engin nöfn. Ég fann til með Sigursteini. Sennilega hefði ég bara þagað til að mótmæla svona forkastanlegum yfirgangi.
Til gamans má geta þess að í desember sl. var frétt á Vísi um að kjöt af langreyðum sem veiddar voru haustið 2006, rúmum tveimur árum áður, væri loks komið í dreifingu á markaði í Japan. Greinilega roksala í hvalkjötinu - það er bara rifið út. Eða hvað? Ég hef það alltaf á tilfinningunni að hvalveiðileyfi séu gefin út fyrir pyngju örfárra manna, en í þetta sinn bætist hefndarhugur við.
Hvað eru hinir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins að dunda sér við á lokasprettinum?
28.1.2009
Kompássprengjur í Kastljósi
Vonandi hafa sem flestir séð Kastljósið í gærkvöldi. Ef ekki þá er brotið sem ég vísa í hér fyrir neðan. En eins og allir muna var Kompás tekinn af dagskrá Stöðvar 2 sl. fimmtudag, 22. janúar og aðstandendum þáttarins sagt upp störfum um leið og Sigmundi Erni og Elínu, konu hans. Ég hef áður skorað á RÚV að ráða Sölva Tryggvason sem var látinn hætta í Íslandi í dag um áramótin. Ekkert bólar á þeirri ráðningu og ég veit ekki hvað varð um Sölva.
Enn skora ég á RÚV og nú að sýna Kompássþáttinn og jafnvel taka þættina upp á arma sína. Ef með þarf er skorað á væntanlegan menntamálaráðherra að veita fé til RÚV í þeim tilgangi einum saman - og til að efla fréttastofu og rannsóknarfréttamennsku í fréttum og Kastljósi. Ég vil sjá þennan Kompás. Ef ég ætti eintak gæti ég sýnt hann hér.
Lokaorð Kristins Hrafnssonar voru alveg hárrétt: "Maður spyr sig náttúrulega bara um ábyrgðarhlut og ábyrgðarsýn eigenda Stöðvar 2 á þjóðfélagslegt hlutverk og stöðu fjölmiðilsins inni í samfélaginu á þessum ögurstundum sem við lifum á... Að draga þarna úr fréttaþjónustu og draga úr getu Stöðvarinnar til þess að sinna gagnrýnni umfjöllun." Oft var þörf en nú er algjör nauðsyn á að efla allan hlutlausan fréttaflutning og rannsóknarblaða- og -fréttamennsku til að upplýsa þjóðina um sannleikann á bak við efnahagshrunið og kreppuna.
Því verður ekki á móti mælt að ábyrgð fjölmiðla er gríðarleg, jafnvel meiri en starfsfólk þeirra gerir sér almennilega grein fyrir. Ábyrgð þeirra er mikil undir venjulegum kringumstæðum en margföld eins og málum háttar þessa dagana, vikurnar og mánuðina. En hér er Kompás í Kastljósi.
Vísir bar blak af eigendum sínum í gærkvöldi og birti þetta klukkan rúmlega ellefu:
Gömul frétt??? Fimm daga gömul frétt um mögulegan stórþjófnað eða fjársvik og jafnvel landráð sem ekki er búið að taka á - gömul frétt?! Við megum ekki hugsa svona! Þetta er ekki gömul frétt fyrr en málið er upplýst. Og svo er þetta ekki nema hálfsannleikur. Upphæðir eru allt aðrar og margfalt lægri í frétt Stöðvar 2, ekkert er minnst á skattaskjól á bresku Jómfrúreyjum og fleira nefndi Kristinn sem fréttin tekur ekki á eins og heyra og sjá má hér í tilvitnaðri frétt:
Í viðtali seinna í Kastljósi dró Jón Daníelsson í efa að hægt væri að frysta eigur auðmanna og ná í skottið á þeim - sjá hér. Erfitt, flókið, alþjóðlegt vandamál eða eitthvað í þá áttina. Þá spyr ég, því ég er ekki í neinum vafa um að sukkið í bönkunum var ólöglegt: Til hvers er Interpol? Eins og sjá má á þessari síðu kemur Interpol víða við. Bendi sérstaklega á undirsíðurnar Corruption og Financial and high-tech crime.
Undir "Corruption" segir m.a. þetta: "INTERPOL, in partnership with the StAR Initiative, is working towards the recovery and return of stolen assets. This project allows INTERPOL to actively engage national law enforecement bodies in co-ordinated efforts to trace, seize, confiscate and return public funds to victim countries". Ég fann til undarlegrar samsömunar þegar ég las þetta. "Financial and high-tech crimes" tekur m.a. á fjárböðun (money laundering). Var ekki verið að tala um fjárböðun Rússagulls í gegnum Landsbankann á Íslandi í boði rússnesku mafíunnar? Á ekkert að rannsaka það mál?
Ísland er aðili að Interpol. Bað fráfarandi ríkisstjórn þá um aðstoð við að finna peningana okkar? Mun ríkisstjórnin sem er í burðarliðnum gera það? Eða verðum við, almenningur, að senda Interpol póst og fara fram á aðstoð. Líkast til eru þúsundir milljarða í húfi - og okkur munar heldur betur um minna.
Að lokum: Lesið þetta - og takið eftir þessu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
27.1.2009
Stjórnarskráin - fordæmi og hefðir
Mikið hefur verið rætt um stjórnarskrána okkar undanfarið, greinar túlkaðar af ýmsum spekúlöntum og sýnist sitt hverjum. En hvernig hljóðar stjórnarskráin og af hverju þarf að vera svona mikill ágreiningur um túlkun á henni? Ég get ekki séð að orðalagið sé neitt sérstaklega loðið. Og ég fæ heldur ekki skilið að þótt ekki sé fordæmi eða hefð fyrir hlutunum megi ekki brjóta þær hefðir upp eða setja ný fordæmi. Annað væri beinlínis argasta stöðnun.
Saga stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nær aftur til 1874 þegar Kristján IX rétti þjóðinni upprúllað skjal ef marka má styttuna af honum fyrir framan stjórnarráðið sem á að tákna þann atburð. Sú stjórnarskrá var um "hin sjerstaklegu málefni Íslands" innan danska konungsríkisins (sjá .pdf-skjal neðst í færslunni). Gerðar voru breytingar á henni með stjórnskipunarlögum 1903 og 1915.
Næsta stjórnarskrá er dagsett 18. maí 1920 og þá er Kristján X kominn til sögunnar, sonarsonur þess IX. Þá er hún kölluð "Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands" (sjá .pdf-skjal neðst í færslunni).
Sú stjórnarskrá sem nú er í gildi er "Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands" frá 17. júní 1944 og er hún byggð á þeim fyrri. Breytingar hafa verið gerðar á henni sjö sinnum síðan 1944, síðast 1999, en ekki ýkja stórvægilegar (sjá upprunalega mynd hennar í .pdf-skjali neðst í færslunni). Nú er mikið talað um að breyta stjórnarskránni og þá þarf fólk að vera með á hreinu hverju það vill breyta. Stjórnarskráin er orðin 65 ára gömul í grunninn og eflaust ýmislegt í henni sem ekki stenst tímans tönn. Árið 2005 var skipuð níu manna nefnd til að endurskoða stjórnarskrána, en mér vitanlega hefur ekkert komið út úr vinnu þeirrar nefndar - a.m.k. kosti engar breytingar á stjórnarskránni.
En hér er gildandi stjórnarskrá með síðari tíma breytingum eins og hún er birt á vef Alþingis. Nú þarf að fara vel yfir hana og bæta og breyta á skynsamlegan hátt - eða semja nýja.
______________________________________________________
Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands
1944 nr. 33 17. júní
Tók gildi 17. júní 1944. Breytt með l. 51/1959 (tóku gildi 20. ágúst 1959), l. 9/1968 (tóku gildi 24. apríl 1968), l. 65/1984 (tóku gildi 13. júní 1984), l. 56/1991 (tóku gildi 31. maí 1991), l. 97/1995 l.100/1995 (tóku gildi 5. júlí 1995) og l. 77/1999 (tóku gildi 1. júlí 1999).
I.
1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.
2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.
II.
3. gr. Forseti Íslands skal vera þjóðkjörinn.
4. gr. Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.
5. gr. Forseti skal kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim, er kosningarrétt hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna og mest 3000. Sá, sem flest fær atkvæði, ef fleiri en einn eru í kjöri, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, þá er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu.
Að öðru leyti skal ákveða með lögum um framboð og kjör forseta, og má þar ákveða, að tiltekin tala meðmælenda skuli vera úr landsfjórðungi hverjum í hlutfalli við kjósendatölu þar.
6. gr. Kjörtímabil forseta hefst 1. ágúst og endar 31. júlí að 4 árum liðnum. Forsetakjör fer fram í júní- eða júlímánuði það ár, er kjörtímabil endar.
7. gr. Nú deyr forseti eða lætur af störfum, áður en kjörtíma hans er lokið, og skal þá kjósa nýjan forseta til 31. júlí á fjórða ári frá kosningu.
8. gr. Nú verður sæti forseta lýðveldisins laust eða hann getur ekki gegnt störfum um sinn vegna dvalar erlendis, sjúkleika eða af öðrum ástæðum, og skulu þá forsætisráðherra, forseti ...1) Alþingis og forseti hæstaréttar fara með forsetavald. Forseti ...1) Alþingis stýrir fundum þeirra. Ef ágreiningur er þeirra í milli, ræður meiri hluti.
1)L. 56/1991, 1. gr.
9. gr. Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja.Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.
10. gr. Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.
11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.
Forseti verður ekki sóttur til refsingar, nema með samþykki Alþingis.
Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meiri hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna ...1) Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti eigi störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til er úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn.
Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga.
1)L. 56/1991, 2. gr.
12. gr. Forseti lýðveldisins hefur aðsetur í Reykjavík eða nágrenni.
13. gr. Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
Ráðuneytið hefur aðsetur í Reykjavík.
14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.
15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
16. gr. Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
17. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.
18. gr. Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.
19. gr. Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.
20. gr. Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.
Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni.
Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það.
Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.
Með lögum má undanskilja ákveðna embættismannaflokka auk embættismanna þeirra, sem taldir eru í 61. gr.
21. gr. Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.
22. gr. [Forseti lýðveldisins stefnir saman Alþingi eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar. Forsetinn setur reglulegt Alþingi ár hvert.]1)
1)L. 56/1991, 3. gr.
23. gr. Forseti lýðveldisins getur frestað fundum Alþingis tiltekinn tíma, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári. Alþingi getur þó veitt forseta samþykki til afbrigða frá þessum ákvæðum.
[Hafi Alþingi verið frestað getur forseti lýðveldisins eigi að síður kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til. Forseta er það og skylt ef ósk berst um það frá meiri hluta alþingismanna.]1)
1)L. 56/1991, 4. gr.
24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, [áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið],1) enda komi Alþingi saman eigi síðar en [tíu vikum]1) eftir, að það var rofið. [Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.]1)
1)L. 56/1991, 5. gr.
25. gr. Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.
26. gr. Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.
27. gr. Birta skal lög. Um birtingarháttu og framkvæmd laga fer að landslögum.
28. gr. Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög [er Alþingi er ekki að störfum].1) Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð [fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný].1)
[Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, falla þau úr gildi.]1)
Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið.
1)L. 56/1991, 6. gr.
29. gr. Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.
30. gr. Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.
III.
31. gr. [Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.
Kjördæmi skulu vera fæst sex en flest sjö. Mörk þeirra skulu ákveðin í lögum, en þó er heimilt að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk í Reykjavík og nágrenni.
Í hverju kjördæmi skulu vera minnst sex kjördæmissæti sem úthluta skal á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu. Fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi skal að öðru leyti ákveðinn í lögum, sbr. þó 5. mgr.
Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.
Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun. Setja skal nánari fyrirmæli um þetta í lög.
Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.]1)
1)L. 77/1999, 1. gr.
32. gr. [Alþingi starfar í einni málstofu.]1)
1)L. 56/1991, 7. gr.
33. gr. [Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Lögheimili á Íslandi, þegar kosning fer fram, er einnig skilyrði kosningarréttar, nema undantekningar frá þeirri reglu verði ákveðnar í lögum um kosningar til Alþingis.
Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í kosningalögum.]1)
1)L. 65/1984, 2. gr.
34. gr. [Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarrétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð.]1)
[Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.]2)
1)L. 65/1984, 3. gr. 2)L. 56/1991, 8. gr.
IV.
35. gr. [Reglulegt Alþingi skal koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag ef helgidagur er og stendur til jafnlengdar næsta árs hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út eða þing verið rofið.
Samkomudegi reglulegs Alþingis má breyta með lögum.]1)
1)L. 56/1991, 9. gr.
36. gr. Alþingi er friðheilagt. Enginn má raska friði þess né frelsi.
37. gr. Samkomustaður Alþingis er jafnaðarlega í Reykjavík. Þegar sérstaklega er ástatt, getur forseti lýðveldisins skipað fyrir um, að Alþingi skuli koma saman á öðrum stað á Íslandi.
38. gr. [Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar.]1)
1)L. 56/1991, 10. gr.
39. gr. [Alþingi]1) getur skipað nefndir [alþingismanna]1) til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. [Alþingi]1) getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.
1)L. 56/1991, 11. gr.
40. gr. Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.
41. gr. Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.
42. gr. Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar er það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld.
...1)
1)L. 56/1991, 12. gr.
43. gr. [Endurskoðun á fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja skal fara fram á vegum Alþingis og í umboði þess eftir nánari fyrirmælum í lögum.]1) 1)L. 100/1995, 1. gr., sbr. 2. gr. s.l.
44. gr. [Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.]1)
1)L. 56/1991, 14. gr.
45. gr. [Reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram eigi síðar en við lok kjörtímabils. Upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum.]1)
1)L. 56/1991, 15. gr.
46. gr. Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.
47. gr. Sérhver nýr þingmaður skal vinna ...1) drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild.
1)L. 56/1991, 16. gr.
48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.
...1)
1)L. 56/1991, 17. gr.
49. gr. [Meðan Alþingi er að störfum má ekki setja neinn alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða mál á móti honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.
Enginn alþingismaður verður krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.]1)
1)L. 56/1991, 18. gr.
50. gr. Nú glatar alþingismaður kjörgengi, og missir hann þá rétt þann, er þingkosningin hafði veitt honum.
51. gr. Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, og eiga þeir rétt á að taka þátt í umræðunum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa. Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins, að þeir séu jafnframt alþingismenn.
52. gr. [Alþingi kýs sér forseta og stýrir hann störfum þess.]1)
1)L. 56/1991, 19. gr.
53. gr. [Eigi getur Alþingi gert samþykkt um mál nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslu.]1)
1)L. 56/1991, 20. gr.
54. gr. [Heimilt er alþingismönnum, með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu.]1)
1)L. 56/1991, 21. gr.
55. gr. [Eigi má Alþingi taka við neinu málefni nema einhver þingmanna eða ráðherra flytji það.]1)
1)L. 56/1991, 22. gr.
56. gr. [Þyki Alþingi ekki ástæða til að gera aðra ályktun um eitthvert mál getur það vísað því til ráðherra.]1)
1)L. 56/1991, 23. gr.
57. gr. Fundir ...1) Alþingis skulu haldnir í heyranda hljóði. Þó getur forseti eða svo margir þingmenn, sem til er tekið í þingsköpum, krafist, að öllum utanþingsmönnum sé vísað burt, og sker þá þingfundur úr, hvort ræða skuli málið í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum.
1)L. 56/1991, 24. gr.
58. gr. [Þingsköp Alþingis skulu sett með lögum.]1)
1)L. 56/1991, 25. gr.
V.
59. gr. Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum.
60. gr. Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þó getur enginn, sem um þau leitar úrskurðar, komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms.
61. gr. Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Þeim dómendum, sem ekki hafa að auk umboðsstörf á hendi, verður ekki vikið úr embætti nema með dómi, og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra, nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana. [Þó má veita þeim dómara, sem orðinn er fullra 65 ára gamall, lausn frá embætti, en hæstaréttardómarar skulu eigi missa neins í af launum sínum.]1)
1)L. 56/1991, 26. gr.
VI.
62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.
63. gr. [Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.]1)
1)L. 97/1995, 1. gr.
64. gr. [Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.
Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.
Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.]1)
1)L. 97/1995, 2. gr.
VII.
65. gr. [Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.]1)
1)L. 97/1995, 3. gr.
66. gr. [Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti. Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki. Útlendingi verður aðeins veittur íslenskur ríkisborgararéttur samkvæmt lögum.
Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.
Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómara. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.
Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.]1)
1)L. 97/1995, 4. gr.
67. gr. [Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.
Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.
Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem þyngri refsing liggur við en fésekt eða varðhald. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur, en telji dómari fært að láta hann lausan gegn tryggingu skal ákveða í dómsúrskurði hver hún eigi að vera.
Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.
Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.]1)
1)L. 97/1995, 5. gr.
68. gr. [Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.]1)
1)L. 97/1995, 6. gr.
69. gr. [Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað.
Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.]1)
1)L. 97/1995, 7. gr.
70. gr. [Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila.
Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.]1)
1)L. 97/1995, 8. gr.
71. gr. [Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.]1)
1)L. 97/1995, 9. gr.
72. gr. [Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.]1)
1)L. 97/1995, 10. gr.
73. gr. [Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.]1)
1)L. 97/1995, 11. gr.
74. gr. [Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.
Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.
Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.]1)
1)L. 97/1995, 12. gr.
75. gr. [Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.
Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.]1)
1)L. 97/1995, 13. gr.
76. gr. [Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.
Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.
Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.]1)
1)L. 97/1995, 14. gr.
77. gr. [Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.]1)
1)L. 97/1995, 15. gr.
78. gr. [Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.
Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.]1)
1)L. 97/1995, 16. gr.
79. gr. Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki ...1) skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki [Alþingi]1) ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.
1)L. 56/1991, 27. gr.
80. gr. ...
81. gr. Stjórnskipunarlög þessi öðlast gildi, þegar Alþingi gerir um það ályktun, enda hafi meiri hluti allra kosningarbærra manna í landinu með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt þau.1)
1)Sbr. þingsályktun um gildistöku stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33 16. júní 1944, og yfirlýsingu forseta sameinaðs Alþingis um gildistöku stjórnarskrárinnar, nr. 33 17. júní 1944. Sbr. og þingsályktun um niðurfelling dansk-íslenska sambandslagasamningsins frá 1918, nr. 32 16. júní 1944.
Ákvæði um stundarsakir.
Er stjórnarskrá þessi hefur öðlast gildi, kýs sameinað Alþingi forseta Íslands fyrsta sinni eftir reglum um kjör forseta sameinaðs Alþingis, og nær kjörtímabil hans til 31. júlí 1945.
Þeir erlendir ríkisborgarar, sem öðlast hafa kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis eða embættisgengi, áður en stjórnskipunarlög þessi koma til framkvæmda, skulu halda þeim réttindum. Danskir ríkisborgarar, sem téð réttindi hefðu öðlast samkvæmt 75. gr. stjórnarskrár 18. maí 1920, að óbreyttum lögum, frá gildistökudegi stjórnarskipunarlaga þessara og þar til 6 mánuðum eftir að samningar um rétt danskra ríkisborgara á Íslandi geta hafist, skulu og fá þessi réttindi og halda þeim.
[Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 31. gr. nægir samþykki einfalds meiri hluta atkvæða á Alþingi til að breyta lögum um kosningar til Alþingis til samræmis við stjórnarskipunarlög þessi eftir að þau taka gildi. Þegar sú breyting hefur verið gerð fellur ákvæði þetta úr gildi.]1)
1)L. 77/1999, 2. gr. (tóku gildi 5. júlí 1995),
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
26.1.2009
Sagan hans Ara Matt í Silfrinu
Ég heyrði þessa sögu og fleiri slíkar fyrir þó nokkru síðan. Fundurinn sem Ari sagði frá er langt í frá sá eini sem haldinn var og sumir hafa kallað fundina námskeið því á þeim var mönnum kennt að flytja stórar fjárhæðir úr landi og fela þær. Hve mörg hundruð eða þúsund milljarðar af kvótapeningum t.d. ætli séu faldar í skattaparadísum? Og sjávarútvegurinn þó veðsettur í topp, sem svara margra ára afla, og bankarnir að afskrifa skuldirnar - sem þýðir að skattborgararnir borga brúsann á meðan milljarðamæringarnir halda öllu sínu skattlaust. Sanngjarnt?
Þetta á langt í frá aðeins við sjávarútveginn og kvótapeningana eins og við vitum. Skemmst er að minnast dularfullra millifærslna úr bönkunum korteri fyrir hrun og undarlegra hlutabréfakaupa fursta frá Austurlöndum. Vitað er að þúsundir milljarða af eigum þjóðarinnar eru faldar á leynireikningum einstaklinga og skúffufyrirtækja erlendis. Kannski nógu mikið til að borga skuldirnar sem þessir menn skildu okkur eftir með. Ég legg til að framtíðarstjórnendur landsins beiti öllu því valdi sem unnt er til að ná í þessa peninga - hverja einustu krónu, hvern einasta dollara, hverja einustu evru, jen, franka eða í hvaða mynt sem er. Þetta eru okkar peningar sem var stolið af okkur og það á að endurheimta þá.
25.1.2009
Fréttir og Silfur dagsins
Stórfréttir dynja á okkur svo ört að maður hefur ekki við að fylgjast með og skrásetja. Báðar sjónvarpsstöðvarnar með aukafréttatíma í hádeginu og svo Silfrið í beinu framhaldi. Nú bíðum við kvöldfrétta og viljum meira því þetta er ekki nóg - rétt blábyrjunin. Seðlabankinn, sem hélt árshátíð í gærkvöldi (á okkar kostnað?) hlýtur að fylgja í kjölfarið. Og ég skil ekki af hverju á að hafa Jónas Fr. til 1. mars í FME. Veit það einhver? En hér eru atburðir dagsins.
Fréttir Stöðvar 2 klukkan 12
Fréttir RÚV klukkan 12 (vantar aftan á netútgáfuna)
Silfrið
Vettvangur dagsins 1 - Benedikt, Pétur, Ari og Jónína
Vettvangur dagsins 2 - Einar Steingrímsson og Friðrik Erlingsson
Gylfi Magnússon
Herdís Þorgeirsdóttir
Vilhjálmur Bjarnason (halaklipptur - RÚV lagar vonandi)
25.1.2009
Enn öflugri mótmæli
Líklega er rétt að þetta hafi verið fjölmennasti mótmælafundurinn til þessa og stemmningin ólýsanleg. Lögreglan segir 7.000, ég og fleiri giskuðum á 8-10.000. Þessi gríðarlega góða mæting sýnir að fólk hefur ekki látið blekkjast af óljósu loforði um kosningar í maí. Enginn hefur verið látinn axla ábyrgð og allir skúrkarnir sitja sem fastast. Spillingin er í algleymingi og því mótmælum við öll! Hvað ætli mæti margir næst?
Ræðumenn voru mjög góðir. Fyrstur var Magnús Björn Ólafsson með kraftmikla ræðu sem ég býst við að verði birt hér. Næst var Hildur Helga Sigurðardóttir húmoristi með meiru og hún er búin að birta ræðuna sína á blogginu - hér. Því næst flutti Jakobína Ólafsdóttir stutt ávarp sem hún birtir á blogginu sínu hér. Lestina rak síðan Guðmundur Andri Thorsson og ég ætla að stelast til að birta frábæru ræðuna hans sem ég fann á Eyjunni.
Ræða Guðmundar Andra á Austurvelli 24. janúar 2008
Við komum úr ólíkum áttum þjóðlífsins og eigum kannski ekki margt sameiginlegt og þurfum ekkert að eiga það en við sameinumst í takti. Við sameinumst í tilfinningu. Við sameinumst í æðaslætti. Við erum stödd hér á guði og gaddinum - atvinnulaust fólk sem veit ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér, háskólafólk sem horfir á grundvöll allra gilda gliðna, iðnaðarmenn sem fá ekki notið sinna handa, anarkistar, sósíalistar, markaðshyggjumenn, listamenn og vörubílstjórar, sjómenn, læknar, blaðamenn og kennarar, bálreiðar ömmur og hugstola afar, krakkar, mömmur, pabbar - fólk - fólk þar sem hver og einn kemur úr sinni átt þjóðlífsins og finnur hjarta sitt slá um stund hér á guði og gaddinum í takti við hjörtu samborgaranna í æðaslætti þúsundanna. Við erum þjóðin. Og við finnum til með ráðherrunum sem ganga í gegnum þrautir í lífi sínu, kvöl þeirra snertir okkur og við óskum þess að þeir beri gæfu til þess að sleppa takinu á valdataumunum. Við sendum þeim góða strauma og góðar óskir um góðan bata og óskum þess af öllu hjarta að þau átti sig á því að nú þurfa aðrir að stjórna landinu.
Við sameinumst í takti - í búsáhaldabúgganum sem er einfaldur og margslunginn í senn. Það var hér á Austurvelli sem þjóðin fann taktinn. Og takturinn kom úr eldhúsunum, eins og allt sem er gott og nærandi og grundvallandi. Þegar allt var komið í hönk gáði fólkið í eldhússkápana til að sjá hvað væri nú eiginlega til - og töfraði fram þennan takt út úr pottum sínum og pönnum. Hann er fjölbreyttur og tjáningarríkur - hann tjáir flóknar tilfinningar sem flæða um okkur í þessari martröð.
Hann tjáir fyrirlitningu okkar á þeim sem í því ofdrambi sem bara þekkingarleysið og heimskan geta skapað með samstilltu átaki hjá þeim sem fóru um Evrópu á einhvers konar blindafylleríi með okkar góða nafn og drógu það í svaðið með kaupæði á rekstri sem þeir höfðu ekki hundsvit á svo að nafn Íslands er nú tengt við græðgi og hálfvitagang og viðvaningslega glæpi.
Þessi taktur tjáir reiði okkar í garð þeirra stjórnvalda sem stóðu eins og stoltir foreldrar og fylgdust með þessu smánarlega fjöreggjakasti og neituðu að grípa inn í út af löngu afsönnuðum hagfræðikreddum um að réttlætið sé alltaf rangt, og ranglætið sé alltaf rétt.
Þessi taktur tjáir sorg okkar yfir áföllunum sem dynja yfir heimilin, samlíðan okkar og löngun til að takast í hendur hér á guði og gaddinum, hjálpast að, taka til, henda út drasli, rækta, byggja upp.
Því þessi taktur sem verður til þegar lamið er í potta og pönnur með sleifum og skeiðum tjáir ekki bara reiði okkar, örvæntingu og sorg, og hrópið Vanhæf ríkisstjórn! tjáir ekki bara niðurrif og andstyggð yfir því ábyrgðarleysi taktlausra valdhafa að sitja og sitja og sitja - og láta sitja og sitja og sitja þá sem ekki gátu og ekki kunnu - og ekki geta og ekki kunna - og munu ekki geta og munu ekki kunna - í þessum takti og í þessu hrópi er ekki bara reiði, örvænting, beiskja og sorg heldur hvatning. Þar er er ekki bara nei heldur líka já. Þar er ekki bara höfnun heldur líka von.
Lengi höfum við skimað eftir andlitum hrunsins. Við höfum horft á vanhæfa ríkisstjórn sem nú er senn á förum. Við höfum horft á Seðlabankann þar sem enn situr... og situr... og situr... og situr sjálfur höfundur íslenska efnhagsundursins og glundursins, Davíð Oddsson og hefur sér til fulltingis og eftirlits bankaráð þar sem situr sjálfur talsmaður íslenska efnahagsundursins, sjálfur grillpinni íslensku útrásarinnar. Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Við höfum reynt að horfa á Fjármálaeftirlitið en komum aldrei auga á það. Við höfum horft á hina svokölluðu auðmenn sem á daginn kom að áttu aldrei rassgat heldur smugu um innviði íslensks samfélags eins og veggjatítlur - og átu þá.
Gagntekin og hálflömuð höfum við mænt á ásjónur valdsins og vanhæfninnar og enn um hríð munum við þurfa að horfa á sum þeirra sem neita að standa upp og greiða þannig fyrir endurreisn Íslands. En aðeins um hríð. Við erum ekki bara þessir fáu einstaklingar sem halda dauðahaldi í sína stóla. Það eru hérna þrjú hundruð þúsund manns! Landið er fagurt og frítt og gjöfult og við rétt að fara að læra á það. Við eigum fullt af auðlindum og hugviti, eitthvað svolítið af menningarverðmætum sem enn hafa ekki verið étin upp af veggjatítlum auðvaldsins... við eigum menntun, áræði, sköpunarkraft - og hvert annað. Þegar ásjónur hrunsins hafa farið sinn óhjákvæmilega veg, vonandi fyrr en síðar, þá þurfum við að beina sjónum okkar að því að finna andlit vonarinnar. Þau andlit finnum við með því að horfast í augu við okkur sjálf, horfa hvert á annað - hlusta á taktinn, renna inn í tilfinninguna, skynja æðasláttinn og orku þúsundanna, við erum þjóðin - við erum vonin.
Ég má til með að segja ykkur svolitla sögu. Ég á heima alveg við miðbæinn. Um helgar fer um götuna góðglatt fólk á leið á djammið (og heim aftur undir morgun) og eins og allir vita finnst Íslendingum gaman að syngja þegar þeir eru komnir í glas. Venjulega eru kyrjaðir drykkjusöngvar ýmiss konar, slagarar, dægurlög og fleira þvíumlíkt. Hópur fólks gekk niður götuna um eittleytið í nótt og söng við raust. En það var enginn slagari - það var þjóðsöngur Íslendinga, sá hinn ósyngjanlegi. Þau sungu hann samt á leið á djammið. Þetta hef ég aldrei heyrt áður og gat ekki á mér setið að fara út í eldhúsglugga og horfa brosandi á þau hverfa syngjandi niður götuna.
En hér eru svo sjónvarpsfréttir kvöldsins um mótmælin sem haldin voru víða um land og umfjöllun um nýtt lýðveldi - og nýtt framboð.
Stöð 2 - 24. janúar 2009
RÚV - 24. janúar 2009
Og nokkrar myndir af Austurvelli í gær
22.1.2009
Ísland í gær
Enn var ég að grufla í fortíðinni, þó ekki nema nokkra mánuði aftur í tímann og margir hafa eflaust gleymt ýmsu sem hér kemur fram. Rifjum aðeins upp með aðstoð og í minningu Íslands í dag - eins og þátturinn var.
Þann 12. mars 2008 var lóð á Arnarnesi auglýst til sölu á tilboðsverði, aðeins 500.000.000 - fimmhundruð milljónir. Fasteignasalinn segir þetta tilvalið tækifæri fyrir "fjárhagslega frjálsa" einstaklinga og átti líkast til við auðjöfrana sem rændu þjóðina. Ætli lóðin hafi selst? Auglýsinguna sjálfa má sjá hér.
Pétur Blöndal, alþingismaður, tjáði sig um efnahagshorfurnar 13. mars 2008. Það var skrýtið að hlusta á Pétur sem var ekki beint spámannlegur í viðtalinu.
Hér er stórmerkileg umfjöllun og viðtal við fréttamann BBC, Stephen Evans, frá 7. apríl 2008. Fréttamaðurinn kom til landsins til að taka viðtal við Geir Haarde, forsætisráðherra, en þeir hafa gjörólíka sýn á málin, fréttamaðurinn og forsætisráðherrann.
Sölvi tók viðtal við Geir Haarde 29. apríl 2008. Það er stórfurðulegt að hlusta á Geir. Þetta er nákvæmlega fimm mánuðum áður en Glitnir var yfirtekinn.
"Bankarnir hagnast í kreppu" var yfirskrift þessa dagskrárliðar 7. maí 2008. Hér er talað við fulltrúa greiningardeilda tveggja banka, Glitnis og Kaupþings. Það er mjög athyglisvert að hlusta á þá í ljósi allra þeirra upplýsinga sem síðan hafa komið fram. Einhver kallaði greiningardeildir bankanna siðlausar auglýsingastofur þegar í ljós kom hvernig þær störfuðu.
Sá gjörningur sem hér er fjallað um, 19. maí 2008, kölluðu einhverjir "Mestu peningagjöf Íslandssögunnar" á þeim tíma. Þá voru felldir niður skattar á sölu hlutabréfa frá 2006 sem hefðu skilað ríkissjóði 60-80 milljörðum. Vinargreiði? Maður spyr sig. Ætli það hefði ekki verið hægt að nota það fé til góðra hluta, t.d. í heilbrigðiskerfinu? Árni Mathiesen réttlætir gjörninginn, Pétur Blöndal og Steingrímur J. ræða málið.
Að lokum er hér viðtal við Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í tilefni af eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar sem nú, 8 mánuðum seinna, er komin af fótum fram og deyr væntanlega drottni sínum einhvern næstu daga. Þetta er 26. maí 2008.
19.1.2009
Valdamenn landsins - Ómissandi fólk
18.1.2009
Silfur dagsins og Kryddlegin Baugshjörtu
Silfur dagsins olli ekki vonbrigðum frekar en venjulega. Stútfullt af flottu, málefnalegu fólki auk eins ráðherra. Aðeins einn Vettvangur dagsins að þessu sinni og af einhverjum ástæðum var Robert Wade ekki í þættinum eins og kynnt hafði verið heldur Anne Sibert, sú sem gerði skýrsluna með Willem Buiter. Vonandi tekur Egill upp viðtal við Wade áður en hann fer af landi brott - ef hann hefur ekki gert það nú þegar. En lítum á Silfrið (ég klippti Framsóknarinnslagið í lok þáttarins út, enda ekkert merkilegt þar.)
Í leiðinni bendi ég á magnaða grein Einars Más Guðmundssonar sem birtist í Morgunblaðinu í dag og Einar Már kallar Kryddlegin Baugshjörtu. Greinina má lesa í heild sinni hér (smella þar til læsileg stærð fæst).
Vettvangur dagsins - Egill Jóhannsson, Ingólfur Arnarson og Fjalar Sigurðarson
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra
Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki - hlustið vandlega á Jón
Áður en hlustað og horft er á Willem Buiter og Anne Sibert er vert að rifja aðeins upp skýrslumálið alræmda. Flett var ofan af því reginhneyksli í fréttum RÚV 14. október sl. Ég trompaðist og hélt mikinn reiðilestur á blogginu sem einhverjir muna eflaust eftir og birti fréttina. Svo reið var ég að ég tvítók hana í sama myndbandinu til að árétta alvarleika málsins. Það er með hreinum ólíkindum að liðnir séu þrír mánuðir síðan ég skrifaði þennan pistil. Ekkert - og ég meina EKKERT - hefur verið gert. Við virðumst vera í nákvæmlega sömu sporum nú og þá. Ótrúlegt. Skýrsla þeirra Buiters og Sibert er viðhengd neðst í færslunni.
En hér eru þau Willem Buiter og Anne Sibert í Silfrinu - Egill boðaði að viðtalið yrði textað í endursýningu í kvöld og ef þátturinn verður aðgengilegur á Netinu í endursýningu, sem endursýnt efni er yfirleitt ekki, set ég inn textaða útgáfu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)